Viðbrögð Alþingis við dómi Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 13:43:35 (1676)

1998-12-07 13:43:35# 123. lþ. 34.95 fundur 144#B viðbrögð Alþingis við dómi Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[13:43]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt að dómur Hæstaréttar sem féll í síðustu viku varðandi fiskveiðistjórnarmálin séu einhver stærstu tíðindi sem orðið hafa í íslenskum stjórnmálum um langt árabil, jafnvel um áratuga skeið. Ég hygg að þess séu engin dæmi að Hæstiréttur hafi fyrr með jafnafgerandi hætti blandað sér í pólitíska umræðu eins og hann gerir raunverulega með þessum dómi.

Það er einnig mjög athyglisvert, herra forseti, að viðbrögð ráðherranna í því máli hafa verið mjög sérkennileg. Til dæmis hafa þeir ráðist að Hæstarétti og hæstaréttardómurum og jafnvel hótað að breyta stjórnarskránni til þess í raun og veru að koma til móts við þá niðurstöðu sem Hæstiréttur birtir.

Það er augljóst mál, herra forseti, að þetta stóra mál verður ekki leyst með minni háttar breytingum á 5. gr. fiskveiðistjórnarlaganna. Bersýnilega verður að taka á þessu máli í heild, bæði að því er varðar fiskveiðistjórnina og líka undirstöðuþætti stjórnskipunarinnar að mínu viti. Ég vil, herra forseti, nota þetta tækifæri til að láta það koma fram að ég tel eðlilegt að Alþingi kjósi sérnefnd, sérstaka nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að gera tillögur um hvernig best verður brugðist við þeim dómi sem núna liggur fyrir að því er varðar bæði lög landsins og stjórnarskrá ef menn telja ástæðu til, en eins og kunnugt er er starfandi sérstök stjórnarskrárnefnd sem fjallar um kosningalögin en auðvitað mætti hugsa sér að sérstök nefnd fengi engu að síður þessi mál til meðferðar.

Ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, til að láta þá skoðun mína í ljós að ég tel að Alþingi geti ekki verið þekkt fyrir að gera ekkert í málinu. Ég tel að Alþingi eigi sjálft að hafa frumkvæði að því og ég tel að Alþingi eigi ekki að bíða eftir því að ráðherrunum þóknist að koma hingað með tillögur. Engu að síður tel ég rétt að þeim sé gefinn kostur á að skýra frá því hvaða hugmyndir ríkisstjórnin er með í þessum efnum og vil nota þetta tækifæri til að inna eftir því ef einhverjar upplýsingar er um það að hafa hvort sjútvrh. eða ríkisstjórnin hafa eitthvað á prjónunum sem snertir þetta mál og gæti komið inn næstu daga.