Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 11:29:04 (2568)

1998-12-18 11:29:04# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[11:29]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Rétt er að minna á að á undanförnum þremur árum hefur veiðiréttur krókabátanna verið aukinn um 60%. Það hefur skipt mjög miklu máli. Eftir dóm Hæstaréttar er aðstaðan sú að aðgangurinn er frjáls inn í veiðikerfi þeirra. Eftir því sem bátum í veiðikerfinu fjölgar þá minnkar hlutur hvers og eins. Það endar með því að enginn getur haft lífsviðurværi af þeirri atvinnugrein. Þess vegna er ekki hægt að bregðast öðruvísi við en að einstaklingsbinda atvinnuréttindi hvers og eins. Það er ekki hægt að gera það öðruvísi.

Hér kemur formaður Alþfl. aftur og aftur og segir að það megi ekki gera. Það má ekki gera samkvæmt kenningu jafnaðarmanna. Með því telja þeir að verið sé að verja forréttindi hinna fáu. Kenning forustumanna jafnaðarmanna er að ef verja eigi einstaklingsbundin atvinnuréttindi trillukarla þá sé verið að verja forréttindi hinna fáu. Ég lýsi enn og aftur eftir svörum við því: Hvernig ætlar formaður Alþfl. að bregðast við ef ekki með þessum hætti?