Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 11:23:52 (2167)

1998-12-12 11:23:52# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[11:23]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni fyrir þetta andsvar. Við erum alveg sammála um það en vandinn verður hins vegar að skapa samstöðu um leið sem verði til þess að fólk á landsbyggðinni festi trú á að eitthvað eigi að gerast. Það þurfa að vera víðtækar aðgerðir og ekki allar á okkar færi í sjálfu sér. Þá er ég t.d. líka að hugsa um fiskveiðistefnuna. Hún skiptir ansi miklu máli. Ég geri ráð fyrir að stefnan í málefnum smærri fiskibáta skipti miklu máli í þessu sambandi. Allt skiptir máli og því finnst mér það góð hugmynd að alltaf verði reynt að meta aðgerðir fyrir fram, hverjar svo sem þær eru, út frá byggðaforsendum.

Mikilvægt er að Reykjavíkurborg hefur loks sett í gang athugun á því hvað þessi uppbygging sem verður að eiga sér stað vegna byggðakvótans kostar. Þannig verður fólk að horfast í augu við vandann. Þó verja þurfi nokkrum fjármunum úr ríkissjóði í byggðaaðgerðir þá eru það fjármunir sem borga sig fyrir þjóðarbúið í heild. Forsenda þess er að við setjum peningana í verkefni á réttum stöðum þannig að þeir skili árangri.