Ferill 442. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1142  —  442. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um fram­kvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

     1.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að tryggja að rannsóknir á lyfjum taki mið af áhrifum þeirra á karla annars vegar og konur hins vegar, sbr. lið 6.1 í framkvæmda­áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna?
    Í frumvarpi til laga um breytingu á lyfjalögum nr. 93/1994, ásamt síðari breytingum, sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu, er að finna ákvæði um klín­ískar prófanir á lyfjum. Þar er m.a. gert ráð fyrir að framkvæmd þeirra verði í samræmi við reglur um góða starfshætti í klínískum tilraunum (GCP: Good Clinical Practice), Helsinki-sáttmálann, siðareglur og lög um réttindi sjúklinga. Fyrrgreint frumvarp hlaut ekki umfjöllun á 122. löggjafarþingi en ráðgert er að það verði endurflutt á næsta þingi. Jafnframt vinnur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að gerð nýrrar reglugerðar um klínískar lyfjapróf­anir sem er í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á því sviði á Evrópska efnahags­svæðinu undanfarin ár.
    Jafnframt ber að geta þess að vinnuhópur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skip­aði árið 1995 til þess að skoða heilsufar kvenna mun skila ráðherra áliti og tillögum fyrri hluta marsmánaðar þar sem m.a. er fjallað um mikilvægi þess að byggja á kynbundnum upp­lýsingum á sem flestum sviðum heilbrigðisþjónustu og að efla rannsóknir með tilliti til mis­munandi þarfa kynjanna.

     2.      Hversu margir karlar sem beitt hafa konur (og/eða börn) ofbeldi hafa leitað sér aðstoðar og notið þeirrar meðferðar sem boðið er upp á, sbr. lið 6.4 í framkvæmdaáætl­uninni? Hver er reynslan af þeirri meðferð?
    Samkvæmt upplýsingum karlanefndar Jafnréttisráðs hófst tilraunaverkefnið „Karlar til ábyrgðar“ í lok apríl 1998. Verkefnið felst í því að bjóða þeim körlum sem beitt hafa ofbeldi á heimilum sálfræðimeðferð. Verkefnið er unnið að frumkvæði karlanefndar Jafnréttisráðs en félagsmálaráðuneytið, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Rauði kross Íslands hafa veitt fé til verkefnisins. Rauði krossinn sér um daglega framkvæmd þess. Hinn 27. janú­ar sl. höfðu alls 39 karlar haft samband við Rauða krossinn vegna þessa, 26 höfðu skilað sér í einstaklingsviðtöl og voru viðtöl fjögur að meðaltali. Sex karlar voru útskrifaðir úr einstak­lingsviðtölum, níu höfðu hætt, en þrír voru í einstaklingsviðtölum. Alls átta karlar höfðu far­ið í hópmeðferð og voru tveir útskrifaðir þaðan. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sam­þykkti í síðasta mánuði, að ósk karlanefndar Jafnréttisráðs, að veita 500 þús. kr. styrk til verkefnisins „Karlar til ábyrgðar“.
    Að því er varðar reynslu af meðferðinni skal tekið fram að sérstök matsnefnd er starfandi, en hana skipa Karl Steinar Valsson, afbrotafræðingur og aðstoðaryfirlögregluþjónn, Sæunn Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur og sálgreinir, og Vilborg G. Guðnadóttir, framkvæmda­stjóri Kvennaathvarfsins. Nefndin fundar reglulega með meðferðaraðilum og fylgist þannig með framgangi verkefnisins, en samkvæmt upplýsingum karlanefndar Jafnréttisráðs er of snemmt að meta árangur meðferðarinnar. Tilraunaverkefnið „Karlar til ábyrgðar“ er hugsað sem tveggja ára tilraun en að þeim tíma liðnum mun nefndin leggja heildarmat á verkefnið og árangur þess. Mat meðferðaraðila er hins vegar að veruleg breyting til hins betra hafi orðið hjá þeim körlum sem hafa komið til þeirra. Ljóst er að margir karlar leita sér aðstoðar þar sem þeir vita að hegðun þeirra er alvarlegt vandamál. Að því leyti telur karlanefnd Jafn­réttisráðs að þegar sé unnt að fullyrða að árangurinn sé góður.
    Að lokum má geta þess að vinnuhópur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði árið 1995 til þess að skoða heilsufar kvenna mun skila ráðherra áliti og tillögum fyrri hluta marsmánaðar þar sem m.a. er fjallað um hvernig megi bregðast við heimilisofbeldi. Þar er lagt til að heimilisofbeldi verði skráð og meðhöndlað sem heilsufarslegt vandamál og að heil­brigðisþjónustan komi á fót skipulögðu kerfi úrlausna fyrir þolendur jafnt sem gerendur. Lagt er til að kannað verði hvort heppilegt sé að nota neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis sem fyrirmynd sérstakrar móttöku þolenda heimilisofbeldis.

     3.      Hvað líður átaki til að auka fræðslu fyrir verðandi feður og fræðslu fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana, sbr. lið 6.5 í framkvæmdaáætluninni?
    Áherslur heilbrigðisstarfsfólks í mæðravernd, við fæðingu og sængurlegu taka mið af virkri þátttöku föður. Fræðsla fyrir verðandi foreldra er nú hluti af mæðravernd um allt land. Í auknum mæli hefur verið lögð áhersla á þátt feðra og sérstaka fræðslu sem þeir þarfnast. Á sumum stöðum hafa verið sérstakir tímar fyrir feður og eru heilbrigðisyfirvöld nú að skoða þá leið með það fyrir augum að mælast til þess að þeir sem annast mæðra- og/eða foreldra­vernd um allt land taki upp slíka fræðslu í ljósi jákvæðrar reynslu sem hún virðist hafa gefið.
    Annað nýmæli sem hefur verið tekið upp á kvennadeild Landspítalans og fyrirhugað er að gera víðar er að einskorða heimsóknir til mæðra í sængurlegu við maka, systkini ung­barnsins og afa og ömmur og að lengja jafnframt samverutíma þeirra verulega. Markmið þessara breytinga var að draga úr heimsóknarálagi á konur og auka möguleika á stuðningi og fræðslu fyrir foreldra. Hefur þessi nýbreytni reynst mjög vel, einkum hvað varðar mögu­leika til að fræða og leiðbeina báðum foreldrum.

     4.      Hvað líður úttekt á reglum um vistunarmat með tilliti til kynjanna, sbr. lið 6.7 í framkvæmdaáætluninni?
    Samkvæmt upplýsingum sem Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarframkvæmdastjóri á öldr­unarsviði Sjúkrahúss Reykjavíkur, hefur tekið saman kemur eftirfarandi fram í rannsókninni „Daglegt líf á hjúkrunarheimili“ og RAI-mælingum, sem mæla raunverulegan aðbúnað aldr­aðra á öldrunarstofnunum á Íslandi, sbr. reglugerð nr. 546 /1995, varðandi kynskiptingu þeirra einstaklinga er þar vistast árin 1994, 1996 og 1997:

Hjúkrunarrými (hjúkrunarheimili).

1997 1996 1996 1994 1994
(71% skil, af
öllu landinu)
Höfuðborgar-svæðið (61% skil) Landsbyggð
(61% skil)
Höfuðborgar-
svæðið, hjúkrunar- og þjónusturými
Akureyri, hjúkrunar- og þjónusturými
Karlar 31,1% 28,4% 35,5% 33,4% 34,6%
Konur 68,9% 71,6% 64,5% 66,6% 65,4%
Alls 100,0% 100,0% 100,0% 100,0% 100,0%
Fjöldi 1.196 565 629 1.211 162
Alls 1.196 1.191 1.373

Þjónusturými (dvalar- og vistheimili).

1997 1996 1996
(71% skil, af
öllu landinu)
höfuðborgar-svæðið (61% skil) landsbyggð
(61% skil)
Karlar 42,6% 41,3% 43,7%
Konur 57,4% 58,7% 56,3%
Alls 100,0% 100,0% 100,0%
Fjöldi 1.135 397 382

1997 1996 1994
Alls í hjúkrunar- og þjónusturými 2.331 1.970 1.373

    Mun fleiri konur eru á öldrunarstofnunum en karlar. Kemur þar fyrst og fremst til lengri lífaldur kvenna. Hlutfallslega eru þó fleiri karlar í þjónusturými en í hjúkrunarrými, þótt konur séu þar einnig í meiri hluta. Árið 1994 höfðu íbúar á öldrunarstofnunum dvalið þar að meðaltali liðlega þrjú og hálft ár, en 1996 hafði dvölin styst í tæplega þrjú ár í hjúkrunar­rými og 3,6 ár í þjónusturými. Árið 1997 hafði meðaltíminn aftur lengst í 3,2 ár í hjúkrunar­rými og 4 ár í þjónusturými.
    Á Íslandi er heilsufar fólks í hjúkrunarrými, bæði karla og kvenna, bágborið og hjúkrun­arþarfir miklar. Til að mynda eiga 65% við minnisskerðingu að stríða og langflestir við veru­lega færnisskerðingu og fjölþættan heilsufarsvanda. Frá því að reglugerð um vistunarmat, nr. 16/1990, var sett fer enginn á öldrunarstofnun nema að undangengnu mati á þörf fyrir hjúkrun. Við alþjóðlegan samanburð sést að þyngdarstuðull (case mix index) er að meðaltali 1,0 á Íslandi sem er í hærri kantinum. Reglugerðin um vistunarmat virðist því skila því að aldraðir vistast ekki í hjúkrunarrými á Íslandi nema þeir raunverulega þurfi þess. Enn fremur sést að umönnunarþarfir eru heldur meiri hjá þeim sem vistast á öldrunarstofnunum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, 1,01, en á stofnunum á landsbyggðinni þar sem þyngdarstuðullinn er 0,95. Gera má ráð fyrir að úti á landi þar sem sólarhringsþjónustu heimahjúkrunar skortir vistist sumir á stofnun sem fengju heimahjúkrun ef þeir byggju í Reykjavík.
    Heilsufar þeirra sem eru í þjónusturými er mun betra en þeirra sem eru í hjúkrunarrými og líkara heilsufari þeirra er njóta heimahjúkrunar. Tiltölulega heilsugóðir karlar virðast frekar nýta sér þjónusturými en konur sem kjósa heldur heimahjúkrun. Þyngdarstuðullinn var því 0,76 í þjónusturými 1994 og 0,8 árið 1996, í samanburði við 1,0 í hjúkrunarrými. Þjón­usturými stefnir í að verða úrelt úrræði þar sem aldraðir kjósa frekar að fá heimaþjónustu en að vistast á dvalar- og vistheimilum við tiltölulega góða heilsu. Þjónusturými virðast ekki hafa mætt þeim þörfum sem urðu til þess að fólk fluttist þangað, svo sem vegna einmana­leika, þunglyndis eða bjargarleysis. RAI-mælingar hafa sýnt að hlutfall slíks vanda er hærra þar en hjá fólki í hjúkrunarrými, enda eru fagaðilar að sama skapi ekki til staðar til að hjálpa viðkomandi til að takast á við vandann. Flutningurinn einn og sér leysir ekki vanlíðan eða vandamál viðkomandi, þó svo að aðstoð sé veitt við heimilisþrif, matargerð og þvotta.
    Ýmsar sjúkdómsmyndir birtast öðruvísi hjá körlum en konum. Einkenni minnisskerðingar hjá körlum eru t.d. oft erfiðari umhverfinu en hjá konum og getur þýtt að þeir eru í brýnni þörf fyrir aðstoð en kona sem á við sama vanda að etja. Þegar litið er til fjölda þeirra sem eru minnisskertir, þ.e. 65%, sést að ekki er ólíklegt að karlar fái fyrr pláss en konur ef þarfir þeirra eru meiri. Konur hafa enn fremur yfirleitt betra stuðningskerfi en karlar, sérstaklega eftir missi maka. Það getur haft áhrif á vistun í þjónusturými þar sem síður er horft til hjúkr­unarþarfa vegna lélegs heilsufars eða færnistaps en til úrræðaleysis og bjargarleysis við heimilisstörf.

Heimahjúkrun á fjórum heilsugæslustöðvum á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
    Samkvæmt RAI-rannsókn sem framkvæmd var meðal aldraðra á Stór-Reykjavíkursvæð­inu sem nutu þjónustu heimahjúkrunar eða dagspítala árið 1997 kom fram eftirfarandi kyn­skipting:

Heilsugæsla Dagspítali
Hlutfall Fjöldi Hlutfall Fjöldi
Karlar 21,4% 55 17,5% 7
Konur 78,6% 202 82,5% 33
Alls 100,0% 257 100,0% 40

    Mun fleiri konur njóta heimahjúkrunar og dagspítalaþjónustu en karlar. Meðalaldur var 84 ár, rúmlega helmingur voru ekkjur og ekklar og 62,5% bjuggu ein. Nærri 40% fengu heimahjúkrun í kjölfar sjúkrahúsdvalar og aðeins 14,4% voru í langtímahjúkrun á eigin heimili. Einungis 36,7% höfðu skert minni.

Úttekt á afdrifum þeirra sem bíða eftir vistun og eru með gilt vistunarmat.
    Samkvæmt könnun Gunnhildar Sigurðardóttir voru 1.165 einstaklingar metnir á tímabil­inu 1. janúar 1990 til 31. desember 1993. Á þessu þriggja ára biðtímabili reyndust einungis 220 einstaklingar vera eftir á vistunarskrá, aðrir höfðu fengið vistun eða látist. Af þessum 220 reyndist aðeins 31, eða 14,1%, bíða eftir vistun en 95, eða 43,2%, reyndust ekki tilbúnir að vistast strax þó svo að pláss fengist. Alls reyndust 53 úr hópnum vistaðir á 20 mismun­andi stofnunum, þar með talið á öldrunarlækningadeildum. Þegar skoðað er lengra tímabil, eins og gert er í könnun Gunnhildar, kemur fram að ýmsir óska eftir vistunarmati og eru metnir í þörf án þess að vera tilbúnir að vistast í þjónusturými þótt það stæði til boða. Fólk sýnir forsjálni, svona ef heilsufarið versnaði en svo gerist það ekki og þörfin og viljinn fyrir vistun verður ekki fyrir hendi.
    Af framangreindum upplýsingum er ekki hægt að draga þá ályktun að kyn þess er bíður vistunar skeri úr um hvort vistunarrými fæst. Heilsufar og hjúkrunarþarfir viðkomandi eru þar alls ráðandi. Búseta í dreifbýli eða byggð, hvort fólk býr eitt eða með maka eða öðrum, hvort völ er á öflugri heimaþjónustu og hvernig aðgengi er að vistrýmum (mikill munur er þar á Stór-Reykjavíkursvæði og landsbyggð) eru áhrifaþættir er vega mun þyngra en kyn á Íslandi.

     5.      Hvaða líður könnun á útreikningi örorkumatsbóta með tilliti til kynjanna, sbr. lið 6.8 í framkvæmdaáætluninni?
    Við útreikning örorkumatsbóta hjá Tryggingastofnun ríkisins er hvorki fyrir hendi kynja­bundinn greinarmunur né kynjabundin flokkun af neinu tagi. Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki hafið gerð á sérstakri könnun á útreikningi örkumatsbóta með tilliti til kynjanna.

     6.      Hvenær hefst herferð gegn reykingum og fíkniefnanotkun sem tekur sérstaklega mið af mismunandi stöðu kynjanna, sbr. lið 6.9 í framkvæmdaáætluninni?
    Herferð gegn reykingum er þegar hafin en þó eru ákveðnir þættir enn í undirbúningi. Tó­baksvarnanefnd styrkti rannsókn dr. Sigrúnar Aðalbjarnardóttur á tengslum tóbaksreykinga ungmenna við sjálfsmat, stjórnrót, depurð, félagslegan kvíða og streitu. Sigrún kynnti nefnd­armönnum niðurstöðurnar í janúar síðastliðnum og ætlar að gera tillögur um hvernig vinna mætti út frá þeirri hugmynd að forsendur reykinga hjá piltum og stúlkum geti verið mis­munandi. Í tóbaksvörnum verður á þessu ári lögð áhersla á að draga úr reykingum kvenna og ungra stúlkna. Tillögur auglýsingastofu sem notaðar verða í áróðursherferð á árinu eru á lokastigi. Verður ýmislegt gert til að reyna að hafa áhrif á stúlkur og konur sérstaklega og vekja athygli þeirra á alvarlegum afleiðingum reykinga. Þekktir Íslendingar verða meðal annars fengnir til að koma fram í auglýsingum og fleira er í bígerð. Þegar hefur birst fyrsta myndin sem notuð verður í þessari herferð (Mbl. 11. febrúar 1999). Það er mynd af reykj­andi barni í móðurkviði og verður henni dreift í fyrirtæki, heilsugæslustöðvar og sjúkrahús til að reyna að hafa áhrif á verðandi mæður sem reykja.
    Tóbaksvarnanefnd telur mjög mikilvægt að stemma stigu við óbeinum auglýsingum. Sam­kvæmt upplýsingum frá nefndinni hefur verið gert samkomulag við fyrirsætuskrifstofuna Eskimó módels, sem annast framkvæmd Ford-fyrirsætukeppninnar, um að eingöngu reyk­lausar stúlkur fái að taka þátt í keppninni. Gerð verður veggmynd með þeim stúlkum sem komast í úrslit keppninnar til dreifingar í skóla, félagsmiðstöðvar og víðar. Þegar hefur verið gerð veggmynd með sigurvegaranum 1998 og verður henni dreift um allt land. Þá munu fulltrúar frá skrifstofunni óska eftir því að fá að heimsækja skóla haustið 1999 og ræða við nemendur um útlit, klæðaburð, snyrtimennsku og skaðsemi tóbaks. Eskimó módels munu ekki heimila fyrirsætum á þeirra vegum að láta mynda sig með sígarettur í tískuþáttum og auglýsingum eða fyrir forsíður. Sömu skilyrði verða í Elite-fyrirsætukeppninni í ár og í feg­urðarsamkeppni Íslands (sem var líka reyklaus 1998). Talið er mjög þýðingarmikið að útrýma reykingum meðal stúlkna í þessum hópum, sem eru oft fyrirmyndir þúsunda annarra.
    Veggmynd með þremur til fjórum þekktustu íþróttakonum landsins, m.a. Völu Flosadóttur og Guðrúnu Arnardóttur, verður dreift á öllum íþróttamótum ungu kynslóðarinnar á næstu mánuðum og fá allir keppendur veggmynd með sér heim. Einnig verður útbúin veggmynd með þekktum karlkyns íþróttamönnum og dreift á sömu mótum.
    Stefnt er að því að hefja samstarf við verslun á næstu mánuðum um sölu á bolum með skemmtilegum slagorðum gegn reykingum sem höfða sérstaklega til ungra stúlkna. Hugmyndir eru uppi um að fá nokkrar þekktar fyrirmyndir stúlkna til að auglýsa bolina til að auka vinsældir þeirra og eftirspurn. Vinna við þetta er langt komin.
    Alþjóðleg samkeppni um reyklausa bekki hefst meðal nemenda í 7. og 8. bekk grunnskóla næsta haust og verða veitt fjölbreytt og áhugaverð verðlaun. Einn bekkur á Íslandi á mögu­leika á að vinna utanlandsferð.
    Hvað varðar áróður gegn reykingum karlmanna á árinu er stefnt að því að fá auglýsingu frá bandaríska krabbameinsfélaginu þar sem lögð er áhersla á að reykingar valdi oft getu­leysi karlmanna á besta aldri. Auglýsingin verður sýnd í sjónvarpi.
    Auk þessa verður rekinn áróður gegn reykingum og komið á framfæri fræðslu um skað­semi þeirra sem höfða mun jafnt til beggja kynja.
    Nýtt áfengis- og vímuvarnaráð tók til starfa 1. janúar sl. á grundvelli laga nr. 76/1998. Ráðið er nú langt komið með smíði stefnu þar sem m.a. er fjallað um hvernig æskilegt sé að haga áfengis- og vímuvörnum innan heilsugæslunnar, ekki síst með tilliti til neyslu kvenna almennt og í tengslum við mæðra- og ungbarnavernd.
    Jafnframt ber að geta þess að vinnuhópur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skip­aði árið 1995 til þess að skoða heilsufar kvenna mun skila ráðherra áliti og tillögum fyrri hluta marsmánaðar þar sem m.a. er lagt til að reykingar kvenna séu skilgreindar sem heilsu­farslegt vandamál og að gripið verði til viðeigandi ráðstafana. Þá er lagt til að áfengismeð­ferð kvenna á Íslandi verði endurskoðuð.

     7.      Hvað líður könnun ráðuneytisins á áhrifum karlmennskuímynda á áhættuhegðun karla, sbr. lið 6.10 í framkvæmdaáætluninni? Hvenær er niðurstaðna að vænta?
    Á vegum landlæknisembættisins, heilsueflingar, hafa verið gerðar tvær kannanir er lúta annars vegar að áhættuhegðun ungs fólks og hins vegar að lífsháttum og líðan Íslendinga á árunum 1994 og 1996. Niðurstöður þeirra kannana leiddu m.a. í ljós að stúlkur nota frekar bílbelti en piltar, stúlkur nota frekar verjur en piltar og að karlar neyta áfengis oftar en konur og taka síður mið af hollustu við matarinnkaup og matargerð en konur. Einnig leiddu þessar kannanir í ljós að karlar hreyfa sig oftar en konur og árið 1996 greindist ekki merkjanlegur munur eftir kynjunum meðal þeirra sem reyktu.

     8.      Er hafin úttekt á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og þeim fjölmörgu stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 6.12 í framkvæmdaáætluninni? Ef svo er, hvað hefur hún leitt í ljós?
    Ekki hefur verið gerð sérstök úttekt á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu en þess má geta að fleiri konur en karlar gegna stjórnunarstöðum innan ráðuneytisins. Ekki hafa verið gerðar sérstakar úttektir á stöðu jafnréttismála í undirstofnunum ráðuneytisins en eftirfarandi upp­lýsingar hafa verið unnar á Landspítalanum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur.
    Um 80% starfsmanna stofnana ráðuneytisins eru konur og er stór hluti þeirra fagmenntað­ur. Í yfirstjórn Landspítalans eru tíu karlar í starfi sviðsstjóra og sjö konur. Á næsta stigi stjórnenda eru 50 karlar og 47 konur. Sameiginleg stjórn lækna og hjúkrunarfræðinga á læknasviðum spítalans leiðir til jafnrar skiptingar kynja við stjórn. Á Sjúkrahúsi Reykjavíkur eru ellefu karlmenn yfirmenn sviða og tíu konur. Yfirmenn klínískra deilda eru 26 karlar en 42 konur. Við tillögugerð fyrir jafnréttisáætlun á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, sbr. svar við 9. lið, var safnað gögnum um jafnrétti kynjanna, t.d. um starfsaðstöðu, yfirvinnu og laun.

     9.      Hvað líður gerð jafnréttisáætlana í ráðuneytinu og stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 6.12 í framkvæmdaáætluninni? Hversu margar stofnanir hafa þegar sett sér slíkar áætlanir og hver er reynslan af þeim?
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki hafið gerð jafnréttisáætlunar. Hvað varðar undirstofnanir þá samþykkti stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur þann 8. maí 1998 ítarlega jafnréttisáætlun. Í upphafi áætlunarinnar segir að markmið hennar sé að Sjúkrahús Reykja­víkur, sem sé einn stærsti vinnustaður Reykjavíkurborgar, verði fyrirmynd hvað varðar jafn­rétti kynjanna. Til þess að ná þessu markmiði sé nauðsynlegt að öll starfsemi stofnunarinnar taki mið af jafnréttissjónarmiðum og að markvissum aðgerðum sé beitt til að ná fram jafn­rétti. Í því skyni hyggist stofnunin vinna sérstaklega að því að styrkja hlut kvenna þar sem það eigi við. Á grundvelli áætlunarinnar hefur verið skipuð fimm manna jafnréttisnefnd á Sjúkrahúsi Reykjavíkur sem ætlað er að fylgja áætluninni eftir. Jafnréttisáætlunin tekur bæði til starfsmannahalds og þjónustuhlutverks sjúkrahússins og markar upphafið að skipulegu jafnréttisstarfi innan þess. Jafnréttisnefndin skal gera starfsáætlun fyrir hvert ár og endur­skoða áætlunina á þriggja ára fresti samhliða birtingu jafnréttisskýrslu.
    Í riti Landspítalans sem gefið var út í mars 1997 og nefnist „Landspítalinn: Framtíðarsýn, stefna og markmið“ er sérstaklega kveðið á um að stuðlað skuli að starfsánægju og jafnrétti. Þar kemur því fram að jafnrétti er hluti af stefnu og markmiðum stofnunarinnar. Þá hefur Landspítalinn tekið þátt í verkefni félagsmálaráðuneytisins um kynhlutlaust starfsmat.
    Loks skal þess getið að settur hefur verið á fót starfshópur sjúkrahúsanna í Reykjavík sem gera á áætlun og tillögur um sameiginlega starfsmannastefnu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans. Þar verður m.a. hugað að stöðu jafnréttismála. Starfshópnum er ætlað að skila áliti á næstu vikum.