Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 293  —  145. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um rekstrarkostnað Flugmála­stjórnar.

    Á árunum 1993–97 voru sjö einstaklingar í yfirstjórn Flugmálastjórnar, flugmálastjóri, framkvæmdastjórar flugleiðsöguþjónustu, flugumferðarþjónustu, fjármálaþjónustu, flug­vallaþjónustu, loftferðaeftirlits og alþjóðadeildar. Svarið miðast við að þessir sjö séu þeir stjórnendur sem spurt er um. Er þá einnig haft í huga að stjórnendur neðar í skipuritinu taka ekki ákvarðanir um þá hluti sem spurt er um. Af sjö stjórnendum er ein kona.
    Til upplýsingar skal þess getið að starfsmenn Flugmálastjórnar voru 251 í árslok 1997 og heildarútgjöld hennar það ár námu 2.249 millj. kr.
    Alþjóðaflugþjónustan er hér tekin með þrátt fyrir að hún sé ekki á sama fjárlaganúmeri og Flugmálastjórn og að hún sé B-hluta stofnun.

     1.      Hver voru laun, lífeyrisréttindi og önnur starfskjör stjórnenda Flugmálastjórnar, sundurliðað eftir stöðuheitum, fjölda stjórnenda og milli kynja, föstum launum, öðrum greiðslum, eins og stjórnargreiðslum, og hvers konar þóknunum og hlunnindum, þ.m.t. bílahlunnindum og risnu á árunum 1993–97?
     Laun: Í töflu 1.1 er yfirlit yfir laun stjórnenda Flugmálastjórnar á árunum 1993–97. Þar koma fram meðalárslaun þeirra greidd af Flugmálastjórn á verðlagi hvers árs. Mannabreyt­ingar hafa verið á þessu tímabili og eru meðallaunin þá reiknuð út miðað við heilt ársverk. Tveir af framkvæmdastjórum Flugmálastjórnar fengu greiðslur frá ráðuneytum fyrir setu þeirra í nefndum, en seta þeirra þar tengist stöðu þeirra hjá Flugmálastjórn. Annar fékk greiddar 126 þús. kr. árið 1997 og 125 þús. kr. árið 1996 fyrir nefndarsetu. Fjárhæðirnar eru fengnar úr launakerfi ríkisins. Hinn framkvæmdastjórinn fékk greiddar 227 þús. kr. árið 1997 og 63 þús. kr. árið 1996 fyrir nefndastörf í þágu ráðuneyta. Ekki er um að ræða sér­stakar greiðslur fyrir nefndastörf eða önnur störf innan stofnunarinnar.

Tafla 1.1 Meðalárslaun stjórnenda Flugmálastjórnar 1993–97 í þús. kr. 1
1993 1994 1995 1996 1997
Meðalárslaun frá Flugmálastjórn 3.659 4.011 3.6422 4.201 4.363
   1    Um er að ræða meðallaun sjö æðstu stjórnenda Flugmálastjórnar.
   2    Á árinu 1995 urðu mannabreytingar í stjórnunarliðinu og voru launagreiðslur lægri til nýliðanna en forvera þeirra.

    Laun flugmálastjóra eru úrskurðuð af kjaranefnd en laun framkvæmdastjóra eru ákvörðuð af fjármálaráðuneytinu (svokölluð ráðherraröðun) og/eða flugmálastjóra. Á umræddum árum var framkvæmdastjórum ýmist greidd yfirvinna eftir viðveru eða um hana samið sérstaklega. Nú hafa verið gerðir svokallaðir fastlaunasamningar við framkvæmdastjórana, þ.e. þeir fá greiddan ákveðinn fjölda yfirvinnustunda á mánuði auk dagvinnu.
     Lífeyrisréttindi: Stjórnendur greiða í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða lífeyrissjóð viðkomandi stéttarfélags og njóta réttinda samkvæmt því. Þeir njóta engra annarra sérstakra lífeyrisréttinda sem tengd eru starfi þeirra hjá Flugmálastjórn.
     Bifreiðahlunnindi: Ekki er um svonefnd bifreiðahlunnindi að ræða en greitt er fyrir afnot af bifreiðum í samræmi við reglur og ákvarðanir fjármálaráðuneytis, bílanefndar og ferða­kostnaðarnefndar. Tveimur framkvæmdastjórum og flugmálastjóra er greitt samkvæmt svo­kölluðum blönduðum samningum, þ.e. greitt er fyrir fastan kílómetrafjölda vegna aksturs innan höfðuborgarsvæðisins en kílómetragjald samkvæmt akstursbók utan þess svæðis. Þremur framkvæmdastjórum er greitt samkvæmt sérstöku samkomulagi andvirði 2.000 km í eingreiðslu sem staðgreiðsluskattur er dreginn af. Greiðslum hefur verið hagað með þessum hætti frá 1. desember 1995. Fyrir þann tíma var föst greiðsla fyrir 3.000–6.000 km á ári.
     Símakostnaður: Flugmálastjórn greiðir kostnað vegna heimilissíma flugmálastjóra, enda er hann notaður í þágu stofnunarinnar hvenær sem er sólarhringsins. Á árinu 1997 var sá kostnaður um 34 þús. kr.
     Risna: Enginn stjórnendanna fær risnugreiðslur frá Flugmálastjórn.

     2.      Hver var ferðakostnaður erlendis árlega á árunum 1993–97, að báðum árum meðtöldum, hve margar ferðir voru farnar hvert ár um sig, hvernig sundurliðast kostnaðurinn milli flugfargjalds, gistikostnaðar og dagpeningagreiðslna? Sérstaklega er óskað sundurliðunar á fjölda ferða stjórnenda og tilgreindur árlegur sundurliðaður kostnað­ur við þær og ferðir maka þeirra, sé um það að ræða.
    Í töflu 2.1 er yfirlit yfir kostnað við utanlandsferðir starfsmanna Flugmálastjórnar á árun­um 1993–97. Þar kemur fram sundurliðun á fargjöldum, dagpeningagreiðslum og öðrum kostnaði ásamt fjölda ferða og fjölda ferðadaga.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



    Flugmálastjórn þarf eðli starfseminnar vegna að vera í miklum alþjóðlegum samskiptum. Stofnunin er fulltrúi Íslands á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO), Evrópu­samtaka flugmálastjórna (ECAC), Flugöryggissamtaka Evrópu (JAA) auk þess að rækja um­talsvert samstarf við systurstofnanir annars staðar á Norðurlöndunum. Einnig er henni skylt að sinna störfum í nefndum og vinnuhópum vegna samningsins við ICAO um alþjóðaflug­þjónustu en þeir fjalla um eftirlit og skipulagningu flugumferðar á Norður-Atlantshafi.
    Ferðum Flugmálastjórnar má skipta í fjóra meginflokka.
     1.      Rekstur: Ferðir vegna alþjóðlegrar samvinnu í flugmálum og þátttaka í alþjóðlegum vinnuhópum vegna þeirrar þjónustu sem Flugmálastjórn veitir á Norður-Atlantshafi. Al­þjóðaflugþjónustan greiðir Flugmálastjórn sérstaka stjórnunarþóknun sem ætlað er að standa straum af m.a. ferðakostnaði vegna samstarfs í alþjóðafluginu. Þá hefur samstarf Evrópuþjóða aukist til muna á undanförnum árum í kjölfar EES-samningsins og þar með ferðum Flugmálastjórnar tengdu því samstarfi. Má þar nefna vinnuhópa á vegum ECAC og þátttöku í JAA.
     2.      Alþjóðaflugþjónustan: Ferðir eru greiddar beint af Alþjóðaflugþjónustunni. Um er að ræða ferðir í tengslum við þróun á hugbúnaði og/eða tækjabúnaði vegna flugstjórnar­miðstöðvar og annarra verkefna Alþjóðaflugþjónustunnar.
     3.      PT-ferðir: Samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra flugumferðarstjóra við ríkið er gert ráð fyrir ákveðnum fjölda ferða sem Flugmálastjórn styrkir og eru hluti af endur­menntun flugumferðarstjóra. Flugmálastjórn greiðir dagpeninga í þrjá daga fyrir hverja ferð og hluta fargjalds.
     4.      Eftirlitsferðir: Ferðir til að fylgjast með rekstri íslenskra flugfélaga eða til að skrá flugvélar. Þessar ferðir eru greiddar af flugrekendum.
    Flugmálastjórn greiðir fargjöld og dagpeninga samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefnd­ar hverju sinni. Dagpeningum er ætlað að standa straum af gisti- og fæðiskostnaði. Því er ekki um sundurliðun gistikostnaðar og dagpeninga að ræða.
    Annar kostnaður sem til fellur vegna ferða er greiddur samkvæmt reikningum og getur verið um að ræða ráðstefnu- og námskeiðsgjald, bílaleigubíla (ef slíkur ferðamáti er hag­kvæmur), fjarskiptakostnað í þágu Flugmálastjórnar o.s.frv. Í undantekningartilfellum er um svokallaðan annan kostnað að ræða.
    Á árunum 1993–95 var mikill dagpeningakostnaður hjá Alþjóðaflugþjónustunni vegna þróunar hugbúnaðarkerfis í Kanada en starfsmenn Flugmálastjórnar voru þar langdvölum við þróunarvinnu. Kemur þetta fram í fjölda ferðadaga, dagpeningakostnaði og öðrum kostn­aði.
    Í töflu 2.2 er sundurliðun á fjölda ferða stjórnenda og maka og tilgreindur árlegur kostn­aður.

Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



    Ferðakostnaður maka er ekki greiddur með þeirri undantekningu þó að í tveimur tilvikum var af sérstöku tilefni greitt fargjald eiginkonu flugmálastjóra árið 1993. Heildarupphæðin var 71.795 kr.

     3.      Hvaða reglur gilda um bifreiðahlunnindi, risnu- og ferðakostnað stjórnenda?
     Bifreiðahlunnindi: Um eiginleg bifreiðahlunnindi er ekki að ræða, sbr. svar við 1. lið.
     Risnukostnaður stjórnenda: Stjórnendur fá ekki greidda risnu. Um risnuheimild gildir að hver sá stjórnandi sem telur nauðsynlegt að stofna til risnukostnaðar fyllir fyrir fram út þar til gert eyðublað þar sem fram kemur tilefni, gestir, hver stendur fyrir boðinu, áætlaðar veit­ingar og kostnaður. Flugmálastjóri veitir samþykki með undirritun sinni. Þessi regla um risnuheimildir hefur gilt frá því síðla árs 1994.
     Ferðakostnaður stjórnenda: Um ferðakostnað gilda reglur nr. 39/1992 ásamt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar hverju sinni. Ferðaheimild er gerð og hún árituð af flugmálastjóra og samgönguráðuneyti. Í ferðaheimilid kemur fram tilefni ferðar, áfangastaður, lengd ferðar og áætlaður kostnaður.

     4.      Hver var árlegur risnukostnaður 1993–97, að báðum árum meðtöldum, sundurliðað eftir:
                  a.      fastri risnu greiddri einstökum stjórnendum,
                  b.      risnu greiddri samkvæmt reikningi,
                  c.      helstu þáttum risnunnar og kostnaði við hvern þeirra, auk helstu tilefna risnunnar?

    Föst risna er ekki greidd stjórnendum.
    Í töflu 4.1 má sjá yfirlit yfir bókfærðan risnukostnað hjá Flugmálastjórn 1993–97. Allar fjárhæðir eru í þús. kr.

Tafla 4.1
1993 1994 1995 1996 1997
Bókfærður risnukostnaður 3.232 5.420 2.218 2.871 1.794
Sundurliðun eftir tilefni:
Norrænt samstarf 157 1.826 627 357 168
ICAO-samstarf 1.092 2.089 473 1.236 290
Annað erlent samstarf 728 315 196 581 237
Fundir, vígslur, hátíðir 1.101 1.150 721 638 919
Önnur tilefni 154 40 201 59 180
Samtals 3.232 5.420 2.218 2.871 1.794

    Eins og fram hefur komið er Flugmálastjórn í miklu erlendu samstarfi. Risna sem veitt er þegar tekið er á móti erlendum gestum og sendinefndum er gjarnan hádegis- og kvöldverður og að jafnaði með vínveitingum. Einnig er oft boðið í stuttar skoðunarferðir. Fjöldi funda sem haldnir eru hér á landi er mjög breytilegur milli ára. Fundir eru haldnir reglulega með umdæmisstjórum og starfsmönnum og er þá gjarnan boðið upp á málsverð. Flugmálastjórn heldur árlega jólaboð fyrir starfsmenn sína og maka þeirra. Eru þar boðnar léttar veitingar (pinnamatur og létt vín). Flugmálastjórn stendur árlega fyrir Flugþingi. Í lok þess hefur verið boðið upp á léttar veitingar. Þegar stærstu áföngum í flugvallargerð hefur verið náð hefur gjarnan verið um formlega vígslu að ræða.
    Risnukosnaður er breytilegur á milli ára. Mestur var hann á árunum 1993 og 1994, enda var þá óvenjumikið um heimsóknir erlendra gesta.
    Árið 1993 var tekið á móti „Joint Support“-nefnd ICAO sem hingað kemur í heimsókn þriðja hvert ár. Um 25 manns eru jafnan í þessum hópi. Sama ár var alþjóðaflugvöllurinn á Egilsstöðum vígður.
    Árið 1994 voru óvenjumargir norrænir fundir haldnir hér á landi, árlegur fundur norrænna flugmálastjóra, flugvallarstjóra og fjármálastjóra. Sama ár var nýja flugstjórnarmiðstöðin vígð. Stór sendinefnd á vegum ICAO kom af því tilefni til landsins. Formleg vígsla fór fram þar sem starfsmönnum og ýmsum gestum sem tengdust byggingunni var boðið. Formleg vígsla á nýrri flugbraut var haldin á Húsavík.
    Árið 1995 voru haldnir fjórir norrænir samstarfsfundir hér á landi.
    Árið 1996 var tekið á móti „Joint Support“-nefnd ICAO. Tveir fjölmennir flugöryggis­málafundir voru haldnir hér á landi vegna Evrópusamstarfs.

     5.      Hefur verið farið í laxveiðiferðir á vegum Flugmálastjórnar? Ef svo er, hvernig skiptist árlegur kostnaður við þær sl. fimm ár milli laxveiðileyfa og annarra útgjalda vegna ferðanna. Hve margar ferðir voru farnar á ári hverju, hvert var farið, hverjir voru þátttakendur í slíkum ferðum og hver voru tilefni þeirra?
    Á vegum Flugmálastjórnar hefur ekki verið farið í laxveiðiferðir.

     6.      Hverjir taka ákvarðanir um ferðir stjórnenda erlendis og laxveiðar, sé um þær að ræða?
    Eins og áður segir er ekki um laxveiði að ræða. Hvað varðar ferðir stjórnenda erlendis er vísað í svar við 3. lið.