Stofnun Snæfellsþjóðgarðs

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 16:04:00 (596)

1999-10-14 16:04:00# 125. lþ. 10.2 fundur 11. mál: #A stofnun Snæfellsþjóðgarðs# þál., Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[16:04]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stofnun Snæfellsþjóðgarðs. Meðflytjendur mínir eru hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson, þ.e. allur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Tillagan er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að beita sér fyrir stofnun Snæfellsþjóðgarðs sem taki til Snæfells og öræfanna umhverfis að meðtöldum Eyjabökkum og Jökulsá í Fljótsdal að mörkum heimalanda jarða í Norðurdal.

Ráðherra gefi Alþingi skýrslu um stöðu undirbúnings að stofnun þjóðgarðsins á haustþingi árið 2000.``

Í greinargerðinni segir: Snæfell með Eyjabökkum og Vesturöræfum myndar afar svipmikla landslagsheild sem er einstæð hérlendis. Þar er afar fjölbreytt og sérstætt lífríki og jarðmyndanir sem sýna samspil jökla og umhverfis þeirra í fortíð og nútíð. Við vesturmörk Snæfellsöræfa rennur Jökla, korgugasta jökulfljót hérlendis, sem hefur grafið vestan undir Kárahnjúkum einhver hrikalegustu gljúfur landsins, kennd við Hafrahvamma.

Stórbrotin náttúra þessa svæðis með víðernum sem ekki eiga sinn líka í Evrópu hefur að undanförnu dregið að sér athygli fólks hérlendis og erlendis. Meðferð þessa mikla hálendissvæðis er stórmál sem varðar íslensku þjóðina alla og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland gengst undir í samfélagi þjóðanna.

Verndargildi Snæfellsöræfa, og Eyjabakka sem hluta af þeim, er að verða mönnum æ ljósara eftir því sem óröskuð og lítt snortin landsvæði af þessum toga verða fágætari. Í núverandi mynd, óraskað um alla framtíð, er þetta óbyggðasvæði auðlind sem vaxa mun að gildi jafnt huglægt sem í hagrænu samhengi. Mörkin á milli þessa, hins huglæga og hagræna, eru samslungnari en áður í samfélagi þar sem hughrif, upplýsingar og þjónusta eru hagnýt viðfangsefni frá degi til dags.

Það sem skiptir sköpum um Snæfellsöræfi er að takast megi að vernda náttúru þeirra og svipmót í heild um langa framtíð. Byrji menn á að búta þau í skákir sem verða vettvangur stórtækra framkvæmda í þágu mannvirkjagerðar hríðfellur gildi þeirra í því samhengi sem hér um ræðir. Því er brýnt að Alþingi og þjóðin öll líti þann kost með opnum huga og af framsýni að vernda náttúru svæðisins svo sem kostur er í heild í stað þess að leggja það stig af stig undir mannvirkjagerð og umsvifin sem henni fylgja.

Náttúruverndarsamtök Austurlands, NAUST, hafa nýlega sent frá sér samþykkt og áskorun til stjórnvalda um stofnun þjóðgarðs á Snæfellsöræfum ,,sem taki til Snæfells og öræfanna umhverfis að meðtöldum Eyjabökkum og Jökulsá í Fljótsdal að mörkum heimalanda jarða í Norðurdal`` eins og það er orðað í samþykkt aðalfundar NAUST þann 29. ágúst 1999. Með þáltill. vilja flutningsmenn taka undir áskorun þessara austfirsku samtaka og leggja hana fyrir þingið til umræðu og afgreiðslu. Með stofnun Snæfellsþjóðgarðs skapast möguleikar á að nýta Snæfellsöræfi og Eyjabakka á allt annan hátt en þann sem mest hefur verið til umræðu á liðnum áratugum. Slík friðlýsing gerir svæðið að vettvangi náttúruskoðunar og vísindarannsókna innan þeirra marka sem þolmörk þess leyfa. Verndun náttúrunnar verður að hafa forgang því að annars nýtist svæðið ekki á sjálfbæran hátt til ferðaþjónustu og lífsfyllingar í óspilltri náttúru, sem verður æ eftirsóttari í hugum almennings. Ekki er seinna vænna að gripið verði til verndaraðgerða vegna álags á svæðið sökum hömlulítillar umferðar.

Friðlýsing Snæfellsöræfa í einhverri mynd hefur verið rædd lengi en ekki náð fram að ganga. Alþingi hefur hins vegar ekki fjallað áður um þær hugmyndir. Stór hluti umrædds svæðis er í ríkiseign eða eru afréttarlönd sem nýtt eru af aðliggjandi sveitarfélögum. Snæfellssvæðið hefur allt það til að bera sem þarf til að verða í fremstu röð þjóðgarða á alþjóðamælikvarða. Flutningsmönnum er ljóst að vanda þarf undirbúning að stofnun slíks þjóðgarðs og leggja áherslu á samráð og góða samvinnu við það fólk og sveitarfélög sem hlut eiga að máli. Tillaga NAUST gerir ráð fyrir að hefðbundnar nytjar haldist á svæðinu og er tekið undir þá stefnu.

Tillagan gerir ráð fyrir að umhverfisráðherra gefi Alþingi skýrslu um stöðu undirbúnings að stofnun þjóðgarðsins fyrir lok aldamótaársins, 2000.

Fylgiskjal með tillögunni er ályktun aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Austurlands frá 29. ágúst. Hún var send út til fjölmargra aðila. Hún var send út til umhvn. Alþingis, Náttúruverndar ríkisins, alþingismönnum Austurlands og fjölmargra annarra félaga og samtaka.

Í greinargerðinni með ályktun NAUST eru lögð til æskileg mörk þjóðgarðsins og þjóðgarðurinn vel afmarkaður. Ég ætla að fá að lesa þetta upp.

Í aðalatriðum er miðað við að mörk Snæfellsþjóðgarðs verði eftirfarandi: Að austanverðu fylgi þau Kelduá frá upptökum í Vatnadæld norður undir ármót við Innri-Sauðá. Þaðan vestur í Snikilsárvatn og með Ytri-Snikilsá í Jökulsá í Fljótsdal. Að norðanverðu um Öxará og vatnaskil milli Þórisstaðakvíslar og Laugarár, vestur yfir Hölkná og norðvestur í Kálffell. Þaðan til vesturs um Tungusporð og Búrfell í Jöklu við Hnitasporð. Að vestan ráði Jökulsá á Dal mörkum og innst Jökulkvísl að upptökum og að sunnan lína um Vatnajökul.

Dregið er upp kort af svæðinu sem fylgir hér með sem fylgiskjal. Mjög greinargóð lýsing er á náttúrufari og ætla ég að lesa upphafið, með leyfi forseta:

,,Snæfellsþjóðgarður sem hér er gerð tillaga um yrði í allra fremstu röð náttúruverndarsvæða hérlendis og einstakur um margt. Snæfell er hæst íslenskra fjalla utan Vatnajökuls, fjölbreytt að jarðfræðilegri gerð og því tengist svipmikil hnjúkaröð.``

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem fór fram í þessum sal um þáltill. um mat á umhverfisáhrifum virkjanaframkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, þá ætti öllum að vera ljóst hvernig við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs viljum nýta Eyjabakkana og svæðið kringum Snæfell. Arðsemisútreikningar fyrirhugaðrar virkjunar og stóriðju á Reyðarfirði miðast við rafmagnssölu til stóriðjunnar. Sá útreikningur tekur ekki til náttúruverðmæta eða möguleika okkar á að nýta landsvæðið til annarra nota. Grænir þjóðhagsreikningar eru ekki viðhafðir hér á landi samhliða hefðbundnum þjóðhagsreikningum, ekki heldur grænir rekstrarreikningar samhliða áætlun um rekstrarafkomu Landsvirkjunar og stóriðju eða annarra framkvæmdaaðila svo að þjóðin á erfitt með að meta og vega mismunandi nýtingarkosti víðerna og óbyggðs lands sem taka á undir miðlunarlón eða aðrar framkvæmdir.

Við þurfum á vistvænum mælikvörðum að halda á öllum sviðum sem láta náttúruna njóta vafans og með þáltill. um stofnun Snæfellsþjóðgarðs er kominn skýr valkostur við fyrirhugaða nýtingu svæðisins.