Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 2  —  2. mál.




Þjóðhagsáætlun



fyrir árið 1999.

(Lögð fram af forsætisráðherra 1. október 1998.)



I. INNGANGUR OG YFIRLIT UM HELSTU NIÐURSTÖÐUR


    Mikill uppgangur er í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir. Allt útlit er fyrir að hag­vöxtur áranna 1996–98 verði 5% að jafnaði, sem er langt umfram það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur jafnan saman við. Þessi vöxtur hefur að miklu leyti byggst á mikilli aukningu fjárfestingar og einkaneyslu. Hann á sér hins vegar forsendur í hagstæðum ytri skilyrðum þjóðarbúsins, miklum fjárfestingum í orkufrekum iðnaði og eflaust eru einnig að skila sér skipulagsumbætur og stöðugleiki undangenginna ára, því framleiðni hefur aukist hratt og gert þennan vöxt mögulegan.
    Horfur eru á mun hægari vexti þjóðarútgjalda á næsta ári því nú sér fyrir endann á stórum verkefnum á sviði stóriðju og samgangna. Mikil aukning útflutnings sér þó til þess að hagvöxtur verður áfram kröftugur á næsta ári, eða um 41/ 2%. Þessi útflutningsaukning byggist á varanlegum grunni því hún kemur að mestu til vegna aukningar í útflutningi sjávarafurða vegna stækkandi þorskstofns og afurða nýrrar stóriðju. Árin 2000–2003 er spáð 21/ 231/ 2% hagvexti. Þetta mat er þó háð forsendu um að efnahagsstarfsemi á heimsvísu verði ekki fyrir miklum eða langvarandi hnekki af þeim sviptingum sem nú eru á mörkuðum víða um heim.
    Þótt fjárfestingar dragist saman á næsta ári verða þær enn miklar ef litið er til undanfar­inna ára. Fjárfesting atvinnuveganna hefur aukist mjög frá lágmarki áranna 1993–95, enda dugði fjárfestingin þá ekki fyrir afskriftum fjármunastofnsins. Þessi þróun er því ánægjuleg og sýnir trú á framtíðarhagvexti hér.
    Ein afleiðing þessa mikla hagvaxtar er minna atvinnuleysi, sem nú er spáð að verði 3% af mannafla í ár. Þrátt fyrir þetta hefur verðbólga haldist lág, en hér er spáð 11/ 2% verðbólgu á þessu ári. Þessi hagstæða þróun á sér eflaust margar orsakir. Ein er sú að gengi krónunnar hefur styrkst, önnur að aukin samkeppni hefur leitt til aukinnar framleiðni og lægra verðs á vöru og þjónustu. Hins vegar er því spáð enn dragi úr atvinnuleysi á næsta ári og þegar gætir skorts á vinnuafli víða á vinnumarkaði. Það er því ástæða til að vera á varðbergi á næstunni hvað varðar þróun verðlags.
    Miklar launahækkanir og lág verðbólga hafa valdið því að kaupmáttur heimilanna hefur aukist hröðum skrefum. Í fyrra jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 51/ 2%, en í ár stefnir í meira en 8% aukningu, sem er töluvert umfram það sem reiknað var með í síðustu þjóðhagsáætlun. Á næsta ári er spáð 41/ 2% aukningu kaupmáttar á mann.


Mynd 1. Landsframleiðsla á Íslandi og í öðrum OECD-ríkjum.
Vísitölur 1990=100.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: OECD.

    Mikill vöruinnflutningur hefur orsakað verulegan halla á viðskiptum við útlönd. Að tölu­verðu leyti á þessi innflutningur sér skýringar í miklum innflutningi á fjárfestingarvörum og kaupum á bifreiðum og öðrum varanlegum neysluvörum. Það er þó ekki einhlít skýring, því innflutningur vex feikilega á nánast öllum vörutegundum. Hallinn leiðir til erlendrar skulda­söfnunar og á rætur í lágum þjóðhagslegum sparnaði, sem kemur berlega í ljós þegar fjár­festing er eins mikil og nú er.
    Seðlabankinn hefur beitt vaxta- og gengisstefnu markvisst með stöðugt verðlag að mark­miði. Mikilvægt er að halda fast við þessa stefnu á næstunni, en einnig er nauðsyn á festu í fjármálum hins opinbera til að færa halla á viðskiptum við útlönd aftur til jafnvægis. Þannig yrði hægt nokkuð á vexti eftirspurnar og stuðlað að jafnvægi á vinnumarkaði. Einnig skapast meira rúm fyrir samkeppnis- og útflutningsgreinar sem nokkuð hefur þrengt að með hækk­andi raungengi að undanförnu.
    Áherslan í hagstjórn á næstu missirum er því á festu í fjármálum ríkisins ásamt aðgerðum sem miða að bættri afkomu sveitarfélaga og auknum einkasparnaði. Þannig er dregið úr heildareftirspurn, jafnvægi viðhaldið á vinnumarkaði og stuðlað að stöðugleika í verðlagi. Aðhald í opinberum fjármálum eykur einnig þjóðhagslegan sparnað og styrkir þannig hag­vöxt til frambúðar. Beiting vaxta og gengis á síðan að styðja aðhaldssama fjármálastefnu ríkisins.

II. EFNAHAGSSTEFNAN


    Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð í apríl l995 setti hún fram nokkur meginmarkmið í efnahagsmálum. Mikilvægasta markmiðið var að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og skapa skilyrði fyrir hagvöxt. Stefnt var að því að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og vinna að ýmsum endurbótum á efnahagskerfinu. Þannig var fylgt eftir þeirri stefnu sem mörkuð var á fyrstu árum þessa áratugar. Þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér í upphafi hafa í öllum meginatriðum náðst og á mörgum sviðum hefur árangurinn orðið mun betri en búast mátti við. Þetta á ekki síst við um hagvöxt, atvinnu og kaupmátt. Vegna þessa góða árangurs er mikið í húfi að vel takist til við efnahagsstjórn á næstu missirum og næstu árum.
    Markmið efnahagsstefnunnar er sem fyrr að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og skapa skilyrði fyrir áframhaldandi hagvexti og batnandi lífskjörum.
    Mikilvæg undirstaða hagvaxtar í framtíðinni er fjárfesting í menntun og rannsóknum. Með vaxandi mikilvægi sérhæfðrar þekkingar þurfa stjórnvöld að auka fjárfestingu í þekkingu og færni, m.a. í gegnum menntakerfið, opinberar rannsóknastofnanir og fjárveitingar til rann­sókna og þróunarstarfs sem renna í gegnum opinbera sjóði. Í flestum OECD-ríkjum og ríkjum þar sem hagvöxtur og þjóðfélagsframfarir eru hvað örastar ver hið opinbera miklum fjármunum til að styðja rannsóknir. Í landi þar sem fyrirtæki eru yfirleitt smá og starfa í hefðbundnum greinum atvinnulífs er við því að búast að hlutur ríkis sé nokkuð stór í fjármögnun rannsókna. Þó þarf að leita leiða til að hvetja fyrirtæki til þátttöku í rannsóknum og efla samstarf þeirra við opinberar rannsóknastofnanir. Ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að auka hlut þeirra framlaga sem fara í gegnum sjóði til afmarkaðra verkefna að undangengnum umsóknum sem hafa fengið faglega umfjöllun. Einnig hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á aukið samstarf opinberra rannsóknastofnana. Er það gert í þeim tilgangi að nýta betur fé og starfskrafta, koma í veg fyrir tvíverknað og treysta stöðu Íslands á þessu sviði í ljósi alþjóðlegrar samkeppni.
    Á næstunni þarf að efla stefnumótun á þessu sviði í þeim tilgangi að treysta stöðu atvinnu­lífs á Íslandi í nýju alþjóðlegu umhverfi þar sem þekking og færni ræður miklu um sam­keppnisstöðu þjóða. Í þessu samhengi hefur verið unnið að markáætlun um rannsóknir og þróunarstarf á sviði upplýsingatækni og umhverfismála. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að þessi svið njóti forgangs við úthlutun styrkja Rannsóknarráðs Íslands með hliðsjón af áætlun ráðsins.
    Stefnumótun á sviði rannsókna stendur þó ekki ein sér heldur tengist eflingu mennta­kerfisins og stuðningi stjórnvalda við nýsköpun í atvinnulífi, m.a. þeirri uppstokkun sem varð við sameiningu fjárfestingarsjóða atvinnulífsins, stofnun Nýsköpunarsjóðs og Fjárfestingar­banka atvinnulífsins.
    Að því er varðar skipulagsbreytingar hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að sölu fyrirtækja í eigu ríkisins. Á síðari hluta þessa árs hefur verið ákveðið að hefja sölu 49% hlutafjár í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og 44% hlutafjár í Skýrr hf. sem enn eru í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar. Einnig er stefnt að því að hefja sölu hlutafjár í Íslensk­um aðalverktökum hf. í lok ársins. Loks var ákveðið að gefa út nýtt hlutafé í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 1.000 m.kr. og það selt í dreifðri sölu í september sl.
    Á árinu 1999 verður áfram unnið að einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Fyrir liggur ákvörðun um að ljúka sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. á fyrri helmingi ársins auk þess sem stefnt er að því að Búnaðarbanki Íslands hf. gefi út nýtt hlutafé og selji nýjum hlut­höfum.
    Með svo umfangsmikilli sölu ríkisfyrirtækja og að er stefnt á næstu missirum dregur ríkið úr eignarhaldi sínu á helstu banka- og lánastofnunum landsmanna og eflir þannig samkeppni á fjármálamarkaði. Það leiðir til hagræðingar á þessu sviði. Þá eykst hlutafjáreign almenn­ings og greiðslustaða ríkissjóðs batnar.
    Við núverandi aðstæður í þjóðarbúskapnum beinist hagstjórn einkum að því að koma í veg fyrir þenslu sem stofnað gæti stöðugleikanum í hættu. Nauðsynlegt er að draga úr við­skiptahalla og auka sparnað. Þetta eru meginviðfangsefni í peningamálum og ríkisfjármálum eins og nánar er lýst hér á eftir.
Ríkisfjármál.
    Staða efnahagsmála hér á landi hefur gjörbreyst á undanförnum árum. Í stað óðaverð­bólgu, jafnvægisleysis og óstöðugleika á áttunda og níunda áratugnum ríkir nú stöðugleiki á flestum sviðum efnahagslífsins. Allt frá miðjum síðasta áratug var mikill hallarekstur á ríkissjóði með tilheyrandi lántöku og skuldasöfnun. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að láns­fjárjöfnuður ríkissjóðs verði jákvæður þannig að unnt verði að lækka skuldir ríkissjóðs um meira en 20 milljarða króna á árunum 1998 og 1999, eða um 10%.
    Eitt helsta einkenni fjárlagafrumvarpsins er að hagstætt árferði er nýtt til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir tæplega 2 milljarða króna tekjuafgangi á fjárlögum ársins 1999. Hins vegar er talið að lánsfjárafgangur ríkissjóðs geti numið um 15 milljörðum króna. Þetta gefur færi á að greiða niður skuldir ríkissjóðs, þriðja árið í röð, og er áætlað að heild­arskuldir ríkissjóðs verði rúmlega 20 milljörðum króna lægri í árslok 1999 en í árslok 1997. Áframhaldandi hagvöxtur og aukin umsvif í efnahagslífinu skila sér í auknum tekjum ríkis­sjóðs á árinu 1999, jafnt af tekjusköttum sem veltusköttum. Á móti vegur fyrirhuguð lækkun tekjuskatts um næstu áramót um 1%. Enn fremur er gert ráð fyrir umtalsverðum tekjum af sölu eigna ríkisins sem ganga til lækkunar skulda. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir auknum útgjöldum til ýmissa þátta heilbrigðismála. Þá eru framlög til rannsóknar- og þróunarmála aukin verulega, meðal annars til verkefna tengdum upplýsingasamfélaginu. Sömu sögu er að segja af framlögum til ýmissa menningarmála, meðal annars til undir­búnings fyrirhugaðra menningarviðburða á árinu 2000. Loks eru framlög til samgöngumála stóraukin.
    Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum í því skyni að bæta rekstrarskilyrði og samkeppnisstöðu atvinnulífsins, bæði með lækkun og niðurfellingu skatta og öðrum aðgerð­um til að treysta stöðugleikann í efnahagslífinu, hafa skilað umtalsverðum árangri. Í kjöl­farið hefur traust erlendra aðila á efnahagsstefnu stjórnvalda farið vaxandi sem meðal annars birtist í bættu lánshæfismati Íslands erlendis. Enn fremur hafa íslensk stjórnvöld fengið afar jákvæða umfjöllun í skýrslum OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bæði vegna þeirra áherslubreytinga sem orðið hafa í hagstjórn og ýmissa skipulagsbreytinga sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á mörgum sviðum efnahagslífsins, á fjármálamarkaði, í opinberum rekstri með aukinni áherslu á hagræðingu og markaðsvæðingu, í lífeyrismálum og víðar.
    Það eru hins vegar gömul og ný sannindi að oft er erfiðara að hafa stjórn á efnahagsmál­um í góðæri líkt og nú ríkir á Íslandi en þegar erfiðleikar steðja að. Þess vegna er afar mikil­vægt að varðveita þennan árangur og slaka hvergi á við stjórn efnahagsmála. Þetta á ekki síst við um ríkisfjármálin því þau gegna nú lykilhlutverki í hagstjórn hér á landi. Sem fyrr segir hillir undir það í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug að traust staða ríkisfjármála geri kleift að greiða niður skuldir ríkisins og um leið draga úr miklum vaxtakostnaði. En traust staða ríkissjóðs er ekki síður mikilvæg frá öðru sjónarhorni, þ.e. til þess að auka sparnað í þjóð­félaginu og stuðla þannig að betra jafnvægi í efnahagslífinu með aðhaldi að innlendri eftir­spurn.
    Upp á síðkastið hafa komið fram vísbendingar um að hagsveiflan hér á landi sé komin á það stig að aukins aðhalds sé þörf til að halda aftur af miklum vexti þjóðarútgjalda. Hins vegar er ekki ástæða til að óttast að þróun efnahagsmála fari úr böndunum. Með þeim breyt­ingum sem orðið hafa á skipulagi og umgjörð efnahagslífsins á undanförnum árum, til dæmis með opnun fjármagnsmarkaðarins gagnvart útlöndum og uppbyggingu verð- og hlutabréfa­markaðar, hefur verið búinn til svo traustur rammi að ekki verður aftur snúið. Þessar breyt­ingar gera vissulega auknar kröfur til opinberra aðila, en ekki síður til stjórnenda fyrirtækja um að auka hagræðingu í rekstri og treysta þannig samkeppnisstöðuna. Þá er mikilvægt að hafa í huga að það góðæri sem hér ríkir er byggt á traustum grunni og raunverulegum for­sendum, ólíkt því sem stundum var áður. Þannig hafa komið til sögunnar nýjar atvinnugreinar sem hafa megnað að byggja upp öflugan útflutning, svo sem hugbúnaðargerð og ýmis há­tæknifyrirtæki í framleiðslu- og þjónustugreinum. Útflutningsverð á flestum sviðum sjávar­útvegs er einnig afar hagstætt og horfur á vaxandi afla á næstu árum. Loks má nefna að þær miklu fjárfestingar sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum eru mun arðbærari en áður var.
    Við ríkjandi aðstæður í efnahagslífinu er engu að síður brýnt að stjórnvöld freisti þess að hamla gegn aukningu þjóðarútgjalda og komi þannig í veg fyrir að stöðugleikinn í verðlags­málum raskist. Æskilegt er að grípa til aðhaldsaðgerða bæði í peninga- og ríkisfjármálum. Svigrúm til frekara aðhalds í peningamálum er hins vegar takmarkað þar sem nú þegar er fylgt mjög aðhaldssamri peningamálastefnu. Þetta kemur meðal annars fram í mun hærri vöxtum hér á landi en í flestum nálægum ríkjum. Enn fremur hefur gengi íslensku krónunnar farið hækkandi síðustu missiri sem hefur þrengt að samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja. Við þessar aðstæður er mikilvægt að treysta stöðu ríkisfjármála enn frekar. Það stuðlar að auknum innlendum sparnaði og hamlar gegn aukningu þjóðarútgjalda. Í þessu felst ekki að það þurfi að draga úr útgjöldum til brýnna málaflokka eins og velferðar- og menntamála, en útgjöld til þeirra munu sem fyrr segir aukast á þessu og næsta ári líkt og undanfarin ár. Hins vegar þarf að beita ýtrasta aðhaldi í opinberum rekstri, til dæmis með því að halda áfram að bjóða út ýmis verkefni á vegum ríkisins. Einnig mun áframhaldandi sala á eignum ríkisins til einkaaðila verða til þess að auka sparnað og draga úr innlendri eftirspurn.
    Flest bendir til að meginverkefni hagstjórnar hér á landi á næstu árum verði að leita leiða til að auka þjóðhagslegan sparnað og draga úr viðskiptahalla gagnvart útlöndum. Hér er þó rétt að ítreka að það er gert ráð fyrir lánsfjárafgangi hjá ríkissjóði árin 1998 og 1999 sem spornar gegn neikvæðum áhrifum viðskiptahalla á efnahagslífið. Þegar flest þjóðhagsleg skilyrði eru hagstæð, líkt og nú er, er hins vegar æskilegt að afgangur sé á viðskiptajöfnuði og að erlendar skuldir fari lækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu, að minnsta kosti ef litið er til viðskiptajöfnuðar án fjárfestingar í stóriðju. Enginn vafi er á að aukinn sparnaður hins opinbera er öruggasta og fljótvirkasta leiðin til þess að auka þjóðhagslegan sparnað.
    Stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum miðar að því að treysta stöðugleikann í sessi og stuðla að áframhaldandi hagvexti og batnandi lífskjörum heimilanna í landinu. Það er lykilatriði í þessu samhengi að nýta góðærið til að treysta stöðu ríkisfjármála enn frekar en orðið er og halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Lækkun skulda ríkisins er for­gangsatriði í ríkisfjármálum og eitt brýnasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir í efna­hagsmálum. Með þessu móti er í senn búið í haginn fyrir framtíðina og rennt styrkum stoðum undir áframhaldandi góðæri í efnahagsmálum.

Stefnan í peningamálum.
    Meginmarkmið stefnunnar í peningamálum er stöðugt verðlag. Í raun geta seðlabankar aðeins haft eitt sjálfstætt stjórntæki þegar fjármagnshreyfingar eru fullkomlega frjálsar, þar sem vextir og gengi eru nátengd við þær aðstæður. Stöðugleiki í gengismálum er nokkurs konar millimarkmið Seðlabanka Íslands að ofangreindu marki. Gengi krónunnar skal haldast innan þeirra vikmarka sem ákveðin voru í september 1995, þ.e. 6% til hvorrar handar frá miðgengi sem ákveðið var í júní 1993. Þessari stefnu framfylgir Seðlabankinn með því að stýra vöxtum á peningamarkaði, fyrst og fremst með ákvörðun ávöxtunar í endurhverfum viðskiptum sínum við lánastofnanir. Ávöxtun á peningamarkaði hefur sterk áhrif á gjald­eyrisstrauma og þar með á hreyfingar gengis krónunnar. Auk þess hafa skammtímavextir á peningamarkaði áhrif á vexti í bankakerfinu og á skuldabréfamarkaði. Þar með hafa vaxta­ákvarðanir Seðlabankans áhrif á neyslu og fjárfestingu þegar frá líður.
    Efnahagsþróunin hér á landi hefur að undanförnu einkennst af öflugum hagvexti, minnkandi atvinnuleysi, launahækkunum sem eru mun meiri en í nágrannalöndum, vaxandi viðskiptahalla og lágri verðbólgu. Þessi þróun gefur tilefni til að ætla að hagkerfið hafi stefnt hratt að þeim mörkum sem til lengdar geta samrýmst stöðugleika í verðlagsmálum og kallar á aðhaldssama stefnu í bæði peninga- og ríkisfjármálum. Auk þess sem að framan er greint hafa peninga- og lánastærðir vaxið hratt síðustu mánuði. Tólf mánaða vöxtur peningamagns í breiðum skilningi (M3) og útlána bankakerfisins hefur t.d. verið um og yfir 15%. Rann­sóknir sýna að til lengri tíma litið er náið samband á milli aukningar peningamagns og vaxtar nafnvirðis landsframleiðslu (þ.e. samanlagðs hagvaxtar og verðbólgu). Til lengdar getur hag­vöxtur vart verið mikið yfir 3–4% og því fær þessi vöxtur peningamagnsins ekki samrýmst lágri verðbólgu til lengri tíma litið. Rannsóknir sýna einnig að vöxtur útlána hefur visst vísbendingargildi varðandi framtíðarverðbólgu.
    Þrátt fyrir vaxandi viðskiptahalla á þessu ári og stöðuga eignamyndun erlendis á vegum lífeyrissjóða hefur verið töluvert innstreymi gjaldeyris. Vegna góðrar sjóðsstöðu ríkissjóðs hefur verulegur hluti gjaldeyrisinnstreymisins verið nýttur til endurgreiðslu erlendra lána ríkissjóðs. Á fyrstu átta mánuðum ársins endurgreiddi ríkissjóður erlend lán að fjárhæð 11 milljarðar kr.
    Mikill og jákvæður vaxtamunur milli Íslands og helstu viðskiptalanda hefur ýtt undir þessa þróun á gjaldeyrismarkaði. Vaxtamunurinn endurspeglar mismunandi stöðu efna­hagsmála hér á landi og erlendis. Víða eru vextir í sögulegu lágmarki en uppsveiflan í efna­hagsmálum hér hefur kallað á aðhald í peningamálum. Í Evrópu hefur mikið aðhald í ríkis­fjármálum skapað svigrúm til slökunar í peningamálum. Japan glímir við djúpstæða fjár­málakreppu með þensluhvetjandi aðgerðum sem felast meðal annars í lágvaxtastefnu. Vegna mikils framleiðnivaxtar og lágrar verðbólgu í viðskiptalöndum hafa Bandaríkin ekki þurft að auka aðhald í peningamálum þrátt fyrir kröftugan hagvöxt. Undantekning frá þessu er Bretland þar sem hagvöxtur undanfarinna ára hefur leitt til verðbólgutilhneiginga sem mætt hefur verið með vaxtahækkunum. Stýrivextir Englandsbanka eru nú svipaðir og hér á landi, eða um 71/ 2%.
    Ofangreindar aðstæður hafa valdið því að Seðlabanki Íslands hefur talið nauðsynlegt að fylgja aðhaldssamri peningastefnu á undanförnum mánuðum, sem birtist hvað skýrast í vaxtamun gagnvart útlöndum. Í framhaldi af gjaldeyrisútstreymi og lækkun á gengi íslensku krónunnar á haustmánuðum hækkaði Seðlabankinn vexti sína í nóvember 1997 og jók þar með mun innlendra og erlendra skammtímavaxta. Sú aðgerð leiddi til viðsnúnings á gjald­eyrismarkaði og styrkingar krónunnar og hafði áhrif allt fram á mitt þetta ár. Á þeim tíma styrktist krónan verulega og í lok júlí var gengi hennar rösklega 3% yfir því miðgildi sem ákveðið var 1993. Seðlabankinn taldi á þessum tíma nauðsynlegt að gengi krónunnar hækkaði til að draga úr hættu á aukinni verðbólgu í kjölfar mikilla launahækkana. Útlit var fyrir að verðbólga á þessu ári færi að óbreyttu yfir 3% á fyrri hluta ársins. Styrking krón­unnar og erfiðleikar í heimsbúskapnum, ekki síst vegna efnahagsörðugleika í Austur-Asíu, ásamt vaxandi samkeppni í smásöluverslun hér á landi, hafa stuðlað að lægri verðbólgu og nú lítur út fyrir að hún verði um 11/ 2% á árinu í heild.
    Vaxandi óróa hefur gætt að undanförnu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, m.a. í fram­haldi af kreppunni í Rússlandi. Þannig hefur hlutabréfaverð verið afar óstöðugt og það hefur endurspeglast í þróun gengis helstu gjaldmiðla. Noregur varð einnig fyrir áföllum sem leiddu til þess að gengi norsku krónunnar féll verulega þrátt fyrir umtalsverðar vaxtahækkanir Noregsbanka. Áhrifa þróunarinnar í Noregi gætti í ýmsum nágrannalöndum, svo sem Dan­mörku og Svíþjóð. Svo virðist sem þessi órói hafi haft áhrif hér á landi, m.a. á gengi íslensku krónunnar. Áhrifin voru tvíþætt. Annars vegar hafði nábýli við hin Norðurlöndin bein áhrif á íslenskan markað og hins vegar leiddu varnaraðgerðir þessara landa til þess að munur vaxta á peningamarkaði hér og erlendis minnkaði. Því fylgdi þverrandi gjaldeyrisinnstreymi til Íslands.
    Seðlabankinn brást við þrýstingi á gengi íslensku krónunnar til lækkunar af völdum hrær­inga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum með 0,3% vaxtahækkun í byrjun september þegar hann hækkaði ávöxtun í endurhverfum viðskiptum í 7,5%. Jafnframt hækkaði bankinn ávöxt­un í tilboðum sínum í ríkisvíxla samsvarandi. Þessari aðgerð var ætlað að styðja gengi krón­unnar, snúa við gjaldeyrisstraumum og styrkja gjaldeyrisforða bankans.
    Sá árangur sem náðst hefur í að halda verðbólgu innan viðunandi marka á undanförnum mánuðum er ekki hvað síst að þakka aðhaldssamri stefnu í peningamálum. Í ljósi áframhald­andi öflugs hagvaxtar, mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli, peninga- og útlánaþenslu og ýmissa annarra hugsanlegra ofþenslumerkja má vænta þess að stefnan í peningamálum verði áfram aðhaldssöm.

III. ÁSTAND OG HORFUR


Staðan í þjóðarbúskapnum og horfur á næstu árum.
    Íslenskur þjóðarbúskapur er um þessar mundir í mikilli uppsveiflu. Undanfarin tvö ár hef­ur hagvöxturinn að jafnaði verið um 5% á ári og útlit er fyrir að svipaður hagvöxtur verði á þessu ári og því næsta. Á sama tíma hefur hagvöxtur í viðskiptalöndunum að jafnaði verið um 3% á ári.
    Samfara vaxandi efnahagsumsvifum hefur ástandið á vinnumarkaðnum gjörbreyst. Í stað atvinnuleysis sem náði hámarki árið 1995 og varð þá 5% af mannafla er útlit fyrir tæplega 3% atvinnuleysi á þessu ári og áframhaldandi lækkun á næsta ári. Jafnframt er nú svo komið að vinnuaflsskortur hefur víða gert vart við sig í atvinnulífinu.
    Þrátt fyrir umtalsverða hækkun launakostnaðar og hækkandi atvinnustig undanfarin þrjú ár hefur verðbólgan ekkert aukist. Þvert á móti hefur hún farið lækkandi ár frá ári og stefnir í 11/ 2% hækkun neysluverðsvísitölunnar á þessu ári en hækkunin var 1,8% í fyrra.
    Núverandi aðstæður á vinnumarkaði gefa fullt tilefni til að gæta ýtrustu varkárni hvað varðar hættu á aukinni verðbólgu. Með tilliti til þessara aðstæðna er gert ráð fyrir að verð­bólgan á næsta ári fari heldur vaxandi miðað við árið í ár og verði 2% milli ára. Þar með verður verðbólgan hér á landi nánast hin sama og í viðskiptalöndunum. Það má þó ljóst vera að ekki þarf mikið út af að bregða til að þessi spá bregðist og verðbólgan verði meiri.
    Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist hröðum skrefum á þessu ári, eða um 8% á mann frá fyrra ári. Framhald verður á þeirri þróun á næstunni þótt takturinn verði mun hægari en í ár og spáð er 4,5% aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann árið 1999.
    Viðskiptakjör hafa batnað verulega á þessu ári. Verðhækkun sjávarafurða og lækkandi olíuverð vega upp lækkun álverðs og gott betur því tekjuauki þjóðarbúsins af bata á við­skiptakjörum nemur 2% af landsframleiðslu í ár. Spáð er nánast óbreyttum viðskiptakjörum á næsta ári. Þetta er þó háð því að efnahagserfiðleikarnir í Asíu og Rússlandi valdi ekki frekari samdrætti í efnahagsstarfseminni á heimsvísu. Slík þróun mundi eflaust segja til sín í minni eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu.
    Vaxandi viðskiptahalli sem stefnir í að verða tæplega 40 milljarðar króna á þessu ári er áhyggjuefni. Það er fyrst og fremst aukin innlend eftirspurn sem liggur að baki viðskiptahall­anum. Að hluta má þó rekja mikinn innflutning á þessu ári til stóriðju- og virkjanaframkvæmda, auk þess sem flugvélakaup vega þungt í innflutningstölunum. Spáin gerir ráð fyrir því að viðskiptahallinn minnki á næsta ári og verði 4% af landsframleiðslu en til samanburð­ar er gert ráð fyrir að 6,6% halla í ár.

Þjóðarútgjöld.
    Hagvöxtur var enginn á Íslandi frá 1988 til 1993. Þessa gætti mjög í útgjöldum þjóðar­innar. Einkaneysla á mann var rúmum 13% minni 1993 en 1988, fjármunamyndun dróst saman um tæplega 28% á mann milli þessara ára og samdráttur þjóðarútgjalda á mann nam rúmum 12%. Árið 1993 mátti sjá fyrstu merki um bata. Útflutningur bar uppi hagvöxt áranna 1993 og 1994, en vöxtur þjóðarútgjaldanna hélst áfram lítill. Niðurstaðan varð sú að afgang­ur myndaðist á viðskiptajöfnuði. Betri efnahagshorfur og aukinn stöðugleiki urðu til þess að einkaneysla jókst á ný árið 1995 og ári síðar glæddist fjármunamyndun svo um munaði.

Þjóðarútgjöld.
Magnbreytingar frá fyrra ári, %
1997 Áætlun Spá Spá
m.kr. 1996 1997 1998 1999
Einkaneysla
    
320.314 6,4 6,0 10,0 5,0
Samneysla
107.304 1,0 2,6 3,0 3,0
Fjármunamyndun
98.666 26,5 11,2 27,3 -10,0
Þjóðarútgjöld alls
521.190 7,5 5,4 12,8 1,5
Landsframleiðsla
524.419 5,6 4,4 5,2 4,6
Þjóðartekjur
... 4,7 5,2 7,1 4,1

    Hagvöxtur undanfarinna ára hefur verið borinn uppi af miklum vexti þjóðarútgjalda. Við­búið var að sá mikli slaki sem varð í þjóðarútgjöldum árin á undan leiddi til myndarlegrar aukningar útgjalda er betur horfði. Frá 1995 hefur atvinnuvegafjárfestingin aukist um tæp 150%. Endurskoðuð spá um fjármunamyndun í heild sýnir 27,3% aukningu frá 1997 til 1998, sem að meginhluta er borinn uppi af fjármunamyndun í atvinnulífinu. Því er hins vegar spáð að fjármunamyndun dragist saman á næsta ári um 10%, sem rekja má til samdráttar í stór­iðju- og raforkuframkvæmdum sem hófust 1996. Alls má gera ráð fyrir að þessar fram­kvæmdir hafi numið rúmum 56 milljörðum króna og þar af voru um 27 milljarðar króna er­lend fjárfesting.

Yfirlit yfir stóriðju- og orkuframkvæmdir.
Milljónir kr.
1997 1998 1999
ÍSAL
3.951 1.500 1.260
Járnblendið
260 1.000 2.500
Norðurál 1)
6.909 7.000
Raforkuframkvæmdir
6.185 13.520 7.300
Samtals
17.305 23.020 11.300
1) Ekki er með vissu vitað um áform Norðuráls á næsta ári.

    Einkaneyslan ræðst einkum af kaupmætti ráðstöfunartekna og væntingum heimilanna um tekjuþróun. Þá má enn fremur nefna að lánafyrirgreiðsla til heimila hefur stóraukist á tiltölulega fáum árum og hefur sú breyting vafalítið haft mikil áhrif á neyslustigið. Frá árinu 1995 hefur einkaneyslan vaxið um 4–6% á ári. Á þessu ári er hins vegar gert ráð fyrir að einka­neyslan vaxi enn hraðar eða um 10%. Horfur eru á að vöxtur einkaneyslunnar verði minni á næsta ári og gerir spáin ráð fyrir 5% aukningu.
    Spáð er að samneyslan vaxi um 3% á þessu og næsta ári. Samkvæmt spánni verður 20,7% af landsframleiðslu varið til samneyslu á næsta ári sem er svipað hlutfall og undanfarin ár.
    Áætlun um þjóðarútgjöld gerir ráð fyrir að þau vaxi um 12,8% í heild á þessu ári. Þessi mikli vöxtur þjóðarútgjalda er bein ávísun á aukinn viðskipahalla því framleiðslugeta þjóð­arbúsins var nálægt efri mörkum þegar í fyrra. Leita þarf allt til ársins 1987 til að finna hlið­stæðan vöxt þjóðarútgjalda en á því ári jukust útgjöldin um 15,7%. Sá grundvallarmunur er þó á að 1987 mátti rekja útgjaldaaukann að verulegu leyti til einkaneyslu í stað fjárfestingar eins og nú er. Á næsta ári er útlit fyrir að hægi á vexti þjóðarútgjalda og spáð 1,5% aukn­ingu.

Mynd 2. Hlutdeild í hagvexti.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



Uppsveifla án verðbólgu.
    Þjóðarbúskapurinn er í mikilli uppsveiflu sem hófst fyrir þremur árum. Hagvöxtur undan­farinna ára hefur á vissan hátt endurvakið viðfangsefni á sviði efnahagsmála sem ekki hafa verið ofarlega á baugi um alllangt skeið. Leita þarf aftur til áranna 1986–87 til að finna sam­bærilega þróun heildarstærða í þjóðarbúskapnum. Líkt og á þeim árum einkennist efnahags­þróunin af mikilli aukningu þjóðarútgjalda í kjölfar uppsveiflu í sjávarútvegi og vaxandi kaupmætti. Hins vegar er núverandi ástand frábrugðið að því leyti að engin verðbólga hefur fylgt uppsveiflunni eins og jafnan hefur gerst áður við sambærileg skilyrði.
    Þetta er enn athyglisverðara fyrir þær sakir að atvinnustig er nú orðið mjög hátt og hærra en með góðu móti samrýmist stöðugu verðlagi samkvæmt fyrri athugunum Þjóðhagsstofn­unar.

    Þegar þróun verðlags á undanförnum mánuðum er skoðuð nánar kemur glögglega í ljós að mikill munur er á breytingum einstakra liða vísitölunnar. Sú verðbólguaukning sem búist var við í kjölfar síðustu kjarasamninga kemur að mestu fram í þeim liðum sem byggjast á innlendum framleiðsluþáttum, en innlendar vörur og þjónusta hafa hækkað um 3,2% á síð­ustu 12 mánuðum. Hækkun innlendra liða, bæði vöru- og þjónustuliða hefur verið meira í átt við það sem búist var við í upphafi árs þegar lagt var mat á verðbólguhorfur í kjölfar kjarasamninganna sem gerðir voru snemma árs í fyrra. Þá var reiknað með 2,7% verðbólgu á þessu ári samfara launahækkunum upp á 81/ 2%. Hins vegar hefur hagstæð verðlagsþróun í viðskiptalöndunum, aukin samkeppni og hækkun á gengi krónunnar valdið því að verðlag á innfluttum vörum hefur lækkað jafnt og þétt, eða um 2,8% á síðustu 12 mánuðum og því vegið hækkanir á innlendum vörum og þjónustu upp að miklu leyti. Í heild er spáð 1/ 2% verðbólgu frá upphafi til loka ársins 1998 og 11/ 2% frá fyrra ári.
    Gera má ráð fyrir að verðbólga á næsta ári verði meiri en í ár. Að hluta byggist sú spá á forsendu um fast gengi krónunnar frá því sem það var í september sl. Miðað við fyrirsjáan­legar launahækkanir og í ljósi áframhaldandi uppsveiflu er gert ráð fyrir um 3% hækkun neysluverðs frá upphafi til loka næsta árs og að vísitalan hækki um 2% milli ára.
    Enda þótt ört vaxandi innflutningur hafi vakið upp áhyggjur um vaxandi ójafnvægi í þjóðarbúskapnum verður ekki fram hjá því litið að hagstæð verðlagsþróun byggist að tölu­verðu leyti á þeirri staðreynd að eftirspurnin hefur beinst að innflutningi fremur en að inn­lendum vörum og þjónustu. Þannig hafa innlendir framleiðendur án efa tapað markaðshlut­deild, sérstaklega á þessu ári, eins og tölur Samtaka iðnaðarins um veltu íslenskra iðnfyrir­tækja á fyrri hluta ársins sýna. Samkvæmt þeim jókst velta íslenskra iðnfyrirtækja einungis um rúmlega 1% á sama tíma og heildarvelta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum jókst um 10,7%. Hækkunin á raungengi krónunnar hefur því augljóslega beint heildareftirspurninni að innflutningi fremur en innlendri framleiðslu og þar með stuðlað að aðhaldi á innlendum markaði.
    Á vinnumarkaði hefur störfum farið fjölgandi samhliða því að úr atvinnuleysi hefur dregið. Atvinnukannanir Þjóðhagsstofnunar hafa leitt í ljós að atvinnurekendur vilja fjölga fólki og í vissum atvinnugreinum hefur gætt manneklu. Þegar borin er saman þróun atvinnu­leysis og verðbólgu á undanförnum árum má greinilega sjá hvernig minnkandi verðbólga fer saman við aukið atvinnuleysi á árunum 1990–95. Síðan þá hefur þróunin snúist við og atvinnuleysið minnkað jafnt og þétt án þess að vart hafi orðið aukinnar verðbólgu, eins og fram kemur í mynd 6 hér á eftir.
    Flest rök hníga að því að íslenskt efnahagslíf sé um þessar mundir nálægt þeim mörkum sem samrýmst geta áframhaldandi stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Nýting framleiðslutækja og vinnuafls er því sem næst í hámarki og hallinn á viðskiptum við útlönd stefnir í að verða verulega meiri en reiknað hafði verið með. Jafnframt er skýringa á hagstæðri verðlagsþróun að nokkru að leita í gengishækkun krónunnar og í óvenju hárri innflutningshneigð innlendrar eftirspurnar.
    Þegar betur er að gáð eru þjóðhagshorfurnar hagstæðari en virðist við fyrstu sýn. Aukin fjárfesting atvinnulífsins sem í bráð birtist sem vaxandi innflutningseftirspurn mun þegar fram í sækir auka við framleiðslugetu þjóðarbúsins og á þann hátt skapa forsendur fyrir var­anlegum hagvexti. Þetta á ekki bara við um þá nýju stóriðju sem byggð hefur verið upp, heldur einnig um atvinnulífið almennt þar sem sköpuð hafa verið ný atvinnutækifæri og ruddar nýjar brautir í atvinnumálum. Þegar fjárfestingarhrinan er um garð gengin má vænta þess að töluvert dragi úr innflutningi á fjárfestingarvörum jafnframt því sem framleiðsla fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings aukist að sama skapi. Þá má einnig vænta þess að fyrirsjáanleg kaupmáttaraukning á næstu árum leiði til aukins vinnuframboðs sem dragi á þann hátt úr þeim þrýstingi sem er á vinnumarkaðinum. Reynsla fyrri ára sýnir glögglega að framboð vinnuafls hér á landi er næmt fyrir breytingum á kaupmætti launa og því má gera ráð fyrir vaxandi atvinnuþátttöku á næstu árum.
    Síðast en ekki síst eru horfur á að afli, sérstaklega þorskafli, fari vaxandi á næstu árum og því allt útlit fyrir að útflutningstekjur sjávarafurða geti vaxið umtalsvert frá því sem nú er.

Mynd 3. Hagvöxtur, breyting landsframleiðslu á föstu verði.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



Mynd 4. Viðskiptajöfnuður, hlutfall af landsframleiðslu.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



Mynd 5. Verðbólga og launahækkanir, % breyting frá fyrra ári.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



Mynd 6. Verðbólga og atvinnuleysi, 1985–99.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



Viðskiptajöfnuður.
    Fyrstu sex mánuði ársins var hallinn á viðskiptum við útlönd 24 milljarðar króna en 3,3 milljarða króna halli á sama tímabili í fyrra. Það er fyrst og fremst aukinn halli á vöruskipta­jöfnuði sem skýrir þessa miklu aukningu, en þjónustujöfnuður án þáttatekna sýnir einnig meiri halla í ár en í fyrra. Vöruskiptajöfnuðurinn var hagstæður um 3,5 milljarða króna á fyrstu sex mánuðunum í fyrra, en óhagstæður um 16 milljarða á sama tíma í ár. Ekki er reiknað með að þessi þróun gangi til baka á seinni hluta ársins heldur verði áframhaldandi halli á vöruskiptajöfnuði og að í heild verði rúmlega 28 milljarða króna halli á vöruviðskipt­um á yfirstandandi ári. Spáð er jákvæðum þjónustujöfnuði án þáttatekna upp á rúma 1,9 milljarða en að jöfnuður þáttatekna verði neikvæður um 12 milljarða króna vegna vaxta­greiðslna af erlendum lánum. Viðskiptajöfnuðurinn á þessu ári verður því neikvæður um 38,6 milljarða eða sem svarar 6,6% af landsframleiðslu.
    Á næsta ári er gert ráð fyrir að þróun viðskiptajafnaðarins verði með töluvert öðrum hætti en á yfirstandandi ári. Auknar útflutningstekjur samfara því sem næst óbreyttum vöruinn­flutningi gerir það að verkum að vöruskiptajöfnuðurinn batnar umtalsvert og verður nei­kvæður um 13,8 milljarða króna. Hins vegar mun aukinn viðskiptahalli óhjákvæmilega hafa í för með sér að vaxtagreiðslur af erlendum lánum fari vaxandi og því gerir spáin ráð fyrir því að jöfnuður þáttatekna verði óhagstæður um 14,3 milljarða króna á árinu 1999. Í heild stefnir því í neikvæðan viðskiptajöfnuð á næsta ári sem nemur 24,9 milljörðum sem svarar til 4% af landsframleiðslu.

Áherslur í hagstjórn.

    Tvennt er sérstaklega eftirtektarvert í þróun helstu efnahagsstærða á þessu ári. Annars vegar er það lág verðbólga, þrátt fyrir mikla uppsveiflu í eftirspurn og hraða aukningu at­vinnustigs. Hins vegar er það viðskiptahallinn, sem hér er spáð að verði hinn mesti í hlutfalli af landsframleiðslu síðan 1982. Tvær spurningar hljóta að vakna í þessu sambandi:
     *      Er viðskiptahallinn svo mikill að ástæða sé til að hafa áhyggjur af honum?
     *      Er hægt að draga úr viðskiptahallanum án þess að komi til aukinnar verðbólgu?
    Þótt vissulega megi réttlæta viðskiptahallann að hluta með miklum fjárfestingum og kaupum á varanlegum neysluvörum að lokinni langvarandi efnahagslægð, þá gefa athuganir Þjóðhagsstofnunar til kynna að þegar tekið er tillit til þessara atriða standi eftir undirliggj­andi halli sem nemur 3–4% af landsframleiðslu. Viðskiptahallinn endurspeglar þess vegna lítinn þjóðhagslegan sparnað undanfarinn áratug. Fjárfestingar hafa aukist á ný eftir sam­dráttarskeiðið 1988–93, en sparnaður hefur ekki aukist að sama marki og nægir engan veginn til að fjármagna núverandi fjárfestingar. Það er því óumflýjanlegt að draga þá ályktun að stefna beri að betri niðurstöðu á viðskiptajöfnuði.
    Ein meginundirstaða hagvaxtar nú er sá stöðugleiki í verðlagsmálum sem ríkt hefur síð­ustu árin. Eins og komið hefur fram hér að framan eru ákveðin hættumerki í þeim efnum, þrátt fyrir að þegar á heildina er litið mælist verðbólga lítil. Þessi árangur í verðlagsmálum hefur hins vegar náðst með beitingu vaxta og gengis eins og sést vel á mismunandi þróun inn­lends og erlends hluta neysluverðs og bitnar á innlendum samkeppnis- og útflutningsfyrir­tækjum. Viðskiptahallinn endurspeglar því einnig minnkandi hlutdeild þeirra í heildareftir­spurn.
    Það er vel þekkt úr íslenskri hagsögu að lækkun á gengi krónunnar hefur ítrekað verið beitt til að lagfæra halla á viðskiptum við útlönd, sem oftast nær fór saman við laka afkomu í sjávarútvegi. Slík aðgerð væri varasöm við núverandi eftirspurnarstig, þar sem hætta er á að raungengislækkun með þessu móti yrði mjög skammvinn. Gengisbreytingar færu þá fljót­lega út í verðlag og stöðugleikanum yrði fórnað fyrir skammtímaávinning.
    Ytri aðstæður í íslenskum þjóðarbúskap og horfur um hagvöxt á næstu árum eru nú góðar. Viðskiptakjör eru einnig góð og líkur á að svo verði áfram. Horfur eru einnig á hagstæðri þróun útflutnings á næstu árum. Hins vegar er nauðsyn á festu í fjármálum hins opinbera á næstunni til að færa jöfnuð á viðskiptum við útlönd aftur til jafnvægis. Þetta fer einnig saman við nauðsyn á því að hægja nokkuð á hagvexti og ná þannig betra jafnvægi á vinnumarkaði. Þannig færðist þunginn í hagstjórninni frá vaxta- og gengisstefnu yfir á opinber fjármál. Mun heppilegra er að beita peningalegum aðgerðum til að styðja fjármálastefnuna fremur en að peningastefnan sé leiðandi eins og verið hefur að undanförnu. Það felur í sér hættu á að hækkandi raungengi þrengi smám saman að innlendum samkeppnis- og útflutningsgreinum.
    Megináherslan í hagstjórn á næstu missirum hlýtur því að vera á aðhald í ríkisfjármálum ásamt aðgerðum sem miða að bættri afkomu sveitarfélaga og auknum einkasparnaði. Slíkar aðgerðir draga úr heildareftirspurn, bæta þannig jafnvægi á vinnumarkaði og stuðla að stöðugleika í verðlagi. Þær styrkja einnig aukinn þjóðhagslegan sparnað og hagvöxt til lang­frama. Beiting peningalegra stjórntækja, vaxta og gengis, ætti síðan að styðja aðhaldssama fjármálastefnu hins opinbera.

Efnahagshorfur á komandi árum.
    Hagvöxtur hefur verið óvenju mikill hér á landi á síðustu árum, einkaneysla hefur vaxið hröðum skrefum og hlutdeild fjárfestingar af landsframleiðslu verið hærri en mörg undan­farin ár. Að baki þessari þróun liggja ekki síst stóriðjuframkvæmdir sem senn lýkur. Því má ætla að heldur dragi úr vexti þjóðarútgjalda og landsframleiðslu á næstu árum.
    Efnahagshorfur næstu ára markast nokkuð af þeirri óvissu er nú ríkir á alþjóðavettvangi. Ekki sér fyrir endann á þeim efnahagsvanda er hrjáir Asíulönd og Rússland. Þá mun breytt skipan peningamála í Evrópu er Evrópska myntbandalagið (EMU) verður að veruleika, væntanlega hafa áhrif hér á landi, en ekki er ljóst hversu víðtæk þau áhrif verða.
    Búist er við að núverandi stóriðjuframkvæmdum ljúki á árinu 2000. Þá verður starfsemi Norðuráls komin á fullt skrið og stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins verður lokið. Í spánni er ekki gert ráð fyrir öðrum stóriðjuverkefnum.
    Á árinu 1997 voru gerðir kjarasamningar sem gilda fram eftir árinu 2000. Af þessum sökum er minni óvissa um launaþróun á spátímabilinu en oft áður.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir lauslegri spá um efnahagsþróun næstu 5 ára eða til árs­ins 2003. Forsendur um alþjóðahorfur, framleiðslu og hið opinbera verða fyrst raktar.

Alþjóðahorfur Í reikningunum er gert ráð fyrir að árlegur hagvöxtur í OECD-ríkjun­um muni nema að meðaltali 21/2% á tímabilinu 2000–2003. Í spá OECD frá því í júní síðastliðnum var gert ráð fyrir að hann næmi að meðaltali 2,7% á ári á þessu tímabili.
Framleiðsla Gert er ráð fyrir að framleiðsla sjávarafurða aukist um ríflega 3% að jafnaði árin 2000–2003, sem er heldur meiri vöxtur en á undanförnum árum. Stækkun álvers ÍSALs kemur að mestu fram á árinu 1998, en framleiðsla Norðuráls kemur að fullu inn á næsta ári. Þannig eykst ál­framleiðsla úr 175 þús. tonnum árið 1998 í 225 þús. tonn árið 2000. Þá er fyrirhugað að auka kísiljárnframleiðslu á næstu árum með stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins. Framleiðsla kísiljárns eykst úr 60 þús. tonnum á árinu 1998 í 115 þús. tonn á árinu 2000.
Gert er ráð fyrir því að sú verðlækkun áls og kísiljárns sem komið hefur fram á þessu ári gangi að einhverju leyti til baka á árunum 2000– 2003 og verð þessara afurða hækki heldur meira en svarar til almennra verðbreytinga erlendis. Reiknað er með að verð á aðföngum til stóriðju fylgi verði afurðanna, en að öðru leyti fylgi verðlag inn- og útflutnings almennum verðbreytingum í viðskiptalöndum. Vegna horfa um verð­breytingar á áli og kísiljárni má búast við að viðskiptakjör fari hægt batnandi á tímabilinu.
Hið opinbera Gert er ráð fyrir að samneysla aukist um 2,3% að meðaltali. Fjárfest­ing hins opinbera vex hraðar, eða um 21/2% árlega að jafnaði. Miðað við óbreytt skattkerfi munu skatttekjur standa í stað sem hlutfall af landsframleiðslu.

    Miðað við þessar forsendur er búist við að hagvöxtur verði að meðaltali ríflega 21/ 2% á árunum 2000–2003 sem er svipaður vöxtur og gert er ráð fyrir í ríkjum OECD að meðaltali. Gert er ráð fyrir að heldur dragi úr vexti einkaneyslu og hún aukist um 2% að meðaltali á ári, sem er töluvert minni vöxtur en á árunum 1995–99 en á þessum árum er áætlað að vöxtur einkaneyslu nemi ríflega 61/ 2% á ári að meðaltali. Í kjölfar mikillar fjárfestingar á árunum 1996–98 má reikna með að fjárfesting aukist aðeins um 31/ 2% á ári á tímabilinu. Samkvæmt þessu aukast þjóðarútgjöld í heild um 2–3% á ári. Þá er búist við að útflutningur glæðist og vaxi um 31/ 2% á ári. Á sama tíma er gert ráð fyrir að heldur dragi úr vexti innflutnings og hann nemi 21/ 2% á ári að meðaltali. Viðskiptahallinn fer því minnkandi og verður kominn í 21/ 2% af landsframleiðslu í lok tímabilsins, gangi þessar spár eftir. Vegna mikils viðskiptahalla á árunum 1998–99 er búist við að erlendar skuldir hækki í 481/ 2% af landsframleiðslu á árinu 2000 en standi síðan í stað til ársloka 2003.
    Í framreikningunum er gert ráð fyrir að framleiðslugeta hagkerfisins sé nú þegar nánast fullnýtt. Atvinnuleysi hefur fallið hröðum skrefum og má búast við að það sé nálægt neðri mörkum og ekki hægt að gera ráð fyrir að það fari niður fyrir 21/ 2% að öðru óbreyttu. Viðbúið er að frekari minnkun atvinnuleysis yki hættuna á aukinni verðbólgu, nema ráðist verði í sérstakar aðgerðir á vinnumarkaði.
    Eins og áður er getið er ekki gert ráð fyrir nýrri stóriðju í reikningunum. Verði tekin ákvörðun um nýbyggingu eða stækkun stóriðjuvera mun það hafa áhrif í þá átt að auka fjár­festingu og innflutning til skamms tíma, en framleiðslu og útflutning til lengri tíma. Horfur um afla geta einnig breyst, en útlit er fyrir að þorskstofninn sé að styrkjast. Verði fiskafli meiri á tímabilinu 2000–2003 en hér er gert ráð fyrir mun það væntanlega auka framleiðslu og útflutning og þar með hagvöxt. Þá munu niðurstöður kjarasamninga á árinu 2000 einnig hafa töluverð áhrif á efnahagshorfur næstu ára.
    Á móti kemur að horfur á alþjóðamarkaði eru ótryggar. Ekki er ólíklegt að alþjóðastofn­anir lækki spár sínar um hagvöxt á næstunni, en mikil óvissa ríkir um efnahagsþróun á alþjóðavettvangi eins og nánar er fjallað um í kaflanum um alþjóðaefnahagsmál hér á eftir. Áhrifanna gætir víða um heim og hefur gætt umróts á fjármálamörkuðum heimsins að undan­förnu. Hér á landi gæti þessi þróun haft áhrif á útflutningseftirspurn og komið fram í versn­andi viðskiptakjörum.
    Framleiðni vinnuafls hefur vaxið hröðum skrefum að undanförnu eins og að er vikið síðar. Vöxtinn má að stærstum hluta rekja til þess góðæris er nú ríkir. Styrkasta stoðin undir vax­andi framleiðni til frambúðar er menntun, rannsóknir og þróun. Eins og fram kemur í ramma 2 hér á eftir hafa útgjöld til rannsókna og þróunar vaxið hröðum skrefum hér á landi. Þess er að vænta að atvinnustarfsemi nátengd rannsóknum muni eflast á næstu árum.

Rammi 1.
Þjóðhagslegur sparnaður.
    
Þjóðhagslegan sparnað má skilgreina á tvennan hátt. Annars vegar má líta á þjóðhagslegan sparnað sem verga þjóðarframleiðslu að frádreginni samneyslu og einkaneyslu. Hins vegar má skilgreina vergan þjóð­hagslegan sparnað sem fjármunamyndun (auk birgðabreytinga), að viðbættum viðskiptajöfnuði. Þessar tvær skilgreiningar leiða til sömu niðurstöðu, því auk neyslu felur landsframleiðslan í sér ráðstöfun fjár til fjárfestingar og viðskiptajafnaðar. Þjóðhagslegur sparnaður minnkar með aukinni neyslu eða minni fjárfest­ingu. Viðskiptahalli jafngildir því þeim hluta innlendrar fjármunamyndunar sem ekki er fjármagnaður af innlendum sparnaði.
    Þegar fjárfesting er umfram þjóðhagslegan sparnað hefur umframfjárfestingin hér á landi oftast verið fjár­mögnuð með erlendum lánum, enda sjaldnast um að ræða beina erlenda fjárfestingu sem gengur til fjármögn­unar viðskiptahallans sem þá myndast. Þetta hefur leitt til söfnunar erlendra skulda. Frá árinu 1980 hefur viðskiptajöfnuður verið neikvæður 13 sinnum en jákvæður 4 sinnum.
    Viðskiptahalli þarf ekki alltaf að vera áhyggjuefni. Í sumum tilvikum getur hann verið afleiðing þess að lagt er í mikla fjárfestingu sem skilar arði í framtíðinni. Halli á viðskiptajöfnuði þýðir hins vegar að þjóðin tekur lán erlendis og ef viðskiptajöfnuður er neikvæður ár eftir ár aukast erlendar skuldir hratt. Síðar kemur að því að minnka þarf innlenda neyslu til að borga vexti af uppsafnaðri skuldinni.
    Lítill þjóðhagslegur sparnaður um skeið þarf ekki að valda áhyggjum. Vandamálið felst í því þegar þjóð­hagslegur sparnaður er lítill yfir langt tímabil. Það þýðir annaðhvort að fjárfesting hefur verið lítil, sem leiðir til minni hagvaxtar í framtíðinni, eða fjárfesting hefur verið umfram sparnað, sem þýðir erlenda skuldasöfnun, sem aftur leiðir til minni neyslu í framtíðinni.
    Lauslega áætlað þarf fjárfesting að nema um 20% af landsframleiðslu á ári til að standa undir 3% hagvexti. Til að koma í veg fyrir erlenda skuldasöfnun þarf sparnaður að nema svipaðri fjárhæð.


    Ef tryggja á hagvöxt til frambúðar þarf fjárfesting að vera næg og dugar ekki að bæta aðeins þann hluta fjármuna sem afskrifaður er á hverju ári. Til að hindra stöðuga erlenda skuldasöfnun þarf innlendur sparnaður að nægja til að standa undir þessari fjárfestingu. Fjár­festing á þessu ári er hærri sem hlutfall af landsframleiðslu en verið hefur síðan 1983, eða 22,3%. Á sama tíma er vergur þjóðhagslegur sparnaður 15,6% af landsframleiðslu og dugar því sparnaður engan veginn til að fjármagna fjárfestinguna. Til samanburðar er vergur sparn­aður í ríkjum OECD það sem af er þessum áratug að meðaltali tæplega 20% af landsframleiðslu. Því er ljóst að nauðsynlegt er að auka sparnað. Í framreikningunum að framan eykst sparnaður frá 2000–2003 og er kominn yfir 17% á árinu 2003, sem þó stendur langt að baki meðaltali OECD-ríkjanna.

Rammi 2.
Rannsóknar- og þróunarstarf (RoÞ).
    
Uppgötvanir og tækninýjungar hafa alltaf verið ein helsta undirstaða efnahagslegra framfara. Á undanförnum árum og áratugum hafa tækniframfarir verið geysilega örar og nægir þar að nefna framþróun í tölvu- og líftækni. Þetta hefur í för með sér að líftími vöru er langtum skemmri en áður. Þeim sem brautina ryðja og þeim sem tileinka sér tæknina með skjótum hætti bjóðast miklir möguleikar, en þróunin getur skilið hina eftir sem strandaglópa. Áhrif tæknibreytinga á hagvöxt hafa verið hagfræðingum ljós um langt skeið. Rannsóknir á þessu sviði hafa fengið byr undir báða vængi á undanförnum árum. Samhengi milli framleiðni atvinnulífs og RoÞ er skýrt eins og eftirfarandi mynd sýnir. Myndin sýnir annars vegar útgjöld fyrirtækja til rannsóknar- og þróunar í fjórum aðildarríkjum OECD og hins vegar heildarþáttaframleiðni í bandaríkja­dollurum. Eins og myndin ber með sér skilar rannsókna- og þróunarstarfsemi fyrirtækjanna sér ágætlega í aukinni framleiðni.
    Íslendingar hafa löngum varið hlutfallslega minna fé til rannsókna en aðrar þjóðir. Þetta sýnir meðfylgjandi mynd, en þar eru útgjöld til RoÞ mæld sem hlutfall af landsframleiðslu. Myndin sýnir einnig að útgjöld til RoÞ hafa á undanförnum árum aukist hraðar hér á landi en í samanburðarlöndunum og farið úr 0,76% af landsframleiðslu árið 1985 í rúm 1,7% árið 1997. Þennan vöxt má rekja til aukins hlutar rannsóknarstofnana á háskólastigi og til vaxandi rannsóknarstarfs fyrirtækja. Hlutur atvinnulífs er þó áfram rýr í RoÞ og miklu lægri en meðal samanburðarþjóðanna. Fyrirtæki lögðu til um 35% fjár til RoÞ á Íslandi árið 1995, samanborið við um 14% 20 árum áður. Til samanburðar má nefna að árið 1993 fjármögnuðu atvinnufyrirtæki í Danmörku 50% af RoÞ, í Finnlandi var hlutfallið 57%, 44% í Noregi og 64% í Svíþjóð.

Mynd 7. Framleiðni fyrirtækja og útgjöld þeirra til RoÞ í nokkrum löndum.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Technology, Productivity and Job Creation, OECD, 1996.




Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Mynd 8. Útgjöld til RoÞ í nokkrum löndum í hlutfalli við landsframleiðslu.
Heimild: OECD og Rannsóknarráð Íslands.

     Árið 1997 er talið að Íslendingar hafi varið um 9 milljörðum króna til rannsókna og er það nær tvöföldun frá 1990 á föstu verðlagi og fjórföldun frá 1975.
    Undirstaða tækniframfara er traust rannsóknar- og þróunarstarf. Athuganir hafa leitt í ljós mikla arðsemi af rannsóknar- og þróunarstarfi. Einkaarðsemi, þ.e. sá arður sem fellur þeim í skaut er standa að rannsókn, hefur þannig verið áætluð í ýmsum rannsóknum á bilinu 20–30%. Þjóðhagsleg arðsemi er enn meiri og sam­kvæmt athugunum er hún nær 50%. Þessi munur á einka- og þjóðhagslegri arðsemi er einmitt ástæða þess að um allan heim verja stjórnvöld miklum fjármunum til RoÞ-starfsemi. Mikið af þekkingu og tæknikunnáttu er í eðli sínu það sem heitir í hagfræðinni almannagæði (public good), þ.e. eitthvað sem erfitt er að útiloka aðra frá að tileinka sér með litlum tilkostnaði eftir að búið að er uppgötva það. Því kann hvati fyrir fyrirtæki að leggja fé í RoÞ að vera lítill þrátt fyrir að samfélagið í heild hagnist. Aukið mikilvægi RoÞ ásamt einka­leyfisákvæðum og öðrum eignarréttarákvæðum varðandi hugverk hafa hins vegar breytt afstöðu einkafyrir­tækja til þessara mála.
    Skrefið frá rannsóknum til framleiðslu vöru eða þjónustu hefur oft reynst erfitt og gjá verið milli vísinda­manna og atvinnulífs. Að undanförnu hefur þjóðin orðið vitni að nokkrum dæmum um hvernig rannsóknir skila sér í arðbær fyrirtæki. Á þessu ári hafa ung hátæknifyrirtæki á sviði hugbúnaðargerðar og erfðatækni kynnt samninga við alþjóðleg stórfyrirtæki sem geta skilað miklum tekjum á næstu árum.



    Á sjöunda og áttunda áratugnum héldust þjóðhagslegur sparnaður og fjárfesting að mestu leyti í hendur og námu á bilinu 26–29% af landsframleiðslu. Á níunda áratugnum breyttust þessi hlutföll til muna þegar sparnaður féll niður í 171/ 2% af landsframleiðslu að meðaltali á meðan fjárfesting fór niður í 221/ 2%. Samkvæmt áætlunum má búast við enn lægri tölum á þessum áratug en þjóðhagslegur sparnaður er áætlaður 16% af landsframleiðslu á meðan fjárfesting er áætluð 18%. Síðustu tvo áratugina hefur fjárfesting því verið undir því marki sem talið er nauðsynlegt til að tryggja hagvöxt til frambúðar.

    Erlendar rannsóknir sýna að erfitt er að fá einkaaðila til að auka sparnað. Til dæmis benda athuganir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að í iðnríkjunum þurfi að jafnaði að hækka raunvexti um 6 prósentustig til að auka einkasparnað sem nemur 1% af landsfram­leiðslu. Þá virðist sem vaxtastig hafi ekki mikil áhrif á einkasparnað hér á landi. Hins vegar hafa breytingar á vöxtum breytt farvegi sparnaðar t.d. aukið peningalegan sparnað á kostnað annars sparnaðar.
    Rannsóknir benda einnig til þess að þegar hið opinbera bætir afkomu sína með hækkun skatta minnki einkaaðilar sparnað á móti að verulegu leyti. Minnkun útgjalda hins opinbera virðist hins vegar leiða til minni viðbragða að þessu leyti. Það er því tryggasta leiðin til að auka þjóðhagslegan sparnað til langframa.

Alþjóðleg efnahagsmál.
    Mat alþjóðastofnana á efnahagshorfum í heiminum hefur verið fremur bjartsýnt fram að þessu. Í maí sl. spáði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn 2,4% hagvexti í iðnríkjunum á þessu og næsta ári og spá OECD frá því í júní hljóðaði upp á 2,6% hagvöxt fyrir bæði árin. Frá því að þessar spár voru birtar hafa áframhaldandi efnahagserfiðleikar í Asíu og þá sérstaklega í Japan dregið blikur á loft í efnahagsmálum heimsins. Síðustu atburðir í Rússlandi hafa síðan dregið enn úr bjartsýninni.
    Í endurskoðaðri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er spáð 2,1% hagvexti í iðnríkjunum á þessu ári og 2,6% á því næsta. Miðað við vægi einstakra landa í utanríkisviðskiptum Íslend­inga felur spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í sér 2,7% hagvöxt í viðskiptalöndunum á þessu ári og 2,3% á því næsta.

Mynd 9. Framleiðsluslaki í helstu hagkerfum.
Munur á framleiðslu og framleiðslugetu, %.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: OECD.

    Þegar staðan í einstökum heimshlutum er skoðuð kemur fram mikill munur frá einu svæði til annars. Þessi munur sést vel þegar mat á framleiðsluslaka einstakra landa er skoðað. Í Bandaríkjunum er allur slaki horfinn og í ESB-löndunum er hann um það bil að hverfa, á meðan verulegur slaki hefur myndast í Japan.

Ástand og horfur í efnahagsmálum í heiminum. 1)
Áætlun Spá
1995 1996 1997 1998 1999
Hagvöxtur 3,7 4,2 4,1 2,1 2,6
Viðskiptalöndin
2,5 2,8 3,1 2,7 2,3
Iðnríki
2,6 3,0 3,1 2,2 2,3
Bandaríkin
2,3 3,4 3,9 3,5     2,0
Evrópusambandið
2,5 1,7 2,7 2,9     2,6
Japan
1,5 3,9 0,8 2,3 0,6
Þróunarríki
6,0 6,6 5,8 -2,2 3,6
Umbreytingarlönd 2)
-1,3 -1,0 1,8 1,0 1,1
Rússland
-4,0 -5,0 0,4 -3,0 -3,0     
Asía
9,0 8,2 6,6 1,8 3,9
Alþjóðaviðskipti
9,0 6,8 9,7 3,9 4,9
Hráolíuverð
0,8 18,4 -5,4 -31,1 9,3
Verðbólga
Viðskiptalöndin
2,4 1,9 1,6 1,4 2,0
Iðnríki
2,5 2,4 2,1 1,7 1,7
Þróunarríki
21,7 13,4 8,5 10,3 8,3
Umbreytingarlönd
75,3 41,4 27,9 17,7 19,1
Vextir, LIBOR 3)
Bandaríkjadalir
5,6 5,6 5,9 5,7 5,7
Japönsk jen
0,7 0,7 0,7 0,7 0,6
Þýsk mörk
3,3 3,3 3,4 3,7 ...
Evra
... ... ... ... 3,7
1)     Hlutfallslegar breytingar frá fyrra ári nema annað sé tekið fram.
2)     Fyrrum Sovétríki og ríki Austur-Evrópu.
3)     Millibankavextir í London á innlánum til sex mánaða.
Heimild: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

    Góður hagvöxtur hefur verið í Bandaríkjunum á sjötta ár og talið er líklegt að toppi hagsveiflunnar sé náð. Verð á hlutabréfum í Bandaríkjunum hefur farið lækkandi, m.a. vegna ástandsins í Asíu, en einnig hefur orðið vart við minnkandi tiltrú framleiðenda þótt almennt ríki enn bjartsýni um framhaldið. Þróunin hefur verið með svipuðum hætti í Bretlandi og nokkrum smærri Evrópuríkjum. Í Bretlandi hefur iðnaðarframleiðslan haldist óbreytt í heilt ár og teikn eru á lofti um umtalsvert minni hagvöxt á næsta ári. Uppsveifla í öðrum Evrópu­ríkjum hófst síðar eða um mitt ár 1996 og horfur eru á svipuðum hagvexti í ár og næstu ár. Uppsveiflan í Evrópu hefur ekki verið eins kröftug og reiknað var með. Í Asíu hefur efna­hagsþróunin aftur á móti verið mjög óhagstæð og enn ekki útséð um hvort botni kreppunnar er náð.

Verðbólga og vextir.
    Vaxandi verðbólguhætta, sérstaklega í Bandaríkjunum, hefur verið ofarlega á baugi undanfarin missiri sérstaklega þar sem atvinnuleysið þar í landi er nú komið langt niður fyrir þau mörk sem áður var talið að samrýmdust stöðugu verðlagi. Reyndar má segja að lág verð­bólga hafi umfram annað einkennt núverandi uppsveiflu í Bandaríkjunum og í Evrópu. Áhrif minni hagvaxtar draga úr líkum á því að verðbólgan aukist í iðnríkjunum. Alþjóðagjaldeyris­sjóðurinn spáir því að verðbólgan í iðnríkjunum verði 1,7% á þessu og næsta ári, sem er umtalsverð lækkun frá fyrri spá. Verðbólga í umbreytingarríkjunum hefur hjaðnað verulega á undanförnum fimm árum og er nú komin undir 20%. Gera má ráð fyrir því að gjaldmiðlar þeirra landa sem mest verða fyrir barðinu á efnahagsþrengingunum veikist og leiði þar með til aukinnar verðbólgu í viðkomandi löndum.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að vextir í iðnríkjunum lækki um 0,4 prósentustig á þessu og næsta ári. Vaxtalækkunin samsvarar nokkurn veginn til þeirrar verðbólgulækk­unar sem reiknað er með, þannig að ekki er um raunvaxtalækkun að ræða.

Verðþróun á hrávörumörkuðum.
    Áhrifa efnahagserfiðleikanna í Asíu gætir mjög á hrávörumörkuðum. Verð á olíu hefur lækkað jafnt og þétt og hefur ekki verið lægra síðan 1986. Þetta hefur vissulega komið sér vel fyrir flest iðnríkin og haldið aftur af verðbólgu, en hefur aftur á móti skaðað ríki eins og Noreg og Rússland sem háð eru olíuútflutningi.
    Verð á málmum hefur einnig farið lækkandi um nokkurt skeið. Álverð hefur lækkað um 37% frá janúar 1995 þegar það var hvað hæst. Verðlækkunin var mjög hröð fram fram eftir þessu ári og hefur álverð á skyndimarkaðinum í London lækkað um 12,6% það sem af er árinu. Þessa miklu verðlækkun má rekja til minnkandi eftirspurnar í Asíulöndum í kjölfar efnahagsþrenginga þar. Framboð hefur ekki minnkað að sama skapi og birgðir því hlaðist upp.
    
Óvissar horfur.
    Þrátt fyrir að mjög hafi syrt í álinn í efnahagsmálum heimsins byggja spár alþjóðastofnana almennt á þeirri forsendu að það versta sé nú þegar að baki og smám saman skapist jafnvægi á ný. Reiknað er með því að fjármálakreppan í Asíu leysist á farsælan hátt og breiðist ekki út til annarra svæða. Þannig er búist við því að hagvöxtur glæðist í Japan strax á seinni hluta þessa árs. Einnig er búist við því að myntbandalag ESB hafi jákvæð áhrif og styrki efnahag aðildarlandanna. Að síðustu er gert ráð fyrir því að jafnvægi skapist í bandarísku efnahags­lífi án þess að peningayfirvöld þar í landi grípi til aðhaldsaðgerða.
     Gangi þetta eftir er vissulega rúm fyrir hóflega bjartsýni um efnahagshorfurnar í heim­inum á næstu árum. Margt getur þó farið úrskeiðis. Í fyrsta lagi er enn töluvert langt í land með að leysa þann mikla skipulagsvanda sem hrjáir fjármálastofnanir margra Asíulanda og liggur til grundvallar þeirri kreppu sem þar ríkir. Margt hefur þegar áunnist og lönd á borð við Suður-Kóreu og Tæland hafa þegar náð góðum árangri. En töluverður efnahagsvandi virðist blasa við í Japan. Peningayfirvöld hafa þegar slakað eins mikið á stefnunni og frekast er unnt og ríkisútgjöld hafa verið aukin stórlega. Engu að síður gengur erfiðlega að auka innlenda eftirspurn og koma hjólum efnahagslífsins af stað á ný.
    Kreppan í Rússlandi hefur einnig haft sitt að segja. Þótt vægi Rússlands sé ekki mikið í alþjóðaviðskiptum, eiga fjármálastofnanir á Vesturlöndum og í Asíu verulegra hagsmuna að gæta þar í landi. Þróunin í Rússlandi gefur einnig vísbendingu um að áhrifa Asíukreppunnar sé farið að gæta í öðrum heimshlutum.
    Mikil áhrif kreppunnar í Rússlandi á hlutabréfamarkaði í Evrópu og Bandaríkjunum komu ekki á óvart. Ljóst hefur verið um alllangt skeið að hátt verð hlutabréfa í iðnríkjunum gæti ekki staðist til lengdar og því mætti vænta þess að „leiðrétting“ mundi eiga sér stað fyrr en síðar. Hvort sú verður raunin hefur enn ekki komið í ljós, en ef af því verður má fastlega reikna með neikvæðum áhrifum, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem stærstur hluti einka­sparnaðarins er í hlutabréfum.
    Það ríkir því sannarlega óvissa um efnahagsmál heimsins um þessar mundir þar sem allir helstu áhættuþættirnir virðast leggjast á eitt um að dekkja myndina.

Fjármagnsmarkaður.
    Eins og undanfarin ár hefur markmið Seðlabankans í peningamálum verið stöðugt verðlag. Til þess að ná því markmiði hefur bankinn einkum miðað peningaaðgerðir sínar við gengi krónunnar, því reynslan sýnir að fast gengi veitir mikið aðhald að verðlagi. Aðhald bankans hefur fyrst og fremst komið fram í háum vöxtum og vaxtamun gagnvart útlöndum. Vöxtur helstu peningastærða og slök lausafjárstaða innlánsstofnana er hins vegar mikið áhyggjuefni.

Vextir.
    Vaxtamyndunin fer fram á tveimur mörkuðum; peningamarkaði og skuldabréfamarkaði. Ákvörðun vaxta innlána og útlána innlánsstofnana ræðst ekki með sama hætti á markaði. Hér verður fjallað um þróun þessara markaða og innbyrðis tengsl þeirra.
    Helstu tæki Seðlabankans til stjórnunar peningamála beinast að peningamarkaði, því við­skipti bankans við innlánsstofnanir fara einkum fram þar. Með peningamarkaði er átt við markað fyrir ríkisvíxla og bankabréf, sem eru til skamms tíma. Vextir á peningamarkaði fóru heldur lækkandi lengst af á síðasta ári, en í kjölfar aðgerða Seðlabankans í desember hækk­uðu skammtímavextir um 32 punkta og stóð þá ávöxtun þriggja mánaða ríkisvíxla í 7,22% miðað við kauptilboð. Ávöxtunin hækkaði í febrúar sl. og var í mánaðarlok 7,43%, en hefur síðan lækkað heldur og haldist á bilinu 7,25–7,3%.
    Sveiflur í ávöxtun á peningamarkaði tengjast m.a. lausafjárstöðu innlánsstofnana, því þær leita á þann markað er laust fé vantar og ávaxta fé þar til skamms tíma þegar lausafjárstaða er góð.
    Munur skammtímavaxta hér og í helstu viðskiptalöndum okkar var um 3% í ársbyrjun 1997. Munurinn lækkaði jafnt og þétt fram eftir ári í fyrra, er saman fóru hækkandi vextir erlendis og vaxtalækkun hér á landi. Með vaxtahækkun hér á landi í lok árs í fyrra jókst vaxtamunur á ný og hélst svo fram í febrúar. Erlendir skammtímavextir hafa þokast uppá við á þessu ári og vaxtamunurinn hefur minnkað og var í ágústbyrjun 2,57 prósentustig. Mælt á þennan kvarða virðist aðhald í peningamálum hafa farið minnkandi.
    Í byrjun september sl. ákvað Seðlabanki Íslands að hækka ávöxtun í endurhverfum við­skiptum sínum á uppboði um 0,3 prósentustig, þannig að hún verði 7,5% í stað 7,2%. Sam­svarandi hækkun var ákveðin á ávöxtun í viðskiptum Seðlabankans með ríkisvíxla sem skammt eiga eftir til innlausnar. Tilefni þessarar hækkunar er gjaldeyrisútstreymi og nokkur lækkun á gengi krónunnar að undanförnu. Með þessari vaxtahækkun ítrekar Seðlabankinn gengisstefnu sína.
    Ávöxtun verðtryggðra markaðsskuldabréfa lækkaði í fyrra um nálægt 1/ 2 prósentustig. Þessi þróun hélst fram eftir þessu ári. Í lok síðasta árs var ávöxtun húsbréfa um 5,3%, en var um miðjan maí um 4,84% og á sama tímabili lækkaði ávöxtun spariskírteina til 10 ára úr 5,3% í 4,7%. Ávöxtun skuldabréfa þokaðist uppá við í sumar og var ávöxtun húsbréfa komin í 5% um miðjan ágúst og ávöxtun 10 ára spariskírteina var um 4,9%. Síðari hluta ágúst og fyrri hluta september hefur ávöxtunin lækkað á ný og um miðjan september er ávöxtun húsbréfa 4,85% og 10 ára spariskírteina 4,75%.
    
Mynd 10. Skammtímavextir og vaxtamunur, %.
Vextir ríkisvíxla til þriggja mánaða.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Seðlabanki Íslands.

    Peningamarkaðurinn er sá hluti fjármagnsmarkaðar sem er langnæmastur fyrir markaðs­aðstæðum. Þetta er eðlilegt í ljósi þess að þar fara fram viðskipti með fjárskuldbindingar til afar skamms tíma. Vextir á skuldabréfamarkaði fylgja hins vegar peningamarkaðsvöxtum allvel. Það felur í sér að með aðgerðum sínum á peningamarkaði hefur Seðlabankinn áhrif á vaxtaþróun skuldabréfa.
    Ýmsir þættir móta út- og innlánsvexti innlánsstofnana. Vextir þeir sem Seðlabanki setur í viðskiptum við þessar stofnanir er einn slíkur þáttur auk peningamarkaðsvaxta. Markaðsað­stæður og þá ekki síst ávöxtun sem býðst annars staðar eru einnig afgerandi þættir. Innláns­stofnanir hafa kosið að vera varfærnar í vaxtabreytingum. Meðalvextir verðtryggðra útlána voru 9% í fyrra en hafa heldur þokast niður á við það sem af er ári og voru 8,7% í lok september. Meðalvextir óverðtryggðra skuldabréfalána hafa hins vegar verið óbreyttir um langt skeið, en lækkuðu niður í 12,9% í september. Með lækkandi verðbólgu hafa raunvextir þessara lána farið hækkandi og við verðbólgustigið um mitt ár voru þessir vextir ígildi 10,7% raunvaxta.
    Munur á raunávöxtun verðtryggðra bankalána og húsbréfa hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum tveimur árum. Í lok árs 1996 var raunávöxtun bankalána rúmum 3 prósentu­stigum hærri en húsbréfa, en munurinn var orðinn rúmlega 4 prósentustig í apríl sl. Á síðustu mánuðum hefur ávöxtun verðtryggðra bankalána hins vegar lækkað meira en húsbréfa og er munurinn nú rúm 3 prósentustig. Á skemmri endanum má bera saman ávöxtun víxillána og ríkisvíxla á peningamarkaði. Nafnávöxtun víxillána hækkaði verulega umfram ávöxtun ríkis­víxla árið 1996 og náði hámarki um mitt ár í fyrra, en frá þeim tíma hefur ávöxtun almennra víxla ekki hækkað í takt við ríkisvíxla og nemur munurinn nú 6,6 prósentustigum. Markaðs­vextir hafa því nokkur áhrif á vexti innlánsstofnana þótt aðrir þættir komi einnig inn í þá mynd.
    Aðhald Seðlabankans í peningamálum hefur einkum komið fram í háum vöxtum á pen­ingamarkaði og í aðhaldi að verðlagsmálum með gengisstefnunni. Þegar litið er á þróun pen­ingamálastærða blasir hins vegar við að mikill vöxtur er í umsvifum lánakerfisins.

Helstu stærðir peningamála.
Breyting, %.

Janúar–ágúst.

Ágúst–ágúst.

1996–97 1996–97 1997–98 1996–97 1997–98
Innlán og verðbréf 12,0 9,3 16,0 11,0 18,4
Innlán
9,3 6,4 14,1 7,2 16,7
Verðbréfaútgáfa
27,1 25,4 25,6 32,8 26,4
Útlán og markaðsverðbréf
17,0 8,5 14,8 15,5 23,1
Útlán
13,0 6,2 10,8 12,3 17,5
Markaðsbréf
62,5 38,1 48,1 60,0 73,1
Peningamagn
M2
3,2 4,0 19,2 0,9 17,8
M3
9,2 6,1 13,6 7,2 16,3
M4
11,8 9,0 15,6 10,9 18,0
Endurlánað erlent lánsfé
33,2 26,6 18,1 65,1 24,3

    Útlán innlánsstofnana hafa vaxið mjög hratt að undanförnu. Á 12 mánuðum til ágústloka jukust útlán þeirra um 17,5%, en vöxturinn er enn meiri eða 23% þegar markaðsverðbréfum er bætt við. Flestir kvarðar peningamagns sýna 16–18% hækkun. Þetta er meiri hækkun en að öðru jöfnu samrýmist lágri verðbólgu og stöðugleika. Þegar þessar tölur eru metnar þarf þó að hafa í huga áhrif opnunar fjármagnsmarkaða og ýmsar kerfislægar breytingar. Þannig hefur reynsla annarra Norðurlanda verið svipuð okkar að opnun markaða leiðir til aukins vaxtar peningamagns og útlána.
    
Fyrirtæki hafa í ríkum mæli greitt upp lán í íslenskum krónum með erlendum lánum. Með þeim hætti hafa þau sparað verulega í fjármagnskostnaði, því auk lægri vaxta hafa þau notið umtalsverðs gengishagnaðar. Þetta kemur fram í töflunni að ofan í miklum vexti á endur­lánuðu erlendu lánsfé. Taflan segir þó ekki nema hluta sögunnar því undan er skilinn Fjár­festingarbanki atvinnulífsins sem er umsvifamikill miðlari erlends lánsfjár. Minni vaxtamun­ur á þessu ári er nærtæk skýring þess að hægt hefur á aukningu á innstreymi erlends lánsfjár. Erlendu lánunum er auðvelt að breyta yfir í íslensk lán og fyrirtækin eru afar vör um sig gagnvart breytingum á vaxtamun og gengi.

Gengi.
    Aðgerðir Seðlabanka fara einkum fram á peningamarkaði og með þeim hætti hefur bank­inn mikil áhrif á vaxta- og gengisþróunina. Náin tengsl hafa verið á milli vaxtamunarins ann­ars vegar og gengisþróunar krónunnar hins vegar á síðustu árum. Þannig leiðir hækkun vaxta á peningamarkaði til þess að gengi krónunnar hækkar. Það hefur að öðru jöfnu í för með sér að innflutningur verður ódýrari og eftirspurn eftir honum eykst. Á móti kemur að vaxtahækk­un dregur úr eftirspurn.

Mynd 11. Vísitala gengisskráningar.
31. desember 1991=100.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



    Seðlabankinn hefur um nokkurra ára skeið fylgt sveigjanlegri fastgengisstefnu. Bankinn sér til þess að halda genginu innan tiltekinna vikmarka, sem eru 6% í hvora átt frá miðgengi. Viðmiðunin er gengisskráningarvísitalan sem byggð er á hlutdeild gjaldmiðla í utanríkisvið­skiptum landsmanna. Á þann kvarða hefur meðalgengi krónunnar hækkað um 1,6% frá árs­byrjun til ágústloka. Formlegum millibankamarkaði var komið á í júlí í fyrra og hafa við­skipti á honum vaxið stórlega og veltan á fyrri hluta árs nam um 220 milljörðum króna. Með tilkomu markaðarins hafa sveiflur í gengi krónunnar aukist sem vonlegt er, því gengið verður næmara fyrir breytingum á framboði og eftirspurn.

Hlutabréfamarkaður.
    Þótt mörg íslensk fyrirtæki hafi verið rekin sem hlutafélög í áratugi og hlutir í þessum félögum gengið kaupum og sölum, þá var markaðurinn lítt virkur og mikil óvissa var um markaðsvirði hlutanna. Fátítt var að fyrirtæki öfluðu fjár með útgáfu nýrra hlutabréfa. Á þessum áratug hefur þetta breyst mikið. Nú eru 51 fyrirtæki skráð á aðallista Verðbréfaþings Íslands (VÞÍ) og var markaðsvirði hlutabréfa þeirra 176 milljarðar króna í lok ágúst sl.
    Undanfarin ár hefur hlutafjármarkaðurinn vaxið mjög hratt. Árið 1993 seldu fyrirtæki á VÞÍ nýtt hlutafé fyrir tæpan milljarð króna og veltan á eftirmarkaði fyrir bréf í sömu fyrir­tækjum var rúmlega milljarður. Á árinu 1997 öfluðu fyrirtæki og sjóðir sem skráð voru á VÞÍ 17 milljarða króna með sölu nýs hlutafjár en veltan á eftirmarkaðinum nam 16,7 millj­örðum. Á árinu 1998 hafa orðið mikil umskipti á markaðinum. Á fyrstu 8 mánuðum þessa árs hefur ekkert nýtt hlutafé verið gefið út, en á sama tíma á árinu 1997 var nýtt hlutafé selt fyrir 11 milljarða. Á sama tíma dróst velta á eftirmarkaði mikið saman, eða úr 12 milljörðum króna í 7,5 milljarða.
    Miklar sveiflur hafa verið í verði hlutabréfa á undanförnum árum. Verð bréfa í fyrirtækj­um á aðallista VÞÍ hækkaði um 35% á árinu 1995 og enn um 60% á árinu 1996 enda var af­koma fyrirtækjanna mjög góð á þessum tíma. Framan af árinu 1997 hækkaði verðið enn, en umskipti urðu á síðari hluta ársins er verð tók að lækka. Verðið hélt áfram að lækka á fyrstu mánuðum þessa árs, en hefur hækkað aftur undanfarna mánuði. Frá áramótum til seinni hluta september hækkaði verð hlutabréfa í fyrirtækjum á aðallista VÞÍ um 3,4%, en svonefnd Úrvalsvísitala, sem tekur til 15 stórra fyrirtækja, hækkaði um 9,7% á sama tíma. Í kjölfar þessara hækkana hafa viðskipti með hlutafé glæðst nokkuð.
    Samkæmt skattframtölum áttu 44.500 manns hlutabréf í lok árs í fyrra og fjölgaði þeim um 10% frá árinu áður. Undanfarin 5 ár hefur þeim sem telja fram hlutabréf fjölgað um 50%. Þá má og nefna að 18.500 manns notfærðu sér heimild til frádráttar vegna hlutabréfakaupa á síðasta ári. Hlutabréfaeign er því orðin býsna almenn.

Utanríkisviðskipti og greiðslujöfnuður.

Umhverfi utanríkisviðskipta.
    Ytri skilyrði þjóðarbúsins eru með hagstæðara móti um þessar mundir. Raungengi krón­unnar er lágt í sögulegu samhengi, viðskiptakjörin hafa farið batnandi og uppsveifla ríkir í viðskiptalöndum í Evrópu og Ameríku. Fyrirtæki í útflutnings- og samkeppnisgreinum búa því þegar á heildina er litið við hagstætt samkeppnisumhverfi, enda þótt hækkun raungengis undanfarin ár hafi þrengt nokkuð að þeim.
    
Mynd 12. Raungengi krónunnar.
Vísitölur 1990=100.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



Heimild: Seðlabanki Íslands.

    Raungengi krónunnar miðað við hlutfallslegt verðlag náði lágmarki árið 1994 og stóð síðan því sem næst í stað þar til á síðasta ári að það fór að mjakast upp á við. Framhald hefur orðið á þeirri þróun á þessu ári og er gert ráð fyrir að raungengið hækki um 3% frá ársbyrjun til ársloka og um 2,4% milli ára. Á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar hefur raungeng­ið þróast með svipuðum hætti, en hækkunin að undanförnu er þó meiri, þar sem launakostn­aður hér á landi hefur hækkað töluvert umfram það sem gerst hefur í samkeppnislöndunum síðastliðin tvö ár.
    Rétt er að undirstrika mikilvægi raungengisins sem mælikvarða á stöðu efnahagsmála á hverjum tíma. Fyrir hagkerfi sem er jafnháð utanríkisviðskiptum og það íslenska skiptir kaupmáttur gjaldeyrisins á erlendum mörkuðum gífurlega miklu. Í hækkun raungengis felst að verðlag innfluttrar vöru og þjónustu lækkar hlutfallslega miðað við verðlag innan lands og leiðir því, að öðru óbreyttu, til vaxandi innflutningseftirspurnar. Á sama hátt dregur hækkun raungengisins úr tekjum útflutningsfyrirtækja í íslenskum krónum, sem að öðru óbreyttu leiðir til lakari afkomu.
    Á meðan gengi krónunnar laut beinni stjórn yfirvalda án tengsla við innlendan gjaldeyris­markað var það ákveðið með tilliti til afkomu útflutningsfyrirtækja eða viðskiptajafnaðarins og þessar tvær stærðir mörkuðu raungenginu viðmiðunarmörk. Eftir að fjármagnsmarkaður­inn opnaðist og gengi krónunnar fór að ráðast af framboði og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði er annað uppi á teningnum. Gengi krónunnar er ekki lengur efnahagsleg stýristærð með sama hætti og áður heldur ræðst það fyrst og fremst af aðstæðum á fjármagnsmarkaði, væntingum fyrirtækja og einstaklinga og aðgerðum Seðlabankans. Aðhaldssöm stefna Seðlabankans í peningamálum hefur komið fram í umtalsverðum mun á vöxtum hér á landi og í helstu við­skiptalöndum og hækkun á gengi krónunnar.
    Annar mikilvægur þáttur sem mótar skilyrði utanríkisviðskiptanna er þróun viðskipta­kjaranna. Viðskiptakjörin mæla hlutfallslega verðþróun útflutnings og innflutnings og ná því bæði til markaðsverðs í viðskiptalöndunum og innbyrðis þróunar gengis einstakra gjaldmiðla sem tengjast utanríkisviðskiptunum.
    Þegar á heildina er litið hafa viðskiptakjörin breyst mjög til hins betra það sem af er ári. Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hækkaði verð almenns útflutnings, mælt í íslenskum krónum, um 8% og á sama tíma lækkaði verð almenns innflutnings um 1,5%. Viðskiptakjör þjóðar­búsins hafa því batnað um 91/ 2% á þessu tímabili. Að baki þessari hagstæðu þróun liggja tvær meginskýringar. Annars vegar hefur verðlag sjávarafurða hækkað á erlendum mörkuðum og hins vegar hefur olíuverð lækkað á heimsmarkaði.
    
Frá miðju ári í fyrra hefur verð á sjávarafurðum hækkað jafnt og þétt. Í ágúst sl. var verðið 17,3% hærra en það var í júlí 1997 mælt í SDR en 13,9% hærra mælt í íslenskum krónum. Þessar verðhækkanir ná til flestra sjávarafurða, þó í mismiklum mæli. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs var verð á sjávarafurðum 11,5% hærra en það var á sömu mánuðum ársins 1997, verð á landfrystum botnfiskafurðum var 7,9% hærra, verð á sjófrystum botnfiskafurðum var 2,6% hærra, verð á saltfiski var 6,7% hærra, verð á pillaðri rækju var 10,5% hærra, verð á skelrækju 3,9% hærra, verð á mjöli og lýsi var 29% hærra og verð á hörpudiski var 38% hærra.
    Ástæður þessara verðhækkana eru að eftirspurn hefur aukist og framboð minnkað. Mark­aðir í Vestur-Evrópu hafa leitt þessar miklu hækkanir, en aðrir markaðir hafa fylgt á eftir. Verð á Asíumarkaði hefur hins vegar verið tiltölulega óhagstætt. Því veldur gengislækkun japanska jensins og fleiri mynta í Asíu, en ekki eru líkur á að efnahagskreppan leiði til um­talsverðrar minnkunar fiskneyslu í þessum heimshluta.
    Verð á rækju hefur verið nokkuð stöðugt undanfarna mánuði. Sama má segja um verð á mjöli og lýsi, en verð á þessum afurðum er mjög hátt vegna aukinnar eftirspurnar frá fisk­eldisfyrirtækjum og vegna minna framboðs frá Suður-Ameríku þar sem veiðar eru í lágmarki vegna heitsjávarstraumsins sem kenndur er við El Niñjo. Ekki er ljóst hvenær vistkerfi hafs­ins undan vesturströnd Suður-Ameríku kemst í samt lag aftur en venjulega hefur það tekið um tvö ár.
    Verð á botnfiskafurðum hefur hækkað mikið undanfarna mánuði og er enn að hækka. Þrátt fyrir þessar hækkanir var raunverð botnfisks m.v. neysluvöruverðlag í helstu iðnríkjunum 8,7% lægra í ágúst en það var að meðaltali á árinu 1992 og 15,5% lægra en það var að meðaltali á metárinu 1991. Slæmar horfur varðandi afla í Barentshafi valda því að líklegt er að framboð á þorski muni minnka á næstunni. Erfitt er að spá um framboð á öðrum teg­undum botnfisks. Ólíklegt er að framboð á veiddum fiski aukist, en líklegt er að framboð á eldisfiski muni aukast, þótt óvíst sé hversu mikil sú aukning verður. Mikil óvissa er varðandi eftirspurnina vegna óvissu um framhald efnahagskreppunnar í Austur-Asíu og í Rússlandi og möguleg áhrif hennar á efnahagslíf Vesturlanda. Ef Japan er undanskilið þá er vægi þess­ara markaða í útflutningi sjávarafurða frá Íslandi frekar lítið. Hins vegar gætu þessir mark­aðir haft veruleg óbein áhrif á útflutning íslenskra sjávarafurða ef minni fiskneyslu fylgir aukning framboðs á mikilvægum mörkuðum Íslendinga í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Enn eru þó engar vísbendingar um að slíkt muni eiga sér stað.
    Þjóðhagsstofnun spáir því að verð á sjávarafurðum verði 8,8% hærra á þessu ári en það var á árinu 1997 og að verðið hækki í takt við almennt verðlag í helstu viðskiptalöndunum á næsta ári.

Mynd 13. Verðlag sjávarafurða í SDR 1990–98.
Vísitala 1990=100.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



    Lágt verð á olíu hefur einnig haft jákvæð áhrif á þróun viðskiptakjaranna, en allt frá því á seinni hluta árs 1996 hefur heimsmarkaðsverð á olíu farið lækkandi og er nú svo komið að verð á olíu hefur ekki verið lægra í 12 ár.
    Verð á áli og kísiljárni hefur lækkað að undanförnu sem að töluverðu leyti á rót sína að rekja til efnahagserfiðleikanna í Asíu og er vart við því að búast að verð hækki á ný á allra næstu missirum.
    Áhrif gengisbreytinga í viðskiptalöndunum á viðskiptakjörin hafa verið óveruleg á þessu ári en þó jákvæð. Gengishækkun Bandaríkjadals gagnvart Evrópumyntum og japönsku jeni hefur bætt kjörin vegna þess að dalurinn vegur þyngra í útflutningi en innflutningi.
    Forsendur þjóðhagsáætlunar um þróun viðskiptakjaranna byggja á óbreyttum gengis­afstæðum milli mynta og því að markaðsverðlag í viðskiptalöndunum á út- og innflutningi fylgi að mestu almennri verðlagsþróun erlendis. Þó er gert ráð fyrir áframhaldandi verðlækk­un á kísiljárni og að raunverð á áli lækki lítillega. Samkvæmt því batna viðskiptakjörin um 6,6% á þessu ári en versna á því næsta um 0,3%.

Vöruútflutningur.
    Fyrstu sjö mánuði þessa árs voru fluttar út vörur fyrir 78,6 milljarða króna en 76,3 millj­arða á síðasta ári. Þessi litla verðmætisaukning í vöruútflutningi á þessu ári á sér nokkrar skýringar. Mestu munar um samdrátt í útflutningi sjávarafurða sem á þessu tímabili nam 6%. Að verulegu leyti má rekja þessa þróun til útflutnings á síldar- og loðnuafurðum sem er þriðjungi minni að magni á fyrri hluta ársins en á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn í öðrum greinum sjávarútvegs er minni en engu að síður umtalsverður, sérstaklega í frystingu, en þar hefur útflutningurinn minnkað um 5% að magni fyrstu sjö mánuði ársins.
    Í almennum iðnaði hefur einnig dregið úr útflutningi auk þess sem verðþróun á útflutn­ingsmörkuðum hefur ekki verið jafnhagstæð og í sjávarútvegi. Þannig dróst útflutningur á almennum iðnaðarvörum saman um tæp 9% að magni fyrstu sjö mánuði ársins. Svo er að sjá sem flestar greinar eigi við samdrátt að stríða, hvort sem um er að ræða sjávarútveg eða iðnað honum tengdum. Mikilvæg undantekning er álframleiðsla. Aukin framleiðslugeta í Straumsvík er nú að koma fram af fullum þunga og verksmiðja Norðuráls er að hefja fram­leiðslu. Fyrstu sjö mánuði ársins jókst útflutningur áls um fjórðung að magni.
    Auk samdráttar í sjávarútvegi og almennum iðnaði hefur sitt að segja að á fyrri hluta síð­asta árs námu tekjur af sölu á skipum og flugvélum 31/ 2 milljarði króna en tæpum milljarði á þessu ári.
    Áætlun fyrir árið í heild gerir ráð fyrir því að útflutningsframleiðsla sjávarafurða dragist saman um 2% á föstu verði. Sú áætlun byggist á þeirri forsendu að loðnuaflinn dragist saman um tæp 13%, en þorskaflinn aukist um 15%. Á móti samdrætti í framleiðslu vegur hækkun á verði sjávarafurða og er gert ráð fyrir að útflutningstekjur af sjávarafurðum aukist um tæpa 6 milljarða króna á þessu ári og verði rúmir 95 milljarðar króna. Aukin álframleiðsla skilar umtalsvert meiri tekjum í þjóðarbúið og má reikna með að magnaukningin verði um 45%. Rétt er þó að hafa í huga að innflutningur rekstrarvara eykst einnig þannig að ekki er um hreinan tekjuauka að ræða fyrir þjóðarbúið.
    Í heild er því spáð að útflutningsframleiðslan aukist um 4,5% milli ára. Minni tekjur af sölu á skipum og flugvélum og sú forsenda að útflutningsvörubirgðir standi í stað hafa í för með sér að horfur eru á að vöruútflutningurinn minnki um 3,7% að raungildi á þessu ári.
    Allt bendir til þess að á næsta ári muni útflutningur aukast verulega að magni til. Í fyrsta lagi hafa aflaheimildir verið auknar og er því spáð að framleiðsla sjávarafurða muni aukast um 3% milli ára. Í öðru lagi er fyrirsjáanleg aukning álframleiðslu, auk þess sem framleiðsla járnblendiverksmiðjunnar eykst þegar stækkun hennar lýkur snemma á næsta ári. Hvað annan útflutning varðar er einnig reiknað með aukningu þar sem áfram er búist við hagstæðum samkeppnisskilyrðum og vaxandi eftirspurn í viðskiptalöndunum. Að öllu samanlögðu felst í spánni fyrir næsta ár að útflutningsframleiðslan eykst um 8% og vöruútflutningurinn um 9% eftir að áætlanir um tekjur af sölu á skipum og flugvélum og birgðabreytingar hafa verið teknar með í reikninginn.
    
Vöruinnflutningur.
    
Það sem einkennir efnahagsþróunina umfram annað er hin mikla aukning innflutnings sem. átt hefur sér stað á þessu ári. Ekki einungis er heildaraukningin töluvert meiri en gert var ráð fyrir í fyrri áætlunum heldur kemur aukningin fram á því sem næst öllum sviðum. Tölur fyrir fyrstu sjö mánuði ársins gefa til kynna magnaukningu almenns vöruinnflutnings um 28,4% frá sama tíma í fyrra.

    Þegar tölur fyrir einstaka mánuði eru skoðaðar og bornar saman við tvö síðustu ár kemur í ljós að aukningin hefur verið stöðug allt þetta ár og bendir allt til að þróunin það sem eftir er ársins verði svipuð.

Mynd 14. Almennur vöruinnflutningur.
Vísitala 1990=100.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



    Þrátt fyrir mikla aukningu á öllum flokkum innflutnings skera fjárfestingarvörurnar sig verulega úr, en fyrstu sjö mánuði ársins jókst sá innflutningur um tæp 60% frá sama tímabili í fyrra. Í krónum talið er hér um 10 milljarða aukningu að ræða, þar af eru 4 milljarðar króna vegna innflutnings á skipum og flugvélum. Auk þess færði Hagstofan hluta af innflutningi vegna framkvæmda við álver Norðuráls í verslunarskýrslur 1998 þótt framkvæmdum við verksmiðjuna hafi að mestu verið lokið um síðustu áramót.
    Innflutningur rekstrarvara hefur einnig vaxið hröðum skrefum það sem af er árinu, að hluta vegna aukinnar framleiðslu í álverksmiðjum og aukins innflutnings á hráefni til fisk­vinnslu. Annar innflutningur rekstrarvara hefur aukist að magni til um 20%.
    Svipaða sögu er að segja um innflutning á neysluvörum. Eftirspurn eftir bifreiðum til einkanota er mikil og sama má segja um aðrar innfluttar neysluvörur. Sérstaklega hafa kaup á varanlegum neysluvörum, svo sem heimilistækjum, tekið mikinn kipp og gætir hér án efa aukinnar verðsamkeppni og breyttra viðskiptahátta á þessu sviði. Innflutningur á hálfvaran­legum og óvaranlegum neysluvörum hefur einnig aukist töluvert það sem af er ári.
    Mikil aukning innflutnings á þessu ári stafar af ýmsum samverkandi þáttum. Aukinn kaup­máttur heimilanna og vaxandi bjartsýni í þjóðfélaginu um áframhald á þeirri hagstæðu efna­hagsþróun sem nú ríkir skýrir að mestu aukna einkaneyslu, sem að hluta birtist sem aukin innflutningseftirspurn. Til viðbótar kemur að á undanförnum árum hafa heimilin haldið aftur af útgjöldum sínum á ýmsum sviðum, sérstaklega hvað varðar kaup á ýmsum varanlegum munum og tækjum. Þannig er hin mikla eftirspurn eftir einkabílum án efa að hluta komin til vegna lítillar endurnýjunar bílaflotans þar til fyrir nokkrum árum.

    Fjárfesting atvinnuveganna dróst verulega saman á árunum 1992–94. Hlutfall innflutnings í fjárfestingu hér á landi er fremur hátt og hefur verið á bilinu 40–50% en þó breytilegt frá einu ári til annars. Reynslan sýnir að þegar fjárfestingin fer vaxandi hækkar hlutfall innflutnings tímabundið. Þessu til viðbótar hafa miklar stóriðjuframkvæmdir haft í för með sér stór­aukinn innflutning. Á þessu ári má áætla að um 10 milljarða króna megi rekja beint til stór­iðju- og orkuframkvæmda, en það svarar til 6,3% af vöruinnflutningi. Í heild gerir spáin ráð fyrir rétt um 25% magnaukningu vöruinnflutnings sem felur í sér að í heild verði fluttar inn vörur sem nemur um 160 milljörðum króna flutt var inn fyrir rúma 130 milljarða króna á síðasta ári.
    Ekki er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu vöruinnflutnings á næsta ári. Þar vegur þyngst að spáð er töluverðum samdrætti í fjárfestingu. Einnig má reikna með að verulega dragi úr innflutningi á varanlegum neysluvörum sem vegið hafa þungt í vaxandi innflutnings­eftirspurn á þessu ári. Innflutningurinn á næsta ári dregst því saman að magni til um 1% en hækkar lítillega í krónum talið vegna áætlaðra verðhækkana milli ára.

Ferðaþjónusta.
    Mikil aukning hefur verið í fjölda erlendra ferðamanna það sem af er þessu ári. Á fyrstu átta mánuðum þess fjölgaði þeim um 14% miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta er meiri aukning en undanfarin ár, en á þessum áratug hefur hún verið að meðaltali 5–6% á ári. Gert er ráð fyrir komu um 227 þúsund erlendra ferðamanna í ár. Heildartekjur af erlendum ferða­mönnum voru 14% hærri á fyrri helmingi ársins en á sama tímabili í fyrra. Útgjöld erlendra ferðamanna hér innan lands gætu orðið rúmlega 14 milljarðar króna á árinu öllu og tekjur vegna fargjalda greiddum í erlendri mynt tæplega 11 milljarðar króna, sem er 11% hækkun að raungildi milli ára. Til samanburðar má nefna að árleg hækkun þessa tekjuliðar var að jafnaði 4% árin 1990–97.

Mynd 15. Fjöldi erlendra ferðamanna og gjaldeyristekjur.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu




Fjármagnshreyfingar.

    Samkvæmt tölum Seðlabankans styrktist gjaldeyrisforði bankans um 5,7 milljarða króna fyrstu sex mánuði ársins og var í lok tímabilsins 33,6 milljarðar. Beinar fjárfestingar er­lendra aðila og erlendar lántökur fyrirtækja og innlánsstofnana hérlendis skýra að mestu auk­ið innstreymi fjármagns. Á móti þessu vegur fjármagnsútstreymi vegna verðbréfakaupa inn­lendra aðila upp á 7,6 milljarða króna og 5 milljarða króna endurgreiðsla ríkissjóðs á erlend­um skuldum.

Atvinnuvegir.
Framleiðsla og framleiðni.
    Þegar fjallað er um framleiðslubreytingar eða hagvöxt í þjóðarbúskapnum á líðandi ári eða fyrir nýliðin ár hefur venjan verið sú að líta á útgjaldahlið þjóðarbúsins, þ.e. neyslu og fjárfestingu að teknu tilliti til vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd, og þannig hefur niður­staða fengist um framleiðsluna. Framleiðslan hefur því verið áætluð með óbeinum hætti. Hins vegar er einnig unnt að áætla hana með beinum hætti, þ.e. að áætla framleiðslubreyting­ar í einstökum atvinnugreinum líkt og gert er í framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga. Gall­inn við þessa aðferð er hins vegar sá að upplýsingar um einstakar atvinnugreinar liggja mun seinna fyrir en um útgjöldin. Miðað við núverandi tilhögun skýrslusöfnunar er það ekki fyrr en lokið er úrvinnslu úr ársreikningum fyrirtækja að fá má mynd af framleiðslubreytingum eftir einstökum atvinnugreinum og framleiðslunni í heild. Á grundvelli ýmissa annarra vís­bendinga, svo sem um útflutning og veltubreytingar samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum, má þó fara nokkuð nærri um þróun helstu atvinnuvega. Í eftirfarandi töflu er leitast við að áætla framleiðsluna eftir atvinnugreinum og eru niðurstöður bornar saman við útgjaldahlið.

Áætlaðar framleiðslubreytingar eftir atvinnugreinum.
Frá fyrra ári, %.
Áætlun Spá
1996 1997 1998
Landbúnaður
3,9 0,0 1,0
Fiskveiðar og -vinnsla
8,5 -3,2 -0,7
Iðnaður án fiskvinnslu
8,5 3,0 5,1
Rafmagns-, hita- og vatnsveitur
1,0 6,5 8,0
Byggingarstarfsemi
14,1 14,2 20,0
Verslun, veitinga- og hótelrekstur
6,0 6,5 9,0
Samgöngur og önnur þjónusta
6,9 6,2 3,6
Starfsemi hins opinbera
1,0 2,6 3,0
Samtals
6,3 4,4 5,2
Til samanburðar:
Magnbreyting landsframleiðslu
5,6 4,4 5,2
Aukning vinnuafls
2,3 1,7 2,1
Framleiðnibreyting
3,2 2,6 3,0

    Þegar á heildina er litið hefur landsframleiðslan vaxið um 41/ 251/ 2% þessi ár. Þetta er mun meiri vöxtur en verið hefur hérlendis um langt árabil og einnig langt yfir meðaltali OECD- ríkjanna þessi sömu ár, sem er 2¾%. Á sama tíma er talið að vinnuafl hafi aukist nokkuð en þó mun minna. Þetta hefur leitt til umtalsverðrar framleiðniaukningar og má ætla að þessi þrjú ár verði hún tæp 3% að meðaltali.

Hlutdeild einstakra atvinnugreina í hagvexti, %.
Áætlun      Spá
1996 1997 1998
Landbúnaður
0,1 0,0 0,0
Fiskveiðar og -vinnsla
1,2 -0,5 -0,1
Iðnaður án fiskvinnslu
1,0 0,4 0,6
Rafmagns-, hita- og vatnsveitur
0,0 0,3 0,4
Byggingarstarfsemi
0,9 1,0 1,6
Verslun, veitinga- og hótelrekstur
0,8 0,9 1,2
Samgöngur og önnur þjónusta
2,1 1,9 1,1
Starfsemi hins opinbera
0,2 0,4 0,5
Samtals
6,3 4,4 5,2

    Vöxturinn er misjafn eftir greinum og í ljós kemur að á árunum 1996 og 1997 óx fram­leiðslan mest í byggingarstarfsemi og samgöngum. Fyrra árið varð aukningin einnig drjúg í sjávarútvegi og iðnaði en aftur á móti dróst framleiðsla sjávarútvegs saman á árinu 1997. Á árinu 1998 er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti í byggingariðnaði en einnig er reiknað með talsverðum vexti í orkuframleiðslu og iðnaði, öðrum en fiskiðnaði. Þá er áætlað að tals­verður vöxtur verði í verslun og ýmsum öðrum þjónustugreinum.
    Út frá þessum tölum og vægi einstakra atvinnugreina í landsframleiðslu má fá nokkra hug­mynd um framlag einstakra atvinnugreina til aukningar landsframleiðslunnar þessi ár.
    Samkvæmt þessu virðist mega rekja um þriðjung hagvaxtarins á árinu 1996 til iðnaðar, fiskiðnaðar og orkubúskapar en á árinu 1998 standa þessar greinar einungis undir um sjötta hluta vaxtarins. Ætla má að rekja megi um helming hagvaxtarins á árinu 1998 til byggingar­starfsemi og verslunar.

Afkoma.
    Þjóðhagsstofnun hefur tekið saman bráðabirgðauppgjör fyrir afkomu alls atvinnurekstrar í landinu árið 1996. Uppgjörið nær til sömu atvinnugreina og ársreikninga- og atvinnuvega­skýrslur Þjóðhagsstofnunar. Þá er í reynd átt við atvinnureksturinn, en undanskilin er starf­semi hins opinbera og starfsemi samtaka og velferðarstofnana. Starfsemi banka og trygginga­félaga er meðtalin en aftur á móti ekki fjárfestingarlánasjóðir. Áætlun hefur einnig verið gerð fyrir árið 1997 og hún framreiknuð til 1998. Jafnframt eru settar fram vísbendingar um afkomuna á árinu 1999. Af augljósum ástæðum verða niðurstöður því ótraustari sem fjær dregur frá þeim tíma sem grunnefnið nær til.

Rekstraryfirlit 2.916 fyrirtækja 1997.

Hagnaður af
              reglulegri starfsemi

Fjöldi fyrirtækja Rekstrar­tekjur, m.kr.
m.kr.
% af tekjum
Sjávarútvegur
332 56.272 860 1,5
Iðnaður
713 45.024 809 1,8
Stóriðja og orkubúskapur
6 36.473 5.868 16,1
Verslun
663 104.039 1.937 1,9
Samgöngur
159 60.325 3.104 5,1
Peningastofnanir og tryggingar
48 32.480 6.377 19,6
Þjónusta
995 19.975 774 3,9
Samtals
2.916 354.588 19.730 5,6

    Áætlunin fyrir 1997 byggist á ársreikningaefni fyrirtækja eins og áður en þó er sá munur á að skattyfirvöld eru nú að taka í notkun nýtt staðlað skattframtal rekstraraðila. Hér er um að ræða nýja heimild sem að verulegu leyti mun leysa af hólmi þær úrtaksathuganir úr árs­reikningum fyrirtækja sem Þjóðhagsstofnun hefur gert um langt árabil. Vegna þessa nýja framtals hefur framtalsfrestur fyrirtækja verið lengdur og setur það mark sitt á það efni sem nú er tiltækt. Enn sem komið er liggja aðeins fyrir niðurstöður úr reikningum 2.481 fyrir­tækis á þessu formi. Paraður samanburður við fyrri ár liggur ekki fyrir og verður því að nota þessa heimild með nokkrum fyrirvara. Auk staðlaða skattframtalsins er einnig byggt á árs­skýrslum 29 fyrirtækja af þeim sem eru á Verðbréfaþingi Íslands og á skýrslum bankaeftirlits Seðlabankans um rekstur innlánsstofnana og Vátryggingaeftirlitsins um tryggingafélög. Einnig hefur verið byggt á ársreikningum nokkurra stórfyrirtækja og 344 reikningum einstak­lingsfyrirtækja sem ekki er enn skylt að skila skattframtali sínu á hinu nýja formi. Alls er hér um að ræða ársreikninga 2.916 fyrirtækja. Samandregnar niðurstöður úr þessu efni koma fram í meðfylgjandi yfirliti.
    Ætla má að þessi 2.916 fyrirtæki nái til rösklega 40% af umsvifum atvinnurekstrarins í heild. Hér er því um að ræða stórt úrtak sem telja verður að gefi allgóða mynd af rekstrar­niðurstöðum ársins 1997 í einstökum atvinnugreinum. En þótt úrtakið sé stórt gefur það ekki rétta mynd af vægi einstakra atvinnugreina og er því nauðsynlegt að gefa atvinnugreinunum vægi miðað við áætluð heildarumsvif í hverri grein. Ef það er gert benda þessar tölur til þess að hreinn hagnaður í heild sé rétt innan við 4% í stað 5,6% eins og bein samlagning úrtaks­fyrirtækjanna sýnir.
    Til þess að fá nokkra mynd af afkomuþróuninni á árinu 1998 hefur Þjóðhagsstofnun tekið saman yfirlit yfir afkomu 45 fyrirtækja á Verðbréfaþingi Íslands fyrstu sex mánuði ársins 1998 og til samanburðar sama tímabil 1997.

Rekstraryfirlit 45 fyrirtækja á Verðbréfaþingi Íslands.
Janúar til júní 1997–98.

Hagnaður af
              reglulegri starfsemi

Fjöldi fyrirtækja Rekstrar-tekjur, m.kr.
m.kr.
% af
                   tekjum
Sjávarútvegur
1997
9 14.208 557 3,9
1998
9
14.083 1.226 8,7
Iðnaður
1997
10 9.207 700 7,6
1998
10 9.290 439 4,7
Verslun
1997
9 25.726 534 2,1
1998
9 28.336 546 1,9
Samgöngur
1997
3 19.280 -792 -4,1
1998
3 20.996 -1.096 -5,2
Peningastofnanir og tryggingar
1997
10 3.754 1.452 38,7
1998
10 3.817 1.228 32,2
Þjónusta
1997
4 1.748 58 3,3
1998
4 2.563 136 5,3
Samtals
1997
45 73.924 2.509 3,4
1998
45 79.085 2.478 3,1

    Þegar á heildina er litið er afkoma þessara 45 fyrirtækja eilítið lakari fyrstu sex mánuði þessa árs en á sama tímabili árið áður. Aftur á móti er breytingin nokkuð misjöfn eftir grein­um. Þannig kemur í ljós að afkoma sjávarútvegs batnar verulega og hreinn hagnaður hans af reglulegri starfsemi vex úr 3,9% í 8,7%. Meginhluta þessa bata má rekja til lægri fjár­magnskostnaðar sem verður óvenju lágur á fyrri hluta þessa árs og þá einkum vegna gengis­hækkunar krónunnar á þessum tíma. Aftur á móti versnar hagur iðnaðar um tæp 3% af tekj­um.
    Af því sem hér hefur verið rakið má sjá að mynd af afkomuþróuninni á árinu 1997 er feng­in úr ýmsum áttum og að því er staðlaða skattframtalið varðar þá eru ekki tiltækar saman­burðartölur við fyrra ár. Því hefur verið gripið til þess ráðs að áætla heildarafkomuna árið 1997 líkt og áður hefur verið gert með því að byggja á þróun heildarstærða eins og hagvaxt­ar, launa og verðlags og framreikna síðan þær niðurstöður til ársins 1998 og 1999 á forsend­um þjóðhagsáætlunar.
    Niðurstöður þessara áætlana fyrir atvinnureksturinn í heild 1996–98 eru sýndar í með­fylgjandi töflu en þar kemur meðal annars fram að þessar aðferðir við mat á heildarafkom­unni 1997 gefa mjög áþekka niðurstöðu og reikningaefnið fyrir árið 1997 sýnir eftir að það hefur verið endurvegið.
    
Lauslegt mat á hagnaði atvinnurekstrar 1996–98.
Milljarðar króna.
Áætlun     Spá          %-breytingar
1996 1997 1998 1996–97     1997–98
Rekstrartekjur 794,6 857,6 949,6 7,9 10,7
– Aðföng
532,7 574,9 636,6 7,9 10,7
= Vergar þáttatekjur
261,9 282,7 313,0 7,9 10,7
    Laun og eigin laun
181,1 194,1 216,0 7,2 11,3
    Afskriftir
41,4 43,6 47,6 5,3 9,1
    Vextir
11,9 12,0 13,5 0,8 12,5
Hreinn hagnaður fyrir tekju- og eignarskatta

27,5

33,0

35,9

19,9

    8,9
    % af rekstrartekjum
3,5 3,8 3,8
Eigið fé í atvinnurekstri í árslok
340,0 370,0 410,0
Arðsemi eigin fjár
5,6 6,1 6,1

    Vert er að leggja áherslu á að spáin 1998 byggist á lauslegu mati. En á grundvelli þessarar spár og sambærilegum tölum fyrri ára má ætla að á heildina litið sé hagur atvinnurekstrarins um þessar mundir mjög áþekkur því sem verið hefur undanfarin ár. Hreinn hagnaður á árinu 1998 er nú áætlaður tæplega 4% af tekjum en þá er eftir að taka tillit til tekjuskatta og eignarskatta. Í fjárhæðum nemur hagnaðurinn tæplega 36 milljörðum króna. Undanfarin þrjú ár, 1995–97, hefur hagnaðurinn yfirleitt verið á bilinu 31/ 2–4% af tekjum.
    Annar mælikvarði á afkomu atvinnurekstrar er hagnaðurinn í hlutfalli af eigin fé, það er arðsemi eigin fjár, eftir greiðslu tekju- og eignarskatta. Arðsemin á árinu 1998 er nú áætluð 6% eða svipuð og á árunum 1995 og 1997 en litlu meiri en árið 1996. Til samanburðar má geta þess að arðsemin reyndist um 41/ 2% á árinu 1994.

Mynd 16. Hreinn hagnaður og arðsemi eigin fjár.
Hagnaður í hlutfalli af tekjum og arðsemi í hlutfalli af eigin fé,%.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



    Á grundvelli helstu niðurstaðna úr þjóðhagsáætlun fyrir 1999 má fá nokkra mynd af lík­legri afkomu atvinnurekstrar á næsta ári. Niðurstöður þessara áætlana benda til þess að hagnaður atvinnurekstrarins geti orðið litlu lakari en hann er áætlaður í ár eða 31/ 2% af tekjum á næsta ári samanborið við tæp 4% í ár.
    Þær afkomuáætlanir sem hér hefur verið lýst má einnig nota til þess að meta greiðsluaf­komu atvinnurekstrarins, það er að segja hverju atvinnureksturinn skilar til fjárfestinga. Greiðsluafkomuna má skilgreina sem hreinan hagnað að viðbættum afskriftum en að frá­dregnum tekju- og eignarsköttum. Ætla má að á árinu 1997 hafi greiðsluafkoman verið já­kvæð um 77 milljarða króna og að sú fjárhæð hafi staðið undir öllum fjárfestingum atvinnu­rekstrarins á árinu auk tekju- og eignarskatta þannig að í heild hafi atvinnureksturinn ekki þurft að auka skuldir sínar til þess að fjármagna fjárfestingar. Á árinu 1998 er myndin nokk­uð önnur því nú er talið að skuldaaukningin verði 18 til 20 milljarðar króna. En þá ber þess að geta að stóriðjuframkvæmdir vega þungt í fjárfestingum ársins og nema álíka hárri fjár­hæð en þær eru fjármagnaðar með sérstökum lántökum eða framlögum eigenda. Spár fyrir árið 1999 benda til mun minni fjárfestingar í atvinnurekstrinum og því muni skuldir hans lítið sem ekkert aukast þegar á heildina er litið.
    Vert er að leggja áherslu á að það mat á rekstrar- og greiðsluafkomu atvinnurekstrar í heild sem hér hefur verið lýst dylur afkomumun milli greina. Ekki er við öðru að búast en að verulegur munur verði áfram milli einstakra atvinnugreina eins og niðurstöður ársreikninga 1997 sýna og lýst er hér að framan. Þannig má ætla að á árinu 1998 muni afkoma samkeppn­isiðnaðar versna frá fyrra ári bæði vegna mikilla launahækkana en einnig vegna aukinnar samkeppni erlendis frá vegna hækkunar raungengis. Vísbendingar frá Samtökum iðnaðarins um afkomu greinarinnar renna nokkrum stoðum undir þetta. Þessi munur á ekki síður við um greiðsluafkomuna og er því ekki við öðru að búast en að fjármunamyndun ársins í ýmsum atvinnugreinum verði mætt með aukningu skulda umfram það sem heildaráætlanir af þessu tagi gefa til kynna.

Laun og hagnaður.
    Hér að framan hefur hag atvinnurekstrarins verið lýst með hefðbundnum hætti, þ.e. líkt og fyrirtækin setja fram niðurstöður ársreikninga sinna og áætlanir um afkomuna fram í tím­ann. En afkomuna er einnig unnt að skoða í öðru ljósi og þá með því að líta á þann virðis­auka sem verður til við atvinnustarfsemina og hvernig hann skiptist á milli framleiðsluþátt­anna vinnuafls og fjármagns. Þetta verður best gert með því að líta á niðurstöður þjóðhags­reikninga.
    Þegar landsframleiðslan hefur verið lækkuð um óbeina skatta en framleiðslustyrkjum bætt við fæst hugtak sem nefnt er vergar þáttatekjur. Þessum tekjum er síðan skipt upp milli laun­þega og þess sem fjármagnið ber úr býtum. Í hlut launþega koma laun og launatengd gjöld en það sem fjármagnið ber úr býtum er hagnaður atvinnurekstrarins og þá er átt við hagnað áður en afskriftir, vextir eða arður hafa verið dregin frá. Þetta hagnaðarhugtak er nefnt verg­ur rekstrarafgangur. Í þessari framsetningu eru beinir skattar hvorki dregnir frá launum né hagnaði.
    Skiptinguna milli launa og hagnaðar er unnt að setja fram fyrir einstakar atvinnugreinar eða þjóðarbúskapinn í heild. Undanfarin ár hefur Þjóðhagsstofnun birt þessa skiptingu fyrir þjóðarbúskapinn í heild. Nú hefur hins vegar verið gerð sú breyting að þessi skipting er sýnd fyrir atvinnureksturinn eingöngu. Jafnframt hafa laun sjálfstætt starfandi atvinnurekenda ver­ið reiknuð sérstaklega og hér eru þau flutt úr hagnaði yfir í laun en þessi reiknuðu laun eru talin með hagnaði atvinnurekstrarins í þjóðhagsreikningum. Eftir þessa breyttu meðferð á launum sjálfstætt starfandi manna er talað um verga hlutdeild fjármagns.
    Niðurstöður þessara útreikninga fyrir atvinnurekstur á Íslandi 1980–99 eru sýndar á með­fylgjandi mynd en þar er birt hagnaðarhlutfallið og til samanburðar eru sýndar tölur fyrir OECD í heild á sama tíma. Rétt er að hafa nokkurn fyrirvara á um sambærileika þessara talna. Sérstaklega á þetta við um mat á reiknuðum launum sjálfstætt starfandi atvinnurekenda en að því er Ísland varðar þá hafa laun sjálfstætt starfandi verið áætluð þau sömu og hjá launþegum í sömu atvinnugrein en það á að vera sama aðferð og OECD hefur beitt í sínum útreikningum.

Mynd 17. Hlutdeild fjármagns í vergum þáttatekjum á Íslandi og í OECD, %.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



    Eins og fram kemur á myndinni sveiflast hagnaðarhlutfallið meira á Íslandi en í OECD-löndunum í heild. Lægst fór þetta hlutfall á árunum 1980–82 og 1987–88 en þau ár fer hlutur fjármagnsins niður í 27–28% en hæst varð það á árunum 1984 og 1994 eða rösk 38%. Síð­ustu árin hefur hlutfallið aftur lækkað, það var 351/ 2% árið 1995 og 331/ 2% árið 1996 en hefur tekið litlum breytingum síðan. Þegar litið er yfir allt tímabilið 1980–99 er hlutfallið 33% til jafnaðar hér á landi, en það er um 11/ 2% lægra en meðaltal OECD á sama tíma. Á árunum 1993–94 reyndist hlutfallið nokkru hærra hér en í OECD-löndunum, var áþekkt árið 1995 en hefur síðan verið lægra en í OECD-löndunum. Ef horft er framhjá sveiflum í hlutfallinu kemur fram greinileg þróun í átt til hærra hagnaðarhlutfalls, bæði hérlendis og hjá OECD.

Fjárfesting atvinnuveganna og erlend fjárfesting.
    Efnahagsuppsveiflan hefur ekki hvað síst komið fram í stóraukinni fjárfestingu atvinnu­veganna undanfarin fjögur ár. Í fyrstu bar mest á framkvæmdum í tengslum við stóriðju og tengd orkumannvirki en smám saman hafa fjárfestingarnar dreifst á fleiri atvinnugreinar.
    Aukin atvinnuvegafjárfesting á þessu ári nemur alls tæpu 41% miðað við síðastliðið ár og í heild nemur atvinnuvegafjárfestingin 89 milljörðum króna. Frá árinu 1993 hefur fjárfest­ingin í atvinnulífinu ríflega tvöfaldast að raungildi.

    Það er því ekki að undra að mikill efnahagsuppgangur hafi fylgt í kjölfarið. Sem hlutfall af landsframleiðslu hefur atvinnuvegafjárfestingin hækkað úr 6,8% af landsframleiðslu í 11,8% á síðasta ári og stefnir í 15,3% í ár.
    Þar sem hlutdeild innflutnings í atvinnuvegafjárfestingunni er töluvert hærri en í annarri fjárfestingu, hefur stór hluti aukinna fjárfestingarútgjalda komið fram sem aukin innflutn­ingseftirspurn. Þannig jókst innflutningur á fjárfestingarvörum án kaupa á skipum og flugvél­um um tæp 35% að raungildi á fyrstu sjö mánuðum ársins.
    Á næsta ári mun vöxtur atvinnuvegafjárfestingarinnar að öðru óbreyttu ganga nokkuð til baka. Þar munar mestu um verulegan samdrátt í stóriðju- og virkjanaframkvæmdum, enda er nú séð fyrir endann á þeirri fjárfestingarhrinu sem hófst árið 1996. Einnig er að vænta samdráttar á fleiri sviðum. Í fiskveiðum og fiskvinnslu hafa fjárfestingar aukist verulega und­anfarin ár, fyrst í fiskveiðum með endurnýjun og endurbótum á fiskveiðiflotanum og síðan í umtalsverðum fjárfestingum í vinnslu sjávarafurða, einkum loðnu- og síldarvinnslu. Útlit er fyrir samdrátt í þessum fjárfestingum. Áfram er þó gert ráð fyrir aukningu í framkvæmdum við verslunar- og skrifstofuhúsnæði enda liggja fyrir ákvarðanir um að hefja stórframkvæmd­ir á því sviði. Sömu sögu er að segja á fjarskiptasviðinu þar sem fyrirsjáanlegt er að ekki muni draga úr framkvæmdum á næsta ári.
    Í heild er því spáð að fjárfesting atvinnuveganna dragist saman að raungildi um tæp 17% og lækki sem hlutfall af landsframleiðslu í 12,3%.
    Hlutur erlendra aðila í íslensku atvinnulífi hefur aukist umtalsvert á síðustu árum, aðal­lega vegna fjárfestinga í stóriðju. Lengi vel var bein eignaraðild útlendinga nánast einskorð­uð við álverksmiðjuna í Straumsvík. Sú verksmiðja hefur nú verið stækkuð um þriðjung auk þess sem ný álverskmiðja hefur risið í Hvalfirði sem einnig er að fullu í eigu útlendinga. Þessu til viðbótar hefur íslenska ríkið selt meirihlutaeign sína í járnblendiverksmiðjunni til erlendra aðila. Í heild lætur nærri að af um 57 milljarða króna fjárfestingu í stóriðju og orku­mannvirkjum á undanförnum fjórum árum nemi hlutur erlendra aðila um 27 milljörðum króna. Erlent áhættufjármagn hefur einnig í auknum mæli leitað í aðrar atvinnugreinar. Má þar nefna fjarskiptaþjónustu, hátæknigreinar á sviði erfðatækni og áform eru uppi um stór­fellda fjárfestingu erlendra aðila í verslunarrekstri.
    En það eru ekki bara erlendir aðilar sem hafa í auknum mæli fjárfest í íslensku atvinnulífi. Íslendingar hafa einnig leitað út fyrir landsteinana með sitt fjármagn og aukið umsvif sín með fjárfestingum erlendis, einkum í sjávarútvegi.
    Það má því segja að vatnaskil hafi orðið í þessum efnum og íslenskt atvinnulíf hafi nú tengst alþjóðlegum fjármagnsmarkaði með öðrum hætti en áður var. Í stað þess að erlent fjármagn hafi nánast eingöngu verið í formi lánsfjár í íslensku atvinnulífi er bein eignaraðild nú mun stærri hluti en áður og þá bæði bein eign útlendinga hér á landi sem og eignarhluti Íslendinga í öðrum löndum.

Sjávarútvegur.
    Þjóðhagsstofnun reiknar með að heildarafli landsmanna verði um 1.830 þús. tonn árið 1998 og minnkar úr 2.200 þús. tonnum frá árinu 1997. Samdráttinn má einkum rekja til þess að gert er ráð fyrir því að loðnuaflinn fari úr 1.319 þús. tonnum í 915 þús. tonn eða minnki um rúmlega 400 þús. tonn frá árinu áður. Þá er gert ráð fyrir að um 5 þús. tonn af þorski og álíka magn af rækju veiðist utan Íslandsmiða. Á föstu verði er gert ráð fyrir að aflinn dragist saman um 2,6%. Áætlað er að þorskafli aukist um 15% og afli af öðrum botnfiski minnki um 6,3%.

    Gert er ráð fyrir að samdráttur í öðrum afla verði 12,3% á föstu verði. Þar af minnkar loðnu- og síldarafli um 19,2%. Miðað við fyrstu 8 mánuði ársins er útlit fyrir einhvern sam­drátt í kaupum innlendrar fiskvinnslu á botnfiski af erlendum fiskiskipum í ár en aftur á móti er að vænta mikillar aukningar í kaupum á loðnu og kolmunna. Af rúmlega 320 þús. tonna loðnuafla, sem landað var á sumarloðnuvertíðinni, lönduðu erlend skip um 120 þús. tonnum og af um 50 þús. tonna kolmunnaafla komu um 30 þús. tonn af erlendum skipum. Þetta er rúmlega tvöföldun á lönduðum loðnuafla úr erlendum skipum frá síðasta ári. Að teknu tilliti til allra þessara þátta gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir að útflutningsframleiðsla sjávarafurða á árinu 1998 dragist saman um 2% frá árinu 1997.

Mynd 18. Aflaverðmæti á föstu verði.
Vísitala 1980=100.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



    Sjávarútvegsráðuneytið hefur úthlutað heimildum fyrir nýhafið fiskveiðiár að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar. Í áætlunum sínum gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir að afli kvótabundinna tegunda á Íslandsmiðum verði í samræmi við ákvarðanir ráðuneytisins að teknu tilliti til ónýttra aflaheimilda sem flytjast á milli ára. Varðandi veiðar sem ekki eru háðar kvóta er byggt á reynslu undanfarinna ára.
    Gert er ráð fyrir að þorskafli af Íslandsmiðum verði 265 þús. tonn á fiskveiðiárinu 1998/99 sem er 12,8% aukning frá síðasta fiskveiðiári. Reiknað er með að annar botnfiskafli aukist um 0,4%. Þá er gert ráð fyrir að annar afli dragist saman um 3,3%, loðnu- og síldarafli standi í stað, en rækjuafli dragist saman um 7,7%.
    Afli af fjarmiðum varð töluvert minni árið 1997 en árið áður. Aflinn í Barentshafi varð tæplega 6 þús. tonn í stað 23 þús. tonna árið áður. Rækjuafli af fjarmiðum fór úr 21 þús. tonnum í 7,8 þús. tonn. Úr norsk-íslenska síldarstofninum veiddust 220 þús. tonn á móti 165 þús. tonnum árið áður, en ekki náðist að veiða allan þann kvóta sem Íslendingum var ætlað­ur. Það sem af er árinu 1998 hafa íslensk skip veitt allan sinn kvóta eða 45 þús. tonn af úthafskarfa og mestallan kvótann af Íslandssíldinni eða 192 þús. tonn. Veiðum í Barentshafi virðist vera lokið þetta árið og hefur aflinn aldrei verið minni frá því Íslendingar hófu að veiða þar árið 1993. Samanlagt útflutningsverðmæti afla af fjarmiðum á árinu 1998 getur orðið um 5,5–6 milljarðar króna.
    Að öllu samanlögðu gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir að framleiðsla sjávarafurða aukist um 3% milli áranna 1998 og 1999.

Afli og aflaverðmæti 1998–99.



Afli þús. tonn

Breyting aflaverðmætis á föstu verði

Spá 1998 Spá 1999 1998–99, %
Þorskur
240 270 12,5
Annar botnfiskur
261 262 0,4
Síld
70 70 0,0
Íslandssíld
192 192 0,0
Loðna
915 915 0,0
Humar
1,5 1,2 -20,0
Rækja
78 72 -7,7
Hörpudiskur
10 10 0,0
Kolmunni
50 50 0,0
Annað
12 12 0,0
Botnfiskur
501 532 6,9
Annar afli
1.330 1.323 -3,3
Samtals
1.831 1.855 2,8

Vinnumarkaður.
    Á síðustu árum hefur vinnumarkaður einkennst af minnkandi atvinnuleysi og meiri eftir­spurn eftir vinnuafli. Eftir að atvinnuleysi náði hámarki, 5%, á árinu 1995, hefur atvinnu­ástand batnað mjög með auknum hagvexti.

Atvinnuþátttaka og atvinna.
    Frá því vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar var fyrst gerð árið 1991 hefur atvinnuþátttaka mælst um 81–83% af mannfjölda á aldrinum 16–74 ára. Atvinnuþátttaka er skilgreind þannig að sá sem vinnur meira en 1 klukkustund í viðmiðunarvikunni telst þátttakandi, sem og þeir sem eru án atvinnu en eru virkir í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka nam um 81% á árinu 1997 og búast má við að hún nemi um 82% á þessu ári. Atvinnuþátttaka karla er heldur meiri en kvenna, eða um 86% á móti 76% þátttöku kvenna. Þó hefur atvinnuþátttaka karla staðið í stað á undanförnum árum á meðan atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist og munurinn því minnkað smám saman.
    Atvinnuþátttaka er mikil hér á landi samanborið við önnur lönd. Atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 15–64 ára hér landi var 87,4% á árinu 1997 en tæplega 80% annars staðar á Norðurlöndunum nema Finnlandi þar sem atvinnuþátttaka mældist 74%. Atvinnuþátttaka í Bretlandi og Bandaríkjunum var rúmlega 75% og undir 70% í Frakklandi.
    Störfum hefur fjölgað jafnt og þétt hin síðustu ár. Þjóðhagsstofnun áætlar að störfum hafi fjölgað um 2.200 ársverk á árinu 1997, eða um 1,7%. Frá því í apríl 1997 hefur atvinnu­ástandskönnun Þjóðhagsstofnunar leitt í ljós vilja atvinnurekenda til að fjölga starfsfólki. Þegar síðasta könnun var gerð í apríl síðastliðnum kom fram að atvinnurekendur töldu æski­legt að fjölga starfsfólki um 0,2%. Könnunin gefur vísbendingu um mun meiri eftirspurn eftir vinnuafli á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Á meðan atvinnurekendur á höfuðborgarsvæð­inu vildu fjölga starfsfólki um 250 manns að meðaltali vildu atvinnurekendur á landsbyggð­inni aðeins fjölga starfsfólki um 50 manns að meðaltali. Æskileg fjölgun starfsfólks er mest í þjónustustarfsemi, ekki síst þjónustu við atvinnurekstur, í tæknigreinum og sérhæfðum iðn­aði. Í heild er gert ráð fyrir að ársverkum fjölgi um 1,8% á þessu ári og vænst er svipaðrar fjölgunar á því næsta.

Atvinnuleysi.
    Eftir að skráð atvinnuleysi náði hámarki á árinu 1995 hefur það minnkað ár frá ári, í 4,3% árið 1996 og niður í 3,9% árið 1997. Á þessu ári er búist við að atvinnuleysið minnki enn frekar og verði 2,9% af mannafla.
    Fyrstu átta mánuði ársins mældist atvinnuleysi 3,1% en 4,2% á sama tímabili í fyrra. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu nam 3,4% en 2,9% á landsbyggðinni. Saman hefur dreg­ið með þessum svæðum frá því á sama tíma í fyrra þegar atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu mældist 4,7% á móti 3,4% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi hefur dregist saman á öllum land­svæðum nema á Norðurlandi vestra þar sem atvinnuleysi stóð í stað á fyrstu átta mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Mest hefur atvinnuleysi dregist saman á höfuðborgar­svæðinu, Vesturlandi og Suðurnesjum eða um ríflega 1 prósentustig milli ára. Minnst er atvinnuleysi á Vestfjörðum eins og áður 1,2% af mannafla.
    Atvinnuleysi hefur einnig farið minnkandi í öðrum ríkjum OECD, en það minnkaði í helmingi þeirra milli áranna 1996 og 1997 aðallega vegna betra árferðis, auk þess sem sérstakar aðgerðir gegn atvinnuleysi tóku víða að bera árangur. Atvinnuleysi í OECD-ríkjunum í heild lækkaði úr 11,4% í 11,2% milli áranna 1996 og 1997.
    Síðustu tvo áratugi hefur atvinnuleysi mælst meira meðal kvenna en karla hér á landi og svipar til reynslu annarra landa í því tilliti. Munurinn nam að jafnaði innan við prósentustigi á tímabilinu 1980–92, en frá 1992 hefur munurinn aukist jafnt og þétt, í 1,7 prósentustig á árinu 1993 og í 3 prósentustig á árinu 1997. Þannig nam atvinnuleysi karla 2,6% á árinu 1997 á meðan atvinnuleysi meðal kvenna fór í 5,6%. Fyrstu átta mánuði þessa árs nam atvinnuleysi meðal kvenna 4,5% á meðan atvinnuleysi meðal karla mældist 2,0%.

Mynd 19. Atvinnuleysi eftir mánuðum 1990–98.

Hlutfall af mannafla, %.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Vinnumálastofnun.

    Í versnandi árferði fækkar atvinnutækifæum ungs fólks og frá 1987 til 1992 jókst hlut­deild atvinnulausra á aldrinum 15–24 ára úr 15% í 30% af heildarfjölda atvinnulausra. Frá árinu 1992 hefur hlutur ungra atvinnulausra minnkað ár frá ári og var kominn niður í 20% á árinu 1997. Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar var atvinnuleysi 15–24 ára 7,7% af vinnuafli á þeim aldri, á móti 3,9% atvinnuleysi í heild. Þótt atvinnuleysi ungs fólks sé hærra en atvinnuleysi í heild, reynist það ekki hátt á alþjóðlegan mælikvarða. Í OECD-ríkjunum nam atvinnuleysi 131/ 2% í þessum aldurshóp og 201/ 2% í ríkjum ESB á árinu 1997.
    Fjöldi atvinnulausra segir ekki alla söguna um kostnað vegna atvinnuleysis, heldur verður einnig að líta til meðallengdar atvinnuleysis. Félagslegar afleiðingar langtímaatvinnuleysis eru miklu alvarlegri en skammtímaatvinnuleysis. Samhliða því að atvinnuleysi tók að aukast á árinu 1989 hækkaði hlutfall þeirra sem hafa verið án atvinnu í hálft ár eða lengur. Þetta hlutfall fór upp fyrir 20% á árinu 1990 og hefur það ekki orðið lægra síðan. Síðustu árin hefur hlutfallið farið hækkandi og var komið í 34% á árinu 1997.
    Reynsla margra landa er að aukinn hagvöxtur hefur ekki megnað að skapa þeim vinnu sem verið hafa án vinnu lengi. Þótt langtímaatvinnuleysi hafi aukist á undanförnum árum er það töluvert minna en víða í þeim löndum sem við miðum okkur við. Á árinu 1997 hafði nær helmingur atvinnulausra í ríkjum OECD verið atvinnulaus í 6 mánuði eða lengur. Í ríkjum ESB var þetta hlutfall enn hærra, eða nálægt 70%. Í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð hafði tæplega helmingur atvinnulausra verið án atvinnu í 6 mánuði eða meira, á meðan hlutfallið var mun lægra í Noregi, eða rúmlega fjórðungur. Þessi samanburður sýnir að atvinnuleysi hefur ekki náð að skjóta verulegum rótum hér á landi, því minnkun atvinnuleysis virðist ná nokkuð jafnt til flestra þjóðfélagshópa.
    Ekki er við því að búast að atvinnuleysi minnki mikið á næsta ári. Þótt eftirspurn eftir vinnuafli sé mikil er reiknað með að þjóðarbúið sé að nálgast efri mörk framleiðslugetu. Því er gert ráð fyrir að atvinnuleysið verði um 2,7% á næsta ári.

Áhrif breyttra laga um atvinnuleysi og vinnumarkaðsaðgerðir.

    Með lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir sem tóku gildi á miðju ári 1997 var reglum um bótarétt og vinnumiðlanir breytt með það fyrir augum að hvetja atvinnulausa til atvinnuleitar og auðvelda þeim hana.
    Hámarkstímabil bóta er nú fimm ár en var áður án takmarkana, þó gert væri hlé á greiðsl­um með vissu millibili. Settar hafa verið á fót svæðisvinnumiðlanir og er hlutverk þeirra meðal annars að aðstoða atvinnuumsækjendur við atvinnuleit og atvinnurekendur við að út­vega hæft starfsfólk. Vinnumiðlanirnar eiga að gera starfsleitaráætlun fyrir hvern þann sem er í atvinnuleit. Taki atvinnulaus maður ekki þátt í gerð slíkrar áætlunar eða fylgi henni ekki, getur það valdið missi bótaréttar. Þótt enn verði ekki komið við óyggjandi sönnunum eru vís­bendingar um að þessar breytingar hafi átt sinn þátt í því að atvinnuleysi hefur minnkað meira í ár en við var búist. Áhrifa breytinganna mun væntanlega gæta enn frekar á næstu árum. Þann 1. júlí sl. tóku gildi ákvæði laganna um bætur til þeirra sem eru í hálfri vinnu og teljast atvinnulausir að hálfu. Nú eru bætur til þessa fólks tekjutengdar og virðist þetta ákvæði hafa fækkað fólki á atvinnuleysisskrám.

Búferlaflutningar.
    Samhliða bættum efnahag á Íslandi hefur fjöldi þeirra sem flytjast til landsins aukist að undanförnu. Á árinu 1997 fluttust 3.990 manns til landsins á meðan 3.921 fluttist af landi brott. Þetta er í fyrsta skipti síðan 1991 að fleiri flytjast til landsins en frá því. Hámarki náði fólksflutningurinn frá landinu á árinu 1995, þegar 1.418 fleiri fluttu frá landinu en til lands­ins. Á fyrri helmingi þessa árs fluttu 309 fleiri til landsins en frá landinu. Fleiri íslenskir ríkisborgarar flytjast af landi brott en hingað flytja og hefur svo verið um nokkurt skeið. Hins vegar flytjast til landsins fleiri erlendir ríkisborgarar en héðan fara. Á þéttbýlissvæðum hefur fólki fækkað vegna búferlaflutninga til útlanda en dreifbýlir landshlutar bæta sér upp fækkun vegna innan landsflutninga með aðfluttu erlendu vinnuafli.
    Á árinu 1997 fluttust 4.572 á höfuðborgarsvæðið af landsbyggðinni á meðan 2.832 fluttu af höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðina. Íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgaði af þessum sökum um 1.740. Á þessu ári hefur dregið nokkuð úr þeim miklu búferlaflutningum innan lands sem hafa staðið yfir undanfarin ár og gæti samdrátturinn numið um 15%. Útlit er fyrir að Vestfirðir tapi um 2,5% af íbúafjölda vegna búferlaflutninga innan lands í ár og að tap Austfjarða og Norðurlands vestra verði um 2%. Í öðrum landshlutum má búast við að tapið verði um 0,5% af íbúafjölda en aðflutningur færir höfuðborgarsvæðinu fólksfjölgun sem nemur um 0,7%.

Verðlag.
    Svo virðist sem verðbólgan í ár verði töluvert lægri en upphaflega var reiknað með. Eftir að gengið var frá kjarasamningum í fyrra og í ljósi vaxandi eftirspurnar á vöru- og vinnu­markaði var því spáð að vísitala neysluverðs mundi hækka um 2,7% milli áranna 1997 og 1998. Í reynd hefur vísitalan hækkað mun minna og frá september í fyrra til jafnlengdar í ár var hækkun hennar aðeins 0,8%. Í ljósi þess að eftirspurnaraukningin hér innan lands hefur verið meiri en í fyrstu var búist við og framvindan á vinnumarkaði leitt til þess að atvinnu­leysið hefur minnkað hraðar en áður var spáð vekur þessi þróun upp spurningar um eftirfarandi:
     *      Hefur verðmyndun í þjóðarbúskapnum breyst þannig að hefðbundnar spáaðferðir gefi ekki lengur ábyggilegar niðurstöður um líklega verðlagsþróun?
     *      Voru fyrri verðbólguspár byggðar á röngu mati á þensluhættu í hagkerfinu?
    Þegar verðlagsþróunin á undanförnum mánuðum er skoðuð nánar kemur glögglega í ljós að mikill munur er á breytingum einstakra liða vísitölunnar. Í grófum dráttum má segja að sú verðbólguaukning sem búist var við í kjölfar kjarasamninganna hafi að mestu leyti komið fram í þeim liðum sem byggja á innlendum framleiðsluþáttum. Hins vegar hefur verðlags­þróun í viðskiptalöndunum verið afar hagstæð og síðast en ekki síst hefur gengi íslensku krónunnar styrkst umtalsvert á þessu tímabili. Afleiðingin hefur verið sú að verðlag á inn­fluttum vörum hefur lækkað jafnt og þétt og því vegið kröftuglega upp hluta af hækkunum á innlendum vörum og þjónustuliðum í vísitölunni.

Mynd 20. Þróun neysluverðsvísitölu eftir uppruna vöru og þjónustu 1992–98.
Breyting frá fyrra ári, %.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Hagstofa Íslands.

    Mynd 20 sýnir vel hversu mjög dregið hefur í sundur með verðþróun á innlendum og erlendum liðum neysluverðsvísitölunnar. Fyrstu mánuði ársins hækkuðu innlendir liðir vísi­tölunnar á ársgrundvelli um 4–5% á sama tíma og innfluttu liðirnir lækkuðu um 2–3%. Í heild hefur verðbólgan verið í kringum 2% það sem af er ári sem er um einu prósentustigi undir því sem fyrri spár gerðu ráð fyrir.
    Annað sem glögglega kemur fram á myndinni eru verðbólgukúfar sem koma í kjölfar kostnaðarbreytinga. Þannig má greinilega sjá áhrif hærri launakostnaðar á innlenda hluta vísitölunnar í kjölfar þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum árum, og ef skoðað er lengra aftur í tímann sjást greinilega áhrif gengisfellinganna 1992 og 1993 á innflutta þáttinn á þeim tíma.
    Það virðist því sem enn sé til staðar allgott samband milli kostnaðar og verðlags hér á landi. Þó er að svo komnu máli ekki hægt að skera úr um hversu miklu nýjar aðstæður á vöru- og vinnumarkaði skipta varðandi verðmyndunina.
    Til skamms tíma er því meginskýringin á hagstæðri verðlagsþróun sú hækkun sem orðið hefur á gengi krónunnar að undanförnu. Samkvæmt tölum Seðlabankans hækkaði gengi krón­unnar miðað við innflutningsvog um 1,2% fyrstu átta mánuði þessa árs og miðað við árslok 1996 nemur hækkunin 3%. Lækkandi verðlag á innfluttum vörum þarf því ekki að koma á óvart.
    Áhrif aukinnar samkeppni hafa mikið verið til umræðu þar sem bent hefur verið á að hag­ræðing í framleiðslu- og verslunargreinum í kjölfar virkari samkeppni hafi leitt til aukinnar framleiðni og þar með skapað svigrúm til hagstæðari verðlagsþróunar.
    Erfitt er að segja til um það hvort hagstæð verðlagsþróun á undanförnum missirum feli í sér að hættan á ofþenslu í hagkerfinu hafi verið ofmetin. Sterkar vísbendingar hafa komið fram um að sá slaki sem fyrir var í efnahagslífinu sé nú að mestu horfinn.
    Eins og áður hefur komið fram einkennist efnahagsuppsveiflan af mikilli aukningu inn­flutnings og þar með verulegri versnun á viðskiptajöfnuði. Að svo miklu leyti sem aukin eftirspurn á vörumarkaði felur í sér hættu á ofþenslu má segja að eftir því sem stærri hluti eftirspurnaraukningarinnar beinist að innflutningi dragi úr álagi á innlenda framleiðsluþætti. Þannig má álykta sem svo að hagstæð verðlagsþróun skýrist að hluta af því hversu stór hluti eftirspurnaraukningarinnar hefur farið til útlanda.
    Verðlagsþróun á næsta ári verður með nokkuð öðrum hætti en í ár samkvæmt spánni. Að hluta byggist það á þeirri forsendu að gengi krónunnar haldist óbreytt frá því sem það var í september sl. Gangi þessi forsenda eftir mun hækkandi gengi ekki halda aftur af verðlags­breytingum með sama hætti og í ár. Það má því fastlega gera ráð fyrir því að verðbólgan á næsta ári verði heldur meiri en í ár. Miðað við fyrirsjáanlegar launahækkanir og í ljósi áframhaldandi uppsveiflu gerir spáin ráð fyrir um 3% hækkun neysluverðsvísitölu frá upphafi til loka næsta árs og að vísitalan hækki um 2% milli ára.
    
Heimilin.
Kjaramál og launaþróun.
    Kaupmáttur hefur vaxið verulega frá árinu 1993. Ætla má að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann á næsta ári verði ívið hærri en hann var áður hæstur árið 1987. Rifja má upp að á því eina ári ruku ráðstöfunartekjur upp um ríflega 20%, en sá kaupmáttarauki reyndist þó skammvinnur. Til samanburðar má nefna að svipuð hækkun er nú að verða á fjórum árum.
    Flestir kjarasamningar eru í gildi til ársins 2000. Áætlað er að laun hafi hækkað um 6% í fyrra og um 3,5% í ár samkvæmt miðlægum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Ákvæði voru um vinnustaðasamninga í almennum kjarasamningum, en erfitt er að meta hver hækkun launakostnaðar hafi verið af þeim. Ljóst er að kjarasamningar á opinberu hliðinni fólu margir hverjir í sér mun meiri launahækkun. Ákvæði um aðlögunarsamninga voru einnig frábrugðnir vinnustaðasamningum og sýnt er að þeir fólu í sér meiri launahækkun.
    Erfitt er að meta til hlítar hvað kjarasamningarnir í fyrra fólu í sér í heild og enn erfiðara er að leggja tölulegt mat á fyrrnefnda viðbótarsamninga. Af þessum sökum er erfitt að segja til um hvert launaskrið hafi verið.
    Eftirspurn eftir vinnuafli er mikil um þessar mundir og er viðbúið að þrýst verði á um launahækkanir. Upplýsingar eru hins vegar af skornum skammti um launaþróun og er launa­vísitala Hagstofunnar eina haldreipið í þeim efnum. Vísitalan er annmörkum háð hvað varðar mat á almenna markaðinum því úrtak er lítið. Í fyrra hækkaði vísitalan um 5,4% milli árs­meðaltala og hækkunin frá meðaltali í fyrra til júlí í ár er 9,4%. Ekki er óvarlegt að ætla að launavísitalan muni hækka um 91/ 2% milli áranna 1997 og 1998, en kjarasamningar gefa tilefni til að áætla að vísitalan muni hækka um 5,5% frá 1998 til 1999.

Mynd 21. Kaupmáttur launa miðað við launavísitölu.
Vísitala 1990=100.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Hagstofa Íslands.

    Vísbendingar um tekjur og laun má einnig fá úr skrám um staðgreiðslu. Fyrstu sex mánuði þessa árs hafa staðgreiðsluskyldar tekjur hækkað um 141/ 2% frá sama tíma í fyrra. Áætlun um launatekjur sýnir ívið meiri hækkun og má ætla að hækkun þeirra sé 151/ 2–16%. Að baki þeirri hækkun standa auk almennra launahækkana fjölgun starfa og aukin eftirvinna. Ljóst er þó að hækkun launatekna er mjög mikil og meiri en kjarasamningar og launavísitala gefa tilefni til.

Ráðstöfunartekjur.
    Atvinnutekjur eru langstærsti hluti ráðstöfunarteknanna. Samkvæmt skattframtölum hækkuðu launatekjur í heild um 8,3% frá 1996 til 1997 en um 6,6% á framteljanda. Þessi niðurstaða er í hátt við fyrri spár. Hækkun atvinnutekna umfram launavísitölu skýrist af auknu vinnumagni. Nú er gert ráð fyrir að atvinnutekjur muni hækka um 11% á þessu ári og um 71/ 2% á því næsta. Í þeirri spá er gert ráð fyrir að störfum fjölgi um 11/ 2–2% í ár og á því næsta.
    Með tilfærslutekjum er átt við bætur Tryggingastofnunar, atvinnuleysisbætur, lífeyri, barnabætur og vaxtabætur o.fl. Alla jafna aukast þessar tekjur verulega þegar að kreppir, m.a. vegna tekjutenginga, en lækka þegar betur árar. Minnkun atvinnuleysis leiðir vitaskuld til sparnaðar í greiðslum atvinnuleysisbóta og hærri tekjur draga úr greiðslum tekjutengdra bóta. Eignastaða heimilanna hefur áhrif á vaxtagjöld umfram tekjur. Miðað við horfur um einkaneyslu á þessu ári virðist ólíklegt að hreinar peningalegar eignir heimilanna styrkist.
    Tekjuskattskerfið var tekið til endurskoðunar í fyrra, með það fyrir augum að draga úr jaðaráhrifum þess. Ákveðið var að lækka tekjuskattshlutfall í staðgreiðslu um 4% á tveggja ára tímabili. Fyrsta skrefið var stigið 1. maí 1997 þegar tekjuskattshlutfallið lækkaði um 1,1%. Um síðustu áramót lækkaði hlutfallið um 1,9% til viðbótar og um næstu áramót kemur síðasti hluti lækkunarinnar til framkvæmdar þegar tekjuskattshlutfallið lækkar um 1%. Lækkun tekjuskatts kemur í kjölfar þess að heimild til frádráttar iðgjalda lífeyrissjóða var rýmkuð og kom sú heimild til framkvæmda í nokkrum þrepum á árunum 1995–97. Skattleys­ismörk hækkuðu um 2,5% um síðustu áramót og samsvarandi hækkun kemur til framkvæmda um næstu áramót og aftur í ársbyrjun 2000. Einnig var ákveðið að hækka svokallaðan há­tekjuskatt úr 5% í 7% á móti því að tekjumörk voru hækkuð.
    Þessar áætlanir leiða til þeirrar niðurstöðu að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hækki um 8% milli 1997 og 1998 og um 4,5% frá 1998 til 1999.
    Í kjarasamningum voru ákvæði um að til endurskoðunar samninga gæti komið ef hækkun ráðstöfunartekna hér á landi yrði minni en að meðaltali í aðildarríkjum OECD. Einsýnt er að til þessa muni ekki koma því ráðstöfunartekjur hafa hækkað miklu meira hér á landi en í aðildarríkjum OECD. Samkvæmt upplýsingum frá OECD jukust ráðstöfunartekjur heimil­anna á mann í aðildarríkjunum að meðaltali um 1,4% í fyrra og áætlað er að þær muni aukast um 1,7% í ár og um 2,1% á því næsta. Írland er eina aðildarríki OECD þar sem ráðstöfunartekjur heimila hafa hækkað að undanförnu viðlíka og hér á landi.

Einkaneysla og sparnaður.
    Flestar vísbendingar um þróun einkaneyslu landsmanna það sem af er árinu benda til að um verulega aukningu verði að ræða á árinu 1998 þrátt fyrir rúmlega 17% aukningu saman­lagt undanfarin þrjú ár.
    Nú liggja fyrir tölur um veltu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Þær sýna 11,9% veltuaukningu frá fyrra ári í þeim atvinnugreinum sem einkum selja vöru og þjónustu til heimila. Lætur nærri að þetta sé um 9,5% magnaukning. Hluti þessarar aukningar birtist í stórauknum innflutningi neysluvara.
    Fyrstu sjö mánuði ársins 1998 óx innflutningur unninna mat- og drykkjarvara til heimilis­nota um 18% að magni og innflutningur á ýmsum neysluvörum, svo sem heimilistækjum, fatnaði og áfengi, lyfjum og tóbaki, jókst um 31,7% frá sama tíma í fyrra. Á sama tíma jókst innflutningur fólksbifreiða um 31,9%.


Einkaneysla 1990–98.

Hlutfallsleg skipting, %


Magnbreyting frá fyrra ári, %

1990 1997 1993 1994 1995 1996 1997 1998
Matur, drykkjarvara og tóbak
25,5 20,7 -2,4 -0,3 1,7 3,4 1,5 4,3
Fatnaður
7,8 7,2 -7,4 7,6 5,0 4,0 4,0 12,2
Húsnæði, ljós og hiti
17,6 14,9 0,5 1,5 1,5 2,0 1,1 2,5
Húsgögn, húsbúnaður heimilishald og heimilistæki

7,9

8,4

-5,9

7,1

5,1

8,2

7,6

15,5
Lyf og læknishjálp
1,7 2,0 2,2 4,1 3,0 4,0 1,8 6,5
Flutningatæki og samgöngur
13,8 18,4 -8,6 -1,4 13,3 13,9 14,6 17,9
Tómstundaiðja, skemmtanir,
menntun og menningarmál

10,3

11,6

-2,5

4,9

5,2

6,0

8,3

11,6
Ýmsar vörur og þjónusta
11,8 13,2 -7,3 5,5 7,7 5,3 7,9 10,1
Einkaneysla innan lands alls
96,5 96,3 -4,0 2,4 4,9 5,6 5,7 9,4
Útgjöld Íslendinga erlendis
7,5 7,6 -2,8 -3,1 -0,8 10,5 9,8 17,5
Útgjöld útlendinga á Íslandi
3,9 3,9 14,5 6,7 11,3 -4,8 3,2 12,0
Einkaneysla alls
100,0 100,0 -4,5 1,9 4,2 6,4 6,1 10,0
Þar af:
Óvaranlegar neysluvörur
40,4 35,7 -2,7 -0,7 3,1 3,9 3,1 5,6
Hálfvaranlegar neysluvörur
13,6 13,1 -6,4 6,3 5,5 4,1 5,2 12,6
Varanlegar neysluvörur
10,6 15,1 -15,4 5,7 12,3 21,1 17,1 24,0
Þjónusta
35,4 36,1 -1,0 3,5 4,6 3,6 5,0 6,9

    Ferðalög landsmanna hafa aukist mjög á þessu ári. Í framhaldi af þessum horfum og tölum úr greiðslujöfnuði fyrri hluta ársins er því spáð að útgjöld Íslendinga í útlöndum muni aukast um 17,5% frá fyrra ári. Útgjöld erlendra manna á Íslandi dragast frá útgjöldum Íslendinga í útlöndum við uppgjör einkaneyslunnar í heild. Tölur um fjölda erlendra ferðamanna fyrri hluta ársins og horfur um fjölda á seinna árshelmingi þessa árs benda til að útgjöld þeirra hér á landi geti aukist um allt að 12% á árinu 1998.
    Að síðustu má nefna að veruleg aukning er á greiðslukortanotkun heimila. Heildarveltan jókst um 12,4% fyrstu 8 mánuði ársins, þar af 10,9% innan lands. Færslufjöldinn jókst svipað þannig að meðalúttekt er nánast óbreytt. Debetkortanotkun jókst þó enn meir eða um rúmlega 28%, en þar gætir enn áhrifa kerfisbreytingar frá tékkanotkun sem minnkaði um 6% fyrstu sex mánuði ársins.
    Að öllu samanlögðu er því nú spáð að einkaneyslan aukist um 10% frá fyrra ári. Mesta aukningin er í kaupum á varanlegum neysluvörum sem aukast um tæp 24% á árinu og vega þar kaup á einkabifreiðum hvað þyngst. Kaup á hálfvaranlegum neysluvörum, svo sem fatn­aði, aukast einnig umtalsvert eða um 12% en aukning óvaranlegra neysluvara og þjónustu er minni, á bilinu 5–6%.
    Á næsta ári dregur væntanlega nokkuð úr vexti einkaneyslunnar þar sem kaupmáttaraukn­ingin verður töluvert lægri og mettunaráhrifa fer eflaust að gæta í þeim útgjaldaliðum sem aukist hafa hvað mest undanfarin fjögur ár. Með tilliti til þessa er því spáð að einkaneysla aukist á næsta ári um 5%.
    Meðfylgjandi mynd sýnir vel að þegar kaupmáttur vex aukast kaup heimilanna verulega á varanlegum neysluvörum. Aðrir liðir einkaneyslunnar eru ekki eins næmir fyrir kaupmáttarbreytingum. Frá 1993 til áætlunar 1998 rúmlega tvöfaldast kaup á varanlegum neyslu­vörum, en um er að ræða tæplega þriðjungs aukningu á einkaneyslu í heild og 11% aukningu á neyslu matar, drykkjarvöru og tóbaks.

Mynd 22. Þróun helstu liða í einkaneyslu.
Vísitölur 1990=100.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



    Fyrir liggja bráðabirgðatölur um lán lánakerfisins eftir geirum til loka júní í ár. Sam­kvæmt þessum tölum hafa skuldir heimilanna vaxið um 11,8% frá sama tíma í fyrra, eða um 9,7% umfram verðbólgu. Breytingar hafa orðið á samsetningu skulda heimilanna. Skulda­aukninguna í fyrra má einkum rekja til skulda annarra en húsnæðisskulda. Jafnframt hefur lántaka heimilanna stóraukist hjá innlánsstofnunum.
    Samkvæmt bráðabirgðatölum námu skuldir heimilanna í fyrra um 136% af ráðstöfunar­tekjum þeirra og höfðu hækkað um 1 prósentustig frá árinu áður. Þetta hlutfall hækkaði um 5–7 prósentustig árlega á árunum 1994–96. Vísbendingar um skuldaaukningu á þessu ári benda til að skuldir hækki lítillega sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna á þessu ári.
    Upplýsingar um fjáreign heimilanna eru meiri óvissu undirorpin en skuldastaðan. Áætl­anir Seðlabankans sýna að fjáreignir umfram skuldir hafi vaxið í fyrra, en mörg ár á undan hækkuðu skuldir langt umfram fjáreignir. Samanburður á aukningu einkaneyslu og kaupmætti ráðstöfunartekna bendir hins vegar ekki til að sparnaður heimilanna aukist á þessu og næsta ári.

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði.
    Eftir langt samdráttarskeið í byggingu íbúðarhúsnæðis jukust byggingarumsvif árið 1996 og hefur fjárfesting í íbúðarhúsnæði aukist um 4–5% undanfarin 2 ár. Fyrirliggjandi vísbendingar um þróun á þessu ári svo sem frá lánastofnunum og byggingafulltrúum benda til að um svipaðan vöxt verði að ræða á þessu ári. Horfur eru óvissari yfir á næsta ár, en hér er reiknað með heldur meiri aukningu en á þessu ári eða 7% að magni.


Verðþróun íbúðarhúsnæðis.

    Þrátt fyrir mikinn samdrátt í nýbyggingum á íbúðarhúsnæði á fyrri hluta tíunda ára­tugarins lækkaði raunverð húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Nærtækt er að leita skýringa á þessu til efnahagssamdráttar og breytinga á fyrirkomulagi húsnæðislána. Viðbúið er hins vegar að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði glæðist með vaxandi kaupmætti. Greina má merki um hækkun íbúðaverðs á undanförnum mánuðum, einkum sérbýlis.

Hið opinbera.
    Uppgjör Þjóðhagsstofnunar á búskap hins opinbera fylgir þjóðhagsreikningastaðli Sam­einuðu þjóðanna. Veigamesti munurinn á því uppgjöri og ríkisreikningi eru að hagnaður af sölu eignarhluta ríkisins í félögum er ekki færður til tekna í uppgjöri þjóðhagsreikninga held­ur færður á endurmatsreikning. Þá eru afskrifaðar skattakröfur vegna gjaldþrots ekki færðar til gjalda heldur á endurmatsreikning. Að síðustu má nefna að einungis eru færðar til gjalda þær viðbótar lífeyrissjóðsskuldbindingar vegna s.k. aðlögunarsamninga við ríkisstarfsmenn sem tengjast launagreiðslum ársins. Í riti Þjóðhagsstofnunar Búskapur hins opinbera er birt samræmt yfirlit um búskap hins opinbera frá árinu 1980.

Ríkisfjármál.
    Á fjárlögum þessa árs var stefnt að tekjuafgangi á búskap A-hluta ríkissjóðs annað árið í röð. Gert var ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs yrðu 165,8 milljarðar króna og útgjöldin lítið eitt lægri. Þá var gert ráð fyrir að kröfu- og hlutafjáreign ríkissjóðs lækkaði um 4,9 milljarða króna, þannig að hrein lánsfjárþörf hans yrði neikvæð um 4,8 milljarða króna, þ.e. að ríkis­sjóður greiddi niður skuldir sínar um þá fjárhæð. Forsendur þessara áforma hafa hins vegar breyst allnokkuð, bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlaga. Kemur þar til meðal annars hagstæð­ari efnahagsframvinda og meiri launahækkanir en ráð var fyrir gert.
    Nú er reiknað með að tekjur ríkissjóðs verði 8–9 milljörðum króna hærri en í fjárlögum ársins, sem skýrist einkum af meiri tekjuskatti einstaklinga og meiri tekjum af veltusköttum, svo sem virðisaukaskatti. Á gjaldahlið er áætlaður útgjaldaauki 5–6 milljarðar króna meðal annars vegna aukinna launaútgjalda og viðbótarútgjalda svo sem vegna reksturs sjúkrahúsa. Tekjuafkoma ríkissjóðs ætti því að verða 3 milljörðum króna hagstæðari en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.
    Hvað lánsfjárþörfina varðar er nú reiknað með að hún verði neikvæð um ríflega 141/ 2 milljarð króna sem er umtalsvert betri niðurstaða en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir. Kemur þar til meiri tekjuafgangur á ríkissjóði en reiknað var með og veruleg sala eigna. Ríkissjóður er með öðrum orðum að greiða niður skuldir sínar um þessa fjárhæð sem ekki hefur verið raunin um langt árabil. Hér er því um veruleg umskipti að ræða. Tæplega tveir þriðju hlutar þessarar fjárhæðar fer til niðurgreiðslu erlendra skulda og að teknu tilliti til erlendra vaxta­greiðslna ríkissjóðs er ljóst að A-hluti ríkissjóðs léttir verulega á innlendri eftirspurn með fjármálastefnu sinni.
    Í uppgjöri Þjóðhagsstofnunar á búskap hins opinbera sem eins og áður sagði fylgir þjóð­hagsreikningastaðli Sameinuðu þjóðanna er áætlað að tekjuafkoma ríkissjóðs verði jákvæð um sem nemur 41/ 2 milljarði króna á árinu 1998 eða 0,8% af landsframleiðslu, sem er heldur hagstæðari niðurstaða en árið á undan. Þá er reiknað með að tekjur ríkissjóðs mælist 28,3% af landsframleiðslu og útgjöldin um 27,6%, sem er ríflega 1/ 2 prósentustigi lægra hlutfall en árið á undan.

    Lausleg athugun bendir til þess að vegna uppsveiflunnar í hagkerfinu séu tekjur ríkissjóðs um 6 milljörðum króna meiri en þær væru í eðlilegu árferði eða sem nemur 1% af landsfram­leiðslu. Að teknu tilliti til áhrifa hagsveiflunnar snýst afkoma ríkissjóðs úr tekjuafgangi í undirliggjandi halla sem nemur um 11/ 2 milljarði króna.
    Í framhaldi af gerð kjarasamninga við nær alla ríkisstarfsmenn á síðasta ári hafa verið gerðir svokallaðir aðlögunarsamningar í ár. Þeir hafa haft veruleg áhrif á lífeyrissjóðsskuld­bindingar ríkissjóðs sem áætlað er að hækki um 9 til 10 milljarða króna umfram forsendur fjárlaga. Þá var tekjuskattshlutfall einstaklinga lækkað um 1,9 prósentustig í upphafi árs sem ætla má að kosti ríkissjóð í kringum 6 milljarða króna.

Fjármál sveitarfélaga.
    Í áætlunum um fjármál sveitarfélaga er gert ráð fyrir að tekjuhalli þeirra verði nokkru minni í ár en í fyrra eða í kringum 11/ 2 milljarður króna sem er 21/ 2% af tekjum þeirra. Til samanburðar er áætlaður tekjuhalli ársins 1997 rúmlega 2 milljarðar króna eða 4% af heild­artekjum þeirra. Með flutningi grunnskólans og annarra verkefna frá ríki til sveitarfélaga hafa heildarútgjöld sveitarfélaga vaxið umtalsvert og er nú áætlað að þau verði um 55 milljarðar króna árið 1998 eða 91/ 2% af landsframleiðslu. Að sama skapi hafa tekjurnar vaxið en þær eru taldar verða 531/ 2 milljarður króna í ár. Umfang sveitarfélaga í búskap hins opinbera mælist nú um 27% af heildinni en um langt árabil var það á bilinu 20–22%. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga skýrir að mestu þessa þróun.

Fjármál sveitarfélaga 1995–98.
Í milljörðum króna Hlutfall af landsframleiðslu,%
1995 1996 1997 1998 1995 1996 1997 1998
Heildartekjur
34,9 40,0 49,6 53,5 7,7 8,2 9,5 9,2
Heildarútgjöld
36,4 40,4 51,7 55,0 8,0 8,3 9,9 9,5
Tekjuafgangur
-1,5 -0,4 –2,1 -1,4 -0,3 -0,1 -0,4 -0,2
Hlutdeild í búskap hins opinbera
    
22,0 22,7 27,3 26,8

Fjármál hins opinbera.
    Áætlanir benda til að rekstur hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, skili afgangi í ár annað árið í röð, en sú hefur ekki orðið raunin síðan í byrjun síðasta áratugar. Tekjuafgang­urinn er áætlaður ríflega 3 milljarðar króna á árinu eða sem svarar til 0,6% af landsframleiðslu. Til samanburðar var tekjuafgangur ársins 1997 tæplega milljarður króna eða 0,2% af landsframleiðslu. Hallinn á árinu 1994 var hins vegar rúmlega 20 milljarðar króna eða 4,7% af landsframleiðslu.

Mynd 23. Tekjur og gjöld hins opinbera 1980–98.
Hlutföll af landsframleiðslu, %.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


    Útgjöld hins opinbera hafa minnkað ár frá ári sem hlutfall af landsframleiðslu eins og lesa má af meðfylgjandi mynd og mælast nú 361/ 2% af landsframleiðslu saman-borið við rúmlega 401/ 2% árið 1992 þegar þau voru hvað hæst. Áætlað er að heildarútgjöld hins opinbera verði 2111/ 2 milljarður króna á árinu 1998 og hækki um 18 milljarða króna milli ára. Til samanburðar mældust útgjöld síðasta árs 36,9% af landsframleiðslu. Þessi hlutfallslækkun skýrist fyrst og fremst af lítilli aukningu annarra útgjalda en samneysluútgjalda. Samneyslan eykst um 3% að raungildi milli ára og verður heldur hærra hlutfall af landsframleiðslu en árið á undan eða 20,6%. Útgjöld eins og vaxtaútgjöld og rekstrartilfærslur hafa farið lækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu og sérstaklega útgjöld til fjárfestinga sem hafa dregist saman um þriðjung á undanförnum árum.

Útgjöld hins opinbera 1990–98.
Hlutfall af landsframleiðslu.
Spá
1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998
Samneysla
19,2 19,7 20,2 20,6 20,6 20,8 20,7 20,5 20,6
Vaxtaútgjöld
3,5 3,7 3,6 3,7 3,9 4,1 3,7 3,4 3,1
Rekstrartilfærslur
10,6 10,4 10,9 10,5 10,0 10,1 9,7 9,2 8,8
Fjárfestingarútgjöld
6,5 7,0 6,4 6,1 6,3 4,6 4,8 4,5 4,4
Heildarútgjöld
39,3 40,2 40,6 40,3 40,1 39,0 38,2 37,0 36,4

    Tekjur hins opinbera eru taldar verða 215 milljarðar króna í ár til samanburðar við ríflega 194 milljarða króna í fyrra. Miðað við landsframleiðslu lækka tekjurnar lítið eitt milli ára og mælast um 37% af landsframleiðslu í stað 37,1% í fyrra. Skatttekjur hins opinbera eru áætlaðar aukast um 211/ 2 milljarð króna milli ára.

Yfirlit um fjármál hins opinbera 1997–99.
Milljarðar króna.
Brb. Áætlun Spá Hlutfall af VLF,%
1997 1998 1999 1997 1998 1999
Heildartekjur
194,4 214,8 225,5 37,1 37,0 36,3
1. Skatttekjur
182,1 203,5 213,4 34,7 35,0 34,3
2. Aðrar tekjur
12,3 11,3 12,0 2,3 1,9 1,9
Heildarútgjöld
193,2 211,6 219,4 36,9 36,4 35,3
1. Samneysla
107,3 119,5 129,0 20,5 20,6 20,8
– þar af afskriftir
3,3 3,5 3,7 0,6 0,6 0,6
2. Önnur útgjöld
89,1 95,5 94,4 17,1 16,4 15,2
Tekjuafgangur
1,2 3,2 5,8 0,2 0,6 0,9

    Áætlun fjárlaga um lánsfjárþörf nær til ríkissjóðs, lánasjóða hins opinbera og ríkisfyrir­tækja. Samkvæmt þessum áætlunum var gert ráð fyrir að hrein lánsfjárþörf þessara aðila í ár yrði rúmlega 91/ 2 milljarður króna eða sem svarar til 1,6% af landsframleiðslu, en á síðasta ári mældist lánsfjárþörfin 3,4% af landsframleiðslu. Nú bendir hins vegar flest til þess að ríkissjóður verði með verulega neikvæða lánsfjárþörf á árinu eins og fram hefur komið eða sem nemur 141/ 2 milljarði króna. Lánsfjárþörf opinbera húsnæðiskerfisins er hins vegar veruleg og sömuleiðis lánsfjárþörf opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar. Reiknað er með að hrein lánsfjárþörf þessara aðila verði ríflega 13 milljarðar króna og vegi upp neikvæða lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs.

Hrein lánsfjárþörf opinberra aðila 1997–99.
Milljarðar króna.
Útkoma 1997 Áætlun 1998 Breyting frá fyrra ári Spá 1999
Hrein lánsfjárþörf, alls
17,6 -1,5 -19,1 2,0
– Ríkissjóður A-hluti
0,4 -14,7 -15,1 -15,0
– Húsnæðiskerfið
11,2 5,5 -5,7 9,7
– Aðrir opinberir aðilar
6,0 7,7 1,7 7,3
Hrein lánsfjárþörf, % af VLF
3,4 -0,3 -3,1 0,3

    Heildarskuldir hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, eru áætlaðar ríflega 272 milljarðar króna á árinu 1998 sem er um 47% af landsframleiðslu, eða rúmum 6 prósentu­stigum lægra hlutfall af landsframleiðslu en árið á undan. Þá er reiknað með að hreinar skuldir þess verði um 187 milljarðar króna eða 32,2% af landsframleiðslu. Erlend lán eru um helmingur heildarskulda hins opinbera.
    
Með hliðsjón af fjárlagafrumvarpi og áætlunum um fjármál sveitarfélaga má áætla að tekjuafkoma hins opinbera á næsta ári verði jákvæð um 6 milljarða króna í tekju- og út­gjaldauppgjöri þjóðhagsreikninga. Þar er reiknað með að afkoma ríkissjóðs verði heldur betri en afkoma hins opinbera, en afkoma sveitarfélaganna verði neikvæð um nokkur hundruð milljónir króna. Í þessu sambandi er rétt að ítreka að nokkur munur er á uppgjörsaðferðum þjóðhagsreikninga og ríkisreiknings sem áður er lýst. Þá eru einungis færðar til gjalda þær lífeyrissjóðsskuldbindingar vegna kjarasamninga sem tengjast launagreiðslum ársins. Tekju­afgangurinn samsvarar því um 0,9% af landsframleiðslu en 0,6% í ár. Reiknað er með að tekjur hins opinbera verði ríflega 225 milljarðar króna eða 36,3% af landsframleiðslu, sem felur í sér lækkun um 0,7 prósentustig frá árinu 1998. Útgjöldin munu einnig lækka allnokk­uð sem hlutfall af landsframleiðslu en þau eru áætluð um 220 milljarðar króna eða 35,3% af landsframleiðslu.
    Þessa þróun má einkum rekja til þess að áform eru um að fjárfestingar hins opinbera dragist saman milli ára 1998 og 1999. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi munu fjárfestingar­útgjöld ríkissjóðs minnka um rúmlega 1 milljarð króna. Þá er þess að vænta að sveitarfélögin muni nota uppsveifluna til að bæta fjárhagsstöðu sína. Þess er einnig að gæta að ýmsum fjár­festingum sem tengjast flutningi verkefna til sveitarfélaganna er nú lokið.
    Fjárlagafrumvarpið er nú í annað sinn lagt fram á rekstrargrunni. Þetta þýðir að allar fjár­skuldbindingar, bæði greiddar og ógreiddar, sem A-hluti ríkissjóðs stofnar til á fjárlagaárinu færast til gjalda. Í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir um 2 milljarða króna tekjuafgangi og lækkun hreinna skulda A-hluta ríkissjóðs um 15 milljarða króna. Lækkun skuldanna verð­ur meðal annars fjármögnuð með sölu hlutabréfa. Afkoma sveitarfélaganna í heild er talin verða nokkru betri 1999 en í ár. Lánsfjárþörf opinberra aðila í heild er talin verða aðeins 2 milljarðar króna á næsta ári. Á móti neikvæðri lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs vegur hrein lánsfjárþörf opinbera húsnæðiskerfisins og opinberra fyrirtækja sem áætluð er 17 milljarðar króna.
Tafla 1. Þjóðhagsyfirlit 1996–99.

Milljónir króna á verðlagi hvers árs
Magnbreytingar frá
fyrra ári % 1)
Áætlun Spá Áætlun Spá
1996 1997 1998 1999 1996 1997 1998 1999
1. Einkaneysla 296.840 320.314 358.115 383.526 6,4 6,0 10,0 5,0
2. Samneysla 100.358 107.304 119.548 128.996 1,0 2,6 3,0 3,0
3. Fjármunamyndun 86.752 98.666 129.279 119.214 26,5 11,2 27,3 -10,0
4. Neysla og fjárfesting alls 483.950 526.284 606.942 631.737 8,3 6,2 11,9 1,5
5. Birgðabreytingar 2) -1.202 -5.094 0 0 -0,7 -0,9 0,8 0,0
6. Þjóðarútgjöld, alls 482.748 521.190 606.942 631.737 7,5 5,4 12,8 1,5
7. Útflutningur vöru og þjónustu 176.863 190.945 200.214 221.085 10,0 5,6 1,5 8,5
8. Innflutningur vöru og þjónustu 173.727 187.716 226.479 231.310 16,6 8,5 22,6 0,0
9. Verg landsframleiðsla 485.884 524.419 580.677 621.511 56,0 4,4 5,2 4,6
10. Jöfnuður þáttatekna o.fl. -10.848 -11.498 -12.050 -14.348 - - - -
11. Rekstrarframlög -464 -238 -267 -283 - - - -
12. Viðskiptajöfnuður (7.–8.+10.+11.) -8.176 -8.507 -38.583 -24.857 - - - -
13. Verg þjóðarframleiðsla (9.+10.) 475.036 512.921 568.626 607.163 6,3 4,3 5,0 4,2
14. Viðskiptakjaraáhrif 3) - - - - -1,7 0,8 2,0 -0,1
15. Vergar þjóðartekjur - - - - 4,7 5,2 7,1 4,1
16. Viðskiptajöfnuður sem % af VLF - - - - -1,7 -1,6 -6,6 -4,0
Skýringar:
1) Magnbreytingar eru reiknaðar á föstu verðlagi ársins 1990.
2) Hlutfallstölurnar sýna vöxt eða samdrátt í birgðabreytingu milli ára sem hlutföll af landsframleiðslu fyrra árs,
reiknað á föstu verðlagi.
3) Hlutfall af þjóðarframleiðslu fyrra árs, reiknað á föstu verðlagi.
Tafla 2. Utanríkisviðskipti 1996–99.
Milljónir króna á
verðlagi hvers árs
Magnbreytingar
frá fyrra ári % 1)
Áætlun Spá Áætlun Spá
1996 1997 1998 1999 1996 1997 1998 1999
Útflutningsframleiðsla
Sjávarafurðir 92.056 89.394 95.298 100.120 8,8 -5,5 -2,0 3,0
Ál 12.532 15.419 18.865 24.241 3,6 15,8 43,5 26,6
Kísiljárn 3.936 3.647 2.786 3.343 -2,3 -0,1 -14,8 33,3
Annað 13.040 13.458 14.097 14.724 -1,7 4,6 4,8 2,4
Samtals 121.564 121.918 131.046 142.428 6,7 -1,9 4,5 8,1
Útflutt skip og flugvélar 4.146 5.201 641 3.561 - - - -
Breyting útflutningsvörubirgða 20 -4.094 0 0 - - - -
Vöruútflutningur alls 125.690 131.213 131.687 145.989 9,1 1,9 -3,7 9,0
Vöruinnflutningur alls 124.489 130.959 159.882 159.823 16,6 5,9 24,8 -2,0
Almennur vöruinnflutningur 111.880 115.567 142.082 144.531 17,2 4,7 25,4 -0,4
þ.a. olía 9.260 9.896 9.036 9.555 10,2 3,2 16,5 3,7
þ.a. annað 102.620 105.671 133.045 134.976 17,9 4,8 26,1 -0,7
Sérstakur vöruinnflutningur 12.609 15.392 17.801 15.292 22,6 26,8 21,1 -18,2
Vöruskiptajöfnuður 1.201 254 -28.195 -13.834 - - - -
Þjónustutekjur 51.173 59.732 68.527 75.096 12,4 15,5 13,8 7,4
Þjónustugjöld 49.238 56.757 66.597 71.487 16,6 15,6 17,4 5,2
Þjónustujöfnuður 1.935 2.975 1.930 3.608 - - - -
Jöfnuður þáttatekna o.fl. -10.848 -11.498 -12.050 -14.348 - - - -
Rekstrarframlög 2) -464 -238 -267 -283 - - - -
Viðskiptajöfnuður -8.176 -8.507 -38.583 -24.857 - - - -
Skýringar:
1) Magnbreytingar eru reiknaðar á föstu verðlagi ársins 1990.
2) Tilfærslur nettó frá útlöndum aðrar en launa- og eignatekjur og fjármagnstilfærslur.

Tafla 3. Fjármunamyndun 1996–99.
Milljónir króna á Magnbreytingar
verðlagi hvers árs
Áætlun Spá Áætlun Spá
1996 1997 1998 1999 1996 1997 1998 1999
Fjármunamyndun alls 86.752 98.666 129.279 119.214 26,5 11,2 27,3 -10,0
I Atvinnuvegir 52.927 62.000 89.000 75.700 53,0 15,6 40,8 -16,8
1. Landbúnaður 2.542 2.911 2.950 3.000 63,2 9,8 -0,7 -0,5
2. Fiskveiðar 5.174 1.764 3.700 3.500 216,8 -65,6 107,2 -6,5
3. Vinnsla sjávarafurða 4.659 4.181 5.200 4.500 43,5 -11,8 21,1 -14,9
4. Ál- og kísiljárnframleiðsla 6.284 11.120 9.500 4.000 1.124,8 74,5 -16,3 -58,7
5. Annar iðnaður 7.573 8.400 9.550 9.500 31,6 9,6 11,9 -1,6
6. Rafvirkjanir og rafveitur 3.359 7.785 15.500 9.000 73,6 124,9 94,0 -43,3
7. Hitaveitur 1.272 1.300 1.800 1.900 10,6 -0,6 32,9 2,5
8. Vatnsveitur 506 600 600 700 -10,4 15,4 -4,0 13,3
9. Byggingarstarfsemi o.fl. 2.624 3.246 4.000 3.600 45,6 23,7 23,2 -10,9
10. Verslunarhúsnæði, skrifstofur o.fl. 4.698 5.800 8.300 9.600 18,3 20,1 37,3 12,3
11. Samgöngur 5.465 6.155 15.100 12.800 16,0 9,7 140,0 -18,4
12. Póstur og sími, útvarp og sjónvarp 2.718 2.730 4.700 5.000 -0,9 -0,9 68,7 4,1
13. Tölvu- og skrifstofubúnaður 6.053 6.009 8.100 8.600 23,8 -0,7 34,8 5,1
II Íbúðarhús 18.935 20.780 22.734 25.014 4,0 5,1 5,0 7,0
III Starfsemi hins opinbera 14.890 15.885 17.545 18.500 -3,7 3,8 5,4 2,4
1. Vegir og brýr 3.268 3.485 3.900 4.100 -10,0 3,7 6,0 2,1
2. Götur og holræsi 2.887 3.300 3.645 3.900 4,8 11,2 4,7 3,9
3. Byggingar hins opinbera 8.735 9.100 10.000 10.500 -3,7 1,4 5,5 2,0
Skýringar:
1) Magnbreytingar eru reiknaðar á föstu verðlagi ársins 1990.

Tafla 4. Landsframleiðsla 1988–97
.

Milljónir króna, á verðlagi hvers árs ásamt magn- og verðvísitölum, 1990=100.
Bráðab. Áætlun
1988 1989 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997
1. Einkaneysla 161.068 190.254 223.176 248.366 248.339 248.182 256.949 272.708 296.840 320.314
2. Samneysla 50.537 60.341 69.990 78.157 80.375 84.818 89.424 94.080 100.358 107.304
3. Fjármunamyndun 50.498 58.698 70.103 76.173 69.589 64.177 65.876 65.950 86.752 98.666
4. Birgðabreytingar - 3.080 -8.143 -4.247 -891 -486 1.016 -26 2.285 -1.202 -5.093
5. Þjóðarútgjöld alls 259.023 301.150 359.022 401.804 397.817 398.193 412.223 435.022 482.748 521.190
6. Útflutningur alls 81.721 106.282 124.936 125.671 121.597 135.694 157.436 161.250 176.863 190.945
6.1 Vörur, fob 61.667 80.072 92.452 91.560 87.833 94.658 112.654 116.607 125.690 131.213
6.2 Þjónusta 20.054 26.210 32.484 34.111 33.764 41.036 44.782 44.643 51.173 59.732
7. Frádr.: Innflutningur alls 84.100 99.240 119.556 130.491 121.782 122.466 134.631 144.725 173.727 187.716
7.1. Vörur, fob 61.996 72.603 87.657 94.634 87.908 82.386 92.992 103.251 124.489 130.959
7.2. Þjónusta 22.104 26.637 31.899 35.857 33.874 40.080 41.639 41.474 49.238 56.757
8. Verg landsframleiðsla 256.645 308.192 364.402 396.984 397.632 411.421 435.028 451.547 485.884 524.419
9. Launa- og eignatekjur frá útl., nettó - 6.506 -11.164 -12.849 -10.644 -8.911 -9.821 -13.445 -12.502 -10.848 -11.498
10. Verg þjóðarframleiðsla 250.138 297.028 351.553 386.341 388.721 401.600 421.583 439.045 475.036 512.921
11. Viðskiptajöfnuður án rekstrarframlaga -8.885 -4.122 -7.469 -15.464 -9.096 3.407 9.360 4.023 -7.712 -8.269
11.1 Vöruskiptajöfnuður fob/fob - 329 7.469 4.795 -3.074 -75 12.272 19.662 13.356 1.201 254
11.2 Þjónustujöfnuður -2.050 -427 585 -1.746 -110 956 3.143 3.169 1.935 2.975
11.3 Launa- og eignat. frá útl., nettó -6.506 -11.164 -12.849 -10.644 -8.911 -9.821 -13.445 -12.502 -10.848 -11.498
12. Óbeinir skattar 61.324 72.152 79.167 83.943 83.714 77.009 79.004 82.373 89.811 95.509
13. Framleiðslustyrkir 9.107 12.835 12.953 12.319 13.225 10.504 9.607 9.492 10.054 10.363
14. Afskriftir af fjármunaeign 28.905 37.308 43.692 47.933 50.881 54.144 56.452 57.702 59.911 62.841
15. Hreinar þjóðartekjur, tekjuvirði
(15.=10.–12.+13.–14.) 169.016 200.403 241.647 266.784 267.351 280.951 295.733 308.462 335.368 364.934
Hlutfallsleg skipting     
1. Einkaneysla 62,8% 61,7% 61,2% 62,6% 62,5% 60,3% 59,1% 60,4% 61,1% 61,1%
2. Samneysla 19,7% 19,6% 19,2% 19,7% 20,2% 20,6% 20,6% 20,8% 20,7% 20,5%
3. Fjármunamyndun 19,7% 19,0% 19,2% 19,2% 17,5% 15,6% 15,1% 14,6% 17,9% 18,8%
4. Birgðabreytingar -1,2% -2,6% -1,2% -0,2% -0,1% 0,2% -0,0% 0,5% -0,2% -1,0%
5. Þjóðarútgjöld alls 100,9% 97,7% 98,5% 101,2% 100,0% 96,8% 94,8% 96,3% 99,4% 99,4%
6. Útflutningur alls 31,8% 34,5% 34,3% 31,7% 30,6% 33,0% 36,2% 35,7% 36,4% 36,4%
6.1 Vörur, fob 24,0% 26,0% 25,4% 23,1% 22,1% 23,0% 25,9% 25,8% 25,9% 25,0%
6.2 Þjónusta 7,8% 8,5% 8,9% 8,6% 8,5% 10,0% 10,3% 9,9% 10,5% 11,4%
7. Frádr.: Innflutningur alls 32,8% 32,2% 32,8% 32,9% 30,6% 29,8% 30,9% 32,1% 35,8% 35,8%
7.1 Vörur, fob 24,2% 23,6% 24,1% 23,8% 22,1% 20,0% 21,4% 22,9% 25,6% 25,0%
7.2 Þjónusta 8,6% 8,6% 8,8% 9,0% 8,5% 9,7% 9,6% 9,2% 10,1% 10,8%
8. Verg landsframleiðsla 100,0% 100,0% 100,0% 100,0% 100,0% 100,0% 100,0% 100,0% 100,0% 100,0%
9. Launa- og eignatekjur frá útfl., nettó - 2,5% -3,6% -3,5% -2,7% -2,2% -2,4% -3,1% -2,8% -2,2% -2,2%
10. Verg þjóðarframleiðsla 97,5% 96,4% 96,5% 97,3% 97,8% 97,6% 96,9% 97,2% 97,8% 97,8%
11. Viðskiptajöfnuður án rekstrarframlaga - 3,5% -1,3% -2,0% -3,9% -2,3% 0,8% 2,2% 0,9% -1,6% -1,6%
12. Óbeinir skattar 23,9% 23,4% 21,7% 21,1% 21,1% 18,7% 18,2% 18,2% 18,5% 18,2%
13. Framleiðslustyrkir 3,5% 4,2% 3,6% 3,1% 3,3% 2,6% 2,2% 2,1% 2,1% 2,0%
14. Afskriftir af fjármunaeign 11,3% 12,1% 12,0% 12,1% 12,8% 13,2% 13,0% 12,8% 12,3% 12,0%
15. Hreinar þjóðartekjur, tekjuvirði 65,9% 65,0% 66,3% 67,2% 67,2% 68,3% 68,0% 68,3% 69,0% 69,6%
Magnvísitölur 1990=100     
1. Einkaneysla 103,8 99,5 100,0 104,1 99,5 95,0 96,8 100,9 107,3 113,7
2. Samneysla 93,0 95,8 100,0 103,2 102,3 104,6 108,5 109,9 111,0 113,9
3. Fjármunamyndun 105,4 97,1 100,0 102,0 90,6 80,2 79,4 77,1 97,6 108,5
4. Þjóðarútgjöld alls 103,0 98,5 100,0 105,1 99,5 95,4 96,9 99,9 107,4 113,2
5. Útflutningur alls 97,2 100,0 100,0 94,1 92,3 98,8 108,7 106,3 116,9 123,5
5.1 Vörur 98,0 101,4 100,0 92,1 91,2 95,9 107,5 105,1 114,6 116,8
5.2 Þjónusta 94,7 95,7 100,0 99,6 95,2 107,2 111,9 109,8 123,4 142,6
6. Frádr.: Innflutningur alls 110,3 99,0 100,0 105,7 97,3 88,9 92,6 96,1 112,1 121,6
6.1 Vörur 111,9 99,7 100,0 104,9 96,9 83,2 89,6 95,3 111,2 117,7
6.2 Þjónusta 105,8 97,0 100,0 108,0 98,4 104,6 101,0 98,2 114,5 132,4
7. Verg landsframleiðsla 98,6 98,8 100,0 101,1 97,7 98,7 102,3 103,3 109,1 113,9
8. Launa- og eignatekjur frá útl., nettó 93,0 100,5 100,0 86,4 83,2 87,2 106,2 97,7 82,8 87,7
9. Verg þjóðarframleiðsla 98,8 98,8 100,0 101,6 98,3 99,1 102,1 103,5 110,1 114,9
10. Vergar þjóðartekjur 101,1 99,4 100,0 103,2 98,9 98,0 100,7 102,5 107,3 113,0
Verðvísitala 1990=100     
1. Einkaneysla 69,3 85,5 100,0 106,9 111,9 117,0 119,0 121,1 124,0 126,2
2. Samneysla 77,6 90,0 100,0 108,3 112,3 115,8 117,8 122,3 129,2 134,6
3. Fjármunamyndun 68,4 86,3 100,0 106,5 109,6 114,1 118,4 122,0 126,8 129,7
4. Þjóðarútgjöld alls 69,9 85,0 100,0 106,5 111,4 116,3 118,6 121,3 125,2 128,3
5. Útflutningur alls 67,7 85,5 100,0 106,9 105,5 109,9 116,0 121,4 121,1 123,8
5.1 Vörur 68,1 85,4 100,0 107,5 104,1 106,8 113,3 120,0 118,6 121,5
5.2 Þjónusta 66,6 86,2 100,0 105,4 109,2 117,8 123,1 125,2 127,6 129,0
6. Frádr.: Innflutningur alls 63,7 83,8 100,0 103,3 104,7 115,2 121,6 126,0 129,7 129,1
6.1 Vörur 63,2 83,1 100,0 103,0 103,5 112,9 118,4 123,6 127,8 126,9
6.2 Þjónusta 65,4 85,9 100,0 104,1 107,9 120,1 129,2 132,4 134,8 134,3
7. Verg landsframleiðsla 71,5 85,6 100,0 107,8 111,7 114,4 116,7 119,9 122,2 126,3
8. Verg þjóðarframleiðsla 71,9 85,5 100,0 108,1 112,5 115,3 117,4 120,6 122,7 127,0
%-br. frá fyrra ári, magn     
1. Einkaneysla -3,8% -4,2% 0,5% 4,1% -4,5% -4,5% 1,9% 4,2% 6,4% 6,0%
2. Samneysla 4,7% 3,0% 4,4% 3,2% -0,8% 2,3% 3,7% 1,3% 1,0% 2,6%
3. Fjármunamyndun -0,2% -7,9% 3,0% 2,0% -11,3% -11,4% -1,1% -2,8% 26,5% 11,2%
4. Þjóðarútgjöld alls -0,6% -4,4% 1,5% 5,1% -5,3% -4,1% 1,5% 3,1% 7,5% 5,4%
5. Útflutningur alls -3,6% 2,9% -0,0% -5,9% -1,9% 7,1% 10,0% -2,2% 10,0% 5,6%
5.1 Vörur -1,2% 3,5% -1,4% -7,9% -1,0% 5,1% 12,1% -2,3% 9,1% 1,9%
5.2 Þjónusta -10,6% 1,1% 4,5% -0,4% -4,5% 12,7% 4,4% -1,9% 12,4% 15,5%
6. Frádr.: Innflutningur alls -4,6% -10,3% 1,0% 5,7% -8,0% -8,6% 4,2% 3,8% 16,6% 8,5%
6.1 Vörur -5,5% -10,9% 0,3% 4,9% -7,6% -14,1% 7,6% 6,4% 16,6% 5,9%
6.2 Þjónusta -1,8% -8,3% 3,0% 8,0% -8,9% 6,3% -3,5% -2,7% 16,6% 15,6%
7. Verg landsframleiðsla -0,1% 0,3% 1,2% 1,1% -3,3% 1,0% 3,7% 1,0% 5,6% 4,4%
8. Launa- og eignatekjur frá útl., nettó 14,8% 8,0% -0,5% -13,6% -3,8% 4,9% 21,7% -8,0% -15,3% 5,9%
9. Verg þjóðarframleiðsla -0,6% -0,1% 1,2% 1,6% -3,3% 0,9% 3,1% 1,4% 6,3% 4,3%
10. Vergar þjóðartekjur -0,9% -1,6% 0,6% 3,2% -4,2% -0,9% 2,7% 1,9% 4,7% 5,2%
%-br. frá fyrra ári, verð     
1. Einkaneysla 25,4% 23,3% 17,0% 6,9% 4,7% 4,6% 1,6% 1,8% 2,3% 1,8%
2. Samneysla 23,9% 15,9% 11,2% 8,3% 3,7% 3,2% 1,7% 3,9% 5,6% 4,2%
3. Fjármunamyndun 18,7% 26,2% 15,9% 6,5% 3,0% 4,1% 3,7% 3,0% 4,0% 2,3%
4. Þjóðarútgjöld alls 23,2% 21,6% 17,6% 6,5% 4,6% 4,4% 2,0% 2,3% 3,2% 2,5%
5. Útflutningur alls 18,3% 26,3% 16,9% 6,9% -1,3% 4,2% 5,5% 4,7% -0,3% 2,2%
5.1 Vörur 17,7% 25,4% 17,1% 7,5% -3,1% 2,6% 6,1% 5,9% -1,2% 2,5%
5.2 Þjónusta 20,4% 29,3% 16,1% 5,4% 3,6% 7,9% 4,5% 1,6% 2,0% 1,0%
6. Frádr.: Innflutningur alls 19,2% 31,5% 19,3% 3,3% 1,4% 10,0% 5,5% 3,6% 3,0% -0,5%
6.1 Vörur 19,2% 31,4% 20,4% 3,0% 0,6% 9,1% 4,9% 4,3% 3,4% -0,7%
6.2 Þjónusta 18,8% 31,4% 16,4% 4,1% 3,7% 11,3% 7,6% 2,4% 1,8% -0,3%
7. Verg landsframleiðsla 22,8% 19,8% 16,8% 7,8% 3,6% 2,5% 2,0% 2,7% 1,9% 3,4%
Meðalmannfjöldi ársins, þús. 249,885 252,746 254,788 257,965 261,103 263,783 266,006 267,38 268,927 270,915
Vísitala, 1990=100 98,1 99,2 100,0 101,2 102,5 103,5 104,4 104,9 105,5 106,3
Magnvísitölur á mann     
1. Einkaneysla 105,9 100,3 100,0 102,8 97,1 91,8 92,7 96,1 101,6 107,0
2 Samneysla 94,9 96,6 100,0 101,9 99,8 101,1 103,9 104,7 105,2 107,1
3 Fjármunamyndun 107,4 97,9 100,0 100,8 88,4 77,5 76,0 73,5 92,4 102,0
4. Þjóðarútgjöld alls 105,0 99,3 100,0 103,8 97,1 92,1 92,8 95,2 101,8 106,4
5. Útflutningur alls 99,1 100,8 100,0 92,9 90,0 95,5 104,1 101,3 110,8 116,1
6. Frádr.: Innflutningur alls 112,5 99,8 100,0 104,4 94,9 85,9 88,7 91,6 106,2 114,4
7. Verg landsframleiðsla 100,5 99,6 100,0 99,9 95,4 95,3 98,0 98,5 103,4 107,1
8. Launa- og eignatekjur frá útl., nettó 94,8 101,3 100,0 85,4 81,1 84,2 101,7 93,1 78,5 82,5
9. Verg þjóðarframleiðsla 100,8 99,6 100,0 100,4 95,9 95,7 97,8 98,7 104,3 108,0
10. Vergar þjóðartekjur 103,0 100,2 100,0 101,9 96,5 94,7 96,4 97,7 101,7 106,2
Landsframleiðsla á mann í dollurum
1. VLF á mann, skráð gengi dals 23.877 21.377 24.527 26.085 26.464 23.071 23.382 26.105 27.169 27.349
2. VLF á mann, jafnvirðisgildi dals 15.985 16.538 17.307 17.957 18.326 18.814 19.446 21.707 23.223 24.721



Tafla 5. Tekjur, verðlag, kaupmáttur og gengi 1990–99.

Spá Spá
1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999
I Vísitölur 1990=100
Tekjur
Ráðstöfunartekjur á mann 100,0 109,5 111,0 108,6 110,3 115,5 121,7 130,7 143,3 152,7
Laun 1) 100,0 108,4 111,5 113,1 114,5 119,6 127,3 134,2 146,9 155,0
Verðlag
Neysluverðsvísitala 100,0 106,8 110,9 115,4 117,1 119,1 121,9 124,1 125,9 128,4
Byggingarvísitala 100,0 107,6 110,2 112,6 115,5 119,2 125,0 130,5 134,0 138,9
Kaupmáttur 2)
Ráðstöfunartekjur á mann 100,0 102,5 100,1 94,1 94,1 97,0 99,9 105,4 113,8 118,9
Laun 1) 100,0 101,5 100,6 98,0 97,7 100,4 104,5 108,2 116,7 120,7
Gengi
Meðalverð erl. gjaldmiðla 3) 100,0 100,0 100,5 108,8 114,5 114,4 114,3 112,0 110,5 110,5
Raungengi miðað við verð 100,0 102,6 102,6 97,0 91,7 91,8 92,1 92,9 95,1 95,1
Raungengi miðað við laun 100,0 102,9 106,5 97,7 91,4 93,1 94,2 96,2 100,3 103,2
II Breytingar frá fyrra ári, %
Tekjur
Ráðstöfunartekjur á mann 9,5 9,5 1,4 -2,1 1,5 4,8 5,4 7,4 9,6 6,6
Laun 1) 9,2 8,4 2,9 1,4 1,2 4,5 6,4 5,4 9,5 5,5
Verðlag
Neysluverðsvísitala 14,8 6,8 3,8 4,1 1,5 1,7 2,3 1,8 1,5 2,0
Byggingarvísitala 17,8 7,6 2,4 2,2 2,6 3,2 4,9 4,4 2,7 3,7
Kaupmáttur 2)
Ráðstöfunartekjur á mann -4,6 2,5 -2,3 -6,0 0,0 3,0 3,0 5,5 8,0 4,5
Laun 1) -4,9 1,5 -0,8 -2,6 -0,3 2,8 4,0 3,5 7,9 3,4
Gengi
Meðalverð erl. gjaldmiðla 3) 11,4 -0,0 0,5 8,4 5,2 -0,1 -0,1 -2,0 -1,3 0,0
Raungengi miðað við verð -3,2 2,6 -0,0 -5,4 -5,5 0,1 0,3 0,9 2,4 0,0
Raungengi miðað við laun -10,9 2,9 3,5 -8,3 -6,5 1,8 1,2 2,1 4,3 29
Skýringar:
1) Miðað við launavísitölu Hagstofu Íslands
2) Miðað við neysluverðsvísitölu.
3) Miðað við vöruviðskiptavog.

Tafla 6. Afli og aflaverðmæti 1990–99.
Áætlun Spá
1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999
Þúsund tonn     
Þorskur 334 307 267 261 215 203 204 209 240 270
Annar botnfiskur 339 348 318 324 343 308 298 268 261 262
Ýsa 66 54 46 47 58 60 56 43 37 38
Ufsi 95 99 78 70 63 47 39 37 32 33
Karfi 91 97 94 97 95 89 68 73 72 70
Úthafskarfi 4 8 14 20 47 29 53 39 50 50
Steinbítur 14 18 16 13 13 13 15 12 12 13
Grálúða 37 35 32 34 28 27 22 19 12 12
Skarkoli 11 11 11 13 12 11 11 11 8 8
Annað 21 27 28 32 27 31 34 34 38 38
Síld 90 79 123 117 130 110 100 71 70 70
Íslandssíld - - - - 21 174 165 220 192 192
Loðna 694 260 798 941 754 716 1.179 1.319 915 915
Kolmunni - - - - - - - 11 50 50
Humar 2 2 2 2 2 1 2 1 2 1
Rækja 30 38 47 56 75 84 90 83 78 72
Hörpudiskur 12 10 12 12 8 8 9 10 10 10
Annað 4 5 7 4 6 5 12 7 12 12
Heildarafli 1.505 1.049 1.575 1.716 1.555 1.609 2.059 2.199 1.831 1.855
Breytingar heildaraflaverðmætis
frá fyrra ári á föstu verði, %:1)
Samtals -4,4 -5,9 -1,5 3,1 -0,5 -0,7 7,7 -1,0 -2,6 2,8
Samtals án loðnu -3,9 -2,1 -6,9 2,0 -0,8 -1,7 0,5 -5,3 2,1 3,4
1) Magnvísitölur eru fengnar með því að verðleggja aflamagnið á föstu verði. Aflamagn áranna 1990–93 er á verðlagi árisins 1990, 1993–95 er á verðlagi ársins 1995 og 1996–99 er á verðlagi ársins 1996. Allur afli, heima og erlendis, er verðlagður á meðalverði útfluttra sjávarafurða. Meðalverðið er fundið með því að deila afla upp úr sjó í verðmæti útflutnings eftir fisk­tegundum.

Tafla 7. Landsframleiðsla og þjóðartekjur 1955–99. 1)
Verg landsframleiðsla Vergar þjóðartekjur
Magnvísitala 1990=100 Magnbreyting frá fyrra ári Magnvísitala 1990=100 Magnbreyting frá fyrra ári
1955 22,6 9,7% 21,9 10,2%
1956 23,2 2,4% 22,2 1,2%
1957 23,2 -0,1% 21,9 -1,2%
1958 25,0 7,9% 24,2 10,4%
1959 25,5 2,0% 24,8 2,3%
1960 26,3 3,2% 25,1 1,3%
1961 26,3 -0,1% 25,9 3,3%
1962 28,5 8,3% 28,3 9,1%
1963 31,4 10,3% 31,2 10,4%
1964 34,5 9,9% 35,1 12,4%
1965 37,0 7,3% 38,8 10,6%
1966 40,2 8,7% 42,2 8,7%
1967 39,7 -1,3% 40,3 -4,5%
1968 37,6 -5,5% 37,8 -6,2%
1969 38,4 2,4% 38,8 2,7%
1970 41,3 7,5% 43,6 12,2%
1971 46,7 13,1% 50,3 15,5%
1972 49,6 6,2% 53,3 6,0%
1973 53,0 6,8% 59,5 11,6%
1974 56,0 5,7% 60,4 1,5%
1975 56,4 0,6% 57,3 -5,1%
1976 59,7 6,0% 62,5 9,0%
1977 65,0 8,8% 70,1 12,1%
1978 68,8 5,9% 74,4 6,1%
1979 72,2 4,9% 75,5 1,5%
1980 76,3 5,7% 78,8 4,4%
1981 79,6 4,3% 81,5 3,5%
1982 81,3 2,2% 82,6 1,3%
1983 79,5 -2,2% 79,6 -3,7%
1984 82,8 4,1% 82,3 3,4%
1985 85,6 3,3% 84,7 2,9%
1986 90,9 6,2% 92,2 8,9%
1987 98,7 8,6% 102,1 10,7%
1988 98,6 -0,1% 101,1 -1,0%
1989 98,8 0,3% 99,4 -1,6%
1990 100,0 1,2% 100,0 0,6%
1991 101,1 1,1% 103,2 3,2%
1992 97,7 -3,3% 98,9 -4,2%
1993 98,7 1,0% 98,0 -0,9%
1994 102,3 3,7% 100,7 2,7%
1995 103,3 1,0% 102,5 1,9%
1996 109,1 5,6% 107,3 4,7%
1997 113,9 4,4% 113,0 5,2%
1998 119,8 5,2% 121,0 7,1%
1999 125,4 4,6% 126,0 4,1%
Skýringar:
1) Bráðabirgðatölur fyrir 1997, áætlun fyrir 1998 og spá fyrir 1999.