Ferill 617. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1227  —  617. mál.




Skýrsla



dómsmálaráðherra til Alþingis um aðgerðir á vegum stjórnvalda í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum á árinu 1998.

(Lögð fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. Inngangur.
    Hinn 3. desember 1996 samþykkti ríkisstjórnin margvíslegar aðgerðir í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
    Helstu þættir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru:
     1.      Stefna ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
     2.      Stofnun Áfengis- og vímuvarnaráðs.
     3.      Auknir fjármunir til forvarna.
     4.      Efling löggæslu og tollgæslu með auknum fjárveitingum.
     5.      Fjárveiting til stuðnings við ungmenni í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna og áfengis.
     6.      Samstarf ríkisins, Reykjavíkurborgar og Samtaka Evrópuborga gegn eiturlyfjum (ECAD, European Cities Against Drugs) um áætlunina Ísland án eiturlyfja.
     7.      Fullgilding Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988 og samningi frá 8. nóvember 1990 sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum.
    Ríkisstjórnin fól nefnd ráðuneyta um samræmingu aðgerða vegna átaks í ávana- og fíkni­efnavörnum 1 að fylgjast með framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum og annarra aðgerða á hennar vegum uns Áfengis- og vímuvarnaráð yrði stofn­að.
    Lög um áfengis- og vímuvarnaráð, nr. 76/1998 gengu í gildi 1. júlí 1998. Nánar verður vikið að hinu nýja Áfengis- og vímuvarnaráði og hlutverki þess í kafla 4.1.
    Nefnd ráðuneyta um samræmingu aðgerða vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum hefur því á árunum 1997 og 1998 fylgst með framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum og annarra aðgerða á hennar vegum.
    Í mars 1998 skilaði nefndin ríkisstjórninni skýrslu um framgang mála á árinu 1997. Skýrslunni fylgdi sem fylgiskjal skýrsla verkefnisstjórnar áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja fyrir árið 1997.
    Í framhaldi umfjöllunar sinnar um skýrslurnar samþykki ríkisstjórnin eftirfarandi aðgerðir, sem frekari útfærslu á stefnumörkuninni frá byrjun desember 1996:
     1.      Að Áfengis- og vímuvarnaráð taki til starfa 1. janúar 1999 enda verði frumvarp til laga um ráðið samþykkt á vorþingi 1998.
     2.      Að fela ráðuneytum sem vinna að verkefnum á sviði áfengis-, tóbaks- og vímuvarna að tengja þau með áberandi hætti við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á þessu sviði og eftir því sem kostur er áætluninni Ísland án eiturlyfja.
     3.      Að skipaður verði vinnuhópur sem í eiga sæti yfirmenn tollamála og lögreglumála og fulltrúi utanríkisráðherra. Dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra skipi hópnum for­mann. Verkefni vinnuhópsins verði að skoða til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að loka fyrir ólöglegan innflutning fíkniefna. Hópurinn skili tillögum til ráðherra dómsmála og fjármála á árinu 1998.
     4.      Að 2 m.kr. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar á árinu 1998 verði varið til rannsókna á sviði áfengis-, tóbaks- og vímuvarna samkvæmt nánari ákvörðun nefndar ráðuneyta um samræmingu aðgerða vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum.
     5.      Vegna áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja:
       *      Að óskað verði eftir því að árlegt framlag ríkisins úr Forvarnasjóði til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hækki í 4,5 m.kr. enda hækki framlag Reykjavíkurborgar samsvarandi.
       *      Að Samband íslenskra sveitarfélaga gerist aðili að áætluninni Ísland án eiturlyfja og tilnefni fulltrúa í verkefnisstjórn áætlunarinnar.
       *      Að verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hafi reglulega samráð við þá aðila sem starfa að vímuvörnum.
       *      Að öll verkefni sem Forvarnasjóður styrkir verði tengd áætluninni Ísland án eiturlyfja eftir því sem kostur er og að stjórn sjóðsins hafi samráð við verkefnisstjórn áætlunarinn­ar við árlega úthlutun.
    Ríkisstjórnin fól dómsmálaráðherra að leggja skýrslurnar fyrir Alþingi til kynningar. Þær voru lagðar fyrir Alþingi í byrjun apríl 1998. 2
    Nefnd ráðuneyta hefur haldið áfram að fylgjast með framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar á þessu sviði á árinu 1998 og hafa eftirtaldir starfað í nefndinni á árinu: Dögg Pálsdóttir hrl. formaður, tilnefnd af dómsmálaráðherra, Ingibjörg Broddadóttir deildarstjóri til 1. júlí 1998 og Guðrún Ögmundsdóttir deildarstjóri, frá þeim tíma tilnefndar af félagsmálaráðherra, Berg­þór Magnússon deildarsérfræðingur, tilnefndur af fjármálaráðherra, Þórir Haraldsson, að­stoðarmaður ráðherra, tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Guðríður Sig­urðardóttir ráðuneytisstjóri og til vara Erna Árnadóttir deildarsérfræðingur, tilnefndar af menntamálaráðherra, en Erna vék úr nefndinni 1. júlí 1998 vegna brottflutnings af landinu.
    Hinn 1. janúar 1999 urðu þau tímamót að Áfengis- og vímuvarnaráð tók formlega til starfa. Ráðið tekur m.a. við því hlutverki nefndar ráðuneyta að fylgjast með framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
    Með skýrslu þessari gerir nefnd ráðuneyta ríkisstjórninni grein fyrir þróun mála á þessu sviði á árinu 1998. Jafnframt setur nefndin fram mat á stöðu fíkniefna-, áfengis- og tóbaks­varna við þau tímamót að starfi nefndarinnar lýkur og Áfengis- og vímuvarnaráð tekur við því hlutverki sem því var ætlað í upphafi stefnumörkunarinnar.


2. Stefna ríkisstjórnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
    Í stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum frá 3. desember 1996 felst að hún hefur ákveðið að beita sér markvisst fyrir því að ráðuneyti og stofnanir, löggæsla og tollgæsla, í samvinnu við sveitarfélög, foreldrafélög, félagasamtök og aðra, taki höndum saman og samhæfi viðbrögð, aðgerðir og samstarf með það fyrir augum að uppræta fíkniefna­neyslu barna og ungmenna og draga stórlega úr áfengis- og tóbaksnotkun þeirra. Áherslu­atriði ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki fram til ársins 2000 eru:
     *      Að efla forvarnir, einkum þær sem beint er að einstaklingum sem eru í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna, áfengis og tóbaks.
     *      Að hefta aðgengi barna og ungmenna að fíkniefnum, áfengi og tóbaki.
     *      Að auka öryggi almennings með fækkun fíkniefnatengdra brota.
     *      Að efla andstöðu í þjóðfélaginu gegn notkun barna og ungmenna á fíkniefnum, áfengi og tóbaki.
     *      Að efla meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem orðið hafa fíkninni að bráð.
    Stefnan gerir ráð fyrir að ráðuneyti og undirstofnanir útbúi framkvæmdaáætlanir til að útfæra nánar stefnuna með hliðsjón af verkefnum hvers ráðuneytis.
    Framkvæmdaáætlanir ráðuneyta voru útbúnar og settar fram fyrri hluta árs 1997. Frá þeim tíma hafa þau ráðuneyti sem hér um ræðir, þ.e. dóms- og kirkjumálaráðuneyti, félagsmála­ráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti starfað í samræmi við þessar framkvæmdaáætlanir og þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók í mars 1998 í kjölfar skýrslu nefndar ráðuneyta um reynsluna af starfinu á þessu sviði árið 1997.
    Verður nú nánar vikið að verkefnum fyrrnefndra ráðuneyta á árinu 1998 jafnframt því sem gerð er grein fyrir framkvæmd þeirra tillagna sem ríkisstjórnin samþykkti í mars 1998 vegna fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvarna.

2.1. Verkefni ráðuneyta á sviði fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvarna á árinu 1998.
2.1.1.     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Á árinu 1998 hefur dóms- og kirkjumálaráðuneytið unnið að eftirtöldum verkefnum á þessu sviði.
    Breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.
     *      Hinn 1. júlí 1998 gengu í gildi ný áfengislög nr. 75/1998. Í framhaldi af gildistöku laganna hefur verið unnið að því í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að semja þær reglugerð­ir sem lögunum skulu fylgja.
     *      Aðferðir lögreglu við rannsókn fíkniefnamála hafa á síðustu árum hlotið aukna athygli og umræðu. Á síðari hluta árs 1997 urðu miklar umræður um starfsemi ávana- og fíkni­efnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, einkum um starfshætti hennar og rannsóknarað­ferðir við að upplýsa brotamál og að setja þyrfti skýrari reglur um svokallaðar óhefð­bundnar eða sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu. Helstu rannsóknaraðferðir sem koma til álita í þessu sambandi eru símhleranir og herbergjahleranir, samskipti lögreglu við uppljóstrara og greiðslur til upplýsingagjafa, tálbeitur, afhending undir eftirliti, alþjóðleg sýndarviðskipti, skygging og notkun eftirfararbúnaðar, myndatökur, endurkaup á þýfi, kaup á fíkniefnasýnum og sýning peninga svo talin séu nokkur algengustu dæmin af þessu sviði. Í flestum Evrópuríkjum er nú verið að endurskoða rannsóknaraðferðir lög­reglunnar í því augnamiði að efla þær til þess að lögregla verði betur í stakk búin til þess að takast á við rannsókn fíkniefnabrota og auka samvinnu milli ríkja á þessu sviði. Í janúar 1998 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til þess að fjalla um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir. Í nefndinni sitja Björg Thorarensen skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneyt­inu, sem jafnframt er formaður, Bogi Nilsson ríkissaksóknari, Atli Gíslason hrl., Ásgeir Karlsson lögreglufulltrúi hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, Björn Halldórsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra og Egill Stephensen saksóknari hjá lögreglustjóranum í Reykjavík. Í aprílmánuði 1998 lét Björn Halldórsson af störfum í nefndinni vegna löggæslustarfa í Bosníu. Í hans stað var skipaður af hálfu ríkislögreglustjóra Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri. Verkefni nefndarinnar er tvíþætt:
                  *      Að kanna rannsóknir og rannsóknaraðferðir lögreglu í baráttunni gegn afbrotum, sérstaklega í nýjum eða nýlegum tegundum afbrota og fara yfir heimildir lögreglunnar til rannsókna og til að beita óhefðbundnum rannsóknaraðferðum.
                  *      Að gera tillögur um reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir og lagabreytingar sem kunna að þykja nauðsynlegar til að lögreglan geti með fullnægjandi hætti tekist á við nýjustu afbrotaaðferðir.
    Stefnt er að því að nefndin skili tillögum og ljúki starfi sínu á fyrri hluta ársins 1999.
    Efling ávana- og fíkniefnastarfsemi löggæslunnar. Í tengslum við stefnumótun ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum í árslok 1996 var fjárveiting til fíkniefnamála hjá lögreglunni aukin um 35 m.kr. á ári hverju til ársins 2000. Á árinu 1997 var fjárveitingu ráðstafað til tækjakaupa í þágu ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík (5,7 m.kr.), til fjölgunar stöðugilda sérstakra fíkniefnalögreglumanna (18 m.kr.), til bættrar að­stöðu fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík (5 m.kr.) og til fíkniefnastofu hjá embætti ríkislögreglustjóra (2 m.kr.).
    Á árinu 1998 hefur fjárveitingunni verið ráðstafað sem hér segir:
     *      Til tækjakaupa í þágu ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, 7 m.kr. vegna kaupa á fullkomnari fjarskipta- og hlustunarbúnaði fyrir fíkniefnadeildina.
     *      Til greiðslu launa vegna sjö stöðugilda sem ákveðin voru á árinu 1997, 28 m.kr.
    Samvinna löggæslu og tollyfirvalda. Í júlí 1998 skipaði dómsmálaráðherra vinnuhóp sem ætlað er að skoða til hvaða aðgerða hægt er að grípa til að stemma stigu við ólöglegum inn­flutningi fíkniefna til landsins. Í vinnuhópnum sitja Gunnar M. Hansson, sem jafnframt er formaður vinnuhópsins, Einar Gylfi Jónsson formaður Barnaheilla, Georg Kr. Lárusson vara­lögreglustjóri í Reykjavík, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Sigurgeir Jónsson ríkis­tollstjóri, Snorri Olsen tollstjóri í Reykjavík og Þorgeir Þorsteinsson sýslumaður á Kefla­víkurflugvelli. Stefnt er að því að vinnuhópurinn skili tillögum sínu í byrjun árs 1999.
     Meðferðar- og afplánunarúrræði fyrir brotamenn sem eru háðir neyslu ávana- og fíkniefna. Síðan 1990 hafa fangar átt þess kost að ljúka síðustu sex vikum afplánunar í áfengis- og vímuefnameðferð hjá SÁÁ. Hátt í 200 fangar hafa nýtt sér þetta úrræði og tæplega 3/4 lokið meðferðinni. Áfengis- og vímuefnaráðgjafi frá SÁÁ hefur auk þess frá árinu 1996 heimsókn fangelsið að Litla-Hrauni reglulega. AA-fundir eru haldnir einu sinni til tvisvar í viku í öllum fangelsum og er þeim stjórnað af utanaðkomandi AA-fólki. Frá 1997 hefur sál­fræðingur Fangelsismálastofnunar ríkisins unnið að könnun á meðferð fanganna hjá SÁÁ, reynt að meta árangurinn og hver sé endurkomutíðni þessara fanga í fangelsin aftur. 3
    Vegna útbreiddrar neyslu ávana- og fíkniefna í fangelsum landsins er markvisst reynt að hindra að þau berist inn í fangelsin. Fangaverðir eru menntaðir sérstaklega vegna þessa, sumar deildir eru ávana- og fíkniefnalausar og fangar á þeim njóta vissra fríðinda í staðinn um­fram aðra. Loks má nefna að umfangsmiklar eftirlitsaðgerðir eru með sýnatökum og aga­viðurlögum þegar menn eru uppvísir að neyslu. 4
     Foreldrar og forvarnir í ávana- og fíkniefnamálum. Lögreglan í Reykjavík hefur haldið áfram markvissu starfi sínu við að virkja foreldra og vinna með þeim að áfengis- og fíkni­efnavörnum.
    Síðla hausts 1998 hófst forvarnaverkefnið Hættu áður en þú byrjar sem að standa lögreglan í Reykjavík, Félagsþjónustan í Reykjavík og Hvítasunnukirkja Fíladelfíu í Reykjavík. Í lok árs 1998 hafði verkefnið verið kynnt í Hlíðaskóla, Austurbæjarskóla, Langholtsskóla og Klébergsskóla.
    Verkefnið er þannig uppbyggt að Jón Indriði Þórhallsson og lögreglumaður frá forvarna- og fræðsludeild lögreglunnar fara í skólana, sýna mynd um heróínneytendur í Osló og ræða við nemendur. Jón Indriði leggur mikla áherslu á það við unglingana að þeir geri strax upp hug sinn gagnvart fíkniefnum. Skilaboðin eru skýr, Hættu áður en þú byrjar. Með öðrum orðum, unglingarnir eru hvattir til að taka strax ákvörðun um að neita að prófa fíkniefni verði þeim boðið slíkt. Jón Indriði skýrir jafnframt frá reynslu sinni og sögu sem fíkniefnaneytandi. Hann var mikið í neyslu fíkniefna í 10 ár og er markaður af þeirri reynslu. Hann hefur t.d. lifrarbólgu b og c og fleiri líkamlega skaða vegna neyslunnar. Lögreglumaðurinn skýrir út fyrir unglingunum hver er afleiðing af lífi eins og Jóns Indriða, hvað standi að baki sakavott­orði og fleira. Jón Indriði er mjög heiðarlegur í sínum málflutningi, hann nær vel til ungs fólks og gefur skýrt til kynna hvernig líf hans hefur markast af neyslu fíkniefna.
    Leitast er við að skýra út fyrir unglingunum hvernig heimur það sé í raunveruleikanum sem neytendur fíkniefna lifa. Því miður hefur verið algengt að sá heimur sé gerður meira að­laðandi og spennandi en hann er. Með verkefninu er ekki markmið að hræða, heldur skýra út á faglegum forsendum lífið, hætturnar og afleiðingar eins og þær líta út fyrir þá sem hafa upplifað slíkt og eins og málið lítur út frá sjónarhóli lögreglu.
    Síðasti hluti verkefnisins í hverjum skóla er kvöldfundur með kennurum, foreldrum og for­ráðamönnum þar sem þeim er sýnd sama mynd og sagt frá því sem nemendur höfðu heyrt og rætt við þau um hvað þau geti gert ef grunur er um neyslu barna á fíkniefnum. Auk Jóns Ind­riða og lögreglumanns kemur á fundinn starfsmaður frá forvarnasviði Félagsþjónustunnar og unglingaráðgjafar úr hverfinu. Þau kynna hverfisbundna vinnu Félagsþjónustunnar auk þess að fjalla almennt um aðstæður barna með áherslu á að foreldrar og forráðamenn eru bestir til að tryggja velferð barna sinna. Mikil áhersla er lögð á það í samvinnu við skólana að tryggja að sem flestir foreldrar mæti á kvöldfundinn. Forvarnasvið Félagsþjónustunnar býður áhugasömum foreldrum þátttöku í leshóp um hlutverk unglingaforeldris. Fyrsti leshópurinn mun hittast fyrstu vikur ársins 1999.
    Þetta verkefni er aðeins í boði sem heild þ.e. fundirnir fyrir bæði börn og forráðamenn þeirra. Þannig fá foreldrarnir að upplifa sama verkefnið og börnin og að auki leiðbeiningar um hvernig talið er æskilegt að fylgja þessu eftir. Einnig er verkefnið nýtt til fræðslu fyrir unglinga sem teljast í áhættu svo sem í hópastarfi Félagsþjónustu Reykjavíkur auk þess að sinna beiðnum ýmissa hópa um fræðslu tengda fíkniefnaforvörnum.
    Verkefnið hefur fengið mjög jákvæð viðbrögð, bæði kennara, nemenda og foreldra.
    Einnig er mikill áhugi á þessu verkefni í öðrum sveitarfélögum. Þar er gert ráð fyrir að lögreglan og starfsfólk félagsþjónustu í viðkomandi umdæmi sjái um fræðsluna auk Jóns Ind­riða.
    Frekari upplýsingar um starfsemi lögreglunnar á forvarna- og fræðslusviði er að finna í fylgiskjali I með þessari skýrslu.

2.1.2.     Félagsmálaráðuneyti.
    Á árinu 1998 hefur félagsmálaráðuneytið unnið að eftirtöldum verkefnum á þessu sviði.
    Bætt umhverfi fjölskyldunnar, mótun fjölskyldustefnu og forvarnir gegn fíkniefnaneyslu. Alþingi ályktaði vorið 1997 að ríkisstjórnin móti opinbera fjölskyldustefnu. Meginforsendur hennar eru að fjölskyldan sé hornsteinn íslensks samfélags og að ríkisstjórnum og sveitarfé­lögum beri á hverjum tíma að marka sér opinbera stefnu í málum fjölskyldunnar í því skyni að styrkja hana og vernda. Fíkniefnaneysla og misnotkun áfengis sé fjölskylduvandi og í þingsályktuninni er lagt til að fjölskyldur njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfeng­is og annarra vímugjafa.
    Fjölskyldan og þá einkum foreldrarnir eru best til þess fallnir að veita börnum öryggi og tækifæri til þroska og ljóst er að þeir eru almennt á móti áfengis- og fíkniefnaneyslu barna sinna. Niðurstöður nýlegrar könnunar benda eindregið til þess að foreldrar vilja vita um ferðir barna sinna og hvað þau aðhafast, t.d. vill meginþorri foreldra fá að vita af því ef barn þeirra undir 16 ára aldri neytir áfengis. Ýmsar almennar aðgerðir stjórnvalda geta létt undir með foreldrum við umönnun og uppeldi barna þeirra. Sem dæmi má nefna viðurkenningu og skilning atvinnurekenda á mikilvægi uppeldishlutverks foreldra og gildi samstarfs foreldra og skóla.
     Fjölskylduráð. Í samræmi við þingsályktun um opinbera fjölskyldustefnu var á árinu 1998 skipað fjölskylduráð sem hefur það hlutverk að stuðla að eflingu og vernd fjölskyldunnar í samræmi við almenn markmið ríkisstjórnarinnar.
    Meðal verkefna fjölskylduráðs er að veita stjórnvöldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, annast tillögugerð um framkvæmdaáætlanir í málefnum fjölskyldunnar með hliðsjón af heildarsýn einstakra ráðuneyta og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Fjölskylduráðið á að eiga frum­kvæði að opinberri umræðu um málefni fjölskyldunnar og veita leiðbeinandi upplýsingar til fjölskyldna um viðbrögð við nýjum og breyttum aðstæðum og hvetja til aðgerða á sviði fjöl­skyldumála. Síðast en ekki síst á fjölskylduráðið að stuðla að rannsóknum á högum og að­stæðum íslenskra fjölskyldna. Fjölskyldan og heimilin eru tvímælalaust mikilvægasti vett­vangurinn á sviði forvarna í fíkniefnamálum.
    Fjölskylduráðinu er m.a. falið að beina sjónum sínum að því að fjölskyldur njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa og að forvarnir vegna áfengis- og vímuefnaneyslu verði auknar.
     Alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Farsælt samspil atvinnu og heimilis er forsenda öruggs uppeldis barnanna. Yfirvöldum ber að skapa skilyrði til þess að jafnvægi náist milli fjölskyldulífs og atvinnu foreldra. Á heimilum þar sem þetta jafnvægi ríkir eru for­eldrar betur í stakk búnir til að fylgjast með börnum sínum og veita þeim það aðhald, sem nauðsynlegt er til að styðja þau í því að ánetjast ekki fíkniefnum. Félagsmálaráðherra hefur á árinu 1998 látið undirbúa að leggja til við Alþingi að Ísland fullgildi samþykkt Alþjóða­vinnumálastofnunarinnar nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Í samþykktinni felast skuldbindingar og má þar m.a. nefna að stjórnvöld setji sér þau markmið að auðvelda fólki með fjölskylduábyrgð, að gegna launuðu starfi og sinna jafnframt heimilinu, að auðvelda starfsmönnum sem bera ábyrgð á fjölskyldu að hagnýta rétt sinn til að velja starf við hæfi, að taka tillit til þarfa þeirra er varða kjör, vinnuskilyrði og félagslegt öryggi, að við skipu­lagningu á þjónustu sveitarfélaga skuli tekið tillit til þarfa starfsfólks með fjölskylduábyrgð, t.d. hvað varðar barnagæslu og fjölskylduábyrgð og að tryggja að fjölskylduábyrgð sem slík geti ekki verið gild ástæða uppsagnar úr starfi. Foreldrar sem búa við fjölskylduvænt vinnu­umhverfi, eiga auðveldara að veita börnum sínum öryggi og aðhald og vernda þau gegn neyslu fíkniefna.
     Meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa hefur yfirumsjón og eftirlit með stofnunum og heimilum sem ríkið rekur eða styrkir fyrir börn og ungmenni sem vistuð eru á grundvelli barnaverndarlaga. Unglingar sem eiga við vímuefnavanda að stríða, eða eru í sérstökum áhættuhópi, geta verið vistaðir á öllum heimilum Barnaverndarstofu. Meðferðarstöð ríkisins, Stuðlar, annast greiningarmeðferð og neyðarvistun í bráðatilvikum og eru þar samtals 12 rými. Til viðbótar eru fjögur heimili með 22–24 rýmum auk Geldinga­lækjar með sex rýmum, en það er heimili fyrir börn á aldrinum 6–12 ára.
    Sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 ár 1. janúar 1998. Ein rökin fyrir hækkun sjálfræðisaldurs voru að gera foreldrum og samfélaginu í heild kleift að taka á stjórnlausri neyslu áfengis og vímuefna 16 til 18 ára ungmenna. Má búast við aukinni þörf á sérhæfðum úrræðum í vímuefnameðferð fyrir ungmenni allt að 18 ára aldri. Nýlegar breytingar á með­ferðarkerfi ríkisins gerðu ráð fyrir að sjálfráða einstaklingar, 16 ára og eldri, leituðu þjónustu sjúkrastofnana fyrir fullorðna. Nú hafa aldursmörkin verið hækkuð í 18 ár og því verður að efla sérhæfða meðferð fyrir þennan hóp. Þessi hópur nýtur nú þjónustu meðferðarstofnana fyrir fullorðna hjá SÁÁ og Landspítala.
     Sérhæfð meðferðarheimili. Á árinu 1998 opnuðu tvö meðferðarheimili fyrir ungmenni, Háholt sem tekur við af Bakkaflöt og Hvítárbakki.
     Stofnun meðferðarheimilis fyrir unga fíkniefnaneytendur á árinu 1999. Í samræmi við það sem að áður hefur verið vikið að um áhrif hækkunar lögræðisaldurs verður stefnt að því að setja á laggirnar nýtt meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur á aldrinum 16 til 18 ára á árinu 1999. Þessi framkvæmd byggir þó á því að niðurstöður úttektar á meðferðarúrræðum fyrir unga fíkniefnaneytendur mæli með því að þessum aldurshópi verði veitt þjónusta á sér­hæfðum meðferðarheimilum sem rekin eru á vegum Barnaverndarstofu en ekki á hinum al­mennu meðferðarstofnunum sem ætlaðar eru fullorðnum.
     Önnur verkefni. Á árinu 1998 hefur enn frekar verið unnið að eftirtöldum verkefnum sem tengjast áfengis- og vímuvörnum hjá félagsmálaráðuneytinu:
     *      Stofnun Barnahúss. Barnahús var opnað á árinu 1998. Þar verður starfrækt miðstöð fyrir rannsóknir á kynferðisafbrotum og öðru ofbeldi gegn börnum og sérhæfð meðferð og áfallahjálp veitt börnum og fjölskyldum þeirra. Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára, sem byggir á samstarfi fjölmargra aðila undir stjórn Barnaverndarstofu. Stefnt er að því að samhæfa, eins og unnt er, hlutverk barnaverndaryfirvalda annars veg­ar og hins vegar hlutverk lögreglu, saksóknara, lækna og fleiri við rannsókn mála. Börn og ungmenni sem verða fyrir ofbeldi eru í áhættuhópi gagnvart neyslu fíkniefna. Hlut­fallslega stór hópur stúlkna sem orðið hefur fíkniefnaneyslu að bráð hefur verið beittur kynferðislegu ofbeldi. Börnin, sem vistast á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu eiga við fjölþættan vanda að etja og er neysla áfengis og annarra vímuefna oft birtingarform félagslegra og tilfinningalegra vandamála. Markviss og samhæfð viðbrögð allra, sem að máli koma þegar grunur leikur á um slíkt ofbeldi, getur dregið verulega úr líkum á því að fórnarlambið ánetjist fíkniefnum síðar á lífsleiðinni.
     *      Sérstök úttekt á þjónustu meðferðarstofnana. Í vinnslu er er sérstök úttekt á þjónustu SÁÁ og Landspítala við 16–18 ára ungmenni. Nauðsyn er á upplýsingum um þjónustu stofnananna við þennan aldurshóp, ekki síst í ljósi breyttra aðstæðna vegna hækkunar sjálfræðisaldurs. Könnuð er dvalarlengd og brottfall í meðferð, endurinnlagnir og árang­ur meðferðar. Niðurstöðu er að vænta á árinu 1999.
     *      Henta meðferðarúrræðin jafnt konum sem körlum? Skrifstofu jafnréttismála var falið að kanna hvort meðferðarúrræði fyrir fíkniefnaneytendur, sem eru kostuð af opinberu fé, henti jafnt konum sem körlum. Niðurstöðu er að vænta 1999.
     *      Fjölskyldumiðstöðin. Félagsmálaráðuneytið, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Reykjavíkurdeild Rauða Kross Íslands og Reykjavíkurborg standa saman að rekstri fjöl­skyldumiðstöðvar sem er forvarnaverkefni meðal grunnskólanema í Reykjavík. Upphaf­lega var lagt upp með tilraunaverkefni til eins árs og hófst það í apríl 1997. Af ýmsum ástæðum hefur verkefnið verið lengt og stendur það til 1999. Markmið verkefnisins er að draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu barna á grunnskólaaldri og styðja og styrkja nemendur gegn áfengis- og vímuefnaneyslu og stuðla þannig að vímuefnalausum grunn­skóla. Sérstaða miðstöðvarinnar felst í því að ráðgjafar hennar koma frá Stuðlum, Teigi og barna- og unglingageðdeild og nýtast hér saman kraftar sérfræðinga frá mismunandi meðferðarstofnunum. Rík áhersla er lögð á samstarf við foreldra og þátttöku nemenda­verndarráða grunnskóla. Fjölskyldumiðstöðin er liður í áætluninni Ísland án eiturlyfja.
     *      Ráðgjöf til foreldra á landsbyggðinni. Félagsmálaráðuneytið telur mikilvægt að fjölskyldum utan Reykjavíkur gefist kostur á að taka þátt í sambærilegu verkefni og fjöl­skyldumiðstöðinni og hefur á árinu 1998 undirbúið slíka ráðgjöf. Stefnt er að því að bjóða þeim foreldrum, sem eiga börn í vímuefnavanda, ráðgjöf og aðstoð. Þetta yrði farandráðgjöf, veitt í samráði við heilbrigðisráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Tíma­setningar hafa enn ekki verið ákveðnar, en um yrði að ræða tilraunaverkefni til eins eða tveggja ára.
     *      Stuðningsmeðferð fyrir börn áfengissjúkra. Barnaverndarstofa kom á fót stuðningsmeðferð í tilraunaskyni fyrir 6 til 11 ára gömul börn áfengissjúkra foreldra. Um var að ræða alls sex námskeið sem haldin voru á tímabilinu 1996 til 1997. Foreldrum var samhliða boðið upp á hópstarf. Barnaverndarstofa afhenti samtökunum Vímulausri æsku nám­skeiðin á árinu 1997. Með stuðningi Forvarnasjóðs hefur þessari meðferð verið haldið áfram á árinu 1998.
     *      Vinnuhópur til að afla upplýsinga um staðsetningu hjálparmiðstöðva. Félagsmálaráðherra hefur skipað sérstakan vinnuhóp, sem hefur störf í janúar 1999. Hlutverk hans er m.a. að afla uplplýsinga um staðsetningu hjálparmiðstöðva, hvaða hópum þær sinna, markmið og fjármögnun, starfsleyfi og fjármögnun, menntun starfsmanna og hvernig hjálparmiðstöðin skilgreinir sjálfa sig.
     *      Skyldur sveitarfélaganna varðandi áfengis- og vímuefnavarnir. Haldið verður áfram að kynna sveitarfélögunum sérstaklega áætlunina Ísland án eiturlyfja og hvetja þau til virkrar þátttöku í áætluninni. Þá hyggst ráðuneytið vekja athygli sveitarfélaganna á eftir­farandi skyldum þeirra gagnvart áfengissjúkum og fjölskyldum þeirra svo og varðandi fíkniefnavarnir:
                  *      Félagsmálanefndir sveitarfélaganna skulu, sbr. XIII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, stuðla að forvörnum í áfengis- og vímugjafamálum í samstarfi við við­eigandi aðila, svo sem lögreglu, heilbrigðisþjónustu og skóla.
                  *      Félagsmálanefndum ber enn fremur að hlutast til um að áfengissjúkir og þeir sem misnota áfengi eða önnur fíkniefni fái viðeigandi meðferð og aðstoð og fjölskyldum þeirra skal einnig veitt aðstoð eftir því sem við á. Enn fremur ber nefndunum að stuðla að því að þeir sem fengið hafa meðferð vegna fíkniefnaneyslu fái nauðsynleg­an stuðning og aðstoð til að lifa eðlilegu lífi að meðferð lokinni.

2.1.3.     Fjármálaráðuneyti.
     Ráðstöfun fjárveitingar til fíkniefnamála 1998. Á árinu 1997 var sett á laggirnar sérstök deild innan ríkistollstjóraembættisins sem m.a. var ætlað að fara með yfirumsjón með aðgerð­um tollyfirvalda gegn fíkniefnasmygli á landinu öllu. Meðal verkefna deildarinnar er gera til­lögur um ráðstöfun sérstakrar fjárveitingar til tollyfirvalda vegna fíkniefnaeftirlits og sjá til þess að þeim fjármunum verði ráðstafað eins og til var ætlast.
    Fíkniefnadeild ríkistollstjóra gerði tillögur til ráðuneytisins um með hvaða hætti skyldi ráðstafa sérstakri 25 m.kr. fjárveitingu til eflingar á fíkniefnaeftirliti tollsins á árinu 1998 og féllst ráðuneytið á þær tillögur. Fjárveitingunni var ráðstafað sem hér segir:
     Ríkistollstjóraembættið. Alls runnu 9.175.000 kr. af fjárveitingunni til embættis ríkistollstjóra. Helstu kostnaðarliðir voru 5,9 m.kr. til að mæta auknum launakostnaði embættisins vegna aukins fíkniefnaeftirlits, 800 þús. kr. vegna kostnaðar við ferðir með leitarhunda til að­stoðar við tollgæslu á landsbyggðinni, 860 þús. kr. vegna rekstrarkostnaðar bifreiðar og leitarhunds og um 1,3 m.kr. vegna námskeiða, funda og þjálfunar tollvarða.
     Tollstjórinn í Reykjavík. Ráðstöfun af fjárveitingu nam rúmlega 4,7 m.kr. Þar af fóru 3 m.kr. í að mæta auknum launakostnaði og um 1,6 m.kr. í tækjakaup.
     Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Ráðstöfun af fjárveitingu nam rúmlega 10,6 m.kr. Af þeirri fjárhæð var 3 m.kr. ætlað að mæta auknum launakostnaði vegna hundaumsjónar­manns, um 6,9 m.kr. runnu til kaupa á Ionscan 400 leitartæki, en tækið getur greint leifar af fíkniefnum á fólki, fatnaði og farangri með mjög mikilli nákvæmni, og um 700 þ.kr. til rekstrarkostnaðar við bifreið og leitarhund.
     Önnur embætti. Ráðstöfun til annarra sýslumannsembætta nam um 460 þ.kr. sem runnu til tækjakaupa.
    Endurskipulagning fíkniefnaeftirlits. Á árinu voru ákveðnar verulegar breytingar á skipulagi fíkniefnaeftirlits tollsins. Þannig er gert ráð fyrir að ríkistollstjóri hætti að sinna beinni tollgæslu frá áramótum 1998–1999. Stærstur hluti tollgæsludeildar embættisins, fjórir toll­verðir, tveir leitarhundar og tvær bifreiðar, færist yfir til embættis tollstjórans í Reykjavík, sem mun taka yfir þau verkefni sem ríkistollstjóri hefur annast og felast í beinni tollgæslu. Eftirleiðis munu því tollstjórar, hver í sínu umdæmi, að meginstefnu til einir annast tollgæslu á vettvangi. Embætti ríkistollstjóra mun hins vegar draga sig út úr slíkum verkefnum, nema aðstoðar verði sérstaklega óskað eða samkvæmt sérstakri ákvörðun embættisins. Þess í stað mun embætti tollstjórans í Reykjavík veita minni embættunum aðstoð við framkvæmd eftir­lits, m.a. með því að leggja til leitarhunda. Verkefnum þessum verður sinnt af rannsókna- og fíkniefnadeild embættisins.
    Markmiðið með þessari breytingu var einkum að afmarka með skýrari hætti verkefni og ábyrgð hvors embættis um sig og greina á milli skipulagningar- og yfirstjórnunarhlutverks annars vegar og framkvæmdar hins vegar.
    Við breytinguna skapast aukið svigrúm fyrir embætti ríkistollstjóra til að sinna yfir­stjórnar- og eftirlitshlutverki sínu gagnvart einstökum tollstjórum á sviði fíkniefnamála. Embættið mun auka áherslu á þann þátt í starfsemi sinni, m.a. með gerð eftirlitsáætlana o.fl. Einnig annast embættið samstarf við erlend toll- og lögregluyfirvöld. Í stað þeirra fjögurra tollvarða sem fluttust til tollstjórans í Reykjavík, í tengslum við þær breytingar sem gerðar voru á skipulagi fíkniefnaeftirlits á árinu, koma til starfa hjá embættinu tveir nýir tollverðir. Þeir munu, ásamt forstöðumanni, lögfræðingi og aðaldeildarstjóra hjá embættinu, mynda toll­gæsludeild embættisins.
    Þess ber að geta að tollgæsluverkefni ríkistollstjóra eru enn í mótun eftir þann flutning verkefna sem ákveðinn var á milli embætta. Ljóst er að þau munu einkum helgast af handhöfn landsumboðs í fíkniefnamálum og yfirstjórnarhlutverki embættisins gagnvart einstökum tollstjóraembættum.
    Samstarf lögreglu- og tollyfirvalda, samnýting leitarhunda. Að undanförnu hefur verið starfandi nefnd skipuð fulltrúum lögreglu- og tollyfirvalda, sem leitar leiða til aukinnar og bættrar samvinnu milli löggæslu- og tollgæsluaðila, en ljóst er að eindreginn vilji er fyrir hendi til nánari samvinnu. Meðal verkefna nefndarinnar er að kanna með hvaða hætti megi samnýta leitarhunda þessara aðila. Í árslok 1998 var sérstakt samkomulag í burðarliðnum varðandi samnýtingu leitarhunda tollstjórans í Reykjavík, lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli.

2.1.4.     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
     Áfengis- og vímuvarnaráð. Lög um áfengis- og vímuvarnaráð nr. 75/1998 voru samþykkt á vorþingi 1998 og gengu í gildi 1. júlí 1998. Nánar verður vikið að ráðinu í kafla 4.1.
     Víðtækar forvarnir í sveitarfélögum. Í ársbyrjun 1998 var undirritaður samstarfssamningur milli heilbrigðisráðuneytisins og forvarnadeildar SÁÁ um tveggja ára samstarf í forvarnamál­um. Markmið verkefnisins er að virkja sveitarfélög, opinbera aðila, félagasamtök, skóla, nemendur, foreldra og aðra áhugamenn til að vinna að markvissu forvarnastarfi innan sveitar­félagsins með faglegri ráðgjöf, aðstoð og stuðningi forvarnadeildar SÁÁ og heilbrigðisráðu­neytisins. Áður hafði SÁÁ undirbúið verkefnið og gert tilraunir með framkvæmd þess í 5 sveitarfélögum og var byggt á þeirri reynslu í verkefninu. Af fjölmörgum sveitarfélögum voru sex valin til þátttöku auk þess sem stuðningur hélt áfram við þau fimm sem áður voru til komin. Verkefnið er þannig upp byggt að í upphafi eru öllum þeim aðilum sem koma að starfi með börnum og unglingum, opinberum aðilum, aðilum úr skólakerfinu, foreldrafélögum, nemendafélögum, og öðrum áhugamönnum boðið til ráðstefnu þar sem veitt er fræðsla og upplýsingar um eðli vandans og stöðu mála á viðkomandi svæði, skipst er á skoðunum um þær hættur sem að steðja og með hvaða hætti unnt sé að bregðast við. Efnt er til hópastarfs um afmarkaða þætti og niðurstöður ræddar. Sveitarfélagið og sérstakar fram­kvæmdanefndir halda utan um undirbúning og framkvæmd ráðstefnunnar og framhaldið, og bera hitann og þungann af því að halda áfram virkjun allra aðila innan samfélagsins, mótun stefnu samfélagsins í vímuvarnamálum, eftirfylgd hennar, áróðurs- og kynningarstarfi. Of skammur tími er liðinn til að unnt sé að meta árangur en ljóst er að verkefnið hefur víðast náð því markmiði að virkja opinbera aðila og áhugamenn til sameiginlegra átaka og virkrar vinnu í víðtækum forvörnum, samkvæmt skýrri stefnu samfélagsins.
     Efling heilsugæslunnar. Aukin áhersla hefur verið lögð á að heilsugæslan og starfsfólk hennar taki virkan þátt í forvarnastarfi og unnið hefur verið að því að gera starfsfólk hennar færara til að greina vísbending um vandamál sem rætur kunna að eiga að rekja til neyslu áfengis og vímuefna og fást við þau. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að starfsfólk heilsu­gæslunnar fái kennslu og þjálfun í ráðgjöf og aðstoð við fólk sem vill hætta að reykja. Þannig hafa verið haldin námskeið fyrir þá sem vilja leiðbeina fólki að hætta að reykja.
    Þá er forvarnastarf gegn neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna fastir liðir í starfsemi heilsugæslunnar um allt land. Mjög aukin áhersla hefur verið lögð á þennan þátt á síðustu árum, meðal annars með fræðslu starfsfólks og þjálfun í greiningu vandamála sem bent geta til þess að áfengis- og vímuefnaneysla búi að baki.
     Starfsemi á vegum Tóbaksvarnanefndar. Tóbaksvarnanefnd hefur unnið markvisst að forvarnastarfi í skólum auk samstarfs við marga aðila, félagasamtök, íþróttahreyfinguna, stéttar­félög og fleiri til að efla enn baráttuna gegn reykingum.
    Tóbaksvarnanefnd hefur unnið með Krabbameinsfélagi Íslands að þýðingu og staðfærslu á námsefni fyrir efri bekki grunnskóla í reykingavörnum, staðið fyrir kennslu á því, þjálfun kennara og leiðbeinenda og útbreiðslu þess innan skólakerfisins.
    Með samstarfi við íþróttahreyfinguna hafa íþróttamenn, og heilar íþróttagreinar gerst merkisberar tóbaksvarna og heilbrigðra lifnaðarhátta.
    Árið 1998 vann Tóbaksvarnanefnd með m.a. Krabbameinsfélagi Íslands, vinnueftirlitinu, heilbrigðiseftirlitinu og aðilum vinnumarkaðarins að endurskoðun reglugerðar um tóbaks­varnir á vinnustöðum með það að markmiði að tryggja öllum reyklaust umhverfi á vinnustað. Ný reglugerð þar um var sett af heilbrigðisráðherra í byrjun árs 1999.
    Þá hefur Tóbaksvarnanefnd átt samstarf við fjölmarga aðila um ýmis verkefni og skal þar sérstaklega bent á átak með samtökum eigenda og starfsfólks í veitingahúsum til að tryggja að reglum um reyklaus svæði á veitingastöðum sé framfylgt.
     Stefnumótun í geðheilbrigðismálum. Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði hefur lokið vinnu við framtíðarstefnumótun í geðheilbrigðismálum. Þegar er unnið að því að hrinda í framkvæmd fyrstu áföngum sem varða úrbætur í geðheilbrigðismálum unglinga, ekki síst þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Unnið er að forgangsröðun og gerð framkvæmdaáætlana í samræmi við þá stefnu sem fyrir liggur.
     Aukin meðferðarúrræði. Ákveðið er að byggja nýja meðferðardeild við sjúkrahúsið Vog sem verður sérhönnuð fyrir unglinga. SÁÁ hefur þegar hafið framkvæmdir og hlotið styrk ríkisstjórnar til verksins. Áætlað er að deildin verði tekin í notkun haustið 1999.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og stofnanir þess eru aðilar að Fjölskyldu­miðstöðinni í samvinnu við félagsmálaráðuneytið, Reykjavíkurborg og Rauða krossinn, sbr. kafla 2.1.2.
    Þá er unnið í samráði við embætti landlæknis að úttekt á áfangaheimilum með það að markmiði að skilgreina starfsemi þeirra og vista á viðeigandi stað í stjórnkerfinu. Á síðasta ári jókst enn framboð af vistun á áfangaheimilum sem mörg hafa reynst mjög vel til að koma vímuefnasjúklingum aftur út í þjóðfélagið að lokinni meðferð.
     Heilsuefling. Heilsueflingarverkefnið hefur áfram unnið að því að vekja almenning til ábyrgðar og umhugsunar um heilbrigða lífshætti og meðal annars unnið að heilsueflingu í skólum og á vinnustöðum, átt samstarf við Tóbaksvarnanefnd og Íþróttasamband Íslands um Grænan lífseðil.
    Landlæknisembættið hefur á síðustu árum beint starfsemi sinni meira inn á svið heilsu­verndar og skipulegra aðgerða til þess að draga úr hvers konar heilbrigðisvandamálum. Áróð­ur fyrir heilsusamlegum lifnaðarháttum, slysavarnir, vímuefnavarnir, geðheilbrigðismál, heil­brigðisfræðsla og skólaheilsugæsla eru fastir liðir í starfsemi embættisins.
     Forvarnasjóður. Eins og vikið verður að í kafla 4.1 tók Áfengis- og vímuvarnaráð við stjórn Forvarnasjóðs frá 1. janúar 1999. Fram til þess tíma stýrði sérstök stjórn sjóðnum, sem í áttu sæti fulltrúar ráðherra dómsmála, fjármála, menntamála og heilbrigðis- og trygginga­mála og var sá síðastnefndi jafnframt formaður.
    Forvarnasjóður var stofnaður 1995. Í hann rennur ákveðinn hluti áfengisgjalds. Með stofnun sjóðsins jukust fjárveitingar til forvarna á sviði áfengis- og fíkniefnamála um 20 m.kr. á árinu 1996, en sjóðurinn hafði samtals 50 m.kr. til ráðstöfunar á því ári. Á árinu 1998 hafði sjóðurinn 55 m.kr. til ráðstöfunar, en hluta af þeim fjármunum ráðstafaði fjárlaganefnd, auk þess sem reksturskostnaður Áfengisvarnaráðs var greiddur af fjármunum Forvarnasjóðs. Tafl­an sýnir úthlutun úr Forvarnasjóði á árinu 1998 samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins.

Ákvörðun stjórnar Forvarnasjóðs um úthlutun úr sjóðnum árið 1998.

Verkefni Fjárhæð í m.kr.
Verkefni á vegum SÁÁ:
í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti, víðtækar forvarnir í sveitarfélögum
6,5
í samstarfi við forvarnadeild lögreglunnar, átak gegn hassi, námskeið og mat á ástandi

1,0
vímulaus útihátíð um verslunarmannahelgi
0,5
unglingar í áhættuhópi og foreldrar þeirra
0,37
rannsóknir á þróun misnotkunar
0,36
námskeið fyrir kennara um hass
0,15
Áætlunin Ísland án eiturlyfja
4,8
Jafningjafræðsla framhaldsskólanema, starfsemi
2,0
Heimili og skóli, verkefnið Fyrirmyndarforeldrar
1,8
Verkefni á vegum vímulausrar æsku:
Börn alkóhólista, námskeið
1,5
Fjölskylduráðgjöf
1,5
Barnaheill og vímulaus æska, símaráðgjöf og þjónusta
1,5
FRÆ, SÁÁ, RKÍ o.fl. Vímuvarnaskólinn
1,4
Sumarheimili templara, bindindismótið um verslunarmannahelgi
1,5
Verkefni á vegum FRÆ:
Bæklingar og fræðslustarf
1,0
Skýrsla um áfengis- og fíkniefnamál á Íslandi
0,25
Sigrún Aðalbjarnardóttir, rannsóknir
0,7
Helga Hannesdóttir, áhættugreining
0,7
Skógarmenn KFUM, útihátíð um verslunarmannahelgi
0,5
Áfengisvarnaráð, handbók með uppskriftum að óáfengum drykkjum
0,5
Rannsóknastofa í lyfjafræði, rannsóknir meðal ungs fólks
0,5
Samtökin Komið og dansið, framhaldsskólaverkefni
0,5
Götusmiðjan og Virkið, til forvarnastarfs
0,5
Lögreglan í Reykjavík, Ísland án eiturlyfja, Heimili og skóli, kynning á útivistarreglum og þýðingu þeirra í forvörnum

0,5
Skólaskrifstofa Vesturlands, dreifing á forvarnaverkefni
0,35
Álftamýraskóli vegna nýjungar við próflok í 10. bekk
0,03
Samtals
30,91

2.1.5.     Menntamálaráðuneyti.
    Á vegum menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið að eftirtöldum verkefnum á sviði áfengis- og vímuvarna á árinu 1998, sem öll tengjast áhættuhegðun barna og ungmenna:
    Forvarnastarf í skólum. Til að skipuleggja og stuðla að forvarnastarfi í skólum gerði menntamálaráðuneytið verksamning við Fræðslumiðstöð í fíknivörnum um framkvæmd áætl­unar ráðuneytisins í forvarnastarfi þess og er Árni Einarsson verkefnastjóri.
    Teymi. Menntamálaráðuneytið kom á fót teymi sérfræðinga sem ætlað var að koma með tillögur um tilhögun forvarnarstarfs í skólum með sérstöku tilliti til úrræða vegna áhættu sem varðar sjálfsvíg og fíkniefnaneyslu. Í teyminu var fólk sem hefur reynslu og þekkingu af mál­efninu, skólastjóri, kennari, námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur og barna- og unglinga­geðlæknir. Teymið hefur farið yfir framkvæmd. Lögð hefur verið áhersla að að treysta raun­hæfa möguleika skólans í forvörnum, hlutverk skólans og samstarf við foreldra og aðra sem að málefninu koma. Teymið skilaði skýrslu, Forvarnir í skólum. Samantekt og helstu niðurstöður. Meginniðurstöður skýrslunnar samræmast þeirri vinnu sem unnin hefur verið við endurskoðun aðalnámskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla á vegum menntamálaráðuneytis­ins. Þegar eru margar tillögur teymisins komnar til framkvæmda með forvarnastarfi ráðuneyt­isins í samvinnu við Fræðslumiðstöð í fíknivörnum. Starfsfólk grunn- og framhaldsskóla alls staðar á landinu hefur unnið ötullega að því að skipuleggja forvarnastarf í skólunum.
     Rannsóknir. Forsenda árangursríks forvarnastarfser að tekið sé mið af niðurstöðum rannsókna á orsökum fíkniefnaneyslu og annarra áhættuþátta. Í samræmi við það hefur mennta­málaráðuneytið stuðlað að rannsóknum á áhættuþáttum sem tengjast fíkniefnaneyslu og mati á árangri forvarnastarfs. Ráðuneytið veitti dr. Sigrúnu Aðalbjarnardóttur styrk til tölfræðilegr­ar úrvinnslu gagna úr rannsókn á áfengis- og fíkniefnaneyslu ungmenna. Hefur dr. Sigrún skilað skýrslu Áfengis- og fíkniefnaneysla ungmenna. Tengsl við sjálfsmat, stjórnrót, depurð og streitu með niðurstöðum þeirrar rannsóknar. Ráðuneytið mun áfram stuðla að því að niðurstöður rannsókna verði hafðar til hliðsjónar við forvarnarstarf á vegum þess og hefur sent skýrsluna til grunn- og framhaldsskóla landsins.
     Námskeið. Í skýrslu nefndar árið 1996 um könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga á Íslandi og tillögum til úrbóta, sem unnin var samkvæmt þingsályktun á vegum menntamálaráðuneyt­isins, er gerð grein fyrir flóknu samspili ýmissa þátta, sem hafa afgerandi áhrif á skólagöngu nemenda og framtíð þeirra, svo sem sjálfsvígshegðun og fíkniefnaneyslu. Í skýrslunni er lögð áhersla á að greina áhættuhegðun barna og unglinga í skólum og veita þeim aðstoð sem í vanda eru staddir. Í samræmi við það leggur menntamálaráðuneytið áherslu á að efla grein­ingu og viðbrögð við áhættuhegðun innan skóla og auka beinan stuðning sérfræðinga við starfsfólk skóla.
    Menntamálaráðuneytið hefur því á undanförnum árum staðið fyrir röð námskeiða um áhættuhegðun barna og ungmenna og viðbrögð við slíkri hegðun í samvinnu við Fræðslumið­stöð í fíknivörnum og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands í því skyni að auka þekkingu starfsfólks skóla.
    Haldin voru námskeið árið 1998 og 1997 sem stóðu starfsfólki framhaldsskóla um allt land til boða. Námskeiðin voru ætluð þeim sem fíkniefnamál og annar vandi brennur mest á innan skólanna svo sem námsráðgjöfum, skólahjúkrunarfræðingum, skólastjórnendum, umsjónar­kennurum og fleirum. Enn fremur voru þau ætluð fulltrúum frá nemendafélögum og Jafningjafræðslu. Á námskeiðunum var m.a. fjallað um áhættuhegðun, sjálfsvíg ungs fólks, fíkniefnaneyslu og kynferðislegt ofbeldi. Þá bauðst skólunum aðstoð við stefnumörkun í fíkniefnavörnum skólanna og áætlanir þar að lútandi.
     Námskeið fyrir forvarnafulltrúa í framhaldsskólum. Margir skólar hafa nú skipað forvarnafulltrúa til þess að vinna að forvarnaþáttum innan skólanna. Haustið 1998 var haldið námskeið í menntamálaráðuneytinu í samvinnu við Fræðslumiðstöð í fíknivörnum fyrir for­varnafulltrúa framhaldsskóla.
     Sumarnámskeið. Þriggja daga sumarnámskeið var haldið á Akureyri í ágúst 1998 í samvinnu við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og Endurmenntunardeild Kennaraháskól­ans fyrir starfsfólk skóla. Námskeið með svipuðu sniði var haldið í Reykjavík sumarið 1997. Á námskeiðinu var fjallað um áhættuþætti varðandi áfengisneyslu og aðra vímuefnaneyslu ungs fólks, sjálfsvíg, greiningu þessara þátta og viðbrögð við þeim. Ýmsir íslenskir sérfræð­ingar héldu fyrirlestra, en sérstakur gestafyrirlesari var frá Harvard háskóla í Boston í Banda­ríkjunum semstýrir verkefni í Boston um forvarnir í skólum í tengslum við áhættuhegðun barna og unglinga. Rúmlega eitt þúsund kennarar og annað starfsfólk skóla hefur tekið þátt í námskeiðum sem haldin hafa verið á vegum menntamálaráðuneytisins um forvarnir í skóla­starfi.
     Ráðgjöf. Símaviðtalstímar. Nauðsynlegt er að starfsfólk skóla sé í stakk búið til að koma auga á og liðsinna nemendum sem eiga í erfiðleikum. Innan framhaldsskólans þurfa að vera fyrir hendi úrræði fyrir þá nemendur sem á stuðningi þurfa að halda vegna ýmissa vandamála. Slík úrræði þurfa að tengjast úrlausnum heilbrigðis- og félagsmálakerfisins. Starfsmenn skóla, t.d. námsráðgjafar, eru oft í góðum tengslum við nemendur og því í góðri aðstöðu til að vinna fyrirbyggjandi starf og bregðast við áhættuhegðun. Mikilvægur þáttur í því starfi er að beina unglingum til viðeigandi meðferðaraðila. Til þess að stuðla að því að svo megi verða í ríkari mæli gefur menntamálaráðuneytið starfsfólki framhaldsskóla kost á því að leita sérfræðilegrar aðstoðar vegna nemenda sem eru í vanda staddir. Komið hefur verið á sérstökum síma­viðtalstímum í Fræðslumiðstöð í fíknivörnum þar sem námsráðgjöfum eða viðkomandi starfs­fólki gefst kostur á að leita ráðgjafar og handleiðslu vegna vandamála tiltekinna nemenda og fá sérfræðing í heimsókn í skólana eftir nánari ákvörðun. Hér er ekki um hefðbundna sálfræði­þjónustu við nemendur að ræða heldur ráðgjöf til starfsmanna skólanna vegna vanda nemenda sem leita til starfsfólks. Menntamálaráðuneytið hefur sent framhaldsskólum bækling með nánari upplýsingum um þann stuðning sem framhaldsskólum býðst í þessum efnum.
     Heimasíða um forvarnir í skólum. Hafinn er undirbúningur að heimasíðu en komið hefur verið upp tengslaneti á Internetinu fyrir forvarnafulltrúa framhaldsskóla og annað starfsfólk skóla sem um þessi mál fjalla. Um það eru sendar ýmsar gagnlegar upplýsingar svo sem upp­lýsingar um námsefni, framvindu forvarnarstarfs í skólunum og annað sem auðveldar for­varnafulltrúum starf sitt. Ráðgert er að vinna með þessum hætti að því að koma upp veglegri heimasíðu á árinu 1999.
     Jafningjafræðslan. Menntamálaráðuneytið hefur stutt Jafningjafræðslu framhaldsskólanna. Á árinu 1998 hafa verið haldnir margir fyrirlestrar í skólum og hefur áherslan einkum beinst að fyrstu tveimur nemendaárgöngum í framhaldsskólum. Auk þess sáu fulltrúar Jafningja­fræðslunnar um fræðslustarf í ýmsum félagsmiðstöðvum og grunnskólum. Haldin var fjöl­menn afmælishátið Jafningjafræðslunnar þann 1. mars 1998. Jafningjafræðslan hefur staðið fyrir gerð sjónvarpsþátta, útvarpsþátta, bæklinga og blaða og var þriðji sjónvarpsþáttur Jafn­ingjafræðslunnar sýndur á samtengdum stöðvum þann 1. mars 1998 í tengslum við afmælis­hátíðina. Þá stóð Jafningjafræðslan fyrir útgáfu á nýjum bæklingi og fréttabréfi.

3. Ísland án eiturlyfja.
    Einn liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar var að ganga til samstarfs við Reykjavíkurborg og Samtök Evrópuborga gegn eiturlyfjum (ECAD, European Cities Against Drugs) um áætl­unina Ísland án eiturlyfja.
    Samtökin Evrópuborgir gegn eiturlyfjum voru stofnuð í apríl 1994. Stofnun samtakanna var m.a. svar við áformum ýmissa borga í Evrópu um að lögleiða tiltekin eiturlyf. Reykja­víkurborg var ein af 21 stofnborg samtakanna ásamt m.a. Lundúnum, París, Berlín, Stokk­hólmi og Moskvu. Aðildarborgir samtakanna eru nú orðnar tæplega 200 talsins. Allar höfuð­borgir Norðurlanda að Kaupmannahöfn undanskilinni eru þátttakendur í samtökunum. Megintilgangurinn með starfi samtakanna er að hvetja borgir til aðgerða og baráttu gegn ólöglegum fíkniefnum í stað þess að gefast upp í baráttunni gegn þeim og lögleiða þessi efni. Skrifstofa samtakanna er í Stokkhólmi. Áætlunin Ísland án eiturlyfja er liður í stærri áætlun samtakanna um Evrópu án eiturlyfja árið 2012. Samtökin vonast til að árangur af verkefnum sem hrundið verður af stað hér á landi verði slíkur að þau geti orðið fyrirmyndir fyrir aðr­ar borgir í baráttunni gegn eiturlyfjum.
    Hinn 6. febrúar 1997 undirrituðu Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra f.h. ríkisstjórnar­innar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgastjóri f.h. Reykjavíkurborgar og Åke Setréus fram­kvæmdastjóri samtakanna Evrópuborgir gegn eiturlyfjum fyrir hönd samtakanna, samstarfs­samning um þessa áætlun.
    Með samstarfssamningnum hafa ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg og Samtökin Evrópuborgir gegn eiturlyfjum ákveðið að taka höndum saman og vinna að áætluninni Ísland án eiturlyfja. Meginmarkmið samstarfsins er að sameina krafta þjóðarinnar í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum, efla forvarnir, og skipuleggja verkefni og aðgerðir sem hafa þetta markmið að leiðarljósi. Samtök Evrópuborga telja að Ísland eigi mikla möguleika á því að stemma stigu við innflutningi og dreifingu eiturlyfja vegna landfræðilegrar legu landsins.
    Áætluninni hefur verið skipuð sérstök stjórn sem í eiga sæti fimm fulltrúar. Á árinu 1998 störfuðu eftirtaldir í stjórn áætlunarinnar: Dögg Pálsdóttir hrl., formaður, tilnefnd af dóms­málaráðherra, Ingibjörg Broddadóttir deildarstjóri til 1. júlí og Guðrún Ögmundsdóttir frá þeim tíma, tilnefndar af félagsmálaráðherra, Hrafn Pálsson deildarstjóri, tilnefndur af heil­brigðis- og tryggingamálaráðherra, Kristín A. Árnadóttir aðstoðarkona borgarstjóra til 1. ágúst og Jón Björnsson framkvæmdastjóri eftir það, tilnefnd af borgarstjóra og Åke Setréus framkvæmdastjóri hjá samtökum Evrópuborga. Í byrjun árs 1998 gekk Samband ísl. sveitar­félaga formlega til samstarfs við áætlunina og tilnefndi Soffíu Gísladóttur félagsmálastjóra í verkefnisstjórnina.
    Snjólaug Stefánsdóttir uppeldisfræðingur og námsráðgjafi hefur verið verkefnisstjóri þess frá upphafi, í hálfu starfi. Frá 1. maí 1998 var Hildur Hafstein félagsfræðingur ráðin til verk­efnisins í hálft starf. Að verkefninu starfa því í einu stöðugildi tveir einstaklingar.
    Verkefnisstjórnin hafði 6,3 m.kr. til ráðstöfunar á árinu 1998, þ.e. 4,8 m.kr. úr Forvarna­sjóði og 1,5 m.kr. frá Reykjavíkurborg. Í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í mars 1998 hækkaði framlag ríkisins úr 3 m.kr. á árinu 1997 í 4,5 á árinu 1998. Auk þess veitti For­varnasjóður áætluninni styrk að fjárhæð 300 þús. kr. vegna samstarfs við ýmsa aðila. Framlag Reykjavíkurborgar hækkaði að sama skapi á árinu 1998 úr 1 m.kr. í 1,5 m.kr. Hf. Eimskipa­félag Íslands styrkti áætlunina með 1,5 m.kr. á árinu 1998 eins og árið 1997. Auk þess hefur félagið lofað sömu fjárhæð á árinu 1999.
    Verkefnisstjórnin skilaði í apríl 1997 drögum að verkefnaáætlun ársins 1997 ásamt drög­um að fimm ára áætlun. Þar var lögð megináhersla á aðgerðir til að virkja þjóðfélagið í heild í baráttunni gegn eiturlyfjum og fá sem flesta til samstarfs um þessa áætlun. Áætlun þessi er í stöðugri endurskoðun. Ný verkefnaáætlun var lögð fram í ársbyrjun 1998 vegna þess árs og var unnið samkvæmt henni á árinu. Verkefnisstjórnin hefur tekið saman skýrslu um starf sitt á árinu 1998 og er hún fylgiskjal II með þessari skýrslu. Þar er einnig að finna tillögur verk­efnisstjórnarinnar um verkefnaáætlun ársins 1999.
    Verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja leggur til að aðilar þeir sem að áætluninni standa samþykki að áætlunin verði færð undir starfsemi Áfengis- og vímuvarnaráðs, þó þannig að áætluninni stýri sérstakur stýrihópur þar sem Áfengis- og vímuvarnaráð tilnefni tvo, Reykjavíkurborg einn og Evrópuborgir gegn eiturlyfjum einn. Áætlunin verði áfram fjár­hagslega sjálfstæð með framlagi úr Forvarnasjóði og frá öðrum samstarfsaðilum og að heildarframlög til hennar lækki ekki frá því sem þau voru á árinu 1998.

4. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í mars 1998.
    Eins og vikið var að í inngangskafla ákvað ríkisstjórnin, í tengslum við umfjöllun á skýrsl­um um framgang mála á árinu 1997, frekari útfærslu á stefnumörkun sinni íáfengis-, tóbaks- og vímuvörnum. Verður nú vikið að einstökum ákvörðunum og framvindu mála á árinu 1998.

4.1.     Stofnun Áfengis- og vímuvarnaráðs.
    Ríkisstjórnin ákvað að Áfengis- og vímuvarnaráð tæki til starfa 1. janúar 1999 enda yrði frumvarp til laga um ráðið samþykkt á vorþingi 1998.
    Stofnun Áfengis- og vímuvarnaráðs var meðal þátta í aðgerðum þeim sem ríkisstjórnin samþykkti 3. desember 1996. Nefnd ráðuneyta samdi drög að frumvarpi um ráðið haustið 1996 sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lagði fyrir 121. löggjafarþing. Frumvarpið náði þá ekki fram að ganga.
    Frumvarp til laga um áfengis- og vímuvarnaráð var lagt fram að nýju á vorþingi 1998 og var samþykkt sem lög nr. 75/1998 sem gengu í gildi 1. júlí 1998. Tilgangurinn með stofnun ráðsins er að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir sérstaklega meðal barna og ungmenna og sporna gegn afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna. Markmiðið með starf­semi hins nýja Áfengis- og vímuvarnaráðs er að stuðla að samvinnu og samræmingu milli þeirra aðila sem starfa að áfengis- og vímuvörnum. Þá mun ráðið fylgjast með að framfylgt verði stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.
    Hinn 28. september 1998 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra eftirtalda í Áfengis- og vímuvarnaráð:
     *      Þórólfur Þórlindsson formaður og Kolfinna Jóhannesdóttir til vara.
     *      Hörður Pálsson tilnefndur af forsætisráðuneyti og Jóna Gróa Sigurðardóttir til vara.
     *      Inga Dóra Sigfúsdóttir tilnefnd af fjármálaráðuneyti og Hanna Birna Kristjánsdóttir til vara.
     *      Dögg Pálsdóttir tilnefnd af dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Karl Steinar Valsson til vara.
     *      Ingibjörg Broddadóttir tilnefnd af félagsmálaráðuneyti og Guðrún Ögmundsdóttir til vara.
     *      Sigrún Aðalbjarnardóttir tilnefnd af menntamálaráðuneyti og Sigríður Hulda Jónsdóttir til vara.
     *      Magnea Ingibjörg Eyvinds tilnefnd af utanríkisráðuneyti og Þorvaldur Jóhannesson til vara.
     *      Ásta Sigurðardóttir tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Soffía Gísladóttir til vara.
    Ráðið tók formlega til starfa 1. janúar 1999 og frá sama tíma var Áfengisvarnaráð lagt nið­ur. Áfengis- og vímuvarnaráð hóf þó undirbúning að starfsemi sinni á haustdögum 1998. Þor­gerður Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur var ráðinn framkvæmdastjóri ráðsins.
    Markmiðið með starfsemi Áfengis- og vímuvarnaráðs er að uppræta fíkniefnaneyslu og draga stórlega úr áfengisneyslu. Ráðinu er ætlað að stuðla að samvinnu og samræmingu milli þeirra sem starfa að áfengis- og vímuefnavörnum, svo sem heilsugæslu og annarra heil­brigðisstofnana, félagsmálayfirvalda sveitarfélaga, löggæslu, menntakerfis, refsivörslukerfis og félagasamtaka. Þá á ráðið að gera tillögur til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um veitingu styrkja úr Forvarnasjóði og stuðla að rannsóknum á sviði áfengis- og vímuvarna og stuðla að útgáfu fræðslugagna um áfengis- og vímuvarnir.
    Þá er Áfengis- og vímuvarnaráði ætlað að fylgjast með framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinn­ar á þessu sviði og tekur ráðið því yfir verkefni samstarfsnefndar ráðuneyta frá 1. janúar 1999.

4.2.     Tengja verkefni ráðuneyta við áætlunina Ísland án eiturlyfja.
    Ríkisstjórnin ákvað að fela ráðuneytum sem vinna að verkefnum á sviði áfengis-, tóbaks- og vímuvarna að tengja þau með áberandi hætti við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á þessu sviði og eftir því sem kostur er áætluninni Ísland án eiturlyfja.
    Erfitt er að meta hvernig til hefur tekist í framkvæmd með þessa ákvörðun en þó virðist sem ráðuneyti sem vinna að verkefnum á þessu sviði tengi þau í vaxandi mæli a.m.k. við stefnu ríkisstjórnarinnar.

4.3.     Skipa vinnuhóp um aðgerðir til að loka fyrir ólöglegan innflutning.
    Ríkisstjórnin ákvað að skipaður yrði vinnuhópur sem í ættu sæti yfirmenn tollamála og lögreglumála og fulltrúi utanríkisráðherra auk formanns sem dómsmálaráðherra og fjármála­ráðherra tilnefndu í sameiningu. Verkefni vinnuhópsins yrði að skoða til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að loka fyrir ólöglegan innflutning fíkniefna.
    Eins og fram kemur í kafla 2.1.1 skipaði dómsmálaráðherra slíkan vinnuhóp sumarið 1998. Stefnt er að því að vinnuhópurinn skili tillögum sínu í byrjun árs 1999.

4.4.     Verja fjármunum til rannsókna.
    Ríkisstjórnin ákvað að verja 2 m.kr. af ráðstöfunarfé sínu á árinu 1998 til rannsókna á sviði áfengis- tóbaks- og vímuvarna samkvæmt nánari ákvörðun nefndar ráðuneyta um samræmingu aðgerða vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum.
    Nefnd ráðuneyta ákvað að fjármunum þessum yrði varið sem hér segir:
     1.      Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor vegna rannsókna, 1 m.kr.
     2.      Vegna nýrra rannsókna, þ.á m. vegna neyslukönnunar vorið 1998, undirbúnings ESPAD-rannsóknar vorið 1999 og undirbúnings neyslukönnunar meðal aldurshópsins 16–20 ára, 1 m.kr.
    Nefndin telur að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að verja 2 m.kr. af ráðstöfunarfé sínu á árinu 1998 hafi verið mikilvæg. Þessir fjármunir gerðu kleifa úrvinnslu úr rannsóknargögnum sem þegar hefur verið safnað auk þess sem hafist var handa við undirbúning frekari rann­sókna. Nefndin leggur til að ríkisstjórnin styðji að nýju á árinu 1999 við rannsóknir á þessu sviði með svipaðri fjárveitingu og á síðasta ári og að Áfengis- og vímuvarnaráði verði falið að ráðstafa fjármununum.

4.4.1.     Rannsóknir Sigrúnar Aðalbjarnardóttur prófessors.
    Nefnd ráðuneyta ákvað að verja helmingi af rannsóknafjárveitingu ríkisstjórnarinnar til Sigrúnar Aðalbjarnardóttur prófessorstil úrvinnslu tveggja þátta úr langtímarannsókn sem hún hefur gert á áfengis- og fíkniefnaneyslu reykvískra ungmenna. Í rannsókninni fylgdi hún reykvískum unglingum frá 14–17 ára aldurs og lagði fyrir þá spurningalista þrjú ár í röð. Veittur var styrkur til að skoða rannsóknargögnin annars vegar vegna tengsla uppeldishátta foreldra og áfengis- og fíkniefnaneyslu og hins vegar vegna tengsla vímuefnaneyslu við hvat­vísi, árásargirni og afbrotahneigð.
     Áfengis- og fíkniefnaneysla reykvískra ungmenna: Tengsl við uppeldishætti foreldra og áfengis- og fíkniefnaneysla. 5 Úrvinnslu úr þessum hluta rannsóknarinnar lauk í september 1998 og var skýrsla þar að lútandi þá kynnt fyrir ríkisstjórninni auk þess sem henni voru gerð skil í fjölmiðlum.
    Í þessum hluta rannsóknarinnar voru lagðir spurningalistar fyrir unglingana í þrjú ár í röð til að kanna áfengis- og fíkniefnaneyslu þeirra, uppeldishætti foreldra og áfengisneyslu for­eldra og vina.
    Í rannsókninni er foreldrum skipt í fjóra hópa eftir því hvað einkenni uppeldishætti þeirra. Við flokkunina er byggt á mati unglinganna á uppeldisháttunum.
     *      Leiðandi foreldrar (authoritative). Þeir krefjast þroskaðrar hegðunar af barninu og taka vel á móti hugmyndum þess. Þeir setja skýr mörk um hvað er tilhlýðilegt og hvað ekki, nota til þess útskýringar og hvetja börnin til að skýra út sjónarmið sín. Þeir eru hvorki uppáþrengjandi né setja börnunum stólinn fyrir dyrnar. Þeir sýna börnunum mikla hlýju og uppörvun.
     *      Eftirlátir foreldrar (permissive). Þeir bregðast vel við hugmyndum barna sinna, leyfa töluverða sjálfsstjórn og sýna þeim hlýju. Hins vegar setja þeir börnunum ekki skýr mörk. Þeir eru undanlátssamir og forðast beina árekstra.
     *      Skipandi foreldrar (authoritarian). Þeir stjórna börnunum með boðum og bönnum og þeir refsa þeim fyrir misgjörðir. Reglur eru skýrar. Þeir vænta þess að skipunum þeirra sé hlýtt án útskýringa. Þeir nota því sjaldan röksemdir og sýna börnunum litla hlýju og upp­örvun.
     *      Afskiptalausir foreldrar (rejective-neglecting). Þeir ala börnin upp í stjórnleysi, setja ekki mörk og gera ekki kröfur til þeirra. Þeir bregðast ekki við hugmyndum þeirra og veita þeim ekki stuðning. Vanræksla einkennir uppeldisaðferðir þeirra.
    Úrvinnsla úr langtímarannsókn Sigrúnar um tengsl áfengis- og fíkniefnaneyslu reykvískra ungmenna við uppeldishætti foreldra sýnir að marktækur munur er á neyslu ungmennanna eftir uppeldisháttum foreldra. Í samantekt í lok skýrslunnar segir:
    „Niðurstöður okkar ættu:
     *      að hvetja foreldra til að nota leiðandi uppeldishætti, sem fela í sér að í samræðu eru löðuð fram bæði sjónarmið unglingsins og foreldranna, mörk eru sett, þau útskýrð og rædd, og unglingurinn nýtur stuðnings og hlýju.
     *      að vekja athygli á því að þótt foreldrum sem nota eftirláta uppeldishætti takist þokkalega að halda unglingum sínum frá áfengisneyslu á fyrri hluta unglingsáranna neytir hátt hlut­fall þeirra við 17 ára aldurs mikils magns í hvert sinn. Einnig hefur svipað hlutfall þeirra prófað hass við 17 ára aldur og unglinga sem býr við afskiptalausa uppeldishætti.
     *      að vekja athygli á því að þótt foreldrum sem nota skipandi uppeldishætti takist þokkalega að vernda unglinga sína gegn hass- og amfetamínneyslu eru þeir unglingar líklegri til að neyta áfengis við 14 ára aldur en unglingar leiðandi foreldra.
     *      að fá foreldra til að hugleiða að áfengisneysla þeirra eykur líkur á því að unglingar þeirra neyti áfengis fyrir 14 ára aldur.
     *      að minna á að áfengisneysla vina tengist áfengisneyslu unglinga.
     *      að vekja athygli foreldra á líkum á því að unglingur neyti ólöglegra fíkniefna síðar ef hann neytir áfengis eða reykir við 14 ára aldur.
     *      að vekja athygli á því að piltar eru líklegri en stúlkur til að neyta hass og neyta mikils magns áfengis við 17 ára aldur. Af unglingum sem ekki reykja 14 ára eru piltar einnig líklegri en stúlkur til að hafa neytt amfetamíns við 17 ára aldur.“
     Áfengis- og fíkniefnaneysla ungmenna: Tengsl við árásargirni og andfélagslega hegðun. 6 Í þessari rannsókn eru kynntar niðurstöður þar sem 1300 reykvískum unglingum var fylgt eft­ir frá 14 ára til 17 ára. Spurningalistar, m.a. um vímuefnaneyslu, árásargirni og andfélagslega hegðun voru lagðir fyrir unglinganna þrjú ár í röð. Sjónum var beint að árásargirni unglinga og andfélagslegri hegðun þeirra og hvernig slík hegðun tengist vímuefnaneyslu.
    Með árásargirni er átt við hegðun sem beint er að öðrum einstaklingi með það fyrir augum að meiða eða skaða hann, hvort sem hún er yrt eða óyrt. Hugtakið nær því yfir margvíslega hegðun, svo sem hótanir, slagsmál og ofbeldi. Með andfélagslegri hegðun er átt við verknað sem ekki er í samræmi við viðurkennda hegðun eða þau lög sem gilda í samfélaginu, en í hegðuninni þarf ekki endilega að felast lögbrot.
    Markmiðið með rannsókninni var að athuga hvort árásargirni og andfélagsleg hegðun við 14 ára aldur skipti máli um líkur á því að íslenskir unglingar neyti vímuefna við 14 og 17 ára aldur. Rétt er að benda á að annmarkar á rannsókninni voru m.a. þeir að stuðst var við mat unglinganna sjálfra á árásargirni og andfélagslegri hegðun í stað þess að fá einnig fram mat foreldra og kennara. Kostirnir eru hins vegar þeir að unglingar geta falið hegðun sína fyrir fullorðnum enda hafa rannsóknir sýnt fram á að frásagnir barna og unglinga um afbrot, skemmdaverk og vímuefnaneyslu séu réttmætar. Niðurstöðurnar hvíla þó á traustum grunni, bæði vegna þess að þeim sem neyttu vímuefna við 14 ára aldur var sleppt í úrvinnslu þegar spáð var um vímuefnaneyslu við 17 ára aldur
    Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru:
     *      Unglingar sem sýna mikla árásargirni eða andfélagslega hegðun eru líklegri til að hafa prófað að reykja 14 ára en aðrir.
     *      Unglingar sem ekki hafa prófað að reykja við 14 ára aldur en sýna mikla árásargirni eða andfélagslega hegðun eru líklegri til að reykja daglega við 17 ára aldur en þeir sem sýna litla árásargirni eða andfélagslega hegðun við 14 ára aldur.
     *      Þeir 14 ára unglingar sem sýna mikla árásargirni eða andfélagslega hegðun eru líklegri til að hafa prófað að drekka áfengi 14 ára en þeir sem sýna litla árásargirni eða andfé­lagslega hegðun. Í hópi þeirra sem sýna mikla andfélagslega hegðun eru stúlkur líklegri til að hafa neytt áfengis 14 ára en piltar.
     *      Unglingar sem sýna mikla árásargirni eða andfélagslega hegðun og hafa ekki prófað að drekka áfengi við 14 ára aldur eru líklegri til að neyta áfengis í miklu magni í hvert skipti sem þeir drekka 17 ára gamlir en þeir sem sýna litla árásargirni eða andfélagslega hegðun.
     *      Meðal unglinga sem mælast með mikla árásargirni eða andfélagslega hegðun 14 ára eru þeir líklegri til að neyta áfengis í miklu magni 17 ára sem eiga vini sem neyta áfengis við 14 ára aldur en hinir. Ef unglingar sýna litla árásargirni eða andfélagslega hegðun við 14 ára aldur skiptir ekki máli um áfengisneyslu þeirra þremur árum síðar hvort vinir þeirra neyti áfengis eða ekki.
     *      Þeir 14 ára unglingar sem sýna mikla árásargirni eða andfélagslega hegðun og hafa ekki prófað hass eru líklegri til að hafa prófað hass 17 ára gamlir en þeir sem sýna litla árásar­girni eða andféalgslega hegðun við 14 ára aldur.
     *      Unglingar sem sýna mikla árásargirni eða andfélagslega hegðun og hafa ekki prófað amfetamín 14 ára eru líklegri til að hafa prófað amfetamín 17 ára gamlir en þeir sem sýna litla árásargirni eða andfélagslega hegðun við 14 ára aldur.
    Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að unglingum er hættara við að reykja og drekka 14 ára gamlir ef þeir sýna á þessum aldri mikla árásargirni eða andfélagslega hegðun. Þær leiða enn fremur í ljós að líkur eru meiri á því að unglingar sem við 14 ára aldur hafa jafnvel ekki prófað vímuefni en mælast árásargjarnir eða sýna andfélagslega hegðun reyki daglega við 17 ára aldur, drekki mikið í senn og hafi prófað hass eða amfetamín. Árásargirni og and­félagsleg hegðun við 14 ára aldur spáir þannig fyrir um daglegar reykingar og mikla áfengis­neyslu við 17 ára aldur. Andfélagsleg hegðun og árásargirni unglinga við 14 ára aldur spáir jafnframt fyrir um fíkniefnaneyslu (hass og amfetamín) þeirra við 17 ára aldur.
    Áhugavert er hve þættirnir árásargirni og andfélagsleg hegðun við 14 ára aldur í hópnum sem ekki hefur neytt vímuefna spáir sterkt fyrir um vímuefnaneyslu unglinnanna síðar á æv­inni. Það vekur upp spurningar um það hvort niðurstöðuna megi nýta í forvarnarstarfi.

4.4.2.     Aðrar rannsóknir.
    Nefnd ráðuneyta ákvað að verja helmingi af rannsóknafjárveitingu ríkisstjórnarinnar til neyslukönnunar í 8.–10. bekk grunnskóla vorið 1998, undirbúnings ESPAD rannsóknar vorið 1999 og undirbúnings neyslukönnunar meðal aldurshópsins 16–20 ára.
    Verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja ákvað vorið 1998 að láta gera neyslukönnun í 8.–10. bekk grunnskóla. Rannsóknin var gerð í apríl 1998 undir yfirstjórn Þórólfs Þórlindssonar prófessors. Forvarnasjóður styrkti rannsóknina með 1 m.kr. styrk en heildar­kostnaður varð meiri og var mismunurinn fjármagnaður með styrk af fjárveitingu ríkisstjórn­arinnar til rannsókna samkvæmt ákvörðun nefndar ráðuneyta.
    Niðurstöður rannsóknarinnar hafa ekki verið birtar en þær sýna að lítil breyting varð á reykingum og áfengisneyslu nemenda milli áranna 1997 og 1998. Hins vegar jókst hassneysla milli þessara ára og hafa 5% nemenda í 8. bekk, 8,4% nemenda í 9. bekk og 16,5% nemenda í 10. bekk notað hass einu sinni eða oftar. Hlutfall nemenda í 10. bekk sem hefur prófað hass jókst um 3,5% milli áranna 1997 og 1998.
    Þessar neyslutölur sýna að mikilvægt er að fylgjast með þróun mála. Meðal lögbundinna verkefna nýs Áfengis- og vímuvarnaráðs er að gera neyslukannanir reglulega og bregðast við niðurstöðum þeirra í forvarnastarfi.
    Árið 1995 var Ísland þátttakandi í fjölþjóðlegri könnun, sem kallast ESPAD (European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs). Könnunin er framkvæmd að tilstuðlan Evrópuráðsins og er lögð fyrir 100.000 nemendur á aldrinum 15–16 í 25 löndum. Annar hluti rannsóknarinnar sem er gerð á þriggja ára fresti, á neyslu evrópskra ungmenna á áfengi, tóbaki og öðrum vímuefnum verður lagður fyrir í mars 1999 í öllum 10. bekkjum á Íslandi.
    Nefnd ráðuneyta um samræmingu aðgerða vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum styrkti undirbúning þessarar könnunar með styrk af fjárveitingu ríkisstjórnarinnar til rann­sókna. Inga Dóra Sigfúsdóttir félagsfræðingur hefur umsjón með undirbúningi, framkvæmd og úrvinnslu könnunarinnar. Ráðgjafi við könnunina er Þórólfur Þórlindsson prófessor. Eftir að Áfengis- og vímuvarnaráð tók til starfa um síðustu áramót hefur það stutt undirbúninginn og mun standa að framkvæmdinni ásamt fleiri opinberum aðilu, þ.á m. Tóbaksvarnanefnd og áætlunin Ísland án eiturlyfja.
    Verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hefur um nokkurt skeið haft með höndum frumundirbúning neyslukönnunar í aldurshópnum 16–20 ára en slík neyslukönnun hefur ekki verið gerð. Nefnd ráðuneyta um samræmingu aðgerða vegna átaks í ávana og fíkniefna­vörnum styrkti þennan undirbúning af margnefndri fjárveitingu ríkisstjórnarinnar til rann­sókna.

4.5.     Vegna áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja.
    Vegna áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja tók ríkisstjórnin eftirfarandi ákvarðanir:
     *      Að óskað verði eftir því að árlegt framlag ríkisins úr Forvarnasjóði til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hækki í 4,5 m.kr. enda hækki framlag Reykjavíkurborgar samsvarandi.
             Framlag til áætlunarinnar hækkaði úr 4 m.kr. í 6,3 m.kr. sbr. það sem áður er rakið í kafla 3.
     *      Að Samband íslenskra sveitarfélaga gerist aðili að áætluninni Ísland án eiturlyfja og tilnefni fulltrúa í verkefnisstjórn áætlunarinnar.
             Samband íslenskra sveitarfélaga samþykkti að gerast aðili að áætluninni og tilnefndi fulltrúa í verkefnisstjórnina, sbr. það sem áður er rakið í kafla 3.
     *      Að verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hafi reglulega samráð við þá aðila sem starfa að vímuvörnum.
             Fyrir tilstuðlan verkefnisstjórnar áætlunarinnar hófst reglulegt samráð aðila sem starfa að vímuvörnum síðari hluta ársins 1998. Eftir að Áfengis- og vímuvarnaráð tók formlega til starfa 1. janúar 1999 hefur það tekið þátt í þessu samráði og ráðgert er að umsjón með því færist í hendur ráðsins enda er reglulegt samráð við þessa aðila meðal lögbundinna verkefna ráðsins.
     *      Að öll verkefni sem Forvarnasjóður styrkir verði tengd áætluninni Ísland án eiturlyfja eftir því sem kostur er og að stjórn sjóðsins hafi samráð við verkefnisstjórn áætlunarinn­ar við árlega úthlutun.
             Stjórn Forvarnasjóðs kallaði formann verkefnisstjórnar áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja á sinn fund er hún vann að úthlutun vegna ársins 1998. Jafnframt leitaðist stjórn sjóðsins við að tengja verkefni sem styrkt voru við áætlunina auk þess sem hún úthlutaði til áætlunarinnar viðbótarfjármunum til smærri samstarfsverkefna.

5. Þróunin í neyslu ungmenna.
    Um nokkurra ára skeið hefur með reglulegu millibili verið gerð umfangsmikil neyslukönn­un í 8.–10. bekkjum grunnskóla til að kanna neyslu unglinga og ýmis tengsl neyslu og fjöl­skylduþátta. Slík könnun var síðast gerð vorið 1997. Fyrir tilstilli styrks frá forvarnasjóði, áætluninni Ísland án eiturlyfja og Tóbaksvarnanefnd var unnið úr könnun og niðurstöður birtar í bók í mars 1998.
    Niðurstöðurnar drógu upp nokkuð dökka mynd af stöðunni í neyslu 14 og 15 ára unglinga (í 9. og 10. bekk grunnskóla) vorið 1997, ekki síst í áfengi og tóbaki. Auk þess leiddi könnunin í ljós að allnokkur hópur ungmenna 14 og 15 ára hefur prófað hass annars vegar og am­fetamín hins vegar.
    Verkefnisstjórn Íslands án eiturlyfja taldi mikilvægt að gera nýja neyslukönnun vorið 1998 til að sjá þróunina milli áranna 1997 og 1998 og fékk til þess 1 m.kr. styrk frá forvarna­sjóði.
    Niðurstöður þeirrar könnunar liggja nú fyrir og sýna að helstu breytingarnar milli ára liggja í hassneyslu ungmenna. Að öðru leyti er fátt um þessa könnun að segja, en hún er mikilvæg í safn rannsóknaniðurstaða yfir tíma um neyslu ungmenna. Með niðurstöðum ESPAD-könnunarinnar sem gerð verður vorið 1999 munu fást nýjar neyslutölur úr 10. bekk grunnskólans til að bera saman við eldri tölur.

6. Staða mála tveimur árum eftir samþykkt ríkisstjórnar á aðgerðum í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
    Um árabil hefur verið kallað eftir stefnumörkun ríkisstjórna á sviði fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvarna. Með vinnu sem hófst á vegum ríkisstjórnarinnar í byrjun árs 1996 var lagður grunnur að slíkri stefnumörkun sem ríkisstjórnin síðan samþykkti 3. desember 1996. Í því fól­ust mikilvæg tímamót í starfi ríkisstjórnarinnar og annarra opinberra aðila að fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
    Frá þeim tíma hafa ráðuneyti og undirstofnanir sem að þessum málum koma unnið mark­visst og ötullega á þessu sviði í samræmi við þá stefnumörkun.
    Samstarfsnefnd ráðuneyta hefur fylgst með framkvæmd stefnumörkunarinnar og skilað skýrslum um framgang mála, í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Skýrslan vegna árs­ins 1997 og þessi skýrsla sem hér birtist fyrir árið 1998 sýna að ýmislegt hefur áunnist á þess­um tíma. Samhljómur hefur aukist meðal þeirra sem að þessum málum starfa varðandi hvaða verkefni þurfi að hafa forgang. Þannig er vaxandi áhersla á mikilvægi foreldra og á að for­varnir á þessu sviði byrji heima.
    Ýmsir telja að auknum fjármunum þyrfti að verja til þessara verkefna en mikilvæg aukn­ing varð frá og með árinu 1997 með viðbótarfjárveitingum til löggæslu, tollgæslu og for­varna.
    Árangur í starfi að fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum mælist yfir langan tíma þó þróun megi sjá yfir skemmri tíma. Fullyrða má að almenningur hefur vaknað til vitundar um þá vá sem í vímuneyslu felst og mikilvægi þess að sporna við fótum svo kröftuglega sem kostur er. Sömuleiðis er vaxandi skilningur, ekki síst meðal foreldra, á mikilvægi hlutverks þeirra í þessu sambandi. Rannsóknir sýna að uppeldisaðferðir foreldra skipta máli í þessu sambandi. Mikilvægt er því að koma þessu upplýsingum á framfæri við foreldra og reynslan sýnir að foreldrar eru þakklátir fyrir alla fræðslu á þessu sviði. Þessa fræðslu þarf markvisst að auka og hefja hana fyrr, jafnvel strax í ungbarnaeftirliti, en a.m.k. eigi síðar en á leikskólaaldri barnanna.
    Sömuleiðis er mikilvægt að huga að námsefni í lífsleikni sem gerir nemendur færari til að takast á við lífið og styrkir þá í þeirri ákvörðun að segja nei bjóðist þeim fíkniefni. Forvarna­starf af þessu tagi er mun líklegra til árangur heldur en hræðsluáróður, boð og bönn jafnframt því sem það hefur margþætt áhrif til að styrkja einstaklinganna sem einstaklinga og persónur.


Fylgiskjal I.


Forvarna- og fræðsludeild lögreglunnar í Reykjavík (FFD): 1

    Samfara gildistöku lögreglulaganna, 1. júlí 1997, urðu verulegar breytingar á þessari deild sem tilheyrir hinni almennu deild lögreglunnar í Reykjavík. Þessar breytingar voru annars vegar á skipulagi og hins vegar á verkefnum og skipt var um nær alla starfsmenn. Yfirmaður deildarinnar nú er Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn sem er afbrotafræðingur. Lögreglufulltrúi er Guðmundur Gígja. Starfsmennirnir eru nú 11 auk veitingahúsaeftirlits­manna og ætlunin var að starfsmenn yrðu einum fleiri en horfið hefur verið frá því í bili vegna mannfæðar í lögreglunni í Reykjavík.
    Karl Steinar hefur umsjón með ýmsum leyfisveitingum, með eftirliti með veitingahúsunum og eftirlitsmönnum þeirra en á svæði LR eru 174 veitingahús.
    Þá hefur hann flutt mikinn fjölda erinda um afbrot, forvarnir og starfsemi lögreglunnar og setið víða fyrir svörum um þessi efni. Hann sér einnig um verulegan hluta af samskiptum lög­reglunnar í Reykjavík við fjölmiðla auk fjölmargra annarra verkefna fyrir yfirstjórn lögregl­unnar í Reykjavík.
    Á sl. ári varð breyting á lögum um sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja og nýjar reglugerðir voru gefnar út. Á svæði LR eru 44 slíkar sölur og hefur undirritaður séð um að hafa eftirlit með þeim. Leyfamál þeirra eru nú komin í þokkalegt horf og verið er að skoða hvort söluskjöl séu í samræmi við ný reglugerðarákvæði. Einni bílasölu hefur verið lokað á tímabilinu og fleiri verið undir sérstöku eftirliti. Síðastliðið haust var gert átak til að útrýma þeirri tegund nytjastulda á bílasölum, þegar menn fá að skoða bíl og skila honum ekki aftur. Það er nú nær óþekkt að þetta gerist án þess að bílasalinn viti hver hafi fengið bílinn.
    Allar myndbandaleigur á svæði LR hafa verið skoðaðar til að kanna merkingar á spólum og verður því fylgt eftir ef menn lagfæra ekki það sem er ábótavant. Á sl. hausti voru forráða­menn kvikmyndahúsa og spilasala einnig minntir á þær reglur sem um þá gilda.
    Auk fræðslu fyrir grunnskólanema er mikið um fræðslu fyrir alls konar aðra hópa. Þar má nefna starfsfólk skóla, foreldra, nemendur í framhaldsskólum, starfsfólk í heilbrigðisþjónustu, starfsfólk félagsmiðstöðva, fangaverði, leigubílstjóra, dyraverði samkomuhúsa, starfsmenn í unglingavinnu og marga fleiri. Þetta er að verulegu leyti fræðsla um fíkniefni, áhrif þeirra og neysluaðferðir, afbrot og fleiri afleiðingar neyslunnar. Þá hefur allmikið verið fjallað um afbrot unglinga, einelti og ýmis fleiri atriði því skyld í skólum, félagsmiðstöðvum og fyrir foreldra.
    Þá voru sl. haust með aðstoð sérsveitarinnar haldin mörg námskeið fyrir verslunarfólk í samvinnu við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, Kaupmannasamtök Íslands, Kringluna og Miðborgarsamtökin þar sem frætt var rækilega um búðahnupl og rán. Árni Friðleifsson, lögreglumaður sá um þessi námskeið sem mæltust vel fyrir en þau sátu á fimmta hundrað manns og eru ráðgerð fleiri slík.

Helstu málaflokkar:
     Vímuefnavandi fullorðinna. Þessi málaflokkur er í höndum Axels Kvaran, varðstjóra, sem fylgist alla daga með þeim sem koma í fangageymslur lögreglunnar. Hann ræðir við þá sem koma oft í fangageymsluna, kannar aðstæður þeirra, viðhorf og hvort þeir séu tilbúnir til að gera eitthvað í sínum málum. Ef möguleiki er á slíku aðstoðar hann þessa menn við að fá pláss á einhverri meðferðarstofnun og oftar en ekki fylgir hann þeim á staðinn svo að þeir gefist ekki upp á miðri leið. Axel hefur langa reynslu af þessum málum auk þess að vera öll­um hnútum kunnugur á meðferðarstofnunum og hann þekkir öðrum mönnum betur þau úr­ræði sem tiltæk eru á þessu sviði. Algengt er að menn komi til Axels til að biðjast aðstoðar í sínum málum, leita ráðgjafar og leiðbeininga. Það er einnig mikið um að foreldrar og aðrir aðstandendur manna í áfengis- og fíkniefnavanda leiti til Axels til að fá ráð og leiðbeiningar, m.a. í sambandi við nauðungarvistun og sjálfræðissviptingar.
     Unglingamálin. Guðni Heiðar Guðnason, lögreglumaður, er með yfirumsjón með öllum þeim málum er snerta ungmenni, yngri en 18 ára, sem koma við sögu lögreglunnar í Reykja­vík. Hann kemur upplýsingum um þau til Félagsmálastofnunar (FR) sem í Reykjavík fer með umboð barnaverndarnefndar. Einu sinni í viku situr hann fundi með fulltrúum frá öllum hverfisskrifstofum FR en hverfislögreglumenn sitja þessa fundi einu sinni í mánuði. Á þess­um fundum er miðlað upplýsingum, rædd vandamál þeirra sem eru í afbrotum og kannaðir möguleikar til úrbóta, en þær leiðir sem standa ungmennum í þessari aðstöðu til boða eru vímuefnameðferð, önnur vistun, hópameðferð og ýmislegt annað. Heiðar er einnig í nánu sambandi við skólastjórnendur í þeim hverfum þar sem ekki eru hverfislögreglumenn. Þannig getur hann tekið þátt í lausn vandamála sem þar koma upp, verið í sambandi við starfsfólk skóla og félagsmiðstöðva og fengið upplýsingar um ástandið. Einnig hefur FFD tekið þátt í skipulagningu átaks í hverfum borgarinnar, svo sem „Betra líf í Bústaðahverfi“, sem er í stíl við „Grafarvogur í góðum málum“, og við undirbúning slíks skipulags í suðausturborginni í kring um félagsmiðstöðina Þróttheima.
    Miðbæjarathvarfið er í verkahring Heiðars. Það er samstarf FR, Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur (ÍTR) og lögreglunnar. Það er opið á föstudagskvöldum og þangað kemur lög­reglan með ungmenni sem eru undir áhrifum vímuefna eða eru komin fram yfir sinn leyfilega útivistartíma. Ef ástæða þykir til er athvarfið fyrri hluta kvölds í einhverju austurhverfi borgarinnar en er síðan flutt í miðborgina upp úr miðnætti því þá fara krakkarnir að safnast þangað. Í athvarfinu eru starfsmenn frá FR og ÍTR og eftir að lögreglan hefur komið með fyrsta hóp ungmenna er þar einnig lögreglumaður til aðstoðar. Auk framangreindra aðila eru hópar frá foreldrafélögum einnig á ferðinni til eftirlits í hinum ýmsu hverfum á þessum kvöldum. Þetta er „foreldraröltið“ sem hefur mikið samstarf við lögreglu, sérstaklega við hverfislögreglumenn. Þetta samstarf hefur þýtt verulegt og vaxandi eftirlit víðsvegar um borgina á þessum kvöldum og stefnt er að því að auka það enn frekar.
    Það er einnig í verkahring Heiðars að sinna málum sem upp koma vegna eineltis og árása meðal unglinga, einkum í skólum og vinna að lausnum á slíkum málum í samvinnu við skóla, FR og foreldra. Í tengslum við þetta starf hafa verið haldnir fræðslufundir í skólum og félags­miðstöðvum og hafa aðrir starfsmenn FFD nýtt tækifærið til að vera með fræðslu á öðrum sviðum sem snerta umhverfi unglinga.
    Eitt af þeim úrræðum sem notað er í vaxandi mæli til að reyna að leiða unglinga af braut vímuefnaneyslu og afbrota er hópastarf. Þá eru valdir nokkrir unglingar í hóp og hann hittist með reglulegu millibili, fær fræðslu og vinnur ýmiskonar verkefni. Þetta hópastarf hefur verið unnið í samvinnu ýmissa starfsmanna FFD, sérsveitarinnar, FR o.fl.
    Hluti starfsins að unglingamálum er að hafa yfirsýn yfir það sem er að gerast í forvörnum á þessu sviði og huga að mótun frekara starfs en Heiðar fór nýlega til Osló og Kaupmanna­hafnar til að kynna sér slíka starfsemi þar.
    Hverfislögreglumenn. Þeir eru Eiður H. Eiðsson, aðstoðarvarðstjóri, sem er í vesturbæ og á Seltjarnarnesi; Einar Ásbjörnsson, rannsóknarlögreglumaður, sem er í Grafarvogi og Mos­fellsbæ; Anna Elísabet Ólafsdóttir, lögreglumaður, sem er í Breiðholtshverfum og Jón Lárus­son, lögreglumaður, sem er í Árbæjarhverfi. Þeir hafa eftirlit með afbrotum í sínum hverfum, og þá sérstaklega með breytingum á einhverju sviði. Þá fylgjast þeir sérstaklega með málum barna og ungmenna, eru í mjög nánu sambandi við hverfisskrifstofu FR, skólastjórnendur, kennara og foreldrafélög á sínu svæði. Starf þeirra á þessu sviði er mjög hliðstætt því sem lýst er í kaflanum um unglingamálin hér að framan. Hverfislögreglumennirnir vinna allmikið með rannsóknardeildunum, sérstaklega í málum barna og ungmenna en einnig í málum um fíkni­efnabrot og landasölu. Þeir eru mjög kunnugir í sínum hverfum, geta oft aðstoðað við uppljóstr­an brota og eru gjarnan með hendina á púlsi þess sem er að gerast í hverfunum.
    Taka má sem dæmi starf Einars í Grafarvogshverfi frá því að hann hóf störf þar sl. haust. Í hverfinu eru um 14 þús. íbúar, fimm skólar og eru unglingar á aldrinum 15–16 ára um 500 í þessum skólum. Félagsmiðstöðvar eru tvær og önnur með útibú. Þarna er Miðgarður, sem er fjölskylduþjónusta með félagsráðgjöfum, sálfræðingum o.fl. Þá er kirkja í hverfinu og mörg félög auk foreldra- og nemendafélaga í skólunum. Þessir aðilar koma að verkefninu „Grafarvogur í góðum málum“ og halda reglulega samráðsfundi sem Einar situr sem hverfis­lögreglumaður og fulltrúi lögreglu. Hann hefur kannað sérstaklega aðgengi unglinga að vímuefnum í hverfinu og unnið að því að stugga við sölumönnum. Nokkrir klíkuhópar hafa verið gerðir „skaðlausir“ og brotamönnum komið í meðferð eða afplánun. Einar gerði athug­un á fíkniefnaneyslu barna í grunnskólunum í hverfinu. Þar kom í ljós allstór hópur neytenda sem áður var óþekktur. Haldnir voru fundir með kennurum og foreldrum þessara nemenda og þeim sjálfum og voru þessir aðilar ánægðir með framtakið. Talið er að þarna hafi verið stungið á talsverðu kýli og mörgum beint á rétta braut. Einar vinnur í nánu samstarfi við starfsfólk FR í Miðgarði við að leysa hin ýmsu vandamál sameiginlegra skjólstæðinga. Sömuleiðis hefur hann samstarf við foreldraröltið sem er virkt í þessu hverfi. Þá hefur hann, ásamt Eiríki Péturssyni, staðið fyrir allmörgum fræðslufundum fyrir nemendur, foreldra og kennara skólanna um fíkniefni, afbrot o.þ.h. ásamt fleiri starfsmönnum FFD. Þetta dæmi er stuttorð lýsing og stiklað á stóru um starfið í einu hverfi en það er svipað hjá hinum hverfislögreglumönnunum.
    Hverfislögreglumennirnir hafa alls staðar verið talin góð og mikilvæg viðbót við aðra lög­gæslu í hverfunum og íbúarnir hafa síst viljað missa þennan hluta löggæslunnar.
    Umferðarfræðslan og önnur fræðsla í skólum. Kristín S. Brandsdóttir lögreglumaður og Eiríkur Pétursson rannsóknarlögreglumaður annast þessa fræðslu að langmestu leyti og hafa einnig tekið að sér ýmiskonar aðra fræðslu innan skólanna. Þessi fræðsla er í mörgum þáttum og er hér aðeins getið þeirra helstu.
    Á haustin er unnið samstarfsverkefni lögreglunnar og Strætisvagna Reykjavíkur, „Rétt með strætó“ sem er fyrir 8 ára nemendur á starfssvæði lögreglunnar í Reykjavík. Börnin eru sótt í skólann í strætisvagni, einn bekkur í senn og þá kynntar hættur við biðstöðvar og í vögnunum. Í aðsetri SVR á Kirkjusandi er rætt um hegðun í og við vagninn og til hvers bið­stöðin er. Síðan eru verklegar æfingar um hvernig á að fara yfir götu og eftir gangbrautar­ljósunum. Á sl. ári fengu 1.535 nemendur fræðslu og hún tók um einn og hálfan mánuð.
    Jólagetraun Umferðarráðs, lögreglu og bæjarfélaganna er umferðargetraun fyrir nemendur í 1.–7. bekk grunnskólanna og er fastur liður á hverjum vetri. FFD hefur umsjón með framkvæmd hennar á svæði LR að öllu leyti þar til kemur að því að því að keyra út verðlaunabæk­urnar en það er samvinnuverkefni lögregluliðsins í Reykjavík síðustu dagana fyrir jól, þegar pakkarnir eru keyrðir heim til barnanna.
    Fræðsla fyrir 7. bekk (12 ára) fer fram seinni hluta vetrar, tekur um hálfan annan mánuð og er í samstarfi við SVR. Börnin koma með strætisvagni á lögreglustöðina ásamt kennara sínum. Þeim er sýndur helsti búnaður lögreglumanna, rætt um útivistarreglur, feril unglinga sem byrja í afbrotum og afleiðingar þess, farið yfir umferðarmerkin, reiðhjól og hjálma, rætt um umferðarslys, afleiðingar þeirra o.fl.
    Á vorin hefst Umferðarskólinn fyrir 5–6 ára börn. Þetta er samstarfsverkefni lögreglu, Um­ferðarráðs og sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir því að hvert barn á þessum aldri mæti með forráða­manni tvo daga í röð í skólann, klukkutíma í senn. Frætt er um gangandi fólk og hættur af völdum bifreiða, notkun reiðhjóla og hjálma, bílstóla og bílbelti o.fl. Á hverju ári fá vel á þriðja þúsund börn þessa fræðslu og tekur verkefnið um fimm vikur fyrir þrjá lögreglumenn.
    Loks skal getið ánægjulegs þáttar í þessu starfi en það eru ferðir eldri borgara fyrir jólin sem eru samvinnuverkefni SVR og lögreglunnar. Á sl. ári voru þetta 9 hópferðir sem farnar voru frá 16 félagsmiðstöðvum aldraðra með strætisvögnum að Vídalínskirkju þar sem séra Hans M. Hafsteinsson og hans starfsfólk tók á móti fólkinu með glæsibrag. Eftir það var fólkið frætt um hættur í umferðinni og dreift endurskinsmerkjum og fræðsluritum. Þátttakendur voru um 500 á sl. ári.
    Fræðsla fyrir lögreglumenn. Ætlunin er að deildin sjái um ýmiskonar fræðslu fyrir lögreglumenn hjá embættinu og kynni þeim helstu nýjungar á þeirra sviði. Ekki hefur unnist tími til að sinna þessu nema að litlu leyti en þó hefur verið aðstoðað við að koma á fyrirlestrum um ýmis mál. Fengnir voru sérfræðingar til að kynna nýju ökuskírteinin og reglugerðarbreytingarnar sl. haust. Íslenskur lögreglumaður flutti erindi um mótorhjólagengi, sögu þeirra og starfsemi, sýndi myndir og svaraði fyrirspurnum en hann hefur kynnt sér þetta mál sérstaklega. Tveir menn komu frá FR til að kynna starfsemi félagsmálastofnunar, bandarískur lögreglumaður flutti erindi um veggjakrot, sænskur lögreglumaður fræddi um einkenni fíkniefnaneyslu og fleira hefur verið á dagskrá.
    Þá eru ýmis önnur verkefni í vinnslu.
    Gagnaöflun og úrvinnsla. Í febrúar var ráðinn til deildarinnar Rannveig Þórisdóttir, félagsfræðingur, sem hafa á umsjón með samantekt á tölulegum upplýsingum og framsetningu þeirra fyrir embættið. Hingað til hefur hún lagt áherslu á það að koma útprentunarmöguleikum úr málaskrá í betra horf. Vonast er til að innan skamms verði hægt að kanna hverjir koma við sögu lögreglunnar í Reykjavík út frá ýmsum bakgrunnsþáttum auk þess sem leitast verður við að afla hagnýtra upplýsinga um eðli afbrota á svæði embættisins og vonast er til að seinna meir verði með áreiðanlegum hætti hægt að meta þróun í þessum málum. Rannveig hefur einnig unnið að ársskýrslu fyrir embættið þar sem kynnt verður starfsemi lögreglunnar í Reykjavík og þær breytingar sem áttu sér stað hjá embættinu á síðastliðnu sumri. Þá verður einnig fjallað um afbrot í Reykjavík og tíðni og eðli nokkurra brotaflokka skoðað.
    Hingað til hefur Rannveig einnig tekið þátt í að leita upplýsinga og vinna svör við þeim fyrir­spurnum sem berast embættinu. Þá hefur hún unnið að ýtarlegri athugun á ölvunarakstri m.a. með tilliti til þess hverjir eru helst teknir fyrir ölvunarakstur, hversu mikið áfengismagn mælist oftast í blóði þeirra sem teknir eru fyrir ölvunarakstur, hvenær slík brot eiga sér helst stað o.s.frv.
    Í framtíðinni verður einnig lögð áhersla á að Rannveig sjái um að kynna gögn frá lögreglunni í Reykjavík í fræðilegu samhengi auk þess að sjá um að upplýsa starfsmenn embættisins um nýjungar á sviði forvarna og annarra þátta tengdum starfi lögreglunnar.
    Loks má geta þess að útlendingaeftirlitið í Reykjavík mun tengjast FFD og verða undir yfir­stjórn Karls Steinars.


Fylgiskjal II.


Áætlunin
Ísland án eiturlyfja.
Skýrsla verkefnisstjórnar 1998.
(Mars 1999.)

I. Inngangur.
    Ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg og evrópsku samtökin ECAD (European Cities Against Drugs), undirrituðu samstarfssamning hinn 6. febrúar 1997 um áætlunina Ísland án eiturlyfja. Áætlunin er liður í stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum sem sam­þykkt var í árslok 1996.
    Í febrúar 1998 gerðist Samband íslenskra sveitarfélaga formlegur aðili að áætluninni. Samningurinn um áætlunina Ísland án eiturlyfja gildir til ársins 2002 og felur m.a. í sér að leitað verði nýrra og markvissari leiða til að koma í veg fyrir innflutning, dreifingu, sölu og neyslu ólöglegra vímuefna. Meginmarkmið áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja er að sameina krafta þjóðarinnar í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum, efla forvarnir og skipuleggja verkefni og aðgerðir sem hafa þetta takmark að leiðarljósi.
    Í verkefnisstjórn áætlunarinnar eiga sæti sex fulltrúar. Á árinu 1998 áttu eftirtaldir sæti í verkefnisstjórninni: Dögg Pálsdóttir hrl., formaður, tilnefnd af dómsmálaráðherra, Ingibjörg Broddadóttir deildarstjóri tilnefnd af félagsmálaráðherra til 1. júlí en Guðrún Ögmundsdóttir deildarstjóri frá þeim tíma, Hrafn Pálsson deildarstjóri, tilnefndur af heilbrigðis- og trygginga­málaráðherra, Kristín A. Árnadótti, aðstoðarkona borgarstjóra tilnefnd af borgarstjóra til 1. ágúst en Jón Björnsson framkvæmdastjóri frá þeim tíma, Soffía Gísladóttir félagsmálastjóri, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Åke Setréus, framkvæmdastjóri tilnefndur af ECAD.
    Verkefnisstjóri er Snjólaug G. Stefánsdóttir, uppeldisfræðingur og námsráðgjafi, og hefur hún starfað við áætlunina frá upphafi. Frá 1. maí 1998 var Hildur Björg Hafstein félagsfræð­ingur, ráðin sem annar verkefnisstjóri. Þær eru báðar í hálfu starfi.
    Samkvæmt samstarfssamningnum leggur verkefnisstjórnin fram tillögur um skammtíma- og langtímaaðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar til þess að tilgangur áætlunarinnar náist. Eigi síðar en 1. mars ár hvert skulu tillögurnar lagðar fyrir dómsmálaráðherra, borgarstjórann í Reykjavík og ECAD. Hlutverk ECAD í áætluninni er m.a. að leggja til sérfræðiþjónustu með það að markmiði að aðgerðir og verkefni sem ráðist verður í þjóni tilgangi áætlunarinn­ar.
    Á árinu 1998 var ráðstöfunarfé verkefnisstjórnar 6 m.kr. sem skiptist þannig að hlutur ríkisstjórnarinnar, sem greiddur er úr Forvarnasjóði, var 4,5 m.kr. og hlutur Reykjavíkurborg­ar var 1,5 m.kr.
    Verkefnisstjórnin hélt 22 fundi á árinu 1998. Þar af sátu fulltrúar ECAD tvo fundi. Auk þess var haldinn fjöldi samráðsfunda með aðilum sem starfa að vímuefnamálum. Verkefnis­stjórn kynnti áætlunina og fjallaði um vímuvarnamál í ræðu og riti bæði innan og utan lands. Gefin voru út þrjú tölublöð af blaðinu Fréttapunktar verkefnisstjórnar. Þeim var dreift víða, m.a. sendir öllum sveitarfélögum, heilsugæslustöðvum, alþingismönnum, ráðuneytum, stofnunum, félagasamtökum, skólum og öðrum samstarfsaðilum. Tilgangurinn með útgáfunni er að kynna áætlunina og einstök verkefni sem unnið er að hverju sinni.
    Starf áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja grundvallast á fimm ára framkvæmdaáætlun verkefnisstjórnar frá því í júní 1997. Áætlunin var gefin út á ensku og er m.a. til á heimasíðu sam­starfsaðilans ECAD, www.ecad.net. Í mars 1998 var skýrsla verkefnisstjórnar fyrir árið 1997, ásamt starfsáætlun fyrir árið 1998, lögð fram í ríkisstjórn og í sama mánuði var skýrsl­an lögð fram í borgarráði.
    Í skýrslu verkefnisstjórnar fyrir árið 1997 voru gerðar eftirfarandi tillögur til stjórnvalda um frekari aðgerðir á sviði vímuvarnamála:
     1.      Leitað verði eftir formlegu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og því boðið að tilnefna fulltrúa í verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja.
     2.      Menntamálaráðuneytið tilnefni fulltrúa í verkefnisstjórn.
     3.      Fulltrúi úr verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja eigi sæti í stjórn Forvarnasjóðs.
     4.      Öll verkefni sem forvarnasjóður styrkir tengist áætluninni Ísland án eiturlyfja.
     5.      Formaður verkefnisstjórnar eigi sæti í samstarfsnefnd Reykjavíkurborgar um afbrota- og fíknivarnir.
     6.      Skipað verði sérstakt fulltrúaráð sem verði vettvangur samráðs allra þeirra sem að vímuvörnum starfa og verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja til ráðgjafar. Ráðið fundi á tveggja mánaða fresti. Í því eigi sæti m.a. fulltrúi þjóðkirkjunnar, Áfengisvarna­ráðs, fíkniefnalögreglunnar, tollgæslunnar, foreldrasamtaka, SÁÁ, íþróttahreyfingarinnar, Jafningjafræðslunnar, tóbaksvarnanefndar, Vímulausrar æsku, bindindishreyfingarinnar, FRÆ, rannsóknaraðila, fjölmiðla, vinnumarkaðarins, forvarnadeildar lögreglunnar o.fl.
     7.      Skipuð verði samstarfsnefnd toll- og löggæslu sem vinni að nauðsynlegum aðgerðum til að hefta, enn frekar en nú er gert, innflutning ólöglegra fíkniefna til landsins.
     8.      Á árinu 1998 verði framlag ríkisins til áætlunarinnar verði 4,5 milljónir kr. (var 3 milljónir kr. 1997) og framlag Reykjavíkurborgar verði 1,5 milljón kr. (var 1 milljón kr. árið 1997).
    Af ofannefndum tilögum var fallist á tillögurnar í liðum 1, 5, 7 og 8 óbreyttar og hefur þeim verið hrundið í framkvæmd. Jafnframt var ákveðið að fela ráðuneytum sem vinna að verk­efnum á sviði áfengis-, tóbaks- og vímuvarna að tengja þau með áberandi hætti við stefnu­mörkun ríkisstjórnarinnar á þessu sviði og eftir því sem kostur væri áætluninni Ísland án eiturlyfja. Einnig var verkefnisstjórn áætlunarinnar falið að hafa reglulegt samráð við þá aðila sem starfa að vímuvörnum. Loks var ákveðið að öll verkefni sem Forvarnasjóður styrkti yrðu tengd áætluninni Ísland án eiturlyfja eftir því sem kostur væri auk þess sem stjórn sjóðsins var falið að hafa samráð við verkefnisstjórn áætlunarinnar við árlega úthlutun.
    Í upphafi árs 1999 tók Áfengis- og vímuvarnaráð til starfa og er því meðal annars ætlað að samræma störf aðila á forvarnasviðinu.
    Í ljósi þess að áætlunin Ísland án eiturlyfja er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar í vímuvarnamálum, hlýtur að teljast skynsamlegt og hagkvæmt að áætlunin falli með formlegum hætti undir verksvið ráðsins. Mikilvægt er þó að undirstrika sjálfstæði áætlunarinnar enda um að ræða samstarfsverkefni ríkisins, Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og ECAD. Verkefnisstjórnin leggur til að:
     *      samstarfsaðilar verkefnisins Ísland án eiturlyfja samþykki að færa framkvæmd áætlunarinnar undir yfirstjórn Áfengis- og vímuvarnaráðs, þó þannig að verkefninu stýri fjögurra manna hópur þar sem Áfengis- og vímuvarnaráð tilnefnir tvo, Reykjavíkurborg einn og Evrópuborgir gegn eiturlyfjum (ECAD) einn. Varamenn verði tilnefndir með sama hætti. Verkefnið verður áfram fjárhagslega sjálfstætt með framlagi úr Forvarnasjóði og frá öðrum samstarfsaðilum. Heildarframlag til verkefnisins lækki ekki frá því sem það var á árinu 1998.
    Í þessari skýrslu verður farið yfir verkefni á vegum verkefnisstjórnar á árinu 1998 og drög að framkvæmdaáætlun fyrir árið 1999. Í lok skýrslunnar er stutt samantekt yfir öll verkefni sem hrundið hefur verið í framkvæmd á vegum áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja frá upphafi.

II. Að virkja þjóðfélagið í heild í vímuvörnum.
    Öll verkefni áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja grundvallast á 5 ára framkvæmdaáætlun verkefnisstjórnar frá júní 1997. Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla. Þeir eru:
     I.      Virkja þjóðfélagið í heild í baráttunni gegn vímuefnum.
     II.      Forvarnir og fræðsla.
     III.      Virkja frjáls félagasamtök.
     IV.      Samstarf við foreldrasamtök.
     V.      Ungt fólk í áhættu.
     VI.      Samstarfshópar gegn eiturlyfjum á landsvísu og í sveitarfélögum.
     VII.      Toll- og löggæsla.
    Allt starf verkefnisstjórnar miðast að því að virkja sem flesta í þjóðfélaginu til aðgerða í forvörnum. Stjórninni eru takmörk sett varðandi fjármagn og því brýnt að virkja og hvetja sem flesta til samstarfs. Vímuvarnir eru viðkvæmur málaflokkur, málið er tilfinningahlaðið og skoðanir skiptar um fjölmörg atriði. Spurningar um rétt einstaklingsins, forræðishyggju, gildi rannsókna og persónuvernd verða gjarnan áleitnar í þessum málaflokki.
    Mörgum verkefnum hefur verið hrint í framkvæmd á sviði vímuvarna á liðnum árum, en baráttan við útbreiðslu fíkniefna er viðvarandi viðfangsefni, sem krefst stöðugt nýrra leiða og aðferða. Þekking og reynsla af fíkniefnavörnum á Íslandi eykst með ári hverju og skilar sér vonandi í auknum árangri. Verkefnisstjórnin hefur einbeitt sér að aðgerðum sem eru lík­legar til að koma í veg fyrir að börn og unglingar leiðist út á braut fíkniefnaneyslu. Í því sam­bandi er mikilvægt að breyta viðhorfum fullorðinna til áfengisneyslu barna og unglinga, virkja sveitarfélög til aðgerða, vekja fjölmiðla, stofnanir og samtök til vitundar um ástandið og gera baráttuna sýnilega. Verður hér að neðan stiklað á stóru um lykilatriði í stefnumótun og framkvæmdaáætlun verkefnisstjórnar.

II.1. Samstarf við sveitarfélög.
    Í upphafi ársins 1998 gerðist Samband íslenskra sveitarfélaga formlegur aðili að áætlun­inni Ísland án eiturlyfja og tilnefndi fulltrúa í verkefnisstjórn. Aðild Sambands íslenskra sveitarfélaga styrkti mjög starf og stöðu verkefnisstjórnar.
    Margvísleg verkefni hafa verið unnin í samvinnu við sveitarfélögin á árinu 1998. Er þar fyrst að nefna ráðstefnuröðina Við getum betur. Þar er um að ræða fjölmennar og viðamiklar ráðstefnur í samvinnu við sveitarfélög og fleiri, um land allt. Ráðstefnur voru haldnar á árinu á Vesturlandi, haldin í Stykkishólmi, á norðanverðum Vestfjörðum, haldin á Ísafirði, Norður­landi eystra, haldin á Húsavík, á Austfjörðum, haldin á Reyðarfirði, og á Norðurlandi vestra, haldin á Sauðárkróki. Upphafið að þessari ráðstefnuröð var ráðstefnan Frá foreldrum til foreldra sem haldin var á Hótel Sögu í október 1997. Landshlutasamtök Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa komið að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnanna á flestum stöðum.
    Í upphafi ársins skrifaði verkefnisstjórnin, í samvinnu við félagsmálaráðuneytið, öllum sveitarfélögum bréf og hvatti þau til að vinna að stefnumótun og áætlanagerð í vímuefnavörn­um. Vitað er um fjölmörg sveitarfélög sem hafa unnið að slíkum verkefnum og m.a. nýtt sér sveitarfélagaverkefni SÁÁ og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Benda má á vímu­varnaáætlun Dalvíkur sem dæmi um metnaðarfulla áætlun sveitarfélags á þessu sviði. Áætl­unina er að finna á www.islandaneiturlyfja.is. Víða um land eru nú starfandi vímuvarna­nefndir og samráðshópar stofnana sem vinna markvisst að verkefnum og áætlanagerð í vímu­efnavörnum.
    Öllum sveitarfélögum hafa verið sendar skýrslur verkefnisstjórnar, fréttapunktarnir, upp­lýsingar um opnun vefsins, veggspjöld og kort gegn áfengisneyslu unglinga og fleira.
    Hvatningarátak fyrir verslunarmannahelgi og útivistarátakið sl. haust eru verkefni þar sem fjölmörg sveitarfélög sameinuðust í fræðslu og áróðri með foreldra sem markhóp. Markmiðið með báðum þessum verkefnum var að stuðla að bættum aðstæðum fyrir börn og unglinga. Er það mat flestra að vel hafi til tekist og að verkefnin og fyrirkomulagið gefi fyrirheit um frekara samstarf sveitarfélaga á þessu sviði.
    Upplýsingamiðlun og ráðgjöf fyrir sveitarfélög hefur verið snar þáttur í starfsemi verk­efnisstjórnar. Föst umfjöllun um vímuvarnamál í Sveitarstjórnarmálum, blaði Sambands íslenskra sveitarfélaga, er til þess fallin að vekja athygli á mikilvægi þess að sveitarfélög vinni markvisst að málinu og miðli upplýsingum sín á milli.

II.2. Áfengisneysla barna og unglinga.
    Í öðrum kafla fimm ára áætlunar verkefnisstjórnar er fjallað um forvarnir og fræðslu. Þar er lögð áhersla á vandaða fræðslu um fíkniefnamál fyrir börn og unglinga og ekki síður fyrir foreldra barna á grunnskólaaldri, kennara, leiðbeinendur, þjálfara og aðra sem starfa með börnum og unglingum.
    Ef borin er saman áfengisneysla unglinga í Evrópu kemur í ljós að áfengisneysla íslenskra unglinga er hlutfallslega minni en flestra jafnaldra þeirra í Evrópu. Ýmsar hliðarverkanir áfengisneyslunnar virðast hins vegar koma verr við íslenska unglinga. Þessar upplýsingar má m.a. lesa í evrópskri könnun (ESPAD) sem lögð var fyrir 15–16 ára ungmenni í 20 Evrópu­löndum 1995. 1 Í henni kemur fram að íslenskir unglingar lenda oftar í ýmsum vandræðum, svo sem ógætilegri kynlífsreynslu, slagsmálum og þjófnuðum, vegna áfengisneyslu en jafnaldrar þeirra í Evrópu. Tengsl milli ótímabærrar áfengisneyslu ungs fólks og annarrar fíkniefnaneyslu eru staðfest bæði í bók dr. Þórólfs Þórlindssonar Vímuefnaneysla ungs fólks – umhverfi og aðstæður og í bók dr. Sigrúnar Aðalbjarnardóttur. 2
    Þessi staðreynd, tengslin milli ótímabærrar áfengisneyslu unglinga og neyslu ólöglegra vímuefna, og hið almenna umburðarlyndi gagnvart unglingadrykku, undirstrikar mikilvægi þess að leitað sé allra leiða til að draga úr áfengisneyslu barna og unglinga.
    Á árinu 1997 var ýmsum verkefnum hrundið í framkvæmd sem höfðu að markmiði að draga úr áfengisneyslu unglinga. Eitt af þeim var samstarfsverkefni ríkisins, Reykjavíkur­borgar og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands um starfrækslu Fjölskyldumiðstöðvarinnar við Barónsstíg. Þetta verkefni, sem er liður í áætluninni Vímulaus grunnskóli, hefur þótt takast vel. Í viðhorfskönnun meðal þeirra sem þáðu þjónustu miðstöðvarinnar kemur fram almenn ánægja með starfsemi miðstöðvarinnar. 1 Miðstöðin var starfrækt á árinu 1998 og verður áfram árið 1999. Um þetta verkefni var fjallað í skýrslu verkefnisstjórnar 1997.

II.3. Stuðningur og samráð við foreldra um vímuvarnastarf
    Verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja telur foreldrasamtök gegna afar mikilvægu hlutverki í forvörnum og hefur frá upphafi átt árangursríkt og gott samstarf við land­samtökin Heimili og skóla og foreldrasamtökin Vímulausa æsku.
    Foreldrar gegna lykilhlutverki í forvarnastarfi og því hafa mörg verkefni sem áætlunin hefur haft frumkvæði að eða verið þátttakandi í verið unnin í samvinnu við foreldra eða beinst að þeim með einum eða öðrum hætti. Síðar í þessari skýrslu, er fjallað um verkefni af þessum toga, meðal annars um Útivistarátak til stuðnings foreldrum, Hvatningarátakið fyrir verslunarmannahelgi, átak gegn áfengiskaupum fyrir unglinga í áfengisverslunum, könnun á viðhorfum foreldra til unglingamála, ráðstefnuröðina Við getum betur o.fl. Þá er verkefni landssamtakanna Heimilis og skóla, Fyrirmyndarforeldrar, kynnt sem framlag til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja.

II.4. Ungt fólk í áhættu.
    Öflugt stuðnings- og leitarstarf og markviss aðstoð við börn og unglinga í áhættuhópi er snar þáttur í vímuvörnum. Skólavinaverkefnið, aukið samráð í hverfum líkt og Grafarvogur í góðum málum foreldrarölt, efld hverfalöggæsla og sveitarfélagaverkefni SÁÁ og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins eru allt aðgerðir sem vonandi leiða til þess að unnt verði að grípa fyrr inn í neikvæða atburðarás. Mikilvægt er að starfrækt sé opin og aðgengi­leg ráðgjöf fyrir foreldra og unglinga þegar þörf er fyrir slíkt. Auk Félagsþjónustu sveitar­félaga hafa fjölskylduþjónustan Samvist, Fjölskyldumiðstöðin við Barónsstíg, foreldraráðgjöf Vímulausrar æsku og Rauðakrosshúsið gegnt mikilvægu hlutverki í göngudeildarþjónustu fyrir ungt fólk sem á í fíkniefnavanda og foreldra þess. Þessir aðilar þurfa að hafa með sér samstarf og skýra verkaskiptingu. Verðugt verkefni á næsta ári væri útgáfa á upplýsingariti fyrir foreldra og unglinga um þessa þjónustu.
    Vönduð og aðgengileg meðferð fyrir ungt fólk sem stendur höllum fæti vegna vímuefna­neyslu er grundvallaratriði í öllu vímuvarnastarfi. Meðal viðfangsefna sem verkefnisstjórnin mat brýn var kynning á nýjum leiðum í meðferðarmálum ungs fólks. Heimsókn Andrea Muccioli til Íslands þar sem hann kynnti starfsemi San Patrigano á Ítalíu var liður í þeirri við­leitni og einnig opinn fundur með Torgny Peterson um árangursríka meðferð fyrir ungt fólk í Svíþjóð.

II.5. Stuðningur fyrirtækja, stofnana og samtaka við aðgerðir gegn fíkniefnum.
    Þátttaka og stuðningur fyrirtækja, stofnana og samtaka er mikilvægur þáttur í baráttunni gegn útbreiðslu fíkniefna. Gerð vímuvarnaáætlana og markviss viðbröð við neyslu vímuefna, t.d. á vinnustöðum, er liður í að virkja þjóðfélagið í heild. Verkefnisstjórn átti m.a. gott sam­starf við starfsmannafélög ríkisins um átak gegn áfengisneyslu sumarið 1997, aðilar vinnu­markaðarins lýstu yfir stuðningi við áætlunina í febrúar 1997 og í undirbúningi er samstarf við Framkvæmdastjórn um ár aldraðra um verkefni á árinu 1999.
    Samráð og fundir hafa verið með forsvarsmönnum þjóðkirkjunnar og fræðsludeild kirkj­unnar um virka þátttöku og samstarf í baráttunni gegn vímuefnum. Formaður verkefnisstjórnar kynnti áætlunina Ísland án eiturlyfja á prestastefnu og tók, ásamt verkefnisstjóra, þátt í umræðum um hlutverk og stefnu kirkjunnar í vímuvörnum. Verkefnisstjórn var umsagnaraðili um drög að stefnu þjóðkirkjunnar í vímuvörnum.
    Þriðji kafli fimm ára áætlunar verkefnisstjórnar fjallar um mikilvægi þess að virkja frjáls félagasamtök til aðgerða í vímuefnavörnum. Frjáls félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki í mótun æskunnar og brýnt að félög og samtök hafi skýra stefnu í vímuvarnamálum. Í fimm ára áætlun verkefnisstjórnar er lögð áhersla á að styðja starfsemi frjálsra félagasamtaka og hvetja til stefnumótunar og aðgerða í vímuvarnamálum.
    Á árinu kynntu ÍSÍ og UMFÍ átakið Landsliðið gegn fíkniefnum. Í landsliðinu eru öflugustu og bestu íþróttamenn þjóðarinnar. Verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hefur áhuga á að koma á formlegu samstarfi við stjórn átaksins um þessi mál. Öflugt samstarf við landsamtökin Heimili og skóla o.fl. er liður í að virkja frjáls félagasamtök á þessu sviði.
    Í lok árs 1998 boðaði verkefnisstjórnin í samvinnu við Jafningjafræðslu framhaldsskóla­nema og fulltrúa félaga, samtaka og stofnana sem vinna að fíkniefnavörnum og aðsetur hafa á höfuðborgarsvæðinu til samráðsfundar. Marmiðið var að efla upplýsingagjöf og samvinnu í forvörnum. Fundurinn tókst vel og var ákveðið að þróa samstarfið áfram undir verkstjórn nýskipaðs Áfengis- og vímuvarnaráðs.
    Verkefnisstjórnin hefur víða leitað fjárstuðnings til fjármögnunar nýrra verkefna. Sumarið 1997 ákvað Eimskip að leggja áætluninni Ísland án eiturlyfja lið með öflugum fjárstuðningi, 1,5 milljónum kr. á ári í þrjú ár. Fjárstuðningnum var fyrst og fremst varið til verkefnisins 20,02 hugmyndir um eiturlyf á árinu 1998. Sem fylgiskjal með skýrslunni er listi yfir alla sem styrkt hafa áætlunina með fjárframlögum á árinu 1998.

II.6. Stuðningur fjölmiðla og listamanna við Ísland án eiturlyfja.
    Framsetning fjölmiðla og túlkun listamanna á viðhorfum til eiturlyfja vegur þungt í þessari baráttu. Listamenn hafa mikil áhrif, sérstaklega á ungt fólk, og því er stuðningur þeirra afar mikilvægur. Áhrif fjölmiðla eru óumdeilanleg og til stóð að skipuleggja málþing með fulltrú­um ungs fólks úr grunn- og framhaldsskólum og fulltrúum fjölmiðla þar sem til umfjöllunar yrði framsetning fjölmiðla á málefnum ungs fólks. Það reyndist hins vegar mat forsvars­manna Jafningjafræðslunnar og Félags framhaldskólanema að slíkt málþing væri óþarft, þar eð fjölmiðlar sýndu nú þegar ungu fólki mikinn skilning og sjónarmið þess og áhugasvið ættu greiðan aðgang að fjölmiðlum.
    Flestir fjölmiðlar hafa gert verkefnum áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja viðunandi skil og töluverð umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum um forvarnir og skaðsemi eiturlyfja. Þó virðist sem ákveðinnar þreytu gæti á forvarnarumræðunni og þarf að vanda vel kynningu á verkefn­um á þessu sviði. Blaðamannafundir áætlunarinnar hafa verið ágætlega sóttir og fréttatilkynn­ingar hafa átt sæmilega greiðan aðgang að fjölmiðlum.

II.7. Áætlunin Ísland án eiturlyfja gerð sýnilegri.
    Blaðamannafundir, auglýsingar, fundir, fyrirlestrar, greinaskrif, almenn umfjöllun í fjölmiðlum, kynning á verkefnum, notkun á merki áætlunarinnar o.fl. hafa verið liður í að gera áætlunina sýnilega. Hér á eftir fer yfirlit um margvíslega kynningu á áætluninni á árinu 1998:
     *      Fréttapunktar verkefnisstjórnar sem hafa farið víða eru liður í kynningarstarfinu.
     *      Áætlunin hefur víða verið kynnt, m.a. á ráðstefnum og fundum bæði innan og utan lands. Formaður verkefnisstjórnar var meðal aðalfyrirlesara á ráðstefnunni World Cities Against Drugs sem haldin var í Stokkhólmi í maí sl. Verkefnisstjóri áætlunarinnar var einn aðalfyrirlesara á ráðstefnu um forvarnir sem haldin var í Sundsvall í Svíþjóð í október sl.
     *      Áætlunin Ísland án eiturlyfja var kynnt á ráðstefnum í öllum landshlutum, á prestastefnu, á ráðstefnunni „Forvarnir á villigötum?“ og víðar.
     *      Skýrsla verkefnisstjórnar fyrir árið 1997 var prentuð í 200 eintökum og send fjölmiðlum, helstu samstarfsaðilum og sveitarfélögum um land allt. Skýrslan var einnig prentuð sem viðauki við Skýrslu dómsmálaráðherra til Alþingis um aðgerðir á vegum stjórnvalda í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum á árinu 1997.
     *      Vefsíða áætlunarinnar var opnuð á árinu og er hún mikilvægur og aðgengilegur upplýsingagrunnur um starf Íslands án eiturlyfja og um vímuvarnir á Íslandi núna.

II.8. Toll- og löggæsla.
    Samræmdar og markvissar aðgerðir toll- og löggæslu til varnar smygli, dreifingu og sölu fíkniefna er grundvallaratriði í vímuefnavörnum.
    Að tillögu verkefnisstjórnar fól ríkisstjórnin dómsmálaráðherra að skipa samstarfsnefnd æðstu embættismanna toll- og löggæslu til að vinna að nauðsynlegum aðgerðum til að hefta enn frekar en gert hefur verið innflutning ólöglegra eiturlyfja til landsins. Nefndin hefur starf­að frá vori 1998 og mun ljúka störfum í byrjun árs 1999.
    Samkvæmt upplýsingum Lögreglunnar í Reykjavík hefur kærðum afbrotum til lögreglunn­ar fækkað á árunum 1989 til 1996 en á sama tíma hefur afbrotum fjölgað, eðli þeirra breyst og þau talin alvarlegri. Dregið hefur úr tíðni brota í vissum brotaflokkum, svo sem ávísana­falsi, meðan önnur brot færast í vöxt, þar á meðal fíkniefnabrot og innbrot. 4 Einstaklingar undir 24 ára aldri eru taldir ábyrgir fyrir um helmingi allra ofbeldisverka og einstaklingar undir 18 ára um einum fjórða þeirra. Þá hefur ungum mönnum sem dæmdir eru til fangelsis­vistar fjölgað og föngum sem dæmdir eru til fangelsisvistar vegna fíkniefnatengdra brot hefur einnig fjölgað.
    Mikilvægt er að afla gleggri upplýsinga um tengsl fíkniefna og annarra afbrota. Safna þarf saman upplýsingum og rannsóknum sem gerðar hafa verið hér á landi á undanförnum árum á þessu sviði og taka ákvarðanir um framkvæmd frekari kannana og aðgerða á grundvelli þeirra.

III. Verkefni áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja á árinu 1998.
    Í þessum kafla verður gerð grein fyrir framkvæmd og stöðu verkefna á vegum verkefnis­stjórnar áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja á árinu 1998. Auk þess er getið verkefna á vegum annarra sem hafa verið kynnt sem framlag til Íslands án eiturlyfja.

III.1. Rannsóknir.
    Á árinu 1998 hefur verkefnisstjórnin ýmis stutt eða látið framkvæma nokkrar kannanir. Verður nú nánar gerð grein fyrir þessum könnunum.

A. Könnun á viðhorfum fullorðinna.


    Könnun á viðhorfum fullorðinna til ýmissa þátta er lúta að málefnum unglinga. Samstarfsverkefni verkefnisstjórnar og SAF — samstarfsnefndar Reykjavíkurborgar um afbrota- og fíkniefnavarnir. Könnunin var framkvæmd af ÍM Gallup í júní 1998.

    Í tengslum við undirbúning að hvatningarátaki til stuðnings foreldrum, vorið 1997, á veg­um Vímuvarnanefndar Reykjavíkur, áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja og fleiri, var ákveðið að láta kanna viðhorf foreldra til ýmissa þátta er lúta að málefnum unglinga. Könnunin var gerð í júní 1997, meðal 800 einstaklinga, 24–55 ára. 1 Spurt var um viðhorf þeirra til útivistartíma, áfengisneyslu, hassneyslu, reykinga og fleiri áleitinna málefna sem varða unglinga. Sambærileg könnun var endurtekin í júní 1998. 2
    Foreldrar í könnuninni sem áttu börn í efstu bekkjum grunnskólans voru m.a. spurðir um áfengisneyslu barna sinna. Taflan sýnir hlutfall þeirra sem sögðust vita til þess að barnið þeirra hefði drukkið áfengi einu sinni eða oftar og svör unglinganna sjálfra við sambærilegri spurningu í könnunum 1997 3 og 1998. 4



(Tafla, mynduð.)








    Í þessari töflu kemur í ljós að mikið misræmi er á milli svara unglinganna við áfengis­neyslu sinni og mati foreldra á því hvort barnið þeirra hafi drukkið. Er þessi niðurstaða alvar­legt umhugsunarefni. Mat foreldranna og unglinganna sjálfra á hvað teljist vera áfengisneysla hefur vafalaust áhrif þarna og jafnframt sinnuleysi foreldra gagnvart áfengisneyslu barna og unglinga. Ef athugaðar eru tölur um ölvun nemenda samkvæmt grunnskólakönnuninni vorið 1998 kemur í ljós að 7,3% nemenda í 8. bekk segjast hafa orðið ölvaðir sl. 30 daga áður en könnunin var gerð, 18,8% nemenda í 9. bekk og 41% nemenda í 10. bekk. Eru þessar tölur nær mati foreldra á áfengisneyslu barna sinna.
    Eins og taflan sýnir eru foreldrar sem vita af áfengisneyslu barna sinna fleiri árið 1998 en árið 1997 og munar mestu í 9. bekk, en þar segjast 31% foreldra í könnuninni 1998 vita um að barnið hafi drukkið áfengi samanborið við 17% árið áður. Þetta þarf ekki að þýða að drykkja barna hafi aukist sem þessu nemur, heldur að eftirlit foreldra hafi eflst. Hvatningar­áróður og stuðningsaðgerðir sem beinst hafa að foreldrum hafa m.a. falist í því að þeir eru hvattir til að fylgjast betur með börnum sínum og reyna að koma í veg fyrir áfengisneyslu þeirra. Fyrsta skrefið er að foreldrar geri sér betur grein fyrir vandanum og þessar niðurstöður gefa vísbendingu í þá átt.
    Önnur niðurstaða í könnuninni styður þessa skýringu. Þegar þátttakendur í könnuninni voru spurðir hversu alvarlegum augum þeir líti þá staðreynd að 80% 15 ára unglinga á Íslandi hafa drukkið áfengi einu sinni eða oftar, voru svör þeirra eftirfarandi:
Könnun gerð árið:
Telja áfengisneyslu unglinga: 1997 1998
Mjög alvarlega 54% 61,9%
Fremur alvarlega 31% 27%
Ekki alvarlega 14% 11%

    Þeim sem líta áfengisneyslu unglinga alvarlegum augum fjölgar á milli ára. Verður það að teljast spor í rétta átt með tilliti til þess að eitt af markmiðum verkefnisstjórnar hefur verið að draga úr andvaraleysi almennings og foreldra gagnvart unglingadrykkju. Varðandi reyk­ingar þá segjast 76% svarenda líta það mjög alvarlegum augum að 21% unglinga reykja dag­lega, 1998, en um 70% árið áður. Varðandi hassið segjast 79% líta það mjög alvarlegum aug­um að 13% 15 ára unglinga hafa notað hass einu sinni eða oftar. Í niðurstöðum þessara kann­ana, bæði árið 1997 og 1998 kemur í ljós að konur líta þessi mál alvarlegri augum en karlar.
    Lögð verður áhersla á að kanna reglulega viðhorf foreldra til þessara mála, enda mikilvæg­ar vísbendingar þar að finna, bæði varðandi áherslur og árangur í forvarnarstarfi. Niðurstöður þessara tveggja kannana hafa verið notaða umtalsvert í auglýsingarherferðum til að upplýsa foreldra um ríkjandi viðhorfa annarra foreldra t.d. til áfengiskaupa, útivistartíma o.fl. og þannig hvetja til ábyrgari afstöðu þeirra til áfengisneyslu barna og unglinga.

B. Könnunin Ung 97.


     Útgáfa bókarinnar Vímuefnaneysla ungs fólks — umhverfi og aðstæður, eftir Þórólf Þórlindsson o.fl., útg. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, 1998. Verkefnis­stjórn ásamt Tóbaksvarnanefnd, Eimskip og Forvarnasjóði styrktu útáfu bókarninnar.

    Haustið 1997 leitaði verkefnisstjórn eftir samstarfi við dr. Þórólf Þórlindsson, þáverandi forstöðumann Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála um útgáfu bókar um vímuefna­neyslu unglinga. Bókin Vímuefnaneysla ungs fólks – umhverfi og aðstæður kom út í febrúar 1998. Í henni eru í fyrsta skipti birtar á aðgengilegan hátt upplýsingar um vímuefnaneyslu unglinga á grundvelli rannsókna dr. Þórólfs Þórlindssonar o.fl. meðal grunnskólanema. Upp­lýsingarnar byggjast á könnuninni Ung 97 sem lögð var fyrir nemendur í öllum grunnskólum landsins í mars 1997.
    Niðurstöður könnunarinnar eru um margt mjög athyglisverðar. Þar kemur m.a. fram að unglingar hefja áfengisneyslu fyrr en áður og að mjög sterk tengsl eru á milli aldurs við upp­haf áfengisneyslu og annarra vandamála.
    Eftir því sem unglingar eru yngri þegar þeir hefja neyslu áfengis því alvarlegri eru vandamálin sem henni fylgja þegar fram í sækir. Þannig blasir það t.d. við að hefji unglingar neyslu áfengis yngri en 13 ára eru þeir mun líklegri til að drekka oftar og meira í einu en jafnaldrar þeirra í 10. bekk. Þeir sem byrja að drekka 13 ára eru einnig líklegri til að leiðast út í neyslu annarra vímuefna þegar fram í sækir en hinir sem byrja seinna að drekka. 9
    Niðurstöður rannsóknarinnar Ung 97 verða m.a. notaðar sem viðmiðun um árangur af verkefnum Íslands án eiturlyfja. Verkefnisstjórn mun leggja áherslu á að gerðar verði sambærilegar kannanir árlega á fimm ára starfstíma áætlunarinnar.

C. Vímuefnakönnun vorið 1998.


     Könnun á vímuefnaneyslu meðal nemenda í unglingadeildum grunnskólanna. Framkvæmd undir handleiðslu dr. Þórólfs Þórlindssonar prófessors að frumkvæði verk­efnisstjórnar. Könnunin var framkvæmd í apríl 1998.

    Verkefnisstjórn hafði frumkvæði að því að gerð var rannsókn á vímuefnaneyslu nemenda í þremur efstu bekkjum grunnskólans vorið 1998. Umsjón með framkvæmd könnunarinnar hafði dr. Þórólfur Þórlindsson, en fjölmargir komu að framkvæmd og úrvinnslu hennar. Könnunin er liður í áætlun verkefnisstjórnar áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja um árlega athugun á vímuefnaneyslu þessa hóps. Niðurstöðurnar verða m.a. notaðar til að meta árangur þeirra verkefna sem hrint er í framkvæmd í forvarnaskyni af hálfu opinberra aðila, frjálsra félagasamtaka og annarra sem að þessum málum koma.
    Í óútgefinni skýrslu sem Sigrún Ólafsdóttir hefur unnið eru birtar eru helstu niðurstöður rannsóknarinnar og þar kemur m.a. fram að lítil breyting hefur orðið á reykingum og áfengis­neyslu nemenda á milli áranna 1997 og 1998. Hins vegar er það áhyggjuefni að hassneysla hefur aukist og hafa 5% nemenda í áttunda bekk, 8,4% nemenda í níunda bekk og 16,5% nemenda í tíunda bekk notað hass einu sinni eða oftar. Á milli áranna 1997 og 1998 hefur hassneysla aukist um 3,5 prósentustig meðal nemenda í 10.bekk. Þetta mynstur er gegnum­gangandi í rannsókninni, þeim sem hafa prófað hass einu sinni eða oftar fjölgar um 1,4% í áttunda bekk og 0,7% í níunda bekk. Einnig hefur hassneysla eftir kyni aukist á bilinu 0,6–2,1% í öllum bekkjum, nema hvað stúlkum í tíunda bekk sem hafa prófað hass fækkar um 0,1%. Þessi aukning í hassneyslunni kemur ekki fram hjá áttunda bekk þegar skoðaðir eru þeir sem hafa notað það þrisvar eða oftar, en hjá níunda bekk er aukningin 0,7% og 2,5% hjá tíunda bekk. Þegar þeir sem hafa notað hass 10 sinnum eða oftar eru skoðaðir kemur í ljós að dregið hefur úr hlutfalli þeirra um 0,1% meðal pilta í níunda bekk en stúlkur í níunda bekk hafa aukið sína neyslu um 0,4%. Í tíunda bekk hefur hlutfall pilta aukist um 1,7% og stúlkna um 0,8%. Það er þó greinilegt að mesta aukningin er hjá þeim sem hafa notað hass einu sinni eða oftar, sem bendir til þess að aukninguna megi a.m.k. að einhverju leyti skýra með auknu fikti. Sniffneysla er alvarlegt vandamál meðal grunnskólanema og er nær óbreytt á milli ára. Alls hafa 6,3% nemenda í áttunda bekk, 7,5% nemenda í níunda bekk og 9,9% nemenda í tíunda bekk notað sniffefni einu sinni eða oftar. Þeim sem hafa notað sniff einu sinni eða oft­ar fjölgar um 0,6% í áttunda bekk, fækkar um 0,6% í níunda bekk en fjölgar um 1,9% í tíunda bekk. Þegar skoðaðir eru þeir sem hafa notað sniffefni þrisvar eða oftar kemur í ljós að í átt­unda bekk hefur þeim fækkað um 0,3%, í níunda bekk hefur þeim fækkað um 0,6% en aukist um 1,3% í tíunda bekk. Hins vegar dregur úr hlutfalli þeirra sem hafa notað sniffefni 10 sinn­um eða oftar, nema hvað varðar stúlkur í tíunda bekk en þeim hefur fjölgað um 0,8% sem er helmingsaukning.
    Ljóst má vera af þessum niðurstöðum að nauðsynlegt er að herða róðurinn og auka fræðslu og upplýsingar um skaðsemi hass og sniffefna.

III.2. Útgáfa og fræðsla.
    Hér verður fjallað um það starf verkefnisstjórnar sem lýtur að fræðslu og útgáfustarfsemi. Takmarkað fjármagn setur slíkum verkefnum þröngar skorður og erfitt getur reynst að fjármagna áhugaverð verkefni á þessu sviði. Mikil gróska hefur verið í fræðslu og forvarnastarfi í þjóðfélaginu og stíft sótt að fyrirtækjum og stofnunum varðandi fjárstuðning.

A. Fréttapunktar.


     Fréttapunktar áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja. Útgefnir í febrúar, mars og nóvember 1998.

    Fréttapunktar áætlunarinnar komu út þrisvar á árinu. Þeir hafa að geyma upplýsingar um starf og framkvæmd verkefna á vegum verkefnisstjórnar. Í ágúst var gefið út veglegra átta síðna blað með stuðningi styrktaraðila. Blaðið var unnið í samvinnu við fyrirtækið KOM — Kynning og markaður, um útlitshönnun sá auglýsingafyrirtækið Hið opinbera. Í blaðinu voru viðtöl við ungt fólk, kynning á áhugaverðum forvarnaverkefnum og fleira. Blaðið var gefið út í 3.000 eintökum og dreift um allt land.

B. Vefsíðan www.islandaneiturlyfja.is.


     Vefsíðan www.islandaneiturlyfja.is. Verkefnisstjórn í samvinnu við styrktaraðila, m.a. Eimskip, Opin kerfi, Visa, Landssímann og Búnaðarbankann. Opnuð í maí 1998.

    Á árinu var opnaður vefur á vegum áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja. Vefurinn er umfangsmikill, fræðandi og skemmtilega hannaður. Auglýsingastofan Hið opinbera hannaði vefinn og Skíma lagði áætluninni lið við uppsetningu hans og undirbúning. Yfirbragð vefsins er líkt og annað útgefið efni á vegum áætlunarinnar í gulum, rauðum og svötum litum og eru rauð hjörtu áberandi. Heimsóknir á vefinn hafa verið nokkuð tíðar og lögð er áhersla á að kynna vefslóðina eftir því sem kostur er. Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra opnaði vefinn og kynnti hann á blaðamannafundi ásamt fulltrúum verkefnisstjórnar. Meðal fastra þátta á vefnum eru ávörp ýmissa forystumanna í þjóðfélaginu og hafa auk dómsmálaráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Jónína Bjartmarz, formaður Heimilis og skóla verið með ávarp á vefnum.
    Markmið vefsins er að miðla upplýsingum um vímuvarnamál, m.a. um skaðsemi vímuefna, um baráttumál þeirra sem vinna gegn eiturlyfjum, um forvarnaverkefni og vera vettvangur um­ræðu. Á vefnum eru fjölmargar tengingar við innlenda og erlenda aðila sem starfa að vímu­varnamálum. Tilgangur vefsins er einnig að auðvelda og hvetja nemendur og starfsfólk skól­anna til að afla sér upplýsinga um vímuefnamál og nýta sér efni vefsins í námi og starfi. Verk­efnisstjórnin sendir skólum og fleiri stofnunum tölvupóst og bréf reglulega þar sem minnt er á vefslóðina og tilkynnt um nýtt og áhugavert efni. Sérstakur ritstjóri sem starfar í nánu samstarfi við verkefnisstjórn hefur annast uppfærslur og skipulag vefsins.
    Á vefnum er að finna niðurstöður könnunarinnar Ung 97, efni og skýrslur verkefnisstjórnar og fjölmargt fleira. Sveitarfélög hafa verið hvött til að koma þar á framfæri efni um áhugaverð forvarnaverkefni og vímuvarnaáætlanir sveitarfélaga. Vefurinn er í stöðugri mótun og verður lögð áhersla á að uppfæra hann enn örar þannig að alltaf sé hægt að ganga að nýjustu upp­lýsingum um forvarnamál þar vísum.

C. Veggspjald og kort gegn áfengisneyslu unglinga.


     Neysla áfengis gerir þig að skotmarki. Útgáfa á kortum og veggspjaldi á vegum áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja sumarið 1998.

    Í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um áfengisneyslu unglinga á Íslandi og hætturnar sem þeim fylgja ákvað verkefnisstjórnin að láta útbúa og dreifa veggspjaldi með áróðri gegn áfengisneyslu ungs fólks. Veggspjöldum þar sem m.a. stóð Neysla áfengis gerir þig að skotmarki var dreift víða. Það var sent forsvarsmönnum félags- og tómstundamála um land allt og m.a. dreift í alla vinnuskúra Vinnuskólans í Reykjavík. Jafnframt voru gefin út og dreift kortum þar sem fram komu nánari ábendingar um skaðsemi áfengisneyslu fyrir börn og ung­linga.

D. Auglýsingar um skaðsemi hass.


     Ertu með hass á heilanum. Varðveittu minnið – gleymdu hassinu. Auglýsingar á vegum áætluninar Ísland án eiturlyfja vorið 1998.

    Ungt fólk, og raunar eldra fólk einnig, virðist í auknum mæli telja að ýmis ólögleg fíkni­efni séu ekki ýkja skaðleg og benda gjarnan á skaðsemi áfengis til réttlætingar á umburðar­lyndum viðhorfum gagnvart ólöglegum efnum. Í fyrstu niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal unglinga í grunnskólum sl. vor undir handleiðslu dr. Þórólfs Þórlindssonar kemur fram að um 60% nemenda í 10. bekk álíta hass mjög skaðlegt.
    Verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hefur talið brýnt að leita nýrra leiða til að upplýsa ungt fólk með raunsönnum og faglegum hætti um skaðsemi fíkniefna. Í því skyni var leitað eftir samkomulagi við HEA – Health Education Authority í Bretlandi um afnot af auglýsingum sem notaðar hafa verið í baráttunni gegn eiturlyfjaneyslu ungs fólks í Bretlandi. Auglýsingarnar eru liður í stefnu bresku ríkisstjórnarinnar Tackling Drugs Together. Átakið beinist að ungu fólki og er lögð áhersla á faglega og upplýsandi fræðslu um skaðsemi eitur­lyfja. Kynningarátakið byggist á auglýsingum í blöðum sem unglingar lesa, fjölmiðlakynn­ingu og útgáfu bæklinga. Í tilraunaskyni lét verkefnisstjórnin þýða og staðfæra eina auglýs­ingu og hefur hún birst með tvennum hætti, annars vegar í blöðum fyrir aldurshópinn 16–20 ára undir slagorðinu Ertu með hass á heilanum og hins vegar fyrir 13–15 ára undir slagorðinu Varðveittu minnið – gleymdu hassinu. Sú síðarnefnda hefur birst alloft í unglingablaðinu Smelli og víðar.

E. Útgáfa upplýsingabæklingsins Sókn er besta vörnin.


     Sókn er besta vörnin. Verkefnisstjórn áætlunarinnar gaf út bæklinginn Sókn er besta vörnin. Mál og menning styrkti útgáfu bæklingsins. Útgefinn í mars 1998.

    Í kjölfar útgáfu bókarinnar Ung 97 sem áður hefur verið getið var ákveðið að gefa út bækling með nokkrum staðreyndum um vímuefnaneyslu unglinga í efstu bekkjum grunnskólans. Bæklingurinn er fyrir fullorðna og var dreift víða. Tilgangur útgáfunnar var að vekja foreldra og aðra til vitundar um þann vanda sem vímuefnaneysla er meðal unglinga. Í bæklingnum er einnig yfirlit yfir alla þá aðila sem starfa að vímuvörnum. Bæklingurinn var m.a. sendur félögum, klúbbum, stofnunum, samtökum og sveitarfélögum, auk þess sem honum var dreift á ráðstefnum verkefnisstjórnar um land allt.

F. Fræðsla fyrir félög og klúbba.


     Fyrirlestrar og fræðsla. Framkvæmd annaðist verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja í samvinnu við fag- og áhugafólk á sviði vímuvarna. Hófst í mars 1998.

    Lögð hefur verið áhersla á að koma á framfæri upplýsingum um vímuefnamál sem víðast og með því móti efla virka umræðu og fræðslu um málið. Meðal þess sem gert var í því sambandi var skipulögð fræðsla fyrir klúbba og félög. Lions, Rotary og fleiri klúbbum var sent bréf og upplýsingabæklingur um fíkniefnaneyslu barna og unglinga og þeim boðin nánari fræðsla um vímuefnaneyslu unglinga. Fyrirlesari á vegum verkefnisstjórnar mætti á allmarga fundi hjá klúbbum og félögum.

G. Kynning á nýjum forvarna- og meðferðarstefnum.


     Nýjungar í forvörnum og meðferð. Verkefnisstjórn í samstarfi við SAF – samstarfsnefnd Reykjavíkur um afbrota- og fíkniefnavarnir, FRÆ – Fræðslumiðstöð í fíknivörn­um o.fl. Hófst 1998.

    Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um vanda þeirra sem verst eru staddir vegna fíkniefnaneyslu. Tölulegar upplýsingar gefa til kynna aukna fíkniefnaneyslu meðal ungs fólks og að árangur af meðferð og endurhæfingu hafi ekki verið sem skyldi. Bent hefur verið á nauðsyn þess að skapa ný meðferðarúrræði og leita nýrra leiða í meðferð. Sérstaklega hefur verið bent á að veita þurfi ungum neytendum lengri meðferð og ekki fari vel saman að hafa mjög ungt fólk með fullorðnum áfengis- og fíkniefnaneytendum. Í ljósi þessa beitti verkefnis­stjórnin sér fyrir því að fá hingað til lands sérfræðinga á sviði meðferðarmála til að kynna nýjar hugmyndir og árangursríkar leiðir á þessu sviði.
    Jafnframt stóð verkefnisstjórnin í samvinnu við aðra að kynningu á sænsku forvarnaverk­efni og að fundi með bandarískum sérfræðingum um árangursríkar leiðir í forvörnum innan skólans, á heimilum og í frítímanum.
    Eftirtaldir erlendir sérfræðingar kynntu nýjar leiðir í forvörnum og meðferð á vegum Íslands án eiturlyfja:
     *      Torgny Petterson, framkvæmdastjóri ECAD og Hassela Nordic Network, kynnti starfsemi Hassela-hreyfingarinnar í Svíþjóð á opnum fundi á Hótel Sögu í febrúar 1998. Um 50 manns mættu á fundinn. Hassela-hreyfingin rekur m.a. þrjú meðferðarheimili í Sví­þjóð. Um er að ræða 1–2 ára meðferð fyrir ungt fólk 17–20 ára.
     *      Andrea Muccioli, forstöðumanni meðferðarsamfélagsins San Patrigano á Ítalíu, var boðið hingað til lands í samstarfi Reykjavíkurborgar og verkefnisstjórnar í mars 1998. Hald­inn var fjölmennur fundur, yfir 100 manns, í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem hann kynnti starfsemi San Patrigano og fulltrúar helstu meðferðarstofnana á Ísland sátu í panel. Andrea Muccioli dvaldi hér í fjóra daga og hitti ráðherra og aðra ráðamenn auk þess sem hann heimsótti stofnanir og meðferðarheimili.
     *      Anders Wedelin, hverfisstjóri í Stokkhólmi, og Thomas Shelin, fræðslustjóri Hassela-hreyfingarinnar, kynntu nýjungar í forvarnastarfi á opnum fundi í Gerðubergi í maí 1998. Kynnt var verkefnið Skólavinir sem hefur reynst mjög árangursríkt forvarnaverkefni í grunnskólum í Svíþjóð. Um 80 manns mættu á fundinn víða af landinu. Fundurinn var haldinn í samvinnu við SAF.
     *      Dr. Gail Gleason Milgram og dr. Thomas Griffin voru með opinn fund um forvarnamál í Ráðhúsi Reykjavíkur í nóv. 1998. Fundurinn var á vegum verkefnisstjórnar í samvinnu við FRÆ.

III.3. Samstarf við sveitarfélög.
    Í upphafi ársins gerðist Samband íslenskra sveitarfélaga formlegur aðili að áætluninni Ísland án eiturlyfja og tilnefndi fulltrúa sinn í verkefnisstjórn. Styrkti aðild Sambands íslenskra sveitarfélaga mjög starf og framkvæmd verkefnisstjórnar. Upplýsingamiðlun og ráð­gjöf fyrir sveitarfélög hefur verið snar þáttur í starfsemi verkefnisstjórnar. Föst umfjöllun um vímuvarnamál í Sveitarstjórnarmál blaði Sambands íslenskra sveitarfélaga, er til þess fallin að vekja athygli á mikilvægi þess að sveitarfélögin vinni markvisst að málinu og miðli upp­lýsingum sín á milli.
    Margvísleg verkefni hafa verið unnin í samvinnu við sveitarfélögin á árinum og er þar fyrst að nefna ráðstefnuröðina Við getum betur.

A. Ráðstefnur um forvarnir í öllum landshlutum.


     Við getum betur. Ráðstefnur í öllum landshlutum í samvinnu við sveitarfélög, Landshlutasamtök sveitarfélaga, Heimili og skóla, Tóbaksvarnanefnd, SÁÁ, unglingablaðið Smell o.fl.

    Á árinu skipulagði verkefnisstjórnin í samvinnu við fjölmarga aðila um land allt, ráðstefn­ur um forvarnamál. Á ráðstefnunum var fjallað um áfengis- og fíkniefnaneyslu ungs fólks og náið samstarf haft við þá sem starfa að barna- og unglingamálum í viðkomandi landshluta. Þátttaka á ráðstefnunum var mjög góð, á bilinu 100 til 200 manns sóttu hana á hverjum stað.
    Þegar hafa verið ráðstefnur á Vesturlandi, haldin í Stykkishólmi, á norðanverðum Vest­fjörðum, haldin á Ísafirði, Norðurlandi eystra, haldin á Húsavík, á Austfjörðum, haldin á Reyðarfirði, og á Norðurlandi vestra, haldin á Sauðárkróki. Ráðstefnurnar hafa oftast verið kynntar undir heitinu Við getum betur nema á Sauðárkróki þar sem hún var kynnt undir heitinu Á réttri leið. Upphafið að þessari ráðstefnuröð var ráðstefnan Frá foreldrum til foreldra sem haldin var á Hótel Sögu í október 1997.
    Meginmarkmið ráðstefnu af þessum toga er að efla umræðu um forvarnir um land allt, miðla upplýsingum og þekkingu, hvetja sveitarfélög til frekari aðgerða og virkja samfélagið í heild til aðgerða í forvarnamálum. Nánast fastir liðir á ráðstefnunum hefur verið framsaga dr. Þórólfs Þórlindssonar prófessors um vímuefnaneyslu unglinga og tengsl áhættuhegðunar unglinga við fjölskylduaðstæður, skóla og tómstundir. Á ráðstefnunni á Sauðárkróki fjallaði Einar G. Jónsson sálfræðingur um sambærilegt efni. Landssamtökin Heimili og skóli hafa verið með innlegg og/eða stjórnað málstofum á öllum ráðstefnunum. Kynnt hafa verið áhuga­verð forvarnaverkefni á vegum sveitarfélaga eða samtaka og að jafnaði skipulagðar málstofur um slík efni. Framkvæmdastjóri Tóbaksvarnanefndar hefur komið með virkum hætti að fram­kvæmd þeirra og einnig ritstjóri unglingablaðsins Smells. Á bilinu 40–60 unglingar úr efstu bekkjum grunnskólanna og nemendur úr framhaldsskólum hafa verið virkir þátttakendur og að jafnaði verið skipulagðar málstofur þar sem ungt fólk fjallar um árangursríkar leiðir í vímuvörnum. Þá hafa ráðherrar, alþingismenn og sveitarstjórnarmenn lagt ráðstefnunum lið með þátttöku. Ótaldir eru enn fjölmargir aðilar sem hafa lagt sitt af mörkum til að gera þessar ráðstefnur áhugaverðar og fræðandi.

B. Forvarna- og heilsubær.


    
Forvarna- og heilsubær. Samstarfsverkefni verkefnisstjórnar áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja, vímuvarnanefndar Seltjarnarnesbæjar og stjórnar Heilsueflingar. Hófst vorið 1998.

    Verkefnisstjórn hefur ásamt stjórn Heilsueflingar, verkefni heilbrigðis- og tryggingamála­ráðuneytisins, komið að undirbúningi og framkvæmd forvarnaáætlunar Seltjarnarnesbæjar. Áætlað var að heilsugæslustöðin á Seltjarnarnesi tæki virkan þátt í verkefninu. Forvarnaáætl­un Seltjarnarnesbæjar var kynnt sem framlag til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja.

C. Vímuvarnaáætlanir.


     Vímuvarnaáætlanir í öllum sveitarfélögum og grunnskólum landsins. Framkvæmd á vegum sveitarstjórna, fræðsluskrifstofa og skóla.

    Verkefnisstjórn hefur í samvinnu við félagsmálaráðuneyti sent öllum bæjar- og sveitar­stjórnum bréf og hvatt til þess að unnar séu forvarna- eða vímuvarnaáætlanir fyrir öll bæjar- og sveitarfélög. Verkefnisstjórnin hyggst safna áætlunum saman og hafa þær aðgengilegar á vefnum.
    Félagsmiðstöðvar ÍTR, Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, hafa unnið að gerð vímu­varnaáætlana og verða þær aðgengilegar á vefnum. Vímuvarnaáætlanirnar hafa verið kynntar sem framlag til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja.
    Grunnskólar víða um land hafa unnið að gerð forvarna- eða vímuvarnaáætlana og hafa t.d. flestir grunnskólar í Reykjavík lokið þeirri vinnu.
    Framhaldsskólarnir hafa einnig unnið að stefnumörkun í vímuvörnum og hafa margir skól­ar lokið þeirri vinnu. Stefnumörkunin er liður í forvarnaverkefni menntamálaráðuneytisins í framhaldsskólum sem hófst 1997.

III.4. Samstarf við foreldrasamtök.
    Foreldrar gegna lykilhlutverki í forvarnastarfi og því er mikilvægt að leggja rækt við verk­efni sem hafa þann tilgang að efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu. Í þeim tilgangi hefur verkefnisstjórnin lagt áherslu á samstarf við samtök foreldra.

A. Útivistarátak.


     Átak í útivistarmálum barna og unglinga. Áætlunin Ísland án eiturlyfja, Reykjavíkurborg ásamt sveitarfélögum um land allt, forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík, foreldrasamtökin Vímulaus æska og embætti ríkislögreglustjóra höfðu með sér samstarf um átak í útivistarmálum barna og unglinga.

    Meginmarkmið átaksins var að styðja og hvetja foreldra til að virða og framfylgja reglum um útivistartíma og voru auglýsingar í fjölmiðlum þungamiðja átaksins. Í Gallup-könnuninni frá 1998 sem nefnd er hér að framan kom m.a. fram að um 90% foreldra segjast virða reglur um útivistartíma barna og unglinga og var sú staðreynd rækilega auglýst. Tilgangurinn var að efla samstöðu foreldra og undirstrika að nánast allir foreldrar eru sammála um að fara að þessum reglum.
    Liður í útivistarátakinu var útgáfa á 8000 segulspjöldum með áletruðum reglum um úti­vistartímann sem framleidd voru m.a. með styrk úr Forvarnasjóði heilbrigðis- og trygginga­málaráðuneytisins. Segulspjaldið var hannað með það í huga að hægt væri að hafa það á ís­skáp og var til ráðstöfunar fyrir öll sveitarfélög meðan birgðir entust. Auk þess voru prentuð 500 eintök af veggspjöldum með reglum um útivistartíma og þeim komið fyrir á heilbrigðis­stofnunum, sundstöðum og víðar um land allt. Í Reykjavík sendu lögreglustjóri og borgar­stjóri foreldrum allra barna sem fædd eru 1984, 1985 og 1986 bréf ásamt segulspjöldunum þar sem foreldrar voru hvattir til að virða og framfylgja reglum um útivistartíma. Viðbrögð við þessu átaki hafa verið mjög góð og er fyrirhugað að halda þessu starfi áfram. Til umræðu er að senda sambærilegar upplýsingar árlega til foreldra allra barna í 7. bekk.

B. Hvatningarátak í fjölmiðlum fyrir verslunarmannahelgi.


     Hvatningarátak til stuðnings foreldrum gegn eftirlitslausum ferðum unglinga á útihátíðir og gegn áfengisneyslu unglinga. SAF – samstarfsnefnd Reykjavíkurborgar um afbrota- og fíkniefnavarnir, í samvinnu við fjölmörg sveitarfélög. Sumarið 1998.

    Með sama hætti og sumarið 1997 hafði Reykjavíkurborg í samstarfi við fjölmörg sveitar­félög frumkvæði að hvatningarátaki í fjölmiðlum. Átakið beindist að foreldrum og voru þeir hvattir til að sporna við eftirlitslausum ferðum unglinga á útihátíðir um verslunarmannahelg­ina. Jafnframt var markviss áróður gegn áfengisneyslu unglinga og brýnt fyrir foreldrum og öðrum að kaupa ekki áfengi fyrir þá. Átakið byggðist m.a. á upplýsingum úr Gallup-könnun­inni sem áður er getið. Átakið var liður í áætluninni Ísland án eiturlyfja og kom áætlunin með virkum hætti að framkvæmd þess.

C. Auglýsingaskilti í áfengisverslanir.


     Átak gegn áfengiskaupum fyrir ungt fólk – auglýsingaskiltum eða sk. talbólum komið fyrir í öllum áfengisverslunum.Samstarfsverkefni verkefnisstjórnar, ÁTVR og Heim­ilis og skóla. Hófst í desember 1998.

    Að frumkvæði verkefnisstjórnar og í samstarfi við ÁTVR og Heimili og skóla voru hann­aðar sérstakar auglýsingar/talbólur sem komið var fyrir í áfengisverslunum um land allt. Þar var fólk var hvatt til að „Gera ekki slæm kaup“ og kaupa ekki áfengi fyrir börn og unglinga. Texti talbólanna var þrenns konar:

GERÐU EKKI SLÆM KAUP !
Áfengiskaup fyrir unglinga eru lögbrot!

GERÐU EKKI SLÆM KAUP !
Unglingar vilja skýr skilaboð – kaupum ekki áfengi fyrir þá!

GERÐU EKKI SLÆM KAUP !
Unglingar undir áhrifum eru í hættu!


    Fjöldi 15 ára unglinga sem hafa neytt áfengis hefur lítið breyst á síðustu 10 árum. Á sama tíma hefur dregið úr tóbaksreykingum þessa aldurshóps. 10 Skýringar á þessu er m.a. talið vera andvaraleysi almennings gagnvart áfengisneyslu ungs fólks. Í áðurnefndri könnun sem ÍM Gallup gerði fyrir verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja o.fl. í júní 1998 meðal einstaklinga 23–54 ára, kemur fram að einungis 57% aðspurðra töldu það mjög alvarlegt að 60% 15 ára unglinga hafa orðið ölvuð en 75% töldu það mjög alvarlegt að 21% 15 ára unglinga reykir daglega. Í sömu könnun var spurt hvort foreldrar hefðu keypt áfengi fyrir börn sín á unglingsaldri, nei svöruðu 88%.

D. Framtak foreldra í forvörnum.


    Samstarfshópar foreldra um aðgerðir í fíkniefnamálum. Samstarfsverkefni verkefnisstjórnar, landssamtakana Heimili og skóla og foreldrahóps Vímulausrar æsku. Hófst í febrúar 1998.

    Í kjölfar ráðstefnunnar Frá foreldrum til foreldra var stofnaður samstarfshópurinn „Foreldrar gegn fíkniefnum“ í byrjun árs 1998. Verkefni hópsins voru aðgerðir gegn duldum aug­lýsingum á fíkniefnum, aðgerðir gegn áfengisneyslu unglinga við lok samræmdra prófa o.fl. Verkefnisstjórn greiddi laun verkefnisstjóra í þrjá mánuði sem hafði það hlutverk að vinna að áætlunargerð til lengir tíma, leiða starf hópsins og halda utanum framkvæmdir. Tveir hóp­ar eru nú starfandi í kjölfar þessa undirbúnings, annar hópurinn starfar á vegum Heimilis og skóla og hinn á vegum foreldrasamtakanna Vímulausrar æsku.

E. Fyrirmyndarforeldrar.


     Verkefnið Fyrirmyndarforeldrar. Framlag Heimilis og skóla til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja. Hófst 1997.

    Á vegum Heimilis og skóla hefur verið í gangi verkefnið Fyrirmyndarforeldrar. Verkefnið hófst haustið 1997 og er því ætlað að leiða og styðja við foreldra í uppeldishlutverkinu. Þar er tekið á ýmsum viðkvæmum málum er varða unglingsárin, útivistartíma, partí, vímuefni, samstöðu foreldra o.fl. Verkefnið er kynnt sem framlag til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja.

III.5. Ungt fólk og vímuefni.
    Viðhorf til fíkniefna eru háð tískusveiflum og fyrirmyndum. Á undanförnum árum hafa umburðarlynd og frjálslynd viðhorf gagnvart fíkniefnum aukist meðal ungs fólks. Ný fíkni­efni sem tengjast ákveðinni tísku ná útbreiðslu og áróður þeirra sem eru að markaðssetja fíkniefni og þeirra sem vilja sem mest frjálsræði í þessum málum nær oft eyrum unglinga. Áróðri um að hass sé ekki skaðlegra en áfengi er víða haldið á loft, í stað þess að undirstrika að bæði áfengi og hass er skaðlegt börnum og unglingum. Samkvæmt rannsóknum og öðrum vísbendingum er ungt fólk hlutfallslega stærstu neytendur á hassi. Í könnun Þórólfs Þórlinds­sonar o.fl. frá 1998 eru nemendur m.a. spurðir um skoðun sína á skaðsemi hass. Kemur í ljós að 30% nemenda í 10. bekk telja hass ekki skaðlegt. Þetta hljóta að teljast váleg tíðindi og undirstrikar mikilvægi þess að réttum upplýsingum um skaðsemi fíkniefna sé komið á fram­færi við börn og unglinga. Hér verður gerð grein fyrir verkefnum sem hafa að markmiði að virkja unglingana til aðgerða gegn fíkniefnum.

A. 20,02 hugmyndir um eiturlyf.


     Verkefni á vegum ungs fólks, með stuðningi verkefnisstjórnar. Markmiðið er að virkja ungt fólk til þátttöku í baráttu gegn vímuefnum og nýrra viðhorfa í því sambandi. Samstarf við Hitt húsið, Jafningjafræðslu og önnur samtök ungs fólks, Ríkissjónvarpið og Stöð 2. Styrkt af Eimskip. Hófst 1997, lýkur 1999.

    Í samvinnu við Hitt húsið hefur verið unnið að verkefni sem hafði þann tilgang að virkja ólíka hópa ungs fólks í samfélaginu til umræðu og aðgerða gegn fíkniefnum. Öll framkvæmd var í höndum ungs fólks.
    Rannsóknir, upplýsingar frá meðferðarstofnunum og vísbendingar úr framhaldsskólum benda til aukinnar neyslu fíkniefna meðal ungs fólks 16–20 ára. Þessi staðreynd er áhyggju­efni og kallar á aðgerðir. Hin síðari ár hefur margt verið gert og leitað hefur verið nýrra leiða til að ná til ungs fólks með fræðslu og upplýsingar um skaðsemi fíkniefna. Hér á landi hefur m.a. starf Jafningjafræðslunnar vakið verðskuldaða athygli og unnið hefur verið að gerð vímuvarnaáætlana innan framhaldsskólanna. Áætlunin Ísland án eiturlyfja leitaði ráðgjafar og upplýsinga hjá fjölmörgum aðilum varðandi vænlegar leiðir til árangurs í vímuvörnum fyrir þennan aldurshóp. Niðurstaðan varð sú að leitað var samstarfs við Hitt húsið um fram­kvæmd verkefnis á þessu sviði. Útkoman varð verkefnið 20,02 hugmyndir um eiturlyf.
    Hugmyndir að verkefninu 20,02 hugmyndir um eiturlyf komu frá ungu fólki og voru framkvæmdar af því. Markmiðið var að vekja áhuga og hvetja til skoðanaskipta og laða fram hug­myndir ungs fólks um forvarnir og eiturlyf á Íslandi í dag. Við framkvæmdina var gerð tilraun til að fara nýjar leiðir í baráttunni og í stað þess að einblína á hina dökku mynd sem svo oft er dregin upp var leitað í smiðju ungs athafnafólks og reynt að fá jákvæða mynd af því sem ungt fólk tekur sér fyrir hendur í dag. 21 hugmynd eða viðburði var hrundið í fram­kvæmd. Lögð var áhersla á að þátttakendur í hverju verkefni hefðu svigrúm og frelsi til að þróa sínar eigin hugmyndir og framkvæma þær.
    Allir viðburðirnir voru myndaðir og síðan framleidd 21 stuttmynd og þær sýndar í Ríkis­sjónvarpinu fyrir fréttir á laugardagskvöldum. Sýningar hófust í haust og eru stuttmyndirnar endursýndar 1–2 sinnum í hverri viku. Stöð 2 mun taka myndirnar til sýninga eftir áramót.
    Markmiðið með gerð myndanna var m.a. að vekja athygli á heilbrigðum viðfangsefnum ungs fólks og afstöðu og sjónarmiðum þeirra til eiturlyfja. Vonir voru einnig bundnar við að myndirnar yrðu til þess að hvetja til skoðanaskipta og laða fram hugmyndir ungs fólks um forvarnir og eiturlyf á Íslandi í dag. Allir viðburðirnir tengjast þemanu eiturlyf með einum eða öðrum hætti. Dæmi um viðfangsefni stuttmyndanna er:
     *      Hátíð í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem ungir listamenn komu fram.
     *      Spjarir 2000 – fatahönnunarsýning sjö nemenda í textíldeild MHÍ.
     *      Listdans ungra stúlkna í Kringlunni.
     *      Dreifiljóð – ljóð ungrar stúlku gefið út í 300 eintökum og dreift á kaffihús og víðar.
     *      Úr fókus – sýning á veitingastaðnum Nelly's bar.
     *      Fimleikar drengja úr Gerplu, sýning í Kringlunni.
     *      Bakaranemar úr Menntaskólanum í Kópavogi bökuðu brauð og skreyttu undir þemanu eiturlyf.
     *      Málþingið Ungt fólk og forvarnir fór fram í Hinu húsinu.
    Fjölmargir aðilar komu að framkvæmd þessara margvíslegu verkefna og ýmsir styrktarað­ilar lögðu einstaka verkefni lið. Kostnaður við verkefnið var þó að stærstum hluta greiddur af styrk Eimskips til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja. Sjá nánar yfirlit yfir listviðburði í fylgiskjali.

B. Pallas Athena – Thor.


     Pallas Athena – Thor. Samstarfsverkefni í Evrópu um lestarferð ungs fólks að íslensku frumkvæði. Undirbúningur hófst árið 1997.

    PA-T – Pallas Athena – Thor – er afar metnaðarfullt verkefni ungs fólks. Markmið verk­efnisins er að virkja ungt fólk til aðgerða í vímuvörnum og í þeim tilgangi er verið að skipu­leggja lestarferð ungs fólks í Evrópu gegn eiturlyfjum. Auk þess er stefnt að ráðstefnu hér á landi um vímuvarnir og stofnun evrópskra samtaka, Ungt fólk í Evrópu gegn eiturlyfjum. Hugmyndin er íslensk og hefur verkefninu verið skipuð sérstök verkefnisstjórn.
    Verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hefur stutt aðstandendur Pallas Athena – Thor með margvíslegum hætti, m.a. með kynningu á verkefninu í ræðu og riti erlendis og aðstoðað starfsmenn PA-T við að komast í tengsl við erlenda aðila. Formaður verkefnis­stjórnar PA-T kynnti verkefnið ásamt verkefnisstjóra áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja á stjórnarfundi ECAD í Lugano sl. vor. Var þar samþykkt að styðja PA-T með markvissum hætti. Framkvæmdastjórn ECAD hefur m.a. skrifað öllum aðildarborgum og hvatt þær til þátttöku í verkefninu. Verkefnisstjóri áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja situr í stjórn PA-T.

C. Forvarnasíða í unglingablaðinu Smelli.


     Ísland án eiturlyfja með fasta síðu í unglingablaðinu Smelli. Samstarfsverkefni ritstjórnar Smells og Íslands án eiturlyfja. Hófst vorið 1998.

    Opna í unglingablaðinu Smelli ber nafn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja og er þar fjallað um málefni sem hafa skírskotun til vímuvarnamála. Lögð er áhersla á viðtöl við unglinga um vímuvarnir, frásagnir ungs fólks sem lent hefur í vanda vegna fíkniefna og rætt við unglinga sem tekið hafa skýra afstöðu gegn fíkniefnum. Efnið er margvíslegt og lögð áhersla á efnistök sem talin eru geta haft áhrif á ungt fólk og fyrirbyggt neyslu á fíkniefnum. Aug­lýsingar verkefnisstjórnar Varðveittu minnið — gleymdu hassinu hafa einnig verið fastur liður í blaðinu.
    
III.6. Stofnanir og félög.
    Starf áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja grundvallast á nánu og öflugu samstarfi við stofnanir, félög og samtök. Skólarnir gegna lykilhlutverki í vímuvörnum og að foreldrum frátöld­um eru kennarar og aðrir starfsmenn skólans í mikilvægu hlutverki. Þekking og skýr stefna í vímuvörnum þarf að vera til staðar hjá kennurum, tómstundafulltrúum, meðferðarfulltrúum, þjálfurum og öðum sem starfa með börnum og unglingum. Á árinu 1998 kom verkefnisstjórn­in að eftirtöldum verkefnum í þessu sambandi:

A. Skólavinir – forvarnir í grunnskólum.


     Skólavinir tilraunaverkefni á vegum Reykjavíkurborgar í tveim grunnskólum. Kynnt sem liður í áætluninni Ísland án eiturlyfja. Hófst haustið 1998.

     Skólavinir er tilraunaverkefni í tveimur grunnskólum í Reykjavík, Austurbæjarskóla og Árbæjarskóla. Skólarnir hafa nána samvinnu um verkefnið við félagsmiðstöðvarnar Tónabæ og Ársel. Verkefnið er kynnt sem liður í áætluninni Ísland án eiturlyfja og var því upphaflega hrundið í framkvæmd af vímuvarnanefnd Reykjavíkur og er nú m.a. styrkt af SAF – sam­starfsnefnd Reykjavíkurborgar um afbrota- og fíkniefnavarnir. Verkefninu er stýrt af sérstakri verkefnisstjórn undir forystu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Verður árangur þess metinn af óháðum aðila og niðurstöður matsins látnar ráða um áframhaldandi starf af þessum toga.
    Markmið verkefnisins er að draga úr einelti, ofbeldi, vímuefnaneyslu, skrópi og slæmri mætingu nemenda. Ráðnir hafa verið tveir starfsmenn á aldrinum 20–25 ára, svokallaðir skólavinir, við hvorn skóla og er þeim ætlað að aðstoða nemendur í efri bekkjum, bæði innan og utan skóla. Þeim er ætlað að vera með nemendum í frímínútum, í tímum og víðar og bregðast við atvikum sem stuðlað geta að árekstrum og ofangreindum vandamálum hjá nem­endum. Aðrir starfsmenn skólanna og félagsmiðstöðvanna fá markvissa fræðslu um verkefnið og skólavinirnir hafa sérstaka leiðbeinendur meðal kennara. Utanaðkomandi starfsmenn sem hafa sótt sérstaka þjálfun m.a. til Svíþjóðar annast fræðslu fyrir skólavinina, kennara og for­eldra. Thomas Schelin, fræðslustjóri Hassela-hreyfingarinnar, er ráðgjafi við tilraunaverkefn­ið og kemur til landsins tvisvar á ári þau tvö ár sem það stendur yfir.
    Verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hefur beitt sér fyrir kynningu á verkefninu í skólum úti á landi, bæði með því að senda áhugasömum gögn og upplýsingar og með því að miðla upplýsingum um verkefnið á vefsíðum áætlunarinnar.

B. Samráð við aðila sem starfa að vímuvörnum.


     Samráð við aðila sem starfa að vímuvörnum. Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar og að frumkvæði Jafningjafræðslunnar og verkefnisstjórnar Íslands án eiturlyfja. Hófst 1998.

    Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá mars 1998 var að frumkvæði Íslands án eiturlyfja og Jafningjafræðslunnar var um 15 aðilum sem starfa að vímuvörnum og aðsetur hafa í Reykjavík boðið til samráðsfundar í Hinu húsinu í des. 1998. Þessir aðilar eru: Áfengis- og vímuvarnaráð ríkisins, Ísland án eiturlyfja, Jafningjafræðslan, forvarnadeild SÁÁ, Vímulaus æska, landssamtökin Heimili og skóli, FRÆ – fræðslumiðstöð í fíkniefna­vörnum, forvarnadeild Lögreglunnar í Reykjavík, Rauðakross húsið, ÍUT – íslenskir ung­templarar, SAMFOK, forvarnasvið Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, SAF – samstarfsnefnd Reykjavíkur um afbrota- og fíkniefnavarnir, ÍTR – íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur, miðbæjarstarf þjóðkirkjunnar, Tóbaksvarnanefnd og fræðsludeild Krabbameinsfélags Íslands.
    Tilgangur fundarins var að efla samvinnu, upplýsingamiðlun og samræma aðgerðir á þessu sviði. Mikill áhugi var á að þróa þetta starf áfram. Áætlað er að Áfengis- og vímuvarnaráð annist umsjón með samstarfinu til framtíðar.

C. Forvarnaverkefni í grunnskóla.


     Forvarnir í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði. Samstarfsverkefni Hvaleyrarskóla, ritstjóra unglingablaðsins Smells, verkefnisstjórnar og Jafningjafræðslunnar. Hófst vorið 1998.

    Í samvinnu við skólastjóra Hvaleyrarskóla, forstöðumann félagsmiðstöðvarinnar í hverf­inu, ritstjóra unglingablaðsins Smells og Jafningjafræðsluna kom verkefnisstjórn að undir­búningi forvarnaverkefnis í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði. Verkefnið fólst m.a. í því að nem­endur í 10. bekk önnuðust fræðslu fyrir yngri bekkjardeildir um skaðsemi fíkniefna. Með að­stoð og undir handleiðslu Jafningjafræðslunnar önnuðust 5 nemendur í 10. bekk fræðsluna. Fóru þeir á milli bekkja og ræddu við nemendur. Reynslan af verkefninu var talin góð og var sérstök umfjöllun um það í Smelli.

D. Körfuboltadómarafélagið.


     Áletrunin Ísland án eiturlyfja á baki búninga dómara í Körfuboltadómarafélaginu. Samstarf verkefnisstjórnar og Körfuboltadómarafélagsins. Hófst 1997.

    Í september 1997 var undirritaður samningur við Körfuboltadómarafélag Íslands um að áletrunin Ísland án eiturlyfja sé á baki búningum þeirra. Samningurinn gildir til haustsins 1999.

E. ÍUT – æskulýðssamtök.


     Hugmyndasamkeppni góð ráð til jafnaldra gegn áfengisneyslu. Framkvæmt af ÍUT – æskulýðssamtökum og kynnt sem framlag til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja. Hófst haustið 1998.

    Haustið 1998 efndu ÍUT – æskulýðssamtök til hugmyndasamkeppni meðal nemenda í 8. bekkjum allra grunnskóla landsins. Verkefnið var alfarið unnið og undirbúið af ÍUT en kynnt sem framlag til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja. Nemendur fengu sendar upplýsingar tengdar vímuefnaneyslu ungs fólks og út frá þeim unnu þeir hugmyndir að góðum ráðum til jafnaldra sinna um það hvernig maður fær einhvern, sem er að velta fyrir sér að taka fyrsta sopann, til að hætta við eða fresta því um sinn. Þátttaka var mjög góð en alls bárust um 2000 tillögur frá rúmlega 1000 nemendum. Dómnefnd mun fara yfir allar innsendar tillögur og velja úr þeim fimm bestu hugmyndirnar og láta prenta þær á veggspjald, sem dreift verður í alla grunnskóla og á fleiri staði sem ungt fólk sækir.

F. Samstarf við útgáfufélag Æskunnar.


     Samstarf við útgáfufélag Æskunnar. Samstarfsverkefni Æskunnar og Íslands án eiturlyfja. Hófst vorið 1998.

    Forsvarsmenn útgáfufélagsins Æskunnar og verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja gerðu með sér samkomulag um samstarf á árinu 1998. Samstarfið fólst m.a. í reglulegri umfjöllun í unglingablaðinu Smelli undir nafni Íslands án eiturlyfja um áleitin málefni er varða ungt fólk og neyslu vímuefna. Í samkomulaginu fólst einnig að verkefnisstjórn ábyrgð­ist fastar heilsíðuauglýsingar í blaðinu. Af því tilefni m.a. lét verkefnisstjórn útbúa auglýs­ingu um skaðsemi hass undir fyrirsögninni: Varðveittu minnið – gleymdu hassinu.
    Ritstjórn Smells og verkefnisstjórn hafa átt gott samstarf á árinu og unnið að undirbúningi og framkvæmd ýmissa verkefna. Má nefna undirbúning sjónvarpsþátta fyrir unglinga. Ekki náðist samkomulag við sjónvarpið um framleiðslu á þáttunum á síðasta ári. Forvarnaverkefn­ið í Hvaleyrarskóli í Hafnarfirði og þátttaka í ráðstefnunum Við getum betur eru dæmi um samstarfsverkefni.

G. Náms- og kynnisferðir á Hassela-meðferðarheimilið.


     Ný meðferðarúrræði. Samstarf Barnaverndarstofu, verkefnisstjórnar og Hassela um kynningu á nýjum meðferðarleiðum fyrir starfsmenn Barnaverndarstofu. Sumarið 1998.

    Verkefnisstjórn hafði milligöngu um að koma á samstarfi Barnaverndarstofu og Hassela-meðferðarheimilisins í Svíþjóð. Verkefnisstjóri áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja og forstjóri og deildarstjóri Barnaverndarstofu fóru í kynnisferð til Hassela sumarið 1998. Í kjölfarið fóru á annan tug starfsmanna meðferðarheimila Barnaverndarstofu í náms- og kynnisferðir þang­að.

IV. Drög að framkvæmdaáætlun ársins 1999.
    Í þessum kafla verður farið yfir helstu verkefni sem verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja áformar að hrinda í framkvæmd á árinu 1999. Umfang ræðst af fjármögnun og samstarfsaðilum.

1. Sveitarfélög hvött til framkvæmda.
    Unnið verður áfram á árinu 1999 að því að hvetja og styðja sveitarfélögin til aðgerða á sviði vímuvarna. Meðal verkefna sem unnið verður að í því sambandi eru:
     *      Vímuvarnaáætlanir: Sveitarfélög verða hvött til framkvæmda á sviði forvarna og áfram verður safnað upplýsingum um forvarna- og vímuvarnaáætlanir sveitarfélaga. Verður lögð áhersla á að kynna vímuvarnaáætlanir og forvarnaverkefni sveitarfélaga bæði á vefsíðum áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja, í blaði Sambands íslenskra sveitarfélaga og víðar.
     *      Kortlagning: Sérhæfð þjónusta á sviði vímuvarna sem sveitarfélög geta nýtt sér verður kortlögð. Þarna er m.a. átt við ráðgjafar- og meðferðarþjónustu, árangursrík forvarnaverkefni o.fl. Verkefnisstjórn mun beita sér fyrir útgáfu bæklings með þessum upplýs­ingum.
     *      Ráðstefnur: Ráðstefnuröðinni Við getum betur sem haldin var í flestum landshlutum á sl. ári verði lokið.
     *      Málþing: Haldið verði málþing með lykilaðilum úr kjördæmum sem tekið hafa þátt í framkvæmd ráðstefnanna Við getum betur. Á málþinginu verði m.a. fjallað um fyrirkomulag samstarfs milli sveitarfélaga, upplýsingamiðlun, árangursrík verkefni og nýjar áherslur.
     *      Sveitarstjórnamál: Tryggja áframhaldandi umræðu og umfjöllun um vímuvarnir í blaði Sambands íslenskra sveitarfélaga.
     *      Útivistar- og hvatningarátak: Fyrirhugað er að halda áfram áróðri fyrir útivistartíma. Áætlar forvarnadeild Lögreglunnar í Reykjavík, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög að senda foreldrum allra barna í 7. bekk bréf ásamt upplýsingum um útivistartíma barna og unglinga. Stefnt verður að því að halda áfram, í samvinnu við sveitarfélög, að styðja foreldra gegn áfengisneyslu unglinga og eftirlitslausum ferðum þeirra á útihátíðir.

2. Samstarf við foreldrasamtök.
    Þátttaka foreldrasamtaka er grundvallaratriði í forvörnum. Verkefnisstjórnin leggur mikla áherslu á að virkja foreldra til aukinna afskipta af áfengisneyslu barna og unglinga. Flest verkefni sem verkefnisstjórnin beitir sér fyrir hafa beinst að foreldrum með einum eða öðrum hætti.
     *      Ráðgjafarhópur foreldra – jafningjafræðsla foreldra. Unnið verði áfram í samvinnu við foreldra hjá Heimili og skóla, Vímulausri æsku og aðra að markvissum aðgerðum og úrræðum í forvarnamálum.
     *      Málþing verði haldið um árangursríkt starf foreldra á sviði forvarna. Kynnt verði verkefni sem foreldrar hafa beitt sér fyrir. Dæmi um verkefni er foreldraröltið, fyrirmyndar­foreldrar, verkefnið Tilvera sem er starf mæðra í Grundarfirði o.fl.

3. Heilsuefling og heilsugæslustöðvar.
    Mikið hefur verið rætt og ritað um nauðsyn þess að heilsugæslustöðvar stundi virkara for­varnastarf og ýmislegt hefur verið gert í því sambandi. Hér eru lagðar til frekari aðgerðir í því sambandi og þá fyrst og fremst á sviði vímuvarna. Leitað verði samvinnu við Áfengis- og vímuvarnaráð og fleiri við framkvæmd þessara verkefna:
     *      Fræðsluátak fyrir starfsmenn heilsugæslustöðva. Skipulagt verði í samvinnu við rannsóknaraðila og starfsfólk heilsugæslunnar fræðsluefni um fíkniefnaneyslu ungs fólks og úrræði í því sambandi. Haldnir verði fræðslufundir fyrir starfsfólk heilsugæslustöðva þ.m.t. skólahjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum um land allt. Sótt verði um styrk til forvarnasjóðs til að fjármagna þetta verkefni.
     *      Fíkniefnavarnir á heilsugæslustöðvum. Ráðist verður í sérstakt tilraunaverkefni í tveim til þrem heilsugæslustöðvum. Verkefnið felst í því að viðkomandi heilsugæslu­stöðvum verður gert kleift að veita sérhæfða ráðgjöf varðandi fíkniefnavandann og skipuleggja í samstarfi við fleiri forvarnastarf á því sviði. Við undirbúning verkefnisins verði haft samráð við foreldrasamtök, Tóbaksvarnanefnd og fleiri aðila.

4. Rannsóknir.
    Undirstaða áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja byggist á að hægt sé að meta árangur af aðgerðum og verkefnum, auk þess sem brýnt er að til séu aðgengilegar og samanburðarhæfar upplýsingar um fíkniefnaneyslu í landinu. Verkefnisstjórnin mun leggja áhersla á framkvæmd eftirtalinna kannana á árinu:
     *      Útgáfa skýrslu með niðurstöðum um vímuefnaneyslu grunnskólanema 1998. Skýrslan verður m.a. send öllum sveitarfélögum.
     *      Könnun á neyslu vímuefna meðal ungs fólks á aldrinum 16–20 ára.
     *      Safna saman upplýsingum um fjölda virkra fíkniefnaneytenda.
     *      Gerð ESPAD-könnunar.

5. Aðgerðir gegn áfengisneyslu unglinga.
    
Grundvallaratriði í vímuefnavörnum er að draga úr áfengisneyslu unglinga. Mikilvægt er að leita nýrra leiða í því sambandi.
     *      Nei, ekki strax. Leitað verði samstarfs við Samfés – samtök félagsmiðstöðva – um aðgerðir gegn áfengisneyslu ungs fólks. Lögð verði áhersla á að vinna að beinskeyttum áróðri og leita hugmynda unglinga í því sambandi. Verkefnisstjórn mun leggja áherslu á að koma á framfæri skoðunum og hugmyndum unglinga sem valið hafa að segja: Nei, ekki strax við boði um áfengi. Hugmyndir eru um veggspjöld, kort og auglýsingar í fjölmiðlum.

6. Kynning á skaðsemi eiturlyfja.
    Niðurstöður kannana og aðrar upplýsingar benda til þess að allstór hópur ungs fólks telji að fíkniefni, t.d. hass, sé ekki mjög skaðlegt. Í könnun meðal grunnskólanema vorið 1998 kemur fram að tæp 30% drengja í 10. bekk telja hass ekki mjög skaðlegt og 25% drengja í 8. bekk telja sniffefni ekki mjög skaðleg. Þessi staðreynd undirstrikar mikilvægi þess að koma á framfæri vönduðum og réttum upplýsingum um skaðsemi allra vímuefna fyrir börn og unglinga. Leitað verður eftir samvinnu við Áfengis- og vímuvarnaráð við framkvæmd þessa verkefnis:
     *      Kynningarátak: Skipaður verður vinnuhópur fagfólks til að undirbúa og skipuleggja átak til kynningar á skaðsemi áfengis og annarra fíkniefna fyrir börn og unglinga. Lögð verður m.a. áhersla á vandaða og faglega umfjöllun í fjölmiðlum sem tengist auglýsinga­átaki um málið. Leitað til erlendra sérfræðinga um upplýsinga- og fræðsluefni sem skilað hefur árangri í þessu sambandi.

7. Vímuefnavarnir fyrir 16–18 ára.

    Áherslur í vímuvörnum hafa að mestu beinst að börnum og unglingum á grunnskólaaldri. Með hækkun sjálfræðisaldurs og með tilliti til þeirra upplýsinga sem til eru um neyslu vímu­efna meðal unglinga á framhaldsskólaaldri er mikilvægt að efla fræðslu og annað forvarna­starf meðal aldurshópsins 16–20 ára. Í þessu sambandi mun áætlunin Ísland án eiturlyfja beita sér fyrir eftirfarandi:
     *      Vímuvarnir fyrir ungt fólk 16–20 ára: Skipaður verður starfshópur með þátttöku fulltrúa Félags framhaldsskólanema, Æskulýðssambands Íslands, Jafningjafræðslunnar, full­trúa sveitarfélaga, fulltrúa starfsmanna framhaldsskólanna, foreldrasamtaka, verkefnis­stjórnar Íslands án eiturlyfja o.fl. Starfshópnum verði m.a. falið að afla upplýsinga um stöðu mála, árangursrík forvarnaverkefni og vinna að tillögum um aðgerðir sem hafa að markmiði að draga úr vímuefnaneyslu þessa aldurshóps. Starfshópurinn verði ráðgefandi við framkvæmd verkefna. Verkefnisstjórn Íslands án eiturlyfja styðji m.a. við framkvæmdina með greiðslu launa starfsmanns, tímabundið, til aðstoðar starfshópnum ef þörf er talin á.

8. Vímuefnalaus grunnskóli.
    Unnið verði áfram að áætluninni Vímuefnalaus grunnskóli. Lögð verði áhersla á eftirfarandi:
     *      Vímuvarnaáætlanir: Skólar um land allt verða hvattir til að vinna að gerð vímuvarnaáætlana. Lögð verður áhersla á að safna saman öllum áætlunum og verkefnum sem tengjast framkvæmd þeirra og koma þeim fyrir á vefnum.
     *      Viðurkenning: Fíkniefnalausum (tóbaks-, áfengis- og eiturlyfjalausum) bekkjum í þremur efstu árgöngum grunnskólans verður veitt sérstök viðurkenning og framlagt þeirra kynnt í fjölmiðlum. Samstarf við skóla, Tóbaksvarnanefnd, Áfengis- og vímuvarnaráð og Heimili og skóla.
     *      Skólavinir: Kynna tilraunastarf Austurbæjar- og Árbæjarskóla og hvetja fleiri skóla til að hefja slíka starfsemi.

9. Virkja frjáls félagasamtök til aðgerða í vímuvörnum.
    Frjáls félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki í mótun æskunnar og því er mikilvægt að þau móti sér skýra og afdráttarlausa stefnu í vímuvörnum. Í þessu sambandi mun verkefnis­stjórnin beita sér fyrir eftirfarandi:
     *      Vímuvarnaáætlanir frjálsra félaga: Forsvarsmönnum allra æskulýðsfélaga á landinu verði skrifað bréf og þeir hvattir til að vinna að gerð vímuvarnaáætlana fyrir starf við­komandi félags.
     *      Málþing fulltrúa æskulýðsfélaga: Haustið 1999 verði haldið málþing með fulltrúum allra stærri æskulýðsfélaga á landinu þar sem niðurstöður rannsókna verða kynntar og fjallað um vímuvarnaáætlanir félaga og starf á sviði forvarna. Leitað verði eftir samvinnu við æskulýðsfulltrúa ríkisins um samvinnu um þessar framkvæmdir.

10. Virkja almenning til þátttöku í vímuvörnum.
    Undirstaðan í öllu starfi áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja er að virkja almenning til virkrar þátttöku og aðgerða í vímuefnavörnum. Lögð verði áhersla á eftirtalin verkefni í því sam­bandi:
     *      Hugmyndasamkeppni: Auglýst verður eftir hugmyndum að verkefnum til að draga úr áfengisneyslu barna og unglinga á Íslandi. Höfundum þeirra hugmynda sem valdar verða úr til framkvæmda verður veitt viðurkenning. Samstarf við framkvæmd þessa verkefnis við Eimskip.
     *      Auglýsingaátak: Líkt og á liðnum árum verði stuðlað að auglýsingaátaki fyrir verslunarmannahelgi, í samstarfi við sveitarfélög, þar sem foreldrar verða hvattir til að senda börn ekki ein og eftirlitslaus á útihátíðir.
     *      Föst greinaskrif: Skipuleggja greinaskrif í fjölmiðla um vímuvarnastarf með jákvæðum formerkjum. Mikilvægt að gefa almenningi von um að unnt sé að vinna gegn vaxandi vímuefnaneyslu ungs fólks.

11. Ungt fólk gegn fíkniefnum.
    Mikilvægt er að virkja ungt fólk til aðgerða gegn fíkniefnum. Lögð verður áhersla á eftirfarandi:
     *      Ung og öflug – gegn fíkniefnum: Skipuleggja menningarsamkomu í samráði við félög ungs fólks, starfshóp um samstarf milli ungra og aldraðra o.fl.
     *      Hassela-leikhópurinn: Vinna að því að fá Hassela-leikhópinn til Íslands. Kanna möguleika á ungmennaskiptum á vegum Ung í Evrópu. Athuga möguleika á að tengja atburð­inn Reykjavík menningarborg Evrópu 2000.
     *      Pallas Athena – Thor: Áætlunin Ísland án eiturlyfja styður og starfar að undirbúningi verkefnisins PA-T, Pallas Athena – Thor.
     *      Málþing æskulýðssamtaka: Skipuleggja í samstarfi við æskulýðsfulltrúa ríkisins málþing æskulýðssamtaka. Á málþinginu verður starfsemi Íslands án eiturlyfja og hinna mismunandi æskulýðssamtaka á sviði forvarna kynnt, auk þess sem fjallað verður um niðurstöður nýjustu rannsókna á fíkniefnaneyslu ungs fólks.
     *      20,02 hugmyndir um eiturlyf: Áframhaldandi sýningar á sjónvarpsstöðvum á stuttmyndunum 20,02 hugmyndir um eiturlyf.

12. Toll- og löggæsla.

    Á árinu 1998 var skipuð sérstök samstarfsnefnd toll- og löggæslu. Nefndinni er ætlað að skila niðurstöðum á vormánuðum 1999 og munu þær verða leiðarvísir um aðgerðir toll- og löggæslu á þessu sviði.
    Verkefnisstjórn Íslands án eiturlyfja mun hvetja til þess að safnað verði saman upplýsingum frá landinu öllu um fíkniefnabrot og brot sem rekja má til fíkniefnaneyslu. Nánar er átt við að innbrot, þjófnaði, umferðarlagabrot o.fl. sem rekja má til þess að viðkomandi sé undir áhrifum fíkniefna eða hafi framið brotið til að fjármagna fíkniefnaneyslu. Skýrsla með þess­um upplýsingum væri um margt gagnleg, t.d. sem viðmiðun um markmiðasetningu og árangursmat aðgerða.

13. Kynningar- og upplýsingastarf.
    Lögð verður áhersla á eftirfarandi verkefni á sviði kynningar- og upplýsingastarfs:
     *      http//www.islandaneiturlyfja.is: Tilgangur vefsins er að miðla upplýsingum um baráttumál þeirra sem vinna gegn eiturlyfjum og að kynna forvarnaverkefni. Á síðunni eru tengingar við innlenda og erlenda aðila sem starfa að forvörnum og verður stefnt að því að fjölga þeim á árinu. Efni heimasíðunnar hefur verið uppfært reglulega en fyrirhugað að gera það örar þannig að hægt sé að ganga að nýjustu upplýsingum um forvarnamál þar vísum. Ætlunin er að safna vímuvarnaáætlunum sveitarfélaga og skóla inn á síðuna svo og öðrum forvarnaverkefnum sem unnin eru um allt land. Á árinu 1999 er áætlað að setja inn á vefinn síðu sem ætluð er ungu fólki, tekur mið af áhugamálum þeirra og út­færð og unnin í samvinnu við það. Markmiðið er að gera vefsíðuna aðgengilegri og fýsi­legri fyrir unglinga.
     *      Unglingablaðið Smellur. Unnið verður áfram að samstarfsverkefnum sbr kafla 6.6 í Ársskýrslu Íslands án eiturlyfja 1998.
     *      Fréttapunktar áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja verða gefnir út og lögð áhersla á að auka dreifingu þeirra og miðla upplýsingum um það sem aðrir eru að fást við á sviði for­varna.

14. Aldraðir og forvarnir í þágu ungs fólks.
    Í framkvæmdaáætlun verkefnisstjórnar til fimm ára er lögð áhersla á að virkja sem flesta í þjóðfélaginu til þátttöku í vímuvörnum. Í þeim tilgangi verður leitað samstarfs við fram­kvæmdastjórn um ár aldraðra og samtök aldraðra um aðgerðir í forvörnum fyrir ungt fólk.
     *      Auglýsingar og veggspjöld: Láta útbúa auglýsingar og veggspjöld þar sem afar og ömmur leiðbeina börnum og unglingum. Nota fyrirmynd af auglýsingum frá Bandaríkj­unum.
     *      Fræðslufundir: Í kjölfar ofangreinds verði skipulagðir fræðslufundir í félagsmiðstöðvum aldraðra. Þar yrðu kynntar niðurstöður rannsókna og málefni ungs fólks á Íslandi yrðu til umfjöllunar.
     *      Samstarf kynslóða: Samvinna milli ungra og aldinna um sameiginleg verkefni. Samstarf við samtök aldraðra, framkvæmdastjórn um ár aldraðra, útvarpsstöðvar o.fl.
     *      Framkvæmdahópur: Áhugahópur aldraðra, lögreglu, Jafningjafræðslunnar og Íslands án eiturlyfja kæmi að framkvæmd, fjáröflun og fleira varðandi framkvæmd ofangreinds.

15. Fræðsla á vinnustöðum.
    Verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja skipuleggi fræðslu- og kynningarátak á vinnustöðum. Kynntar verði nýjustu niðurstöður um vímuefnaneyslu barna og unglinga, og áhættuþættir í því sambandi. Fræðslan byggist á niðurstöðum rannsókna dr. Sigrúnar Aðalbjarnardóttur og dr. Þórólfs Þórlindssonar en þau hafa stundað aðskildar rannsóknir á þessu sviði. Bæði leggja áherslu á að fullorðnir, fjölskyldan, skólinn og vinnustaðir axli aukna ábyrgð á þessu sviði. Kynningarátakið hefjist hjá Eimskip og verði styrk fyrirtækisins að hluta varið til þessa starfs. Áætlaður kostnaður miðað við 10–12 fyrirlestra er um hálf milljón.


Fskj. 1






(Myndaðar 7 síður.)








Fskj. 2





(Myndaðar 3 síður.)






Fskj. 3.

Eftirtaldir aðilar styrktu áætlunina Ísland án eiturlyfja með fjárframlögum árið 1998.



Eimskipafélag Íslands hf.
VISA Ísland
Japis
Opin kerfi
Landssíminn
Búnaðarbanki Íslands
Mál og menning
Skíma – Miðheimar hf.
Hið opinbera!
Domino's Pissa
Húsaskóli
Austurbakki hf.
Allianz-söluumboð ehf.
Fjölbrautaskólinn Ármúla
Ártúnsskóli
Breiðagerðisskóli
Fossvogsskóli
Tjarnarskóli ehf.
Melaskóli
Selásskóli
Austurbæjarskóli
Rimaskóli
Fræðslu- og menningarráð Reykjavíkur
Engjaskóli
Hamraskóli
Hagaskóli
Bæjarskrifstofur Seltjarnarness
Borgarholtsskóli
Eskimó módels
Kvennaskólinn í Reykjavík
Menntaskólinn í Reykjavík
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
Einholtsskóli
Menntaskólinn við Sund
Skífan
Vatnsleysustrandarhreppur
Snælandsskóli
Digranesskóli
Grunnskólar Kópavogs
Grunnskólar Garðabæjar
Víðistaðaskóli
Hvaleyrarskóli
Öldutúnsskóli
Setbergsskóli
Engidalsskóli
Lækjarskóli
Álftanesskóli
Reykjanesbær
Gerðahreppur
Gagnfræðaskóli Mosfellsbæjar
Varmárskóli
Klébergsskóli
Barbro-hótel
Fjölbrautaskóli Vesturlands
Haraldur Böðvarsson hf.
Vélsmiðja Ólafs R. Guðjónss.
Íslenska járnblendifélagið
Vírnet hf.
Samvinnuháskólinn Bifröst
Leirár- og Melahreppur
Bændaskólinn Hvanneyri
Bæjarskrifstofan Stykkishólmi
Dalabyggð
Vesturbyggð
Blönduósbær
Höfðahreppur
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra
Hofshreppur
Siglufjarðarkaupstaður
Sandblástur og málmhúðun hf.
Samherji hf.
Menntaskólinn á Akureyri
Verkmenntaskólinn á Akureyri
Reykdælahreppur
Reykjahreppur
Raufarhafnarhreppur
Skeggjastaðahreppur
Breiðdalshreppur
Fjölbrautaskóli Suðurlands
Ölfushreppur
Stokkseyrarhreppur
Selfosskaupstaður
Menntaskólinn Laugarvatni
Vestmannaeyjabær
Hlíðarhreppur
Jökuldalshreppur
Tunguhreppur
    
     1    Ríkisstjórnin ákvað í lok janúar 1996, að tillögu ráðherra dómsmála, félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála og menntamála, að samræma aðgerðir vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum. Jafnframt var ákveðið að setja á laggirnar nefnd ráðuneyta til að fylgjast með þessari vinnu og hefur hún starfað síðan.
     2    Skýrsla dómsmálaráðherra til Alþingis um aðgerðir á vegum stjórnvalda í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum á árinu 1997. Lögð fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98, 672. mál, þskj. 1158.
     3    Greinargerð um þessa rannsókn er að finna í ársskýrslu Fangelsismálastofnunar ríkisins 1997, útg. í desember 1998, bls. 53–60.
     4    Sjá nánar ársskýrslu Fangelsismálastofnunar, bls. 19–23.
     5    Sigrún Aðalbjarnardóttir og Leifur Geir Hafsteinsson. Áfengis- og fíkniefnaneysla reykvískra ungmenna: Tengsl við uppeldishætti foreldra, Reykjvavík 1998.
     6    Sigrún Aðalbjarnardóttir, Fjölvar Darri Rafnsson og Leifur Geir Hafsteinsson. Áfengis- og fíkniefnaneysla ungmenna: Tengsl við árásargirni og andfélagslega hegðun, Reykjavík 1999.
     1    Skýrsla þessi er tekin saman af Guðmundi Gígja, lögreglufulltrúa í forvarna- og fræðsludeild lögreglunnar í Reykjavík.
     1    Þórólfur Þórlindsson o.fl. (1998) Vímuefnaneysla ungs fólks – umhverfi og aðstæður, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.
     2    Sigrún Aðalbjarnardóttir o.fl. (1997) Áhættuhegðun reykvískra unglinga, Félagsvísindastofnun Háskólans.
     1    Fjölskyldumiðstöð vegna barna í vanda, 1998, Viðhorfskönnun um þjónustu fjölskyldumiðstöðvarinnar.
     4    Embætti lögreglustjórans í Reykjavík, 1997, Ársskýrsla.
     1    ÍM Gallup, 1997, Könnun á viðhorfum til fíkniefnaneyslu og tóbaksreykinga á meðal unglinga, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.
     2    ÍM Gallup, 1998, Könnun á viðhorfum til fíkniefnaneyslu og tóbaksreykinga á meðal unglinga.
     3    Þórólfur Þórlindsson o.fl. (1998) Vímuefnaneysla ungs fólks – umhverfi og aðstæður, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.
     4    Þórólfur Þórlindsson o.fl. (1998) Könnun á fíkniefnaneyslu nemenda í 8., 9. og 10. bekk. Óútg.
     9    Þórólfur Þórlindsson o.fl. (1998) Vímuefnaneysla ungs fólks - umhverfi og aðstæður, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, bls. 73.
     10    Þórólfur Þórlindsson o.fl. (1998) Vímuefnaneysla ungs fólks – umhverfi og aðstæður. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.