Ferill 79. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 103  —  79. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um greiðslur viðbótarlauna til starfsmanna ríkisins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða stofnanir hafa beitt ákvæðum 9. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, um heimild forstöðumanna stofnana til að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar umsömdum grunnlaunum fyrir sérstaka hæfni sem nýtist í starfi eða sérstakt álag, svo og fyrir árangur í starfi?
     2.      Um hve háar fjárhæðir var að ræða hjá hverri stofnun fyrir sig árið 1997 annars vegar og 1998 hins vegar, hve margir starfsmenn hverrar stofnunar fengu viðbótarlaun, hvernig skiptust þau á milli kynja og hverjar voru meginástæður þessara greiðslna?
     3.      Hvaða reglur gilda um þessar ákvarðanir forstöðumanna, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna, og hvernig er háttað eftirliti með framkvæmd þessara reglna?


    Með lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, var tekið upp það nýmæli að forstöðumönnum var heimilað að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum sem samið er um í kjarasamningum, þ.e. svo kölluð viðbótarlaun. Ákvæðið er í 2. mgr. 9. gr. laganna og hljóðar svo:
    „Forstöðumenn stofnana geta ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum, öðrum en embættismönnum, laun til viðbótar grunnlaunum, sem samið er um skv. 1. mgr., vegna sérstakrar hæfni er nýtist í starfi eða sérstaks álags í starfi, svo og fyrir árangur í starfi. Þessum ákvörðunum má breyta hvenær sem er. Starfsmaður getur kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkrar breytingar, enda skýri hann forstöðumanni frá því innan eins mánaðar frá því að breytingin var tilkynnt honum. Sé breytingin starfsmanni í óhag tekur hún ekki gildi fyrr en að liðnum uppsagnarfresti hans, sbr. 46. gr.“
    Ákvarðanir forstöðumanna um viðbótarlaun skulu fara eftir reglum sem fjármálaráðherra setur, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996. Í tengslum við gerð síðustu kjarasamninga ákvað þáverandi fjármálaráðherra, í samráði við formann BSRB, að ekki yrði að hálfu ráðuneytisins lögð vinna í útfærslu og framkvæmd reglna um viðbótarlaun á því samningstímabili, eða til 31. október 2000. Sjá nánar yfirlýsingu ráðherra frá 23. apríl 1997 í fylgiskjali.
    Reglur um viðbótarlaun hafa með öðrum orðum ekki enn verið settar og forstöðumenn hafa því ekki heimild til að ákveða starfsmönnum viðbótarlaun og verður það ekki fyrr en reglurnar hafa verið settar. Í þessu sambandi er rétt að minna á að við samningu slíkra reglna skal jafnan gefa Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna og Alþýðusambandi Íslands kost á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um ágreiningsatriði sem upp kunna að koma, sbr. 52. gr. sömu laga. Þá er rétt að geta þess að aðrar sambærilegar reglur, þ.e. um auglýsingar á lausum störfum, nr. 464/1996, og um form ráðningarsamninga og skyldur til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör, nr. 351/1996, voru settar í framhaldi af viðræðum við fulltrúa fyrrnefndra aðila þar um.
Fylgiskjal.


Yfirlýsing.

    Með fyrirliggjandi kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsmannafélags ríkisstofnana hafa aðilar komist að samkomulagi um að taka upp nýtt launakerfi sem gerir ráð fyrir verulega breyttri tilhögun á ákvörðun launa með mun virkari þátttöku stofnana en áður. Aðilum er ljóst að það mun verða mjög tímafrekt að hrinda breyttu launakerfi í framkvæmd og kalla á mjög mikla samvinnu ráðuneyta, stofnana og stéttarfélaga við stefnumótun, útfærslu og framkvæmd þess. Með hliðsjón af framansögðu gera aðilar sér grein fyrir því að ekki verður hægt á sama tíma að vinna að útfærslu og framkvæmd reglna um viðbótarlaun skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996.
    Því hefur fjármálaráðherra, í samráði við formann BSRB, ákveðið að ekki verði af hálfu fjármálaráðuneytis lögð vinna í útfærslu og framkvæmd reglna um viðbótarlaun skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996 á því samningstímabili sem kjarasamningur aðila gildir eða til 31. október 2000.

Reykjavík, 23. apríl 1997.

Friðrik Sophusson
fjármálaráðherra.