Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 21:23:34 (7481)

2000-05-10 21:23:34# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[21:23]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Alvarlegasta deilumál þjóðarinnar hin síðari ár sprettur af því að þeir sem með völdin fara í landinu hyggjast færa þeim sem stunda nú útgerð á Íslandi einkarétt til að sækja sjó. Þessa stefnu hafa stjórnvöld reynt árum saman að reka ofan í kokið á þjóðinni með litlum árangri. Andstaða almennings við þetta fyrirkomulag minnkar ekki, hún minnkar ekki neitt þrátt fyrir auglýsingaherferðir og stöðugan áróður. Þessi andstaða magnaðist fyrir síðustu kosningar og eftir að Samfylkingin hafði lýst þeirri afstöðu sinni í kosningastefnuskrá að afnema bæri eignarhaldið lýstu báðir stjórnarflokkarnir því yfir að þeir ætluðu að beita sér fyrir þjóðarsátt í málinu. Fólk tók mark á þessum yfirlýsingum en nú er fyrsta þingvetri að ljúka og hvað hefur gerst? Hvar eru efndirnar? Jú, hæstv. sjútvrh. hefur skipað nefnd. Nefndin gerir ekkert enn þá. Þingflokkur Samfylkingarinnar taldi að ef alvara fylgdi máli um að leita sátta, þyrftu stjórnmálaöflin í landinu að svara því hvaða grundvallarstefnu þau hefðu í málinu og hvaða leið þau teldu heppilegasta til að ná þeim markmiðum sem í henni fælust.

Þingflokkur Samfylkingarinnar taldi sér ekki til setunnar boðið að útfæra hugmyndir og tillögur sem gengju upp við þá grundvallarafstöðu sem mótuð hafði verið og lýst í kosningunum. Við settum starfshóp í þetta mál og ræddum hugmyndir hans margoft á þingflokksfundum í vetur. Niðurstaðan varð sú að allur þingflokkurinn stóð að frv. Samfylkingarinnar sem lagt var fram og felur í sér verulegar breytingar á mikilvægum þáttum gildandi fiskveiðistefnu. Verði það samþykkt færist eignarhaldið raunverulega aftur til þjóðarinnar. Í tillögum okkar er gengið út frá því að jafnræði skuli gilda við aðgang að veiðiréttinum. Þess vegna skulu allar úthlutunarreglur vera almenns eðlis. Sérréttindi þeirra sem nú eru handhafar kvótans verða afnumin í jöfnum áföngum á tíu árum en útgerðum þess í stað gefinn kostur á öflun aflahlutdeilda á opnum markaði. Fiskveiðiflotanum verði skipt í útgerðarflokka, m.a. til að tryggja hagsmuni landvinnslunnar og strandveiðiflotans, aflahlutdeild sem verður ekki notuð skal skilað og hún boðin út aftur. Einungis verður hægt að leigja út 50% af aflamarki innan ársins.

Í sjávarbyggðum þar sem við mikla erfiðleika er að etja vegna skorts á afla verði heimilað sérstakt útboð aflahlutdeilda til útgerða sem skuldbinda sig til þess að landa afla til vinnslu á viðkomandi stað. Tekið er á brottkasti með því að leyfð verður löndun afla utan kvóta næstu tvö fiskveiðiár til að fá á hreint hve miklu er kastað í hafið. Á grundvelli þeirrar vitneskju verður hægt að taka ákvarðanir um það hvernig unnt er að koma í veg fyrir sóun og óþolandi umgang um lífríki hafsins.

Þetta eru tillögur okkar. Þær eru sanngjarnar og gefa atvinnugreininni sjálfri, viðskiptaaðilum og efnahagslífinu í landinu, góðan tíma til að laga sig að breyttum aðstæðum.

En við höfum líka lagt fram þingmál sem móta afstöðu til margra annarra mikilvægra mála sem varða sjávarútveginn. Við viljum skýra aðgreiningu í rekstri útgerðar og fiskvinnslu og koma þannig á heilbrigðu samkeppnisumhverfi milli þeirra sem reka saman útgerð og fiskvinnslu og hinna sem einungis stunda fiskvinnslu. Við viljum að fiskverð ráðist á markaði og tökum þar undir með sjómönnum. Við viljum að sjávarútvegurinn á Íslandi búi við sams konar umhverfi hvað varðar aðgang að fjármagni og eignarhaldi og önnur fyrirtæki í landinu, en slíkt er ógerlegt meðan eignarréttarvandinn á auðlindinni hefur ekki verið leystur.

Þannig leggur Samfylkingin á öllum sviðum áherslur á sanngjarnar, almennar leikreglur, sem mismuna ekki einstaklingum eða fyrirtækjum. Þessi stefnumörkun sýnir í hnotskurn hvernig Samfylkingin vill að unnið sé að málum.

Engar nýjar hugmyndir hafa komið fram frá stjórnarflokkunum um hvernig megi ná sátt um þessi mál. Þvert á móti hefur hæstv. forsrh. fullyrt að ekki megi hrófla við eignarhaldi útgerðarmanna. Þá fari allt til fjandans og þjóðin gerði þá best í því að halda sig í sólarlöndum. Sátt Sjálfstfl. er greinilega fólgin í því að þjóðin eigi að sætta sig við að breyta engu. Framsóknarmenn tala um skattlagningu söluhagnaðar og aukinn byggðakvóta. Fátt bendir til þess að menn vilji nýja stefnumótun eða leita sátta með þjóðinni. Þjóðarsáttin virðist eiga að vera sú að þjóðin sætti sig við óbreytt ástand.

En hafa menn ekki afsökun, voru menn ekki að bíða dóms Hæstaréttar? Þeir sem bera fyrir sig þau rök eru í raun að segja að þeir hafi ekki viljað taka afstöðu fyrr en þeir voru vissir um að það væri löglegt að mismuna mönnum við nýtingu á þessari dýrmætustu auðlind þjóðarinnar. Ástæðan fyrir þeirri afstöðu getur ekki verið nema ein, menn vilja halda því áfram.

Tillögur okkar í málinu falla fullkomlega að dómi Hæstaréttar án þess að nokkur skaðabótaréttur geti myndast samkvæmt niðurstöðu réttarins. Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur sett það fram sem grundvallarafstöðu að öllum veiðiheimildum verði að loknum aðlögunartíma ráðstafað með almennum hætti. Við vildum og vorum í stakk búin til að ganga lengra en aðrir flokkar í þessu mikilvæga máli. Við náðum þess vegna þeim mikilvæga áfanga á fyrsta vetri Samfylkingarinnar hér á hv. Alþingi að setja tillögur okkar skýrt fram í frv. Við gerðum það áður en Hæstiréttur kvað upp dóm sinn vegna þess að það hefði engu breytt fyrir okkar afstöðu að vita hvort það væri löglegt að mismuna þeim sem stunda sjó á Íslandsmiðum.