Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 443  —  343. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni koma aðeins til greina þau fiskiskip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skil­yrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjár­festingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fisk­veiðilandhelgi Íslands.

2. gr.


    6. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Orðin „eða þorskaflahámarks og veiðidagar ekki til sóknardaga“ í 2. mgr. 6. gr. a laganna, sem verður 6. gr., falla brott.

4. gr.


    1. tölul. 3. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Í stað 2. málsl. 6. mgr. 11. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Einungis er heimilt að framselja aflahlutdeild af báti sem er minni en 6 brl. til báts eða báta undir þeim stærðarmörkum. Ef bátur sem er minni en 6 brl. er stækkaður umfram þau mörk er einungis heimilt að framselja þá aflahlutdeild er báturinn hafði fyrir stækkun til báta sem eru minni en 6 brl.

6. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 12. gr. laganna:
     1.      2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     2.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Einungis er heimilt að framselja aflamark báts sem minni er en 6 brl. til báts eða báta undir þeim stærðarmörkum. Ef bátur sem er minni en 6 brl. er stækkaður umfram þau mörk er einungis heimilt að framselja þann hluta aflamarks bátsins sem leiddur er af þeirri aflahlutdeild sem báturinn hafði fyrir stækkun til báta sem eru minni en 6 brl.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Bátar minni en 6 brl., sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum eða með þorskaflahámarki, krókabátar, skulu á fiskveiðiárinu 1998/1999 stunda veiðar samkvæmt þessu ákvæði. Um veiðar annarra báta undir 6 brl. fer eftir gildistöku laga þessara eftir almennum ákvæðum laga um stjórn fiskveiða.
    Krókabátum er einungis heimilt að stunda veiðar með línu og handfærum eða einungis með handfærum. Þó er sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, svo og til hrognkelsaveiða í net.
    Heildarþorskaflaviðmiðun krókabáta er 13,75% af ákvörðuðum heildarþorskafla. Þar af er samanlagt þorskaflahámark þeirra báta sem þann kost hafa valið 12,64%, heildarþorsk­aflaviðmiðun þeirra báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota línu og handfæri 0,18% og heildarþorskaflaviðmiðun þeirra báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota handfæri eingöngu 0,93%.
    Heimilt er að framselja varanlega þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Innan fiskveiðiárs er heimilt að flytja allt að 30% af úthlutuðu þorskaflahámarki krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Enn fremur er heimilt að flytja til krókabáts á þorskafla­hámarki aflamark af þorski skv. 7. gr. Um þann flutning gilda almennar reglur um flutning aflamarks. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning þorskaflahámarks milli báta og öðlast hann ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest flutninginn. Heimilt er að veita báti, sem stundað hefur veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga síðastliðin tvö fiskveiðiár, leyfi til að stunda veiðar með þorskaflahámarki þess í stað, en reiknað þorskaflahámark bátsins verður þá áfram hluti sameiginlegs hámarksþorskafla báta sem stunda veiðar samkvæmt dagatakmörkunum.
    Sóknardagur telst vera allt að 24 klukkustundir frá upphafi veiðiferðar. Sóknardegi telst lokið þegar bátur landar afla. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga og eftirlit með þeim. Utan sóknardaga eru allar veiðar bannaðar. Ráðherra getur þó heimilað að veiðar í sérhæfð veiðarfæri samkvæmt síðari málslið 2. mgr. þessa ákvæðis, sem og veiðar með sérhæfðri línu til veiða á háffiskum, séu utan sóknardaga.
    Fjöldi sóknardaga þeirra báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota línu og handfæri skal vera 26 á fiskveiðiárinu 1998/1999. Ef bátur rær með línu skal margfalda fjölda nýttra daga með tölunni 1,9 á tímabilinu frá 1. maí til 1. september en með tölunni 1,35 á öðrum tíma. Þorskafli hvers báts má þó eigi vera meiri en 30 lestir á fiskveiðiárinu miðað við óslægðan fisk.
    Sé einn maður í áhöfn krókabáts er óheimilt að róa með og eiga í sjó fleiri en 12 bala alls af línu fyrir hvern sóknardag en 20 bala séu tveir eða fleiri í áhöfn. Miðað er við að 500 krókar séu á línu í hverjum bala.

    Fjöldi sóknardaga þeirra báta sem veiðar stunda með dagatakmörkunum og nota handfæri eingöngu skal vera 32. Þó skal þorskafli hvers báts eigi vera meiri en 30 lestir á fiskveiði­árinu miðað við óslægðan fisk.
    Heimilt er að flytja veiðileyfi frá krókabáti sem leyfi hefur til að veiða samkvæmt þessu ákvæði til annars jafnstórs krókabáts miðað við rúmtölu. Óheimilt er að flytja veiðileyfi til krókabáts sem er stærri en sá krókabátur sem veiðileyfi lætur nema jafnframt sé flutt veiði­leyfi af öðrum krókabáti sem er þrefalt stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Slíkur bátur má þó ekki verða stærri en 6 brúttótonn. Óheimilt er að flytja veiðileyfi frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga.
    Óheimilt er að stækka krókabát nema flutt sé veiðileyfi af öðrum báti sem er þrefalt stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Óheimilt er að flytja veiðileyfi frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga. Slíkum báti má þó aldrei breyta svo að hann verði stærri en 6 brúttótonn.
    Eins og hvað varðar aflamark í 2. mgr. 6. gr. getur ráðherra ákveðið að afli teljist ekki til þorskaflahámarks og veiðidagar ekki til sóknardaga í tilteknum fjölda opinberra sjóstanga­veiðimóta á fiskveiðiárinu 1998/1999.
    Áætlaðan afla krókabáta á fiskveiðiárinu 1998/1999 skal draga frá leyfðum heildarafla áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar.

II.

    Fyrir upphaf fiskveiðiársins 1999/2000 skal krókabátum úthlutað aflahlutdeild samkvæmt þessu ákvæði.
    Bátar sem stundað hafa veiðar með þorskaflahámarki skulu fá úthlutað aflahlutdeild í þorski miðað við þá hlutdeild sem aflahámark bátsins er í þeim 12,64% af hámarksþorskafla sem í hlut þessa bátaflokks hefur komið.
    Þeirri 0,18% hlutdeild í hámarksþorskafla sem komið hefur í hlut báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota línu og handfæri skal skipta jafnt milli báta í þessum flokki.
    Þeirri 0,93% hlutdeild í hámarksþorskafla sem komið hefur í hlut báta sem stundað hafa veiðar með dagatakmörkunum og nota handfæri eingöngu skal skipta jafnt milli báta í þessum flokki.
    Samanlögð hlutdeild krókabáta í hámarksafla af ýsu, ufsa og steinbít skal vera jöfn meðalhlutdeild þeirra í heildarafla af hverri þessara tegunda almanaksárin 1996, 1997 og 1998 og skal hún skiptast milli veiðikerfa þeirra í sömu innbyrðis hlutföllum og þorskur skv. 2.–4. mgr. Í flokki báta sem stundað hafa veiðar með þorskaflahámarki skal hlutdeild af ýsu, ufsa og steinbít skiptast í hlutfalli við veiðar hvers báts um sig á þessum árum og skal í þeim samanburði miðað við tvö bestu ár hvers báts af framangreindum þremur árum. Í flokkum báta sem stundað hafa veiðar með dagatakmörkunum skal hlutdeild af ýsu, ufsa og steinbít skiptast jafnt milli báta innan hvors flokks um sig.

III.

    Á fiskveiðiárinu 1999/2000 skal ráðstafa 5.000 lesta aflaheimildum af þorski til jöfnunar samkvæmt þessu ákvæði. Aflaheimildir þessar miðast við óslægðan fisk og skulu þær dregnar frá leyfðum heildarafla þorsks áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar.
    Úthlutað skal til þeirra skipa sem fiskveiðiárið 1998/1999 njóta úthlutunar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 83/1995 eða skipa sem koma í þeirra stað. Skal úthlutun til hvers skips vera meðaltal þess sem kom í hlut þess skips, eða skips sem í þess stað kom, á fiskveiðiárunum 1997/1998 og 1998/1999. Hafi ekkert skip komið í stað skips sem úthlut­unar naut fiskveiðiárið 1998/1999 hækkar úthlutun samsvarandi til þeirra sem eftir eru.

IV.

    Sjávarútvegsráðherra skal fyrir lok ársins 2000 leggja skýrslu fyrir Alþingi um áhrif laga um stjórn fiskveiða. Endurskoða skal lögin fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þann 3. desember sl. féll í Hæstarétti dómur í málinu nr. 145/1998: Valdimar Jóhannes­son gegn íslenska ríkinu. Með dóminum var dæmd ógild sú ákvörðun sjávarútvegsráðu­neytisins 10. desember 1996 að hafna umsókn Valdimars um almennt og sérstakt veiðileyfi. Í forsendum dómsins kemur fram að ákvæði 5. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sé í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og þau sjónarmið um jafn­ræði sem gæta þarf við takmörkun á atvinnufrelsi skv. 1. mgr. 75. gr. hennar að því leyti sem leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands séu til frambúðar bundin við skip sem haldið hafi verið til veiða á ákveðnum tíma.
    Íslenski fiskiskipaflotinn stækkaði mikið á sjöunda áratugnum og í upphafi þess áttunda. Þessi stækkun ásamt ófullkomnum aðferðum við fiskveiðistjórn leiddi til þess að afli fór langt fram úr því sem æskilegt var talið miðað við fiskveiðiráðgjöf og hámarksaflaviðmið­anir stjórnvalda. Haustið 1983 blasti við að íslenski fiskiskipaflotinn var orðinn allt of stór miðað við afrakstursgetu fiskstofnanna og verulega þurfti að takmarka sókn og afla. Var það m.a. gert með því að binda veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni við þau skip ein sem höfðu fengið veiðileyfi áður og höfðu ekki horfið varanlega úr rekstri, sem og skip sem komu í þeirra stað. Hliðstæð regla hefur verið í gildi frá þeim tíma og er nú í áðurnefndri 5. gr. laga nr. 38/1990. Með dómi Hæstaréttar er þessari reglu hnekkt og það talið andstætt fyrr­greindum stjórnarskrárákvæðum að veita ekki veiðileyfi öðrum en þeim er hafa forræði yfir skipum sem fyrir eru í fiskiskipaflotanum. Er óhjákvæmilegt að við þessu sé brugðist af hálfu löggjafans þannig að settar verði reglur um veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni í stað þeirrar sem Hæstiréttur hefur ógilt.
    Eitt helsta viðfangsefni varðandi fiskveiðistjórn í heiminum um þessar mundir er að hafa hemil á stærð fiskiskipaflotans. Í því sambandi má nefna að nú er unnið á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) að gerð alþjóðlegra samþykkta um þetta efni og verður málið væntanlega til lykta leitt á sjávarútvegsráðherrafundi FAO í mars­mánuði á næsta ári. Flest ef ekki öll fiskveiðiríki hafa reglur er takmarka flotastærð. Væri æskilegt að unnt væri í framhaldi af dómi Hæstaréttar að setja reglur sem í senn fullnægðu skilningi dómsins á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stuðluðu að jafnvægi milli af­rakstursgetu fiskstofnanna og afkastagetu fiskiskipaflotans.
    Veruleg vandkvæði sýnast þó á því að ná þessu markmiði. Aðgangur nýrra skipa og aðila þyrfti þá að tengjast því að skip og aðilar sem fyrir eru í útgerð hyrfu úr greininni og hættu starfsemi. Snýr vandinn við að opna aðgang að fiskiskipaflotanum án þess að stækka hann því bæði að því að setja reglur um með hvaða hætti aðilar sem fyrir eru hætti í útgerð, sem og hvernig haga skuli vali nýrra aðila í þeirra stað.
    Aflahlutdeildarkerfið sem ríkir hér á landi gerir þetta þó síður brýnt en væri ef engin slík stjórn væri á veiðunum. Var raunar gert ráð fyrir því í athugasemdum við frumvarp það er síðar varð að lögum nr. 38/1990 að reglur um takmörkun á flotastærð yrðu óþarfar þegar fram liðu stundir.
    Í ljósi þessa og erfiðleika við að móta virkar reglur til að hafa stjórn á stærð flotans án þess að veita aðilum sem fyrir eru forgang umfram aðra er lagt til í frumvarpinu að hinum sérstöku takmörkunum skv. 5. gr. verði aflétt og aðgangur verði frjáls og leyfi megi gefa út til allra skipa að fullnægðum almennum skilyrðum. Þau skilyrði verði að skip hafi gilt haffærisskírteini og sé skrásett á skipaskrá enda fullnægi eigandi þess og útgerðarmaður skil­yrðum laga um að mega stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með þessu er horfið frá því skilyrði að þeir komi einir til greina við útgáfu almenns leyfis til fiskveiða sem hafa yfir að ráða skipum sem haldið var til veiða á ákveðnum tíma og er þessi breyting til sam­ræmis við fyrrnefndan dóm Hæstaréttar.
    Hluti smábátaflotans, svonefndir krókabátar, eru utan við aflahlutdeildarkerfið. Eru veiðar þeirra takmarkaðar með þorskaflahámarki eða sóknardagafjölda. Eðlilegastur skiln­ingur á dómi Hæstaréttar er sá að óheimilt sé að binda leyfi til þessara veiða við þá eina sem hafi yfir að ráða bátum sem haldið hafði verið til veiða á ákveðnum tíma. Veiðum báta í þessu kerfi er ekki stýrt með fyrir fram ákveðnum aflaheimildum til einstakra báta af öllum þeim tegundum sem sæta almennt veiðitakmörkunum. Því er ljóst að óheftur aðgangur nýrra aðila að veiðileyfum hefði önnur áhrif en í aflahlutdeildarkerfinu þar sem veiðileyfi í þessum kerfum felur jafnframt í sér aðgang að veiðum úr óskiptum aflaheimildum. Er ljóst að óheftur aðgangur nýrra báta að dagakerfinu mundi stofna útgerð þess bátaflota í óefni og aðgangur að þorskaflahámarkskerfinu mundi leiða til óheftra veiða á öðrum tegundum en þorski og skerða aflaheimildir þeirra sem hafa aflahlutdeild í þessum tegundum.
    Reynsla undanfarinna ára sýnir að veiðigeta krókabáta er orðin slík að útilokað er að veiðar þeirra geti verið án stjórnunar, frekar en annarra skipa og báta, þegar engum takmörk­unum á flotastærð verður við komið. Við þær aðstæður hlýtur ávallt að vera nauðsynlegt að setja þessum bátum einhvern hámarksafla í öllum tegundum. Væri veiðum þessara báta áfram stýrt með hliðstæðum hætti og nú er mundu allir bátar undir tiltekinni stærð geta fengið leyfi til að veiða úr slíkum sameiginlegum hámarksafla. Við þær aðstæður yrði veiði­möguleiki þeirra sem nú hafa atvinnu af þessum veiðum harla lítill. Er sóknargeta þeirra báta sem nú stunda veiðar með dagatakmörkunum raunar þegar verulega umfram þær aflaheim­ildir sem þeim eru ætlaðar til frambúðar samkvæmt lögum. Eina færa leiðin til að gera þessa útgerðarmenn jafnsetta öðrum er að breyta veiðiheimildum þeirra yfir í aflahlutdeild sam­hliða því að óheftur aðgangur opnast að veiðileyfum fyrir nýja aðila. Fyrirvaralaus breyting af þessu tagi mundi hins vegar hafa verulega röskun í för með sér og því er lagt til að kerf­unum verði viðhaldið á stuttum aðlögunartíma. Því er lagt til að til loka yfirstandandi fisk­veiðiársins búi þeir bátar sem nú eru í svonefndu krókakerfi einir að því en nýir bátar af þessari stærð verði að stunda veiðar samkvæmt aflahlutdeildarkerfinu. Frá og með upphafi næsta fiskveiðiárs er lagt til að aflaheimildum sem ætlaðar hafa verið bátum sem veitt hafa samkvæmt þessum kerfum verði dreift á einstaka báta í formi aflahlutdeildar.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum felur það í sér þá meginbreytingu að ekki eru lengur settar takmarkanir á stærð fiskiskipaflotans. Hins vegar eru ekki gerðar breytingar á aflahlutdeildarkerfinu að öðru leyti en því að það nær eftir breytinguna til alls fiskiskipa­flotans. Gert er ráð fyrir að hver og einn sem fullnægir almennum skilyrðum laga geti fengið almennt veiðileyfi án tillits til þess hvort hann á fiskiskip sem haldið var til veiða á ákveðnum tíma eins og nú gildir. Í þessu felst annars vegar réttur til veiða á tegundum utan „kvóta“ og hins vegar möguleiki til að fá framseldar frá öðrum aflaheimildir af tegundum sem heildarafli er takmarkaður af.
    Samkvæmt 7. gr. laga nr. 79/1997 eru grásleppuveiðar háðar sérstöku leyfi og eiga þeir bátar einir kost á slíku leyfi sem rétt áttu til þess á grásleppuvertíðinni 1997. Hefur hliðstætt fyrirkomulag ríkt síðan 1978. Er augljóst að þetta ákvæði er hliðstætt 5. gr. laga nr. 38/1990 að því leyti sem Hæstiréttur taldi hana í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Er því lagt til í fylgifrumvarpi með frumvarpi þessu að ákvæðið verði að þessu leyti afnumið.
    Eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða IV þykir rétt að sjávarútvegsráðherra leggi fyrir lok ársins 2000 skýrslu fyrir Alþingi um áhrif laga um stjórn fiskveiða. Jafnframt er í ákvæðinu kveðið á um að endurskoða skuli lögin fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með þessari grein er lagt til að afnumdar verði þær reglur sem frá 1983 hafa gilt varðandi takmarkanir á stærð fiskiskipaflotans. Í því felst sú breyting að úrelding skipa sem fyrir eru í flotanum verður ekki lengur forsenda fyrir því að ný skip fái leyfi. Þar með falla niður allar reglur um mat á því hvaða skip eru sambærileg. Lagt er til að öll fiskiskip sem hafa haffæris­skírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða sérstaka skrá stofnunar­innar fyrir báta undir 6 metrum geti fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni enda fullnægi eig­endur þeirra og útgerðaraðilar skilyrðum laga til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Leyfi til veiða í atvinnuskyni eru áfram bundin við skip enda er útgerð skipa for­senda veiða og þar með forsenda fyrir að þörf sé á veiðileyfi. Þá hafa allir landsmenn jafnan rétt til að kaupa skip og fá það skráð á skipaskrá Siglingastofnunar. Af dómi Hæstaréttar verður ekki ráðið að neitt sé því til fyrirstöðu að binda veiðileyfi við skip eins og hér er lagt til. Eigendur og útgerðaraðilar skipa verða að fullnægja þeim skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í at­vinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Eftirtaldir aðilar fullnægja þessum skilyrðum:
     1.      Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar.
     2.      Íslenskir lögaðilar sem að öllu leyti eru í eigu íslenskra aðila eða lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
                  a.      Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
                  b.      Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í lögaðila, sem stundar veiðar eða vinnslu í fisk­veiðilandhelgi Íslands, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.
                  c.      Eru að öðru leyti í eigu íslenskra ríkisborgara eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.

Um 2. gr.

    Með þessari grein er lagt til að afnumdar verði sérreglur um veiðar svonefndra krókabáta. Fer því framvegis eftir almennum reglum laganna um stjórn fiskveiða um veiðar allra báta undir 6 brl., sbr. þó ákvæði til bráðabirgða I um veiðar krókabáta á þessu fiskveiðiári. Munu krókabátar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II fá úthlutað fastri aflahlutdeild frá upphafi næsta fiskveiðiárs. Um þessa breytingu vísast að öðru leyti til almennra athugasemda hér að framan og athugasemda við bráðabirgðaákvæði I og II.

Um 3. og 4. gr.

    Breytingar samkvæmt þessum greinum leiðir af afnámi 6. gr. og þarfnast þær ekki frekari skýringa. Varðandi fyrirkomulag á yfirstandandi fiskveiðiári vísast til tveggja síðustu máls­greinanna í ákvæði til bráðabirgða I.

Um 5. gr.

    Með greininni er gerð tillaga um tvær breytingar á 11. gr. laganna.
    Annars vegar er lagt til að brott falli það ákvæði að framsal á aflahlutdeild skuli háð sam­þykki Fiskistofu þegar það skip sem flutt er til hefur ekki aflahlutdeild af þeirri tegund sem framseld er. Þetta er gert til að þess að tryggja að skip sem fá veiðileyfi en hafa ekki afla­hlutdeild geti hindrunarlaust fengið framselda til sín aflahlutdeild.
    Hins vegar er lagt til að reistar verði skorður við því að framselja megi aflahlutdeild báta undir 6 brl. til skipa sem eru 6 brl. eða stærri. Þessi takmörkun tekur mið af því að allt frá árinu 1990 hafa flestir bátar af þessari stærð, sem notaðir eru í atvinnuskyni, stundað veiðar í svokölluðu krókakerfi. Auknar aflaheimildir krókabáta á undanförnum árum hafa eflt smá­bátaútgerð og er hún nú undirstaða atvinnulífs á ýmsum smærri stöðum. Þykir eðlilegt að reisa nokkrar skorður við því að röskun hljótist af þeirri breytingu að krókabátar stundi hér eftir veiðar með aflahlutdeild. Ekki verður hjá því komist að um leið breytist til samræmis framsalsheimild báta undir fyrrnefndum stærðarmörkum sem nú stunda veiðar með aflahlut­deild.

Um 6. gr.


    Í a-lið greinarinnar er lagt til að afnumin verði sú heimild ráðherra að geta með reglugerð bundið flutning aflamarks af einstökum tegundum því skilyrði að það skip sem fært er til hafi aflahlutdeild af þeirri tegund sem millifærð er. Um ástæður þessa vísast til þess sem fram kemur í athugasemd við 5. gr.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að einungis sé heimilt að framselja aflamark báts sem minni er en 6 brl. til báts eða báta undir þeim stærðarmörkum. Eiga hér við sömu ástæður og búa að baki reglu 5. gr. og vísast til skýringa í athugasemdum við hana. Í viðskiptum á Kvóta­þingi mundi þurfa að taka tillit til þessara takmarkana og sýnist það unnt innan ramma nú­gildandi laga um Kvótaþing.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Ákvæði um það hverjir geti fengið leyfi til veiða með línu og handfærum, fyrir báta minni en 6 brl. að stærð, svonefnd krókaleyfi, er nú að finna í 5. gr. laga um stjórn fiskveiða. Er talið ótvírætt að þau fái ekki staðist eftir dóm Hæstaréttar í málinu nr. 145/1998. Þetta skapar mikinn vanda varðandi veiðar krókabáta vegna þess að í verulegum mæli eru afla­heimildir þeirra beinlínis tengdar við veiðileyfi þótt ákveðin sameiginleg aflaviðmiðun gildi varðandi þorsk hjá dagabátum og þorskaflahámarksbátar hafi einstaklingsbundna magn­takmörkun í þorski. Aflaheimildir krókabáta eru því ekki aðgreindar frá veiðileyfum þeirra hliðstætt því sem gerist varðandi aflahlutdeildarbátana. Þykir einsýnt að vinda verði bráðan bug að breytingum á þessu fyrirkomulagi hjá krókabátunum en samkvæmt þessu ákvæði er þó lagt til að breytingin verði ekki fyrr en við upphaf næsta fiskveiðiárs enda óhægt um vik að breyta um fyrirkomulag á miðju fiskveiðiári.
    Með lögum nr. 83/1995 var ákveðið að reikna einstaklingsbundna aflareynslu fyrir hvern krókabát vegna þess að þótt veiðiheimildir þeirra hefðu aukist gríðarlega blasti við að veiði­dögum þeirra mundi fækka með aukinni sókn. Var ákveðið að útgerðarmenn gætu valið hvort hlutdeild þeirra í veiðum krókabáta yrði notuð sem einstaklingsbundin magntakmörkun eða lögð inn í sameiginlegan hámarksafla krókabáta á sóknardögum. Reiknuð aflaviðmiðun fyrir hvern bát byggðist á meðaltali tveggja bestu áranna af þremur, almanaksáranna 1992, 1993 og 1994. Um 70% af þeirri sókn rúmaðist innan heildarþorskveiðiheimilda krókabáta sem þá voru orðnar 21.500 lestir. Vorið 1996 var ákveðið að miða heildarþorskafla krókabáta við tiltekið hlutfall af heildarþorskafla sem þá var í lágmarki eða 155.000 lestir. Síðan hafa veiðiheimildir krókabáta aukist um nálega 60 af hundraði vegna hlutfallstengingarinnar eða í 34.375 lestir. Hafa nú allir krókabátar hærra reiknað þorskaflahámark en meðaltal tveggja bestu veiðiáranna gaf viðmiðunarárin 1992–94.
    Krókabátar í heild eru nú 825 og hefur þeim fækkað um fjórðung frá árinu 1994, m.a. vegna aðgerða Þróunarsjóðs. Mest hefur fækkað meðal báta sem valið hafa þorskafla­hámark. Þeir eru nú 497, með tæp 92% veiðireynslunnar viðmiðunarárin 1992–94. Hins vegar skiptast 8% á milli 277 báta á handfærum og 51 báts á línu og handfærum og hefur hvor flokkur nálægt 9 lesta viðmiðun að meðaltali á hvern bát. Afli á dag hefur aukist hröðum skrefum á undanförnum árum. Fór aflinn úr 560 kg á dag á handfæri að meðaltali fyrir tveimur árum í 1.300 kg á dag á síðasta fiskveiðiári. Að óbreyttu verða leyfðir sóknar­dagar einungis níu á hvern bát í sóknardagakerfunum á yfirstandandi fiskveiðiári. Þess má geta að frá árinu 1995, þegar einstaklingsbundin veiðireynsla var reiknuð fyrir hvern bát, hefur nálægt helmingur sóknardagabáta skipt um eigendur samkvæmt gögnum Fiskistofu eða 146 bátar af 328. Þá hafa 42 bátar af 328 verið endurnýjaðir með nýsmíði á þessum tíma.
    Í þessu ákvæði til bráðabirgða er lagt til að núverandi fyrirkomulag á veiðum krókabáta haldist að mestu óbreytt út þetta fiskveiðiár. Þó er lagt til að eftirfarandi breytingar verði gerðar: Veiðidögum sóknardagabáta verði fjölgað frá því sem verið hefði úr níu í 32 fyrir handfærabáta en í 26 fyrir línu- og handfærabáta. Til mótvægis við fjölgun sóknardaga er sett 30 lesta hámark á þorskafla hvers báts á fiskveiðiárinu. Loks eru gerðar nokkrar breytingar á endurnýjunarreglum krókabáta og horfa þær fyrst og fremst til rýmkunar.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Með ákvæði þessu er lagt til að fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs verði ákveðin aflahlutdeild fyrir þá báta sem nú stunda veiðar samkvæmt svonefndu krókakerfi. Jafnframt eru gerðar tillögur um hvernig að þessari úthlutun aflahlutdeildar skuli staðið. Ljóst er að nokkur munur hlýtur að vera á nálgun að úthlutun aflahlutdeildar hjá annars vegar dagabátum og hins vegar þorskaflahámarksbátum. Þeir síðarnefndu sæta hver um sig takmörkun í þorskveiðum sem auðvelt er að afmarka sem beina hlutdeild hvers báts í heildarþorskafla. Varðandi þessa báta þarf því aðallega að leysa úr því hver hlutdeild þeirra eigi að vera í aflahlutdeild annarra teg­unda sem þeir stunda veiðar á. Hér er lagt til að notað verði til viðmiðunar veiðitímabil sem sé eins nærri í tíma og kostur er og að krókabátar njóti sem heild þeirrar sömu hlutdeildar og veiði þeirra hefur verið síðastliðin þrjú almanaksár. Skipting innbyrðis milli veiðihópanna í öðrum tegundum en þorski verði í sömu hlutföllum og skipting þorskveiðiheimilda. Það sem í hlut þorskaflahámarksbáta kemur af aflahlutdeild í öðru en þorski skiptist milli þeirra í hlutfalli við aflareynslu síðastliðin þrjú almanaksár, þó þannig að fyrir hvern bát er miðað við tvö bestu ár af þremur. Hefur það iðulega verið gert í slíkum tilvikum til að koma til móts við sjónarmið sem varða frátafir báta frá veiðum o.fl.
    Varðandi dagabáta liggur fyrir að þeir veiða nú í félagslegu kerfi, sem svo má kalla, þ.e. allir bátarnir í hvoru dagakerfi um sig hafa sameiginlega aflaviðmiðun og búa allir við sömu veiðitakmarkanir. Við úthlutun aflahlutdeildar til þeirra þykir því eðlilegast að úthluta jafnt á dagabáta innan hvors kerfis, annars vegar þorskveiðiheimildum þeirra og hins vegar því sem í þeirra hlut kemur af aflahlutdeild í öðrum tegundum.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 83/1995 var árlega úthlutað 5.000 lesta aflaheimildum af þorski miðað við óslægðan fisk til þeirra skipa sem urðu fyrir mestri skerð­ingu við úthlutun aflamarks frá fiskveiðiárinu 1991/1992. Gildir ákvæðið í fjögur fisk­veiðiár, frá fiskveiðiárinu 1995/1996 til fiskveiðiársins 1998/1999. Skyldi skerðing umfram tiltekin mörk að fullu bætt, en þó þannig að ekkert skip skyldi fá í sinn hlut uppbót umfram 10 lestir af þorski, miðað við slægðan fisk, og skip sem leyfi hafa til fullvinnslu botnfiskafla skyldu ekki fá uppbót samkvæmt ákvæðinu.
    Frá því að þetta lagaákvæði var lögfest hefur úthlutað aflamark í þorski farið vaxandi, vegna stækkandi þorskstofns, og er þess því ekki að vænta að upprunalegt jöfnunartilefni verði fyrir hendi mikið lengur. Vegna 10 lesta hámarksins sem verið hefur á úthlutun til hvers báts hefur þessi jöfnunarúthlutun nýst minnstu bátunum best.
    Með þessu ákvæði til bráðabirgða er gerð tillaga um framlengingu úthlutunar í eitt fisk­veiðiár og að lögð verði til grundvallar meðaltalsúthlutun síðustu tveggja fiskveiðiára.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 38/1990,


um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um stjórn fiskveiða er varðar stærð fiski­skipaflotans. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.