Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 11:45:56 (414)

1998-10-15 11:45:56# 123. lþ. 11.4 fundur 59#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[11:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir skýr svör og ég fagna því sem fram kom í máli hans að hann tekur undir þá skoðun mína að eðlilegt sé að skoða hvort þingmenn geti einhvern veginn átt beinan aðgang að Ríkisendurskoðun. Ég fagna því mjög að hv. þm. og hæstv. forseti þingsins skuli hafa þessa skoðun.

Ég vil líka spyrja hv. þm. og hæstv. forseta um þá beiðni þingflokks jafnaðarmanna um endurskoðun á bönkunum frá því í mars sem ég nefndi. Auðvitað er hennar ekki getið í þessari skýrslu. Það gefur auga leið. En ég vil spyrja hvort hæstv. forseti hafi einhverja vitneskju um hvort sú endurskoðun sé hafin. Það skiptir máli að vita hvort hún er hafin. Við gerum okkur grein fyrir að hún tekur nokkurn tíma. Og þegar nefnt var útboð, t.d. vegna bankanna, er það þá vegna beiðni okkar í þingflokki jafnaðarmanna? Liggur nokkur vitneskja fyrir um þetta og þá hugsanlega hvenær henni lýkur?

Ég vona það í lengstu lög, eins og ég veit að hæstv. forseti gerir, að góð og breið samstaða náist um heildarendurskoðun á þingskapalögunum. Á ýmsu þarf þar að taka og auðvitað er ágreiningur um einstaka atriði eins og þingnefndir en það verður þá að útkljást á lýðræðislegan hátt í atkvæðagreiðslu í þinginu.