Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 23:48:56 (2390)

1998-12-15 23:48:56# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, KH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[23:48]

Kristín Halldórsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta fer nú að verða spurning um vinnulöggjöfina og hvíldartíma manna ef svona verður haldið áfram nema öðru máli gegni um þingmenn, þeir séu ekki merkilegri persónur en það að þeir geti setið og staðið fram á nótt og rætt málin, jafnvel kvöld eftir kvöld og nótt eftir nótt.

Ég minnist þess þegar það mál sem hér hefur verið til umræðu í allan dag var til 2. umr. var einmitt um þetta leyti verið að spyrjast fyrir um hvenær fundi ætti að ljúka og þá sagði sá forseti sem sat í forsetastóli að ekki væri meiningin að fara djúpt inn í nóttina og það var endurtekið, þetta orðalag að ekki ætti að fara djúpt inn í nóttina. Það reyndist verða svo djúpt að kominn var morgunn þegar þeim fundi lauk þannig að ég held að við ættum að taka okkur saman og reyna að komast að einhverju samkomulagi þó að ekkert samkomulag sé um þinghaldið eins og hér hefur margsinnis komið fram. Það væri alltént hægt að gera samkomulag um lok þess fundar sem nú stendur. Þess vegna vil ég eindregið taka undir þær óskir sem hér hafa komið fram að fundinum verði lokið nú í kvöld þar sem mjög margir eru á mælendaskrá og augljóst að ekki er hægt að ljúka þessari umræðu núna og að við munum taka til við að ræða málið aftur á venjulegum fundartíma á morgun.