Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 739  —  461. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um ályktanir Vestnorræna ráðsins.

Flm.: Árni Johnsen, Gísli S. Einarsson, Guðmundur Hallvarðsson,     


Hjálmar Árnason, Svanfríður Jónasdóttir, Einar Oddur Kristjánsson.



    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktunum Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á 15. ársfundi þess, að:
     a.      Alþingi standi fyrir ráðstefnu kvenna á vestnorrænu þjóðþingunum í samvinnu við þing Færeyinga og Grænlendinga,
     b.      fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að bæta skilyrði til rannsókna á málefnum sem tengjast konum sérstaklega,
     c.      fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að semja vestnorræna verkefnaáætlun um jafnrétti kynjanna,
     d.      fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að skipa vinnuhóp sem leggi fram tillögur um sameiginlegar aðgerðir í vestnorrænu löndunum til að stöðva ofbeldi gegn konum,
     e.      fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði,
     f.      fela ríkisstjórninni að vinna að því að stofna sjóð eða koma á öðru fyrirkomulagi sem greiði allan kostnað af fæðingarorlofi,
     g.      fela menntamálaráðherra, í samvinnu við menntamálaráðherra Færeyja og Grænlands, að stofna vinnuhóp sem hafi það verkefni að rannsaka hvað hindrar vestnorræna stúdenta í að stunda nám í öðrum vestnorrænum ríkjum.

Greinargerð.


    Dagana 9.–12. ágúst var 15. ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn á Brjánsstöðum á Skeiðum. Þar var samþykktur fjöldi tillagna um jafnréttis- og menntamál. Meðal annars skorar Vestnorræna ráðið á ríkis- og landsstjórnir að beita sér fyrir aðgerðum til að auka hlut kvenna í stjórnmálum, styrkja kvennarannsóknir og bæta löggjöf um fæðingarorlof. Þá voru ríkis- og landstjórnirnar hvattar til að beita sér gegn ofbeldi gagnvart konum og til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði. Enn fremur samþykkti ráðið að skora á þjóðþingin þrjú að halda ráðstefnu kvenna á vestnorrænu þjóðþingunum með þátttöku fleiri sem vinna að jafnréttismálum. Svo var samþykkt ályktun um að fela menntamálaráðherrum aðildarlandanna að láta kanna hvað hindrar vestnorræna stúdenta í að stunda nám í háskólum vestnorrænu ríkjanna.
    Tillaga þessi er flutt til að koma á framfæri við Alþingi samþykktum ályktunum Vestnorræna ráðsins.

Ráðstefna kvenna á vestnorrænu þjóðþingunum.
    Vestnorrænar konur hafa haft samstarf á mörgum sviðum undanfarin ár. Staða kvenna í þessum löndum er að mörgu leyti svipuð, þar á meðal aðstaða þeirra til þátttöku í stjórnmálum. Vestnorræn samfélög hafa í gegnum tíðina verið veiðisamfélög og hefur það skapað vestnorrænum konum sérstakt umhverfi, ólíkt því sem gerist í iðnaðarsamfélögum annarra norrænna ríkja. Þetta hefur hugsanlega leitt til þess að þátttaka vestnorrænna kvenna í stjórnmálum er minni en gerist annars staðar á Norðurlöndum. Því er áríðandi að skapa vettvang fyrir vestnorrænar konur í stjórnmálum þar sem þær geta skipst á hugmyndum og miðlað af reynslu sinni og þannig styrkt samvinnuna sín í milli.
    Lagt er til að slík ráðstefna verði haldin annað hvert ár, til skiptis í löndunum þremur, og að þangað verði boðið fulltrúum frá jafnréttisnefndum, kvennasamtökum og öðrum sem starfa að jafnréttismálum.
    Lagt er til að veitt verði fé á fjárlögum til þess að standa undir kostnaði við ráðstefnuna.

Skilyrði til kvennarannsókna.
    Síðustu áratugi hefur sérstökum kvennarannsóknum, sem unnar eru af háskólum og öðrum rannsóknastofnunum, fjölgað verulega. Þessi rannsóknarvinna er mjög mikilvæg fyrir konur, enda hefur verið lögð áhersla á sögu þeirra, reynslu og menningu, sem að mörgu leyti hefur verið hulin í okkar samfélagi.
    Rannsóknarheimildir er helst að finna í bókum, tímaritum, handritum, skýrslum, myndum o.fl. á bóka- og skjalasöfnum og öðrum opinberum söfnum. Eitt af mikilvægari verkefnum þessara stofnana er að auðvelda notendum að finna nauðsynleg gögn. Skráningarkerfi sem notuð eru nú til dags gera mögulegt að finna efni um nánast hvað sem er. Þegar kemur að heimildasöfnun fyrir kvennarannsóknir verður málið hins vegar erfiðara þar sem slík leitarkerfi taka ekki tillit til mikilvægis efnis fyrir kynjaskiptar rannsóknir. Af þeim sökum er nauðsynlegt að láta gera leitarforrit fyrir þessi skráningarkerfi sem leituðu eftir kyni en það mundi auðvelda alla rannsóknarvinnu. Best væri að slíkt verkefni fengi sérstaka fjárveitingu.
    Þessi nýja upplýsingatækni hefur skapað fjölmörg ný tækifæri við miðlun á upplýsingum sem vert er að nýta. Mikilvægt er að vestnorrænu löndin styðji miðlun kvennaheimilda með því að útbúa sameiginlegan vestnorrænan upplýsingabanka þar sem skráðar yrðu heimildir sem tengjast konum, til að mynda bækur, rannsóknir, skýrslur, tölfræðilegar upplýsingar, ýmsar staðreyndir o.s.frv. Þessi upplýsingabanki yrði síðan aðgengilegur á netinu. Sambærilegt verkefni, sem Færeyingar og Grænlendingar taka þó ekki þátt í, er unnið af norræna ráðherraráðinu.
    Enn fremur mundi slíkur upplýsingabanki geyma upplýsingar um hæfar konur sem fjölmiðlar gætu haft samband við og stjórnvöld gætu leitað til þegar skipa þarf fulltrúa í opinberar nefndir, ráð o.fl. Það virðist vera hefð fyrir því að ræða aðeins við konur þegar umræðuefnið tengist fjölskyldumálum eða öðru sem talið er að konur hafi sérstakan skilning á en ræða við karlmenn um hluti sem tengjast efnahag, umhverfi, sjávarútvegi og þess háttar.
    Mikilvægustu upplýsingamiðlar í okkar samfélagi eru sjónvarp og dagblöð. Fjölmiðlar hafa mikil áhrif á okkar líf. Af þeim sökum er nauðsynlegt að kanna stöðu kvenna í fjölmiðlum, hversu margar konur vinna á fjölmiðlum, hversu margar konur eru viðmælendur fjölmiðla, og þá í tengslum við hvers konar efni, og ekki síst hvernig störf kvenna eru kynnt í fjölmiðlum.

Vestnorræn verkefnaáætlun um jafnrétti kynjanna.
    Þrátt fyrir að á síðustu árum hafi þróunin hægt og bítandi verið í átt til jafnréttis kynjanna er staða þeirra enn um margt ólík og hallar þar einkum á konur. Skoðanakannanir hafa sýnt að almennur vilji fólks er að kynin hafi jafna möguleika, en jafnframt telur meiri hluti almennings að svo sé ekki. Hagsmunamál samfélagsins alls er að kynjum sé ekki mismunað.
    Til að vinna gegn mismunun kynjanna hafa mörg ríki og alþjóðastofnanir samið verkefnaáætlanir með það að markmiði að tryggja jafnrétti bæði meðal starfsmanna sinna og innan lögsögu sinnar. Vestnorræna ráðið leggur til að samin verði vestnorræn verkefnaáætlun um jafnrétti kynjanna.
    Með verkefnaáætlun um jafnrétti kynjanna er átt við formlega samþykkta áætlun um aðgerðir sem hafa að leiðarljósi jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Í slíkum áætlunum felst einnig viðurkenning á því að nauðsynlegt sé að grípa til sérstakra tímabundinna aðgerða til að raunverulegt jafnrétti kvenna og karla náist. Slík verkefnaáætlun yrði tæki sem hægt væri að nota til að skipuleggja virkt jafnréttisstarf. Henni væri ætlað að tryggja að unnið yrði skipulega og markvisst að jafnrétti kvenna og karla, að markmið jafnréttis kynjanna væru skýr, að hægt yrði að meta árangur starfsins og að hægt yrði að koma með úrbætur ef fyrirhugaðar aðgerðir skiluðu ekki árangri.
    Með gerð verkefnaáætlunar um jafnrétti væri starfi að jafnrétti kynjanna mótuð stefna og vonar Vestnorræna ráðið að hún geti orðið vopn í baráttunni gegn því kynjamisrétti sem enn er fyrir hendi.

Aðgerðir til að stöðva ofbeldi gegn konum.
    Í allri umræðu um ofbeldi gegn konum hefur komið fram að þörf er á að styrkja þá meðferðarvinnu sem nú þegar er í boði á Vestur-Norðurlöndum. Í fyrsta lagi eru rannsóknir á konum sem beittar hafa verið ofbeldi mjög takmarkaðar og því mjög erfitt að leysa vandann. Þar að auki er lítið til af tölfræðilegum upplýsingum um þær, einkum á Íslandi og í Færeyjum. Ef vestnorrænu löndin kæmu á fót sameiginlegri upplýsingamiðstöð gætu þau í meira mæli miðlað af reynslu sinni og nýtt sér upplýsingar og rannsóknir sem gerðar eru í löndunum.
    Í vinnu með fórnarlömbum ofbeldis er mikilvægt að taka tillit til tilfinninga fórnarlambsins og tryggja að söfnun upplýsinga eyðileggi ekki trúnaðarsamband fórnarlambs og meðferðarfulltrúa. Þess vegna er mikilvægt að geta nýtt reynslu annarra sem búa við svipaðar aðstæður og lært af vinnu þeirra.
    Konur sem sætt hafa ofbeldi hafa hingað til fengið hjálp fyrst og fremst frá félagasamtökum og stofnunum, t.d. áfallamiðstöðvum og kvennaráðgjöf, sem oft hafa takmörkuð ráð til að hjálpa. Það hefur sýnt sig að konur sem leita sér hjálpar eru mjög ánægðar með stuðninginn sem þær fá hjá slíkum samtökum. Lélegur fjárhagur þeirra takmarkar tækifæri þeirra til að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu miðað við t.d. opinberar stofnanir. Ráðstöfunarfé samtakanna hefur aðallega verið nýtt til að bæta og auka þjónustu þeirra og hafa meðferðarfulltrúar því ekki haft möguleika á að afla sér aukinnar þekkingar sem nýst gæti í starfi.
    Til að hægt verði að undirbúa aðgerðir til að stöðva ofbeldi gegn konum er fjárstuðningur nauðsynlegur. Þá er einnig mikilvægt að hafin verði samvinna á milli vestnorrænu landanna um meðferð og ráðgjöf fyrir konur sem hafa verið beittar ofbeldi.

Staða kvenna á vinnumarkaði.
    Íbúar Vestur-Norðurlandanna eiga það sameiginlegt að atvinna þeirra er bæði erfið og hættuleg og hefur það mótað vinnumarkaðinn í áraraðir. Karlmenn hafa lengstum verið fyrirvinna fjölskyldunnar en kvenfólkið unnið heima við. Þessi verkaskipting hefur haft áhrif á hversu langan tíma hefur tekið að ná fram jafnrétti á vinnumarkaði í þessum löndum, ólíkt öðrum norrænum ríkjum.
    Á sjöunda áratugnum varð bylting í þessum efnum en þá jókst hlutur kvenna á vinnumarkaðinum og varð næstum hinn sami og karla. Rannsóknir á Íslandi og í Færeyjum sýna að 75% kvenna vinna úti en 85% karla. Þrátt fyrir það er launaskiptingin sú að karlar fá u.þ.b. tvo þriðju hluta af greiddum launum en konur aðeins einn þriðja.
    Niðurstöður kannana sýna að konur eru í meiri hluta atvinnulausra í þessum löndum, sérstaklega á Íslandi og í Færeyjum. Margar þeirra eru ófaglærðar ungar mæður, en hlutfall ungra mæðra er mjög hátt í vestnorrænu ríkjunum og hætta þær gjarna námi snemma. Rannsóknir sýna að menntun hefur mikil áhrif á þátttöku á vinnumarkaði. Þeir sem hafa minni menntun taka minni þátt í atvinnulífi en hinir. Menntun virðist vera mikilvægari þáttur fyrir þátttöku á vinnumarkaði en aldur og kyn. Því er mikilvægt að boðið verði upp á hagnýta menntun fyrir konur sem hafa verið án atvinnu eða átt erfitt uppdráttar á vinnumarkaði, t.d. ef menntun hefur skort. Einnig er mikilvægt að rannsaka atvinnuleysi kvenna og stöðu kvenna á vinnumarkaði.
    Síðustu ár hefur vinnumarkaðurinn orðið fjölskylduvænni en áður. Þó er nauðsynlegt að gera betur og þá þarf sérstaklega að koma til móts við karla sem oft hafa þurft að velja á milli atvinnu- og fjölskyldulífsins. Áríðandi er að laga vinnumarkaðinn að kröfum fjölskyldulífsins, t.d. með því að auka sveigjanleika, fækka vinnustundum, fjölga orlofsdögum og lengja fæðingarorlof. Það er krafa nútímans að vinnumarkaðurinn lagi sig að fjölskyldulífinu.

Löggjöf um fæðingarorlof.
    Með aukinni atvinnuþátttöku hafa æ fleiri konur orðið þess áþreifanlega varar að móðurhlutverkið getur valdið ýmsum vandkvæðum, bæði á vinnustaðnum og í einkalífinu. Vinnuveitendur veigra sér stundum við því að ráða konur, einkum ungar konur, vegna hugsanlegrar fjarveru við barnsburð og oft getur verið um verulega fjárhagslega hagsmuni að ræða fyrir konur. Greiðslur í fæðingarorlofi eru mjög mismunandi í vestnorrænu löndunum og eftir einstökum starfsstéttum í hverju landi.
    Vestnorræna ráðið telur mikilvægt að samfélagið axli ábyrgð á barnsfæðingum þar sem þær eru samfélaginu í hag. Það eru hagsmunir allra að konur haldi áfram að ala börn og því er nauðsynlegt að barnsfæðingar og barnsburðarleyfi, hvort sem feður eða mæður taka það, hafi sem minnsta fjárhagslega röskun í för með sér fyrir fjölskyldurnar.
    Ýmsar leiðir eru færar til að bæta fjárhagslegt tap sem barnsburðarleyfi hefur í för með sér. Sú hugmynd hefur komið upp að stofnaður verði sjóður eða annað fyrirkomulag í hverju landi sem launþegar og atvinnurekendur greiða í til helminga. Greiðslur yrðu miðaðar við laun starfsmanna. Við töku fæðingarorlofs fengi foreldri síðan full laun greidd úr sjóðnum. Gert er ráð fyrir að ríkið greiði í sjóðinn þar til hann fer að standa undir sér sjálfur. Kostirnir við þessa leið eru einkum þeir að foreldrar halda fullum launum og því verður ekki fjárhagslegt tap af því að fara í fæðingarorlof. Vinnuveitandinn ber engan kostnað af einstökum starfsmönnum þegar þeir fara í fæðingarorlof, heldur verður dregið jafnt af launum kvenna og karla, og ríkið ber, þegar fram í sækir, ekki beinan kostnað af fæðingarorlofi.

Aðgengi að háskólum á Vestur-Norðurlöndum.
    Menntun er lykillinn að menningu og efnahagslegri velferð. Hún er auk þess grundvöllur sjálfstæðis á tímum sem einkennast af aukinni alþjóðavæðingu og samkeppni en jafnframt menningarlegri samkennd. Samvinna milli landa hefur mikla þýðingu fyrir menntun og menningu, ekki síst smærri þjóða. Það er einkum með virkri samvinnu við nágrannaþjóðir sem smáþjóðir geta haldið uppi góðu menntakerfi.
    Ekki er algengt að stúdentar frá Færeyjum eða Grænlandi stundi nám á Íslandi eða íslenskir stúdentar nemi í Færeyjum eða á Grænlandi. Þetta er athyglisvert, ekki síst vegna þess að þjóðirnar eiga margt sameiginlegt og löndin eru mjög nálægt hvert öðru. Þetta má væntanlega rekja til þess að í upphafi voru menntunarleiðir í þessum löndum fáar og háskólarnir litlir. Þetta á hins vegar ekki við lengur þar sem menntun á háskólastigi hefur batnað til muna á síðustu árum. Menntun í löndunum þremur blómstrar sem aldrei fyrr og háskólarnir á Íslandi, háskólinn í Færeyjum og háskólinn á Grænlandi eru vaxandi stofnanir.
    Hér er lagt til að menntamálaráðherrar landanna stofni vinnuhóp sem sem hefði það verkefni að rannsaka hvað hindri vestnorræna stúdenta í að stunda nám í öðru vestnorrænu landi en sínu eigin. Vinnuhópurinn gæti m.a. rannsakað reglur um aðgang stúdenta að háskólum og öðrum kennslustofnunum á háskólastigi, lána- og stuðningsmöguleika þeirra, aðgang vestnorrænna stúdenta að stúdentahúsnæði og framboð tungumálakennslu fyrir erlenda stúdenta í vestnorrænu ríkjunum.