Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 17:29:54 (4690)

2000-02-22 17:29:54# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[17:29]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Nokkur orð til viðbótar og þá út frá einum þætti sem telst til forvarnaþátta málsins, þ.e. aðgengi, vegna þess að innihald tillögunnar og tilgangurinn með því að skipa nefnd er að heimila megi sölu á léttum vínum og bjór í matvöruverslunum.

Varðandi aðgengi og það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði áðan og talaði þá til okkar þingmanna sem höfum talað gegn þessari tillögu, hvort við héldum að einhverjir aðrir en ÁTVR gætu selt áfengi svo sómi væri að. Vissulega gætu aðrir en ÁTVR selt áfengi svo sómi væri að. En það er mikill munur á því hvort þessi sala er í ríkisrekstri undir stjórn ÁTVR í rauninni undir þeirri forvarnaskyldu sem ÁTVR hefur. Ef af því yrði einhvern tíma í framtíðinni að einkaaðilar hefðu leyfi til að selja áfengi, þá er allt önnur hvatning á bak við söluaðferðir þeirra en hjá ÁTVR til að koma vörunni á framfæri.

ÁTVR á auðvitað að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til nútímaviðskiptahátta, t.d. að sölustaðirnir séu nægilega margir, að þeir þjóni íbúum landsins, að úrvalið sé viðunandi þannig að fólk sé sátt við það úrval sem þar er í boði. En þegar einkaaðilar eru með söluna, þá er innbyggð hvatning hjá þeim til að koma vörunni á framfæri og þó svo bannað sé að auglýsa áfengi, þá vitum við alveg hvernig farið er í kringum það auglýsingabann. Það er með ýmsum greinum, með ýmsum kynningum o.s.frv. Bara það hvernig vörunni yrði stillt upp í versluninni, hvort þetta yrði sérskot í matvöruverslunum eða hvort þetta yrði á stað þar sem hægt er að koma vörunni á framfæri. Það er nákvæmlega eins og með tóbakið. Þó að tóbak sé selt í matvöruverslunum í dag, þá skiptir það máli varðandi söluna hvort eigandi verslunarinnar reynir að hafa hemil á sölunni eða draga úr henni með því að hafa tóbakið undir borðum eða í hillunum sem blasa ekki alveg við, það hefur forvarnagildi þó svo varan sé til sölu á viðkomandi stað. Það er sem sé ákveðin innbyggð hvatning til söluaukningar að koma þessu út á hinn frjálsa markað.

Að mínu mati eigum við að styrkja ÁTVR, gera fyrirtækinu kleift að koma upp sölustöðum svo sómi sé að og hafa fjölbreytt vöruúrval því eingöngu með virku eftirliti ÁTVR getum við fylgst með sölunni, hvernig hún gengur fyrir sig og haft eitthvert eftirlit með því magni sem hér er í umferð.

Þegar við erum að tala um að við eigum að bera traust til fólks og að hinir frjálsu viðskiptahættir sem eru í dag eigi að fá að njóta sín, allt undir merkjum frelsis, þá erum við að tala um frelsi fyrir okkur fullorðna. Við eigum auðvitað að bera skynbragð á það hvað er hollt og hvað er óhollt. Þegar við erum að tala um breytt viðhorf til áfengisnotkunar fullorðinna eins og við gerðum með bjórinn, þá hafði það vissulega jákvæð áhrif á drykkjusiði okkar fullorðna fólksins. En því miður hafði það neikvæð áhrif á drykkjusiði unga fólksins, þ.e. drykkjan hefur færst neðar og þegar við erum að horfa á eitthvað sem er frjálsræði og til bóta fyrir okkur fullorðna fólkið, þá verðum við líka að horfa á hvaða áhrif það hefur á börnin og unglingana því að þau hafa ekki þann þroska eins og við fullorðna fólkið eigum að hafa til að velja og hafna. Mér finnst því þegar við erum að taka út ákveðinn forvarnaþátt sem við vitum að hefur virkað, að þá eigum við fyrst og fremst að horfa til þess hvaða áhrif þetta hefur á heilsu og breytingar í neyslu unglinganna.