Ferill 618. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1230  —  618. mál.




Skýrsla



samgönguráðherra um rannsóknir sjóslysa.

(Lögð fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



    Samgönguráðherra skipar rannsóknarnefnd sjóslysa í samræmi við 230 gr. siglingalaga, nr. 34/1985.
    Nefndina skipa nú:
              Haraldur Blöndal hrl., formaður,
              Emil Ragnarsson skipaverkfræðingur,
              Árni Árnason vélfræðingur,
              Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnarskólans,
              Ólafur M. Kristinsson, hafnarstjóri í Vestmannaeyjum.
    Kristján Guðmundsson skipstjóri er framkvæmdastjóri nefndarinnar.
    Nefndin hefur undanfarin ár starfað með svipuðum hætti. Á árinu 1998 flutti nefndin í betra húsnæði á annarri hæð í Hafnarhúsinu. Er starfsumhverfi allt annað og í samræmi við áætlanir um að efla starf nefndarinnar og jafnframt að styrkja sjóslysarannsóknir. Heimild er á fjárlögum til þess að bæta við starfsfólki. Á því þingi sem nú er að ljúka var lagt fram frumvarp til laga um rannsóknir sjóslysa. Ekki náðist að afgreiða það á þessu þingi. Er rétt að ítreka að brýnt er að setja nýjan lagaramma um rannsóknir sjóslysa, ekki síst í ljósi þess að Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur samþykkt ályktun um rannsóknir sjóslysa og má vænta þess að einstök aðildarríki stofnunarinnar muni fara eftir henni í framtíðinni. Þá er þess einnig að geta að rannsóknir á sjóslysum taka of langan tíma vegna núverandi skipulags. Nauðsynlegt er að rannsóknaraðilar sjóslysa geti tafarlaust haft samband við aðila þegar sjóslys verða, bæði með tilliti til þess að ná glöggum framburði vitna og eins til þess að koma að vettvangi áður en hann spillist, ef hægt er vegna aðstæðna.
    Skýrslur nefndarinnar eru gefnar út. Er útgáfa þeirra fjármöguð þannig að safnað er auglýsingum í þær og þeim síðan dreift meðal sjómanna. Skýrsla fyrir árið 1995 kom út í febrúar sl. Skýrsla fyrir árið 1996 er farin í prentun og kemur væntanlega út í maí nk. Eftir er að ljúka rannsókn á sjö málum af málum ársins 1997 og má vænta þeirrar skýrslu í ágúst/ september nk. Af málum ársins 1998 er eftir að ljúka rannsókn á 61 máli. Ætlunin er að í framtíðinni verði hægt að nálgast skýrslur nefndarinnar á netinu.
    Tala þeirra mála er nefndin hefur tekið til rannsóknar er svipuð frá ári til árs. Er um það vísað í eftirgreinda töflu til samanburðar.
Eðli mála 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998
Skip sekkur 8 18 14 10 17 6 8 8
Skip strandar 22 15 27 28 19 17 10 14
Árekstur 11 3 7 5 7 11 11 2
Eldur um borð 8 6 4 14 12 11 6 6
Leki að skipi 5 6 3 3 1 1 1 0
Annað 15 11 13 6 3 12 9 10
Slys á mönnum 64 38 41 69 56 65 55 63
Dauðaslys 13 12 9 4 2 9 5 3
Samtals 146 109 118 139 117 132 105 106
Mál tekin til umfjöllunar 146 104 113 113 108 140 99 106

    Slysin skiptast þannig í flokka. Það skal tekið fram að tölur um slys eru fengnar frá Tryggingastofnun ríkisins og eru tölur fyrir árin 1997 og 1998 ekki tilbúnar.

Atburður 1991 1992 1993 1994 1995 1996
Dauðaslys:
    Þegar skip ferst eða strandar 7 7 5 1 0 5
    Maður fellur fyrir borð 0 4 1 1 1 2
    Við vindur 0 0 0 1 0 0
    Af öðrum orsökum 4 1 3 1 1 2
Brunaslys:
    Eldur um borð

1

2

0

0

3

0
    Af völdum sýru eða annarra efna 0 2 0 0 3 0
    Af völdum sjóðandi vökva 2 0 1 1 3 2
    Af öðrum orsökum 3 5 0 3 1 1
Verður fyrir skurði eða stungu 57 54 58 48 43 39
Slys vegna brotsjóa 19 15 9 12 5 9
Slys við vindur:
    Lendir inni á vindu 7 6 3 8 0 1
    Klemmist af völdum hífinga 12 17 18 26 24 29
    Eitthvað slæst til við hífingu 64 75 73 67 62 73
    Festingar á blökkum o.fl. bilar 2 1 14 11 10 2
Varð á milli, klemmdist 48 55 58 39 27 35
Rann til á þilfari og féll 66 114 112 82 101 90
Slasaðist við störf í vélarrúmi 2 2 14 5 1 6
Slasaðist við störf í lest 25 32 17 29 18 26
Slasaðist við löndun afla 9 7 10 8 6 5
Slasaðist við losun/lestun/sjóbúnað
á flutningaskipi 0 0 3 2 0 5
Slasaðist við að fara að eða frá borði 11 11 9 13 7 0
Slasaðist við landfestar 7 2 6 4 6 8
Slasaðist við fall í stiga 23 22 6 18 16 18
Önnur slys ekki áður tilgreind 90 60 68 67 50 62
Tognun í baki 23 23 13 21 17 9
Tognun á útlim 9 7 4 5 12 7
Samtals 491 524 505 473 417 436
    Á þessum árum hefur kostnaður vegna starfsemi nefndarinnar verið sem hér segir, í kr.:
    1991     6.230.204
    1992     5.858.538
    1993     6.621.823
    1994     7.705.328
    1995      8.707.209
    1996     8.756.513
    1997     11.555.170
    1998     16.183.985

    Á þessu ári eru veittar 16,9 millj. kr. til nefndarinnar.
    Umfangsmestu rannsóknir á orsökum slysa sem gerðar hafa verið á síðustu þremur árum eru án efa rannsóknir á orsökum þess að skelfiskbáturinn Æsa ÍS-87 fórst í júlí 1996, að m.s. Vikartindur strandaði og að ms. Dísarfell fórst, hvort tveggja í mars 1997.
    Æsuslysið varð til þess að fjárveitingar hafa mjög verið auknar til sjóslysarannsókna. Rannsókn þess slyss lauk sumarið 1998.
    Vikartindsstrandið olli miklu umhverfistjóni. Skipið var þýskt en eigi að síður var talið eðlilegt að rannsaka tildrög slyssins hér. Rannsókn slyssins lauk haustið 1998. Skömmu síðar hófust sjópróf í Þýskalandi um orsakir slyssins og voru þær taldar hinar sömu og rann­sóknarnefndin hafði komist að.
    M.s. Dísarfell var skráð á Antigua-Barbuda. Þar sem það hafði íslenska áhöfn var talið eðlilegt að kanna orsakir slyssins hér á landi. Rétt er að taka fram að samkvæmt upplýs­ingum frá útgerð skipsins hafa yfirvöld á Antigua-Barbuda ekki óskað eftir skýrslum eða upplýsingum um afdrif m.s. Dísarfells. Gert er ráð fyrir að rannsókn málsins ljúki í apríl.
    Sífellt fleiri farskip undir erlendum fána eru í siglingum til Íslands. Sum þessara skipa eru með íslenskar áhafnir, en önnur sigla með vörur að eða frá landinu. Alþjóðasiglingamála­stofnunin hefur eins og fyrr segir samþykkt ályktun um rannsóknir sjóslysa þar sem meðal annars er fjallað um hvernig fara eigi með rannsóknir á slysum sem verða í lögsögu annars ríkis en fánaríkisins. Er þar talið rétt að það ríki þar sem slysið varð eigi slíkra hagsmuna að gæta að það geti látið rannsaka slík slys.
    Ljóst er að ekki næst að ræða þessa skýrslu á þessu þingi sem nú er að ljúka. Eigi að síður er talið eðlilegt að leggja skýrsluna fram til þess að sjá megi hvernig farið hefur um sjóslysa­rannsóknir á kjörtímabilinu, bæði hvað varðar fjölda mála og fjárveitinga til þessa mikil­væga málaflokks.