Endurskoðun hjúalaga

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:35:53 (356)

1998-10-14 14:35:53# 123. lþ. 10.8 fundur 48. mál: #A endurskoðun hjúalaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. um endurskoðun hjúalaga en þau eru enn í gildi, hjúalög frá 1928, og hafa að geyma mörg afskaplega athyglisverð ákvæði en það er svona íhugunarefni hversu mikið erindi þau eiga við samtíð landsmanna.

Þessi hjúalög fjalla um, eins og það heitir, vistarráð þeirra hjúa, sem ekki hafa náð 21 árs aldri. Ástæðan til þess að ég spurði um þessi hjúalög var fyrst og fremst sú að fyrir nokkru leitaði til mín ungur maður, innan við 21 árs aldur, sem hafði rokið út af vinnustað sínum í fússi í ósætti við yfirmann sinn og yfirstjórn fyrirtækisins tók þá ákvörðun að halda eftir helmingi þeirra launa sem hann hafði sannanlega unnið sér inn. Ég fór að velta því fyrir mér hvernig þetta geti verið. Niðurstaðan var þá sú, að því er mér var sagt, að þetta væri gert á grundvelli hjúalaga og það var vitnað í tilteknar greinar í þeim efnum. Það er tilefni þess að ég fór að lesa þessi ótrúlegu lög sem innihalda ákvæði eins og t.d. þetta í 4. gr., með leyfi forseta:

,,Sanni ógift vinnukona, að hún ætli að giftast áður en vistartíminn er á enda, getur hún sagt upp vistinni til næsta skildaga með mánaðar fyrirvara.``

En hún þarf að sanna það að hún ætli að giftast.

Í 5. gr. er þetta ákvæði, með leyfi forseta:

,,Vistráðið árshjú sitt skal húsbóndi, nema öðruvísi sé um samið, láta sækja í ákveðinn tíma og farangur þess, er ekki nemi meiru en 100 kg þunga. Kostar húsbóndi flutning þennan án endurgjalds frá hjúinu.``

Síðan segir hér í 7. gr., í þessum makalausu lögum, með leyfi forseta:

,,Húsbóndi skal veita hjúi sínu viðunanlegt og nægilegt fæði, svo og rúmfatnað, ef hjú sefur á heimili húsbónda síns, og aðra aðhlynningu eftir því, sem venja er til í hverri sveit eða bæ hjúum að veita auk kaups. Ekki er`` --- og það er mikilvægt atriði, herra forseti, --- ,,hjúi skylt að sofa í rúmi með öðrum. Það [hjúið] á rétt til að fá hreinar rekkjuvoðir eða lök í rúm sitt einu sinni á mánaðarfresti og hreint handklæði einu sinni á viku.``

Tilefni er sem sagt til þess að spyrja um það hvort hæstv. félmrh. hefur látið sér til hugar koma að endurskoða þessi lög og hvernig hann hyggst standa að því.