Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 965  —  582. mál.




Frumvarp til laga



um bann við uppsögnum starfsmanna vegna fjölskylduábyrgðar.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar hans.
    Með fjölskylduábyrgð er átt við skyldur starfsmanns gagnvart ósjálfráða börnum, maka eða nánum skyldmennum sem búa á heimili hans og greinilega þarfnast umönnunar hans eða forsjár, svo sem vegna veikinda eða fötlunar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Íslands á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Samþykktin var afgreidd af 67. Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf árið 1981. Samtímis voru afgreidd tilmæli nr. 165 sem bera sama nafn og samþykktin og fela í sér nánari útfærslu á efni hennar.
    Samþykkt ILO nr. 156, ásamt tilmælum nr. 165, er ætlað að hafa tvenns konar áhrif. Annars vegar er markmið hennar að stuðla að jafnrétti karla og kvenna, sem hafa skyldum að gegna gagnvart fjölskyldu sinni, til starfa og hins vegar að jafna stöðu þeirra starfsmanna sem bera fjölskylduábyrgð og þeirra sem ekki hafa slíka ábyrgð. Í stórum dráttum má segja að markmiðið sé að hvetja aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til að grípa til allra viðeigandi aðgerða til að ná þessum markmiðum með tilliti til mismunandi aðstæðna í ríkjun­um.
    Meginskuldbinding samþykktar ILO nr. 156 felst í 8. gr. hennar þar sem segir að fjöl­skylduábyrgð skuli ekki vera gild ástæða uppsagnar. Um er að ræða nýja reglu í íslenskum vinnurétti en meginreglan er sú að atvinnurekendur þurfa ekki að gefa upp ástæðu uppsagnar. Undantekningar eru þó til frá þeirri reglu. Þær varða uppsagnir trúnaðarmanna, sbr. 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og uppsagnir barnshafandi kvenna, sbr. 7. gr. laga nr. 57/1987, um fæðingarorlof.
    Ákvæði 1. gr. frumvarpsins byggist á tillögu þríhliða samstarfsnefndar félagsmálaráðu­neytisins og helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina. Nefndina skipa fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Vinnu­veitendasambandi Íslands og félagsmálaráðuneytinu sem jafnframt fer með formennsku í nefndinni. Nefndin var sammála um að önnur ákvæði samþykktarinnar kölluðu ekki á laga­breytingar hér á landi.
    Til skýringar skal tekið fram að við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af 1. gr. samþykktar ILO nr. 156, þar sem fram kemur í 1. mgr. að hún tekur til starfsmanna sem hafa skyldum að gegna gagnvart eigin börnum á framfæri, þegar slíkar skyldur skerða möguleika þeirra til undirbúnings, þátttöku eða frama í atvinnulífinu. Í 2. mgr. segir að ákvæði sam­þykktarinnar skuli einnig taka til starfsmanna sem hafa skyldum að gegna gagnvart öðrum nánum vandamönnum sem greinilega þarfnast umönnunar þeirra eða forsjár, þegar slíkar skyldur skerða möguleika þeirra til undirbúnings, þátttöku eða frama í atvinnulífinu. Sam­kvæmt 3. mgr. fer um hugtökin „barn á framfæri“ og „öðrum nánum vandamönnum, sem greinilega þarfnast umönnunar eða forsjár“ eftir skilgreiningum viðkomandi ríkis. Í 4. mgr. segir síðan að starfsmenn sem 1. og 2. mgr. taka til séu í samþykktinni nefndir „starfsmenn með fjölskylduábyrgð“. Í þessu sambandi þarf því að skoða 2. mgr. 1. gr. og skilgreina hverjir mundu flokkast undir „aðra nána vandamenn“ (sem greinilega þarfnast umönnunar eða forsjár) þannig að um fjölskylduábyrgð teldist vera að ræða.
    Í skýringarriti ILO, Workers with family responsibilities, 1993, kemur fram í útskýringum við 2. mgr. 1. gr. að einstökum ríkjum hafi verið látið eftir að skilgreina nákvæmlega þau eðli fjölskyldutengsla sem þurfa að vera fyrir hendi og í hvaða mæli þurfi að vera um umönnun og framfærslu að ræða til að um fjölskylduábyrgð sé að ræða. Á hinn bóginn hafi lokatextinn sýnt þann vilja ráðstefnunnar sem afgreiddi samþykktina að þrengja ákvæðið eins mikið og mögulegt væri þannig að það takmarkaðist við þau tilvik þar sem þörfin er mest og þar sem sú umönnun sem starfsmaðurinn veitir sé í þeim mæli að hún gæti haft alvarleg áhrif á starfsmöguleika hans. Í skýringunum er bent á að þegar athugað er til hvaða tilvika ákvæði 2. mgr. 1. gr. nær séu mikilvægustu viðmiðin annars vegar skilgreiningin á því hvaða fjölskyldutengsl þurfi að vera fyrir hendi og hins vegar hvers eðlis umönnunin þurfi að vera. Mörg ríki fella maka og foreldra eða tengdaforeldra starfsmannsins undir fjölskyldutengsl og að auki afa og ömmur (og tengdaafa og -ömmur). Systkini og mágar/ mágkonur eru einnig oft felld undir fjölskyldutengsl, einkum þegar þau eru ósjálfráða eða fötluð eða geta ekki séð sér farborða vegna annarra ástæðna. Aðrir ættingjar, svo sem frændur og frænkur og ættingjar maka falla sjaldnar undir, nema unnt sé að sýna fram á að viðkomandi sé hluti af fjölskyldu starfsmannsins eða eigi enga aðra ættingja sem geti veitt honum umönnun eða aðstoð.
    Þrátt fyrir að ekki sé skilyrði samkvæmt samþykktinni að viðkomandi búi á sama heimili og starfsmaðurinn til að teljast náinn vandamaður setja mörg ríki slíkt skilyrði í landsrétti, sérstaklega þegar fjölskyldutengsl byggjast ekki á lagalegum fjölskylduböndum. Í sumum ríkjum, svo sem Hollandi, er þess ekki krafist að einstaklingurinn sem greinilega þarfnast umönnunar og aðstoðar sé skyldur starfsmanninum, svo fremi sem unnt sé að skilgreina náin tengsl hans við starfsmanninn sem geta talist fjölskyldulegs eðlis. Í Bretlandi og Bandaríkj­unum hefur það afgerandi þýðingu hvort viðkomandi er efnahagslega háður starfsmanninum eða nýtur raunverulegrar umönnunar hans.
    Af orðalagi 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er ljóst að atvinnurekanda er óheimilt að segja starfsmanni upp vegna sjónarmiða sem eingöngu varða fjölskylduábyrgð hans. Inntak 1. mgr. er síðan nánar afmarkað í 2. mgr. þar sem hugtakið fjölskylduábyrgð er skilgreint. Til að um fjölskylduábyrgð starfsmanns geti verið að ræða verða þrjú meginskilyrði að vera fyrir hendi. Í fyrsta lagi verður að vera um að ræða skyldur gagnvart ósjálfráða börnum, maka eða nánum skyldmennum starfsmannsins sjálfs. Þannig falla t.d. hvorki undir ákvæðið skyldur starfsmannsins gagnvart sjálfráða afkomendum sem náð hafa 18 ára aldri né heldur gagnvart skyldmennum maka starfsmannsins. Í öðru lagi þarf viðkomandi að búa á heimili starfs­mannsins og loks er þriðja skilyrðið að viðkomandi þarfnist umönnunar starfsmannsins sjálfs eða forsjár, svo sem vegna veikinda, fötlunar eða sambærilegra aðstæðna. Allir þessir þrír þættir þurfa að vera fyrir hendi til að starfsmaður teljist bera fjölskylduábyrgð gagnvart viðkomandi einstaklingi í skilningi frumvarpsins og byggist ákvæðið því á þröngri skil­greiningu hugtaksins fjölskylduábyrgð.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Frumvarp til laga um bann við uppsögnum
starfsmanna vegna fjölskylduábyrgðar.

    Með frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að segja starfsmanni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar hans. Frumvarpið er lagt fram samhliða tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Íslands á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu. Meginskuldbinding samþykktar­innar felist í 8. gr. hennar þar sem segir að fjölskylduábyrgð skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar. Í greinargerð segir að þar sé um nýja reglu að ræða í íslenskum vinnurétti.
    Frumvarpið mun leiða til aukinna útgjalda fyrir alla launagreiðendur, þ.m.t. ríkissjóð, verði það að lögum, en þó er mjög óljóst hversu mikið þau kunna að aukast. Ástæðan er sú að það er alls óljóst í hvaða tilvikum muni reyna á lögin og því hefur ekki reynst unnt að afla upplýsinga um sambærileg tilvik á síðustu árum.