Ferill 413. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 674  —  413. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 1999.

Saga ÖSE-þingsins.
    Aðild að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE), eiga 55 ríki Evrópu og Norður-Ameríku. Einu þeirra, Sambandslýðveldinu Júgóslavíu, hefur þó ekki staðið til boða að taka þátt í störfum þingsins síðan þátttaka þess í starfi ÖSE var felld niður árið 1992. Stofnunin starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975. Henni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar.
    Í yfirlýsingu þjóðarleiðtoga RÖSE-ríkjanna í París 21. nóvember 1990 var hvatt til þess að þingmenn ríkjanna hittust á reglulegum fundum. Á fundi þjóðarleiðtoganna í Madrid í apríl 1991 var svo ákveðið að RÖSE-þing kæmi saman í júlí ár hvert. Þar var samþykkt svokölluð Madrid-yfirlýsing sem er grundvallarskjal ÖSE-þingmannasamstarfsins. Að loknum tveimur undirbúningsfundum árið 1992 var fyrsti fundur RÖSE-þingsins haldinn í júlí sama ár í Búdapest. Í ársbyrjun 1995 var nafni þingsins breytt og kallast það nú ÖSE-þingið.

Starf ÖSE-þingsins 1999.
    Undanfarin ár hefur framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu verið langveigamesta verkefni ÖSE, en þar er stofnuninni falið að hafa umsjón með framkvæmd kosninga, fylgjast með mannréttindamálum og aðstoða við gerð samninga um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar. Þá hefur ÖSE tekið virkan þátt í framkvæmd stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu sem tók gildi 10. júní 1999 og ÖSE er aðili að, einkum þess hluta sáttmálans sem snýr að mannréttindum og lýðræðisþróun en jafnframt í framkvæmd öryggismálahlutans. Ástand mála á Balkanskaga var fyrir vikið fyrirferðarmikið á dagskrá ÖSE-þingsins árið 1999, líkt og undanfarin ár. Af öðrum verkefnum bar kosningaeftirlit að venju hæst í starfi ÖSE-þingsins á árinu og var sameiginlegt öryggi og lýðræði á 21. öldinni þema ársfundarins í júlí.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Hinn 17. maí árið 1999 tóku gildi nýjar reglur fyrir alþjóðanefndir Alþingis. Fram til þess tíma hafði Íslandsdeild ÖSE-þingsins verið skipuð fimm þingmönnum, en þrír þeirra sóttu þingfund ÖSE-þingsins ár hvert. Ný Íslandsdeild var kjörin 16. júní til samræmis við breyttar reglur þar sem einungis er gert ráð fyrir þremur aðalmönnum og þremur varamönnum sem sækja þingfundi í forföllum aðalmanna.
    Fram til 16. júní var Íslandsdeildin skipuð sem hér segir: Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, formaður, Ragnar Arnalds varaformaður, þingflokki Alþýðubandalags (þingflokki Samfylkingarinnar frá 19. febrúar), Hjálmar Árnason, þingflokki Framsóknarflokks, Guðjón Guðmundsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Guðný Guðbjörnsdóttir, þingflokki Kvennalista (þingflokki Samfylkingarinnar frá 19. febrúar).
    Frá og með 16. júní voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar og Valgerður Sverrisdóttir, þingflokki Framsóknarflokks.
    Varamenn voru Guðjón Guðmundsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Ísólfur Gylfi Pálmason, þingflokki Framsóknarflokks.
    Valgerður Sverrisdóttir tók við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra 31. desember og hætti þá setu í Íslandsdeildinni.
    Ritari Íslandsdeildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.

Starfsemi árið 1999.
a. Fundur stjórnarnefndar.
    Dagana 14.–15. janúar kom stjórnarnefnd ÖSE-þingsins saman í Vín. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal formaður, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar ritara. Helsta málefni fundarins var hið umfangsmikla eftirlit sem ÖSE hafði þá með vopnahléi stríðandi fylkinga í Kosovo-héraði, en sem kunnugt er var vopnahléið ekki virt. Jafnframt var rætt um kosningaeftirlit, niðurstöðu fundar ráðherraráðs ÖSE í desember 1998, ástand mála í Bosníu-Hersegóvínu, Hvíta-Rússlandi, Tsjetsjeníu og Nagorno-Karabakh, stöðu minnihlutahópa o.fl. Loks ályktaði nefndin um ástandið í Kosovo.
    Fimmtudaginn 14. janúar fluttu eftirtaldir framsögur og svöruðu spurningum fundarmanna: Knut Vollebæk, utanríkisráðherra Noregs og formaður ráðherraráðs ÖSE, Max van der Stoel, sérlegur erindreki um málefni minnihlutahópa, Freimut Duve, fulltrúi ÖSE um frelsi fjölmiðla, Gerard Stoudmann, yfirmaður þeirrar stofnunar ÖSE sem fer með mannréttindi og lýðræði (ODIHR), Thomas Price, sem fer með samræmingu á starfi ÖSE í efnahags- og umhverfismálum, dr. Monika Wohlfeld, jafnréttisfulltrúi ÖSE, Alison Jolly, jafnréttisfulltrúi ODIHR, og Giancarlo Aragona, framkvæmdastjóri ÖSE.
    Knut Vollebæk tók við formennsku í ráðherraráði ÖSE í ársbyrjun 1999. Hann fjallaði nokkuð ítarlega um fyrrnefnt vopnahléseftirlit í Kosovo og um ástand mála í Bosníu-Hersegóvínu. Jafnframt fjallaði Vollebæk um ástand mála í Nagorno-Karabakh, Tsjetsjeníu, Hvíta- Rússlandi og víðar. Meðal þess sem fram kom í máli embættismanna má nefna að Gerard Stoudmann greindi frá og lýsti jafnframt ánægju sinni með sífellt nánara samstarf við aðrar fjölþjóðastofnanir við kosningaeftirlit. Nefndi hann sérstaklega sameiginlegar yfirlýsingar og stundum sameiginlegar eftirlitsnefndir ODIHR og ÖSE-þingsins með Evrópuráðsþinginu og Evrópuþinginu. Finnski þingmaðurinn Kimmo Kiljunen minnti í þessu sambandi á þá hugmynd sem áður hafði komið fram á fundi nefndarinnar að fulltrúum nýrra lýðræðisríkja Mið- og Austur-Evrópu yrði boðið að fylgjast með framkvæmd þingkosninga í Vestur-Evrópu til að að læra og hugsanlega koma með tillögur til úrbóta. Stoudmann greindi frá því að ODIHR væri einmitt að skipuleggja för slíkrar sendinefndar frá nokkrum Kákasusríkjum til að fylgjast með framkvæmd þingkosninga í Finnlandi í mars 1999.
    Föstudaginn 20. febrúar ávörpuðu fundinn dr. Heinz Fischer, forseti austurríska þingsins, og dr. Viktor Klima, kanslari Austurríkis, auk dönsku þingkonunnar Helle Degn, forseta ÖSE-þingsins. Degn lagði til að í júlí 1999 yrði þema þingfundarins „sameiginlegt öryggi og lýðræði á 21. öld“. Nokkrar umræður spunnust um tillöguna, einkum þar sem sumum þótti efnið of opið. Degn svaraði því til að framkvæmdastjórn þingsins hefði á fundi sínum vísvitandi valið að stinga upp á svo víðtæku efni til þess að nefndirnar þrjár gætu nálgast það frá ólíkum sjónarhóli og þingfundurinn að lokum sent frá sér heildstæða ályktun. Spencer Oliver, framkvæmdastjóri þingsins, sagði mikilvægt að hafa svo víðtækt þema til þess að koma í veg fyrir að þingið sendi frá sér langa ályktun um alls kyns innbyrðis óskylda hluti, líkt og gerst hefði á fyrstu árum þess. Var tillaga Degn að lokum samþykkt.
    Sir Peter Emery, gjaldkeri þingsins, greindi frá því að 24 ríki af 55 hefðu þegar greitt að fullu árgjöld sín til þingsins fyrir fjárlagaárið 1998–99. Þá fjallaði hann í stuttu máli um skýrslu endurskoðenda sem borist hafði daginn áður og sagði að nánar yrði greint frá henni á fundi nefndarinnar í júlí. Fjárlagaárið 1997–98 tókst að innheimta 98,4% árgjalda aðildarríkjanna sem hann sagði hljóta að teljast mjög gott. Í skýrslu framkvæmdastjóra þingsins kom m.a. fram að danska þingið hefur látið ÖSE-þinginu í té meira húsnæði sem m.a. nýttist til skjalavörslu og fólki sem dvelur hjá ÖSE-þinginu við starfsþjálfun. Þessu næst var fjallað um kosningaeftirlit á liðnu ári í Bosníu-Hersegóvínu, Slóvakíu og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu, og um eftirlit með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar í Albaníu.
    Þá voru tekin fyrir ályktunardrög um ástand mála í Kosovo. Samþykkt var harðorð ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum af stöðu mála í héraðinu, mannréttindabrot deiluaðila fordæmd, stuðningi lýst við eftirlitsstarf á vegum ÖSE og hvatt til friðsamlegrar lausnar á deilunni. Þá er sérstaklega fordæmt rof á ríkjandi vopnahléi í Kosovo og eftirlitssveitum ÖSE hrósað fyrir fórnfúst starf. Loks er sérstökum stuðningi lýst við þau öfl innan Serbíu sem berjast fyrir virðingu fyrir mannréttindum og þróun lýðræðislegra stofnana og almenns umburðarlyndis. Loks var samþykkt að fela forseta þingsins að setja á fót nefnd sem ætlað er að hafa samráð við aðrar stofnanir sem starfa að kosningaeftirliti, einkum Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið, og vinna að tillögum um samræmingu vinnureglna þeirra og auknu samstarfi á sviði kosningaeftirlits. Ályktunardrögum sem lögð voru fram um stöðu mála í Írak var vísað frá þar sem Persaflói er utan svæðis ÖSE.

b. 8. ársfundur ÖSE-þingsins.
    Áttundi árlegi fundur ÖSE-þingsins var haldinn dagana 6.–10. júlí 1999, að þessu sinni í Sankti Pétursborg. Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir varaformaður og Valgerður Sverrisdóttir, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar ritara. Samhliða þingfundum funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir þingsins. Þema þingsins var sameiginlegt öryggi og lýðræði á 21. öldinni. Þetta er býsna víðtækt efni og fjölluðu nefndirnar um ýmis málefni því tengd. Af einstökum öðrum málum sem bar á góma má nefna stöðu mála í Kosovo, réttarhöldin yfir Abdullah Öcalan, leiðtoga aðskilnaðarhreyfingar Kúrda í Tyrklandi, og fyrirhugaðar kosningar í Hvíta-Rússlandi. Danska þingkonan Helle Degn var einróma endurkjörin forseti ÖSE-þingsins. Konur á meðal þingmanna héldu að vanda sérstakan fund þar sem að þessu sinni var fjallað um stöðu kvenna í rússneskum stjórnmálum og hvernig auka mætti hlut kvenna í stjórnmálum og í starfi ÖSE.
    Við setningu þingsins fluttu ávörp Helle Degn, forseti ÖSE-þingsins, Gennady Seleznev, forseti rússnesku Dúmunnar, Vladimir Yakovlev, borgarstjóri Sankti Pétursborgar, og Knut Vollebæk, utanríkisráðherra Noregs og formaður ráðherraráðs ÖSE, sem jafnframt svaraði spurningum þingmanna. Þá tóku við stutt ávörp nokkurra helstu embættismanna ÖSE sem sátu síðan fyrir svörum. Loks ávörpuðu þingið fulltrúar Evrópuráðsþingsins, Svartahafsþingsins, Evrópuþingsins, NATO-þingsins, VES-þingsins og Norðurlandaráðs. Blaðamannaverðlaun ÖSE-þingsins voru veitt í fjórða sinn, en þau eru veitt fyrir störf í þágu lýðræðis og mannréttinda og er ætlað að efla grundvallarregluna um frjálsa fjölmiðlun. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Christiane Amanpour fyrir fréttaflutning sinn af átökum og mannréttindabrotum á ÖSE-svæðinu í eftir lok kalda stríðsins, nú síðast í Kosovo, á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN. Verðlaunaféð nemur 20.000 Bandaríkjadölum og samkvæmt ákvörðun Amanpour verður því varið til að styrkja verkefni sem miða að uppbyggingu frjálsra fjölmiðla í Kosovo.
    Pétur H. Blöndal sat fund stjórnarnefndarinnar fyrir hönd Íslandsdeildarinnar. Þar gerði Sir Peter Emery, gjaldkeri þingsins, grein fyrir fjármálum þess. Rekstur þingsins var að venju innan fjárlagaramma starfsárið 1998–99 og fjárlagadrögin fyrir starfsárið 1999–2000 gerðu ráð fyrir 3,98% hækkun frá árinu áður, til samræmis við verðbólguspár. Samþykkti nefndin að leggja þau óbreytt fyrir þingfund. Þá var rætt um afgreiðslu sjö ályktunardraga sem lögð höfðu verið fram með tilskildum fjölda meðflutningsmanna og þeim ýmist vísað til nefndar eða þingfundar. Ákveðið var að einu síðdegi yrði varið til sérstaks sameiginlegs fundar málefnanefndanna þriggja til að fjalla um ályktunardrögin um Kosovo og að sérstakur þingfundur yrði kallaður saman til að afgreiða ályktunina. Loks var samþykkt að þiggja boð Frakka um að 10. ársfundur ÖSE-þingsins, árið 2001, yrði haldinn í París og boð Þjóðverja um að 11. ársfundur ÖSE-þingsins, árið 2002, yrði haldinn í Berlín. Áður hafði verið samþykkt að 9. ársfundur ÖSE-þingsins, árið 2000, yrði haldinn í Búkarest.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Íslandsdeildin tók þátt í starfi þeirra sem hér segir:
1.    nefnd um stjórnmál og öryggismál: Pétur H. Blöndal,
2.    nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál: Valgerður Sverrisdóttir,
3.    nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Ásta R. Jóhannesdóttir.
    Lagðar voru fram skýrslur byggðar á fyrrnefndu þema í hverri nefnd en á grundvelli þeirra höfðu verið samin drög að ályktunum. Drögin voru rædd í nefndunum og afgreidd ásamt breytingartillögum. Öllum var ályktununum þremur síðan steypt saman í eina yfirlýsingu — Sankti Pétursborgar yfirlýsinguna — sem samþykkt var af þingfundi. Í yfirlýsingunni er jafnframt að finna sérstakar ályktanir um eftirtalin málefni:
          stöðu mála í Kosovo,
          aukið lýðræði innan ÖSE,
          hlutverk ÖSE við að koma í veg fyrir að átök brjótist út og við að hafa stjórn á hættuástandi,
          verslun með konur og börn sem neydd eru til að stunda vændi,
          morðið á rússnesku þingkonunni Galinu Starovoitovu,
          þróun réttarríkis og mannréttinda í Rússlandi og
          stjórnmálaástandið í Hvíta-Rússlandi.
    Valgerður Sverrisdóttir var meðflutningsmaður að ályktuninni um þróun réttarríkis og mannréttinda í Rússlandi, en þar er sérstök athygli vakin á máli rússneska umhverfisverndarsinnans Alexanders Nikitins. Nikitin hafði verið í haldi árum saman sakaður um njósnir og landráð þar sem hann hafði tekið þátt í að semja skýrslu um hættu á geislavirkum úrgangi frá Norðurflota Rússlands. Sjö sinnum hafði verið réttað í máli Nikitins, en því hafði ávallt verið vísað aftur til ákæruvaldsins til frekari rannsóknar, enda hafi ekki verið grundvöllur til sakfellingar. Í ályktuninni er vakin athygli á að um sé að ræða brot á hvoru tveggja, rússnesku stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu, og eru rússnesk stjórnvöld hvött til að tryggja eðlilega meðferð réttinda sem þar eiga að vera tryggð. Ályktunin var samþykkt án breytinga. Þess má geta að Nikitin var sýknaður af ofannefndum ákærum fyrir rússneskum dómstóli 29. desember 1999.
    Pétur H. Blöndal var meðflutningsmaður að tveimur breytingartillögum sem báðar voru samþykktar. Annars vegar var breytingartillaga við ályktunardrög fyrstu nefndar um stjórnmál og öryggismál þar sem lagt var til að eytt yrði málsgrein þar sem hvatt var til þess að komið yrði á fót sérstökum fjölþjóðlegum friðargæslusveitum á vegum ÖSE, sem hægt yrði að senda á vettvang með skömmum fyrirvara. Hins vegar var breytingartillaga við ályktunardrögin um stöðu mála í Kosovo þar sem minnt er á hlutverkið sem Sameinuðu þjóðirnar ætla ÖSE í uppbyggingarstarfinu í héraðinu. Á sérstökum fundi kvenna í hópi þingmanna var sem fyrr segir fjallað um stöðu kvenna í rússneskum stjórnmálum og hvernig auka mætti hlut kvenna í stjórnmálum og innan ÖSE-þingsins. Í umræðunum var m.a. fjallað um beitingu kvóta til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Ásta R. Jóhannesdóttir gerði fundinum grein fyrir þeim árangri sem náðst hefði í að auka hlut kvenna í íslenskum stjórnmálum án slíkra kvóta. Fundurinn sendi frá sér sérstaka yfirlýsingu þar sem hvatt er til aukins hlutar kvenna í starfi ÖSE.
    Í sérstakri umræðu um stöðu mála í Kosovo fjallaði Pétur H. Blöndal um mikilvægi þess að Kosovo-Albanar, sem og aðrar þjóðir, hefðu hugfast að allur þorri Serba væri saklaus af voðaverkunum sem framin hefðu verin af litlum minni hluta þeirra. Einungis þannig væri hægt að veita nauðsynlega fyrirgefningu, einungis þannig gæti nauðsynleg uppbygging heppnast. Hann sagði íhlutun Atlantshafsbandalagsins í átökin í Kosovo hafa verið nauðsynlega í ljósi þess að mannréttindi væru og ættu að vera óháð landamærum. Glæpur væri glæpur og ekki væri hægt að horfa aðgerðalaus upp á voðaverk á borð við þau sem framin voru í Kosovo. Fullveldi ríkis væri engin afsökun fyrir að horfa aðgerðalaus upp á slík voðaverk innan landamæra þess.
    Á lokadegi þingsins var fjallað um Sankti Pétursborgar yfirlýsinguna og hún afgreidd, sem og fjárlög starfsársins 1999–2000. Loks fór á þinginu fram kjör forseta ÖSE-þingsins, gjaldkera og fjögurra varaforseta af níu. Danska þingkonan Helle Degn var einróma endurkjörin forseti þingsins og kanadíski þingmaðurinn Bill Graham var einróma kjörinn í stöðu gjaldkera. Til embætta varaforseta voru kjörnir þeir Claude Estier frá Frakklandi, Bruce George frá Bretlandi, Ihor Ostach frá Úkraínu og Tiit Käbin frá Eistlandi.

c. Kosningaeftirlit.
    ÖSE-þingið hefur frá upphafi tekið virkan þátt í kosningaeftirliti og lagt áherslu á mikilvægi þess í að efla lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum. Jafnframt hefur ÖSE hvatt þingið til þess að sinna þessu starfi af fullum krafti. Árið 1999 tók ÖSE-þingið þátt í kosningaeftirliti í Armeníu, Kasakstan, Georgíu og Rússlandi. Íslandsdeildin tók ekki þátt í kosningaeftirliti ÖSE-þingsins á árinu, en þingmenn sem taka þátt í því gera það á kostnað eigin þjóðþinga.

d. Annað.
    Forseti ÖSE-þingsins hefur á árinu tekið þátt í fundum fyrrverandi, núverandi og verðandi formanna ráðherraráðsins, auk þess að heimsækja nokkur ríki á Kákasussvæðinu. Þá stóð ÖSE-þingið fyrir málþingi um svæðisbundna efnahagssamvinnu í Nantes dagana 13.–15. október 1999 í samvinnu við franska þingið. Íslandsdeildin tók ekki þátt í framangreindu málþingi.

Alþingi, 4. febr. 2000.



Pétur H. Blöndal,


form.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


varaform.


Jónína Bjartmarz.*


     * 1. febrúar 2000 var Jónína Bjartmarz, þingflokki Framsóknarflokks, kjörin til setu í Íslandsdeild ÖSE-þingsins sem aðalmaður í stað Valgerðar Sverrisdóttur sem tók við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra 31. desember 1999.


Fylgiskjal I.


Markmið og skipulag ÖSE-þingsins.



    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins eru því ætluð eftirfarandi hlutverk:
     1.      Að meta árangurinn af ÖSE-samstarfinu.
     2.      Að ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra ÖSE-ríkjanna.
     3.      Að þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr átökum.
     4.      Að stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum.
     5.      Að leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana ÖSE.
    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er miðað við að ríki sem undirritað hafa Helsinki- sáttmálann frá 1975 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 eigi aðild að þinginu og að þau taki þátt í ÖSE-samstarfinu. Nú eiga 55 þing ÖSE-ríkjanna aðild að ÖSE-þinginu. Gert er ráð fyrir 317 fulltrúum á þinginu og þar af á Alþingi þrjá.
    Starfsreglurnar gera ráð fyrir að ÖSE-þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Auk þingfunda er gert ráð fyrir að innan þingsins starfi þrjár fastanefndir sem fjalli um mál er falla undir svið þeirra. Formaður, varaformaður og framsögumaður hverrar nefndar eru kjörnir af nefndunum í lok þingfundar ár hvert. Framsögumaður nefndar velur umræðuefnið sem tekið er fyrir í nefndinni það ár í samráði við formann og varaformann. Hann undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Fastanefndirnar þrjár eru nefnd um stjórn- og öryggismál (fyrsta nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (önnur nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (þriðja nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
    Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er ætlað að undirbúa störf þingsins. Hún er skipuð forseta ÖSE-þingsins, varaforsetunum níu, gjaldkera, formönnum málefnanefndanna þriggja og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, eða alls 69 fulltrúum. Framkvæmdastjórn þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, varaforsetum og gjaldkera. Henni er ætlað að fylgjast með að ákvörðunum þingsins sé framfylgt og ákvarða um málefni sem upp kunna að koma á milli funda stjórnarnefndar.
    Þingsköp ÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið og framkvæmdastjórnin taki ákvarðanir sínar með meiri hluta atkvæða en ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skuli teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri „samstöðureglu“ (consensus rule) sem fylgt er á fundum fulltrúa ríkisstjórna ÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins fylgir svokallaðri „consensus minus one“-reglu sem felur í sér að tvö eða fleiri ríki geta fellt einstök mál í nefndinni.
    Fulltrúi ráðherraráðs ÖSE ávarpar þingið á ársfundi þess og gefur skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem verið er að vinna að á vettvangi stofnunarinnar. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans sem mætir sem fulltrúi ráðherraráðsins. Opinber tungumál þingsins eru sex: enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska, og er túlkað jafnharðan.


Fylgiskjal II.


Skipan ÖSE-þingsins.



Fjöldi þingsæta hvers aðildarríkis Fjöldi þingsæta alls
A.
Bandaríkin
17 17
B.
Rússland
15 15
C.
Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Bretland
13 52
D.
Kanada og Spánn
10 20
E.
Úkraína, Belgía, Holland, Pólland, Svíþjóð og Tyrkland
8 48
F.
Rúmenía
7 7
G. Austurríki, Danmörk, Finnland, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Noregur, Portúgal,
Tékkland, Sviss, Hvíta-Rússland, Úsbekistan og Kasakstan
6 78
H.
Búlgaría og Lúxemborg
5 10
I.
Júgóslavía og Slóvakía
4 8
J. Kýpur, Ísland, Malta, Eistland, Lettland, Litháen, Albanía, Slóvenía, Króatía, Moldavía, Tadsjikistan, Túrkmenistan, Georgía, Kirgisistan, Armenía, Aserbaídsjan og
Bosnía og Hersegóvína og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldið Makedónía
3 54
K.
Andorra, Liechtenstein, Mónakó og San Marínó
2 8
Samtals
317
Vatíkanið getur sent allt að tveimur áheyrnarfulltrúum á fundi ÖSE-þingsins.