Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1164  —  610. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um háskólamiðstöð Austurlands á Eiðum.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Jón Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta hið fyrsta kanna möguleika á að koma upp háskólamiðstöð Austurlands á Eiðum og nýta í því skyni land og húseignir ríkisins á staðnum. Horft verði meðal annars til námsbrauta í umhverfisfræðum og tengdum greinum, svo sem á sviði landnota, gróður- og jarðvegsverndar og skógræktar.
    Ráðherra skili Alþingi niðurstöðum könnunarinnar og tillögum um framhald málsins á vorþingi árið 2000.

Greinargerð.



Gildi háskólastofnana á landsbyggðinni.
    Fátt er mikilvægara nú um stundir en framboð á menntun á öllum skólastigum. Góðir menntunarmöguleikar varða bæði æskufólk og þá sem eldri eru og þörf hafa fyrir endur­menntun og símenntun allt æviskeiðið. Fyrir farsæla byggðaþróun skipta góðir skólar og fjöl­breytt framboð á fræðslu afar miklu, og samspil skóla við atvinnu- og menningarlíf á við­komandi svæðum.
    Á Austurlandi er hafið framboð á háskólanámi og endurmenntun í formi fjarkennslu á vegum Fræðslunets Austurlands sem formlega var stofnað til sumarið 1998. Sú starfsemi er gott skref og tengist sérstaklega framhaldsskólum í fjórðungnum. En þar má ekki láta staðar numið.
    Austfirðingar þurfa á því að halda að í fjórðungnum verði rennt stoðum undir háskóla­menntun á völdum sviðum eins og gerst hefur í flestum öðrum landshlutum. Nægir þar að minna á Háskólann á Akureyri og Samvinnuháskólann á Bifröst. Fleiri háskólastofnanir eru á döfinni eins og stjórnarfrumvarp um búnaðarfræðslu (546. mál á 123. löggjafarþingi) ber vott um. Öllum ber saman um hvílík lyftistöng slíkar fræðamiðstöðvar eru fyrir viðkomandi landshluta og um leið fyrir landið allt. Austurland má ekki verða afskipt í þessari þróun og því er nú flutt tillaga um háskólamiðstöð Austurlands á Eiðum.

Endurreisn menntaseturs.
    Eiðar voru um aldarskeið höfuðmenntasetur Austurlands. Þar starfaði búnaðarskóli á tímabilinu 1883–1918 en síðan Alþýðuskólinn á Eiðum 1919–95. Þá var skólinn settur undir Menntaskólann á Egilsstöðum, en samrekstur náms á Egilsstöðum og Eiðum gafst ekki vel og lagðist skólastarf af á Eiðum frá og með vorinu 1998. Á Eiðum hefur um langt skeið verið starfræktur grunnskóli og er nú unnið að tengslum hans við aðra grunnskóla í sameinuðu sveitarfélagi á Austur-Héraði. Þá hefur á Eiðum verið miðstöð íþróttastarfsemi á vegum Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands frá því um miðja öldina.
    Tilaunir til að finna Eiðastað og húsakynnum Alþýðuskólans annað hlutverk hafa staðið yfir um skeið en engan sýnilegan árangur borið. Vorið 1998 voru stofnuð Samtök Eiðavina með það að markmiði „að stuðla að endurreisn Eiðastaðar, í þágu menningar- og athafnalífs á Austurlandi“. Hafa samtökin undir forustu Vilhjálms Einarssonar, fyrrverandi skólameist­ara, velt upp ýmsum hugmyndum um starfsemi til menningarauka á staðnum.
    Að mati flutningsmanna er tímabært að að fela yfirstjórn menntamála að láta kanna grundvöll fyrir háskólamiðstöð á Eiðum. Háskólastofnun þar miðsvæðis á Fljótsdalshéraði yrði mennta- og menningarlífi á Austurlandi mikil lyftistöng og félli einkar vel að æskilegri byggðaþróun.

Fyrri hugmyndir og tillögur um háskólanám á Austurlandi.
          Á árunum 1984–89 urðu til á Austurlandi hugmyndir um sérkennslunám fyrir kennara sem leiddu til náms með fjarkennslusniði í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands. Frum­kvöðlar að málinu voru Berit Johnsen sérkennslufulltrúi og Guðmundur Magnússon fræðslustjóri. Ýtti þessi tilraun meðal annars undir stofnun farskóla Kennaraháskólans 1992.
          Árið 1988 tók Farskóli Austurlands til starfa og var þar um nýmæli í íslenskum fræðslumálum að ræða. Skólinn hefur starfað í tengslum við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað en starfsemi hans farið fram að heita má í öllum byggðarlögum fjórðungs­ins.
          Á vettvangi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi (SSA) var sumarið 1996 rætt um nauðsyn þess að koma á háskólamenntun á Austurlandi. Aðalfundur SSA 1996 gerði svo hljóðandi ályktun um málið:
             „Aðalfundur Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, haldinn í Neskaupstað 29. og 30. ágúst 1996, felur stjórn SSA að undirbúa í samvinnu við stjórnvöld og for­svarsmenn skóla á háskólastigi að koma á fót háskólamenntun á Austurlandi í tengslum við austfirskt atvinnulíf og til að efla þekkingu og menntun í fjórðungnum.“
          Haustið 1996 fluttu þrír þingmenn Austurlandskjördæmis, Hjörleifur Guttormsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Jón Kristjánsson, tillögu til þingsályktunar um upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi. Var tillagan endurflutt ári síðar undir heitinu Miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi. Um tillöguna var fjallað í menntamálanefnd en hún hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu.
          Framangreind þingsályktunartillaga ýtti undir að stofnað var til háskólanefndar á vegum SSA hausið 1996, en sú nefnd undir formennsku Emils Björnssonar undirbjó og mótaði tillögur um Fræðslunet Austurlands sem tók til starfa sumarið 1998. Var meðal annars fjallað um málið á aðalfundi SSA 1997 og á fundum með þingmönnum kjördæmisins. Var fjármagn veitt til undirbúnings á fjárlögum ársins 1998. Samkvæmt skipulagsskrá Fræðslunets Austurlands frá 30. október 1998 er meginmarkmið þess að bæta aðgengi íbúa fjórðungsins að háskólanámi og símenntun og styrkja með því jákvæða byggða­þróun. Fræðslunetið er skipulagt sem sjálfseignarstofnun með tíu manna stjórn stofn­aðila.

Nýting eigna Eiðaskóla fyrir háskólastig.
    Í ársbyrjun 1991 setti Berit Johnsen sérkennslufulltrúi fram hugmynd um að nýta Eiða­skóla sem eins konar miðstöð fyrir námskeiðahald, fjarkennslu og stuðning við námsmenn á háskólastigi. Yrði hann rekstrarlega sjálfstæð stofnun undir menntamálaráðuneytinu og þjónaði öllu landinu. Hvatti hún til þess „að menntamálaráðuneytið kannaði möguleika á að koma á hægfara breytingum á hlutverki skólans“. Sú hugmynd hlaut þá ekki brautargengi.
    Eiðar henta eins og áður greinir afar vel sem setur háskólamiðstöðvar fyrir Austurland. Staðurinn er aðeins í um tíu mínútna akstursfjarlægð frá Egilsstöðum þar sem er aðalflug­völlur á Mið-Austurlandi og varaflugvöllur í millilandaflugi. Umhverfi Eiðastaðar er einkar vinalegt og land jarðarinnar víðfeðmt og gróðursælt. Er landið vel til fjölþættra rannsókna og tilrauna fallið, drjúgur hluti þess nú afgirtur og náttúruleg gróðurframvinda hafin eftir friðun fyrir beit. Getur landið haft verulegt gildi til rannsókna og tilrauna í tengslum við þær námsgreinar sem sérstaklega er bent á í tillögunni. Með sérstökum samningi sem gerður var 17. júní 1978 milli umboðsmanns Eiðastólsjarða og Skógræktar ríkisins sem fékk með samn­ingnum afnotarétt af landi Eiða til uppgræðslu skógar og nytja af honum tók Skógræktin „að sér umhirðu þess skógar, sem þar er og upp mun vaxa, og sér um girðingar og viðhald þeirra“.
    Ástand húseigna Eiðaskóla var metið í apríl 1998. Segir í matsgerð sem unnin var á vegum Ríkiskaupa, menntamálaráðuneytis og Framkvæmdasýslu að heildar-„sannvirði“ (ekki söluverðmæti) húseignanna sé um 250 millj. kr. Er þá land jarðarinnar ekki metið til fjár en Eiðajörð virðist óskipt, að því er segir í matsgerðinni, og „jafnvel óvíst um skiptingu milli jarðarinnar og næstu jarðar, sem nefnist Ormsstaðir“. Heildarkostnaður við nauðsyn­legar viðgerðir húseigna var af sömu aðilum metinn á 35,6 millj. kr.

Hvaða námsbrautir koma til álita?
    Í þingsályktunartillögunni er sérstaklega vísað til námsbrauta í umhverfisfræðum og tengdum greinum, svo sem á sviði landnota, gróður- og jarðvegsverndar og skógræktar. Eng­an veginn er þó lagt til að sú könnun sem tillagan gerir ráð fyrir takmarkist við þær brautir. Nauðsynlegt er að farið sé opnum huga yfir sviðið og horft til mismunandi kosta. Ástæða þess að vísað er til umhverfisfræða og skyldra greina er sú að gera má ráð fyrir verulegri þörf á aukinni þekkingaröflun og fræðslu á því sviði. Fljótsdalshérað býður upp á einkar heppilega umgjörð um háskólanám og námskeið tengd ýmsum umhverfisþáttum, svo sem gróður- og jarðvegsvernd, skógrækt og búvísindum.
    Þá er eðlilegt að á Eiðum yrði boðið upp á margvísleg námskeið og endurmenntun á há­skólastigi, meðal annars tengd kennaranámi og endurmenntun kennara. Þá væri og eðlilegt að starfsemi á vegum Fræðslunets Austurlands geti fengið inni á Eiðum eftir því sem þörf væri talin á.

Samvinna við aðrar háskólastofnanir.
    Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir sem bestum tengslum háskólamiðstöðvar Austurlands við aðrar háskólastofnanir, bæði Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands sem og minni háskólastofnanir eins og Samvinnuháskólann á Bifröst og háskóla­deildir menntastofnana landbúnaðarins á Hvanneyri og Hólum í Hjaltadal, svo og Garðyrkju­skóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi. Jafnframt er sjálfsagt að gera þar ráð fyrir fullkominni aðstöðu til fjarkennslu með nettengslum við aðrar háskólastofnanir í landinu. Gera má ráð fyrir að þáttur í starfi háskólamiðstöðvar Austurlands yrði stuðningur við þá sem stunda fjar­nám en ættu kost á að njóta hefðbundinnar kennslu inn á milli.

Mikilvæg pólitísk stefnumörkun.
    Ákvörðun um stofnun háskólamiðstöðvar á Eiðum í kjölfar könnunar ráðuneytis og frek­ari stefnumörkunar stjórnvalda gæti haft mikið gildi fyrir Austurland og um leið fyrir há­skólamenntun í landinu. Þótt hér sé rætt um „miðstöð“ og nýtingu húseigna ríkisins á staðn­um í hennar þágu verður að ætla að það yrði aðeins fyrsta skref í uppbyggingu öflugrar háskólastofnunar á Austurlandi. Þróun á sviði menntamála er ör og gildi framhaldsmenntunar fer vaxandi ár frá ári. Landsfjórðungur eins og Austurland má ekki verða þar afskiptur. Því er hér lögð áhersla á að þeirri könnun sem tillagan gerir ráð fyrir verði hraðað og ekkert það gert á meðan á henni stendur sem rýrt geti möguleika á nýtingu Eiðastaðar og húseigna ríkis­ins þar fyrir fræðslu á háskólastigi í framtíðinni.