Ferill 589. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 985  —  589. mál.




Skýrsla



menntamálaráðherra um stöðu og horfur í vísinda- og tæknimálum.

(Lögð fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



    Samkvæmt ákvæðum 11. tölul. 2. gr. laga nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands, skal ráðið árlega skila skýrslu til menntamálaráðherra um stöðu og horfur í vísinda- og tækni­málum í landinu. Skýrsla Rannsóknarráðs fyrir árið 1998 er hér með lögð fyrir Alþingi til kynningar og umfjöllunar.

INNGANGUR


    Stefna Rannsóknarráðs Íslands tekur mið af því að helsti veikleiki íslenska vísindasam­félagsins er smæð þess miðað við fjölbreytni verkefna og kröfur þjóðarinnar um framúrskar­andi lífskjör og lífsgæði á alþjóðlegan mælikvarða. Helsti styrkur þess er hins vegar hæft fólk með góða alþjóðlega menntun og næman skilning á þörfum þjóðfélagsins og vakandi áhuga á að nýta þekkingu sína í þágu þess.
    Framtíðarsýn Rannsóknarráðs . RANNÍS 21 . er að á Íslandi verði til metnaðarríkt og samhæft vísinda- og tæknisamfélag sem ráði yfir þekkingu og færni á heimsmælikvarða og skili þjóðinni vel skilgreindum ávinningi.
    Til þess að svo megi verða þurfa vísindi og tækni að verða samofin íslensku þjóðlífi og;
          menntun að sitja í fyrirrúmi í landsmálum;
          framlög ríkis og atvinnulífs til rannsókna og þróunar að aukast.
    Ráðið vill beita sér fyrir því að virkja mannauð þjóðarinnar í sókn til auðugra mannlífs og bættra lífskjara á næstu öld, einkum með því að styrkja stoðir rannsókna þar sem þarfir þjóðfélagsins eru brýnar og líklegt er að Íslendingar geti náð góðum árangri miðað við alþjóðlegar kröfur. Í störfum sínum hyggst ráðið hafa forystu um að efla skilvirkt vísinda- og tæknisamfélag á Íslandi sem er í góðum tengslum við atvinnulíf og samfélag og mætir þörfum þess fyrir þekkingu í nútíð og framtíð, bæði á líðandi stund og til framtíðar litið.
    Íslendingar hafa á undanförnum áratug aukið útgjöld til rannsókna um 10–12% árlega og vörðu um 9 milljörðum króna og 1950 ársverkum til þeirra árið 1997. Hlutfall rannsókna var um 1,7% af vergri þjóðarframleiðslu.
    Fjárfesting Íslendinga á síðustu áratugum í menntun og rannsóknum er nú óðum að skila sér í fjölgandi störfum, auknum útflutningi og verðmætasköpun sem byggist á þekkingu. Þess ber þó að gæta að hlutfallslega er þáttur hátækniiðnaðar í atvinnulífi á Íslandi enn mjög lítill miðað við það sem gerist í grannlöndum okkar. Að þessu leyti erum við enn eftirbátar annarra þrátt fyrir teikn um öra framþróun.
    Hlutverk sjóða á vegum Rannsóknarráðs í því að stuðla að framsækni í vísindarannsókn­um og mæta nýjum þörfum verður æ mikilvægara. Ríkisstjórnin hefur að tillögu menntamála­ráðherra samþykkt að veita 580 m.kr. til markáætlunar um rannsóknir á sviði upplýsingatækni og umhverfismála á næstu sex árum. Árlegt ráðstöfunarfé sjóða Rannsóknarráðs mun aukast um fjórðung.
    Auka þarf skilning hér á landi á nauðsyn þess að vernda hugverkarétt með öflun einka­leyfa og breiða út þekkingu á leiðum til að fénýta niðurstöður, jafnframt því sem þær eru birtar. Jafnframt þarf að tryggja frelsi til vísindaiðkana og uppbyggjandi gagnrýni innan vís­indanna.
    Á heildina litið horfir vænlega um eflingu rannsóknastarfseminnar á Íslandi þótt enn sé töluvert í land að við stöndum jafnfætis þeim þjóðum sem við oftast berum okkur saman við. Gæta þarf að stöðu rannsókna í þágu hefðbundinna atvinnuvega, sérstaklega landbúnaðar og iðnaðar, sem veikst hefur að undanförnu.
    Á Íslandi eru kjöraðstæður til rannsókna á mörgum sviðum vísinda og tækni. Horfur ættu því að vera góðar á því að íslenskir vísinda- og tæknimenn geti stundað öflugar rannsóknir á alþjóðlegan mælikvarða og átt í víðtæku, alþjóðlegu samstarfi sem styrkt geti stöðu Íslands á komandi árum. Rannsóknarráð telur að þessar aðstæður beri að nýta með markvissum hætti og muni það opna Íslendingum ný tækifæri á komandi árum.
    Við núverandi skilyrði í rannsóknum á Íslandi og reynslu af þátttöku í alþjóðasamstarfi hafa kröfur og væntingar fyrirtækja og stofnana um stærð og umfang r&þ verkefna aukist. Ekki hefur verið hægt að fylgja þeirri þróun eftir með því að hækka styrki úr sjóðum á vegum RANNÍS. Rannsóknarráð varar við áhrifum þeirrar þróunar fyrir myndun nýrrar þekkingar og fyrir nýsköpun til lengri tíma litið.
    Verið er að ljúka við úttekt á áhrifum Rannsóknasjóðs/Tæknisjóðs á tækniþróun og ný­sköpun. Sjóðurinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í eflingu rannsókna og nýsköpunar á undanförnum árum. Hafin er úttekt á stöðu grunnvísinda á Íslandi. Rannsóknarráð stefnir að því að gera sjálfsmat og úttektir á einstökum sviðum vísinda og tækni að reglubundnum þætti í starfsemi sinni.
    Að frumkvæði menntamálaráðherra er hafin umfjöllun um hlut vísinda og tækni í þjóð­hagsáætlun og verið er að leggja grunn að áætlunum um framlög til vísinda og tækni til þriggja ára í senn. Rannsóknarráð telur mikilvægt að fjallað verði um málefni vísinda, tækni og nýsköpunar í heildarsamhengi, þ.m.t. um hlutverk þessara þátta í byggðaþróun á komandi árum.

Skýrsla Rannsóknarráðs Íslands
til menntamálaráðherra 1998.

    Svo sem gert er ráð fyrir í 11. tölul., 2. gr. laga nr. 61/1994, leggur Rannsóknarráð Íslands hér með fram aðra skýrslu sína um stöðu og horfur í vísinda- og tæknimálum á Íslandi. Á ársfundi í apríl sl. lagði ráðið fram ársskýrslu og kynnti um leið endurskoðaða stefnu sína, RANNÍS 21.


STEFNA RANNSÓKNARRÁÐS ÍSLANDS

    Rannsóknarráð hefur nú starfað í 4 ár og má telja að vel hafi tekist að sætta sjónarmið innan vísindasamfélagsins um starfsaðferðir og stefnumótun, m.a. úthlutun úr sjóðum þess. Þetta sýnir viðhorfskönnun sem gerð var fyrir ráðið vorið 1997. Þá hefur tekist eftir atvikum vel að sinna meginþáttum í hlutverki ráðsins, ef tekið er tillit til takmarkaðs ráðstöfunarfjár og fjölda starfsmanna. Þó er ljós munur á viðhorfi milli þeirra sem stunda grunnvísindi og þeirra sem vinna að hagnýtum rannsóknum og þróunarstarfi í þágu atvinnulífsins.
    Rannsóknarráð var endurskipað haustið 1997 og ákvað nýtt ráð að fara yfir stefnumótun fyrra ráðsins í ljósi fenginnar reynslu. Það kvaddi til sín á tveggja daga ráðstefnu allstóran hóp úr vísindasamfélaginu frá háskólum, stofnunum, fyrirtækjum og samtökum atvinnu­lífsins. Á grundvelli umræðu og vinnu sem þar fór fram kynnti ráðið stefnu sína undir nafn­inu RANNÍS 21 á ársfundi sínum í apríl sl.
    Stefna ráðsins tekur mið af því að helsti veikleiki íslenska vísindasamfélagsins er smæð þess miðað við fjölbreytni verkefna og kröfur þjóðarinnar um framúrskarandi lífskjör og lífsgæði á alþjóðlegan mælikvarða. Helsti styrkur þess er hins vegar hæft fólk með góða alþjóðlega menntun og næman skilning á þörfum þjóðfélagsins og vakandi áhuga á að nýta þekkingu sína í þágu þess. Rannsóknarráð telur mikils að vænta af vísinda- og tæknistarfi á Íslandi og reynslan sýni fram á mikla arðsemi þess fjár sem varið er til þess.
    Framtíðarsýn Rannsóknarráðs . RANNÍS 21 . er að á Íslandi verði til metnaðarríkt og samhæft vísinda- og tæknisamfélag sem ráði yfir þekkingu og færni á heimsmælikvarða og skili þjóðinni ávinningi í;
          betri grunni til farsælla ákvarðana og aðlögunar að breyttum ytri aðstæðum;
          kunnáttu til sjálfbærrar og hagkvæmrar nýtingar auðlinda;
          verðmætari framleiðslu, auknu vinnsluvirði og útflutningsverðmæti í atvinnuvegum;
          nægum, áhugaverðum störfum;
          þroskuðu og siðmenntuðu samfélagi sem byggist á jöfnuði og jafnrétti;
          efnahagslegu og menningarlegu sjálfstæði og áhrifum á alþjóðavettvangi.

    Til þess að svo megi verða þurfa vísindi og tækni að verða samofin íslensku þjóðlífi og;
          menntun að sitja í fyrirrúmi í landsmálum;
          framlög ríkis og atvinnulífs til rannsókna og þróunar að aukast.

Leiðarljós — RANNÍS 21
    Ráðið vill beita sér fyrir því að virkja mannauð þjóðarinnar í sókn til auðugra mannlífs og bættra lífskjara á næstu öld, einkum með því að styrkja stoðir rannsókna þar sem þarfir þjóðfélagsins eru brýnar og líklegt er að Íslendingar geti náð góðum árangri miðað við alþjóðlegar kröfur. Í þessu skyni mun ráðið í samráði við stjórnvöld skipuleggja sérstakt átak í rannsóknum á sviði upplýsingatækni og umhverfismála.
    Ráðið mun beita sér fyrir því að tengja þjálfun til vísindastarfa við þarfir þjóðlífs og auðvelda ungu fólki aðgang að störfum þar sem vísinda- og tækniþekkingar er þörf.
    Ráðið mun í störfum sínum leggja áherslu á eftirfarandi:
          að auka samvinnu atvinnulífs, rannsókna- og menntastofnana og stuðla að aukinni þátttöku fyrirtækja í rannsókna- og þróunarstarfi;
          að auka skilvirkni og samvirkni í rannsóknastarfsemi og efla skipulegt mat á árangri vísinda- og rannsóknastarfs;
          að auka þátttöku Íslendinga í fjölþjóðlegu vísinda- og rannsóknasamstarfi;
          að kynna niðurstöður rannsókna og gildi vísinda fyrir atvinnulíf og menningu þjóðarinnar;
          að efling rannsókna og nýting niðurstaðna þeirra verði í æ ríkari mæli samofin stefnumótun stjórnvalda.

    Í störfum sínum hyggst ráðið hafa forystu um að efla skilvirkt vísinda- og tæknisamfélag á Íslandi sem er í góðum tengslum við atvinnulíf og samfélag og mætir þörfum þess fyrir þekkingu í nútíð og framtíð, bæði á líðandi stund og til framtíðar litið.



VIÐHORF

    Eins og fram kom í fyrstu skýrslu ráðsins eru að verða miklar breytingar á atvinnulífi Íslendinga með aðlögun hefðbundinna atvinnuvega að nýjum rekstrarskilyrðum og ört vax­andi hlut þekkingar sem undirstöðu aukinnar framleiðni og nýrra viðskipta- og atvinnutæki­færa. Efnahagsstöðugleiki, góð ytri skilyrði, frelsi á fjármálamarkaði og markaðsvæðing opinbers rekstrar svo og aukin samkeppni á ýmsum sviðum hefur sýnilega hleypt nýju lífi í þróun atvinnulífsins.
    Með bættum aðgangi að innlendu og erlendu áhættufé hafa skilyrði til nýsköpunar, ekki síst stofnunar fyrirtækja sem byggð eru á sérhæfðri þekkingu, ótvírætt batnað á síðustu árum.
    Sumar hefðbundnu greinarnar eiga þó í miklum erfiðleikum við aðlögun, ekki síst land­búnaðurinn sem háð hefur varnarbaráttu. Fyrirtækjum í hefðbundnum framleiðsluiðnaði og sjávarútvegi hefur fækkað og þau stækkað en í landbúnaði fækkar búum stöðugt, sérstaklega í sauðfjárrækt.
    Byggðaröskun hefur m.a. fylgt í kjölfar skipulagsbreytinga í hefðbundnum atvinnu­greinum þótt margvísleg félagsleg atriði komi einnig til.
    Fyrirtæki auka hlut sinn í rannsóknum hröðum skrefum og þau framkvæma nú nærri 40% rannsókna í landinu (mynd 1). Ný fyrirtæki hafa sprottið upp á síðari árum á grundvelli tækniþekkingar, m.a með stuðningi frá sjóðum Rannsóknarráðs og skila hraðvaxandi útflutn­ingstekjum. Útflutningur á tæknivörum tengdum sjávarútvegi fer einnig vaxandi (mynd 2).


Mynd 1.





Mynd 2.





    Skráning einkaleyfa sem byggð er á íslenskum rannsóknum er þó hlutfallslega með því lægsta sem gerist meðal OECD þjóða.
    Athygli vekur alþjóðlegur árangur fyrirtækja í framleiðslu og útflutningi tölvustýrðra vinnsluvéla fyrir matvælaiðnað, lækningatækja og stoðtækja fyrir fatlaða, hugbúnaðar fyrir skjalameðferð og hópsamskipti á vinnustöðum, og hugbúnaðar fyrir sýndarveruleika til notk­unar í margmiðlun og auglýsingaiðnaði.
    Mikla athygli vekur tilkoma fyrirtækis, Íslenskrar erfðagreiningar hf., sem stundar rann­sóknir og þróunarstarf í mannerfðagreiningu og dregur að sér erlenda stórfjárfestingu á ís­lenskan mælikvarða og er þegar orðið eitt stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í heiminum. Fyrirtækið hefur jafnframt gert fjölmörgum hámenntuðum Íslendingum kleift að snúa heim úr störfum erlendis og fá verðug verkefni og viðunandi kjör hér á landi. Svipað hefur gerst fyrir tilstilli fyrirtækja í hugbúnaðariðnaði sem vaxa hratt um þessar mundir. Starfshorfur og kjör háskólamenntaðra í þessum greinum hafa þannig batnað hér á landi að undanförnu.
    Hugmyndin um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði sem stjórnvöld hafa tekið undir og lög voru sett um á Alþingi í árslok vakti upp umræðu sem sýnir að Íslendingar, eins og margar fleiri þjóðir, standa frammi fyrir nýjum möguleikum en jafnframt margvíslegum nýj­um siðferðilegum og hagsmunatengdum álitamálum sem ný vísindaþekking skapar. Annars vegar togast á sýn til framfara í líf- og læknavísindum og heilbrigðisþjónustu og hins vegar staða einstaklinga gagnvart meðferð persónuupplýsinga, svo og samskipti milli vísinda­manna, stofnana, stjórnvalda og fyrirtækja um frelsi til vísindaiðkana og um hagnýtingu vísindalegrar þekkingar og hagsmuni sem af henni spretta.
    Meðal atriða sem gefa þarf gaum er stefnumótun um öflun einkaleyfa af líf- og læknis­fræðilegum nýjungum og skiptingu viðskiptahagsmuna sem af þeim leiða milli vísindamanna og stofnana sem þeir vinna hjá (eða ríkisvaldsins fyrir þeirra hönd) svo og þeirra fyrirtækja sem fénýta niðurstöðurnar.
    Útgáfa sérleyfis til reksturs gagnagrunns sem gert er ráð fyrir í lögunum um miðlægan gagnagrunn getur haft afgerandi áhrif á aðstöðu til fjármögnunar rannsókna og til öflunar einkaleyfa á hugverkum sem byggjast á rannsóknum á þessu sviði vísinda. Þá hefur umræða einnig hafist um frelsi til vísindaiðkana og lögverndaða aðstöðu einstakra opinberra stofnana til rannsókna á einstökum sviðum vísinda.
    Skortur er nú á fólki til starfa á ýmsum sviðum raunvísinda og tækni. Ljóst er að ekki hefur verið lögð næg áhersla á menntun fólks í þessum greinum. Háir það vexti fyrirtækja í ýmsum greinum svo og endurnýjun starfsliðs á vísindastofnunum.
    Á öðrum sviðum vísinda, m.a. í hug- og félagsvísindum snýr nú heim frá námi og störfum erlendis vaxandi fjöldi hámenntaðra ungra Íslendinga sem leitar fyrir sér um viðfangsefni. Mikil gerjun á sér stað í vísindasamfélaginu, m.a. utan gróinna stofnana í hug- og félagsvís­indum innan Háskóla Íslands og annarra opinberra stofnana. Líklegt er að fagfólk á þessum sviðum leiti nýrra leiða til að koma þekkingu sinni á framfæri. Má m.a. búast við vaxandi þrýstingi á Vísindasjóð úr þessari átt á komandi árum.
    Nýleg samanburðarathugun á hlut kvenna í vísindum á Norðurlöndum sýnir að þátttaka þeirra hér á landi er minni en hjá grannþjóðunum. Meðal prófessora er hlutfallið hæst í Finn­landi, 12,7%, í Noregi 9,9%, Svíþjóð 7,5%, en á Íslandi og í Danmörku er þetta hlutfall 6%.
     Fjárfesting Íslendinga á síðustu áratugum í menntun og rannsóknum er nú óðum að skila sér. Þjóðfélagsleg arðsemi þeirrar fjárfestingar er án efa mikil um þessar mundir. Þess ber þó að gæta að hlutfallslega er þáttur hátækniiðnaðar í atvinnulífi á Íslandi enn mjög lítill miðað við það sem gerist í grannlöndum okkar. Að þessu leyti erum við enn eftirbátar annarra þrátt fyrir ofangreind teikn um öra framþróun. Hlutverk sjóða á vegum Rannsóknarráðs í því að tryggja framsækni í rannsóknum og mæta nýjum þörfum verður æ mikilvægara.
     Skerpa þarf umræðu hér á landi um verndun hugverkaréttar og um leiðir til að tryggja frelsi til vísindaiðkana og uppbyggjandi gagnrýni innan vísindanna.


UMFANG RANNSÓKNA OG ÞRÓUNAR

    Sá hluti þjóðarframleiðslunnar sem varið er til rannsókna hér á landi vex nú stöðugt. Árið 1997 var um 9 milljörðum króna varið til rannsókna (mynd 3) og unnin voru rúmlega 1950 ársverk í rannsóknum og þróunarstarfi. Þetta svarar til um 1,7% af vergri þjóðarframleiðslu og 1,5% af vinnuafli í landinu (mynd 4). Aukningin er um 14% milli ára síðustu tvö árin en hefur verið að meðaltali um 10% á milli ára frá því um miðjan 9. áratuginn, en hlutur rannsókna í þjóðarbúskapnum var 0,7% árið 1983.


Mynd 3.






Mynd 4.







    Með vaxandi heildarumsvifum rannsókna hefur orðið veruleg breyting á verkaskiptingu og áherslum í rannsóknum á síðari árum (mynd 5). Hlutur fyrirtækja er nú kominn í um 38% af heildarrannsóknum í landinu en var 15% fyrir 10 árum og aðeins 5% fyrir 20 árum. Hlutdeild háskólastigsins helst nokkuð stöðug og fer jafnvel vaxandi og er nú um 30% af heild. Hlutdeild opinberra rannsóknastofnana utan háskólanna (þ.m.t. rannsóknastofnana atvinnuveganna) hefur dregist mjög ört saman og er nú 30% af heild en var yfir 52% árið 1987. Þrátt fyrir þetta lækkandi hlutfall hefur velta þessara stofnana vaxið um 1.000 m.kr. á þessum 10 árum. Framlag fyrirtækja hefur hins vegar vaxið úr 570 m.kr. í 3.500 m.kr. eða rúmlega sexfaldast á föstu verðlagi.
    Hlutur hefðbundinna framleiðslugreina í heildarumfangi rannsókna hefur minnkað ört (mynd 6). Framlög til rannsókna á sviði umhverfismála hafa vaxið umtalsvert en dregið hefur úr opinberum fjárveitingum til landbúnaðarrannsókna, orku- og iðnaðarrannsókna (mynd 7). Hins vegar hafa fjárveitingar til haf- og sjávarútvegs-rannsókna vaxið nokkuð, enda skipta rannsóknir á því sviði sköpum fyrir íslenska þjóðarbúið nú sem fyrr. Rannsóknarráð telur hins vegar að minnkandi framlög til iðnaðarrannsókna og landbúnaðarrannsókna ógni möguleikum þessara atvinnugreina til þess að hagnýta nýja þekkingu og tækni og aðlagast breyttu rekstrarumhverfi.



Mynd 5.







Mynd 6.






Mynd 7.






    Hlutur læknisfræðilegra grunnrannsókna hefur farið ört vaxandi á undanförnum áratug og þáttur hug- og félagsvísinda hefur heldur ekki legið eftir þrátt fyrir aukinn hlut fyrirtækja í heildarumsvifum rannsókna í landinu (mynd 8). Þetta bendir til þess að efling háskólanna hafi komið þessum greinum til góða, ekki síst þáttur vísindalegs framhaldsnáms. Hagnýtar læknisfræði- og heilbrigðisrannsóknir svo og hagnýtar félagsfræðilegar rannsóknir á sviði skólamála, félagsmála, hagstjórnar- og stjórnunarfræða o.fl hafa vaxið hröðum skrefum.
    Í alþjóðlegum samanburði (mynd 9) eru Íslendingar nú meðal þeirra þjóða sem hvað örast auka hlut rannsókna í þjóðarbúskapnum þótt ennþá séum við undir meðallagi innan OECD um heildarframlög miðað við þjóðarframleiðslu, sem er um 2,2%. Margar smærri þjóðir sem við gjarnan berum okkur saman við stórauka nú framlög til rannsókna. Má þar nefna Norðurlandaþjóðirnar, sérstaklega Svía (3,7% af VÞF) og Finna (2,8% af VÞF), svo og Íra sem hafa fylgt nánast sömu hlutfallsþróun og Íslendingar. Stóru iðnríkin virðast hins vegar draga úr hlut rannsókna eða láta þær standa í stað. Þar koma m.a. til minnkandi framlög til rannsókna í þágu hernaðar og landvarna í þeim löndum.



Mynd 8.






Mynd 9.




    Samkvæmt alþjóðlegum samanburðartölum um samkeppnishæfni Íslendinga (World Competitiveness Report), skipar staða okkar á sviði rannsókna og þróunar okkur neðarlega í samkeppnisröð meðal þjóða. Könnun á matsforsendum þessara skýrslna sýnir að sæta­skipan í vísindum og tækni byggist að töluverðu leyti á heildartölum um fjármagn og mann­afla til rannsókna, heildarfjölda einkaleyfa, nóbelsverðlaunahafa o.s.frv., en hvorki á hlut­fallstölum miðað við þjóðarframleiðslu né tölum um hraða breytinga milli ára (vaxtartölum). Það er þó gert í samanburði á þjóðhagstölum en þar lenda Íslendingar hins vegar í fremstu röð. Slíkur samanburður getur aldrei skilað Íslendingum hárri einkunn á sviði rannsókna og þróunar og er tæplega nothæfur mælikvarði á samkeppnishæfni að þessu leyti. Að hluta er niðurstaðan þó byggð á sjálfsmati stjórnenda íslenskra fyrirtækja og er slök frammistaða Ís­lendinga sem framleiðenda á sviði hátækni vafalaust eðlilega metin.
     Á heildina litið horfir vænlega um eflingu rannsóknastarfseminnar á Íslandi þótt enn sé töluvert í land að við stöndum jafnfætis þeim þjóðum sem við oftast berum okkur saman við. Gæta þarf að stöðu rannsókna í þágu hefðbundinna atvinnuvega, sérstaklega landbún­aðar og iðnaðar, sem veikst hefur að undanförnu.

ALÞJÓÐLEG SAMVINNA — STAÐA ÍSLANDS

    Alþjóðleg samvinna á sviði vísinda fer nú ört vaxandi. Í kjölfar umfangsmikilla rannsókna á vegum OECD á samspili vísindaframfara og tækniþróunar annars vegar, og atvinnu-, efna­hags- og félagsþróunar í aðildarríkjunum hins vegar. Hefur sú skoðun mótast að þjóðfélags­þróun næstu aldar muni fyrst og fremst byggjast á skipulegri hagnýtingu þekkingar á öllum sviðum þjóðfélagsins. Talað er um þekkingarþjóðfélagið (The Knowledge Based Society) er taki við af iðnaðarþjóðfélaginu á nýrri öld.
    Í þekkingarþjóðfélaginu verður ekki eingöngu miðað við náttúru- og raunvísindi og tækni, sem vissulega eru driffjöður efnahagsþróunar, heldur ekki síður mannvísindi er m.a. geti gefið mönnum betri skilning á forsendum sjálfbærrar þróunar og leiðum til að stuðla að jafn­vægi í þjóðfélagsframförum á tímum örra breytinga. Þróun á sviði upplýsinga- og samskipta­tækni hefur á stuttum tíma tengt þjóðir nánar saman en áður var og nýir möguleikar til sam­vinnu fyrirtækja og stofnana hafa opnast, m.a. með nettengingum á sviði þekkingarmiðlunar, framleiðslusamvinnu og markaðsmála. Hina nýju upplýsinga- og samskiptatækni má nýta til að treysta stoðir atvinnu- og mannlífs á landsbyggðinni og undirbúa þannig öfluga þátt­töku allra Íslendinga í alþjóðlegu þekkingarþjóðfélagi.
    Flestir gera sér nú grein fyrir að engin þjóð getur ein og sér skapað og náð tökum á því að hagnýta á hagkvæmastan hátt alla þekkingu sem hún þarfnast. Þjóðir verða að skipta verkum eða eiga með sér samvinnu til að leysa verkefni, hvort sem er á sviði hátækni og geimvísinda, læknisfræði og heilbrigðisþjónustu, orkumála, efnahags- og atvinnumála, um­hverfismála, náttúruauðlinda, öryggismála, þróunarmála o.m.fl. Vaxandi áhyggjur af áhrifum mannsins á veðurfar og fjölbreytni lífríkisins á jörðinni voru staðfestar með samþykktum á Ríó-ráðstefnu og með Kyoto-samkomulagi. Vísindarannsóknir og tækniþróun gegna lykil­hlutverki í því að mæta nýjum, hnattrænum vandamálum sem komið hafa í ljós. Samstarf þjóða á flestum sviðum mun í vaxandi mæli styðjast við rannsóknir og vísinda- og tæknisam­starf, enda er þekking meðal þeirra fáu auðlinda sem hægt er að ausa af, óendanleg.
    Íslendingar hafa á fáum árum haslað sér völl í alþjóðasamstarfi á sviði vísinda og tækni, fyrst aðallega í norrænu samstarfi, síðar í samvinnu innan Evrópu sérstaklega með aðgangi að rammaáætlun ESB. Skjót viðbrögð og góður árangur stofnana og fyrirtækja í sókn á vett­vangi 4. rammaáætlunar ESB vekja athygli. Íslendingar hafa nú tekið þátt í um 150 verk­efnum (tafla 1) sem hlotið hafa stuðning úr sameiginlegum sjóði áætlunarinnar og fengið um 60% meira fé til baka í styrkjum en þeir hafa greitt í áætlunina. Þessu hefur fylgt samstarf sem náð hefur til nærri 500 aðila í um 30 löndum Evrópu (mynd 10).
    Hlutur fyrirtækja í þessari sókn er rúml. 30% og er í samræmi við hlutdeild atvinnulífsins í rannsóknum á Íslandi að undanförnu. Íslensk smáfyrirtæki hafa náð hlutfallslega góðum árangri í rammaáætlun ESB (tafla 2). Góð samvinna hefur tekist milli opinberra aðila og einkaaðila hér á landi um sókn á þennan vettvang.
    Með aðgangi Norðurlandaþjóða að rammaáætlun Evrópusambandsins, og sérstaklega við inngöngu Finna og Svía í ESB, hefur dregið úr virkni norræns samstarfs. Skipulag norræns samstarfs og stefna hefur verið í endurskoðun síðustu 3–4 árin m.a. með það fyrir augum að draga úr framlögum til þess. Þeirri endurskoðun er varla lokið ennþá og of snemmt að spá um þróun þess. Þó má nú merkja vissan áhuga á eflingu norræns samstarfs á nýjan leik. Að hluta til hefur norrænt samstarf fengið framgang í Evrópusamstarfi.
    Eins og boðað var í fyrstu skýrslu ráðsins til ráðherra var, að fenginni reynslu í alþjóða­samstarfi, ákveðið að leita samvinnu við Bandaríkin á sviði vísinda og tækni. Þetta var m.a. gert með hliðsjón af því að stór hluti háskólamenntaðra Íslendinga leita til Bandaríkjanna til náms og helmingur allra doktorsprófa sem Íslendingar taka eru frá bandarískum háskólum. Þá gerði ráðið könnun á samstarfi sem fyrir er og eru niðurstöður sýndar í töflu 3. Sendi­nefnd Rannsóknarráðs fór til Bandaríkjanna haustið 1997 og heimsótti þarlendar stofnanir sem gegna hliðstæðu hlutverki í stefnumótun, áætlanagerð og fjármögnun rannsókna. Einnig voru ýmsar rannsóknastofnanir heimsóttar. Alls staðar kom fram áhugi á samstarfi, m.a. á sviði náttúru- og umhverfisvísinda svo og líf- og læknisvísinda. Sendinefndin gaf ráðherra skýrslu um niðurstöður ferðarinnar og gerði tillögur um næstu skref. Ráðherra beitti sér fyrir því að RANNÍS fengi aukna fjárveitingu á árinu 1998 til að fylgja tillögunum eftir.

Tafla 1. Árangur Íslands í fjórðu Rammaáætlun ESB.


Áætlun Fjöldi ums. m/ísl. þáttt. Þ.a. m/þátt fyrirtækja Samþ. ums. m/ísl. þáttt.      Þ.a. m/þátt fyrirtækja Í mati Upph. styrks til Ísl. m.kr Framl. Ísl. til
4. rá. - m.kr
Fengið sem
hlutf. framl. í %
Fjarskiptatækni 7 8 6 6 1 92,5 46 201%
Upplýsingatækni 33 23 13 9 3 181,4 141 129%
Fjarvirkni 33 13 10 7 28,5 62 46%
Hafrannsókn.- og tækni 11 3 8 2 120,0 17 706%
Landbún. og fiskveiðar 83 23 26 6 12 254,5 50 509%
Umhverfi og loftslag 40 0 16 0 1 131,6 62 212%
Samgöngurannsóknir 4 0 2 0 4,0 18 22%
Iðnaðar- og efnistækni 30 24 14 10 0 56,9 125 45%
Mælingar og prófanir 2 1 1 0 ?? 21 ??
Líf- og læknisfræði 35 1 10 1 12,0** 25 48%
Líftækni 9 1 3 1 1 30,7 40 77%
Félags- og hagvísindi 5 0 1 0 2,0 10 20%
Orkurannsóknir 20 9 7 2 159,0 73 218%
Nýting niðurstaðna 17 7 9 3 115,4 24 481%
Mannauður 22 0 10 0 2 79,2 54 147%
Alþjóðl. vísindasamst. 8 5 3 2 8,1 39 21%
Annað - samningsverk. 6 0 6 0 15,6
Samtals: 365 118 145 49 20 1.291,0 807 160%
??.þýðir að ekki er ljóst hvað kemur til Íslands þar sem að verkefnið er netverkefni, þar sem fjármagni er deilt út eftir verkefnum.
**.Þetta er ekki heildarupphæðin sem kemur til Íslands, flest verkefnin eru netverkefni (conserted action) þar sem peningum er
deilt út af stjórnanda verkefnisins til þátttakenda eftir verkefnum.



Mynd 10.







Tafla 2. Aðstoð við tækniþróun í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.



Þátttaka fyrirtækja eftir löndum í 4. rammaáætlun ESB (frá 1994 til júníloka 1998).



Forstyrkur Samstarfsstyrkir
Austurríki
76 111
Belgía
119 186
Danmörk
107 117
Finnland
56 98
Frakkland
251 460
Þýskaland
401 652
Grikkland
83 170
Írland
72 100
Ítalía
200 402
Lúxemborg
6 6
Holland
265 355
Portúgal
76 203
Spánn
190 412
Svíþjóð
86 157
Bretland
504 789
Ísland
7 20
Noregur
29 43
Ísrael
1 8
Sviss
2 16
Aðrir
1 4
Ótilgreint
103 34
ALLS
2.635 4.343

Tafla 3. Samvinnuverkefni íslenskra og bandarískra v ísindamanna.





Samstarfs-
verkefni
Með styrk frá
bandarískum
aðilum
Verkfræði
14 1
Efnafræði og eðlisfræði
1
Jarðvísindi og umhverfisvísindi
27 7
Lífvísindi og líftækni
10 1
Fiskveiðar og landbúnaður
2
Læknisfræði
23 8
Félagsvísindi
15 3
Hugvísindi
8 2
ALLS
100 22


    Dagana 23.–26. september, 1998, gekkst RANNÍS í samvinnu við National Science Foundation í Bandaríkjunum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (DG XII) fyrir fjölþjóðlegri vinnuráðstefnu um umhverfisbreytingar á Norður-Atlantshafi sem sótt var af um 100 erlendum vísindamönnum frá 12 löndum. Á ráðstefnunni voru skilgreind helstu viðfangsefni rannsókna á þessu sviði á næstu árum. Fram kom mikill vilji til aukins samstarfs milli bandarískra og evrópskra stofnana um samræmdar rannsóknir á þessu hafsvæði. Ísland getur gegnt lykilhlutverki í þessu efni, veitt aðstöðu til rannsókna og fjöldi íslenskra vísinda­manna komið að alþjóðlegum rannsóknaverkefnum sem að hluta yrðu greidd af alþjóðlegum rannsóknasjóðum. Í beinu framhaldi af vinnuráðstefnunni gekkst RANNÍS, í samvinnu við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, fyrir íslensk-amerískum vísindadögum þar sem banda­rískar stofnanir voru kynntar og samstarfsmöguleikar þeirra við íslenskar stofnanir voru ræddir. Við þetta tækifæri skiptust RANNÍS og NSF á formlegum yfirlýsingum um áhuga á samstarfi á breiðu sviði vísinda. Munu viðræðunefndir frá hvorum aðila hittast á næstunni.
    Sú reynsla sem fengist hefur af samstarfsverkefnum og viðræðum við forsvarsmenn evrópskra og bandarískra stofnana sem fjalla um vísinda- og tæknimál bendir til þess að Íslendingar geti á mörgum sviðum boðið upp á ákjósanleg skilyrði fyrir alþjóðlega mikil­vægar rannsóknir á mörgum sviðum vísinda og tækni. Þau skilyrði byggjast bæði á náttúru­fari og legu landsins, þjóðinni sjálfri, sögu hennar og þjóðfélagsgerðinni hér á landi. Skilyrði til margs konar rannsóknavinnu eru hagstæð, ekki síst vegna góðrar almennrar menntunar, sameiginlegra gilda þjóðarinnar, greiðrar yfirsýnar og stuttra boðleiða.
    Allt bendir til þess að reynsla Íslendinga á mörgum sviðum og lausnir sem við höfum fundið séu gjaldgengar víða og við getum lagt mikið af mörkum sem þjóð, bæði í samvinnu við þróuð iðnríki en ekki síður meðal þróunarríkja og þeirra þjóða sem eru að hasla sér völl í alþjóðlegu markaðshagkerfi á áður lokuðum svæðum. Sjávarútvegs- og jarðhitadeildir Há­skóla Sameinuðu þjóðanna sem hér eru starfræktar eru dæmi um þetta. Eðlilegt er að íslenskar rannsóknastofnanir verði virkjaðar til að styðja útrás fyrirtækja og stuðla um leið að þjóðfélagsframförum á nýjum markaðssvæðum Íslendinga.
     Ísland er þannig lifandi rannsóknastofa á mörgum sviðum vísinda og tækni. Horfur ættu því að vera góðar á því að íslenskir vísinda- og tæknimenn geti stundað öflugar rannsóknir á alþjóðlegan mælikvarða og átt í víðtæku, alþjóðlegu samstarfi sem styrkt geti stöðu Íslands á komandi árum. Rannsóknarráð telur að þessar aðstæður beri að nýta með markvissum hætti og muni það opna Íslendingum ný tækifæri á komandi árum.


FJÁRMÖGNUN RANNSÓKNA

    Miklar breytingar hafa orðið á verkaskiptingu í fjármögnun rannsókna að undanförnu. Fyrirtæki hafa stóraukið sinn hlut, jafnvel hraðar en búast mátti við miðað við stærð og bolmagn fyrirtækja hér á landi. Að sama skapi hefur hlutfall hins opinbera lækkað þó það sé enn hærra en gerist að meðaltali innan OECD. Með hliðsjón af grunngerð og uppbyggingu íslensks atvinnulífs þarf nú að huga vel að verkaskiptingu hins opinbera og einkageirans varðandi fjármögnun rannsókna og þróunarstarfs í landinu. Aukið frelsi á fjármálamarkaði og aukinn aðgangur að áhættufé hafa þegar haft mjög jákvæð áhrif á þróunarvinnu og nýsköpun.
    Áhættufjárfestar hafa að undanförnu verið að uppskera arð af fjárfestingu í þekkingar­uppbyggingu og rannsóknum undanfarinna áratuga. Þeir þurfa að geta gengið að viðskiptahugmyndum sem byggðar eru á þekkingu og búið er að rannsaka og þróa svo langt að unnt sé að meta arðsemi og líkur á árangri á markaði. Rannsóknir og þróunarstarf fram að því stigi þurfa hins vegar á stuðningi í formi styrkja frá hinu opinbera að halda því þar er al­mennt ekki áhugi einkaaðila að verja fé sínu. Hins vegar hefur hlutfallslega dregið úr ráð­stöfunarfé í þessu skyni að undanförnu og því er nú hætta á að hlutur hagnýtra rannsókna og þekkingaruppbyggingar liggi eftir. Mun þá draga úr nýsköpun þegar til lengdar lætur.
    Aðferðir við fjármögnun rannsókna geta haft mikil áhrif á rannsóknaferlið sjálft, virkni þess og gæði rannsókna sem stundaðar eru. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar setti það mark í september 1993 að allt að 25% rannsóknafjárins færi í gegnum opinbera sjóði með styrkjum á grundvelli einstakra verkefna. Á síðastliðnu ári var heildarhlutfall innlendra og erlendra sjóða, þar með úr rammaáætlun Evrópusambandsins, um 8% og hefur lækkað um 4 prósentu­stig á síðustu tíu árum (mynd 11). Hlutur sjóða Rannsóknarráðs hefur lækkað úr 8% árið 1985 í 4,5% árið 1997 þar sem ráðstöfunarfé sjóðanna hefur nánast staðið í stað í fjögur ár (mynd 12) en heildarumsvif rannsókna og þróunarvinnu í landinu hafa aukist hröðum skrefum.


Mynd 11.








Mynd 12.





    Rannsóknarráð fagnar því að í frumvarpi til aukafjárlaga ársins 1998 og fjárlaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir alls 115 mkr í sérstaka markáætlun fyrir rannsóknir í upplýsinga­tækni og umhverfismálum byggða á tillögum ráðsins. Í heild er gert ráð fyrir 580 mkr á árabilinu 1999–2004 í þessa markáætlun. Einnig er gert ráð fyrir 5 mkr viðbótarframlagi til Rannsóknanámssjóðs sem sérstaklega verði varið til mótframlaga gegn framlögum fyrirtækja er vilja styðja nemendur til framhaldsnáms í greinum er gagnast geta viðkomandi fyrir­tækjum. Þetta eru mikilvæg skref til að auka áhrifamátt sjóðsins í samræmi við stefnu Rann­sóknarráðs. Alls mun árlegt ráðstöfunarfé sjóða RANNÍS vaxa um 25% með þessum auknu framlögum.
    Rannsóknarráð minnir á að í tengslum við stefnumótun ríkisstjórnar árið 1995 um einka­væðingu ríkisfyrirtækja var ákveðið með reglugerð að 20% af tekjum af sölu ríkisfyrirtækja og hlutabréfa í eigu ríkisins skyldi renna til rannsókna og þróunar og af því 85% til Tækni­sjóðs. Við þetta hefur verið staðið til þessa. Hliðstæð stefna hefur verið rekin í grann­löndunum, sérstaklega Finnlandi og Svíþjóð, og reynst mikil lyftistöng fyrir eflingu rann­sókna og þróunarstarfs í þessum löndum. Við ákvörðun um framlög til markáætlunar um upplýsingatækni og umhverfismál markaði ríkisstjórnin þá stefnu að framvegis yrðu fjárveit­ingar, til rannsóknarmála, ákveðnar með fjárlögum en fjárhæðir ekki tengdar tekjum af sölu ríkisfyrirtækja.
     Við núverandi skilyrði í rannsóknum á Íslandi og reynslu af þátttöku í alþjóðasamstarfi hafa kröfur og væntingar fyrirtækja og stofnana um stærð og umfang r&þ verkefna aukist. Ekki hefur verið hægt að fylgja þeirri þróun eftir með því að hækka upphæð styrkja úr sjóðum á vegum RANNÍS. Rannsóknarráð varar við langtímaáhrifum þeirrar þróunar fyrir myndun nýrrar þekkingar og nýsköpun. Með ákvörðun ríkisstjórnar um framlag til markáætlunar um upplýsingatækni og umhverfismál vex árlegt ráðstöfunarfé sjóða RANNÍS um fjórðung.


ÚTTEKTIR — ÁRANGURSMAT

    Nefnd sem Rannsóknarráð skipaði til að taka út starfsemi Tæknisjóðs RANNÍS (áður Rannsóknasjóður) á árunum 1985–1996 er um það bil að skila áliti. Að mati nefndarinnar hefur sjóðurinn gegnt mjög mikilvægu hlutverki í rannsóknar- og þróunarumhverfinu á Íslandi og RANNÍS hafi bætt starfsemi hans og vinnuaðferðir á úttektartímabilinu. Tækni­sjóður hefur haft umtalsverð áhrif á tilurð nýrra verkefna og nýsköpunargildi styrktra verk­efna hefur verið allmikið, einkum fyrirtækjaverkefna. Árangur verkefna sem fyrirtæki hafa staðið fyrir er sambærilegur við reynslu frá Finnlandi af sams konar verkefnum (mynd 13), en þó ná íslensku verkefnin ekki eins langt samkvæmt sumum mælikvörðum sem notaðir voru, einkum að því er varðar birtingu greina, endurbætt eða ný framleiðsluferli og töku einkaleyfa og fjölda veittra doktorsgráða. Á hinn bóginn voru upphæðir styrkja hér á landi aðeins1/ 4af upphæð hliðstæðra styrkja í Svíþjóð og1/ 8af upphæð styrkja í Noregi til fyrirtækjaverkefna. Einnig kom fram í úttektinni að beint samband er milli upphæðar styrkja og þess árangurs sem næst (mynd 14). Bent er á að styrkupphæðir hafa farið lækkandi á starfs­tíma sjóðsins (mynd 15). Verulegrar óánægju gætir meðal umsækjenda með tilkostnað og vinnu við umsóknir miðað við stærð styrkja. Úttektarnefndin leggur til að styrkir verði hækk­aðir verulega þannig að r&þ umhverfið á Íslandi geti staðið jafnfætis því sem gerist í sam­keppnislöndunum. Nefndin leggur jafnframt til að Tæknisjóður verði efldur og upphæð styrkja hækki verulega. Ráðið mun sérstaklega kynna niðurstöður úttektarinnar í heild sinni.
    Ekki liggur fyrir sams konar úttekt á starfsemi Vísindasjóðs. Meðalupphæð styrkja úr honum er mun lægri, en styrkþegar eru oft einyrkjar og stofnanir og borgar sjóðurinn aldrei föst laun starfsmanna heldur fyrst og fremst hluta útlagðs kostnaðar við verkefni. Umsóknum til Vísindasjóðs hefur fækkað nokkuð að undanförnu, en þó hefur fjölgað þeim umsóknum sem taldar eru hæfar og áhugaverðar. Fjölda umsókna með einkunnina A samkvæmt mati fagráða er nú vísað frá án styrks.



Mynd 13.





Mynd 14.





Mynd 15.




    Í byrjun þessa árs hófst úttekt á grunnrannsóknum á Íslandi, að frumkvæði menntamála­ráðuneytis og með stuðningi þess, og er henni ætlað að meta hlut grunnrannsókna og áhrif á þróun vísinda og tækni hér á landi. Er þess meðal annars vænst að úttektin geti varpað ljósi á gildi og áhrif Vísindasjóðs á grunnrannsóknir á Íslandi.
     Rannsóknarráð stefnir að því að gera sjálfsmat og úttektir á einstökum sviðum vísinda og tækni að reglubundnum þætti í starfsemi sinni.


FRAMKVÆMD VÍSINDA- OG TÆKNISTEFNU Á ÍSLANDI

    Ein af forsendum fyrir stofnun Rannsóknarráðs Íslands árið 1994 var bætt skipulag á yfirstjórn rannsóknamála í landinu í kjölfar úttektar OECD á vísindastefnu Íslendinga árið 1992. Því markmiði átti einnig að ná með nánu samstarfi ráðsins við þau ráðuneyti sem helst fara með rannsóknamál í þágu einstakra greina atvinnulífs eða samfélagsþarfa eins og umhverfismála. Meðal þess sem taka átti afstöðu til á þessum vettvangi voru fjárframlög til rannsókna til þriggja ára í senn, sbr. ákvæði í lögum nr. 61/1994 um Rannsóknarráð Íslands.
    Nokkurn tíma hefur tekið að finna þessu starfi farveg. Rannsóknarráð hefur að sínu leyti gert það að stefnumarki sínu að efling rannsókna verði samofin stefnumótun stjórnvalda.
    Rannsóknarráð hefur reynt að stuðla að þessu markmiði. Stóð ráðið m.a. á síðastliðnu vori fyrir umfjöllun um málið á grundvelli nýlegrar úttektar á reynslu OECD-ríkja af aðgerðum til að stuðla að nýsköpun og þróun atvinnulífs. Þar er sérstaklega bent á mikilvægi jákvæðs samspils milli opinberra aðila og einkageirans um öflun, hagnýtingu og miðlun þekkingar og nauðsyn skilnings á sérstöku eðli fjárfestinga í þekkingu. Hefur þróast hug­mynd um stoðkerfi þekkingar og nýsköpunar í hverju landi (National System of Innovation) sem sé háð menningu og þjóðfélagsaðstæðum og líta þurfi á í heild sinni ( mynd 16). Þetta stoðkerfi verði að starfa með samhæfðum hætti til að tryggja virkni þess og góðan árangur opinbers fjárstuðnings.
    Reynsla Finna af skipulegri uppbyggingu þekkingariðnaðar og hagnýtingu þekkingar á ýmsum þjóðlífssviðum hefur vakið athygli meðal OECD ríkja. Finnar hafa um skeið starfrækt vísinda- og tæknistefnuráð með aðild fagráðherra og fulltrúa helstu stofnana og fyrirtækja sem láta sig varða málefni þekkingar í samfélaginu. Þar er lögð rík áhersla á samþættingu í stefnumótun hins opinbera og einkageirans. Rannsóknarráð telur að íhuga beri hvernig nýta megi reynslu Finna á þessu sviði við hérlendar aðstæður.
    Mikilvæg skref í þessa átt hafa verið tekin á yfirstandandi ári. Að frumkvæði mennta­málaráðherra er fjallað sérstaklega um þátt rannsókna og þróunar í þjóðhagsáætlun ríkis­stjórnarinnar sem lögð var fyrir Alþingi í þingbyrjun haustið 1998. Þá hefur Rannsóknarráð fengið umboð ríkisstjórnar til að vinna að skipulags- og samstarfsmálum rannsóknastofnana í samráði við samstarfsnefnd ráðuneytanna. Á undanförnum árum hefur farið fram töluverð umræða um endurskipulagningu rannsókna í þágu atvinnuveganna. Hafa ýmsar tillögur komið fram um uppstokkun á núverandi stofnunum, sameiningu þeirra, jafnvel í eina stóra stofnun, og ná fram sparnaði á framlögum ríkisins til þeirra um leið. Engin samstaða hefur náðst um þetta og ekki orðið af sameiningu neinna þessara stofnana, en óvissa hefur skapast og dregið hefur verið úr fjárveitingum til stofnana landbúnaðar og iðnaðarins. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar í maí sl. fól menntamálaráðherra Rannsóknarráði að gera tillögur um skipulag samvinnu milli rannsóknastofnana atvinnuveganna og mörkun sameigin­legrar stefnu þeirra um almennan rekstur, samstarf um rannsóknir og þjónustu við atvinnu­lífið og tengsl við menntastofnanir í landinu.



Mynd 16.







     Á síðastliðnu ári var kynnt niðurstaða svokallaðs RITTS verkefnis, þar sem gerð var könnun á aðstoð hins opinbera við nýsköpun og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Athugunin var gerð með fjárhagslegum stuðningi frá Evrópusambandinu og framlagi frá RANNÍS, Byggðastofnun og fleiri innlendum aðilum. Kom þar fram gagnrýni á aðferðir sem beitt er hér á landi og skort á samhæfingu innan stoðkerfisins miðað við þarfir fyrirtækja úti á landi.
    Að því er varðar umfjöllun um fjárframlög til rannsókna til þriggja ára í senn, hefur nýlega hafist efnislegur undirbúningur að slíkri umfjöllun í samvinnu sérfræðinga fjármála­ráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Rannsóknarráðs Íslands. Rannsóknarráð hefur um skeið tekið þátt í norrænu samstarfi um greiningu á opinberum framlögum til rannsókna á fjárlögum (Statsbudgetanalyse) og sýnt fram á tengsl milli þeirra og athugana sem fram fara á framlögum til rannsókna hjá fyrirtækjum og rannsóknastofnunum. Slíkar kannanir eru gerðar með samræmdum aðferðum annað hvert ár í aðildarríkjum OECD og raunar víðar á vegum UNESCO. Nauðsynlegt er að aðilar málsins séu sammála um aðferðafræði og túlkun áður en hægt er að ræða stefnumörkun til langs tíma um opinber framlög til rannsókna í sam­hengi við stefnu á sviði vísinda og tækni og þarfir hinna ýmsu atvinnu- og þjóðmálasviða.
     Rannsóknarráð telur mikilvægt að þetta starf er hafið og væntir þess að það geti á komandi árum leitt til skilmerkilegrar opinberrar umfjöllunar um málefni vísinda, tækni og nýsköpunar í heildarsamhengi, þ.m.t. um hlutverk þessara þátta í byggðaþróun.