Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 334  —  286. mál.




Skýrsla



menntamálaráðherra um framfærslukostnað og lögheimilisflutninga íslenskra námsmanna.

    Eitt af megineinkennum íslenska skólakerfisins er að hér hefur ríkt meira jafnrétti til náms en víða annars staðar, hvort sem litið er til kynferðis, efnahags, búsetu eða annarra þátta. Liður í þessari stefnu er úthlutun dreifbýlisstyrkja til nemenda af landsbyggðinni sem sækja nám fjarri heimabyggð. Á árabilinu 1988–97 var varið um 900 millj. kr. í þessum tilgangi en fjárveitingin hefur hækkað jafnt og þétt frá 1990. Í fjárlagafrumvarpi ársins 1999 er gert ráð fyrir að rúmlega 163 millj. kr. verði varið til jöfnunar á námskostnaði.
    Ýmsar tækninýjungar hafa enn aukið jafnrétti til náms hér á landi. Má þar fyrst og fremst nefna upplýsingatæknina en með henni hefur fjarnám eflst mjög verulega. Tæknin bætir ekki síst hag nemenda sem búa fjarri þéttbýli og þeirra geta ekki sótt hefðbundna skóla, til dæmis vegna fötlunar.
    Skýrsla þessi er unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í samræmi við ályktun sem Al­þingi samþykkti í febrúar 1995. Með henni var menntamálaráðherra falið að láta gera úttekt á kjörum og stöðu námsmanna er stunda nám fjarri heimabyggð. Niðurstöður skýrslunnar sýna m.a. að viðbótarkostnaður við að hafa nemanda á framhaldsskólastigi eða háskólastigi í skóla fjarri heimabyggð er á bilinu 130–375 þús. kr. að teknu tilliti til dreifbýlisstyrks. Einnig kemur fram að lítill munur er á upphæðum lána eða tíðni lántöku hjá lánþegum LÍN eftir búsetu. Sú niðurstaða bendir til þess að ekki sé teljandi munur á lánsfjárþörf nemenda í sérskólum og háskólum eftir búsetu.
    Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fer hér á eftir.

Samandregin niðurstaða.
    Skýrsla þessi er unnin að beiðni menntamálaráðuneytis í framhaldi af þingsályktun þar sem menntamálaráðherra var falið að gera úttekt á kjörum og stöðu fólks er stundar nám fjarri heimabyggð.
    Í skýrslu þessari er fjallað um lögheimilisflutninga og framfærslukostnað námsmanna við framhaldsskóla, sérskóla og háskóla á Íslandi. Einnig er fjallað um lántökur námsmanna hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Viðbótarframfærslukostnaður fjölskyldna námsmanna er stunda nám fjarri heimabyggð hefur veruleg áhrif á kjör og stöðu þeirra. Sé viðbótarfram­færslukostnaður fjölskyldna námsmanna er stunda nám fjarri heimabyggð meiri en viðbótar­framfærslukostnaður fjölskyldna námsmanna er stunda nám í eða skammt frá heimabyggð má ætla að þess sjái stað í mismunandi lántökutíðni og/eða mismunandi lántökuupphæð námsmanna hjá LÍN eftir búsetu.
    Meginniðurstaða skýrslunnar er að námsmenn á framhaldsskóla- og háskólastigi séu síður líklegir til að flytja lögheimili sitt en jafngamalt fólk sem ekki er í námi. Það er því talið ólíklegt að námsmenn er stunda nám fjarri heimabyggð geti bætt stöðu sína fjárhagslega með því að breyta lögheimili sínu.
    Önnur niðurstaða skýrslunnar er að viðbótarkostnaður við að hafa nemanda á framhalds­skóla eða háskólastigi í skóla fjarri heimabyggð leiki á bilinu 130–375 þús. kr. að teknu tilliti til dreifbýlisstyrks. Þessi upphæð svarar til 4–14% af neysluútgjöldum 3–6 manna fjölskyldu.
    Þriðja niðurstaða skýrslunnar er að lítill munur sé á upphæðum lána eða tíðni lántöku hjá lánþegum Lánasjóðs íslenskra námsmanna eftir búsetu. Sú niðurstaða bendir til þess að ekki sé teljandi munur á lánsfjárþörf nemenda í sérskólum og háskólum eftir búsetu.

1. Inngangur.
    Hinn 24. febrúar 1995 samþykkti Alþingi þingsályktun þar sem menntamálaráðherra var falið að láta fara fram úttekt á kjörum og stöðu fólks er stundar nám fjarri heimabyggð. Tek­ið var fram að kannað skyldi sérstaklega „hvort námsfólk, er stundar nám fjarri heimabyggð, verði af réttindum og félagslegri þjónustu ef það heldur lögheimili í heimabyggð og Lána­sjóður íslenskra námsmanna taki sérstaklega tillit til slíkra aðstæðna“.
    Í öðru lagi skyldi kannað „hvaða kostnaður hlýst af dvöl nemenda sem stunda nám í grunn- og framhaldsskólum og búa í heimavistum eða leiguhúsnæði fjarri heimabyggð“.
    Menntamálaráðuneytið fór þess á leit við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands með bréfi í febrúar á þessu ári að stofnunin tæki að sér framkvæmd umræddrar könnunar og samþykkti Hagfræðistofnun þá málaleitan.
    Hagfræðistofnun hefur hagað könnun sinni þannig að gagna hefur verið aflað frá félags­málaráðuneyti og Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Einnig hafa Lánasjóður íslenskra námsmanna og Hagstofa Íslands staðið að sérstökum úrvinnslum úr eigin gagnagrunnum að beiðni Hagfræðistofnunar. Skólameistarar nokkurra framhaldsskóla hafa einnig veitt upplýs­ingar um heimavistarkostnað og mötuneytisgjöld.
    Á grundvelli þeirra gagna sem Hagfræðistofnun hefur aflað sér telur stofnunin að náms­fólk sem stundar nám fjarri heimabyggð verði ekki af réttindum og félagslegri þjónustu í um­talsverðum mæli þótt það haldi lögheimili í heimabyggð meðan á náminu stendur. Þá er það skoðun stofnunarinnar að á grundvelli þeirra gagna sem hún hefur haft tök á að afla sé líklegt að viðbótarkostnaður sem hlýst af dvöl nemenda sem stunda nám í grunn- og framhaldsskól­um og búa á heimavistum eða í leiguhúsnæði fjarri heimabyggð sé á bilinu 190–475 þús. kr. á ári.
    Efnistök í skýrslu þessari eru á þann veg að í upphafi er gerð grein fyrir því hvernig hag­fræðingar skilja og skýra ákvarðanir manna um menntun og búsetu. Spurt er hvort sveitarfé­lög hafi tök á að hafa áhrif á búsetuákvörðun. Þá eru tölulegar upplýsingar um flutninga ungs fólks milli sveitarfélaga og milli landsvæða á árunum 1994–96 skoðaðar. Einnig er gerð grein fyrir hvernig sá viðbótarkostnaður er sem hlýst af dvöl ungmennis í skóla fjarri heima­byggð er metinn. Loks eru helstu niðurstöður dregnar saman í lokakafla.

2. Menntun og búseta, tvær aðskildar ákvarðanir.
    Hagfræðingar skýra ákvarðanir einstaklinga varðandi umfang og lengd menntunar með svipuðum greiningartækjum og þeir skýra ákvarðanir þessara sömu einstaklinga um búsetu. Í báðum tilvikum er litið til þess að sá sem flytur eða sá sem menntar sig leggur í nokkurn kostnað í upphafi til að auka tekjuöflunarmöguleika sína síðar.
    Sá sem menntar sig formlega og sækir skóla verður af vinnutekjum sem ella stæðu honum til boða auk þess sem hann verður fyrir nokkrum beinum kostnaði vegna skólasóknar sinnar. Sá sem flytur þarf að eyða fé og tíma til að leita að húsnæði og atvinnu við aðstæður sem kunna að vera honum framandi auk þess sem nokkur beinn kostnaður hlýst ávallt af flutningi hvort heldur sem flutningsvegalengdin er löng eða stutt.
    Sá sem sækir menntun hefur von um betur launuð störf að menntun lokinni en hann átti kost á áður en menntunar var aflað. Sá sem flytur gerir það oft vegna þess að laun duga betur til framfærslu á staðnum sem flutt er til en þeim sem flutt er frá. Ekki er gefið að kaupmáttar­aukningin sem vænst er komi fram strax að flutningi afstöðnum heldur er einnig mögulegt að launþegi taki mið af væntri kaupmáttarþróun í gömlu og nýju starfi yfir lengra tímabil.
    Hagfræðingar líta því á báðar ákvarðanirnar sem fjárfestingarákvarðanir með útlögðum kostnaði í upphafi ferilsins og ávinningi sem er lengi að tínast til. Stundum eru þessar ákvarðanir teknar samtímis. Það er þó ekki algilt og kemur þar margt til. Það er til í dæminu að ungt fólk kjósi sér búsetu og starf og velji skólastofnun í samræmi við það. En oft er þessu öfugt farið, starfsákvörðun kemur eftir að námi er lokið eða á síðustu stigum náms. Það er því eðlilegt að líta á ákvarðanirnar tvær um menntun og búsetu sem aðskildar ákvarðanir. Einnig er eðlilegt að ganga út frá því að upplýsingar sem einstaklingurinn safnar og notar við ákvarðanirnar séu af ólíkum toga. Þegar einstaklingur ákveður hve umfangsmikla skóla­göngu hann leggur út í er honum nægjanlegt að vita hvaða áhrif aukin menntun hefur á vænt­ar framtíðartekjur hans óháð búsetu. Þegar einstaklingurinn ákveður búsetu þarf hann að bera saman tekjur sem einstaklingur með hans menntun getur haft á mismunandi stöðum. Setjum sem svo að einstaklingur einskorði sig við búsetu á Íslandi. Þá mun hann í menntun­arákvörðun sinni einskorða sig við að skoða hvaða áhrif aukin menntun hefur á meðaltekjur fólks sem búsett er á Íslandi. Þegar kemur að því að velja milli staða á Íslandi er hins vegar skynsamlegt fyrir einstakling sem hefur áunnið sér gefið menntunarstig (sem við skulum kalla S til hægðarauka) að líta til sundurgreindari upplýsinga: Hver er líkleg tekjuþróun aðila með menntunarstig S á stað A samanborið við líklega tekjuþróun á stað B eða stað C eða stað D? Búsetuvalið fer eftir því hvar líklegast er að einstaklingur með menntunarstig S finni vel launað starf.

3. Menntunarákvörðunin.
    Eins og þegar hefur verið bent á má líta á ákvörðun um menntun eins og ákvarðanir um fjárfestingu. Lengd menntunar ræðst þá af ávinningsauka sem einstaklingur hefur af að bæta við menntun sína annars vegar og kostnaði sem af menntuninni hlýst hins vegar. Gerum ráð fyrir að grunnmenntun sem veitt er í öllum sveitarfélögum sé jafngild. Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir að ávinningur af framhaldsmenntun fyrir dæmigerðan einstakling sé óháður fæðingar- og uppeldissveitarfélagi. Hins vegar getur verið misdýrt fyrir einstaklinga frá ólík­um sveitarfélögum að afla sér viðbótarmenntunar. Þessi kostnaðarójöfnuður getur verið af margvíslegum toga. Ferða. og dvalarkostnaður á námsstað er þó augljósasta uppspretta kostnaðarójafnaðar. Líklegt verður að telja að dýrara sé að leggja stund á framhaldsnám fjarri heimabyggð en í heimabyggð. Ætla verður að ólíklegra sé að einstaklingur sem þarf að leggja í mikinn kostnað við viðbótarmenntun sæki sér slíka menntun en annar jafnhæfur og jafngamall einstaklingur sem getur aflað sér viðbótarmenntunarinnar með lægri tilkostn­aði.
    Nokkur munur hefur verið á skólagöngu ungmenna af landsbyggðinni og ungmenna á höf­uðborgarsvæðinu. Þessi munur kemur ágætlega fram á mynd 3.1.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


    Myndin ber með sér að árið 1980 var verulega lægra hlutfall 16 ára ungmenna og eldri sem heimilisfesti áttu í Norðurlandskjördæmi eystra innritað í skóla en tilfellið var með jafn­aldra þeirra með heimilisfesti í Reykjavík. Munurinn er mestur á aldursbilinu 16–19 ára, en minnkar nokkuð eftir það.
    Á síðustu árum hefur dregið verulega úr þeim mun sem fram kemur milli Reykjavíkur og landsbyggðar hvað þetta áhrærir, sbr. mynd 3.2:


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


    Fjarlægðin milli ferlanna tveggja er mun minni á mynd 3.2 en mynd 3.1. Því má fullyrða að árið 1992 sé minni munur en var árið 1980 á árgangaskiptri menntunartíðni milli Reykja­víkur annars vegar og Norðurlands eystra hins vegar. Efalítið eru margar orsakir fyrir þeirri þróun sem myndirnar sýna. Þannig hefur það vafalaust sitt að segja að framboð á framhalds­skólamenntun hefur aukist á Norðurlandi eystra. Þá hefur það sjálfsagt einnig sitt að segja að fólk með grunnmenntun á nú færri kosta völ í atvinnulífinu en áður. Þannig er líklegt að eftirspurn ungmenna á Norðurlandi eystra eftir menntun hafi aukist samfara auknu framboði.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


    Á mynd 3.3 er litið til stöðunnar í upphafi skólaársins 1996–97. Þá kemur í ljós að aftur hefur dregið nokkuð sundur með legu ferlanna tveggja sem sýna tíðni skólasóknar ungmenna með heimilisfesti í Reykjavík annars vegar og á Norðurlandi eystra hins vegar. Nánari skoð­un sýnir að ferillinn sem sýnir skólasókn reykvískrar æsku hefur breyst meira frá árinu 1992 en ferillinn sem sýnir skólasókn æskufólks með heimilisfesti á Norðurlandi eystra. Reykvískt æskufólk sem er eldra en 21 árs sækir nú skóla í ríkari mæli en áður. Þessi aukning skólasóknar eldri ungmenna hefur ekki náð til Norðurlands eystra í þeim mæli sem orðið hefur í Reykjavík enn sem komið er, hvað svo sem síðar verður.
    Tafla 3.1 sýnir hlutfall árgangs sem hefur nám á háskólastigi og lýkur því hér á landi og í nokkrum öðrum löndum.

Tafla 3.1. Hlutfall árgangs sem hefur og lýkur námi á háskólastigi í aðildarlöndum OECD.

Land
(1) Hlutfall árgangs sem hefur nám á háskólastigi (2) Hlutfall árgangs sem lýkur stuttri fyrstu gráðu (3) Hlutfall árgangs sem lýkur langri fyrstu gráðu (4) Námslokanemar sem hlutfall af nemum sem hefja nám = [(2)+(3)]/(1)
Bandaríkin 52 m m m
Kanada 48 29 x 0,6
Stóra-Bretland 43 30 x 0,7
Ástralía m 34 x m
Nýja-Sjáland 40 m m m
Austurríki 26 x 9 0,35
Danmörk 31 21 7 0,9
Finnland m 7 12 m
Frakkland 33 m m m
Þýskaland 27 a m m
Holland 34 m m m
Svíþjóð m 9 10 m
Noregur 25 17 5 0,9
Sviss 15 a m m
Tyrkland 16 7 x 0,4
Ísland 39 14 10 0,62
m = upplýsingar vantar; x = á ekki við
Heimild: Gagnagrunnur OECD, töflur C4.1 og G2.2.

    Taflan sýnir að töluvert hátt hlutfall íslenskra ungmenna hefur háskólanám en að tiltölu­lega miklu lægra hlutfall árgangs lýkur formlegu námi. Þessi skýrsla er ekki vettvangur til að gera brottfall íslenskra háskólastúdenta að umtalsefni, aðeins skal bent á að nokkuð hefur verið um það málefni fjallað af Guðmundi B. Arnkelssyni og Friðriki H. Jónssyni (1995). Þó má draga þá ályktun að nemendur hafi ekki skýra mynd af þeim beina og óbeina kostnaði sem lok háskólanáms hefur í för með sér. Tölur OECD benda einnig til þess að dæmigerður útskriftarnemi á Íslandi sé nokkuð eldri en dæmigerður útskriftarnemi annars staðar í OECD löndunum.

4. Búsetuákvörðunin.
    Setjum sem svo að einstaklingar og fjölskyldur kjósi sér heimilisfesti þar sem vænt summa afvaxtaðra framtíðartekna fjölskyldunnar að teknu tilliti til kostnaðar við að breyta um heimilisfesti sé hæst. Séu tekjuöflunarmöguleikar allra fjölskyldna svipaðir ætti ekki að líðast meiri tekjumunur milli landsvæða en svarar til flutningskostnaðarins (reiknaðs til árs­kostnaðar), því komi upp sú staða að tekjur á gefnu landsvæði hækki mundi aðstreymi fólks til þess landsvæðis fljótlega skapa offramboð vinnuafls með tilheyrandi áhrifum á launa­þróun. Samkvæmt þessu líkani væru flutningar tiltölulega handahófskenndir og tekjumunur milli landsvæða tiltölulega lítill. Þessi forspá líkansins stenst illa gagnvart þeim raunveruleika sem er í flestum nálægum samfélögum: Fólk bæði flytur til og frá gefnum landsvæðum og vart hefur orðið viðvarandi munar meðaltekna milli landsvæða. Þess eru meira að segja dæmi hér á landi að fólksflutningar séu frá því landsvæði þar sem meðaltekjur virðast hvað hæstar, sbr. töflu 4.1.

Tafla 4.1. Meðallaun á ársverk á árinu 1995 og fjölgun íbúa eftir landsvæðum á Íslandi árið 1995 og á ársgrundvelli á árabilinu 1971–97.

Landsvæði
Meðallaun á ársverk í þús. kr., 1995* Hlutfallsleg fjölgun íbúa árið 1995 Árleg hlutfallsleg fjölgun íbúa á árabilinu 1971–97
Vestfirðir 1.860 -4,6% -0,5%
Reykjanes 1.821 -0,1% 1,4%
Austurland 1.775 -1,0% 0,4%
Norðurland vestra 1.767 -0,8% 0,0%
Höfuðborgarsvæðið 1.747 1,3% 1,5%
Norðurland eystra 1.725 -0,4% 0,7%
Suðurland 1.687 -0,6% 0,4%
Vesturland 1.679 -0,9% 0,2%
Landsmeðaltal 1.748 0,4% 1,1%
* Störf og tekjur í landbúnaði ekki meðtalin.
Heimild: Byggðastofnun.

    Tafla 4.1 sýnir að meðallaun á ársverk (að landbúnaði undanskildum) í Vestfjarðakjör­dæmi árið 1995 voru 1.860 þús. kr., en 1.747 þús. kr. á höfuðborgarsvæðinu. Meðallaun á ársverk eru hvergi hærri en á Vestfjörðum, en þrátt fyrir það er fólksfækkun þar meiri en á öðrum svæðum bæði árið 1995 og eins ef litið er til lengra tímabils. Þá er eftirtektarvert að meðallaun á ársverk á höfuðborgarsvæðinu eru nánast þau sömu og meðallaun á ársverk sé litið til landsins alls.
    Bandaríski hagfræðingurinn George Borjas og samstarfsmenn hans hafa þróað líkan sem fyrst var sett fram af enska hagfræðingnum Andrew D. Roy á sjötta áratugnum. Samkvæmt því líkani má skipta launagreiðslum í tvennt, annars vegar þátt sem stjórnast af getu starfs­manna til að leysa starfstengd verkefni af hendi, hins vegar þátt sem er ótengdur þessari færni starfsmannanna. Starfsmenn, launþegar, geta ekki breytt getu sinni (nema hugsanlega á löngum tíma, t.d. með skólagöngu). Það ræðst svo af eðli og uppbyggingu atvinnulífs á hverju landsvæði hvernig færum starfsmönnum er umbunað. Þannig er hugsanlegt að við­bótarfærni og geta séu verðlaunaðar á ólíkan hátt á mismunandi stöðum og að tekjur óháðar skólagöngu séu einnig mismunandi eftir landsvæðum. Víkjum nú lítils háttar frá líkani Roys/Borjas og gerum ráð fyrir að færni ráðist af skólagöngu einvörðungu (en að einstaklingar geti verið misafkastamiklir námsmenn). Gerum einnig ráð fyrir að engin óvissa ríki um það meðal vinnuveitenda eða launþega hvernig skólaganga nýtist í framleiðslunni á hverju land­svæði fyrir sig. Mynd 4.1 lýsir samhengi búsetu, skólagöngu og tekna þar sem landsvæði eru tvö og flutningur milli landsvæða er tiltölulega útgjaldalítill.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


    Á landsvæði 1 eru tekjur óháðar skólagöngu hlutfallslega háar en lítið er borgað fyrir við­bótarskólagöngu. Á landsvæði 2 er þessu öfugt farið, tekjur óháðar skólagöngu eru tiltölu­lega lágar en ríflega er greitt fyrir viðbótarskólagöngu.
    Allir þeir sem hafa skemmri skólagöngu en S* ár munu setjast að á landsvæði 1, enda eru tekjur þeirra þar hærri en þær væru á landsvæði 2. Allir þeir sem hafa lengri skólagöngu en S* ár munu setjast að á landsvæði 2 enda eru tekjur þeirra hærri en tekjur á landsvæði 1.
    Samkvæmt því líkani sem hér er lýst er fullkomlega mögulegt að fólk bæði flytji til land­svæðanna og frá þeim. Líkanið gerir hins vegar ráð fyrir fullkominni flokkun eftir skóla­göngu milli landsvæðanna. Það er nokkuð óhefluð forsenda. Á næstu mynd er því lýst hvern­ig ferlar geta litið út ef nokkur óvissa ríkir um hvernig greitt er fyrir skólagöngu á landsvæði 1. Ástæða óvissunnar gæti t.d. verið einhæft atvinnulíf á landsvæði 1 sem yrði til þess að einstaklingur með mikla menntun gæti ekki gengið að því vísu að tilboð um vinnu sem gerði kröfu í samræmi við skólagöngu hans og gæti því orðið að sætta sig við lægra kauptilboð en sækti hann vinnu á landsvæði 2 þar sem atvinnulíf væri fjölbreyttara.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


    Áfram mundi borga sig fyrir alla sem væru með menntun undir S* að setjast að á land­svæði 1. Einnig mundi borga sig fyrir alla með menntun yfir S** að setjast að á landsvæði 2. Það færi hins vegar eftir vinnutilboðum hverju sinni hvort mundi heldur borga sig fyrir einstakling með menntun á bilinu S* til S** að setjast að á landsvæði 1 eða landsvæði 2. Þó má fullyrða að dreifist vinnutilboð á landsvæði 1 jafnt milli efri og neðri markanna muni líkindin á að einstaklingur fái betra tilboð frá landsvæði 2 en landsvæði 1 aukast eftir því sem menntun hans er meiri.
    Líkan Roys/Borjas getur því skýrt þá þverstæðukenndu staðreynd að launamunur milli landsvæða getur viðhaldist þrátt fyrir stöðuga flutninga fólks til og frá landsvæðunum. Sam­kvæmt líkaninu er grundvallarástæða þessa launamunar sú að viðbótarmenntun gefur minni og ótryggari tekjur á landsvæði 1 en landsvæði 2. Líkaninu er ekki ætlað að skýra hvers vegna viðbótarmenntun hefur svo ólík áhrif á tekjuöflunarmöguleika, en einhæfni atvinnulífs er augljós skýring, þótt ekki sé útilokað að aðrar og staðbundnari skýringar kunni einnig að koma til.
    Gylfi Magnússon (1998) notar þær hugmyndir sem hér hafa verið tíundaðar til að byggja tölulegt líkan sem skýrir flutninga milli staða á Íslandi á árabilinu 1960–94. Stefán Ólafsson (1997) gefur ágætt yfirlit yfir niðurstöður eigin rannsókna og annarra um fólksflutninga á Íslandi. Þær niðurstöður má draga saman í eftirfarandi: Ungir flytja fremur en þeir sem eldri eru, menntaðir flytja fremur en þeir sem minni menntun hafa, sterkar líkur eru á að þeir sem flytja flytji til höfuðborgarsvæðisins. Þessar niðurstöður falla vel að líkani Roys/Borjas sé ráð fyrir því gert að höfuðborgarsvæðið sé landsvæði 2 og önnur landsvæði séu landsvæði 1.

5. Áhrif sveitarfélaga á búsetuákvörðun.
    Í 1 . gr. laga nr. 21/1990, lögheimilislögum, segir: „Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Dvöl í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna má til þessa, er ekki ígildi fastrar búsetu.“ Nokkrar undantekningar eru gefnar frá ákvæðum 1. gr. lögheimilis­laga. Mikilvægasta undantekningin er í 4. gr. laganna þar sem m.a. segir: „Dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst getur hann átt lögheimili þar áfram enda hafi hann þar bækistöð í leyfum og taki ekki upp fasta bú­setu annars staðar.“
    Þeir sem eiga lögheimili í sveitarfélagi greiða útsvar til þess sveitarfélags. Útgjöld sveit­arfélaga ráðast hins vegar bæði af fjölda þeirra sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu og af fjölda þeirra sem raunverulega nota mannvirki og þjónustu sem sveitarfélagið byggir og býður. Í sumum tilvikum getur sveitarfélag ekki með góðu móti takmarkað notkun fólks utan sveitarfélagsins á þjónustu þess. Þetta á t.d. við um þann hluta samgöngukerfis sveitarfélags­ins sem sveitarfélagið á og rekur. Í öðrum tilvikum getur sveitarfélag takmarkað þjónustu við þá sem þar eiga lögheimili. Þetta á t.d. við um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
    Ljóst er að sveitarsjóðir geta haft nokkurn hag af að fleiri séu skráðir með heimilisfesti en í raun búa í sveitarfélaginu því að með skráningunni fylgja hugsanlega nokkrar útsvars­tekjur auk þess sem framlög úr jöfnunarsjóðum félagsmálaráðuneytisins ráðast af fjölda skráðra íbúa.
    Verulegar líkur eru á að nemandi sem á rétt á að halda lögheimili í öðru sveitarfélagi en því sem hann sækir skóla í dvelji í Reykjavík eða nágrannasveitarfélagi Reykjavíkur þar sem stór hluti námsframboðs á sérskóla- og háskólastigi er á höfuðborgarsvæðinu. Svo virðist að það sé fyrst og fremst aðgangur að húsaleigubótum og dagvistarplássum sem skipti máli fyrir námsmanninn annars vegar og skólasveitarfélagið hins vegar. Í 4. gr. laga nr. 138/97 er kveðið á um að leigjendur eigi rétt á húsaleigubótum vegna íbúðarhúsnæðis sem þeir leigi, enda eigi þeir þar lögheimili. Frá þessu er undantekning sem einnig er tilgreind í 4. gr. lag­anna. Þar segir: „Dvelji maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og á þar skráð aðsetur getur viðkomandi átt rétt til húsaleigubóta þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um lögheimili í leiguíbúð. Umsókn um bætur skal send því sveitar­félagi þar sem námsmaðurinn á lögheimili óháð aðsetri.“ Hagfræðistofnun fékk þær upplýs­ingar hjá félagsmálaráðuneytinu að nú greiddu öll sveitarfélög húsaleigubætur til nemenda óháð staðsetningu hins leigða húsnæðis, enda séu önnur skilyrði fyrir bótum uppfyllt.
    Hjá Reykjavíkurborg fékkst upplýst að börn sem eiga lögheimili í Reykjavík eigi forgang að dagvistarrýmum á dagvistarstofnunum sem borgin rekur. Hins vegar eru nokkur dæmi um að samningur sé á milli borgarsjóðs Reykjavíkur og sveitarsjóða úti á landi um að sveitar­sjóðurinn taki þátt í kostnaði sem borgarsjóður hefur af dvöl barna frá viðkomandi sveitar­félagi á dagvistarstofnun í Reykjavík. Á móti hafa nemendur með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi rýmri rétt til dagvistarrýma í Reykjavík en ella hefði orðið. Þá hefur Stúdenta­ráð Háskóla Íslands samið um aðgengi barna stúdenta að dagvistarrýmum á vegum borgar­innar.
    Ekki verður séð að sveitarfélög eigi mörg almenn bein úrræði til að hafa áhrif á ákvörðun þeirra sem lögum samkvæmt geta valið milli tveggja sveitarfélaga um lögheimilisskráningu. Húsaleigubótakerfið hefði getað orðið áhrifamikið stjórntæki í þá veru, auk þess sem dag­vistarmál geta haft áhrif á nokkurn hóp eldri nema sem þegar hafa stofnað fjölskyldu. Eins og rakið er hér að ofan eru ákvæði laga um húsaleigubætur skýr og ýta ekki undir að nem­endur flytji lögheimili sitt. Sömuleiðis hafa samningar milli Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga, t.d. um dagvistun, dregið úr þeim ávinningi sem nemendur gætu hugsanlega haft af að flytja lögheimili sitt.
    Á það skal bent að ákvæði laga um húsaleigubætur og frjálsir samningar sveitarfélaga um þátttöku lögheimilissveitarfélags í dagvistarkostnaði í aðseturssveitarfélagi hefur dregið úr þeim ávinningi sem lögheimilissveitarfélag getur hugsanlega haft af því að hafa fleiri skráða með lögheimili en þar hafa aðsetur.
    Hér að framan hefur verið nokkuð einblínt á hag sveitarsjóða. Grunsemdir hafa verið uppi um að nemendur gætu fengið bætta þjónustu frá aðseturssveitarfélagi með því að breyta lög­heimilisskráningu sinni. Umræðan hér að framan bendir til þess að slíkur ávinningur sé tak­markaður. En því hefur ekki verið gefinn gaumur hvort nemendur kunni að hafa fjárhagsleg­an hag af að halda sem lengst í lögheimilisskráningu þótt raunverulegt aðsetur hafi verið flutt. Um þetta eru dæmi en fjárhæðir eru ekki háar. Þannig borgar ungur ökumaður allt að 25% minna fyrir að tryggja meðalstóran bíl ef hann á lögheimili utan Reykjavíkursvæðisins en ef hann ætti lögheimili á höfuðborgarsvæðinu. Sparnaður fyrir eldri ökumann væri minni, eða um 20%. Sparnaðurinn er lítill í fjárhæðum talinn, eða um 19 þús. kr. fyrir unga öku­manninn og um 6 þús. kr. fyrir þann eldri. Tryggingafélag sem haft var samband við sagðist ekki hafa upplýsingar um umfang „hentiskráningar“ af því tagi sem hér er gerð að umtalsefni en viðmælandi Hagfræðistofnunar taldi að finna megi dæmi um atferli af þessu tagi.

6. Flutningur ungs fólks í námi milli sveitarfélaga.
    Hagstofa Íslands heldur skrá yfir alla nemendur í framhaldsskólum og sérskólum og skólastofnunum á háskólastigi hér á landi. Hagstofa Íslands vistar einnig lögheimilisskrá, Þjóðskrá. Samkvæmt lögum nr. 73/1952, með síðari breytingum, skulu tilkynningar um að­setursskipti sendar bæjarstjórum eða oddvitum eða Manntalsskrifstofunni í Reykjavík eftir því sem við á. Þessir aðilar koma tilkynningum síðan áleiðis til Hagstofu Íslands (sbr. 11. gr. framangreindra laga).
    Að beiðni Hagfræðistofnunar hefur Hagstofa Íslands borið saman tilkynningar um aðset­ursskipti annars vegar og nemendaskrá hins vegar fyrir árin 1994–96. Hafa ber í huga að sami einstaklingur getur flutt lögheimili sitt oftar en einu sinni á hverju ári. Því eru tilkynn­ingar um lögheimilisflutninga fleiri en fjöldi einstaklinga sem flytur lögheimili. Í töflu 6.1 kemur fram fjöldi lögheimilisflutninga námsmanna annars vegar og fjöldi námsmanna sem flytur lögheimili á þessum árum hins vegar, ásamt upplýsingum um fjölda námsmanna innan lands.

Tafla 6.1. Lögheimilisflutningar námsmanna og fjöldi námsmanna 1994–96.

Ár
Fjöldi tilkynninga um lögheimilis­flutning námsmanna innan lands Fjöldi námsmanna sem flytur lögheimili Fjöldi námsmanna innan lands
1994 4.743 4.167 24.402
1995 5.083 4.399 24.710
1996 5.665 4.885 25.649
Heimild: Hagstofa Íslands.

    Tafla 6.1 ber með sér að hver námsmaður sem flytur lögheimili flytji lögheimili sitt 1,14–1,16 sinnum á ári að jafnaði. Þá kemur einnig í ljós að 17–19% námsmanna flytur lög­heimili sitt á hverju ári. Tíðni lögheimilisflutninga er á bilinu 19–22%. Til samanburðar má nefna að á árinu 1996 var tíðni lögheimilisflutninga innan lands 18,2% fyrir karla en 18,3% fyrir konur. Tíðni lögheimilisflutninga námsmanna er því ívið meiri en meðaltíðni fyrir mannfjöldann í heild. Sé litið á tengsl aldurs og tíðni lögheimilisflutninga á árinu 1996 kemur í ljós að á því ári er tíðni lögheimilisflutninga 15–19 ára um 19%, tíðni lögheimilis­flutninga 20–24 ára var um 39% og tíðni lögheimilisflutninga 25–29 ára var um 34%. Það er því ljóst að námsmenn eru síður líklegir til að flytja lögheimili sitt en annað ungt fólk og virðist þar muna verulegu. Í þessu sambandi er rétt að minna á að námsmenn njóta undan­þágu frá ákvæðum lögheimilislaga, sbr. 4. gr. Um marga námsmenn gildir því að þeir þurfa ekki að flytja lögheimili sitt meðan þeir eru í námi nema í tengslum við flutning foreldra eða núverandi eða fyrrverandi forráðamanna. Flutningatíðni fellur hratt með aldri eftir að 30 ára aldri er náð. Þannig er tíðni lögheimilisflutninga þeirra sem eru 40–49 ára á bilinu 11–13%.
    Með hliðsjón af lögheimilislögum má ætla að flutningatíðni námsmanna sé líkari flutn­ingatíðni fólks á miðjum aldri en flutningatíðni ungs fólks. Ekki verður annað séð en að sú tilgáta falli vel að þeim tölulegu staðreyndum sem hér hafa verið settar fram.
    Að beiðni Hagfræðistofnunar hefur Hagstofan tekið saman upplýsingar um flutninga námsmanna til og frá svæðum þar sem framhaldsskóla-, sérskóla- og háskólastofnanir eru. Á grundvelli þeirra upplýsinga hefur Hagfræðistofnun metið aldurs- og kynbundna flutninga ungmenna í námi árið 1996 og borið saman við aldurs- og kynbundna flutninga ungmenna almennt. Niðurstöðurnar koma fram á myndum 6.1–6.4.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu



    Mynd 6.1 sýnir aldursbundna flutninga karla. Fyrsta súlan sýnir að tíðni lögheimilisflutn­inga karla á aldrinum 15–19 ára innan sveitarfélags sé ríflega 8%. Næsta súla sýnir að tæp­lega 4% líkur voru til þess að karlar á þessum aldri tilkynntu flutning milli sveitarfélaga inn­an kjördæmis. Þriðja súlan sýnir að 4% líkur voru til þess að karlar á þessum tiltekna aldri flyttu lögheimili sitt milli kjördæma árið 1996. Næstu þrjár súlur sýna sömu upplýsingar fyrir nemendur sem eru 17 ára og yngri árið 1996. Þriðji súluhópurinn sýnir upplýsingarnar fyrir nemendur sem eru 18–19 ára árið 1996. Takið eftir að flutningatíðni karlkynsnemenda á þessum aldri er lægri en gerist meðal „jafnaldra“ þeirra í þjóðfélaginu almennt. Síðustu tvær súluþrenningarnar má nota til að bera saman flutningatíðni karlkynsnemenda í fram­haldsskólum á aldrinum 20–22 ára og flutningatíðni ungmenna á þeim aldri almennt í þjóð­félaginu. Enn virðist niðurstaðan sú sama: Minni líkur eru á að karlar á aldrinum 20–22 ára flytji lögheimili sitt innan sveitarfélags, milli sveitarfélaga eða milli landsvæða ef hann er í námi í framhaldsskóla en almennt gengur og gerist með þá sem eru á bilinu 20–24 ára.
    Munur sá sem fram kemur á flutningatíðni karlkyns framhaldsskólanema annars vegar og flutningatíðni karla á aldrinum 15–19 ára og 20–24 ára hins vegar þegar litið er til flutninga milli sveitarfélaga innan sama landsvæðis og milli landsvæða kann að hluta til að skýrast af því að þegar flutningar framhaldsskólanema eru kannaðir er höfuðborgarsvæðið allt talið eitt landsvæði, en skiptist milli Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmis þegar flutningur milli landsvæða er skráður fyrir ungmennin almennt. Munstur flutningatíðninnar innan landsvæða er þó hið sama og kemur fram í flutningi innan sveitarfélaga (en þar eru skilgreiningar sam­bærilegar), auk þess sem tölulegur munur er það mikill að hann virðist réttlæta niðurstöðurn­ar sem hér eru settar fram.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


    Mynd 6.2 sýnir sömu upplýsingar og mynd 6.1 nema hvað nú er litið á aldursbundna flutn­ingatíðni kvenna. Tölurnar virðast segja sömu sögu hér og tilfellið var með flutningatíðni karla í framhaldsskólum. Konur í framhaldsskóla virðast síður líklegar til að flytja lögheimili sitt en almennt gildir um jafngamlar konur í þjóðfélaginu.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


    Mynd 6.3 sýnir sömu upplýsingar og fyrri myndir nema hvað nú er litið til karla í háskóla eða sérskólanámi. Fyrstu þrjár súlurnar sýna líkur þess að karlar í háskólanámi á aldrinum 20–22 ára flytji lögheimili innan sveitarfélags, milli sveitarfélaga í sama kjördæmi og milli kjördæma árið 1996. Næstu þrjár súlur sýna sömu líkindi fyrir karla almennt á aldrinum 20–24 ára. Þar næstu þrjár súlur sýna líkindi þess að karlar í háskólanámi á aldursbilinu 23–25 ára breyti lögheimili á árinu 1996. Fjórða súluþyrpingin sýnir líkur þess að karlar á aldrinum 25–29 ára breyti lögheimili sínu, en síðasta súluþyrpingin sýnir líkur þess að karlar í háskólanámi eldri en 26 ára breyti lögheimili sínu.
    Í öllum tilvikum virðist sem karlar sem jafnframt eru háskólanemar séu síður líklegir til að breyta lögheimili sínu en gildir um jafnaldra þeirra almennt. Eina undantekningin gæti falist í að eldri háskólanemar flytji fremur innan sveitarfélags en jafnaldrar þeirra.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


    Mynd 6.4 sýnir flutningatíðni kvenna í háskólanámi með sama hætti og mynd 6.3 sýnir flutningatíðni karla. Niðurstaðan er nánast sú sama og átti við um karlana. Það virðist ólík­legra að konur í háskólanámi flytji lögheimili sitt en gildir um jafnöldrur þeirra almennt. Þó gildir um konurnar eins og karlana að flutningatíðni eldri kvenna í háskólanámi gæti verið svipuð eða ívið meiri en flutningatíðni jafnaldra þeirra almennt. Þessi munur virðist þó ekki mikill. Þannig væri óvarlegt að halda því fram að eini munurinn sé sá að nemar flytji seinna en aðrir. Það má reyndar fá staðfest með því að skoða heildarflutninga nema óháð aldri eins og gert er í töflum 6.2 og 6.3.

Tafla 6.2. Flutningatíðni framhaldsskólanema og karla og kvenna á aldrinum 15–24 ára á árunum 1994–96 í prósentum.

Eðli flutnings
Ár Landið allt 1996
Karlar Konur
1994 1995 1996 15–19 ára 20–24 ára 15–19 ára 20–24 ára
Innan sveitarfélags 8,1 8,5 8,7 8,5 18,5 12,5 24,3
Innan landsvæðis 2,9 3,0 3,3 3,4 6,8 5,3 8,8
Milli landsvæða 2,6 2,9 2,9 4,0 8,6 5,0 10,3
Heimild: Hagstofa Íslands, útreikningar Hagfræðistofnunar.

    Tafla 6.2 sýnir skýrt að framhaldsskólanemar eru síður líklegir til að flytja lögheimili sitt innan sveitarfélaga eða milli sveitarfélaga en gengur og gerist með aðra Íslendinga á svipuðu reki. Árið 1994 flytja 8,1% framhaldsskólanema lögheimili sitt milli heimilisfanga innan sama sveitarfélags. Þetta hlutfall er ívið hærra árin 1995–96. Árið 1996 flytja hins vegar 8,5% karla og 12,5% kvenna lögheimili sitt milli heimilisfanga innan sama sveitarfélags. Þannig virðast um 10,5% ungmenna almennt á aldrinum 15–19 ára flytja milli heimila innan sama sveitarfélags árið 1996 og um 21,5% ungmenna á aldrinum 20–24 ára, en aðeins 8,7% framhaldsskólanema. Sé litið til flutnings lögheimilis framhaldsskólanema og annarra ungmenna milli sveitarfélaga og milli landsvæða verður munurinn meiri. Árið 1996 flytja 3,3% framhaldsskólanema lögheimili milli sveitarfélaga en innan sama landsvæðis, en um 4,5% ungmenna á aldrinum 15–19 ára og tæp 8% ungmenna á aldrinum 20–24 ára. Eins og fyrr hefur verið bent á kann munurinn að hluta til að skýrast af því að þegar flutningar framhalds­skólanema eru kannaðir er höfuðborgarsvæðið allt talið eitt landsvæði, en skiptist milli Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmis þegar flutningur milli landsvæða er skráður fyrir ung­mennin almennt. Munstur flutningatíðninnar innan landsvæða er þó hið sama og kemur fram í flutningi innan sveitarfélaga (en þar eru skilgreiningar sambærilegar).

Tafla 6.3. Flutningatíðni háskólanema og karla og kvenna á aldrinum 20–29 ára á árunum 1994–96 í prósentum.


Eðli flutnings

Ár
Landið allt 1996
Karlar Konur
1994 1995 1996 20–24 ára 25–29 ára 20–24 ára 25–29 ára
Innan sveitarfélags 14,7 15,6 18,0 18,5 20,5 24,3 19,9
Innan landsvæðis 5,9 6,1 6,1 6,8 6,9 8,8 6,2
Milli landsvæða 5,3 7,4 7,4 8,6 7,2 10,3 6,6
Heimild: Hagstofa Íslands og útreikningar Hagfræðistofnunar.

    Tafla 6.3 sýnir (með sömu fyrirvörum og fyrr voru nefndir) að flutningatíðni háskólanema á árunum 1994–96 er í flestum tilvikum minni og í sumum tilvikum mun minni en gildir um samsvarandi aldurshópa meðal mannfjöldans almennt.
    Þá er og að nefna að flutningatíðni háskólanema og framhaldsskólanema er meiri árið 1995 en árið 1994 og sömuleiðis meiri árið 1996 en árið 1995. Rétt er að minna á að á árinu 1994 voru sveitarstjórnarkosningar og Alþingiskosningar 1995. Nemar í framhaldsskólum og háskólum sem búið hafa í öðru sveitarfélagi en þar sem skóli sem þeir sækja er hafa nokkra sérstöðu gagnvart lögheimilislögum eins og þegar hefur verið nefnt. Þeir geta haldið gamla lögheimilinu sínu eða, ef þannig verkast og skilyrði eru að öðru leyti uppfyllt, flutt lögheimili sitt á nýja dvalarstaðinn. Það er freistandi að setja fram þá tilgátu að kosningar hafi áhrif á ákvarðanir um lögheimilisfesti þeirra sem svo er ástatt um. Ekki er þó fyrirliggj­andi talnaefni til að staðfesta eða hrekja slíka tilgátu.
    Hitt ber að taka fram að sú niðurstaða að nemar flytji lögheimili síður en önnur ungmenni er ekki óeðlileg í ljósi þess valfrelsis sem ákveðinn hópur námsmanna hefur varðandi lög­heimilisskráningar. Fólk sem flyst milli húsa og ekki er í námi verður að tilkynna aðseturs­skipti og fær nýtt lögheimili. Sams konar flutningur einstaklings í námi þarf ekki að valda lögheimilisbreytingu.

7. Kostnaður sem hlýst af dvöl nemenda sem stunda nám í framhaldsskólum.
    Neyslukönnun Hagstofunnar bendir til þess að nokkurrar stórrekstrarhagkvæmni gæti í rekstri fjöldskyldu. Tafla 7.1 ber með sér að fjölgun heimilismanna bæti tiltölulega litlu við kostnað við heimilishaldið.

Tafla 7.1. Kostnaður við heimilishald einhleypinga og sambýlisfólks eða hjóna eftir fjölda barna, kr. á ári.
Hjón/samb.
með 1 barn
Hjón/samb.
með 2 börn
Hjón/samb.
með 3 börn
Hjón/samb.
með 4 börn
Einhleypur
18–34 ára
Matur og drykkjarvörur 446.470 536.922 627.074 623.853 170.429
Áfengi og tóbak 89.720 77.505 87.023 61.687 63.659
Föt og skór 169.714 199.779 204.707 278.658 89.322
Hiti og rafmagn 435.552 478.385 511.570 511.987 223.604
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 118.334 240.975 183.549 180.103 34.054
Heilsugæsla 122.628 87.886 86.452 107.480 29.547
Ferðir og flutningar 499.916 312.372 367.551 534.571 248.839
Póstur og sími 37.771 30.132 32.588 37.128 27.969
Tómstundir og menning 373.235 443.266 379.136 368.089 150.768
Menntun 42.195 29.243 31.339 24.112 4.325
Hótel og veitingastaðir 148.623 139.065 141.046 176.787 130.972
Ýmsar vörur og þjónusta 320.497 289.031 320.465 323.755 118.875
Alls 2.804.655 2.864.561 2.972.500 3.228.210 1.292.363
Heimild: Neyslukönnun Hagstofunnar.

    Tafla 7.2 ber saman neysluútgjöld fjölskyldna með eitt og tvö börn, tvö og þrjú börn og þrjú og fjögur börn. Það kemur glögglega í ljós að neyslusamsetning er ólík fyrir mismunandi fjölskyldustærðir, og einnig að neysluútgjöld stórrar fjölskyldu á fjölskyldumeðlim eru lægri en neysluútgjöld minni fjölskyldu á fjölskyldumeðlim.

Tafla 7.2. Samanburður á kostnaði við heimilishald hjóna eða sambýlisfólks eftir fjölda barna í heimili, kr. á ári.
Viðbótarkostnaður ef
börn eru 2 en ekki 1
Viðbótarkostnaður ef
börn eru 3 en ekki 2
Viðbótarkostnaður ef
börn eru 4 en ekki 3
Matur og drykkjarvörur 90.452 90.152 -3.221
Áfengi og tóbak -12.215 9.518 -25.336
Föt og skór 30.065 4.928 73.951
Hiti og rafmagn 42.833 33.185 417
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 122.641 -57.426 -3.446
Heilsugæsla -34.742 -1.434 21.028
Ferðir og flutningar -187.544 55.179 167.020
Póstur og sími -7.639 2.456 4.540
Tómstundir og menning 70.031 -64.130 -11.047
Menntun -12.952 2.096 -7.227
Hótel og veitingastaðir -9.558 1.981 35.741
Ýmsar vörur og þjónusta -31.466 31.434 3.290
Alls 59.906 107.939 255.710
Heimild: Neyslukönnun Hagstofunnar, útreikningar Hagfræðistofnunar.

    Hagfræðistofnun hafði samband við skólameistara og skólastjóra nokkurra framhalds­skóla til að afla upplýsinga um heimavistargjöld og mötuneytisgjöld. Upplýsingar bárust frá Menntaskólanum á Akureyri, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki og Verkmenntaskólanum á Akureyri. Þeim upplýsingum er safnað í töflu 7.3.

Tafla 7.3. Kostnaður nemenda er búa á heimavistum nokkurra framhaldsskóla, kr.
Akranes MA Sauðárkrókur Ísafjörður VMA
Heimavist, heill vetur, án þvottagjalds 42.000 36.000 30.000 8.000 20.000
Mötuneyti, heill vetur, allar máltíðir 130.200 160.000 150.000 184.000 142.560
Mötuneyti, heill vetur, hádegisverður (hálft fæði) 75.600 49.760
Mötuneyti, fimm dagar vikunnar 130.000 146.000
Þvottagjald 18.000
Fjöldi nema á vist 64 140 140 15 20
Fjöldi nema í skóla 600 600 450 240
Heimild: Upplýsingar frá skólameisturum.

    Þórir Ólafsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands, upplýsir jafnframt að algengt sé að nemendur sem leigja herbergi utan vistar greiði 15–20 þús. kr. á mánuði í leigu. Það samsvarar 135–180 þús. kr. á starfstíma skóla.
    Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem koma fram í töflum 7.1–7.3 má gera sér hugmynd um viðbótarkostnað við að halda heimili fyrir fjölskyldumeðlim sem sækir skóla fjarri heim­ili fjölskyldu. Í töflu 7.4 eru sýnd dæmi um þennan kostnað eftir því hvort nemandinn dvelur á heimavist eða ekki. Ekki er gert ráð fyrir að kostnaður við fatnað, rekstur húsnæðis á aðal­dvalarstað fjölskyldu og ferðir annarra fjölskyldumeðlima breytist við það að einn fjöl­skyldumeðlimur dvelji annars staðar.

Tafla 7.4. Áætlaður viðbótarkostnaður vegna skólagöngu fjarri heimabyggð, kr.
Heimavist Utan heimavistar
Lág áætlun Há áætlun Lág áætlun Há áætlun
Mötuneyti 130.000 184.000
Máltíðir utan mötuneytis 30.000 10.000 140.000 200.000
Frá dregst sparnaður fjölskyldu 60.000 60.000 60.000 60.000
Húsnæði 36.000 42.000 90.000 180.000
Ferðir 25.000 100.000 25.000 100.000
Póstur og sími 9.000 18.000 9.000 18.000
Tómstundir 18.000 36.000 18.000 36.000
Alls 188.000 330.000 222.000 474.000
Frá dregst dreifbýlisstyrkur 56.000 80.000 78.000 100.000
Mismunur 132.000 250.000 144.000 374.000
Heimild: Áætlun Hagfræðistofnunar, upplýsingar menntamálaráðuneytis.

    Áætlunin í töflu 7.4 byggist á upplýsingum skólameistaranna um heimavistar- og mötu­neytisgjöld. Sparnaður „stórfjölskyldu“ er til kominn vegna áætlaðs sparnaðar í matvæla­innkaupum á níu mánaða tímabili. Ekki er gert ráð fyrir að um teljandi sparnað af öðrum toga sé að ræða í rekstri húsnæðis, bifreiðar, við kaup fatnaðar o.s.frv. Áætlað er sérstaklega fyrir húsnæðiskostnaði ungmennisins sem dvelur í skóla fjarri heimili. Þá er áætlað sérstak­lega fyrir ferðum og gert ráð fyrir að símakostnaður aukist um 1–2 þús. kr. á mánuði. Loks er áætlað að afþreying ungmennis sem dvelur í skóla fjarri heimili sé dýrari en afþreying ungmennis sem dvelur heima. Frá kostnaði dregst síðan dreifbýlisstyrkur sem svo er kall­aður. Samkvæmt upplýsingum menntamálaráðuneytisins er grunnstyrkur 56.000 kr. á ári, en við geta bæst 22.000 kr. hjá þeim sem leigja af vandalausum og allt að 25.000 kr. í ferða­styrk til þeirra sem lengst eiga til næsta framhaldsskóla.
    Þegar allt er dregið saman má ráða af töflu 7.4 að viðbótarkostnaður fjölskyldu vegna skólagöngu ungmennis fjarri heimabyggð sé á bilinu 130–250 þús. kr. á ári dvelji nemandinn á heimavist, en á bilinu 140–375 þús. kr. dvelji nemandinn utan heimavistar. Heildarkostn­aður nema í framhaldsskóla á fjögurra ára tímabili gæti því verið á bilinu 500–1.500 þús. kr. Þessi kostnaður nemur 4–14% af neysluútgjöldum þriggja til sex manna fjölskyldu (hjóna/sambýlisfólks með eitt til fjögur börn).
    Nemendur sem uppfylla skilyrði til háskólanáms hafa yfirleitt náð þeim aldri að þeir vilja stofna til sjálfstæðs heimilishalds. Ekki er gefið að búseta foreldra/fyrrum forráðamanna hafi áhrif á kostnað við það heimilishald. Þó verður að gera ráð fyrir að búseta foreldris/fyrrum forráðamanns fjarri námsstað geti flýtt fyrir að nemandi á háskólastigi stofni til sjálfstæðs heimilishalds. Lánasjóður íslenskra námsmanna veitir lán til náms á háskólastigi. Láns­upphæð fer eftir hvort námsmaður býr í foreldrahúsum eða á eigin vegum. Því má fá nokkrar upplýsingar með því að skoða skrár LÍN.

Tafla 7.5. Meðallán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, skólaárið 1993–94, kr.

Lögheimili lántaka
Lán til nemenda við skóla á Íslandi
Nemar erlendis
Skólar aðrir en HÍ Nemendur við HÍ
Austurland 331.361 374.762 655.768
Norðurland eystra 386.547 358.024 614.591
Norðurland vestra 400.975 294.082 628.719
Reykjanes 357.176 300.863 756.936
Reykjavík 372.929 308.575 748.664
Suðurland 351.091 334.348 740.569
Vestfirðir 355.713 318.131 759.926
Vesturland 391.280 318.712 691.300
Annað 370.594 316.522 609.357
Meðaltal 369.405 311.831 711.961
Heimild: Upplýsingar frá LÍN.

    Meðallán nema við skóla aðra en Háskóla Íslands eru tæpar 370 þús. kr. á skólaárinu 1993–94. Meðallán nema við Háskóla Íslands eru tæpar 312 þús. kr. og meðallán nema er stunda nám erlendis eru 400 þús. kr. hærri. Sé litið til innlendra skóla annarra en Háskóla Íslands kemur í ljós að nemar sem eiga lögheimili í Norðurlandskjördæmi vestra taka hæstu lánin en nemar af Austurlandi taka lægstu lánin. Lán lánþega með lögheimili í Reykjavík er lítillega yfir meðaltalinu. Sé litið til lánþega sem stunda nám við Háskóla Íslands sést að nemar með lögheimili í Austfjarðakjördæmi taka hæstu lánin, en nemar með lögheimili í Norðurlandi vestra taka lægstu lánin. Loks er þess að geta að nemar erlendis með lögheimili í Vestfjarðakjördæmi taka hæstu lánin, en nemar erlendis með lögheimili í Norðurlandskjör­dæmi eystra taka þau lægstu. Tekið skal fram að í sumum tilvikum eru fá lán að baki meðal­tölum. Þess vegna má ætla að einstaklingsbundnar aðstæður móti meðaltalstölur fyrir fá­mennustu kjördæmin óeðlilega mikið.
    Athygli vekur að ekki verður fullyrt með hliðsjón af þeim tölum sem hér eru sýndar að lántökur nemenda í dreifbýliskjördæmunum til náms innan lands séu almennt hærri en lán­tökur nemenda úr þéttbýliskjördæmunum tveimur. Þessi niðurstaða verður enn fest í sessi með því að skoða tölur næstu þriggja skólaára eins og þær koma fram í töflum 7.6–7.8.

Tafla 7.6. Meðallán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, skólaárið 1994–95, kr.

Lögheimili lántaka
Lán til nemenda við skóla á Íslandi
Nemar erlendis
Skólar aðrir en HÍ Nemendur við HÍ
Austurland 352.770 384.524 650.972
Norðurland eystra 386.965 303.242 629.186
Norðurland vestra 414.136 354.791 698.082
Reykjanes 386.722 356.818 559.552
Reykjavík 365.835 307.555 735.991
Suðurland 388.952 305.833 676.649
Vestfirðir 358.860 336.552 699.078
Vesturland 378.240 333.846 928.293
Annað 400.780 355.835 697.929
Meðaltal 384.186 311.994 680.827
Heimild: Lánasjóður íslenskra námsmanna, útreikningar Hagfræðistofnunar.

    Samkvæmt töflu 7.6 var meðallán lánþega hjá LÍN sem stundaði nám við skóla á Íslandi, annan en Háskóla Íslands 384 þús. kr. rúmar á skólaárinu 1994–95. Meðallán lánþega við nám við HÍ var um 312 þús. kr. og meðallán lánþega við nám erlendis rúmlega 680 þús. kr. Sé litið til lánþega við nám innan lands kemur í ljós að lánþegar sem eiga lögheimili í Norðurlandskjördæmi vestra og stunda nám í skóla öðrum en HÍ taka hæst lán, 414 þús. kr. að meðaltali á skólaárinu 1994–95. Lánþegar sem eiga lögheimili í Norðurlandskjördæmi eystra og stunda nám við Háskóla Íslands taka lægst meðallán, 303 þús. kr. Annars vekur athygli að munur á hæsta og lægsta láni milli kjördæma innan sama skólastigs er tiltölulega lítill, sérstaklega þegar tekið er tillit til að tiltölulega fáir lántakar standa að baki meðal­tölunum í fámennustu kjördæmunum, sem aftur verður til þess að þau meðaltöl kunna að mótast mjög af persónubundnum aðstæðum þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Þannig er meðallán lánþega sem stundar nám í HÍ í því kjördæmi þar sem meðallán er lægst um 3% lægra en meðallán HÍ-lánþega almennt. Meðallán í því kjördæmi þar sem meðallán er hæst er um 23% hærra en meðallán HÍ-lánþega almennt.

Tafla 7.7. Meðallán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, skólaárið 1995–96, kr.

Lögheimili lántaka
Lán til nemenda við skóla á Íslandi
Nemar erlendis
Skólar aðrir en HÍ Nemendur við HÍ
Austurland 352.247 360.443 492.338
Norðurland eystra 366.449 330.343 638.101
Norðurland vestra 427.739 347.715 725.323
Reykjanes 426.873 345.353 555.268
Reykjavík 366.970 310.334 768.191
Suðurland 382.578 309.016 712.655
Vestfirðir 322.242 319.613 517.787
Vesturland 345.713 345.818 815.925
Annað 401.955 307.481 711.203
Meðaltal 380.181 313.971 700.565
Heimild: Lánasjóður íslenskra námsmanna, útreikningar Hagfræðistofnunar.

    Tafla 7.7 sýnir sömu upplýsingar og tafla 7.6 fyrir skólaárið 1995–96. Sé litið til lánþega er stunda nám við innlendar skólastofnanir kemur í ljós að meðallán er um 4 þús. kr. lægra hjá lánþega við skóla aðra en HÍ og 2 þús. kr. hærra hjá lánþegum er stunda nám við HÍ. Enn eru það nemar frá Norðurlandi vestra sem stunda nám við skóla aðra en HÍ sem taka hæst meðallán lánþega við innlenda skóla. Nú eru það hins vegar ekki nemar við HÍ frá Norður­landi eystra sem taka lægst lán lánþega við innlenda skóla heldur nemar við HÍ sem eiga lög­heimili í Suðurlandskjördæmi. Að öðru leyti gildir að munur meðalláns eftir kjördæmum er tiltölulega lítill.

Tafla 7.8. Meðallán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, skólaárið 1996–97, kr.

Lögheimili lántaka
Lán til nemenda við skóla á Íslandi
Nemar erlendis
Skólar aðrir en HÍ Nemendur við HÍ
Austurland 376.659 380.012 625.833
Norðurland eystra 405.151 319.481 627.080
Norðurland vestra 408.076 378.305 760.023
Reykjanes 404.475 360.215 651.021
Reykjavík 365.925 328.143 784.544
Suðurland 414.174 348.057 807.985
Vestfirðir 370.693 357.391 561.747
Vesturland 339.565 381.564 776.569
Annað 409.175 347.353 559.211
Meðaltal 397.618 345.909 727.563
Heimild: Lánasjóður íslenskra námsmanna, útreikningar Hagfræðistofnunar.

    Tafla 7.8 sýnir sömu upplýsingar og töflur 7.6 og 7.7 fyrir skólaárið 1996–97. Meðallán til nemenda innan lands er ívið hærra á því skólaári en skólaárin tvö næst á undan, en að öðru leyti má sjá svipað munstur og kom fram í fyrri töflum.
    Setjum svo að lánþegar LÍN réðu sjálfir heildarlánsfjárhæð á hverju ári. Þá mætti fullyrða út frá upplýsingunum sem hér hafa verið settar fram að ekki sé mikill munur á fjárþörf lán­þega eftir kjördæmum. Nú eru hins vegar efri mörk á því hversu mikið lánþegi getur tekið að láni á ári hverju. Hugsanlegt er að niðurstöður hér að framan mótist af því að lánþegar telji að taki þeir lán á annað borð borgi sig að taka fullt lán. Það er því forvitnilegt að skoða hversu stór hluti námsmanna í hverju kjördæmi fyrir sig tekur lán á hverjum tíma. Það er gert í töflu 7.9.

Tafla 7.9. Hlutfall námsmanna (í prósentum) sem taka lán, skipt eftir kjördæmum á skólaár­unum 1993–94 til 1996–97.

Kjördæmi
Skólaár
Meðaltal
1993–94 1994–95 1995–96 1996–97
Reykjavík 55,8 58,7 56,6 51,2 55,4
Reykjanes 49,2 50,4 48,6 44,6 48,2
Vesturland 44,0 49,6 57,2 58,3 52,1
Vestfirðir 50,4 37,6 51,2 48,1 46,6
Norðurland vestra 46,4 41,9 52,8 67,3 51,3
Norðurland eystra 51,4 56,0 57,6 55,4 55,0
Austurland 54,9 55,6 62,4 59,1 58,0
Suðurland 44,4 49,0 53,8 52,5 49,7
Meðaltal 52,5 54,9 54,7 50,7 53,2
Heimild: Upplýsingar frá LÍN, Landshagir Hagstofu Íslands og útreikningar skýrsluhöfundar.
    Tafla 7.9 er fengin með því að bera saman fjölda námsmanna sem tekur lán til náms innan lands í hverju kjördæmi annars vegar og fjölda námsmanna sem eru skráðir í námi á sér­skóla- og háskólastigi samkvæmt nemendaskrá Hagstofu Íslands. Hópurinn sem á rétt á að sækja um lán frá LÍN er nokkuð stærri en hér er sýnt, en ólíklegt verður að telja að sú stað­reynd breyti niðurstöðum svo nokkru nemi.
    Tafla 7.9 ber með sér að tiltölulega lítill munur sé á líkindum þess að nemandi í dreifbýl­iskjördæmi taki lán hjá LÍN og að nemandi í þéttbýliskjördæmi taki lán hjá LÍN.
    Heildarniðurstaða af skoðun á gögnum LÍN eru því þessi: Lítill munur er á meðalláni til lánþega LÍN eftir búsetu. Búseta hefur lítil áhrif á það hvort nemendur taka lán. Þessar upp­lýsingar benda því ekki til þess að lánsfjárþörf nemenda sé mjög ójöfn eftir búsetu.

8. Kostnaður sem hlýst af dvöl nemenda sem stunda nám í grunnskóla.
    Í þingsályktuninni frá 24. febrúar 1995 er farið fram á að auk þess sem kannað verði hvaða kostnaður hlýst af dvöl framhaldsskólanema er búa í heimavistum eða í leiguhúsnæði fjarri heimabyggð verði einnig kannað hvaða kostnaður hlýst af dvöl grunnskólanemenda er búa í heimavistum eða í leiguhúsnæði fjarri heimabyggð. Samkvæmt upplýsingum Sambands íslenskra sveitarfélaga í maí 1998 heyrir það nánast sögunni til að grunnskólanemar dvelji í heimavist. Slíku sé aðeins til að dreifa í einum eða tveimur mjög fámennum skólum nú orðið. Það er því ekki auðvelt að gera sér grein fyrir hver viðbótarkostnaður aðstandenda grunn­skólanema sem byggi fjarri heimabyggð væri ef algengara væri að grunnskólanemendur sæktu fjarlæga skóla. Með hliðsjón af töflu 7.4 má gera því skóna að kostnaður sem af slíkri dvöl grunnskólanema hlytist væri nú á bilinu 150–250 þús. kr. á ári. Í þeirri ágiskun er kostnaður vegna máltíða utan mötuneytis, ferða og tómstunda lækkaður nokkuð frá því sem áætlað var fyrir framhaldsskólanema.

9. Niðurstöður.
    Sé vilji fyrir hendi má lesa milli lína í áðurgreindri þingsályktun ótta um að landsbyggðar­nemendur flytji lögheimili sitt til skólasveitarfélags, og þá sérstaklega til Reykjavíkursvæð­isins. Sömuleiðis má sjá vilja Alþingis til að komast að því hver er viðbótarkostnaður for­eldra sem þurfa að senda börn sín í skóla fjarri heimili. Sú athugun sem hér hefur verið gerð á flutningstilkynningum skólanema til Þjóðskrár bendir eindregið til þess að nemar séu síður líklegir til þess að flytja lögheimili sitt en annað ungt fólk. Það er því afar ólíklegt að nemar geti bætt fjárhag sinn svo nokkru nemi með því að breyta lögheimilisskráningu sinni. Lög­heimilisflutningur er það fyrirhafnarlítil aðgerð að ætla verður að nemendur gripu til hennar í ríkari mæli en raun virðist vera væri af því hagræði í tekjulegu tilliti.
    Viðbótarkostnaður af að senda ungmenni til náms fjarri heimabyggð leikur á nokkuð breiðu bili samkvæmt þeirri áætlun Hagfræðistofnunar sem hér er birt. Þetta helgast meðal annars af því að kostnaður af því tagi sem hér er til umræðu er afar afstæður. Það sem einum þykir eðlilegt að unglingur hafi til umráða af fé og aðstöðu kann öðrum að þykja bruðl og enn öðrum naumt skorið. Því þykir Hagfræðistofnun rétt að gefa þessi útgjöld upp á breiðu bili fremur en að taka afstöðu til þess hvort unglingum skuli naumt eða rúmt skammtað.
    Þá er loks rétt að vekja athygli á þeim litla mun sem er á lántökuupphæðum og lántöku­tíðni eftir lögheimiliskjördæmum sem fram kemur þegar upplýsingarnar frá Lánasjóði ís­lenskra námsmanna eru skoðaðar. Þessar upplýsingar virðast ekki benda til þess að náms­menn sem eiga lögheimili á höfuðborgarsvæðinu séu líklegri eða ólíklegri til að taka námslán en námsmenn sem lögheimili eiga annars staðar. Upplýsingarnar benda heldur ekki til þess að námsmenn sem eiga lögheimili á höfuðborgarsvæðinu taki teljandi lægri námslán á ári hverju en námsmenn sem eiga lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins.


Heimildir.
         Borjas, George. „Self-Selection and the Earnings of Immigrants.“ American Economic Review 77 (September 1987): 551–553.
         Borjas, George. „The Economics of Immigration.“ Journal of Economic Literature XXXII (December 1994): 1667–1717.
         Borjas, George. Labor Economics. New York: McGraw-Hill, 1996.
         Guðmundur Bjarni Arnkelsson og Friðrik H. Jónsson. Námsframmistaða við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands, kennslusvið, 1995.
         Gylfi Magnússon. Internal and External Migration in Iceland 1960–94: A Structural Model, Governmental Policies and Welfare Implications. Institute of Economic Studies, Reykjavík, 1998.
         Hicks, John R. The Theory of Wages. London: McMillan, 1932.
         Roy, Andrew D. „Some Thoughts on the Distribution of Earnings.“ Oxford Economic Papers 3 (September 1951): 135–146.
         Sjaastad, Larry A. „The Costs and Returns of Human Migration.“ Journal of Political Economy 70 (October 1962): 80–93.
         Stark, Oded. The Migration of Labor. Oxford: Basil Blackwell, 1991.
         Stefán Ólafsson. Búseta á Íslandi. Rannsókn á orsökum búferlaflutninga. Reykjavík: Byggðastofnun, 1997.
         Tryggvi Þór Herbertsson. Menntun, mannauður og framleiðni. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, 1997. Skýrsla nr. C97:02.


Töfluviðauki.

Tafla V1.1. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1993–94, lánþegar í skóla á Íslandi öðrum en Háskóla Íslands.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð,
kr.
Austurland
67 22.201.209
Annað
180 66.706.908
Norðurland eystra
200 77.309.435
Norðurland vestra
48 19.246.778
Reykjanes
371 132.512.307
Reykjavík
786 293.122.001
Suðurland
105 36.864.564
Vestfirðir
44 15.651.358
Vesturland
77 30.128.591
Samtals
1.878 693.743.151
Tafla V1.2. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1993–94, lánþegar í skóla erlendis.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð,
kr.
Austurland
14 9.180.748
Annað
394 240.086.481
Norðurland eystra
80 49.167.319
Norðurland vestra
17 10.688.221
Reykjanes
424 320.940.870
Reykjavík
831 622.140.155
Suðurland
35 25.919.925
Vestfirðir
11 8.359.183
Vesturland
33 22.812.884
Samtals
1.839 1.309.295.786

Tafla V1.3. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1993–94, lánþegar í Háskóla Íslands.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð,
kr.
Austurland
34 12.741.910
Annað
207 65.520.140
Norðurland eystra
103
36.876.508
Norðurland vestra
36 10.586.944
Reykjanes
435 130.875.591
Reykjavík
1.266 390.656.303
Suðurland
57 19.057.849
Vestfirðir
21 6.680.742
Vesturland
36 11.473.615
Samtals
2.195 684.469.602

Tafla V1.4. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1994–95, lánþegar í skóla á Íslandi öðrum en Háskóla Íslands.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð, kr.
Austurland
63 22.224.507
Annað
161 62.301.361
Norðurland eystra
230 95.251.263
Norðurland vestra
46 17.789.231
Reykjanes
408 149.260.844
Reykjavík
833 323.996.813
Suðurland
123 44.139.820
Vestfirðir
31 11.725.430
Vesturland
81 32.463.156
Samtals
1.976 759.152.425
Tafla V1.5. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1994–95, lánþegar við nám erlendis.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð, kr.
Austurland
15 9.764.586
Annað
409 257.336.905
Norðurland eystra
76 53.054.228
Norðurland vestra
21 11.750.599
Reykjanes
388 285.564.445
Reykjavík
750 507.486.505
Suðurland
31 21.671.418
Vestfirðir
13 12.067.810
Vesturland
44 30.708.893
Samtals
1.747 1.189.405.389

Tafla V1.6. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1994–95, lánþegar í Háskóla Íslands.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð, kr.
Austurland
41 15.765.467
Annað
174 52.764.080
Norðurland eystra
107 37.962.672
Norðurland vestra
29 10.347.712
Reykjanes
439 135.016.674
Reykjavík
1.399 427.860.758
Suðurland
56 18.846.906
Vestfirðir
19 6.343.067
Vesturland
33 11.742.565
Samtals
2.297 716.649.901

Tafla V1.7. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1995–96, lánþegar í skóla á Íslandi öðrum en Háskóla Íslands.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð, kr.
Austurland
65 22.896.071
Annað
115 42.141.650
Norðurland eystra
229 97.952.325
Norðurland vestra
52 22.197.413
Reykjanes
426 156.329.342
Reykjavík
876 335.138.294
Suðurland
118 38.024.590
Vestfirðir
39 13.482.806
Vesturland
82 32.960.280
Samtals
2.002 761.122.771
Tafla V1.8. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1995–96, lánþegar í skóla erlendis.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð, kr.
Austurland
12 5.908.059
Annað
491 313.307.610
Norðurland eystra
89 64.553.717
Norðurland vestra
22 12.215.897
Reykjanes
410 314.958.437
Reykjavík
686 488.881.593
Suðurland
25 12.944.680
Vestfirðir
21 17.134.425
Vesturland
27 19.202.484
Samtals
1.783 1.249.106.902

Tafla V1.9. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1995–96, lánþegar í Háskóla Íslands.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð, kr.
Austurland
48 17.301.265
Annað
118 38.980.442
Norðurland eystra
79 27.469.450
Norðurland vestra
34 11.741.993
Reykjanes
391 121.340.775
Reykjavík
1451 448.382.776
Suðurland
58 18.537.539
Vestfirðir
23 7.953.823
Vesturland
53 16.296.472
Samtals
2.255 708.004.535

Tafla V1.10. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1996–97, lánþegar í skóla á Íslandi öðrum en Háskóla Íslands.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð, kr.
Austurland
72 27.119.436
Annað
48 19.447.259
Norðurland eystra
210 85.696.053
Norðurland vestra
53 21.437.183
Reykjanes
397
145.272.072
Reykjavík
906 375.242.093
Suðurland
111 41.146.976
Vestfirðir
32 10.866.077
Vesturland
88 36.007.392
Samtals
1.917 762.234.541
Tafla V1.11. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1996–97, lánþegar í skóla erlendis.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð, kr.
Austurland
12 7.509.999
Annað
626 392.552.056
Norðurland eystra
93 70.682.150
Norðurland vestra
17 11.067.365
Reykjanes
383 300.480.279
Reykjavík
611 493.678.677
Suðurland
26 14.605.431
Vestfirðir
13 10.095.402
Vesturland
29 16.217.108
Samtals
1.810 1.316.888.467

Tafla V1.12. Fjöldi lána og heildarlánveitingar LÍN eftir kjördæmum á skólaárinu 1996–97, lánþegar í Háskóla Íslands.

Kjördæmi

Fjöldi lána
Heildarlánsupphæð, kr.
Austurland
35 13.300.414
Annað
66 21.085.729
Norðurland eystra
64 24.211.544
Norðurland vestra
46 16.569.896
Reykjanes
378 124.038.153
Reykjavík
1.449 504.334.874
Suðurland
56 20.013.886
Vestfirðir
20 7.631.272
Vesturland
45 15.630.906
Samtals
2.159 746.816.674