Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 734  —  436. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um heiðurslaun listamanna.

Flm.: Svavar Gestsson.



    Alþingi ályktar að veita skuli árlega heiðurslaun listamanna á fjárlögum. Heiðurslaunin séu veitt allt að tuttugu listamönnum hverju sinni og aldrei færri en fimmtán. Sá sem hefur fengið heiðurslaun heldur þeim ævilangt.
    Menntamálanefnd geri tillögur fyrir 3. umræðu um fjárlagafrumvarp ár hvert um hvaða listamenn fái heiðurslaun hverju sinni.

Greinargerð.


    Í lögum nr. 29/1967, um listamannalaun, var að finna ákvæði um að Alþingi veitti árlega fé á fjárlögum til að launa listamenn. Í ákvæðinu kom enn fremur fram að Alþingi gæti bæði veitt tilteknum listamönnum ákveðin heiðurslaun og veitt að auki í þessu skyni eina upphæð sem síðan skyldi skipt af nefnd sjö manna, kosinni af Alþingi að afloknum alþingiskosning­um.
    Árið 1991 voru lög nr. 29/1967 felld úr gildi, er ný lög nr. 35/1991, um listamannalaun, voru sett. Í þeim lögum er ekki að finna ákvæði um heiðurslaun listamanna. Í upphaflegri gerð frumvarpsins sem síðar varð að lögum nr. 35/1991 var að finna ákvæði sem hljóðaði svo: „Alþingi veitir tilteknum listamönnum heiðurslaun. Nýir heiðurslaunahafar skulu hafa náð 65 ára aldri.“ Ákvæði þetta var fellt út úr frumvarpinu að tillögu meiri hluta mennta­málanefndar. Í nefndaráliti segir að ekki þyki ástæða til að hafa ákvæði um heiðurslaun lista­manna í frumvarpinu. Í ræðu framsögumanns meiri hluta menntamálanefndar kemur fram að eining hafi verið um það í nefndinni að leggja til að ákvæðið um heiðurslaun listamanna í frumvarpinu félli brott. Þá kemur einnig fram að það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að frumvarpið ætti ekki að hreyfa við heiðurslaunakerfinu á einn eða annan hátt.
    Það er ljóst að löng hefð er fyrir veitingu heiðurslauna listamanna þrátt fyrir að í núgild­andi lögum sé ekki að finna fyrirmæli um þau. Frá árinu 1989 hafa 25 listamenn verið í hópi þeirra sem hlotið hafa heiðurslaun. Tólf þeirra eru nú látnir en þeir þrettán listamenn sem Alþingi hefur samþykkt að veita heiðurslaun í ár eru: Atli Heimir Sveinsson, Árni Kristjáns­son, Ásgerður Búadóttir, Guðbjörg Þorbjarnardóttir, Hannes Pétursson, Indriði G. Þorsteins­son, Jón Nordal, Jón úr Vör, Jórunn Viðar, Kristján Davíðsson, Matthías Johannessen, Stef­án Hörður Grímsson og Thor Vilhjálmsson.

Tafla. Listamenn sem hlotið hafa heiðurslaun síðustu tíu ár.

Hlaut fyrst
heiðurslaun
1989 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999
Atli Heimir Sveinsson x x x x x x x x x
Árni Kristjánsson 1986 x x x x x x x x x x x
Ásgerður Búadóttir x x x x x
Finnur Jónsson fyrir 1978 x x x x x
Guðbjörg Þorbjarnardóttir x x x x x x x x x
Guðmundur Daníelsson fyrir 1978 x x
Halldór Laxness fyrir 1978 x x x x x x x x x x
Hannes Pétursson 1983 x x x x x x x x x x x
Helgi Skúlason x x
Indriði G. Þorsteinsson fyrir 1978 x x x x x x x x x x x
Jakobína Sigurðardóttir 1988 x x x x x x
Jóhann Briem 1983 x x x
Jón Nordal 1983 x x x x x x x x x x x
Jón úr Vör 1986 x x x x x x x x x x x
Jórunn Viðar 1988 x x x x x x x x x x x
Kristján Davíðsson 1988 x x x x x x x x x x x
María Markan fyrir 1978 x x x x x x x
Matthías Johannessen 1983 x x x x x x x x x x x
Sigfús Halldórsson x x x x x x x
Sigríður Hagalín x x
Stefán Hörður Grímsson x x x x x
Stefán Íslandi 1983 x x x x x x
Thor Vilhjálmsson x x x x x x x x
Valur Gíslason fyrir 1978 x x
Þorsteinn Ö. Stephensen 1988 x x x
Samtals 17 17 18 18 18 16 17 16 15 14 13