Ferill 586. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 888  —  586. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn.

(Lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn sem samþykkt var í Róm 17. júlí 1998.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Hinn 17. júlí 1998 var á ríkjaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Róm samþykktur samningur um stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls, Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar samþykktarinnar sem er prentuð sem fylgiskjal með tillögunni.
    Rómarsamþykktin lá frammi til undirritunar í Róm til 17. október 1998 og unnt verður að undirrita hana í New York til 31. desember 2000. Samþykktin var undirrituð fyrir Íslands hönd 26. ágúst 1998. Hinn 29. mars 2000 höfðu alls 95 ríki undirritað samþykktina en sjö ríki höfðu fullgilt hana, þ.e. Senegal, Trínidad og Tóbagó, San Marínó, Ítalía, Fídjieyjar, Gana og Noregur. Samþykktin mun öðlast gildi tveimur mánuðum eftir að 60 ríki hafa fullgilt hana.
    Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn, sem hafa mun aðsetur í Haag, hefur það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Stofnun dómstólsins er tvímælalaust eitt mikilvægasta framlag til mannréttindaverndar og friðar í heiminum frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Unnið hefur verið að stofnun slíks dómstóls allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.
    Hópmorð, glæpir gegn mannúð og stríðsglæpir eru skilgreind í Rómarsamþykktinni, en kveðið er á um að dómstóllinn skuli ekki beita lögsögu sinni að því er glæpi gegn friði varðar fyrr en skilgreining á þeim liggur fyrir. Dómstóllinn hefur sjálfvirka lögsögu í málum er undir hann heyra, þ.e. óháða sérstöku samþykki viðkomandi ríkja. Skilyrði er þó að annaðhvort þegnríki sakbornings eða ríkið þar sem hið meinta brot var framið sé aðili að samþykktinni. Aðildarríki er heimilt að undanþiggja sig lögsögu dómstólsins að því er stríðsglæpi varðar til allt að sjö ára frá því að samþykktin öðlast gildi gagnvart því.
    Sérstakur saksóknari starfar samkvæmt samþykktinni og getur hann að eigin frumkvæði eða eftir tilvísun frá aðildarríki eða öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafist handa við að rannsaka og gefa út ákæru í málum er undir dómstólinn heyra. Samkvæmt samþykktinni er óheimilt að hefja eða halda áfram rannsókn eða saksókn í máli á eins árs tímabili eftir að öryggisráðið hefur lagt fram beiðni þar að lútandi til dómstólsins, í samræmi við ályktun sem samþykkt er samkvæmt VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Lögsaga Alþjóðlega sakamáladómstólsins er til fyllingar lögsögu einstakra ríkja til að saksækja og dæma í þeim málum sem hér um ræðir. Lögsaga dómstólsins verður því aðeins virk að viðkomandi ríki hafi sökum skorts á getu eða vilja látið undir höfuð leggjast að grípa til viðeigandi ráðstafana.
    Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn er varanlegur og hefur almenna lögsögu. Hann er því frábrugðinn alþjóðastríðsglæpadómstólunum í málefnum fyrrum Júgóslavíu og Rúanda sem hafa takmarkaða lögsögu bæði í tíma og rúmi.
    Rómarsamþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn samanstendur af alls 128 greinum og skiptist hún í eftirfarandi kafla:
    1. kafli. Stofnun dómstólsins (1.–4. gr.).
    2. kafli. Lögsaga, skilyrði þess að mál sé tækt til meðferðar og réttarheimildir (5.–21. gr.).
    3. kafli. Grundvallarreglur refsiréttar (22.–33. gr.).
    4. kafli. Skipan og stjórn dómstólsins (34.–52. gr.).
    5. kafli. Rannsókn og saksókn (53.–61. gr.).
    6. kafli. Dómsmeðferð (62.–76. gr.).
    7. kafli. Refsingar (77.–80. gr.).
    8. kafli. Áfrýjun og endurupptaka (81.–85. gr.).
    9. kafli. Alþjóðasamstarf og réttaraðstoð (86.–102. gr.).
    10. kafli. Fullnusta (103.–111. gr.).
    11. kafli. Þing aðildarríkjanna (112. gr.).
    12. kafli. Fjármögnun (113.–118. gr.).
    13. kafli. Lokaákvæði (119.–128. gr.).
    Ríkjaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Róm var haldin dagana 15. júní til 17. júlí 1998. Ísland var í hópi rúmlega 60 ríkja á ráðstefnunni sem lagði áherslu á að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn yrði sjálfstæður og öflugur og hefði sjálfvirka lögsögu í málum er undir hann heyra. Hópurinn taldi enn fremur afar mikilvægt að tryggja sjálfstæði og frumkvæðisrétt saksóknarans. Í hópnum voru m.a. öll aðildarríki ESB að Frakklandi undanskildu, Noregur, Sviss, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland auk ýmissa Austur-Evrópuríkja, Mið- og Suður- Ameríkuríkja, Afríkuríkja og Asíuríkja. Nokkur ríki, þar á meðal Bandaríkin, Frakkland, Rússland, Kína, Indland, Mexíkó og ýmis Arabaríki, vildu á hinn bóginn draga úr valdi saksóknarans og takmarka lögsögu dómstólsins. Bandaríkin lögðu megináherslu á að þegnríki sakbornings yrði að veita samþykki sitt í hvert skipti til að lögsaga dómstólsins yrði virk, en samkvæmt því væri t.d. ekki unnt að lögsækja bandaríska hermenn nema með sérstöku samþykki Bandaríkjanna.
    Að morgni lokadags ráðstefnunnar, 17. júlí 1998, lagði formaður aðalsamninganefndarinnar, Kanadamaðurinn Philippe Kirsch, fram ný samningsdrög sem byggðust að verulegu leyti á sjónarmiðum 60 ríkja hópsins. Komið var þó að nokkru leyti til móts við sjónarmið hinna ríkjanna, m.a. að því er varðar lögsögu dómstólsins. Fyrrnefndi hópurinn taldi drögin ásættanleg í heild og hvatti til þess að þau yrðu samþykkt án nokkurra breytinga. Á lokafundi aðalsamninganefndarinnar lögðu Indland og Bandaríkin hvort um sig fram breytingartillögur, en mikill meiri hluti ríkja samþykkti tillögur Noregs um að taka breytingartillögurnar ekki fyrir. Í kjölfarið voru samningsdrögin samþykkt með lófataki.
    Á allsherjarfundi um kvöldið kröfðust Bandaríkin atkvæðagreiðslu um samningsdrögin. Voru þau samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða: 120 ríki greiddu atkvæði með, 21 sat hjá og aðeins 7 greiddu atkvæði á móti, þar á meðal Bandaríkin, Indland, Kína og Ísrael. Meðal þeirra sem greiddu atkvæði með drögunum voru Frakkland og Rússland.
    Á ríkjaráðstefnunni í Róm var sett á fót nefnd til að undirbúa stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Meðal verkefna undirbúningsnefndarinnar er að semja drög að málsmeðferðarreglum dómstólsins og að lýsingu á efnisþáttum þeirra brota er falla undir Rómarsamþykktina, en gert er ráð fyrir að þessum verkefnum verði lokið fyrir lok júní 2000. Ísland hefur tekið þátt í starfi nefndarinnar.
    Norðurlöndin hafa haft með sér samráð um undirbúning fullgildingar Rómarsamþykktarinnar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, enda er málið bæði flókið og umfangsmikið. Fullgilding Rómarsamþykktarinnar kallar á löggjöf um framkvæmd hennar hér á landi. Í dómsmálaráðuneytinu er unnið að undirbúningi frumvarps þar að lútandi og er gert ráð fyrir að það verði lagt fyrir Alþingi í upphafi 126. löggjafarþings.



Fylgiskjal.


Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn.


Inngangsorð.

Ríkin, sem eru aðilar að samþykkt þessari,

gera sér grein fyrir því
að allar þjóðir eru tengdar sameiginlegum böndum og menningararfur þeirra er samofinn en jafnframt óttast þau að þessi fíngerði vefur kunni að bresta hvenær sem er,

eru minnug þess að á þessari öld hafa milljónir barna, kvenna og karla orðið fórnarlömb óskiljanlegra grimmdarverka sem hafa gróflega misboðið samvisku mannkynsins,

viðurkenna að alvarlegir glæpir sem þessir ógni friði, öryggi og velferð í heiminum,

lýsa því yfir að ekki megi láta órefsað fyrir hina alvarlegustu glæpi sem gjörvallt samfélag þjóðanna hefur áhyggjur af og tryggja þurfi að raunverulega sé sótt til saka fyrir þessa glæpi með því að gera ráðstafanir á innlendum vettvangi og efla alþjóðasamvinnu,

eru staðráðin í að binda enda á refsileysi gerenda þessara glæpa og á þann hátt stuðla að því að koma í veg fyrir slíka glæpi,

minna á að það er skylda sérhvers ríkis að beita refsilögsögu sinni gagnvart þeim sem bera ábyrgð á alþjóðaglæpum,

ítreka markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna, einkum að ekkert ríki skuli beita hótunum eða valdi gegn friðhelgi yfirráðasvæðis eða stjórnmálalegu sjálfstæði annars ríkis eða með annarri þeirri aðferð sem ekki samrýmist markmiðum Sameinuðu þjóðanna,

leggja áherslu á í þessu sambandi að engin ákvæði samþykktar þessarar beri að skilja á þann veg að aðildarríki sé heimilt að blanda sér í hernaðarátök eða innanríkismál annars ríkis,

eru staðráðin í að stofna í þessu skyni og í þágu núlifandi og komandi kynslóða sjálfstæðan og varanlegan alþjóðlegan sakamáladómstól, í tengslum við Sameinuðu þjóðirnar, sem hafi lögsögu yfir alvarlegustu glæpum sem gjörvallt samfélag þjóðanna hefur áhyggjur af,

leggja áherslu á að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn, sem stofnaður er með samþykkt þessari, skuli vera til fyllingar innlendri refsilögsögu,

einsetja sér að tryggja til frambúðar virðingu fyrir alþjóðlegri réttvísi og framkvæmd hennar,

og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. kafli: Stofnun dómstólsins.


1. gr.

Dómstóllinn.


    Alþjóðlegur sakamáladómstóll („dómstóllinn“) er hér með stofnaður. Hann skal vera varanleg stofnun og hafa vald til þess að beita lögsögu sinni gagnvart einstaklingum fyrir hina alvarlegustu glæpi sem gjörvallt samfélag þjóðanna hefur áhyggjur af og tilgreindir eru í samþykkt þessari og skal hann vera til fyllingar innlendri refsilögsögu. Um lögsögu og starfsemi dómstólsins fer eftir ákvæðum þessarar samþykktar.

2. gr.

Tengsl dómstólsins við Sameinuðu þjóðirnar.


    Dómstóllinn skal vera tengdur Sameinuðu þjóðunum með samningi sem þing aðildarríkja þessarar samþykktar skal samþykkja og gerir síðan forseti dómstólsins samninginn fyrir hans hönd.


3. gr.

Aðsetur dómstólsins.


    1. Dómstóllinn skal hafa aðsetur í Haag í Hollandi („gistiríkið“).
    2. Dómstóllinn skal gera samning um höfuðstöðvar sínar við gistiríkið sem þing aðildarríkja þessarar samþykktar skal samþykkja og gerir síðan forseti dómstólsins samninginn fyrir hans hönd.
    3. Telji dómstóllinn það æskilegt getur hann komið saman annars staðar í samræmi við þessa samþykkt.

4. gr.

Réttarstaða og valdheimildir dómstólsins.


    1. Dómstóllinn skal hafa stöðu alþjóðlegrar lögpersónu. Hann skal einnig hafa það rétthæfi sem honum er nauðsynlegt til að starfa og ná markmiðum sínum.
    2. Dómstóllinn getur innt störf sín af hendi og beitt valdheimildum sínum eins og kveðið er á um í samþykkt þessari á yfirráðasvæði hvers aðildarríkis og, samkvæmt sérstökum samningi, á yfirráðasvæði hvaða ríkis annars sem er.

2. kafli: Lögsaga, skilyrði þess að mál sé tækt
til meðferðar og réttarheimildir.

5. gr.

Glæpir sem falla undir lögsögu dómstólsins.


    1. Lögsaga dómstólsins skal takmarkast við hina alvarlegustu glæpi sem gjörvallt samfélag þjóðanna hefur áhyggjur af. Eftirtaldir glæpir falla undir lögsögu dómstólsins í samræmi við þessa samþykkt:

    a) hópmorð;
    b) glæpir gegn mannúð;
    c) stríðsglæpir;
    d) glæpir gegn friði.
    2. Dómstóllinn skal beita lögsögu sinni að því er varðar glæpina gegn friði þegar samþykkt hefur verið ákvæði í samræmi við 121. og 123. gr. þar sem glæpirnir eru skilgreindir og sett eru skilyrði fyrir því að dómstóllinn beiti lögsögu sinni að því er þessa glæpi varðar. Það ákvæði skal vera í samræmi við viðeigandi ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

6. gr.

Hópmorð.


    Í þessari samþykkt merkir „hópmorð“ einhvern eftirtalinna verknaða sem framdir eru í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúflokki, sem slíkum:
    a) að drepa einstaklinga úr viðkomandi hópi;
    b) að skaða einstakling úr viðkomandi hópi, líkamlega eða andlega;
    c) að þröngva viðkomandi hópi af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að líkamlegri eyðingu hópsins eða hluta hans;
    d) að beita þvingunaraðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir barnsfæðingar í hópnum;
    e) að flytja börn með valdi úr hópnum til annars hóps.

7. gr.

Glæpir gegn mannúð.


    1. Í þessari samþykkt merkir „glæpir gegn mannúð“ einhvern eftirtalinna verknaða þegar þeir eru framdir sem hluti af víðtækri eða kerfisbundinni atlögu sem beint er gegn óbreyttum borgurum, vitandi vits um atlöguna:
    a) morð;
    b) útrýmingu;
    c) þrælkun;
    d) brottvísun eða nauðungarflutninga íbúa;
    e) fangelsun eða aðra alvarlega frelsissviptingu sem stríðir gegn grundvallarreglum þjóðaréttar;

    f) pyndingar;
    g) nauðgun, kynlífsþrælkun, þvingun til vændis, þungunar eða ófrjósemisaðgerðar eða annað álíka alvarlegt kynlífsofbeldi;
    h) ofsóknir gegn afmörkuðum hópi eða samfélagi vegna stjórnmálaskoðana, kynþáttar, þjóðernis, þjóðernishóps, menningar, trúarbragða, kynferðis eins og það er skilgreint í 3. mgr. eða af öðrum ástæðum, sem almennt er viðurkennt að fái ekki staðist að þjóðarétti, í tengslum við einhvern þann verknað, sem um getur í þessari málsgrein, eða einhvern þann glæp sem fellur undir lögsögu dómstólsins;
    i) mannshvörf af manna völdum;
    j) kynþáttaaðskilnað;
    k) aðra ómannúðlega verknaði af svipuðum toga sem ætlað er að valda miklum þjáningum eða alvarlegu líkamstjóni eða tjóni á andlegu eða líkamlegu heilbrigði.
    2. Í 1. mgr.:
    a) merkir „atlaga sem beint er gegn óbreyttum borgurum“ háttsemi sem felur í sér röð margendurtekinna verknaða, sem um getur í 1. mgr., sem beint er gegn óbreyttum borgurum í samræmi við eða til að framfylgja stefnu ríkis eða samtaka um að gera slíka atlögu;
    b) felur „útrýming“ það í sér að þröngva íbúunum af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði, meðal annars þau að koma í veg fyrir að þeir hafi aðgang að mat og lyfjum, sem ætlað er að eyða hluta íbúanna;
    c) merkir „þrælkun“ að beita einhverjum eða öllum þeim heimildum sem tengjast eignarrétti á einstaklingi, þar á meðal sem liður í mansali, einkum kvenna og barna;
    d) merkir „brottvísun eða nauðungarflutningur íbúa“ nauðungarflutninga á fólki, með brottvísun eða öðrum þvingunaraðgerðum, af svæði þar sem fólkið er statt og hefur lögvarinn rétt til dvalar, án ástæðna sem eru heimilaðar að þjóðarétti;
    e) merkir „pyndingar“ að valda af ásetningi manni, sem er í haldi hjá ákærða eða á valdi hans, miklum sársauka eða þjáningum, líkamlegum eða andlegum; í hugtakinu felst þó ekki sársauki eða þjáningar sem orsakast eingöngu af, felast í eða eru til komnar vegna löglegra refsiaðgerða;
    f) merkir „nauðungarþungun“ ólöglegt hald konu sem hefur verið gert barn með nauðung, með þeim ásetningi að hafa áhrif á samsetningu þjóðernishópa viðkomandi íbúa eða fremja önnur alvarleg brot að þjóðarétti. Þessa skilgreiningu ber á engan hátt að túlka þannig að hún hafi áhrif á landslög um þungun;

    g) merkir „ofsóknir“ alvarlega sviptingu grundvallarréttinda, af ásetningi, sem stríðir gegn þjóðarétti, vegna þess hver hópurinn eða samfélagið er;

    h) merkir „kynþáttaaðskilnaður“ ómannúðlega verknaði svipaðs eðlis og um getur í 1. mgr. sem framdir eru innan stofnanabundins kerfis þar sem einn kynþáttur kúgar annan með kerfisbundnum hætti og drottnar yfir honum með þeim ásetningi að viðhalda því kerfi;

    i) merkir „mannshvörf af manna völdum“ handtöku, hald eða brottnám manna af hálfu ríkis eða stjórnmálasamtaka eða með leyfi þeirra, stuðningi eða samþykki og þau neita síðan að viðurkenna að viðkomandi hafi verið sviptir frelsi eða neita að veita upplýsingar um örlög eða verustað þeirra með þeim ásetningi að svipta þá réttarvernd um lengri tíma.

    3. Í þessari samþykkt er með hugtakinu „kynferði“ átt við bæði kynin, karl og konu, eins og það er notað í þjóðfélagslegu samhengi. Þetta hugtak hefur enga aðra merkingu hér en þá sem greinir hér að framan.

8. gr.

Stríðsglæpir.


    1. Dómstóllinn skal hafa lögsögu að því er varðar stríðsglæpi, einkum þegar þeir eru framdir sem hluti af áætlun eða stefnu eða sem hluti af umfangsmiklum glæpaverkum.
    2. Í þessari samþykkt er merking hugtaksins „stríðsglæpir“ sem hér segir:
    a) Alvarleg brot á Genfarsamningunum frá 12. ágúst 1949, nánar tiltekið einhvern eftirtalinna verknaða gegn mönnum eða eignum sem njóta verndar samkvæmt ákvæðum viðkomandi Genfarsamninga:
    i) manndráp af ásetningi;
    ii) pyndingar eða ómannúðleg meðferð, þar með talið líffræðilegar tilraunir;
    iii) að valda af ásetningi miklum þjáningum, alvarlegum líkamsskaða eða heilsutjóni;
    iv) umfangsmikil eyðilegging og upptaka eigna, sem ekki er réttlætanleg af hernaðarlegri nauðsyn og framkvæmd er með ólöglegum og gerræðislegum hætti;
    v) að þröngva stríðsfanga eða öðrum, sem nýtur verndar, til að gegna herþjónustu hjá óvinunum;
    vi) að neita af ásetningi stríðsfanga eða öðrum, sem nýtur verndar, um réttlát og eðlileg réttarhöld;

    vii) ólögleg brottvísun eða flutningur eða ólöglegt varðhald;
    viii) að taka gísla.
    b) Önnur alvarleg brot á lögum og venjum sem taka tillit til hernaðarátaka sem eru alþjóðlegs eðlis innan viðurkennds ramma þjóðaréttar, nánar tiltekið einhverjir eftirtalinna verknaða:
    i) að leggja af ásetningi til atlögu gegn óbreyttum borgurum eða einstökum borgurum sem ekki taka beinan þátt í átökum;
    ii) að ráðast af ásetningi á borgaralega hluti, þ.e. hluti sem hafa ekki hernaðarlegt vægi;

    iii) að leggja af ásetningi til atlögu gegn starfsliði, stöðvum, búnaði, einingum eða ökutækjum sem notuð eru við mannúðaraðstoð eða friðargæslu í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna, svo fremi að þeim beri vernd sem óbreyttir borgarar eða borgaralegir hlutir samkvæmt þjóðréttarreglum um hernaðarátök;
    iv) að leggja af ásetningi til atlögu, vitandi að það geti, af tilviljun, kostað líf óbreyttra borgara eða valdi þeim líkamstjóni eða eyðilagt borgaralega hluti eða valdið víðtækum, langvarandi og alvarlegum umhverfisspjöllum sem augljóslega er ekki í réttu hlutfalli við raunverulegan og beinan hernaðarlegan ávinning sem vænst er;
    v) að ráðast á eða sprengja með hvaða hætti sem er borgir, þorp, bústaði eða byggingar sem eru óvarðar og hafa ekki hernaðarlegt vægi;
    vi) að drepa eða særa stríðandi mann sem hefur lagt niður vopn eða hefur engin tök á að að verja sig lengur og hefur gefist upp skilyrðislaust;
    vii) að misnota griðafána, fána eða einkennismerki og einkennisbúning hers óvinanna eða Sameinuðu þjóðanna svo og sérstök tákn Genfarsamninganna þannig að leiði til dauða eða alvarlegra meiðsla á mönnum;
    viii) að hernámsyfirvald flytji, beint eða óbeint, hluta eigin óbreyttra borgara inn á yfirráðasvæði, sem það hefur hertekið, eða vísi á brott eða flytji alla eða hluta íbúa hernumda svæðisins annaðhvort innan þess svæðis eða út fyrir svæðið;

    ix) að ráðast af ásetningi á byggingar, sem eru helgaðar trú, menntun, listum, vísindum eða góðgerðarstarfsemi, eða á sögulegar minjar, sjúkrahús eða staði þar sem sjúkum og særðum er safnað saman, að því tilskildu að þessir staðir hafi ekki hernaðarlegt vægi;
    x) að láta menn, sem eru á valdi andstæðinga sinna, sæta limlestingum eða læknisfræðilegum eða vísindalegum tilraunum af hvaða tagi sem er sem hvorki er unnt að réttlæta sem læknismeðferð eða meðferð hjá tannlækni eða á sjúkrahúsi né meðferð í þeirra þágu og sem leiða til dauða eða stofna heilsu þeirra í alvarlega hættu;
    xi) að drepa eða særa menn sem tilheyra óvinaþjóð eða óvinaher með sviksamlegum hætti;
    xii) að lýsa því yfir að engin grið verði gefin;
    xiii) að eyðileggja eða leggja hald á eignir óvinanna nema slíkt sé óhjákvæmilegt af hernaðarlegri nauðsyn;
    xiv) að afnema með yfirlýsingu, fella úr gildi um tíma eða lýsa ótæk fyrir dómi réttindi og athafnir borgara andstæðinganna;
    xv) að neyða borgara andstæðinganna til að taka þátt í stríðsaðgerðum gegn eigin landi jafnvel þótt þeir hafi verið í þjónustu hins stríðsaðilans áður en stríðið hófst;


    xvi) að fara ránshendi um borg eða stað jafnvel þótt borgin eða staðurinn hafi verið tekinn með áhlaupi;
    xvii) að nota eitur eða eiturvopn;
    xviii) að nota kæfandi, eitrað eða annars konar gas og hvers konar sambærilega vökva, efni eða búnað;

    xix) að nota byssukúlur sem auðveldlega þenjast eða fletjast út í mannslíkamanum, svo sem byssukúlur með harðan hjúp sem þekur ekki allan kjarnann eða er settur skorum;
    xx) að nota, andstætt þjóðréttarreglum um hernaðarátök, vopn, skotfæri, efni og hernaðaraðferðir sem eru þess eðlis að valda óþarfa áverkum eða þjáningum eða hafa tilviljunarkennd áhrif, að því tilskildu að slík vopn, skotfæri, efni og hernaðaraðferðir falli undir allsherjarbann og séu talin upp í viðauka við þessa samþykkt, með breytingu í samræmi við viðeigandi ákvæði 121. og 123. gr.;


    xxi) að misbjóða mannlegri reisn, einkum með auðmýkjandi og niðurlægjandi meðferð;
    xxii) að nauðga, halda í kynlífsþrælkun, þvinga til vændis, valda nauðungarþungun eins og skilgreint er í f-lið 2. mgr. 7. gr., gera ófrjósemisaðgerð með nauðung eða fremja hvers konar annað kynferðislegt ofbeldi sem telst einnig til alvarlegra brota á Genfarsamningunum;
    xxiii) að notfæra sér nærveru óbreytts borgara, eða annars manns sem nýtur verndar, til að gera tiltekna staði, svæði eða herafla friðhelga fyrir hernaðaraðgerðum;
    xxiv) að ráðast af ásetningi á byggingar, búnað, hjúkrunareiningar, sjúkraflutningatæki og starfslið sem notar sérstök tákn Genfarsamninganna í samræmi við þjóðarétt;
    xxv) að nota þá hernaðaraðferð að svelta óbreytta borgara af ásetningi með því að svipta þá hlutum sem eru þeim ómissandi til að lifa af, þar með talið að koma af ásetningi í veg fyrir að þeim berist hjálpargögn sem kveðið er á um í Genfarsamningunum;
    xxvi) að kveðja eða skrá í herinn börn undir fimmtán ára aldri eða láta þau taka virkan þátt í átökum.
    c) Alvarleg brot á 3. gr. sem er sameiginleg Genfarsamningunum fjórum frá 12. ágúst 1949, þegar um er að ræða hernaðarátök sem ekki eru alþjóðlegs eðlis, nánar tiltekið einhverjir eftirtalinna verknaða gegn mönnum, sem taka ekki virkan þátt í átökum, að meðtöldum einstökum hermönnum sem hafa lagt niður vopn og gegn þeim sem eru ekki vopnfærir vegna veikinda, sára, varðhalds eða af öðrum ástæðum:
    i) ofbeldi gegn lífi og limum, einkum hvers kyns morð, limlestingar, misþyrmingar og pyndingar;

    ii) að misbjóða mannlegri reisn, einkum með auðmýkjandi og niðurlægjandi meðferð;
    iii) að taka gísla;
    iv) að dæma menn til refsingar og taka þá af lífi án þess að löglega skipaður dómstóll, sem tryggir þau réttindi sem almennt er viðurkennt að séu ófrávíkjanleg, hafi áður kveðið upp dóm þar að lútandi.
    d) Ákvæði c-liðar 2. mgr. gilda um hernaðarátök sem ekki eru alþjóðlegs eðlis og eiga þannig ekki við um óróa og spennu innanlands, til dæmis uppþot, einangruð og tilfallandi ofbeldisverk eða aðra sambærilega verknaði.
    e) Önnur alvarleg brot á lögum og venjum sem gilda um hernaðarátök sem eru ekki alþjóðlegs eðlis innan viðurkennds ramma þjóðaréttar, nánar tiltekið einhverjir eftirtalinna verknaða:
    i) að leggja af ásetningi til atlögu að óbreyttum borgurum sem hópi eða einstökum borgurum sem ekki taka beinan þátt í átökum;
    ii) að ráðast af ásetningi á byggingar, búnað, hjúkrunareiningar, sjúkraflutningatæki og starfslið sem notar sérstök merki sem kveðið er á um í Genfarsamningunum í samræmi við þjóðarétt;
    iii) að leggja af ásetningi til atlögu gegn starfsliði, stöðvum, búnaði, einingum eða ökutækjum sem notuð eru við mannúðarhjálp eða friðargæslu í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna, svo fremi að þeim beri vernd sem óbreyttir borgarar eða borgaralegir hlutir samkvæmt þjóðréttarreglum um hernaðarátök;
    iv) að ráðast af ásetningi á byggingar, sem eru helgaðar trú, menntun, listum, vísindum eða góðgerðarstarfsemi, eða á sögulegar minjar, sjúkrahús eða staði þar sem sjúkum og særðum er safnað saman, að því tilskildu að þessir staðir hafi ekki hernaðarlegt vægi;
    v) að fara ránshendi um borg eða stað jafnvel þótt borgin eða staðurinn hafi verið tekinn með áhlaupi;
    vi) að nauðga, halda í kynlífsþrælkun, þvinga til vændis, valda nauðungarþungun eins og hún er skilgreind í f-lið 2. mgr. 7. gr., gera ófrjósemisaðgerð með nauðung eða fremja hvers konar annað kynferðislegt ofbeldi sem telst einnig til alvarlegra brota á 3. gr. sem er sameiginleg Genfarsamningunum fjórum;
    vii) að kveðja eða skrá í her eða herflokka börn undir fimmtán ára aldri eða láta þau taka virkan þátt í átökum;
    viii) að fyrirskipa flutning á óbreyttum borgurum af ástæðum sem tengjast átökunum, nema því aðeins að öryggi hlutaðeigandi borgara eða brýnar hernaðarástæður krefjist þess;
    ix) að drepa eða særa stríðandi andstæðing með sviksamlegum hætti;
    x) að lýsa því yfir að engin grið verði gefin;
    xi) að láta menn, sem eru á valdi annars aðila að átökunum, sæta limlestingum eða gera á þeim læknisfræðilegar eða vísindalegar tilraunir af einhverju tagi, sem hvorki er unnt að réttlæta sem læknismeðferð eða meðferð hjá tannlækni eða á sjúkrahúsi né meðferð í þeirra þágu og leiða til dauða eða skaða alvarlega heilsu þessarar manna;

    xii) að eyðileggja eða leggja hald á eignir andstæðings nema það sé algjörlega óhjákvæmilegt vegna átakanna.
    f) Ákvæði e-liðar 2. mgr. gilda um hernaðarátök sem ekki eru alþjóðlegs eðlis og eiga þannig ekki við um óróa og spennu innanlands, til dæmis uppþot, einangruð og tilfallandi ofbeldisverk eða aðra sambærilega verknaði. Þau gilda um hernaðarátök á yfirráðasvæði ríkis þegar langvinn hernaðarátök eru á milli stjórnvalda og skipulagðra vopnaðra hópa eða milli slíkra hópa.

    3. Ekkert í c- og e-lið 2. mgr. skal hafa áhrif á ábyrgð ríkisstjórnar á að halda uppi eða koma aftur á lögum og reglu í ríkinu eða að verja einingu og friðhelgi yfirráðasvæðis ríkisins með öllum löglegum ráðum.

9. gr.

Efnisþættir glæpa.


    1. Dómstóllinn skal styðjast við efnisþætti glæpa við túlkun og beitingu 6., 7. og 8. gr. Skulu þeir samþykktir af tveimur þriðju hlutum fulltrúanna á þingi aðildarríkjanna.
    2. Eftirtaldir aðilar geta lagt fram tillögur um breytingar á efnisþáttum glæpa:
    a) aðildarríki;
    b) dómararnir með hreinum meiri hluta;
    c) saksóknari.

    Breytingar skulu samþykktar af tveimur þriðju hlutum fulltrúanna á þingi aðildarríkjanna.

    3. Efnisþættir glæpa og breytingar á þeim skulu vera í samræmi við þessa samþykkt.

10. gr.

    Ekkert í þessum kafla skal túlkað þannig að það takmarki eða hafi með einhverjum hætti áhrif á reglur þjóðaréttar sem gilda eða eru í mótun að því er varðar önnur svið en þessa samþykkt.

11. gr.

Tímamörk lögsögu dómstólsins.


    1. Dómstóllinn hefur einungis lögsögu að því er varðar glæpi sem eru framdir eftir að þessi samþykkt öðlast gildi.
    2. Ef ríki gerist aðili að þessari samþykkt eftir að hún öðlast gildi getur dómstóllinn einungis beitt lögsögu sinni varðandi glæpi sem eru framdir eftir að samþykktin öðlast gildi að því er það ríki varðar, nema það ríki hafi gefið út yfirlýsingu skv. 3. mgr. 12. gr.

12. gr.

Forsendur þess að dómstóllinn beiti lögsögu sinni.


    1. Ríki, sem gerist aðili að þessari samþykkt, viðurkennir þar með lögsögu dómstólsins að því er varðar þá glæpi sem um getur í 5. gr.
    2. Þegar um er að ræða a- eða c-lið 13. gr. getur dómstóllinn beitt lögsögu sinni ef eitt eða fleiri eftirfarandi ríkja eiga aðild að þessari samþykkt eða hafa viðurkennt lögsögu dómstólsins í samræmi við 3. mgr.:
    a) ríki, sem ræður því yfirráðasvæði þar sem viðkomandi háttsemi átti sér stað eða, ef glæpurinn var framinn um borð í skipi eða loftfari, skráningarríki skipsins eða loftfarsins;
    b) ríkið þar sem sá sem ákærður er fyrir glæpinn hefur ríkisfang.
    3. Ef nauðsynlegt er skv. 2. mgr. að ríki, sem er ekki aðili að þessari samþykkt, viðurkenni lögsögu dómstólsins getur það ríki samþykkt með yfirlýsingu til dómritara að dómstóllinn beiti lögsögu sinni að því er varðar viðkomandi glæp. Ríkið, sem hefur viðurkennt lögsögu dómstólsins, skal án tafar og undantekningarlaust hafa samvinnu við dómstólinn í samræmi við 9. kafla.

13. gr.

Beiting lögsögu.


    Dómstóllinn getur beitt lögsögu sinni, að því er varðar glæp sem um getur í 5. gr., í samræmi við ákvæði þessarar samþykktar ef:
    a) aðildarríki hefur, í samræmi við 14. gr., vísað til saksóknara aðstæðum þar sem einn eða fleiri slíkir glæpir virðast hafa verið framdir;

    b) öryggisráðið hefur, skv. VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna, vísað til saksóknara aðstæðum þar sem einn eða fleiri slíkir glæpir virðast hafa verið framdir; eða
    c) saksóknari hefur hafið rannsókn á slíkum glæp í samræmi við 15. gr.

14. gr.

Aðildarríki vísar aðstæðum til saksóknara.


    1. Aðildarríki getur vísað til saksóknara aðstæðum þar sem einn eða fleiri glæpir, sem falla undir lögsögu dómstólsins, virðast hafa verið framdir og óskað þess að hann rannsaki aðstæðurnar í þeim tilgangi að ákvarða hvort einn eða fleiri tilteknir menn skuli ákærðir fyrir glæpina.

    2. Ríkið, sem vísar aðstæðum til saksóknara, skal, eftir því sem unnt er, greina í tilvísuninni frá aðstæðum sem máli skipta og leggja fram með henni öll tiltæk stuðningsgögn.

15. gr.

Saksóknari.


    1. Saksóknari getur hafið rannsókn proprio motu á grundvelli upplýsinga um glæpi sem falla undir lögsögu dómstólsins.
    2. Saksóknari skal kanna hversu alvarlegar þær upplýsingar eru sem honum hafa borist. Í því skyni getur hann leitað viðbótarupplýsinga hjá ríkjum, stofnunum Sameinuðu þjóðanna, milliríkjastofnunum, frjálsum félagasamtökum eða öðrum áreiðanlegum aðilum eins og hann telur við eiga og getur hann móttekið skriflega eða munnlega vitnisburði á aðsetri dómstólsins.
    3. Ef saksóknari kemst að þeirri niðurstöðu að gild rök séu til þess að hefja rannsókn skal hann senda forréttarstofu beiðni um heimild til rannsóknar ásamt öllum stuðningsgögnum sem safnað hefur verið. Fórnarlömbum er heimilt að leggja fram athugasemdir í forréttarstofu í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun.

    4. Telji forréttarstofa, eftir að hafa athugað beiðnina og stuðningsskjöl með henni, að gild rök séu til þess að hefja rannsókn og að málið virðist falla undir lögsögu dómstólsins skal hún heimila að rannsókn verði hafin, með fyrirvara um síðari ákvarðanir dómstólsins um hvort mál falli undir lögsögu hans og sé tækt til meðferðar.

    5. Hafni forréttarstofa beiðni um heimild til rannsóknar skal það ekki útiloka að saksóknari geti lagt fram beiðni síðar á grundvelli nýrra staðreynda eða sönnunargagna um sömu aðstæður.

    6. Ef saksóknari kemst að þeirri niðurstöðu, að lokinni forrannsókninni sem um getur í 1. og 2. mgr., að upplýsingarnar, sem lagðar hafa verið fram, feli ekki í sér gild rök til rannsóknar skal hann tilkynna það þeim sem veittu upplýsingarnar. Skal það þó ekki útiloka að saksóknari taki til athugunar frekari upplýsingar, sem hann fær og varða sömu aðstæður, í ljósi nýrra staðreynda eða sönnunargagna.

16. gr.

Frestun rannsóknar eða saksóknar.


    Ekki má hefja eða halda áfram rannsókn eða saksókn samkvæmt þessari samþykkt næstu 12 mánuði eftir að öryggisráðið hefur lagt fram beiðni í þá veru við dómstólinn í samræmi við ályktun sem samþykkt er skv. VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ráðið getur endurnýjað beiðnina með sama hætti.


17. gr.

Frávísunarástæður.


    1. Með hliðsjón af tíundu málsgrein inngangsorðanna og 1. gr. skal dómstóllinn ákveða að vísa máli frá þegar:
    a) ríki, sem hefur lögsögu í málinu, hefur hafið rannsókn eða saksókn í því, nema ríkið skorti vilja eða getu til að fylgja rannsókninni eða saksókninni eftir af fullri alvöru;
    b) ríki, sem hefur lögsögu í málinu, hefur rannsakað það og ákveðið að sækja ekki viðkomandi mann til saka, nema sú ákvörðun stafi af skorti ríkisins á vilja eða getu til að sækja viðkomandi mann til saka af fullri alvöru;
    c) viðkomandi maður hefur þegar verið dæmdur fyrir þá háttsemi sem er tilefni ákærunnar og dómstólnum er óheimilt að rétta í málinu skv. 3. mgr. 20. gr.;

    d) málið er ekki nógu alvarlegt til að réttlætanlegt sé að dómstóllinn hafist frekar að í því.
    2. Til þess að ákvarða hvort um sé að ræða skort á vilja í tilteknu máli skal dómstóllinn meta, með hliðsjón af meginreglum um réttláta málsmeðferð sem viðurkenndar eru að þjóðarétti, hvort um sé að ræða eitt eða fleiri eftirtalinna atriða, eftir því sem við á:
    a) stofnað var eða stofnað er til réttarhaldanna eða ákvörðun hefur verið tekin innanlands um að firra viðkomandi mann refsiábyrgð á glæpum sem falla undir lögsögu dómstólsins og getið er í 5. gr.;

    b) óréttmætar tafir hafa orðið á réttarhöldunum sem, miðað við aðstæður, samrýmist ekki þeim ásetningi að leiða viðkomandi mann fyrir rétt;

    c) réttarhöldin fóru eða fara ekki fram á óháðan eða hlutlausan hátt og fóru eða fara fram með þeim hætti sem, miðað við aðstæður, samrýmist ekki þeim ásetningi að leiða viðkomandi mann fyrir rétt.

    3. Til þess að ákvarða hvort um er að ræða skort á getu í tilteknu máli skal dómstóllinn meta hvort ríkið geti ekki, vegna þess að réttarkerfi þess er með öllu eða að verulegu leyti óstarfhæft, tekið ákærða höndum eða aflað nauðsynlegra sönnunargagna og vitnisburðar eða er á annan hátt ófært um að rétta í málinu.

18. gr.

Forúrskurðir um hvort mál sé tækt til meðferðar.


    1. Þegar aðstæðum hefur verið vísað til dómstólsins í samræmi við a-lið 13. gr. og saksóknari hefur ákvarðað að gild rök séu til þess að hefja rannsókn, eða þegar saksóknari hefur rannsókn skv. c-lið 13. gr. og 15. gr., skal hann tilkynna það öllum aðildarríkjunum og þeim ríkjum sem, samkvæmt þeim upplýsingum sem tiltækar eru, myndu að öllu jöfnu fara með lögsögu að því er varðar þá glæpi sem um ræðir. Saksóknari getur tilkynnt þessum ríkjum þetta í trúnaði og, ef hann telur nauðsynlegt að vernda menn, koma í veg fyrir að sönnunargögn séu eyðilögð eða að menn komist undan, getur hann takmarkað þær upplýsingar sem hann veitir ríkjum.

    2. Áður en mánuður er liðinn frá því að ríki móttekur tilkynninguna getur það upplýst dómstólinn um að það sé að rannsaka eða hafi rannsakað eigin ríkisborgara eða aðra sem heyra undir lögsögu þess í tengslum við refsiverða verknaði sem kunna að vera glæpir, sem getið er um í 5. gr., og tengjast upplýsingunum sem koma fram í tilkynningunni til ríkjanna. Að beiðni viðkomandi ríkis eftirlætur saksóknari því ríki að rannsaka þessa menn, nema forréttarstofa ákveði, að beiðni saksóknara, að heimila rannsóknina.
    3. Saksóknari getur endurskoðað ákvörðun sína um að eftirláta ríki rannsókn sex mánuðum eftir að hann tók ákvörðunina eða hvenær sem er hafi aðstæður breyst verulega sökum skorts á vilja eða getu til að fylgja rannsókninni eftir af fullri alvöru.

    4. Viðkomandi ríki eða saksóknari getur áfrýjað úrskurði forréttarstofu til áfrýjunarstofu í samræmi við 82. gr. Áfrýjunin getur fengið flýtimeðferð.

    5. Þegar saksóknari hefur eftirlátið ríki rannsóknir í samræmi við 2. mgr. getur hann óskað þess að fá upplýsingar frá viðkomandi ríki með reglubundnu millibili um framvindu rannsóknarinnar og, eftir atvikum, eftirfarandi saksókn. Aðildarríki skulu svara slíkum beiðnum án ótilhlýðilegra tafa.
    6. Á meðan beðið er úrskurðar forréttarstofu, eða hvenær sem er þegar saksóknari hefur eftirlátið ríki rannsókn samkvæmt þessari grein, getur saksóknari, í undantekningartilvikum, leitað heimildar forréttarstofu til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir vegna rannsóknarinnar í því skyni að tryggja sönnunargögn ef einstakt færi gefst til að afla mikilvægra sönnunargagna eða ef veruleg hætta er á að slík sönnunargögn verði ekki fáanleg síðar.
    7. Ríki, sem hefur mótmælt úrskurði forréttarstofu samkvæmt þessari grein, getur mótmælt því að mál sé tækt til meðferðar skv. 19. gr. á grundvelli annarra upplýsinga, sem hafa verulega þýðingu, eða umtalsvert breyttra aðstæðna.

19. gr.

Mótmæli gegn því að dómstóllinn hafi lögsögu
eða að mál sé tækt til meðferðar.

    1. Dómstóllinn skal ganga úr skugga um að hann hafi lögsögu í hverju því máli sem er vísað til hans. Dómstóllinn getur ákvarðað að eigin frumkvæði hvort mál sé tækt til meðferðar í samræmi við 17. gr.
    2. Eftirfarandi geta borið fram mótmæli gegn því að mál sé tækt til meðferðar eða að dómstóllinn hafi lögsögu af ástæðum sem um getur í 17. gr:
    a) maður sem er ákærður eða maður sem hefur verið gefin út handtökuskipun á eða hefur fengið kvaðningu skv. 58. gr.;

    b) ríki, sem hefur lögsögu í tilteknu máli, á þeim forsendum að það hafi þegar hafið rannsókn eða saksókn í málinu eða lokið henni;
    c) ríki sem krafist er að viðurkenni lögsöguna skv. 12. gr.
    3. Saksóknari getur leitað eftir úrskurði dómstólsins að því er lýtur að lögsögu eða hvort mál sé tækt til meðferðar. Í málum, er lúta að lögsögu eða hvort mál sé tækt til meðferðar, geta þeir sem hafa vísað aðstæðunum til saksóknara skv. 13. gr., svo og fórnarlömbin, komið athugasemdum á framfæri við dómstólinn.
    4. Einstaklingur eða ríki, sem um getur í 2. mgr., getur einungis mótmælt því einu sinni að mál sé tækt til meðferðar eða að dómstóllinn hafi lögsögu. Mótmæli skulu borin fram áður en réttarhöldin hefjast eða við upphaf þeirra. Í undantekningartilvikum getur dómstóllinn leyft að mótmæli séu borin fram oftar en einu sinni eða eftir að réttarhöldin hefjast. Mótmæli gegn því að mál sé tækt til meðferðar, hvort sem þau eru borin fram við upphaf réttarhalda eða síðar með leyfi dómstólsins, er einungis unnt að byggja á c-lið 1. mgr. 17. gr.
    5. Ríki, sem um getur í b- og c-lið 2. mgr., skal bera fram mótmæli við fyrsta tækifæri.
    6. Áður en ákæruatriði eru staðfest skal vísa mótmælum gegn því að mál sé tækt til meðferðar eða að dómstóllinn hafi lögsögu til forréttarstofu. Þegar ákæruatriði hafa verið staðfest skal þeim vísað til réttarstofu. Ákvörðunum, er varða lögsögu eða hvort mál sé tækt til meðferðar, má áfrýja til áfrýjunarstofu í samræmi við 82. gr.

    7. Ef ríki, sem um getur í b- eða c-lið 2. mgr., ber fram mótmæli skal saksóknari fresta rannsókn þar til dómstóllinn tekur ákvörðun í samræmi við 17. gr.

    8. Á meðan beðið er úrskurðar dómstólsins getur saksóknari leitað heimilda hjá dómstólnum til þess að:
    a) gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar vegna rannsóknarinnar og um getur í 6. mgr. 18. gr.;
    b) taka við framburði eða skýrslugjöf vitnis eða ljúka söfnun og athugun sönnunargagna sem hafin var áður en mótmælin voru borin fram; og

    c) koma í veg fyrir undankomu manna, sem saksóknari hefur þegar krafist handtökuskipunar á vegna skv. 58. gr., í samvinnu við viðkomandi ríki.


    9. Mótmæli skulu ekki hafa áhrif á gildi aðgerða, sem saksóknari hefur gripið til, eða skipanir né önnur fyrirmæli sem dómstóllinn hefur gefið út áður en mótmælin voru borin fram.
    10. Hafi dómstóllinn ákvarðað að máli skuli vísað frá skv. 17. gr. getur saksóknari lagt fram beiðni um endurskoðun þeirrar ákvörðunar þegar hann hefur gengið úr skugga um að komið hafi fram nýjar staðreyndir sem ónýta þann grundvöll sem frávísun málsins skv. 17. gr. var áður byggð á.
    11. Ef saksóknari eftirlætur ríki rannsókn, með hliðsjón af því sem segir í 17. gr., getur hann farið fram á að viðkomandi ríki veiti honum upplýsingar um meðferð málsins. Þær upplýsingar skulu, að ósk viðkomandi ríkis, vera trúnaðarmál. Ef saksóknari ákveður síðan að hefja rannsókn skal hann tilkynna það ríkinu sem hann eftirlét rannsóknina.



20. gr.

Ne bis in idem.


    1. Ekki skal réttað yfir manni fyrir dómstólnum vegna háttsemi sem lá til grundvallar glæpum sem dómstóllinn hefur áður sakfellt hann fyrir eða sýknað af, nema kveðið sé á um annað í þessari samþykkt.
    2. Ekki skal réttað yfir manni fyrir öðrum dómstóli vegna glæps sem um getur í 5. gr. og dómstóllinn hefur áður sakfellt hann fyrir eða sýknað af.
    3. Ef réttað hefur verið yfir manni fyrir öðrum dómstóli vegna háttsemi sem einnig er bönnuð skv. 6., 7. eða 8. gr. skal ekki réttað yfir honum fyrir dómstólnum vegna sömu háttsemi, nema réttarhöldin fyrir hinum dómstólnum:

    a) hafi farið fram í því skyni að firra viðkomandi mann refsiábyrgð á glæpum sem falla undir lögsögu dómstólsins; eða
    b) réttarhöldin hafi að öðru leyti ekki farið fram með óháðum eða óhlutdrægum hætti í samræmi við meginreglur um tilhlýðilega málsmeðferð sem viðurkenndar eru að þjóðarétti og hafi, miðað við aðstæður, farið fram með þeim hætti að ekki samrýmdist þeim ásetningi að koma lögum yfir viðkomandi mann.

21. gr.

Réttarheimildir.


    1. Dómstóllinn skal beita:
    a) í fyrsta lagi, þessari samþykkt, efnisþáttum glæpa og reglum sínum um málsmeðferð og sönnun;
    b) í öðru lagi, gildandi alþjóðasamningum og meginreglum og reglum þjóðaréttar, eftir því sem við á, að meðtöldum viðurkenndum meginreglum þjóðaréttar um hernaðarátök;
    c) að öðrum kosti, meginreglum laga sem dómstóllinn leiðir af landslögum hinna ýmsu réttarkerfa í heiminum þar með talin, þar sem við á, landslög ríkja sem hafa að öðru jöfnu lögsögu yfir viðkomandi glæp, að því tilskildu að þessar meginreglur séu ekki ósamrýmanlegar þessari samþykkt, þjóðarétti og alþjóðlega viðurkenndum reglum og viðmiðum.

    2. Dómstóllinn getur beitt meginreglum og réttarreglum eins og hann hefur túlkað þær í fyrri dómum sínum.
    3. Beiting og túlkun laga samkvæmt þessari grein skal vera samrýmanleg mannréttindum sem eru alþjóðlega viðurkennd og án allrar mismununar, til dæmis á grundvelli kynferðis eins og það er skilgreint í 3. mgr. 7. gr., aldurs, kynþáttar, litarháttar, tungumáls, trúarbragða eða trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, þjóðernishóps eða félagslegs uppruna, ríkidæmis, ætternis eða annars konar stöðu.

3. kafli: Grundvallarreglur refsiréttar.


22. gr.

Nullum crimen sine lege.


    1. Maður skal ekki bera refsiábyrgð samkvæmt þessari samþykkt nema háttsemin sem um ræðir teljist, þegar hún á sér stað, vera glæpur sem fellur undir lögsögu dómstólsins.
    2. Verknaðarlýsingu á glæp skal túlka þröngt og verður henni ekki beitt með lögjöfnun. Í vafatilvikum skal túlka verknaðarlýsinguna í hag þeim sem sætir rannsókn, saksókn eða sakfellingu.

    3. Þessi grein kemur ekki í veg fyrir að tiltekinni háttsemi sé lýst refsiverðri að þjóðarétti, óháð þessari samþykkt.

23. gr.

Nulla poena sine lege.


    Maður, sem dómstóllinn hefur sakfellt, getur einungis hlotið refsingu í samræmi við þessa samþykkt.

24. gr.

Bann við afturvirkni.


    1. Enginn skal bera refsiábyrgð samkvæmt þessari samþykkt á háttsemi sem átti sér stað áður en samþykktin öðlaðist gildi.
    2. Ef réttarreglum, sem við eiga um tiltekið mál, er breytt áður en endanlegur dómur er genginn gilda þær reglur sem eru í hag þeim sem sætir rannsókn, saksókn eða sakfellingu.

25. gr.

Refsiábyrgð einstaklinga.


    1. Dómstóllinn skal hafa lögsögu yfir einstaklingum samkvæmt þessari samþykkt.
    2. Maður, sem fremur glæp er fellur undir lögsögu dómstólsins, ber persónulega ábyrgð á honum og sætir refsingu í samræmi við þessa samþykkt.

    3. Í samræmi við þessa samþykkt ber maður refsiábyrgð og kann að sæta refsingu fyrir glæp sem fellur undir lögsögu dómstólsins ef hann:

    a) fremur slíkan glæp, hvort sem hann gerir það einn, með öðrum eða fyrir milligöngu annars, án tillits til þess hvort hinn maðurinn beri refsiábyrgð eða ekki;
    b) fyrirskipar, mælist til eða hvetur til þess að slíkur glæpur sé framinn og hann er síðan í raun framinn eða gerð er tilraun til að fremja hann;
    c) í þeim tilgangi að auðvelda framningu slíks glæps, hjálpar til við að fremja hann, ýtir undir hann eða á að öðru leyti þátt í að fremja hann eða gera tilraun til þess, þar með talið að útvega það sem þarf til verknaðarins;
    d) á einhvern annan hátt stuðlar að því að slíkur glæpur sé framinn, eða að gerð sé tilraun til að fremja hann, af hópi manna sem vinnur að sameiginlegum markmiðum. Sú háttsemi skal hafa verið framin af ásetningi og annaðhvort:
    i) hafa miðað að því að efla glæpastarfsemi eða glæpsamleg markmið hópsins ef slík háttsemi eða markmið fela í sér framningu glæps sem fellur undir lögsögu dómstólsins; eða
    ii) hafa verið framin vitandi um markmið hópsins um að fremja glæpinn;
    e) þegar um hópmorð er að ræða, hefur hvatt aðra beint og opinberlega til þess að fremja hópmorð;
    f) gerir tilraun til að fremja slíkan glæp með því að vinna verk, sem er mikilvægt skref í þá átt að glæpurinn verði framinn, en ekki verður af því sökum atvika sem eru óháð fyrirætlunum hans. Þó skal sá sem hverfur frá tilraunum til að fremja glæp, eða kemur á annan hátt í veg fyrir fullframningu hans, ekki látinn sæta refsingu samkvæmt þessari samþykkt fyrir tilraun til að fremja glæpinn, enda hafi hann með öllu og af sjálfsdáðum horfið frá refsiverðum fyrirætlunum sínum.
    4. Engin ákvæði í þessari samþykkt er varða refsiábyrgð einstaklinga skulu hafa áhrif á ábyrgð ríkja að þjóðarétti.

26. gr.

Dómstóllinn hefur ekki lögsögu yfir
einstaklingum undir átján ára aldri.

    Dómstóllinn skal ekki hafa lögsögu yfir einstaklingum sem voru undir 18 ára aldri þegar ætlaður glæpur var framinn.

27. gr.

Menn í opinberum stöðum njóta ekki friðhelgi.


    1. Þessi samþykkt gildir jafnt um alla án tillits til opinberrar stöðu. Einkum skal maður í opinberri stöðu, sem er þjóðhöfðingi eða leiðtogi ríkisstjórnar, situr í ríkisstjórn eða á þjóðþingi eða er kjörinn fulltrúi eða embættismaður, ekki vera undanþeginn refsiábyrgð samkvæmt þessari samþykkt né heldur skal staða hans sem slík vera ástæða til refsilækkunar.

    2. Friðhelgi eða sérstakar málsmeðferðarreglur, sem kunna að vera bundnar opinberri stöðu manns samkvæmt landslögum eða þjóðarétti, skulu ekki koma í veg fyrir að dómstóllinn beiti lögsögu sinni gagnvart viðkomandi manni.

28. gr.

Ábyrgð herforingja og annarra yfirmanna.


    Auk annarra ástæðna refsiábyrgðar samkvæmt þessari samþykkt vegna glæpa sem falla undir lögsögu dómstólsins:
    a) skal herforingi eða maður, sem gegnir í raun stöðu herforingja, bera refsiábyrgð á glæpum sem falla undir lögsögu dómstólsins og framdir eru af herliði sem er undir raunverulegri stjórn hans og eftirliti eða raunverulegu forræði hans og eftirliti, eftir því sem við á, þegar þeir eru afleiðing þess að hann hefur ekki stjórn á herliðinu sem skyldi, ef:

    i) herforinginn eða maðurinn vissi eða hefði mátt vita, miðað við aðstæður á þeim tíma, að herlið hans væri að fremja eða í þann mund að fremja, slíka glæpi; og
    ii) herforinginn eða maðurinn gerði ekki allar nauðsynlegar og réttmætar ráðstafanir sem í hans valdi voru til þess að koma í veg fyrir glæpina eða berjast gegn því að þeir væru framdir eða lagði málið ekki fyrir lögbær yfirvöld til rannsóknar og saksóknar.
    b) Að því er varðar tengsl yfirmanns og undirmanns, sem ekki er lýst í a-lið, skal yfirmaður bera refsiábyrgð á glæpum sem falla undir lögsögu dómstólsins og framdir eru af undirmönnum sem í raun eru undir hans forræði og eftirliti og eru afleiðing þess að hann hefur ekki stjórn á undirmönnunum sem skyldi, ef:
    i) yfirmaðurinn annaðhvort vissi eða hafði vísvitandi að engu upplýsingar sem bentu greinilega til þess að undirmenn hans væru að fremja eða í þann mund að fremja slíka glæpi;
    ii) glæpirnir tengdust verksviði sem í raun var á ábyrgð og undir stjórn yfirmannsins; og

    iii) yfirmaðurinn gerði ekki allar nauðsynlegar og réttmætar ráðstafanir sem voru í hans valdi til þess að koma í veg fyrir glæpina eða berjast gegn því að þeir væru framdir eða lagði málið ekki fyrir lögbær yfirvöld til rannsóknar og saksóknar.

29. gr.

Fyrningarreglur gilda ekki.


    Glæpir sem falla undir lögsögu dómstólsins skulu ekki fyrnast.

30. gr.

Huglæg skilyrði.


    1. Sé ekki kveðið á um annað skal maður því aðeins bera refsiábyrgð og sæta refsingu fyrir glæp sem fellur undir lögsögu dómstólsins að efnisþættir glæpsins hafi verið framdir af ásetningi og vitandi vits.
    2. Í þessari grein telst maður hafa ásetning þegar:

    a) að því er varðar verknað, viðkomandi ætlar sér að fremja hann;
    b) að því er varðar afleiðingar, viðkomandi ætlar sér að valda þessum afleiðingum eða gerir sér grein fyrir að atburðarásin hljóti að hafa þær í för með sér.
    3. Í þessari grein merkir „vitandi vits“ að viðkomandi geri sér grein fyrir því hvaða aðstæður eru fyrir hendi eða hvaða afleiðingar atburðarásin hljóti að hafa í för með sér. „Vita“ og „vitandi“ skal túlkað í samræmi við það.

31. gr.

Refsileysisástæður.


    1. Auk annarra refsileysisástæðna, sem kveðið er á um í þessari samþykkt, skal maður ekki bera refsiábyrgð ef á þeim tíma sem verknaðurinn var framinn:

    a) hafi viðkomandi verið haldinn geðsjúkdómi eða geðveilu sem eyðilagði getu hans til að skynja ólögmæti eða eðli háttsemi sinnar eða hafa stjórn á henni svo að hún samræmdist kröfum laga;

    b) hafi viðkomandi verið í vímu sem eyðilagði getu hans til að skynja ólögmæti eða eðli háttsemi sinnar eða hafa stjórn á henni svo að hún samræmdist kröfum laga, nema hann hafi sjálfviljugur komið sér í vímu við aðstæður þar sem hann vissi eða horfði fram hjá þeirri áhættu að vegna vímunnar væri hann líklegur til að sýna af sér háttsemi sem er glæpur sem fellur undir lögsögu dómstólsins;


    c) hafi viðkomandi brugðist við með réttmætum hætti til þess að verja sjálfan sig eða aðra eða, þegar um stríðsglæpi er að ræða, verja eigur, sem voru honum sjálfum eða öðrum bráðnauðsynlegar til þess að lifa af, eða eigur sem voru bráðnauðsynlegar til þess að ljúka hernaðarlegu verkefni, gegn yfirvofandi og ólögmætri valdbeitingu þannig að í réttu hlutfalli var við hættuna sem vofði yfir honum sjálfum eða öðrum eða eigunum sem verið var að verja. Sú staðreynd að viðkomandi tók þátt í varnaraðgerðum herliðs skal í sjálfu sér ekki vera refsileysisástæða samkvæmt þessum lið;
    d) háttseminni, sem haldið er fram að sé glæpur sem fellur undir lögsögu dómstólsins, hafi valdið nauðung vegna hættu á yfirvofandi dauða eða viðvarandi eða yfirvofandi alvarlegu líkamstjóni hans sjálfs eða annars manns og hafi viðkomandi brugðist af nauðsyn við og með réttmætum hætti til að afstýra þessari hættu, að því tilskildu að viðkomandi hafi ekki haft þann ásetning að valda meiri skaða en þeim sem reynt var að komast hjá. Slík hætta gat annaðhvort:
    i) stafað af öðrum mönnum; eða
    ii) skapast af öðrum aðstæðum sem ekki voru á valdi viðkomandi.
    2. Dómstóllinn skal ákvarða hvort þær refsileysisástæður, sem kveðið er á um í þessari samþykkt, eigi við í máli sem lagt er fyrir hann.
    3. Við dómsmeðferð getur dómstóllinn tekið til athugunar aðrar refsileysisástæður en þær sem um getur í 1. mgr. ef slík ástæða leiðir af réttarheimildum skv. 21. gr. Kveðið skal á um málsmeðferð við athugun á slíkri ástæðu í reglunum um málsmeðferð og sönnun.


32. gr.

Staðreyndavilla eða lögvilla.


    1. Staðreyndavilla skal því aðeins vera refsileysisástæða að hún útiloki að hin huglægu skilyrði fyrir glæpnum hafi verið fyrir hendi.
    2. Lögvilla um hvort tiltekin tegund háttsemi sé glæpur, sem fellur undir lögsögu dómstólsins, skal ekki vera refsileysisástæða. Lögvilla getur þó verið refsileysisástæða ef hún útilokar að hin huglægu skilyrði fyrir glæpnum hafi verið fyrir hendi eða ef hún fellur undir 33. gr.


33. gr.

Fyrirskipanir yfirboðara og lagafyrirmæli.


    1. Sú staðreynd að maður hefur framið glæp, sem fellur undir lögsögu dómstólsins, samkvæmt fyrirskipunum ríkisstjórnar eða yfirboðara, hvort heldur yfirboðarinn er hermaður eða óbreyttur borgari, firrir hann ekki refsiábyrgð nema:
    a) honum hafi borið lagaleg skylda til að hlýða fyrirskipunum viðkomandi ríkisstjórnar eða yfirboðara;
    b) hann hafi ekki vitað að skipunin var ólögleg; og

    c) fyrirskipunin hafi augljóslega ekki verið ólögleg.
    2. Að því er varðar þessa grein eru fyrirskipanir um að fremja hópmorð eða glæpi gegn mannúð augljóslega ólöglegar.

4. kafli: Skipan og stjórn dómstólsins.



34. gr.

Starfseiningar dómstólsins.


    Dómstóllinn skal samanstanda af eftirfarandi starfseiningum:
    a) dómstjórn;
    b) áfrýjunardeild, réttardeild og forréttardeild;

    c) skrifstofu saksóknara;
    d) skrifstofu dómritara.

35. gr.

Störf dómara.


    1. Allir dómarar, sem kjörnir eru til starfa hjá dómstólnum, skulu gegna fullu starfi og vera reiðubúnir til að starfa á þeim grundvelli frá upphafi starfstíma síns.
    2. Dómarar, sem skipa dómstjórn, skulu gegna fullu starfi jafnskjótt og þeir hafa verið kjörnir.
    3. Dómstjórn getur á hverjum tíma ákveðið, á grundvelli vinnuálags dómstólsins og í samráði við dómara hans, að hve miklu leyti aðrir dómarar skuli gegna fullu starfi. Slíkt fyrirkomulag skal ekki hafa áhrif á ákvæði 40. gr.

    4. Fjárhagsleg skilyrði dómara, sem ekki gegna fullu starfi, skal ákveða í samræmi við 49. gr.


36. gr.

Hæfniskröfur, tilnefning og kjör dómara.


    1. Dómarar skulu vera 18 talsins, sbr. þó ákvæði 2. mgr.
    2. a) Dómstjórn getur, fyrir hönd dómstólsins, lagt til að dómarar verði fleiri en tilgreint er í 1. mgr. og skal geta um ástæður þess að slíkt er talið nauðsynlegt og réttmætt. Dómritari skal þegar í stað senda öllum aðildarríkjum slíkar tillögur.

    b) Allar tillögur þessa efnis skulu teknar til umfjöllunar á þingfundi aðildarríkjanna sem boða skal til í samræmi við 112. gr. Tillagan telst samþykkt ef tveir þriðju hlutar fulltrúa á þingfundi aðildarríkjanna samþykkja hana í atkvæðagreiðslu og öðlast hún gildi þann dag sem þing aðildarríkjanna ákveður.

    c) i) Þegar tillaga um fjölgun dómara hefur verið samþykkt skv. b-lið skal kjör viðbótardómara fara fram á næsta þingfundi aðildarríkjanna í samræmi við 3. til 8. mgr. og 2. mgr. 37. gr.;


    ii) Þegar tillaga um fjölgun dómara hefur verið samþykkt og er komin til framkvæmda skv. b-lið og i-lið c-liðar getur dómstjórn hvenær sem er borið fram tillögu um að fækka dómurum ef vinnuálag við dómstólinn réttlætir það, að því tilskildu að fjöldi dómara fari ekki niður fyrir þá tölu sem tilgreind er í 1. mgr. Fara skal með tillöguna í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í a- og b-lið. Ef tillagan er samþykkt skal fækka dómurum smám saman eftir því sem starfstími þeirra rennur út uns nauðsynleg fækkkun hefur átt sér stað.


    3. a) Dómarar skulu valdir úr hópi hinna grandvörustu manna sem eru óhlutdrægir og heiðarlegir og fullnægja þeim hæfniskröfum sem gerðar eru í heimalandi þeirra við skipun í æðstu dómarastöður.


    b) Sérhver frambjóðandi til kjörs í dómstólinn skal:
    i) hafa viðurkennda hæfni á sviði refsiréttar og opinbers réttarfars og nauðsynlega viðeigandi reynslu af meðferð opinberra mála, hvort heldur er sem dómari, saksóknari, lögmaður eða í öðru álíka starfi; eða
    ii) hafa viðurkennda hæfni á viðeigandi sviðum þjóðaréttar, svo sem í mannúðar- og mannréttindamálum, og víðtæka reynslu af lögfræðilegum störfum sem skiptir máli í dómstörfum við dómstólinn;
    c) Sérhver frambjóðandi til kjörs í dómstólinn skal hafa framúrskarandi þekkingu og ágætt vald á að minnsta kosti einu af vinnumálum dómstólsins.
    4. a) Hvert aðildarríki að þessari samþykkt getur tilnefnt frambjóðanda í embætti dómara og skal gera það annaðhvort:
    i) samkvæmt málsmeðferð um tilnefningu frambjóðenda í æðstu dómarastöður í viðkomandi ríki; eða
    ii) samkvæmt málsmeðferð um tilnefningu frambjóðenda í Alþjóðadómstólinn sem kveðið er á um í samþykktum hans.
    Með tilnefningu skal fylgja yfirlýsing þar sem fram kemur með nægilegri nákvæmni hvernig frambjóðandinn uppfyllir kröfurnar sem fram koma í 3. mgr.
    b) Hvert aðildarríki getur átt einn frambjóðanda í hverju kjöri og er ekki nauðsynlegt að hann sé ríkisborgari þess ríkis en hann skal vera ríkisborgari aðildarríkis.
    c) Þing aðildarríkjanna getur ákveðið, ef við á, að koma á fót ráðgjafarnefnd um tilnefningar. Skal þá þing aðildarríkjanna ákvarða skipan og umboð nefndarinnar.

    5. Í kjöri skulu vera tveir listar frambjóðenda:

    listi A með nöfnum frambjóðenda og upplýsingum um hæfni þeirra sem tilgreind er í i-lið b-liðar 3. mgr.; og
    listi B með nöfnum frambjóðenda og upplýsingum um hæfni þeirra sem tilgreind er í ii-lið b-liðar 3. mgr.

    Frambjóðandi, sem hefur nægilega hæfni til að bera til þess að vera á báðum listunum, getur valið um á hvorum listanum hann er. Við fyrsta kjör í dómstólinn skulu minnst níu dómarar kjörnir af lista A og minnst fimm dómarar af lista B. Síðari kjör skulu skipulögð með þeim hætti að sama hlutfall dómara af hvorum lista haldist við dómstólinn.
    6. a) Dómararnir skulu kjörnir í leynilegri atkvæðagreiðslu á þingfundi aðildarríkjanna sem boðað er til í þessum tilgangi skv. 112. gr. Með fyrirvara um 7. mgr. skulu þeir 18 frambjóðendur, sem flest atkvæði hljóta, kjörnir í dómstólinn enda hljóti þeir atkvæði tveggja þriðju hluta fulltrúa aðildarríkjanna sem viðstaddir eru og greiða atkvæði.
    b) Ef ekki er kjörinn nægilegur fjöldi dómara í fyrstu atkvæðagreiðslunni skulu síðari atkvæðagreiðslur fara fram í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í a-lið uns öll sæti eru skipuð.

    7. Engir tveir dómarar mega vera ríkisborgarar sama ríkis. Maður, sem gæti talist ríkisborgari fleiri en eins ríkis með tilliti til setu í dómstólnum, skal teljast ríkisborgari þess ríkis þar sem hann neytir venjulega borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda.

    8. a) Þegar aðildarríkin velja dómara í dómstólinn skulu þau taka tillit til þess að nauðsynlegt er:

    i) að helstu réttarkerfi heimsins eigi þar fulltrúa;

    ii) að landfræðileg dreifing fulltrúanna sé sanngjörn; og
    iii) að dómarastöður séu skipaðar konum og körlum með sanngjörnum hætti.
    b) Aðildarríkin skulu einnig taka tillit til þess að nauðsynlegt er að velja dómara sem hafa lögfræðiþekkingu á sérstökum sviðum, þar með talið en þó ekki takmarkað við, svið er varða ofbeldi gegn konum og börnum.
    9. a) Með fyrirvara um ákvæði b-liðar skulu dómarar gegna embætti í níu ár og skulu þeir ekki vera kjörgengir á ný, sbr. þó c-lið og 2. mgr. 37. gr.

    b) Í fyrstu kosningu skal þriðjungur kjörinna dómara valinn með hlutkesti til að gegna embætti í þrjú ár, þriðjungur kjörinna dómara skal valinn með hlutkesti til að gegna embætti í sex ár en þeir sem eftir eru skulu gegna embætti í níu ár.
    c) Dómari, sem valinn er með hlutkesti til að gegna embætti í þrjú ár skv. b-lið, skal vera kjörgengur á ný heilt starfstímabil.
    10. Þrátt fyrir 9. mgr. skal dómari, sem hefur verið skipaður í réttarstofu eða áfrýjunarstofu í samræmi við 39. gr., gegna áfram embætti til þess að ljúka meðferð máls sem er þegar hafin í viðkomandi stofu.



37. gr.

Auð dómarasæti.


    1. Verði sæti dómara autt skal fara fram kjör í samræmi við 36. gr. til þess að fylla sætið.
    2. Dómari, sem er kjörinn til þess að fylla autt sæti, skal gegna embætti það sem eftir er af starfstíma fyrirrennara hans og, ef um er að ræða þrjú ár eða skemmri tíma, skal hann vera kjörgengur á ný heilt starfstímabil skv. 36. gr.

38. gr.

Dómstjórn.


    1. Forseti og fyrsti og annar varaforseti skulu kjörnir með hreinum meiri hluta atkvæða dómaranna. Hver þeirra skal gegna embætti í þrjú ár eða þar til starfstíma þeirra sem dómara lýkur, hvort sem verður fyrr. Þeir eru kjörgengir á ný einu sinni.

    2. Ef forseti er forfallaður eða vanhæfur tekur fyrsti varaforseti sæti hans. Annar varaforseti tekur sæti forseta ef bæði hann og varaforsetinn eru forfallaðir eða vanhæfir.


    3. Forsetinn og fyrsti og annar varaforseti mynda dómstjórn sem ber ábyrgð á:

    a) að stjórnsýsla dómstólsins, að skrifstofu saksóknara undanskilinni, sé eins og vera ber; og
    b) öðrum störfum sem henni eru falin í samræmi við þessa samþykkt.
    4. Dómstjórn skal, er hún sinnir störfum sínum skv. a-lið 3. mgr., hafa samráð við saksóknara og leita eftir samstarfi við hann í öllum málum sem snerta starfssvið beggja.

39. gr.

Stofur.


    1. Eins fljótt og auðið er eftir að dómarar hafa verið kjörnir skal dómstóllinn skipa í deildir skv. b- lið 34. gr. Áfrýjunardeild skal skipuð forseta og fjórum öðrum dómurum, í réttardeild skulu vera eigi færri en sex dómarar og í forréttardeild eigi færri en sex dómarar. Skipun dómara í deildir skal grundvölluð á eðli þeirra starfa, sem eru unnin í hverri deild, og hæfni og reynslu dómaranna sem eru kjörnir í dómstólinn, þannig að í hverri deild sé að finna hæfilegt sambland sérþekkingar í refsirétti og opinberu réttarfari og þjóðarétti. Réttardeild og forréttardeild skulu að mestu skipaðar dómurum sem hafa reynslu af dómsmeðferð opinberra mála.


    2. a) Stofur skulu fara með dómstörf dómstólsins í hverri deild.
    b)     i) Áfrýjunarstofa skal skipuð öllum dómurum áfrýjunardeildar.
    ii) Þrír dómarar réttardeildar skulu starfa í réttarstofu.
    iii) Með störf í forréttarstofu skulu annaðhvort fara þrír dómarar forréttardeildar eða einn dómari í þeirri deild í samræmi við þessa samþykkt og reglurnar um málsmeðferð og sönnun.

    c) Ekkert í þessari málsgrein skal útiloka að stofnaðar séu fleiri en ein réttarstofa eða forréttarstofa þegar stýring á vinnuálagi dómstólsins krefst þess.

    3. a) Dómarar, sem eru skipaðir í réttardeild og forréttardeild, skulu starfa í þessum deildum í þrjú ár og eftir það skulu þeir ljúka meðferð mála sem voru þegar hafin í viðkomandi deild.

    b) Dómarar, sem eru skipaðir í áfrýjunardeild, skulu starfa í þeirri deild allan starfstíma sinn.
    4. Dómarar, sem eru skipaðir í áfrýjunardeild, skulu eingöngu starfa í þeirri deild. Ekkert í þessari grein skal þó útiloka að dómarar í réttardeild starfi tímabundið í forréttardeild eða öfugt ef dómstjórn álítur að stýring á vinnuálagi dómstólsins krefjist þess, með þeim fyrirvara að dómari, sem hefur tekið þátt í meðferð máls áður en það kemur fyrir rétt, skal aldrei taka sæti í réttarstofu sem fjallar um málið.



40. gr.

Sjálfstæði dómaranna.


    1. Dómararnir skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum.
    2. Dómarar skulu ekki taka þátt í neinni starfsemi sem er til þess fallin að trufla dómstörf þeirra eða vekja efasemdir um sjálfstæði þeirra.
    3. Dómarar, sem eru í fullu starfi við dómstólinn, skulu ekki hafa önnur launuð störf af faglegum toga á hendi.
    4. Taka skal ákvörðun um öll mál, er varða beitingu 2. og 3. mgr., með hreinum meiri hluta dómara. Dómari tekur ekki ákvörðun í máli sem varðar hann sjálfan.



41.gr.


Lausn og vanhæfi dómara.


    1. Dómstjórn getur, að beiðni dómara og í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun, heimilað honum að víkja sæti við meðferð einstakra verkefna samkvæmt þessari samþykkt.
    2. a) Dómari skal ekki taka þátt í meðferð máls þar sem með réttmætum hætti mætti draga óhlutdrægni hans í efa af einhverjum ástæðum. Í samræmi við þessa málsgrein skal dómari meðal annars teljast vanhæfur í máli sem hann hefur áður fjallað um á einhvern hátt fyrir dómstólnum, eða innlent refsimál sem tengist því, þar sem sá sem sætir rannsókn eða saksókn á hlut að máli. Einnig skal dómari teljast vanhæfur af öðrum ástæðum sem kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun.

    b) Saksóknari eða maður, sem sætir rannsókn eða saksókn, getur farið fram á að dómari víki sæti samkvæmt þessari málsgrein.
    c) Ákvarðanir um vanhæfi dómara skulu teknar með hreinum meiri hluta atkvæða dómara. Dómarinn, sem mótmælin beinast gegn, skal eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum í málinu að en hann skal ekki eiga þátt í ákvörðuninni.

42. gr.

Skrifstofa saksóknara.


    1. Skrifstofa saksóknara skal starfa sjálfstætt sem sérstök starfseining innan dómstólsins. Hún ber ábyrgð á móttöku vísana aðstæðna til saksóknara og rökstuddra upplýsinga um glæpi, sem falla undir lögsögu dómstólsins, könnun þeirra, rannsókn og saksókn fyrir dómstólnum. Starfsmenn skrifstofunnar skulu hvorki leita eftir né bregðast við fyrirmælum frá utanaðkomandi aðilum.
    2. Saksóknari veitir skrifstofunni forstöðu. Saksóknari hefur óskorað vald yfir stjórn og rekstri skrifstofunnar, að meðtöldu starfsliði, aðstöðu og öðru því sem henni við kemur. Saksóknari skal njóta aðstoðar eins eða fleiri varasaksóknara sem skal heimilt að framkvæma öll þau verkefni sem krafist er af saksóknara samkvæmt þessari samþykkt. Saksóknari og varasaksóknarar skulu vera af ólíku þjóðerni. Þeir skulu gegna fullu starfi.

    3. Saksóknari og varasaksóknarar skulu vera í hópi hinna grandvörustu manna, hafa mikla hæfni og víðtæka starfsreynslu í að annast saksókn eða dómsmeðferð í opinberum málum. Þeir skulu hafa framúrskarandi þekkingu og ágætt vald á að minnsta kosti einu af vinnumálum dómstólsins.
    4. Saksóknari skal kjörinn leynilegri kosningu með hreinum meiri hluta atkvæða fulltrúa á þingi fulltrúa aðildarríkjanna. Varasaksóknarar skulu kjörnir á sama hátt af frambjóðendalista sem saksóknari leggur fram. Saksóknari skal tilnefna þrjá frambjóðendur í hverja stöðu varasaksóknara sem kjósa á í. Sé ekki tekin ákvörðun um styttri starfstíma þegar þeir eru kjörnir skulu saksóknari og varasaksóknarar gegna embætti í níu ár og eru þeir ekki kjörgengir á ný.

    5. Hvorki saksóknari né varasaksóknarar skulu taka þátt í starfsemi sem er til þess fallin að trufla saksóknarastörf þeirra eða vekja efasemdir um sjálfstæði þeirra. Þeir skulu ekki hafa önnur launuð störf af faglegum toga á hendi.

    6. Dómstjórn getur heimilað, að beiðni saksóknara eða varasaksóknara, að þeir víki sæti í tilteknu máli.

    7. Hvorki saksóknari né varasaksóknarar skulu taka þátt í meðferð máls þar sem með réttmætum hætti mætti draga óhlutdrægni þeirra í efa af einhverjum ástæðum. Í samræmi við þessa málsgrein skulu þeir meðal annars teljast vanhæfir í máli sem þeir hafa áður fjallað um á einhvern hátt fyrir dómstólnum, eða innlent refsimál sem tengist því, þar sem sá sem sætir rannsókn eða saksókn á hlut að máli.
    8. Allar ákvarðanir um vanhæfi saksóknara eða varasaksóknara skulu teknar af áfrýjunarstofu.

    a) Maður, sem sætir rannsókn eða saksókn, getur hvenær sem er farið fram á að saksóknari eða varasaksóknari víki sæti á grundvelli þessarar greinar.

    b) Saksóknara eða varasaksóknara, eftir því sem við á, skal heimilt að koma að sjónarmiðum sínum í málinu.
    9. Saksóknari skal tilnefna ráðgjafa með lögfræðiþekkingu á sérstökum sviðum, þar með talið en þó ekki takmarkað við, svið er varða kynferðislegt ofbeldi, kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum.

43. gr.

Skrifstofa dómritara.


    1. Skrifstofa dómritara skal annast þann hluta stjórnsýslunnar og þjónustu við dómstólinn sem tengist ekki dómstörfum, sbr. þó störf og valdheimildir saksóknara í samræmi við 42. gr.

    2. Dómritari skal vera yfirmaður skrifstofunnar og er hann æðsti embættismaðurinn í stjórnsýslu dómstólsins. Dómritari skal inna störf sín af hendi undir stjórn dómforseta.

    3. Dómritari og varadómritari skulu vera í hópi hinna grandvörustu manna, hafa mikla hæfni og framúrskarandi þekkingu og ágætt vald á að minnsta kosti einu af vinnumálum dómstólsins.

    4. Dómarar skulu kjósa dómritara með hreinum meiri hluta atkvæða í leynilegri atkvæðagreiðslu, að teknu tilliti til hugsanlegra tilmæla þings aðildarríkjanna. Ef þörf krefur og að tilmælum dómritara skulu dómarar kjósa varadómritara á sama hátt.

    5. Dómritari skal gegna embætti í fimm ár, vera kjörgengur á ný einu sinni og gegna fullu starfi. Varadómritari skal gegna embætti í fimm ár eða skemur ef hreinn meiri hluti dómara ákveður það og hann má kjósa á þeim forsendum að kalla megi hann til starfa eftir þörfum.


    6. Dómritari skal koma á fót deild fyrir fórnarlömb og vitni hjá skrifstofunni. Í þeirri deild skal, í samráði við skrifstofu saksóknara, veita vitnum, fórnarlömbum sem koma fyrir dómstólinn og öðrum, sem geta verið í hættu vegna framburðar vitna, vernd, öryggi, ráðgjöf og aðra viðeigandi aðstoð. Deildin skal hafa á að skipa starfsliði sem hefur sérfræðiþekkingu í sálrænum áföllum, að meðtöldum áföllum vegna glæpa sem felast í kynferðislegu ofbeldi.


44. gr.

Starfslið.


    1. Saksóknari og dómritari skulu ráða hæft starfslið til starfa á skrifstofum sínum eftir þörfum. Saksóknari ræður meðal annars rannsóknarmenn til starfa.

    2. Við ráðningu starfsliðs skulu saksóknari og dómritari tryggja að þeir sem ráðnir eru séu framúrskarandi duglegir, hæfir og heiðarlegir og skulu þeir, að breyttu breytanda, hafa hliðsjón af þeim viðmiðum sem mælt er fyrir um í 8. mgr. 36. gr.
    3. Dómritari skal, að fengnu samþykki dómstjórnar og saksóknara, gera tillögur um starfsmannareglur þar sem meðal annars koma fram skilmálar og skilyrði fyrir ráðningu starfsliðs dómstólsins, kjör þess og starfslok. Þing aðildarríkjanna skal samþykkja starfsmannareglurnar.
    4. Í undantekningartilvikum getur dómstóllinn notfært sér sérfræðiþekkingu ólaunaðs starfsliðs sem aðildarríkin, milliríkjastofnanir eða frjáls félagasamtök bjóða fram til aðstoðar við störf í einhverri af starfseiningum dómstólsins. Saksóknari getur þegið slíkt boð fyrir hönd skrifstofu sinnar. Ólaunað starfslið af þessu tagi skal ráðið í samræmi við viðmiðunarreglur sem þing aðildarríkjanna setur.


45. gr.

Hátíðleg yfirlýsing.


    Dómarar, saksóknari, varasaksóknarar, dómritari og varadómritari skulu hver um sig, áður en þeir hefja störf samkvæmt þessari samþykkt, gefa hátíðlega yfirlýsingu í heyranda hljóði fyrir dómi um að þeir muni rækja störf sín af óhlutdrægni og samviskusemi.

46. gr.

Lausn frá störfum.


    1. Dómari, saksóknari, varasaksóknari, dómritari eða varadómritari skal leystur frá störfum ef ákvörðun þess efnis hefur verið tekin í samræmi við 2. mgr., í þeim tilvikum að hann:

    a) er fundinn sekur um alvarlegt misferli eða alvarlegt brot gegn skyldum sínum samkvæmt þessari samþykkt eins og kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun; eða
    b) er ófær um að gegna þeim störfum sem krafist er í þessari samþykkt.
    2. Ákvörðun um að leysa dómara, saksóknara eða varasaksóknara frá störfum skv. 1. mgr. skal tekin af þingi aðildarríkjanna í leynilegri atkvæðagreiðslu:

    a) þegar um dómara er að ræða, með tveimur þriðju hlutum atkvæða aðildarríkjanna samkvæmt tillögu sem samþykkt er af tveimur þriðju hlutum hinna dómaranna;
    b) þegar um saksóknara er að ræða, með hreinum meiri hluta atkvæða aðildarríkjanna;
    c) þegar um varasaksóknara er að ræða, með hreinum meiri hluta atkvæða aðildarríkjanna, að tillögu saksóknara.
    3. Ákvörðun um að leysa dómritara eða varadómritara frá störfum skal tekin af hreinum meiri hluta dómaranna.
    4. Ef framferði dómara, saksóknara, varasaksóknara, dómritara eða varadómritara eða hæfi þeirra til að gegna embættisskyldum sínum, eins og kveðið er á um í þessari samþykkt, er vefengt samkvæmt þessari grein skulu þeir hafa fullt tækifæri til þess að leggja fram sönnunargögn og taka við þeim og gera athugasemdir í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun. Viðkomandi skal ekki taka þátt í meðferð málsins með öðrum hætti.

47. gr.

Agaviðurlög.


    Dómari, saksóknari, varasaksóknari, dómritari eða varadómritari sem hafa gerst sekir um misferli í starfi, sem er ekki eins alvarlegs eðlis og um getur í 1. mgr. 46. gr., skulu sæta agaviðurlögum í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun.


48. gr.

Forréttindi og friðhelgi.


    1. Dómstóllinn skal, á yfirráðasvæði hvers aðildarríkis, njóta þeirra forréttinda og þeirrar friðhelgi sem nauðsynleg er til þess að hann geti náð markmiðum sínum.
    2. Dómarar, saksóknari, varasaksóknarar og dómritari skulu, þegar þeir eru að störfum við dómstólinn eða sinna málefnum hans, njóta sömu forréttinda og friðhelgi og yfirmenn sendiskrifstofa og skulu þeir að starfstíma sínum loknum áfram njóta friðhelgi gagnvart hvers konar málarekstri vegna þess sem þeir hafa sagt eða skrifað og aðhafst í embætti sínu.


    3. Varadómritari og starfslið á skrifstofum saksóknara og dómritara skal njóta forréttinda og friðhelgi og þeirrar aðstöðu sem þarf til að geta rækt störf sín, í samræmi við samninginn um forréttindi og friðhelgi dómstólsins.

    4. Lögmenn, sérfræðingar, vitni og aðrir, sem nauðsynlegt er að séu viðstaddir á aðsetri dómstólsins, skulu hljóta þá meðferð sem nauðsynleg er til að dómstóllinn geti rækt hlutverk sitt með fullnægjandi hætti, í samræmi við samninginn um forréttindi og friðhelgi dómstólsins.
    5. Forréttindum og friðhelgi er unnt að svipta:
    a) dómara eða saksóknara með ákvörðun hreins meiri hluta dómara;
    b) dómritara með ákvörðun dómstjórnar;

    c) varasaksóknara og starfslið á skrifstofu saksóknara með ákvörðun saksóknara;
    d) varadómritara og starfslið á skrifstofu dómritara með ákvörðun dómritara.

49. gr.

Laun, hlunnindi og kostnaður.


    Dómarar, saksóknari, varasaksóknarar, dómritari og varadómritarar skulu fá laun, hlunnindi og kostnað greidd eins og þing aðildarríkjanna ákveður. Þessi laun og hlunnindi skulu ekki lækka á starfstímanum.



50. gr.

Opinber tungumál og vinnumál.


    1. Opinber tungumál dómstólsins skulu vera arabíska, enska, franska, kínverska, rússneska og spænska. Dóma, sem eru kveðnir upp af dómstólnum, svo og aðrar ákvarðanir sem leysa úr grundvallaratriðum fyrir dómstólnum, skal birta á hinum opinberu tungumálum. Dómstjórn skal ákvarða, í samræmi við þau viðmið sem fram koma í reglunum um málsmeðferð og sönnun, hvaða ákvarðanir skuli teljast leysa úr grundvallaratriðum samkvæmt þessari málsgrein.
    2. Vinnumál dómstólsins skulu vera enska og franska. Í reglunum um málsmeðferð og sönnun skal kveðið á um í hvaða málum megi nota önnur opinber tungumál sem vinnumál.

    3. Dómstóllinn skal, að beiðni málsaðila eða ríkis sem fengið hefur leyfi til aðgangs að meðferð máls, heimila málsaðilanum eða ríkinu að nota annað tungumál en ensku eða frönsku, að því tilskildu að dómstóllinn telji nægar ástæður til að heimila slíkt.


51. gr.

Reglur um málsmeðferð og sönnun.


    1. Reglurnar um málsmeðferð og sönnun skulu öðlast gildi þegar tveir þriðju hlutar fulltrúa á þingi aðildarríkjanna hafa samþykkt þær.
    2. Eftirtaldir geta gert tillögur um breytingar á reglunum um málsmeðferð og sönnun:
    a) aðildarríki;
    b) hreinn meiri hluti dómara; eða
    c) saksóknari.
    Slíkar breytingar skulu öðlast gildi þegar tveir þriðju hlutar fulltrúanna á þingi aðildarríkjanna hafa samþykkt þær.
    3. Eftir að reglurnar um málsmeðferð og sönnun hafa verið samþykktar geta dómarar, í bráðatilvikum og þegar reglurnar ná ekki til sérstaks tilviks fyrir dómstólnum, samþykkt bráðabirgðareglur með tveimur þriðju hlutum atkvæða sem beita skal uns næsti reglulegi fundur eða aukafundur þings aðildarríkjanna samþykkir þær, breytir þeim eða hafnar.
    4. Reglurnar um málsmeðferð og sönnun, breytingar á þeim og allar bráðabirgðareglur skulu vera samrýmanlegar þessari samþykkt. Breytingar á reglunum um málsmeðferð og sönnun, svo og bráðabirgðareglur, skulu ekki gilda afturvirkt í óhag manni sem sætir rannsókn eða saksókn eða sakfellingu.
    5. Stangist samþykktin og reglurnar um málsmeðferð og sönnun á gengur samþykktin framar.


52. gr.

Reglur dómstólsins.


    1. Dómararnir skulu, í samræmi við þessa samþykkt og reglurnar um málsmeðferð og sönnun, samþykkja með hreinum meiri hluta reglur dómstólsins sem nauðsynlegar eru fyrir daglega starfsemi hans.
    2. Hafa skal samráð við saksóknara og dómritara þegar reglurnar eru samdar eða þeim er breytt.

    3. Reglurnar og breytingar á þeim skulu öðlast gildi þegar þær eru samþykktar nema dómararnir ákveði annað. Jafnskjótt og reglurnar hafa hlotið samþykki skulu þær sendar aðildarríkjunum til umsagnar. Ef ekki berast mótmæli frá meiri hluta aðildarríkjanna innan sex mánaða skulu reglurnar gilda áfram.

5. kafli: Rannsókn og saksókn.



53. gr.

Upphaf rannsóknar.


    1. Saksóknari skal, eftir að hafa metið þær upplýsingar sem hann hefur fengið, hefja rannsókn nema hann ákveði að ekki séu gild rök til þess að halda málinu áfram samkvæmt þessari samþykkt. Við mat á því hvort hefja skuli rannsókn skal saksóknari athuga:
    a) hvort fyrir hendi séu gild rök, samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hefur undir höndum, til að ætla að framinn hafi verið glæpur eða að verið sé að fremja glæp, sem fellur undir lögsögu dómstólsins;
    b) hvort málið sé eða muni verða tækt til meðferðar skv. 17. gr.; og
    c) hvort, þrátt fyrir alvarleika glæpsins og hagsmuni fórnarlambanna, séu engu að síður mikilvægar ástæður til að ætla að rannsókn væri ekki í þágu réttvísinnar
    Ef saksóknari ákveður, að rannsókn lokinni, að ekki séu gild rök til að halda máli áfram og hann byggir ákvörðun sína eingöngu á ákvæði c-liðar hér að framan skal hann tilkynna það til forréttarstofu.
    2. Ef saksóknari telur, að rannsókn lokinni, að ekki sé nægur grundvöllur til saksóknar vegna þess:

    a) að hvorki sé nægur lagagrundvöllur né nægar staðreyndir til að byggja á til þess að leita eftir heimild til handtöku eða kvaðningar skv. 58. gr.;
    b) að málið sé ekki tækt til meðferðar skv. 17. gr.; eða
    c) að saksókn yrði ekki í þágu réttvísinnar, með hliðsjón af öllum aðstæðum svo sem alvarleika glæpsins, hagsmunum fórnarlambanna og aldri eða heilsubresti ætlaðs geranda og þátttöku hans í ætluðum glæp, skal saksóknari tilkynna forréttarstofu og ríkinu, sem vísaði aðstæðunum til hans skv. 14. gr., eða öryggisráðinu í máli, sem fellur undir b-lið 13. gr., um niðurstöður sínar og um forsendur þeirra.


    3. a) Að beiðni ríkisins, sem vísaði aðstæðunum til saksóknara skv. 14. gr., eða að beiðni öryggisráðsins skv. b-lið 13 gr., getur forréttarstofa endurskoðað ákvörðun saksóknara skv. 1. eða 2. mgr. þess efnis að halda máli ekki áfram og getur hún farið fram á að saksóknari endurskoði þá ákvörðun.
    b) Að auki getur forréttarstofa af sjálfsdáðum endurskoðað ákvörðun saksóknara um halda máli ekki áfram ef hún er eingöngu byggð á c-lið 1. mgr. eða c-lið 2. mgr. Í slíku tilviki gildir ákvörðun saksóknara því aðeins að forréttarstofa staðfesti hana.

    4. Saksóknari getur, hvenær sem er, endurskoðað ákvörðun um hvort hefja skuli rannsókn eða saksókn á grundvelli nýrra staðreynda eða upplýsinga.


54. gr.

Skyldur og valdheimildir saksóknara
við rannsókn máls.

    1. Saksóknari skal:
    a) til þess að leiða sannleikann í ljós, láta rannsóknina taka til allra staðreynda og sönnunargagna sem máli skipta til að meta hvort um sé að ræða refsiábyrgð samkvæmt þessari samþykkt og skal hann þá kanna jafnt þær aðstæður sem benda til sektar og þær sem benda til sýknu;

    b) gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja skilvirka rannsókn og saksókn vegna glæpa sem falla undir lögsögu dómstólsins og taka tillit til hagsmuna og persónulegra aðstæðna fórnarlamba og vitna, svo sem aldurs, kynferðis eins og það er skilgreint í 3. mgr. 7. gr. svo og heilsu og til eðlis glæpsins, einkum ef hann lýtur að kynferðislegu ofbeldi, kynbundnu ofbeldi eða ofbeldi gegn börnum; og

    c) virða að fullu réttindi einstaklinga sem leiðir af þessari samþykkt.
    2. Saksóknari getur stjórnað rannsókn á yfirráðasvæði ríkis:
    a) í samræmi við ákvæði 9. kafla; eða
    b) með leyfi forréttarstofu skv. d-lið 3. mgr. 57. gr.
    3. Saksóknara er heimilt:
    a) að safna sönnunargögnum og rannsaka þau;
    b) boða og yfirheyra menn sem sæta rannsókn, fórnarlömb og vitni;
    c) að leita eftir samvinnu við hvaða ríki eða milliríkjastofnun eða fyrirkomulag sem er í samræmi við valdheimildir og/eða umboð hvers um sig;

    d) að ganga til samkomulags eða samninga sem kunna að reynast nauðsynlegir til þess að auðvelda samstarf við ríki, milliríkjastofnun eða einstakling og ekki eru ósamrýmanlegir þessari samþykkt;
    e) að samþykkja að gera ekki opinber á neinu stigi málsins skjöl eða upplýsingar sem saksóknari fær í hendur með þeim skilyrðum að þau séu trúnaðarmál og eingöngu afhent til þess að fá fram ný sönnunargögn, nema því aðeins að sá sem upplýsingarnar veitir gefi til þess samþykki sitt; og
    f) að gera nauðsynlegar ráðstafanir, eða fara fram á að nauðsynlegar ráðstafanir verði gerðar, til þess að tryggja að farið sé með veittar upplýsingar sem trúnaðarmál, vernd einstaklinga eða vernd sönnunargagna.

55. gr.

Réttindi einstaklinga við rannsókn máls.


    1. Við rannsókn samkvæmt þessari samþykkt:

    a) skal enginn neyddur til að bera vitni gegn sjálfum sér eða játa sig sekan;
    b) skal enginn sæta þvingunum af neinu tagi, nauðung eða hótunum, pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu;
    c) skal maður, sem er yfirheyrður á öðru tungumáli en máli sem hann talar og skilur að fullu, fá sér að kostnaðarlausu aðstoð hæfs túlks og fá þýdd þau skjöl sem nauðsynleg teljast til að kröfum um réttlæti sé fullnægt; og
    d) skal maður ekki tekinn fastur eða hafður í haldi á grundvelli geðþóttaákvörðunar og ekki sviptur frelsi nema af ástæðum og í samræmi við málsmeðferð sem kveðið er á um í þessari samþykkt.
    2. Þegar ástæða er til að ætla að maður hafi framið glæp, sem fellur undir lögsögu dómstólsins, og saksóknari eða innlend yfirvöld, samkvæmt beiðni sem lögð er fram skv. 9. kafla, búast til að yfirheyra hann skal sá maður einnig hafa eftirtalin réttindi sem ber að upplýsa hann um áður en hann er yfirheyrður:

    a) að vera upplýstur um það áður hann er yfirheyrður að ástæða sé til að ætla að hann hafi framið glæp sem fellur undir lögsögu dómstólsins;
    b) að neita að tjá sig, án þess að þögn hans hafi áhrif við mat á sekt hans eða sakleysi;

    c) að fá lögfræðiaðstoð að eigin vali eða, njóti maðurinn engrar lögfræðiaðstoðar, skipa honum lögfræðiaðstoð, þegar nauðsynlegt er talið í þágu réttvísinnar, honum að kostnaðarlausu ef hann skortir efni til að greiða sjálfur fyrir aðstoðina; og


    d) að vera yfirheyrður í viðurvist verjanda nema hann hafi af sjálfsdáðum afsalað sér rétti til verjanda.


56. gr.

Hlutverk forréttarstofu þegar einstakt
tækifæri gefst til rannsóknar.

    1. a) Ef saksóknari telur við rannsókn máls að fyrir hendi sé einstakt tækifæri til að yfirheyra vitni eða afla framburðar þess eða til að rannsaka, afla eða sannreyna sönnunargögn, sem hugsanlega verður ekki unnt að fá síðar í tengslum við dómsmeðferð málsins, skal saksóknari tilkynna forréttarstofu um það.
    b) Í því tilviki getur forréttarstofa, að beiðni saksóknara, gert þær ráðstafanir sem nauðsynlegar teljast til að tryggja skilvirka og heiðarlega málsmeðferð, einkum til að tryggja réttindi varnaraðila.

    c) Saksóknari skal, nema forréttarstofa mæli fyrir um annað, veita þær upplýsingar, sem máli skipta, manni sem hefur verið handtekinn eða sótt hefur dómþing í tilefni kvaðningar í tengslum við þá rannsókn, sem um getur í a-lið, til þess að honum sé unnt að koma að sjónarmiðum sínum í málinu.
    2. Ráðstafanirnar, sem um getur í b-lið 1. mgr., geta meðal annars verið sem hér segir:
    a) að setja fram tilmæli eða fyrirmæli um málsmeðferðina sem fylgja skal;
    b) að fyrirskipa að færð sé bók um réttarhöldin;

    c) að tilnefna sérfræðing til aðstoðar;
    d) að heimila verjanda manns, sem hefur verið handtekinn eða sótt hefur dómþing í tilefni kvaðningar, að taka þátt eða, þegar ekki hefur enn orðið af slíkri handtöku eða sókn í tilefni kvaðningar eða enginn verjandi verið skipaður, að skipa annan verjanda til að vera viðstaddur og gæta hagsmuna varnaraðila;
    e) að tilnefna einn dómara sinna eða, ef þörf krefur, annan dómara úr forréttardeild eða réttardeild til að fylgjast með og setja fram tilmæli eða fyrirmæli um söfnun og varðveislu sönnunargagna og yfirheyrslur;
    f) að gera aðrar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að safna sönnunargögnum eða varðveita þau.
    3. a) Hafi saksóknari ekki óskað eftir því að gerðar séu ráðstafanir samkvæmt þessari grein en forréttarstofa telur að slíkt sé nauðsynlegt til þess að varðveita sönnunargögn, sem hún telur vera mikilvæg fyrir varnaraðila við dómsmeðferð, skal hún ráðfæra sig við saksóknara um hvort gildar ástæður hafi verið fyrir því að hann óskaði ekki eftir að slíkar ráðstafanir væru gerðar. Komist forréttarstofa að þeirri niðurstöðu, að því loknu, að ekki séu réttmætar ástæður fyrir því að saksóknari lét hjá líða að gera viðkomandi ráðstafanir getur forréttarstofa gert slíkar ráðstafanir að eigin frumkvæði.
    b) Saksóknari getur áfrýjað ákvörðun forréttarstofu um að aðhafast að eigin frumkvæði samkvæmt þessari málsgrein. Áfrýjunin skal fá flýtimeðferð.

    4. Um heimild til framlagningar sönnunargagna, sem hafa verið varðveitt eða hefur verið aflað vegna dómsmeðferðarinnar samkvæmt þessari grein, eða skráningu þeirra, fer, við dómsmeðferð, eftir ákvæðum 69. gr. og ákveður réttarstofa sönnunargildi þeirra.

57. gr.

Störf og valdheimildir forréttarstofu.


    1. Forréttarstofa skal starfa í samræmi við ákvæði þessarar greinar, nema kveðið sé á um annað í þessari samþykkt.
    2. a) Fyrirmæli eða úrskurðir forréttarstofu skv. 15., 18. og 19. gr., 2. mgr. 54. gr., 7. mgr. 61. gr. og 72. gr. verða að hljóta samþykki meiri hluta dómara við stofuna.
    b) Í öllum öðrum tilvikum getur einn dómari við forréttarstofu innt af hendi þau störf sem kveðið er á um í þessari samþykkt nema kveðið sé á um annað í reglunum um málsmeðferð og sönnun eða meiri hluti forréttarstofu ákveði annað.
    3. Auk annarra starfa samkvæmt þessari samþykkt getur forréttarstofa:
    a) gefið út, að beiðni saksóknara, þau fyrirmæli og þær heimildir sem þörf er á vegna rannsóknar;

    b) að beiðni manns, sem hefur verið handtekinn eða hefur sótt dómþing í tilefni kvaðningar skv. 58. gr., gefið út fyrirmæli, þ. á m. um þær ráðstafanir, sem um getur í 56. gr., eða leitað samstarfs skv. 9. kafla sem kann að vera nauðsynlegt til þess að aðstoða viðkomandi við að undirbúa vörn sína;

    c) gert ráðstafanir til að vernda fórnarlömb og vitni svo og einkalíf þeirra, ef þörf krefur, varðveita sönnunargögn, vernda menn, sem hafa verið handteknir eða hafa sótt dómþing í tilefni kvaðningar, og varðveita upplýsingar um þjóðaröryggi;

    d) heimilað saksóknara að láta hefja sérstakar rannsóknaraðgerðir á yfirráðasvæði aðildarríkis án þess að hafa tryggt sér samvinnu við það ríki skv. 9. kafla, hafi forréttarstofa ákveðið að í því máli sé ríkið augljóslega ófært um að framkvæma beiðni um samstarf vegna þess að ekki eru fyrir hendi yfirvöld eða aðilar í dómskerfinu, sem eru þar til bærir að framkvæma beiðni um samstarf skv. 9. kafla, þó þannig að tillit sé tekið til sjónarmiða viðkomandi ríkis eftir því sem unnt er;
    e) leitað samstarfs við ríki skv. k-lið 1. mgr. 93. gr. um að gera verndarráðstafanir vegna eignaupptöku, einkum vegna hagsmuna fórnarlamba, þegar handtökuskipun eða kvaðning hefur verið gefin út skv. 58. gr. og að teknu tilhlýðilegu tilliti til styrkleika sönnunargagnanna og réttinda viðkomandi aðila eins og kveðið er á um í þessari samþykkt og reglunum um málsmeðferð og sönnun.


58. gr.

Útgáfa forréttarstofu á handtökuskipun
eða kvaðningu.

    1. Hvenær sem er eftir að rannsókn er hafin skal forréttarstofa, að beiðni saksóknara, gefa út handtökuskipun, eftir að hafa athugað beiðnina og sönnunargögnin eða aðrar upplýsingar sem saksóknari hefur lagt fram, hafi hún sannfærst um:

    a) að gild rök séu til að ætla að maðurinn hafi framið glæp sem fellur undir lögsögu dómstólsins; og
    b) handtaka mannsins virðist nauðsynleg:
    i) til að tryggja að maðurinn verði viðstaddur dómsmeðferð;
    ii) til að tryggja að maðurinn hindri ekki eða stofni rannsókninni eða dómsmeðferðinni í tvísýnu; eða

    iii) þar sem við á, til að koma í veg fyrir að maðurinn haldi áfram að fremja þennan glæp eða annan glæp, sem tengist honum og fellur undir lögsögu dómstólsins, sem gerist við sömu aðstæður.

    2. Í beiðni saksóknara skal eftirfarandi koma fram:
    a) nafn viðkomandi manns og aðrar upplýsingar sem máli skipta til að staðfesta hver hann er;
    b) nákvæm tilvísun í glæpi sem falla undir lögsögu dómstólsins og manninum er gefið að sök að hafa framið;
    c) nákvæm samantekt um þau atvik sem ætlað er að feli í sér slíka glæpi;
    d) skrá yfir þau sönnunargögn og aðrar upplýsingar sem sýna að gild rök séu til þess að ætla að viðkomandi hafi framið þessa glæpi; og
    e) ástæður þess að saksóknari telur nauðsynlegt að handtaka manninn.
    3. Í handtökuskipuninni skal eftirfarandi koma fram:
    a) nafn viðkomandi manns og aðrar upplýsingar sem máli skipta til að staðfesta hver hann er;
    b) nákvæm tilvísun í þá glæpi sem falla undir lögsögu dómstólsins og leitað er eftir að handaka manninn fyrir; og
    c) nákvæm samantekt um þau atvik sem ætlað er að feli í sér slíka glæpi.
    4. Handtökuskipunin skal gilda þar til dómstóllinn ákveður annað.
    5. Á grundvelli handtökuskipunarinnar getur dómstóllinn krafist handtöku og gæslu eða handtöku og afhendingar manns skv. 9. kafla.
    6. Saksóknari getur óskað þess að forréttarstofa breyti handtökuskipun með því að breyta verknaðarlýsingu glæpanna eða bæta fleiri glæpum við. Forréttarstofa skal breyta handtökuskipuninni ef hún telur sýnt að gild rök séu til að ætla að maðurinn hafi framið þá glæpi sem falla undir breytta verknaðarlýsingu eða var bætt við.
    7. Í stað þess að leita eftir handtökuskipun getur saksóknari óskað eftir því að forréttarstofa kveðji manninn fyrir dóm. Ef forréttarstofa telur sýnt að gild rök séu til að ætla að maðurinn hafi framið ætlaðan glæp og að kvaðning nægi til þess að tryggja að hann komi fyrir dóm skal hún gefa út kvaðningu, með eða án skilyrða sem takmarka frelsi hans (á annan hátt en með varðhaldi) ef kveðið er á um slíkt í landslögum. Í kvaðningunni skal eftirfarandi koma fram:

    a) nafn viðkomandi manns og aðrar upplýsingar sem máli skipta til að staðfesta hver hann er;
    b) dagurinn sem viðkomandi er kvaddur fyrir dóm;
    c) nákvæm tilvísun í glæpi sem falla undir lögsögu dómstólsins og ætlað er að maðurinn hafi framið; og

    d) nákvæm samantekt um þau atvik sem ætlað er að feli í sér glæpinn.
    Kvaðningin skal birt viðkomandi manni.

59. gr.

Málsmeðferð við handtöku í gæsluríkinu.


    1. Aðildarríki, sem hefur fengið beiðni um handtöku og gæslu eða handtöku og afhendingu, skal þegar í stað gera ráðstafanir til þess að handtaka viðkomandi í samræmi við landslög og ákvæði 9. kafla.

    2. Maður, sem er handtekinn, skal þegar í stað leiddur fyrir lögbært dómsvald í gæsluríkinu sem skal ákveða í samræmi við landslög:

    a) hvort handtökuskipunin eigi við manninn;
    b) hvort maðurinn hafi verið handtekinn í samræmi við lögmæta málsmeðferð; og
    c) hvort réttindi mannsins hafi verið virt.
    3. Maður, sem hefur verið handtekinn, skal eiga rétt á að óska eftir því við lögbært yfirvald í gæsluríkinu að hann verði leystur úr haldi tímabundið þar til hann verður afhentur.
    4. Þegar ákvörðun um slíka umsókn er tekin skal hið lögbæra yfirvald í gæsluríkinu athuga, með hliðsjón af því hversu alvarlegir hinir ætluðu glæpir eru, hvort fyrir hendi séu brýnar og sérstakar ástæður sem réttlæti tímabundna lausn úr haldi og hvort nauðsynlegar tryggingar séu fyrir því að gæsluríkið geti uppfyllt skyldur sínar um að afhenda dómstólnum viðkomandi mann. Það er ekki hins lögbæra yfirvalds í gæsluríkinu að meta hvort handtökuskipun hafi verið gefin út með réttum hætti í samræmi við a- og b-lið 1. mgr. 58. gr.
    5. Forréttarstofu skal tilkynnt um allar beiðnir um tímabundna lausn úr haldi og skal hún setja fram tilmæli þar að lútandi til lögbæra yfirvaldsin í gæsluríkinu. Áður en hið lögbæra yfirvald í gæsluríkinu tekur ákvörðun skal það taka fullt tillit til þessara tilmæla, þar á meðal tilmæla um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að maðurinn geti komist undan.

    6. Ef viðkomandi maður er leystur úr haldi tímabundið getur forréttarstofa krafist þess að fá reglulega skýrslur um stöðu málsins.
    7. Þegar gæsluríkið hefur fengið fyrirmæli um afhendingu skal viðkomandi maður færður fyrir dómstóllinn eins fljótt og unnt er.

60. gr.

Upphaf málsmeðferðar fyrir dómstólnum.


    1. Þegar viðkomandi maður er afhentur dómstólnum eða hann kemur sjálfviljugur fyrir dómstólinn eða í tilefni kvaðningar skal forréttarstofa ganga úr skugga um að viðkomandi hafi verið upplýstur um hvaða glæpi ætlað er að hann hafi framið og um réttindi hans samkvæmt þessari samþykkt, þar með talið rétt hans til að sækja um tímabundna lausn úr haldi þar til dómsmeðferð hefst.
    2. Maður, sem handtökuskipun hefur verið gefin út á, getur sótt um tímabundna lausn úr haldi þar til dómsmeðferð hefst. Ef forréttarstofa telur sýnt að skilyrði 1. mgr. 58. gr. séu uppfyllt skal maðurinn hafður áfram í haldi. Ella skal forréttarstofa láta hann lausan með eða án skilyrða.

    3. Forréttarstofa skal með reglulegu millibili endurskoða úrskurð sinn um lausn úr haldi eða hald viðkomandi manns og getur hún gert það hvenær sem er fari saksóknari eða viðkomandi maður fram á það. Við slíka endurskoðun getur hún breytt úrskurði sínum um hald, lausn eða skilyrði fyrir lausn úr haldi, telji hún sýnt að breyttar aðstæður krefjist þess.
    4. Forréttarstofa skal sjá til þess að maður sé ekki hafður óhæfilega lengi í haldi áður en til dómsmeðferðar kemur vegna óafsakanlegra tafa af hálfu saksóknara. Verði slíkar tafir á málinu skal dómstóllinn íhuga að leysa manninn úr haldi með eða án skilyrða.
    5. Ef þurfa þykir getur forréttarstofa gefið út handtökuskipun til þess að tryggja viðurvist manns sem hefur verið látinn laus.

61. gr.

Staðfesting ákæruatriða fyrir dómsmeðferð.


    1. Með fyrirvara um ákvæði 2. mgr. skal forréttarstofa, innan hæfilegs tíma eftir að maðurinn var afhentur eða kom sjálfviljugur fyrir dómstólinn, halda dómþing til þess að staðfesta ákæruatriði sem saksóknari hyggst leggja til grundvallar saksókn á hendur honum. Dómþingið skal haldið í viðurvist saksóknara og ákærða ásamt verjanda hans.

    2. Forréttarstofa getur, að beiðni saksóknara eða að eigin frumkvæði, haldið dómþing í fjarveru ákærða til þess að staðfesta ákæruatriði, sem saksóknari hyggst leggja til grundvallar saksókn á hendur honum, hafi maðurinn:
    a) afsalað sér rétti sínum til þess að vera viðstaddur; eða
    b) flúið eða hann finnst ekki og allar skynsamlegar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að tryggja að maðurinn komi fyrir dómstólinn og til að upplýsa hann um ákæruatriðin og að dómþing verði haldið til þess að staðfesta ákæruatriðin.
    Í slíku tilviki skal verjandi mannsins gæta hagsmuna hans ef forréttarstofa telur að það sé í þágu réttvísinnar.
    3. Innan hæfilegs tíma áður en dómþing hefst skal maðurinn fá:
    a) afhent afrit af skjalinu með ákæruatriðunum sem saksóknari hyggst leggja til grundvallar saksókn á hendur honum; og
    b) upplýsingar um þau sönnunargögn sem saksóknari hyggst styðjast við á dómþinginu.
    Forréttarstofa getur gefið út fyrirmæli um hvernig haga beri aðgangi að upplýsingum vegna dómþingsins.
    4. Áður en dómþing hefst getur saksóknari haldið rannsókninni áfram og breytt ákæruatriðum eða fallið frá einhverjum þeirra. Tilkynna skal manninum með hæfilegum fyrirvara fyrir dómþingið um sérhverja breytingu eða niðurfellingu ákæruatriða. Ef fallið er frá ákæruatriðum skal saksóknari tilkynna forréttarstofu um ástæður þess.
    5. Á dómþinginu skal saksóknari renna stoðum undir hvert ákæruatriði um sig með nægum sönnunum til að sýna fram á að verulegar ástæður séu til að ætla að maðurinn hafi framið glæpinn sem hann er ákærður fyrir. Saksóknari getur lagt fram sannanir í formi skjala eða samantekta og þarf ekki að kalla fyrir vitnin sem gert er ráð fyrir að beri vitni við dómsmeðferð málsins.
    6. Á dómþinginu getur maðurinn:
    a) neitað sakargiftum;
    b) vefengt sönnunargögn sem saksóknari leggur fram; og
    c) lagt fram sönnunargögn.
    7. Forréttarstofa skal, á grundvelli dómþingsins, ákvarða hvort fyrir hendi séu næg sönnunargögn til að telja að verulegar ástæður séu til að ætla að maðurinn hafi framið þá glæpi sem hann er ákærður fyrir. Á grundvelli þeirrar ákvörðunar skal forréttarstofa:
    a) staðfesta þau ákæruatriði sem hún hefur ákvarðað að nægar sannanir séu fyrir og vísa viðkomandi manni til réttarstofu þar sem réttað verður vegna ákæruatriðanna sem voru staðfest;
    b) neita að staðfesta þau ákæruatriði sem hún hefur ákvarðað að ekki séu nægar sannanir fyrir;

    c) fresta dómþingi og óska þess að saksóknari íhugi:
    i) að afla frekari sönnunargagna eða halda áfram rannsóknum að því er varðar tiltekin ákæruatriði; eða

    ii) að breyta ákæruatriði vegna þess að sönnunargögnin, sem lögð voru fram, virðast sýna fram á annars konar glæp sem fellur undir lögsögu dómstólsins.
    8. Neiti forréttarstofa að staðfesta ákæruatriði kemur það ekki í veg fyrir að saksóknari geti farið fram á staðfestingu síðar ef beiðnin er studd frekari sönnunargögnum.
    9. Eftir að ákæruatriðin hafa verið staðfest og áður en dómsmeðferð hefst getur saksóknari, með leyfi forréttarstofu og eftir að hafa tilkynnt ákærða um það, breytt ákæruatriðunum. Óski saksóknari eftir að bæta við ákæruatriðum eða setja inn alvarlegri ákæruatriði í stað þeirra fyrri skal halda dómþing samkvæmt þessari grein til að staðfesta slík ákæruatriði. Eftir að dómsmeðferð hefst getur saksóknari, með leyfi réttarstofu, fallið frá ákæruatriðum.
    10. Áður útgefnar heimildir, er lúta að ákæruatriðum sem hafa ekki verið staðfest af forréttarstofu eða saksóknari hefur fallið frá, skulu falla úr gildi.

    11. Um leið og ákæruatriðin hafa verið staðfest í samræmi við þessa grein skal dómstjórn skipa réttarstofu sem, með fyrirvara um 9. mgr. og 4. mgr. 64. gr., skal bera ábyrgð á eftirfarandi dómsmeðferð og getur annast öll störf forréttarstofu sem skipta máli og við eiga í dómsmeðferðinni.



6. kafli: Dómsmeðferð.


62. gr.

Þingstaður.


    Dómsmeðferð skal fara fram þar sem dómstóllinn hefur aðsetur, nema annað sé ákveðið.

63. gr.

Dómsmeðferð að ákærða viðstöddum.


    1. Ákærði skal vera viðstaddur dómsmeðferð.
    2. Ef ákærði, sem er fyrir dómstólnum, truflar dómsmeðferð ítrekað getur réttarstofa látið vísa honum út og skal hún þá gera ráðstafanir til þess að hann geti fylgst með framvindu dómsmeðferðarinnar utan dómsalarins og gefið verjanda sínum fyrirmæli, með aðstoð fjarskiptatækni ef þörf krefur. Til slíkra ráðstafana skal einungis gripið í sérstökum tilvikum og því aðeins að önnur eðlileg úrræði hafi reynst ófullnægjandi og eigi skulu þær vara lengur en brýn þörf krefur.

64. gr.

Störf og valdheimildir réttarstofu.


    1. Réttarstofa skal fara með störf sín og valdheimildir, sem mælt er fyrir um í þessari grein, í samræmi við þessa samþykkt og reglurnar um málsmeðferð og sönnun.

    2. Réttarstofa skal sjá til þess að dómsmeðferð sé réttlát og skjót og fari fram með fullri virðingu fyrir réttindum ákærða og tekið sé tilhlýðilegt tillit til verndar fórnarlamba og vitna.
    3. Þegar máli hefur verið vísað til dómsmeðferðar í samræmi við þessa samþykkt skal sú réttarstofa sem fengið hefur málið til meðferðar:
    a) hafa samráð við málsaðila og samþykkja þær málsmeðferðarreglur sem eru nauðsynlegar til að tryggja réttláta og skjóta dómsmeðferð;
    b) ákveða hvaða tungumál, eitt eða fleiri, skuli nota við dómsmeðferðina; og
    c) sjá um að opinber skjöl og aðrar upplýsingar, sem hafa ekki verið birt áður, séu birt með nægum fyrirvara áður en dómsmeðferð hefst til þess að nægilegur undirbúningur fyrir dómsmeðferðina sé mögulegur, með fyrirvara um önnur ákvæði þessarar samþykktar sem máli skipta.
    4. Réttarstofa getur, ef nauðsyn ber til svo að hún geti starfað með skilvirkum og réttlátum hætti, vísað undirbúningsatriðum til forréttarstofu eða, ef nauðsyn ber til, til annars dómara í forréttardeild sem tiltækur er.
    5. Réttarstofa getur, eftir atvikum, tilkynnt málsaðilum að ákærur gegn fleiri en einum sem ákærðir eru verði lagðar í kröfusamlag eða að ákærurnar verði lagðar fram hver í sínu lagi.
    6. Við störf sín áður en dómsmeðferð hefst eða meðan á henni stendur getur réttarstofa, eftir því sem þörf krefur:
    a) innt af hendi öll störf forréttarstofu sem um getur í 11. mgr. 61. gr.;
    b) krafist viðveru og framburðar vitna og að lögð séu fram skjöl og önnur sönnunargögn með því að óska eftir, ef þörf krefur, aðstoð ríkja eins og kveðið er á um í þessari samþykkt;
    c) tryggt vernd trúnaðarupplýsinga;

    d) ákveðið að frekari sönnunargögn skuli lögð fram til viðbótar þeim sem var safnað áður en dómsmeðferðin hófst eða málsaðilar hafa lagt fram meðan á dómsmeðferðinni stendur;
    e) veitt ákærða, vitnum og fórnarlömbum vernd; og
    f) úrskurðað um öll önnur málefni sem máli skipta.
    7. Dómsmeðferðin skal fara fram fyrir opnum dyrum. Réttarstofa getur þó að ákveðið að sérstakar aðstæður krefjist þess að tiltekin dómsmeðferð fari fram fyrir luktum dyrum í þeim tilgangi, sem tiltekinn er í 68. gr., eða til þess að vernda trúnaðarupplýsingar eða aðrar viðkvæmar upplýsingar sem verða lagðar fram sem sönnunargögn.
    8. a) Við upphaf dómsmeðferðar skal réttarstofa sjá til þess að ákæran, sem áður hefur verið staðfest af forréttarstofu, sé lesin fyrir ákærða. Réttarstofa skal ganga úr skugga um að ákærði skilji hvers eðlis ákæran er. Skal hún gefa honum kost á því að að játa sekt sína í samræmi við 65. gr. eða lýsa sig saklausan.

    b) Við dómsmeðferðina getur dómsforseti gefið leiðbeiningar um hvernig fara skuli með málið, meðal annars til þess að tryggja réttláta og óhlutdræga meðferð. Málsaðilar geta lagt fram sönnunargögn í samræmi við ákvæði þessarar samþykktar, með fyrirvara um leiðbeiningar frá dómsforseta.
    9. Réttarstofa skal meðal annars, að beiðni málsaðila eða að eigin frumkvæði, hafa valdheimildir til þess að:
    a) úrskurða um hvort sönnunargögn séu tæk eða skipti máli; og
    b) gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að halda uppi reglu meðan á dómþingi stendur.
    10. Réttarstofa skal tryggja að færð sé nákvæm þingbók sem endurspeglar nákvæmlega framvindu dómsmeðferðarinnar og að henni sé haldið við og hún varðveitt hjá dómritara.

65. gr.

Málsmeðferð við játningu.


    1. Ef ákærði játar sekt sína skv. a-lið 8. mgr. 64. gr. skal réttarstofa ákvarða hvort:

    a) ákærði skilji eðli og afleiðingar játningar sinnar;
    b) að játningin sé gerð af frjálsum vilja, að höfðu nægilegu samráði við verjanda; og

    c) játningin sé studd staðreyndum málsins sem koma fram í:
    i) ákæru saksóknara sem ákærði hefur gengist við;

    ii) efni sem saksóknari leggur fram til viðbótar ákærunni og ákærði viðurkennir; og

    iii) hvers kyns öðrum sönnunargögnum, svo sem framburði vitnis, sem saksóknari eða ákærði leggur fram.
    2. Ef réttarstofa telur sýnt að þau atriði, sem um getur í 1. mgr., liggi fyrir skal hún líta svo á að játningin ásamt öllum öðrum sönnunargögnum, sem lögð voru fram til viðbótar, feli í sér allar þær grundvallarstaðreyndir sem krafist er til að sanna glæpinn sem játningin varðar og getur hún þá sakfellt ákærða fyrir þann glæp.
    3. Ef réttarstofa telur ekki sýnt að þau atriði, sem um getur í 1. mgr., liggi fyrir skal hún líta svo á að játning hafi ekki komið fram og mæla svo fyrir að dómsmeðferðinni skuli fram haldið samkvæmt þeim almennu málsmeðferðarreglum sem kveðið er á um í þessari samþykkt og getur hún vísað málinu til annarrar réttarstofu.
    4. Ef réttarstofa telur það vera í þágu réttvísinnar, einkum í þágu fórnarlambanna, að fyllri staðreyndir verði leiddar í ljós getur réttarstofa:

    a) óskað þess að saksóknari leggi fram frekari sönnunargögn, svo sem framburð vitna; eða
    b) fyrirskipað að dómsmeðferðinni verði fram haldið samkvæmt þeim almennu málsmeðferðarreglum sem kveðið er á um í þessari samþykkt og skal hún þá líta svo á að játning hafi ekki komið fram og getur vísað málinu til annarrar réttarstofu.
    5. Umræður milli saksóknara og varnaraðila um breytingar á ákæruatriðum, játningu eða viðurlög skulu ekki vera bindandi fyrir dómstólinn.


66. gr.

Sakleysi uns sekt er sönnuð.


    1. Sérhver maður telst saklaus uns sekt hans er sönnuð fyrir dómstólnum í samræmi við gildandi rétt.
    2. Sönnunarbyrðin um sekt ákærða hvílir á saksóknara.
    3. Til þess að sakfella ákærða verður dómstóllinn að vera sannfærður um sekt hans og að hún sé hafin yfir réttmætan vafa.

67. gr.

Réttindi ákærða.


    1. Þegar ákvörðun um ákæru er tekin skal ákærði eiga rétt á að dómþing sé haldið fyrir opnum dyrum, með hliðsjón af ákvæðum þessarar samþykktar, að dómsmeðferð sé réttlát og óhlutdræg og að fulls jafnræðis sé gætt og skal hann hafa lágmarkstryggingu fyrir eftirfarandi:
    a) að hann fái þegar í stað að vita í smáatriðum um eðli, ástæður og efni ákærunnar á tungumáli sem hann bæði skilur og talar að fullu;

    b) að hann fái nægan tíma og aðstöðu til þess að undirbúa vörn sína og tala frjálst og í trúnaði við verjanda að eigin vali;

    c) að hann verði yfirheyrður án ótilhlýðilegrar tafar;
    d) með fyrirvara um 2. mgr. 63. gr., að hann fái að vera viðstaddur dómsmeðferðina, halda sjálfur uppi vörnum eða með aðstoð verjanda að eigin vali, vera upplýstur um rétt sinn til að fá verjanda ef hann hefur engan og, ef það er í þágu réttvísinnar, að dómstóllinn tilnefni verjanda fyrir hann honum að kostnaðarlausu ef hann skortir efni til að greiða fyrir verjanda;
    e) að hann fái að yfirheyra eða láta yfirheyra vitni, sem leidd eru gegn honum, og að vitni, sem bera honum í vil, séu leidd fyrir rétt og yfirheyrð við sömu skilyrði og vitni sem leidd eru gegn honum. Ákærði skal einnig hafa rétt til að halda uppi vörnum og leggja fram önnur sönnunargögn sem heimil eru samkvæmt þessari samþykkt;
    f) að hann fái ókeypis aðstoð hæfs túlks og þýðingu á skjölum, sem þarf til að uppfylla kröfur um réttlæti, ef einhver hluti dómsmeðferðar eða skjöl, sem lögð eru fyrir dómstólinn, eru ekki á tungumáli sem hann skilur og talar að fullu;

    g) að hann verði ekki þvingaður til þess að bera vitni eða játa sekt sína og hafi rétt til að tjá sig í engu án þess að þögn hans hafi áhrif á ákvörðun um sekt hans eða sakleysi;
    h) að hann fái að gefa munnlega eða skriflega yfirlýsingu sér til varnar án þess að vera eiðsvarinn; og
    i) að ekki verði lögð á hann öfug sönnunarbyrði eða kvöð um afsönnun.
    2. Auk annarra upplýsinga, sem kveðið er á um í þessari samþykkt, skal saksóknari, eins fljótt og unnt er, birta varnaraðila upplýsingar um sönnunargögn sem hann hefur undir höndum eða hefur umráð yfir og hann telur sýna fram á eða benda til þess að ákærði sé saklaus eða dragi úr sekt ákærða eða sem geta haft áhrif á trúverðugleika sönnunargagna ákæruvaldsins. Leiki vafi á því hvernig beita skuli þessu ákvæði sker dómstóllinn úr um það.

68. gr.

Vernd fórnarlamba og vitna og þátttaka
þeirra í dómsmeðferðinni.

    1. Dómstóllinn skal gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja öryggi, líkamlega og andlega velferð, sjálfsvirðingu og einkalíf fórnarlamba og vitna. Í því sambandi skal dómstóllinn hafa hliðsjón af öllum atriðum sem máli skipta, m.a. aldri, kynferði eins og það er skilgreint í 3. mgr. 7. gr. og heilsu, svo og eðli glæpsins, einkum, en þó ekki eingöngu, ef glæpurinn felst í kynferðislegu ofbeldi eða kynbundnu ofbeldi eða ofbeldi gegn börnum. Saksóknari skal einkum gera ráðstafanir af þessu tagi meðan á rannsókn og saksókn vegna slíkra glæpa stendur. Þær ráðstafanir skulu ekki skerða eða vera í ósamræmi við réttindi ákærða og réttláta og óhlutdræga dómsmeðferð.
    2. Í því skyni að vernda fórnarlömb og vitni eða ákærða geta stofur dómstólsins veitt undanþágu frá meginreglunni um dómþing fyrir opnum dyrum, sem kveðið er á um í 67. gr., og látið hvaða hluta dómsmeðferðarinnar sem er fara fram fyrir luktum dyrum eða heimilað að sönnunargögn séu lögð fram með rafrænum eða öðrum sérstökum hætti. Einkum skulu slíkar ráðstafanir gerðar þegar um fórnarlamb kynferðislegs ofbeldis er að ræða eða ef barn er fórnarlamb eða vitni, nema dómstóllinn ákveði annað með hliðsjón af öllum aðstæðum, einkum sjónarmiðum fórnarlambsins eða vitnis.
    3. Þegar persónulegir hagsmunir fórnarlambanna eru í húfi skal dómstóllinn leyfa að sjónarmið þeirra og áhyggjuefni séu kynnt og að um þau verði fjallað á því stigi dómsmeðferðarinnar sem dómstóllinn telur réttast, þó með þeim hætti að ekki skerði eða sé í ósamræmi við réttindi ákærða og réttláta og óhlutdræga dómsmeðferð. Lögmenn fórnarlambanna geta kynnt sjónarmið og áhyggjuefni af þessu tagi þegar dómstóllinn telur það við hæfi í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun.
    4. Deildin fyrir fórnarlömb og vitni getur leiðbeint saksóknara og dómstólnum um viðeigandi verndar- og öryggisráðstafanir og veitt ráðgjöf og aðstoð eins og um getur í 6. mgr. 43. gr.
    5. Þegar lögð eru fram sönnunargögn eða upplýsingar samkvæmt þessari samþykkt sem geta stofnað öryggi vitnis eða fjölskyldu þess í alvarlega hættu getur saksóknari, að því er varðar dómþing sem fram fara áður en dómsmeðferðin hefst, látið vera að leggja fram slík sönnunargögn eða upplýsingar og í staðinn lagt fram samantekt um þau. Slíkar ráðstafanir skulu gerðar með þeim hætti að ekki skerði eða sé í ósamræmi við réttindi ákærða og réttláta og óhlutdræga dómsmeðferð.
    6. Ríki getur óskað eftir því að nauðsynlegar ráðstafanir verði gerðar til að vernda starfsmenn þess eða fulltrúa og til að vernda trúnaðarupplýsingar eða viðkvæmar upplýsingar.


69. gr.

Sönnunargögn.


    1. Áður en vitnaleiðslur hefjast skal sérhvert vitni, í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun, heita því að framburður þess verði sannleikanum samkvæmt.
    2. Framburður vitnis við dómsmeðferð skal gefinn í eigin persónu, að frátöldu því sem kveðið er á um með ráðstöfunum sem mælt er fyrir um í 68. gr. eða í reglunum um málsmeðferð og sönnun. Dómstóllinn getur einnig heimilað munnlegan vitnisburð eða að leikin sé upptaka af framburði vitnis af myndbandi eða segulbandi svo og að lögð séu fram skjöl eða skriflegir vitnisburðir með fyrirvara um ákvæði þessarar samþykktar og í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun. Þessar ráðstafanir skulu ekki skerða eða vera í ósamræmi við réttindi ákærða.
    3. Málsaðilar geta, í samræmi við 64. gr., lagt fram sönnunargögn í málinu sem máli skipta. Dómstóllinn skal hafa valdheimildir til þess að krefjast þess að öll sönnunargögn, sem hann telur nauðsynleg til þess að ákvarða hvað er hið sanna í málinu, verði lögð fram.
    4. Dómstóllinn getur, í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun, úrskurðað um hvort sönnunargagn skiptir máli eða sé tækt til meðferðar, meðal annars að teknu tilliti til sönnunargildis þess og hvort þetta sönnunargagn kunni að spilla fyrir því að dómsmeðferðin verði réttlát eða að sanngjarnt mat sé lagt á framburð vitnis.
    5. Dómstóllinn skal virða sérréttindi að því er varðar trúnað eins og kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun.
    6. Dómstóllinn skal ekki krefjast sannana á staðreyndum sem eru á allra vitorði en getur tekið þær til greina.
    7. Sönnunargögn, sem fengin eru með því að brjóta gegn þessari samþykkt eða alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum, skulu ekki teljast tæk ef:
    a) brotið vekur verulegar efasemdir um áreiðanleika sönnunargagnanna; eða
    b) það væri í andstöðu við heiðarlega dómsmeðferð og myndi spilla henni mjög ef sönnunargögnin teldust tæk.
    8. Þegar dómstóllinn tekur ákvörðun um hvort sönnunargögn, sem ríki hefur aflað, skipti máli eða séu tæk skal hann ekki taka afstöðu til beitingar landslaga þess ríkis.

70. gr.

Brot á reglum um málsmeðferð fyrir dómi.


    1. Dómstóllinn skal fara með lögsögu vegna eftirtalinna brota á reglum um málsmeðferð fyrir dómi þegar þau eru framin af ásetningi:
    a) að gefa rangan vitnisburð þegar viðkomandi hefur heitið því að segja sannleikann skv. 1. mgr. 69. gr.;
    b) að leggja fram sönnunargögn sem viðkomandi veit að eru svikin eða fölsuð;
    c) að múta vitni, koma í veg fyrir eða hafa afskipti af mætingu eða framburði vitnis, grípa til hefndaraðgerða gegn vitni vegna framburðar þess eða eyðileggja eða falsa sönnunargögn eða hafa afskipti af söfnun sönnunargagna;
    d) að hindra embættismann dómstólsins, hóta honum eða múta í þeim tilgangi að þvinga hann til eða telja hann á að rækja ekki skyldur sínar eða rækja þær á rangan hátt;
    e) að grípa til hefndaraðgerða gegn embættismanni dómstólsins vegna skyldustarfa sem hann eða annar embættismaður hefur innt af hendi;
    f) að leita eftir eða taka við mútum sem embættismaður dómstólsins í tengslum við opinber embættisstörf sín.
    2. Í reglunum um málsmeðferð og sönnun skal kveða á um þær meginreglur og þá málsmeðferð sem ræður beitingu lögsögu dómstólsins vegna brota samkvæmt þessari grein. Um skilyrði fyrir því að veita dómstólnum alþjóðlega réttaraðstoð í tengslum við málsmeðferð hans samkvæmt þessari grein, fer eftir landslögum ríkisins sem beiðni er beint til.

    3. Ef kemur til sakfellingar getur dómstóllinn kveðið upp fangelsisdóm í allt að fimm ár, sektardóm, í samræmi við í reglurnar um málsmeðferð og sönnun, eða hvort tveggja.
    4. a) Hvert aðildarríki um sig skal rýmka ákvæði í refsirétti sínum og setja viðurlög við brotum gegn heiðarleika við eigin rannsókn eða réttarframkvæmd þannig að nái til brota gegn stjórnsýslu réttvísinnar sem um getur í þessari grein og framin eru á yfirráðasvæði þess eða af einhverjum ríkisborgara þess.
    b) Að beiðni dómstólsins skal aðildarríki, þegar það telur ástæðu til, leggja málið fyrir lögbær yfirvöld sín til saksóknar. Viðkomandi yfirvöld skulu taka slík mál til vandlegrar meðferðar og veita nægilegu fjármagni til þess að unnt sé að vinna að þeim með skilvirkum hætti.

71. gr.

Viðurlög vegna óviðeigandi hátternis í dómsal.


    1. Dómstóllinn getur refsað mönnum fyrir óviðeigandi hátterni í dómsal, svo sem að trufla dómsmeðferð eða neita beinlínis að fara að fyrirmælum dómstólsins, með stjórnsýsluaðgerðum öðrum en fangelsun svo sem með því að vísa þeim úr dómsal tímabundið eða endanlega, með sektum eða öðrum svipuðum ráðstöfunum sem kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun.
    2. Um málsmeðferð, er varðar ákvörðun um ráðstafanir skv. 1. mgr., skal kveðið á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun.

72. gr.

Vernd upplýsinga er varða þjóðaröryggi.


    1. Þessi grein gildir um sérhvert tilvik þegar framlagning upplýsinga eða skjala frá ríki myndi, að mati þess ríkis, skaða öryggishagsmuni þess. Til slíkra tilvika teljast sömu tilvik og falla undir gildissvið 2. og 3. mgr. 56. gr., 3. mgr. 61. gr., 3. mgr. 64. gr, 2. mgr. 67. gr., 6. mgr. 68. gr., 6. mgr. 87. gr. og 93. gr., svo og tilvik sem upp kunna að koma á öðrum stigum dómsmeðferðarinnar ef slík framlagning kemur til álita.

    2. Þessi grein gildir einnig ef maður, sem hefur verið kvaddur til að veita upplýsingar eða bera vitni, neitar að gera það eða vísar málinu til ríkisins á þeim forsendum að framlagning myndi skaða öryggishagsmuni ríkisins og viðkomandi ríki staðfestir að það sé þeirrar skoðunar að framlagning mundi skaða öryggishagsmuni þess.

    3. Ekkert ákvæði þessarar greinar skal hafa áhrif á kröfurnar um trúnað sem gilda skv. e- og f-lið 3. mgr. 54. gr. eða beitingu 73. gr.

    4. Komist ríki að því að verið sé að leggja fram upplýsingar eða skjöl frá því ríki eða að líklegt sé að það verði gert á einhverju stigi dómsmeðferðarinnar og ríkið er þeirrar skoðunar að framlagning myndi skaða öryggishagsmuni þess skal það eiga rétt á að grípa inn í til að fá málið leyst í samræmi við þessa grein.
    5. Ef framlagning upplýsinga myndi, að mati ríkis, skaða öryggishagsmuni þess ber því, ásamt saksóknara, varnaraðila eða forréttarstofu eða réttarstofu, eftir því sem við á, að gera allar réttmætar ráðstafanir til þess að leita lausnar á málinu með samstarfi. Slíkar ráðstafanir geta m.a. verið:

    a) að breyta beiðninni eða skýra hana;
    b) að dómstóllinn skeri úr um mikilvægi upplýsinganna eða sönnunargagnanna sem leitað er eftir, eða hvort gögnin, jafnvel þótt þau séu mikilvæg, séu fáanleg eða hafi verið fengin frá öðrum aðilum en ríkinu sem beiðni er beint til;
    c) að fá upplýsingarnar eða sönnunargögnin frá öðrum aðilum eða í öðru formi; eða
    d) að gera samning um með hvaða skilyrðum væri unnt að veita aðstoðina, þar með talið með því að útvega samantektir eða umskrifaða útdrætti, takmarka framlagningu, halda dómþing fyrir luktum dyrum ( in camera) eða einhliða ( ex parte) eða með öðrum verndarráðstöfunum sem heimilar eru samkvæmt þessari samþykkt og reglunum um málsmeðferð og sönnun.
    6. Þegar allar réttmætar ráðstafanir hafa verið gerðar til að leysa málið með samstarfi og ríkið telur að það geti ekki með neinu móti eða neinum skilyrðum veitt eða lagt fram upplýsingarnar eða skjölin án þess að skaða öryggishagsmuni sína skal ríkið tilkynna saksóknara eða dómstólnum um það og lýsa nánar ástæðunum fyrir ákvörðun sinni, nema nánari lýsing á ástæðunum myndi óhjákvæmilega skaða öryggishagsmuni ríkisins.

    7. Ef dómstóllinn ákvarðar, eftir þetta, að sönnunargögnin skipti máli og séu nauðsynleg til þess að skera úr um sekt eða sakleysi ákærða getur dómstóllinn gert eftirfarandi ráðstafanir:
    a) ef leitað er eftir framlagningu upplýsinganna eða skjalsins í tengslum við beiðni um samstarf skv. 9. kafla eða vegna aðstæðna sem lýst er í 2. mgr. og ríkið hefur borið fyrir sig þá ástæðu fyrir synjuninni sem um getur í 4. mgr. 93. gr.:
    i) getur dómstóllinn, áður en sú niðurstaða fæst sem um getur í ii-lið a-liðar 7. mgr. og í því skyni að taka tillit til athugasemda ríkisins, óskað frekara samráðs um ráðstafanir eins og að halda dómþing fyrir luktum dyrum ( in camera) eða einhliða ( ex parte), eftir því sem við á;
    ii) getur dómstóllinn, ef hann kemst að þeirri niðurstöðu að með því að bera fyrir sig ástæðu fyrir synjun skv. 4. mgr. 93. gr. hafi ríkið sem beiðni er beint til, ekki, eins og málið er vaxið, rækt skuldbindingar sínar samkvæmt þessari samþykkt, vísað málinu áfram í samræmi við 7. mgr. 87. gr. og tilgreint nánar ástæðurnar fyrir niðurstöðu sinni; og
    iii) getur dómstóllinn, við dómsmeðferð gegn ákærða, dregið þær ályktanir sem hann telur við eiga við fyrirliggjandi aðstæður um hvort staðreyndir séu fyrir hendi eða ekki; eða
    b) við allar aðrar aðstæður:
    i) getur dómstóllinn fyrirskipað framlagningu; eða
    ii) fyrirskipi hann ekki framlagningu getur hann, við dómsmeðferð gegn ákærða, dregið þær ályktanir sem hann telur við eiga við fyrirliggjandi aðstæður um hvort staðreyndir séu fyrir hendi eða ekki.

73. gr.

Upplýsingar eða skjöl frá þriðja aðila.


    Ef aðildarríki fær beiðni frá dómstólnum um að láta í té skjal eða upplýsingar, sem eru í vörslu þess eða eigu eða eru á valdi þess og voru fengin í trúnaði frá ríki, milliríkjastofnun eða alþjóðastofnun, skal aðildarríkið leita eftir samþykki viðkomandi ríkis eða stofnunar fyrir því að leggja fram skjalið eða upplýsingarnar. Ef þessi þriðji aðili er aðildarríki skal hann annaðhvort samþykkja framlagningu upplýsinganna eða skjalsins eða gera ráðstafanir til að leysa málið varðandi framlagninguna ásamt dómstólnum, með fyrirvara um ákvæði 72. gr. Ef þessi þriðji aðili er ekki aðildarríki og neitar að samþykkja framlagningu skal ríkið, sem beiðni er beint til, tilkynna dómstólnum að það geti ekki lagt fram skjalið eða upplýsingarnar vegna fyrri skuldbindinga um trúnað við þennan þriðja aðila.

74. gr.
Reglur um dómsákvörðun.

    1. Allir dómarar réttarstofu skulu vera viðstaddir á öllum stigum dómsmeðferðarinnar í öllum umræðum. Dómstjórnin getur í hverju einstöku máli tilnefnt til vara, eftir því hverjir eru til taks, einn eða fleiri dómara sem skulu vera viðstaddir á öllum stigum dómsmeðferðarinnar og koma í stað dómara réttarstofu ef einhver þeirra getur ekki lengur verið viðstaddur.
    2. Dómur réttarstofu skal byggður á mati hennar á sönnunargögnunum og á dómsmeðferðinni í heild. Dómurinn skal ekki ná lengra en staðreyndir og aðstæður, sem lýst er í ákærunni, og hugsanlegar breytingar á henni, gefa tilefni til. Dómstóllinn getur einungis byggt dóm sinn á sönnunargögnum sem lögð eru fram og fjallað er um við dómsmeðferðina.
    3. Dómararnir skulu leitast við að taka samhljóða ákvörðun en að öðrum kosti ræður meiri hluti atkvæða.

    4. Umræður í réttarstofu skulu vera leynilegar.

    5. Dómur skal vera skriflegur og hafa að geyma ítarlega og rökstudda greinargerð réttarstofu um athuganir hennar á sönnunargögnum og niðurstöðum. Réttarstofa skal kveða upp einn dóm. Ef ekki er um samhljóða niðurstöðu að ræða skulu í dóminum koma fram sjónarmið meiri hlutans og minni hlutans. Dómurinn eða samantekt hans skal kveðinn upp í heyranda hljóði.

75. gr.
Skaðabætur til fórnarlamba.

    1. Dómstóllinn skal setja meginreglur um skaðabætur til fórnarlamba eða vegna þeirra, þar með talið endurafhending, bótagreiðslur og uppreisn æru. Á þeim grundvelli getur dómstóllinn, annaðhvort samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði við sérstakar aðstæður, ákvarðað gildissvið og umfang tjóns, taps eða skaða fórnarlamba eða vegna þeirra og tilgreint þær meginreglur sem hann byggir ákvörðun sína á.
    2. Dómstóllinn getur gefið út fyrirmæli beint til dæmds manns þar sem tilgreindar eru viðeigandi skaðabætur til fórnarlamba eða vegna þeirra sem geta meðal annars falist í endurafhendingu, bótagreiðslum og uppreisn æru.
    Dómstóllinn getur mælt svo fyrir, þar sem við á, að greiðsla skaðabóta fari um sjóðinn sem kveðið er á um í 79. gr.
    3. Áður en dómstóllinn gefur fyrirmæli samkvæmt þessari grein getur hann lýst eftir, og ber að taka tillit til sjónarmiða hins dæmda og fórnarlambanna, eða fulltrúa þeirra og annarra einstaklinga eða ríkja sem eiga hagsmuna að gæta.
    4. Þegar dómstóllinn beitir valdheimildum sínum samkvæmt þessari grein getur hann, eftir að maður hefur verið dæmdur fyrir glæp sem fellur undir lögsögu dómstólsins, ákveðið hvort nauðsynlegt sé að leita eftir því að gerðar séu ráðstafanir skv. 1. mgr. 93. gr. til þess að fyrirmæli, sem dómstóllinn gefur samkvæmt þessari grein, komi til framkvæmda.
    5. Aðildarríki skal láta ákvörðun samkvæmt þessari grein koma til framkvæmda eins og ákvæði 109. gr. giltu um þessa grein.
    6. Ekkert í þessari grein skal túlkað þannig að það skerði réttindi fórnarlamba samkvæmt landslögum eða þjóðarétti.

76. gr.
Dómsuppkvaðning og ákvörðun refsingar.

    1. Ef um sakfellingu er að ræða skal réttarstofa íhuga hver sé hæfileg refsing og taka tillit til þeirra sönnunargagna, sem lögð hafa verið fram, og þeirra athugasemda sem fram hafa komið við dómsmeðferðina og máli skipta við ákvörðun refsingar.
    2. Að frátöldum tilvikum þegar 65. gr. á við og áður en dómsmeðferðinni lýkur er réttarstofu heimilt, að eigin frumkvæði, en er það skylt að beiðni saksóknara eða ákærða, að halda nýtt dómþing til að kynna sér öll viðbótarsönnunargögn eða athugasemdir er skipta máli við ákvörðun refsingar í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun.
    3. Þegar 2. mgr. á við skulu sjónarmið, sem fram koma skv. 75. gr., sett fram á hinu nýja dómþingi sem um getur í 2. mgr. og, ef þörf krefur, á sérhverju nýju dómþingi.
    4. Dómurinn skal kveðinn upp í heyranda hljóði og, ef unnt er, að ákærða viðstöddum.

7. kafli: Refsingar.
77. gr.
Refsingar.

    1. Með fyrirvara um 110. gr. getur dómstóllinn látið mann, sem hefur verið dæmdur fyrir glæp sem um getur í 5. gr. þessarar samþykktar, sæta refsingu sem hér segir:
    a) fangelsi í tiltekinn árafjölda, þó ekki lengur en í 30 ár; eða
    b) lífstíðarfangelsi ef alvarleiki glæpsins og persónulegar aðstæður hins dæmda réttlæta það.

    2. Auk fangelsisvistar getur dómstóllinn mælt fyrir um:
    a) sektir samkvæmt þeim viðmiðum sem kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun;
    b) upptöku hagnaðar og eigna sem fengnar eru beint eða óbeint með umræddum glæp, að óskertum réttindum þriðju aðila í góðri trú.

78. gr.
Ákvörðun refsingar.

    1. Við ákvörðun refsingar skal dómstóllinn, í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun, taka tillit til atriða eins og alvarleika glæpsins og persónulegra aðstæðna hins dæmda.

    2. Þegar dómstóllinn dæmir mann til fangelsisrefsingar skal draga frá, ef við á, þann tíma sem hann hefur áður setið í haldi í samræmi við fyrirmæli dómstólsins. Dómstóllinn getur dregið frá allan þann tíma sem viðkomandi kann annars að hafa setið í haldi fyrir athæfi sem tengist glæpnum.
    3. Ef maður hefur verið dæmdur fyrir fleiri en einn glæp skal dómstóllinn kveða upp dóm fyrir hvern glæp um sig og einn dóm fyrir þá alla saman þar sem tiltekinn er heildartími fangelsisvistar. Sá tími skal eigi vera skemmri en lengsti einstakur dómur sem kveðinn var upp og eigi lengri en 30 ára fangelsi eða lífstíðarfangelsi í samræmi við b-lið 1. mgr. 77. gr.


79. gr.
Sjóður.

    1. Stofna skal sjóð með ákvörðun þings aðildarríkjanna til styrktar fórnarlömbum glæpa sem falla undir lögsögu dómstólsins og fjölskyldum þeirra.

    2. Dómstóllinn getur mælt svo fyrir að peningar og aðrar eignir, sem fást með sektum eða eignaupptöku, skuli færðar í sjóðinn að fyrirmælum dómstólsins.
    3. Sjóðnum skal stjórnað í samræmi við viðmið sem þing aðildarríkjanna tekur ákvörðun um.

80. gr.
Engin áhrif á beitingu refsinga
innanlands né á landslög.

    Ekkert sem fram kemur í þessum kafla hefur áhrif á beitingu ríkja á refsingum sem mælt er fyrir um í landslögum þeirra, né á landslög ríkja sem kveða ekki á um refsingar sem mælt er fyrir um í þessum kafla.

8. kafli: Áfrýjun og endurupptaka.
81. gr.
Áfrýjun dóms um sýknu, sakfellingu eða refsingu.

    1. Heimilt er að áfrýja ákvörðun skv. 74. gr. í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun sem hér segir:
    a) Saksóknari getur áfrýjað af einhverri af eftirfarandi ástæðum:
    i) mistök í málsmeðferð,
    ii) staðreyndavilla, eða
    iii) lögvilla.
    b) Hinn dæmdi, eða saksóknari fyrir hans hönd, getur áfrýjað af einhverri af eftirfarandi ástæðum:

    i) mistök í málsmeðferð,
    ii) staðreyndavilla,
    iii) lögvilla, eða
    iv) af hvers konar ástæðum öðrum sem hafa áhrif á réttlæti eða áreiðanleika dómsmeðferðarinnar eða dómsákvörðunarinnar.
    2. a) Saksóknara eða hinum dæmda er heimilt, í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun, að áfrýja dómi á þeim forsendum að ekki sé samræmi á milli glæpsins og refsingarinnar.
    b) Telji dómstóllinn þegar dómi um refsingu er áfrýjað að forsendur séu fyrir því að hnekkja sakfellingu að hluta eða í heild getur hann boðið saksóknara og hinum dæmda að tilgreina ástæður skv. a- eða b-lið 1. mgr. 81. gr. og getur tekið ákvörðun um sakfellingu í samræmi við 83. gr.

    c) Sama málsmeðferð gildir þegar dómi um sakfellingu eingöngu er áfrýjað og dómstóllinn telur að forsendur séu fyrir refsilækkun skv. a-lið 2. mgr.

    3. a) Dæmdur maður skal sitja í haldi meðan á áfrýjun stendur nema réttarstofa fyrirskipi annað.

    b) Ef dæmdur maður situr lengur í haldi en fangelsisdómur segir til um skal hann leystur úr haldi en lausn getur verið bundin skilyrðum skv. c-lið hér á eftir ef saksóknari áfrýjar einnig.

    c) Ef ákærði er sýknaður skal hann þegar í stað leystur úr haldi með fyrirvara um eftirfarandi:
    i) við sérstakar aðstæður, meðal annars með hliðsjón af raunverulegri hættu á því að viðkomandi reyni að komast undan, alvarleika glæpsins sem ákært er fyrir og líkum á því að áfrýjun beri árangur, getur réttarstofa, að beiðni saksóknara, haft viðkomandi áfram í haldi meðan á áfrýjuninni stendur;
    ii) ákvörðun réttarstofu skv. i-lið c-liðar má áfrýja í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun.

    4. Með fyrirvara um ákvæði a- og b-liðar 3. mgr. skal fresta framkvæmd dóms eða refsingar svo lengi sem áfrýjunarfresturinn gildir og meðan á áfrýjun stendur.

82. gr.
Áfrýjun annarra ákvarðana.

    1. Báðir aðilar geta áfrýjað eftirfarandi ákvörðunum í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun:
    a) ákvörðun um lögsögu dómstólsins eða hvort mál sé tækt til meðferðar;
    b) ákvörðun um að veita manni, sem sætir rannsókn eða saksókn lausn úr haldi, eða synja honum um hana;
    c) ákvörðun forréttarstofu um að hafast að skv. 3. mgr. 56. gr. að eigin frumkvæði;
    d) ákvörðun er varðar mál, sem er þess eðlis að það hefði umtalsverð áhrif á að dómsmeðferð sé réttlát og skjót eða á niðurstöður hennar, enda gæti tafarlaus ákvörðun áfrýjunarstofu, að áliti forréttarstofu eða réttarstofu, bætt málsmeðferðina verulega.

    2. Viðkomandi ríki eða saksóknari getur, að fengnu leyfi forréttarstofu, áfrýjað ákvörðun forréttarstofu skv. d-lið 3. mgr. 57. gr. Áfrýjunin skal fá flýtimeðferð.

    3. Áfrýjun skal ekki í sjálfu sér hafa áhrif til frestunar nema áfrýjunarstofa mæli svo fyrir, að fenginni beiðni, í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun.
    4. Lögmaður fórnarlambanna, hins dæmda eða eiganda eignar í góðri trú, sem fyrirmæli skv. 75. gr. hafa skaðað, getur áfrýjað fyrirmælunum í því skyni að fá skaðabætur eins og kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun.

83. gr.
Málsmeðferð við áfrýjun.

    1. Að því er varðar dómsmeðferð skv. 81. gr. og þessari grein skal áfrýjunarstofa hafa sömu valdheimildir og réttarstofa.
    2. Ef áfrýjunarstofa telur að dómsmeðferðin, sem er tilefni áfrýjunarinnar, hafi verið óréttlát á þann hátt að haft hafi áhrif á áreiðanleika dómsins eða refsiákvörðunarinnar eða að staðreyndavilla, lögvilla eða mistök í málsmeðferð hafi haft veruleg áhrif á dóminn eða refsiákvörðunina sem er tilefni áfrýjunarinnar getur hún:
    a) fellt dóminn eða refsinguna úr gildi eða kveðið á um breytingar þar á; eða
    b) fyrirskipað nýja dómsmeðferð í annarri réttarstofu.
    Í þessu skyni getur áfrýjunarstofa heimvísað álitamáli varðandi efnisatriði til réttarstofunnar sem fór upprunalega með málið og skal réttarstofa taka ákvörðun og gefa skýrslu um málið til hennar eða hún getur sjálf óskað eftir sönnunargögnum til að taka ákvörðun um málið. Þegar hinn dæmdi, eða saksóknari fyrir hans hönd, hefur áfrýjað dóminum eða refsiákvörðuninni er ekki unnt að gera breytingu hinum dæmda í óhag.
    3. Ef áfrýjunarstofa telur, við áfrýjun refsiákvörðunar, að refsingin sé ekki í réttu hlutfalli við glæpinn getur hún breytt refsingunni í samræmi við 7. kafla.

    4. Áfrýjunarstofa skal kveða upp dóm með atkvæðum meiri hluta dómaranna í heyranda hljóði á dómþingi. Í dóminum skal tilgreina forsendur hans. Þegar ekki er um samhljóða niðurstöðu að ræða skal í dóminum koma fram bæði sjónarmið meiri hlutans og minni hlutans en dómari getur skilað sératkvæði um lagaleg atriði.

    5. Áfrýjunarstofa getur kveðið upp dóm sinn í fjarveru þess sem er sýknaður eða sakfelldur.


84. gr.
Endurupptaka sakfellingar eða refsiákvörðunar.

    1. Hinn dæmdi eða, eftir fráfall hans, maki, börn, foreldrar eða maður, sem var á lífi þegar hinn ákærði lést og hefur fengið skýr skrifleg fyrirmæli frá ákærða um að setja fram slíka kröfu, eða saksóknari fyrir hans hönd, getur leitað eftir endurupptöku endanlegs dóms um sakfellingu eða refsingu við áfrýjunarstofu á eftirfarandi forsendum:

    a) Fundist hafa ný sönnunargögn:
    i) sem ekki lágu fyrir þegar dómsmeðferð fór fram og er þar hvorki með öllu eða að hluta um að kenna þeim sem leggur fram beiðnina; og
    ii) sem eru svo mikilvæg að hefði verið tekið tillit til þeirra við dómsmeðferðina hefðu þau sennilega leitt til annarrar dómsniðurstöðu.
    b) Nýlega hefur uppgötvast að afgerandi sönnunargögn, sem tillit var tekið til við dómsmeðferðina og sakfellingin byggist á, voru svikin eða fölsuð á einn eða annan hátt.
    c) Einn eða fleiri dómarar, sem áttu þátt í sakfellingunni eða staðfestingu ákærunnar, hafa, í þessu máli, framið verknað sem ber að líta á sem alvarlegt misferli eða brot á starfsskyldum sem eru svo alvarleg að þau réttlæta lausn þess dómara eða þeirra dómara úr starfi skv. 46. gr.
    2. Áfrýjunarstofa skal hafna beiðninni ef hún telur hana ekki á rökum reista. Ef hún kemst að þeirri niðurstöðu að beiðnin sé á rökum reist getur hún, eftir því sem við á:
    a) kallað upphaflegu réttarstofuna aftur saman;
    b) stofnað nýja réttarstofu; eða
    c) haldið lögsögu í málinu,
með það fyrir augum að ákvarða hvort dómurinn skuli endurupptekinn, eftir að aðilar hafa gert grein fyrir sjónarmiðum sínum á þann hátt sem kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun.

85. gr.
Skaðabætur til manna sem hafa
verið handteknir eða sakfelldir.

    1. Hver sá sem hefur verið handtekinn eða hafður í haldi með ólögmætum hætti skal eiga rétt á skaðabótum sem unnt er að fullnusta.
    2. Ef maður hefur með endanlegum dómi verið sakfelldur fyrir refsiverðan verknað en dómurinn er síðan felldur úr gildi á þeim forsendum að nýjar eða nýlega framkomnar staðreyndir sýni svo óyggjandi sé að framið hafi verið réttarmorð skal sá sem hefur sætt refsingu vegna slíks dóms fá bætur samkvæmt lögum, nema sannað sé að maðurinn eigi sjálfur sök á því að einhverju eða öllu leyti að hinar ókunnu staðreyndir komu ekki fram á sínum tíma.

    3. Við sérstakar aðstæður, þegar dómstóllinn telur að óyggjandi staðreyndir sýni að framið hafi verið alvarlegt og augljóst réttarmorð, getur hann að eigin ákvörðun veitt manni bætur, sem hefur verið sleppt úr haldi eftir að endanlegur dómur um sýknu er uppkveðinn eða eftir að dómsmeðferð lýkur af þessari ástæðu, samkvæmt þeim viðmiðum sem kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun.

9. kafli: Alþjóðasamstarf og réttaraðstoð.
86. gr.
Almenn samstarfsskylda.


    Aðildarríkin skulu, í samræmi við ákvæði þessarar samþykktar, hafa náið samstarf við dómstólinn við rannsókn og saksókn vegna glæpa sem falla undir lögsögu dómstólsins.

87. gr.
Beiðnir um samstarf: Almenn ákvæði.

    1. a) Dómstólnum skal heimilt að senda aðildarríkjunum beiðnir um samstarf. Beiðnirnar skulu sendar eftir diplómatískum leiðum eða öðrum viðeigandi leiðum og hvert aðildarríki um sig tilgreinir við fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild.

    Síðari breytingar á þeim leiðum, sem hafa verið tilgreindar, skal hvert aðildarríki gera í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun.
    b) Eftir atvikum, og með fyrirvara um ákvæði a- liðar, má einnig senda beiðnir gegnum Alþjóðasamtök sakamálalögreglu (Interpol) eða viðeigandi svæðasamtök.

    2. Beiðni um samstarf og öll stuðningsskjöl með henni skulu annaðhvort vera, eða henni skal fylgja þýðing, á opinberu tungumáli ríkisins, sem beiðni er beint til, eða á einu af vinnumálum dómstólsins í samræmi við val viðkomandi ríkis við fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild.


    Síðari breytingar á því vali skulu gerðar í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun.

    3. Ríki, sem beiðni er beint til, skal fara með beiðni um samstarf og öll stuðningsskjöl með henni sem trúnaðarmál, nema að því marki sem nauðsynlegt er að veita upplýsingar til að framkvæma beiðnina.
    4. Í tengslum við beiðni um aðstoð, sem lögð er fram samkvæmt þessum kafla, getur dómstóllinn gert ráðstafanir, þar á meðal ráðstafanir er varða vernd upplýsinga sem kunna að vera nauðsynlegar til þess að tryggja öryggi eða líkamlega eða andlega velferð fórnarlamba, hugsanlegra vitna og fjölskyldna þeirra. Dómstóllinn getur farið fram á að allar upplýsingar, sem eru gerðar aðgengilegar samkvæmt þessum kafla, skuli látnar í té og með þær farið á þann hátt að öryggi og líkamleg eða andleg velferð fórnarlamba, hugsanlegra vitna og fjölskyldna þeirra sé tryggð.
    5. a) Dómstóllinn getur farið þess á leit við hvaða ríki sem er, sem er ekki aðili að þessari samþykkt, að það veiti aðstoð samkvæmt þessum kafla á grundvelli sérstaks fyrirkomulags eða samnings við það ríki eða á einhverjum öðrum viðeigandi grundvelli.
    b) Ef ríki, sem ekki er aðili að þessari samþykkt en hefur gert sérstakt fyrirkomulag eða samning við dómstólinn, verður ekki við beiðnum samkvæmt því fyrirkomulagi eða þeim samningi getur dómstóllinn tilkynnt það til þings aðildarríkjanna eða til öryggisráðsins hafi öryggisráðið vísað málinu til dómstólsins.
    6. Dómstóllinn getur óskað eftir upplýsingum eða skjölum frá hvaða milliríkjastofnun sem er. Dómstóllinn getur einnig óskað eftir annars konar samstarfi og aðstoð sem unnt er að semja um við viðkomandi stofnun og er í samræmi við valdheimildir hennar eða umboð.
    7. Ef aðildarríki fer ekki að beiðni um samstarf frá dómstólnum, andstætt ákvæðum þessarar samþykktar, og kemur þannig í veg fyrir að dómstóllinn geti rækt störf sín og beitt valdheimildum sínum samkvæmt þessari samþykkt getur dómstóllinn fært það til bókar og vísað málinu til þings aðildarríkjanna eða til öryggisráðsins hafi öryggisráðið vísað málinu til dómstólsins.

88. gr.
Málsmeðferð skal vera tiltæk
samkvæmt landslögum.

    Aðildarríkin skulu tryggja að málsmeðferð varðandi samstarf í hverju því formi sem fjallað er um í þessum kafla sé tiltæk í landslögum.

89. gr.
Maður afhentur dómstólnum.

    1. Dómstóllinn getur sent beiðni um handtöku og afhendingu manns ásamt stuðningsskjölum, sem um getur í 91. gr., til ríkis þar sem maðurinn kann að vera staddur og skal dómstóllinn óska eftir samstarfi við það ríki um handtöku og afhendingu hans. Aðildarríki skulu, í samræmi við ákvæði þessa kafla og málsmeðferð samkvæmt landslögum, verða við beiðni um handtöku og afhendingu.

    2. Ef maðurinn, sem leitað er eftir að fá afhentan, vefengir beiðnina fyrir innlendum dómstóli á grundvelli reglunnar ne bis in idem sem kveðið er á um í 20. gr., skal ríkið, sem beiðni er beint til, þegar í stað ráðfæra sig við dómstólinn til að fá upplýst hvort málið hafi verið verið úrskurðað tækt til meðferðar. Ef málið hefur verið úrskurðað tækt til meðferðar skal ríkið, sem beiðni er beint til, framkvæma beiðnina. Hafi málið enn ekki verið úrskurðað tækt til meðferðar getur ríkið, sem beiðni er beint til, frestað framkvæmd beiðni um afhendingu mannsins þar til dómstóllinn hefur tekið ákvörðun um hvort málið sé tækt til meðferðar.
    3. a) Aðildarríki skal heimila, í samræmi við landslög sín um málsmeðferð, flutning gegnum yfirráðasvæði sitt á manni, sem annað ríki afhendir dómstólnum, nema gegnumferð um það ríki mundi hindra eða tefja fyrir afhendingu.

    b) Beiðni dómstólsins um gegnumferð skal send í samræmi við 87. gr. Í beiðni um gegnumferð skal eftirfarandi koma fram:
    i) lýsing á manninum sem flytja á;
    ii) stutt greinargerð um staðreyndir málsins og lögfræðileg lýsing þeirra; og
    iii) ákvörðun um handtöku og afhendingu.
    c) Maður, sem er fluttur, skal hafður í haldi meðan á gegnumferð stendur.
    d) Ekki er krafist neinnar heimildar ef maðurinn er fluttur flugleiðis og samkvæmt áætlun er ekki gert ráð fyrir að lenda á yfirráðasvæði ríkisins sem farið er gegnum.
    e) Ef lent er á yfirráðasvæði ríkisins sem farið er gegnum án þess að það sé samkvæmt áætlun getur það ríki krafist þess að fá beiðni um gegnumferð frá dómstólnum eins og kveðið er á um í b-lið. Ríkið, sem farið er gegnum, skal hafa manninn, sem fluttur er, í haldi þar til það hefur fengið beiðni um gegnumferð og gegnumferðinni er lokið, að því tilskildu að varðhaldið samkvæmt þessum lið vari ekki lengur en 96 klukkutíma frá því að lent var án þess að það hafi verið samkvæmt áætlun, nem beiðnin hafi verið móttekin innan þess tíma.
    4. Ef maðurinn, sem leitað er eftir að fá afhentan, sætir saksókn eða afplánar dóm í ríkinu, sem beiðni er beint til, fyrir annan glæp en þann sem er ástæða þess að dómstóllinn leitar eftir að fá hann afhentan skal ríkið, sem beiðni er beint til, hafa samráð við dómstólinn eftir að hafa tekið ákvörðun um að verða við beiðninni.

90. gr.
Árekstur beiðna um afhendingu.

    1. Aðildarríki, sem fær beiðni frá dómstólnum um að afhenda mann skv. 89. gr., skal, ef það fær einnig beiðni frá öðru ríki um framsal sama manns fyrir sömu háttsemi, sem liggur til grundvallar glæpnum sem dómstóllinn leitar eftir að fá hann afhentan fyrir, tilkynna dómstólnum og ríkinu, sem leggur fram beiðni, um það.
    2. Þegar ríkið, sem leggur fram beiðni, er aðildarríki skal ríkið, sem beiðni er beint til, veita beiðni dómstólsins forgang ef:
    a) dómstóllinn hefur úrskurðað, skv. 18. eða 19. gr., að málið, sem er tilefni þess að leitað er eftir afhendingu, sé tækt til meðferðar og í úrskurðinum er tekið tillit til rannsóknar eða saksóknar ríkisins, sem leggur fram beiðni, í tengslum við framsalsbeiðni þess; eða
    b) dómstóllinn úrskurðar á þann veg sem lýst er í a-lið, í samræmi við tilkynningu ríkisins, sem beiðni er beint til, skv. 1. mgr.
    3. Hafi dómstóllinn ekki kveðið upp úrskurð skv. a-lið 2. mgr. er ríkinu, sem beiðni er beint til, frjálst, á meðan beðið er úrskurðar dómstólsins skv. b-lið 2. mgr., að taka framsalsbeiðnina frá ríkinu, sem leggur fram beiðni, til umfjöllunar en ekki skal það framselja manninn fyrr en dómstóllinn hefur úrskurðað að málinu skuli vísað frá. Dómstóllinn skal kveða upp úrskurð sinn á grundvelli flýtimeðferðar.
    4. Ef ríkið, sem leggur fram beiðni, á ekki aðild að þessari samþykkt skal ríkið, sem beiðni er beint til, ef það er ekki skuldbundið samkvæmt alþjóðasamningi til að framselja manninn til ríkisins sem leggur fram beiðni, veita beiðni dómstólsins um afhendingu forgang ef dómstóllinn hefur úrskurðað málið sé tækt til meðferðar.
    5. Ef dómstóllinn hefur ekki úrskurðað að mál skv. 4. mgr. sé tækt til meðferðar er ríkinu, sem beiðni er beint til, frjálst að halda áfram að fjalla um framsalsbeiðnina frá ríkinu sem leggur fram beiðni.

    6. Í tilvikum þar sem 4. mgr.á við, nema þegar ríkið, sem beiðni er beint til, er skuldbundið á alþjóðavettvangi til að framselja manninn til ríkisins sem leggur fram beiðni og er ekki aðili að þessari samþykkt, skal ríkið, sem beiðni er beint til, ákveða hvort það afhendi dómstólnum manninn eða framselji hann til ríkisins sem leggur fram beiðni. Þegar ríkið, sem beiðni er beint til, tekur ákvörðun skal það hafa hliðsjón af öllum þáttum sem máli skipta, þar með talið, en þó ekki takmarkað við:
    a) dagsetningu beiðnanna;
    b) hagsmuni ríkisins sem leggur fram beiðni, þar á meðal, þegar við á, hvort glæpurinn var framinn á yfirráðasvæði þess og hvert er ríkisfang fórnarlambanna og mannsins sem leitað er afhendingar á; og
    c) möguleika á því að ríkið, sem leggur fram beiðni, afhendi dómstólnum manninn síðar.
    7. Ef aðildarríki, sem fær beiðni frá dómstólnum um að afhenda mann, fær einnig beiðni frá ríki um að framselja sama mann vegna háttsemi sem er önnur en glæpurinn sem dómstóllinn leitar eftir að fá manninn afhentan fyrir:

    a) skal ríkið, sem beiðni er beint til, veita beiðni dómstólsins forgang ef það er ekki skuldbundið á alþjóðavettvangi til að framselja manninn til ríkisins sem leggur fram beiðni;
    b) skal ríkið, sem beiðni er beint til, ef það er skuldbundið á alþjóðavettvangi til að framselja manninn til ríkisins sem leggur fram beiðni, ákveða hvort það afhendi dómstólnum manninn eða framselji hann til ríkisins sem leggur fram beiðni. Þegar ríkið, sem beiðni er beint til, tekur ákvörðun skal það hafa hliðsjón af öllum þáttum sem máli skipta, þar með talið en þó ekki takmarkað við þá sem taldir eru upp í 6. mgr., en það skal taka sérstakt tillit til eðlis og alvarleika háttseminnar sem um ræðir.
    8. Þegar dómstóllinn hefur, að fenginni tilkynningu samkvæmt þessari grein, úrskurðað að máli skuli vísað frá og framsali til ríkisins, sem leggur fram beiðni, er synjað í framhaldi af því skal ríkið, sem beiðni er beint til, tilkynna dómstólnum um þá ákvörðun.

91. gr.
Efni beiðna um handtöku og afhendingu.

    1. Beiðni um handtöku og afhendingu skal vera skrifleg. Ef málið er brýnt má senda beiðni með hvers konar miðli sem getur komið henni skriflega til skila, að því tilskildu að beiðnin sé staðfest eftir þeim leiðum sem kveðið er á um í a-lið 1. mgr. 87. gr.
    2. Ef um er að ræða beiðni um handtöku og afhendingu manns, sem forréttarstofa hefur, skv. 58. gr., gefið út handtökuskipun á skal eftirfarandi koma fram í beiðninni eða fylgja henni til stuðnings:
    a) nægileg lýsing á manninum, sem leitað er eftir, til þess að staðfesta hver maðurinn er ásamt upplýsingum um líklegan verustað hans;
    b) afrit af handtökuskipuninni; og
    c) skjöl, greinargerðir eða upplýsingar sem kunna að vera nauðsynlegar til þess að uppfylla kröfur um málsmeðferð við afhendingu í ríkinu sem beiðni er beint til, nema hvað þær kröfur ættu ekki að vera strangari en þær sem gilda um beiðnir um framsal samkvæmt samningum eða fyrirkomulagi milli ríkisins, sem beiðni er beint til, og annarra ríkja og ættu þær, ef unnt er, að vera minni með tilliti til sérstaks eðlis dómstólsins.
    3. Ef um er að ræða beiðni um handtöku og afhendingu manns, sem hefur þegar verið dæmdur, skal koma fram í beiðninni eða fylgja henni til stuðnings:
    a) afrit af sérhverri skipun um handtöku þessa manns;
    b) afrit af dóminum;
    c) upplýsingar sem sýna að maðurinn, sem leitað er eftir, er sá sem um getur í dóminum; og

    d) ef maðurinn, sem leitað er eftir, hefur verið verið dæmdur til refsingar, afrit af dóminum sem hann fékk og, ef um fangelsisdóm er að ræða, tilgreining þess tíma sem hann hefur þegar afplánað og þess tíma sem hann á eftir að afplána.
    4. Að beiðni dómstólsins skal aðildarríki hafa samráð við dómstólinn annaðhvort almennt eða um sérstakt mál er varðar kröfur sem gerðar eru samkvæmt landslögum þess og kunna að eiga við skv. c- lið 2. mgr. Meðan á samráðinu stendur skal aðildarríkið upplýsa dómstólinn um hinar sérstöku kröfur í landslögum þess.

92. gr.
Handtaka og gæsla.

    1. Ef mál er brýnt getur dómstóllinn krafist handtöku og gæslu mannsins sem leitað er eftir uns beiðnin um afhendingu og stuðningsskjöl með henni hafa verið lögð fram eins og tilgreint er í 91. gr.
    2. Beiðni um handtöku og gæslu má senda með hvers konar miðli sem getur komið henni skriflega til skila og skal henni fylgja eftirfarandi:
    a) nægileg lýsing á manninum, sem leitað er eftir, til þess að staðfesta hver maðurinn er ásamt upplýsingum um líklegan verustað hans;
    b) stutt lýsing á glæpunum, sem eru ástæða þess að leitað er eftir handtöku mannsins, og staðreyndum um hina ætluðu glæpi, þar með talið stund og staður verknaðar, ef unnt er;
    c) yfirlýsing um að fyrir liggi handtökuskipun eða dómur um sakfellingu mannsins, sem leitað er eftir; og
    d) yfirlýsing um að beiðni um afhendingu mannsins, sem leitað er eftir, muni fylgja.
    3. Mann, sem er tekinn höndum og hafður í gæslu, má leysa úr haldi ef ríkið, sem beiðni er beint til, hefur ekki fengið beiðni um afhendingu og stuðningsskjöl með henni, eins og tilgreint er í 91. gr., innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í reglunum um málsmeðferð og sönnun. Þó getur viðkomandi maður fallist á afhendingu áður en sá frestur rennur út ef lög ríkisins, sem beiðni er beint til, leyfa það. Í því tilviki skal ríkið, sem beiðni er beint til, afhenda dómstólnum manninn eins fljótt og unnt er.
    4. Sú staðreynd að maðurinn, sem leitað er eftir, hefur verið leystur úr haldi skv. 3. mgr. skal ekki koma í veg fyrir að hann verði handtekinn og afhentur síðar ef beiðnin um afhendingu og stuðningsskjöl með henni eru lögð fram seinna.


93. gr.
Önnur form samstarfs.

    1. Aðildarríkin skulu, í samræmi við ákvæði þessa kafla og samkvæmt innlendum málsmeðferðarreglum, fara að beiðnum dómstólsins um að veita eftirfarandi aðstoð við rannsókn eða saksókn:

    a) auðkenni manna, upplýsingar um verustað þeirra eða upplýsingar um hvar hlutir eru niðurkomnir;
    b) söfnun sönnunargagna, að meðtöldum framburði eiðsvarinna vitna, og öflun sönnunargagna að meðtöldum álitsgerðum og skýrslum frá sérfræðingum sem dómstóllinn þarf á að halda;
    c) yfirheyrslu manna sem verið er að rannsaka eða saksækja;
    d) útvegun skjala, að meðtöldum lagalegum skjölum;
    e) að greiða fyrir því að fá einstaklinga til að gefa sig fram sem vitni eða sérfræðingur fyrir dómstólnum;
    f) tímabundinn flutning manna eins og kveðið er á um í 7. mgr.;
    g) rannsóknir staða, þar með talið uppgröftur og rannsókn á greftrunarstöðum;
    h) framkvæmd leitar og löghalds;
    i) sendingu skráa og skjala, að meðtöldum opinberum skrám og skjölum;
    j) vernd fórnarlamba og vitna og varðveislu sönnunargagna;
    k) að finna, rekja og frysta eða leggja hald á hagnað af glæpum, hvers kyns eignir, sem fengnar eru með glæpum, og hluti, sem notaðir eru til þess að fremja brot, í þeim tilgangi að gera þau hugsanlega upptæk, að óskertum réttindum þriðju aðila í góðri trú; og
    l) sérhverja aðra tegund aðstoðar, sem ekki er bönnuð samkvæmt lögum ríkisins sem beiðni er beint til, í þeim tilgangi að greiða fyrir rannsókn og saksókn vegna glæpa sem falla undir lögsögu dómstólsins.
    2. Dómstólnum skal heimilt að veita vitni eða sérfræðingi, sem kemur fyrir dómstólinn, tryggingu fyrir því að viðkomandi verði ekki saksóttur, fangelsaður eða látinn sæta takmörkunum á persónufrelsi af hálfu dómstólsins vegna aðgerða eða aðgerðaleysis áður en maðurinn fór brott frá ríkinu sem beiðni er beint til.
    3. Ef framkvæmd sérstakrar ráðstöfunar til aðstoðar, sem lýst er í beiðni sem lögð er fram skv. 1. mgr., er bönnuð í ríkinu sem beiðni er beint til samkvæmt gildandi grundvallarreglu í lögum sem hefur almennt gildi skal ríkið, sem beiðni er beint til, tafarlaust hafa samráð við dómstólinn og reyna að leysa málið. Í því samráði ætti að kanna hvort unnt sé að veita aðstoðina með öðru móti eða með skilyrðum. Ef málið er enn óleyst að loknu samráði skal dómstóllinn breyta beiðninni eins og þurfa þykir.

    4. Í samræmi við 72. gr. getur aðildarríki því aðeins synjað beiðni um aðstoð, að hluta eða með öllu, að beiðnin varði afhendingu skjala eða birtingu sönnunargagna sem lúta að þjóðaröryggi þess.


    5. Áður en ríkið, sem beiðni er beint til, synjar beiðni um aðstoð skv. l-lið 1. mgr. skal það kanna hvort unnt sé að veita aðstoðina með tilteknum skilyrðum eða hvort veita megi aðstoðina síðar eða með öðrum hætti, að því tilskildu að þiggi dómstóllinn eða saksóknari aðstoðina með tilteknum skilyrðum skal dómstóllinn eða saksóknari virða þau.

    6. Ef beiðni um aðstoð er synjað skal aðildarríkið, sem beiðni er beint til, þegar í stað upplýsa dómstólinn eða saksóknara um ástæðurnar fyrir synjuninni.
    7. a) Dómstóllinn getur farið fram á tímabundinn flutning manns sem situr í haldi til þess að staðfesta megi hver maðurinn er eða fá vitnisburð eða aðra aðstoð. Heimilt er að flytja manninn að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
    i) að viðkomandi maður gefi að frjálsum vilja upplýst samþykki sitt fyrir flutningnum; og
    ii) að ríkið, sem beiðni er beint til, samþykki flutninginn með þeim skilyrðum sem það ríki og dómstóllinn kunna að koma sér saman um.
    b) Maðurinn, sem fluttur er, skal hafður áfram í haldi. Þegar tilganginum með flutningnum hefur verið náð skal dómstóllinn skila manninum tafarlaust aftur til ríkisins sem beiðni er beint til.
    8. a) Dómstóllinn skal tryggja að farið sé með skjöl og upplýsingar sem trúnaðarmál, nema að því marki sem nauðsynlegt er vegna rannsóknarinnar og málsmeðferðarinnar sem lýst er í beiðninni.
    b) Ríkið, sem beiðni er beint til, getur, ef þörf krefur, sent saksóknara skjöl eða upplýsingar sem trúnaðarmál. Saksóknari getur þá eingöngu notað skjölin eða upplýsingarnar til þess að fá fram ný sönnunargögn.
    c) Ríkið, sem beiðni er beint til, getur, að eigin frumkvæði eða að beiðni saksóknara, samþykkt síðar birtingu slíkra skjala eða upplýsinga. Þá má nota skjölin eða upplýsingarnar sem sönnunargögn samkvæmt ákvæðum 5. og 6. kafla og í samræmi við reglurnar um málsmeðferð og sönnun.
    9. a) i) Ef aðildarríki fær fleiri en eina beiðni á sama tíma, aðrar en um afhendingu eða framsal, frá dómstólnum og frá öðru ríki samkvæmt alþjóðlegri skuldbindingu skal aðildarríkið, í samráði við dómstólinn og hitt ríkið, leitast við að verða við beiðni beggja, ef þurfa þykir, með því að fresta eða setja skilyrði fyrir annarri beiðninni eða báðum.

    ii) Að öðrum kosti skal leysa úr fleiri en einni beiðni sem berast í samræmi við meginreglurnar sem settar eru fram í 90. gr.
    b) Þegar beiðni dómstólsins lýtur hins vegar að upplýsingum, eignum eða mönnum sem falla undir stjórn þriðja ríkis eða alþjóðastofnunar samkvæmt alþjóðasamningi skulu ríkin, sem beiðni er beint til, upplýsa dómstólinn um það og beinir hann þá beiðninni til þriðja ríkisins eða alþjóðastofnunarinnar.

    10. a) Dómstóllinn getur, sé þess óskað, haft samvinnu við og veitt aðildarríki aðstoð við rannsókn eða réttarhöld að því er varðar háttsemi sem telst vera glæpur sem fellur undir lögsögu dómstólsins eða er alvarlegur glæpur samkvæmt lögum ríkisins sem leggur fram beiðni.
    b) i) Aðstoð, sem er veitt skv. a-lið, skal meðal annars felast í:
    a. að senda greinargerðir, skjöl eða önnur sönnunargögn sem fengist hafa við rannsókn eða réttarhöld fyrir dómstólnum; og
    b. að yfirheyra sérhvern þann mann sem hafður er í haldi að skipun dómstólsins.
    ii) Þegar um er að ræða aðstoð skv. a-lið i-liðar í b-lið:
    a. ef skjölin eða aðrar tegundir sönnunargagna eru fengin með aðstoð ríkis skal það ríki samþykkja sendinguna;
    b. ef greinargerðirnar, skjölin eða aðrar tegundir sönnunargagna eru fengnar frá vitni eða sérfræðingi skal slík sending háð ákvæðum 68. gr.

    c) Dómstóllinn getur, með þeim skilyrðum sem sett eru í þessari málsgrein, orðið við beiðni um aðstoð samkvæmt þessari málsgrein frá ríki sem ekki er aðili að þessari samþykkt.

94. gr.
Frestun framkvæmdar beiðni er varðar yfirstandandi rannsókn eða saksókn.

    1. Ef tafarlaus framkvæmd beiðni gæti haft truflandi áhrif á yfirstandandi rannsókn eða saksókn annars máls en beiðnin lýtur að getur ríkið, sem beiðni er beint til, frestað framkvæmd beiðninnar í þann tíma sem um semst við dómstólinn. Þó skal frestunin eigi vera lengri en nauðsynlegt er til þess að ljúka viðkomandi rannsókn eða saksókn í ríkinu sem beiðni er beint til. Áður en ríkið, sem beiðni er beint til, tekur ákvörðun um frestun skal það kanna hvort unnt sé að veita aðstoðina tafarlaust með tilteknum skilyrðum.
    2. Ef tekin er ákvörðun um frestun skv. 1. mgr. getur saksóknari samt sem áður leitað eftir því að gerðar verði ráðstafanir til þess að varðveita sönnunargögn, í samræmi við j-lið 1. mgr. 93. gr.

95. gr.
Frestun framkvæmdar beiðni vegna
kröfu um frávísun.

    Ef dómstóllinn hefur kröfu um frávísun skv. 18. eða 19. gr. til umfjöllunar getur ríkið, sem beiðni er beint til, frestað framkvæmd beiðni samkvæmt þessum kafla á meðan beðið er ákvörðunar dómstólsins, nema dómstóllinn hafi sérstaklega mælt svo fyrir að saksóknara sé heimilt að halda áfram að safna slíkum sönnunargögnum skv. 18. eða 19. gr.

96. gr.
Efni beiðna um aðrar tegundir
aðstoðar skv. 93. gr.

    1. Beiðni um aðrar tegundir aðstoðar skv. 93. gr. skal vera skrifleg. Ef málið er brýnt má senda beiðni með hvers konar miðli sem getur komið henni skriflega til skila, að því tilskildu að beiðnin sé staðfest eftir þeim leiðum sem kveðið er á um í a-lið 1. mgr. 87. gr.
    2. Beiðnin skal, eftir því sem við á, innihalda, eða henni fylgja, eftirfarandi:
    a) gagnorð greinargerð um tilganginn með beiðninni og umbeðinni aðstoð, þar með talið lagagrundvöllur hennar og ástæður fyrir beiðninni;
    b) eins ítarlegar upplýsingar og unnt er um verustað eða auðkenni manns eða staðar sem þarf að finna eða staðfesta hver er svo að unnt sé að veita umbeðna aðstoð;
    c) gagnorð greinargerð um mikilvægar staðreyndir sem beiðnin er grundvölluð á;
    d) rökstudd og ítarleg greinargerð um skilyrði eða málsmeðferð sem þarf að fylgja;
    e) upplýsingar sem kann að vera krafist samkvæmt lögum þess ríkis sem beiðni er beint til svo að unnt sé að verða við beiðninni; og
    f) aðrar upplýsingar sem máli skipta svo að unnt sé að veita umbeðna aðstoð.
    3. Að beiðni dómstólsins skal aðildarríki hafa samráð við dómstólinn annaðhvort almennt eða um sérstakt mál er varðar kröfur sem gerðar eru samkvæmt landslögum þess og kunna að eiga við skv. e- lið 2. mgr. Meðan á samráðinu stendur skal aðildarríkið upplýsa dómstólinn um hinar sérstöku kröfur í landslögum þess.
    4. Ákvæði þessarar greinar skulu einnig gilda, eftir því sem við á, fái dómstóllinn beiðni um aðstoð.


97. gr.
Samráð.

    Ef aðildarríki fær beiðni samkvæmt þessum kafla sem það sér að kunni að hafa í för með sér vandamál sem gætu torveldað eða komið í veg fyrir að unnt sé að verða við beiðninni skal viðkomandi ríki tafarlaust hafa samráð við dómstólinn til þess að leysa málið. Slík vandamál geta meðal annars falist í:
    a) því að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar til að unnt sé að verða við beiðninni;
    b) þegar um beiðni um afhendingu er að ræða, þeirri staðreynd að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að finna manninn sem leitað er eða að rannsókn hefur leitt í ljós að maðurinn í ríkinu, sem beiðni er beint til, er bersýnilega ekki sá sem nafngreindur er í handtökuskipuninni; eða
    c) því að framkvæmd beiðninnar í núverandi formi myndi leiða til þess að ríkið, sem beiðni er beint til, neyddist til að rjúfa samningsskuldbindingar sem það hefur áður tekist á hendur gagnvart öðru ríki.

98. gr.
Samstarf um afsal á friðhelgi og
samþykki fyrir afhendingu.

    1. Dómstóllinn getur ekki lagt fram beiðni um afhendingu eða aðstoð sem hefði í för með sér að ríkið, sem beiðni er beint til, yrði að gera eitthvað sem ósamrýmanlegt væri skuldbindingum þess að þjóðarétti að því er vaðar ríkisfriðhelgi eða diplómatíska friðhelgi manns eða eigna frá þriðja ríki, nema dómstóllinn hafi áður samið við þriðja ríkið um afsal á friðhelgi.
    2. Dómstóllinn getur ekki lagt fram beiðni um afhendingu sem hefði í för með sér að ríkið, sem beiðni er beint til, þyrfti að gera eitthvað sem ósamrýmanlegt væri skuldbindingum þess samkvæmt alþjóðasamningum þar sem krafist er samþykkis sendingarríkisins fyrir því að afhenda dómstólnum mann frá því ríki, nema dómstóllinn hafi áður fengið samþykki sendingarríkisins fyrir afhendingunni.

99. gr.
Framkvæmd beiðna skv. 93. og 96. gr.

    1. Beiðni um aðstoð skal framkvæmd í samræmi við viðeigandi málsmeðferð samkvæmt lögum ríkisins sem beiðni er beint til og, nema bannað sé í þeim lögum, á þann hátt sem tiltekið er í beiðninni, þar með talið að fylgja þeirri málsmeðferð sem þar greinir eða leyfa mönnum, sem tilgreindir eru í beiðninni, að vera viðstaddir og hjálpa til við framkvæmd beiðninnar.
    2. Ef efni beiðninnar er brýnt skal tafarlaust senda skjölin eða sönnunargögnin sem svar við beiðni dómstólsins.
    3. Svör ríkisins, sem beiðni er beint til, skulu send á frummálinu og í upprunalegu formi.
    4. Með fyrirvara um aðrar greinar þessa kafla, og þegar slíkt reynist nauðsynlegt til þess að ná árangri við framkvæmd beiðni sem unnt er að verða við án þess að grípa til þvingunarráðstafana, sérstaklega þegar um er að ræða að hlusta á eða fá vitnisburð gefinn af frjálsum vilja, þar með talið einnig án nærveru yfirvalda ríkisins sem beiðni er beint til ef það hefur úrslitaþýðingu til að beiðnin verði framkvæmd, eða þegar um er ræða að rannsaka vettvang á almannafæri eða annan opinberan stað án þess að breyta þar neinu, getur saksóknari sjálfur látið framkvæma slíka beiðni á yfirráðasvæði ríkis sem hér segir:
    a) Þegar aðildarríki, sem beiðni er beint til, ræður því yfirráðasvæði þar sem ætlað er að glæpurinn hafi verið framinn og úrskurðað hefur verið að málið sé tækt til meðferðar skv. 18. eða 19. gr. getur saksóknari sjálfur látið framkvæma beiðnina eftir að hafa haft eins náið samráð við aðildarríkið, sem beiðni er beint til, og unnt er.
    b) Í öðrum tilvikum getur saksóknari látið framkvæma slíka beiðni að höfðu samráði við aðildarríkið, sem beiðni er beint til, og eftir að hafa tekið tillit til allra eðlilegra skilyrða eða efasemda af hálfu aðildarríkisins. Þegar aðildarríki, sem beiðni er beint til, sér annmarka á að framkvæma beiðni samkvæmt þessum lið skal það þegar í stað hafa samráð við dómstólinn til þess að leysa málið.
    5. Ákvæði um að manni, sem er yfirheyrður eða rannsakaður af dómstólnum skv. 72. gr., sé heimilt að skírskota til takmarkana, sem miða að því að koma í veg fyrir að birtar verði trúnaðarupplýsingar sem tengjast öryggi ríkis, eiga einnig við um framkvæmd beiðna um aðstoð samkvæmt þessari grein.


100. gr.
Kostnaður.

    1. Almenn útgjöld í tengslum við framkvæmd beiðna á yfirráðasvæðis ríkis, sem beiðni er beint til, fellur á það ríki að frátöldum eftirfarandi útgjöldum sem skulu greidd af dómstólnum:
    a) útgjöld vegna ferða og öryggisgæslu vitna og sérfræðinga eða flutnings skv. 93. gr. á manni sem er í gæslu;
    b) útgjöld vegna þýðingar, túlkunar og umritunar;

    c) ferða- og uppihaldskostnaður dómara, saksóknara, varasaksóknara, dómritara, varadómritara og starfsliðs starfseininga dómstólsins;

    d) útgjöld vegna álitsgerða eða skýrslna sérfræðinga sem dómstóllinn fer fram á að fá;
    e) útgjöld sem tengjast flutningi manns sem gæsluríki afhendir dómstólnum; og

    f) að höfðu samráði, aukaútgjöld sem framkvæmd á beiðni kann að hafa í för með sér.
    2. Ákvæði 1. mgr. skulu, eftir því sem við á, taka til beiðna sem aðildarríki senda dómstólnum. Í slíkum tilvikum skal dómstóllinn standa straum af almennum útgjöldum vegna framkvæmdar beiðna.

101. gr.
Sérregla.

    1. Maður, sem afhentur er dómstólnum samkvæmt þessari samþykkt, skal hvorki saksóttur, sæta refsingu né settur í varðhald vegna háttsemi sem hann gerðist sekur um fyrir afhendingu, annarrar en háttseminnar sem liggur til grundvallar glæpunum sem hann var afhentur fyrir.
    2. Dómstóllinn getur leitað eftir undanþágu frá kröfum 1. mgr. hjá ríkinu sem afhenti dómstólnum manninn og skal dómstóllinn, ef þörf krefur, veita viðbótarupplýsingar í samræmi við 91. gr. Aðildarríkin hafa valdheimildir til þess að veita dómstólnum undanþágu og skulu leitast við að gera það.


102. gr.
Hugtakanotkun.

    Í þessari samþykkt er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    a) „afhending“ merkir að ríki afhendi dómstólnum mann samkvæmt þessari samþykkt.
    b) „framsal“ merkir að ríki afhendi öðru ríki mann samkvæmt alþjóðasamningi eða landslögum.


10. kafli: Fullnusta.
103. gr.
Hlutverk ríkja við fullnustu fangelsisdóma.

    1. a) Fangelsisdómur skal afplánaður í ríki sem dómstóllinn velur af skrá yfir ríki sem hafa tilkynnt dómstólnum að þau séu reiðubúin til að taka við dæmdum mönnum.
    b) Þegar ríki lýsir yfir vilja sínum til þess að taka við dæmdum mönnum getur það sett skilyrði fyrir samþykki sínu sem þurfa að vera samþykkt af dómstólnum og vera í samræmi við þennan kafla.
    c) Ríki, sem er tilnefnt í sérstöku máli, skal þegar í stað tilkynna dómstólnum hvort það samþykkir tilnefningu dómstólsins.
    2. a) Fullnusturíkið skal tilkynna dómstólnum um hverjar þær aðstæður sem gætu haft umtalsverð áhrif á skilmála eða tímalengd fangelsisvistunarinnar, þar á meðal beitingu skilyrða sem kunna að hafa verið samþykkt skv. 1. mgr. Skal dómstóllinn fá að vita um fyrir fram þekktar eða fyrirsjáanlegar aðstæður með að minnsta kosti 45 daga fyrirvara. Á meðan skal fullnusturíkið ekki hafast neitt það að sem gæti haft áhrif á skuldbindingar þess skv. 110. gr.
    b) Ef dómstóllinn getur ekki samþykkt aðstæður sem um getur í a-lið skal hann tilkynna það fullnusturíkinu og halda áfram í samræmi við 1. mgr. 104. gr.
    3. Þegar dómstóllinn tilnefnir ríki að eigin vali skv. 1. mgr. skal hann taka mið af eftirfarandi:

    a) meginreglunni um að aðildarríkin skuli deila ábyrgð á fullnustu fangelsisdóma í samræmi við meginreglurnar um sanngjarna skiptingu eins og kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun;
    b) almennt viðurkenndum stöðlum alþjóðasamninga um meðferð fanga;

    c) sjónarmiðum hins dæmda;
    d) þjóðerni hins dæmda;
    e) öðrum atriðum er varða aðstæður glæpsins eða hins dæmda eða skilvirka fullnustu refsiákvörðunarinnar, eftir því sem við á, þegar fullnusturíkið er tilnefnt.
    4. Ef ekkert ríki er tilnefnt skv. 1. mgr. skal fangelsisdómurinn afplánaður í fangelsisstofnun í gistiríkinu, í samræmi við skilyrðin sem sett eru í samningnum um höfuðstöðvar sem um getur í 2. mgr. 3. gr. Í slíku tilvik fellur kostnaður vegna fullnustu fangelsisdóms á dómstólinn.



104. gr.
Tilnefningu fullnusturíkis breytt.

    1. Dómstóllinn getur hvenær sem er ákveðið að flytja dæmdan mann til fangelsis í öðru ríki.
    2. Dæmdur maður getur hvenær sem er sótt um til dómstólsins að vera fluttur frá fullnusturíkinu.


105. gr.
Fullnusta refsiákvörðunar.

    1. Með fyrirvara um skilyrði, sem ríki kann að hafa sett í samræmi við b-lið 1. mgr. 103. gr., er fangelsisdómur bindandi fyrir aðildarríkin og geta þau ekki undir neinum kringumstæðum breytt honum.
    2. Dómstóllinn hefur einn rétt til þess að úrskurða um umsókn um áfrýjun og endurupptöku. Fullnusturíkið skal ekki koma í veg fyrir að dæmdur maður sendi inn slíka umsókn.

106. gr.
Eftirlit með fullnustu refsiákvarðana og aðstæður í afplánun.

    1. Fullnusta fangelsisdóms skal háð eftirliti dómstólsins og vera í samræmi við almennt viðurkennda staðla í alþjóðasamningum sem lúta að meðferð fanga.
    2. Um aðstæður í afplánun skal fara eftir lögum fullnusturíkisins og skulu þær vera í samræmi við almennt viðurkennda staðla í alþjóðasamningum sem lúta að meðferð fanga. Skulu þær hvorki vera betri né verri en þær aðstæður sem fangar, sem dæmdir eru fyrir svipuð brot í fullnusturíkinu, búa við.

    3. Samskipti dæmds manns og dómstólsins skulu vera óhindruð og bundin trúnaði.

107. gr.
Flutningur manns að lokinni afplánun.

    1. Að afplánun lokinni má, í samræmi við lög fullnusturíkisins, flytja mann, sem er ekki ríkisborgari í fullnusturíkinu, til ríkis sem er skylt að taka við honum, eða til annars ríkis sem fellst á að taka við honum, að teknu tilliti til óska mannsins sem á að flytja til viðkomandi ríkis, nema fullnusturíkið heimili manninum að vera áfram á yfirráðasvæði sínu.

    2. Ef ekkert ríki ber kostnaðinn af flutningi mannsins til annars ríkis skv. 1. mgr. skal dómstóllinn bera þann kostnað.
    3. Með fyrirvara um 108. gr. getur fullnusturíkið einnig, í samræmi við landslög, framselt eða afhent manninn á annan hátt ríki, sem hefur óskað eftir framsali eða afhendingu hans, til þess að kalla hann fyrir rétt eða til fullnustu dóms.


108. gr.
Takmörkun á saksókn eða refsingu
fyrir önnur brot.

    1. Dæmdur maður sem er í haldi í fullnusturíki skal ekki sæta saksókn eða refsingu eða vera framseldur þriðja ríki fyrir háttsemi sem hann gerðist sekur um áður en hann var framseldur fullnusturíkinu, nema dómstóllinn hafi samþykkt saksóknina, refsinguna eða framsalið að beiðni fullnusturíkisins.

    2. Dómstóllinn skal úrskurða í málinu eftir að hafa hlustað á sjónarmið hins dæmda.
    3. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki ef hinn dæmdi dvelst af frjálsum vilja lengur en 30 daga á yfirráðasvæði fullnusturíkisins eftir að hafa afplánað að fullu þá refsingu sem dómstóllinn dæmdi hann í eða ef hann snýr aftur til yfirráðasvæðis þess ríkis eftir að hafa yfirgefið það.

109. gr.
Fullnusta sektarákvarðana og upptaka eigna.

    1. Aðildarríki skal láta sektir eða eignaupptöku, sem dómstóllinn fyrirskipar skv. 7. kafla, koma til framkvæmda, að óskertum réttindum þriðju aðila í góðri trú og í samræmi við málsmeðferð samkvæmt landslögum þess.
    2. Ef aðildarríki getur ekki fullnustað ákvörðun um eignaupptöku skal það gera ráðstafanir til að endurheimta virði hagnaðar og upptöku eigna sem dómstóllinn hefur fyrirskipað, að óskertum réttindum þriðju aðila í góðri trú.
    3. Flytja skal til dómstólsins eignir eða hagnað af sölu fasteigna eða, eftir því sem við á, annarra eigna sem aðildarríki hefur fengið í kjölfar fullnustu ákvörðunar dómstólsins.


110. gr.
Endurskoðun dómstólsins til refsilækkunar.


    1. Fullnusturíkið skal ekki láta mann lausan fyrr en hann hefur afplánað að fullu refsingu sem dómstóllinn hefur dæmt hann í.
    2. Dómstóllinn einn hefur rétt til að taka ákvörðun um refsilækkun og skal hann úrskurða í málinu eftir að hafa yfirheyrt viðkomandi.
    3. Þegar viðkomandi maður hefur afplánað tvo þriðju hluta refsingarinnar, eða 25 ár ef um er að ræða lífstíðarfangelsi, skal dómstóllinn endurskoða dóminn til að ákvarða hvort veita skuli refsilækkun. Endurskoðun skal ekki fara fram fyrir þann tíma.
    4. Við endurskoðun skv. 3. mgr. getur dómstóllinn tekið ákvörðun um refsilækkun ef hann álítur að eitt eða fleiri af eftirfarandi atriðum sé fyrir hendi:
    a) að maðurinn hafi fljótlega og staðfastlega sýnt vilja til samstarfs við rannsókn og saksókn;

    b) að maðurinn hafi af frjálsum vilja aðstoðað við framkvæmd fullnustu dóma dómstólsins og fyrirmæla hans í öðrum málum, einkum hafi hann aðstoðað við að finna eignir sem tengjast sektarákvæðum, eignaupptöku eða skaðabótum sem má nota í þágu fórnarlamba; eða
    c) aðrir þættir sem greinilega sýna mikið breyttar aðstæður sem nægja til að réttlæta refsilækkun eins og kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun.
    5. Ef dómstóllinn ákveður, við fyrstu endurskoðun skv. 3. mgr., að ekki sé rétt að veita refsilækkun skal hann eftir það taka aftur upp spurninguna um refsilækkun með vissu millibili og með hliðsjón af þeim viðmiðum sem kveðið er á um í reglunum um málsmeðferð og sönnun.

111. gr.
Flótti.

    Ef dæmdur maður strýkur úr haldi og flýr frá fullnusturíkinu getur það ríki, að höfðu samráði við dómstólinn, farið fram á að ríkið þar sem maðurinn er niðurkominn afhendi hann samkvæmt gildandi tvíhliða eða marghliða fyrirkomulagi, eða það getur farið fram á að dómstóllinn leiti eftir því að fá manninn afhentan í samræmi við 9. kafla. Dómstóllinn getur ákveðið að maðurinn verði afhentur ríkinu sem hann afplánaði refsinguna í eða öðru ríki sem dómstóllinn tilnefnir.


11. kafli: Þing aðildarríkjanna.
112. gr.
Þing aðildarríkjanna.

    1. Þing ríkja, sem aðild eiga að þessari samþykkt, er hér með stofnað. Hvert aðildarríki skal eiga einn fulltrúa á þinginu og með honum mega vera varamenn og ráðgjafar. Öðrum ríkjum, sem hafa undirritað þessa samþykkt eða lokagerðina, er heimilt að hafa áheyrnarfulltrúa á þinginu.
    2. Þingið skal:
    a) fjalla um og samþykkja, eftir því sem við á, tilmæli undirbúningsnefndarinnar;
    b) móta almenna stefnu dómstjórnarinnar, saksóknara og dómritara í stjórnsýslu dómstólsins;

    c) fjalla um skýrslur og starfsemi skrifstofunnar sem komið var á fót skv. 3. mgr. og gera viðeigandi ráðstafanir þar að lútandi;
    d) fjalla um og ganga frá fjárhagsáætlun dómstólsins;
    e) ákveða hvort breyta eigi, í samræmi við 36. gr., fjölda dómara;
    f) fjalla, skv. 5. og 7. mgr. 87. gr., um öll mál er varða skort á samvinnu;
    g) inna af hendi hvers konar störf önnur sem samrýmanleg eru þessari samþykkt eða reglunum um málsmeðferð og sönnun.
    3. a) Þingið skal hafa skrifstofu með einum forseta, tveimur varaforsetum og 18 fulltrúum sem þingið kýs til þriggja ára.
    b) Skrifstofan skal vera dæmigerð, einkum að því er varðar landfræðilega dreifingu fulltrúa og rétt er að helstu lagakerfi í heiminum eigi þar fulltrúa.


    c) Skrifstofan skal halda fundi eins oft og þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en einu sinni á ári. Hún skal vera þinginu til aðstoðar við þingstörfin.
    4. Þingið getur, ef nauðsyn ber til, komið á fót undirstofnunum, þar á meðal kerfum til að hafa með höndum sjálfstætt eftirlit, mat og rannsókn á dómstólnum til þess að auka skilvirkni hans og fjárhagslega hagkvæmni.
    5. Forseti dómstólsins, saksóknari og dómritari eða fulltrúar þeirra mega, eftir atvikum, sitja fundi þingsins og skrifstofunnar.

    6. Þingið skal koma saman á aðsetursstað dómstólsins eða í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna einu sinni á ári og halda aukaþing ef aðstæður krefjast þess. Skrifstofan skal kalla saman aukaþing að eigin frumkvæði eða að beiðni þriðjungs aðildarríkjanna, nema kveðið sé á um annað í samþykkt þessari.
    7. Hvert aðildarríki skal hafa eitt atkvæði. Leggja skal áherslu á að ákvarðanir séu samþykktar samhljóða í þinginu og á skrifstofunni. Ef ekki fæst samhljóða samþykki skal eftirfarandi háttur hafður á, nema kveðið sé á um annað í samþykktinni:
    a) Ákvarðanir um efnisatriði skulu teknar með atkvæðum tveggja þriðju hluta fulltrúanna sem eru viðstaddir og greiða atkvæði en skilyrði fyrir ályktunarhæfi við atkvæðagreiðsluna er að hreinn meiri hluti fulltrúa aðildarríkjanna sé viðstaddur.
    b) Ákvarðanir um málsmeðferð skulu teknar með einföldum meiri hluta atkvæða þeirra fulltrúa aðildarríkjanna sem eru viðstaddir og greiða atkvæði.
    8. Aðildarríki, sem er í vanskilum með greiðslur fjárframlaga vegna kostnaðar við dómstólinn, skal hvorki hafa atkvæðisrétt á þinginu né á skrifstofunni ef fjárhæðin, sem það skuldar, er jafnhá eða hærri en framlag þess hefði átt að vera tvö næstliðin ár. Þó getur þingið heimilað aðildarríki að greiða atkvæði á þinginu eða á skrifstofunni ef þinginu þykir sýnt að ástæður þess að aðildarríkið greiðir ekki skuldir sínar eru ekki á valdi þess.

    9. Þingið setur sér málsmeðferðarreglur.

    10. Opinber tungumál og vinnumál þingsins skulu vera hin sömu og á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

12. kafli: Fjármögnun.
113. gr.
Fjárhagsreglugerðir.

    Um öll fjármál, sem tengjast dómstólnum og fundum þings aðildarríkjanna, þar með talið skrifstofu hans og undirstofnunum, fer eftir þessari samþykkt og fjárhagsreglugerðum og reglum sem þing aðildarríkjanna hefur samþykkt, nema sérstaklega sé kveðið á um annað.

114. gr.
Greiðsla útgjalda.

    Útgjöld dómstólsins og þings aðildarríkjanna, þar með talið skrifstofu hans og undirstofnana, skulu greidd úr sjóðum dómstólsins.




115. gr.
Sjóðir dómstólsins og þings aðildarríkjanna.


    Útgjöld dómstólsins og þings aðildarríkjanna, þar með talið skrifstofu hans og undirstofnana, eins og kveðið er á um í fjárhagsáætlun sem þing aðildarríkjanna ákveður skulu greiðast með:

    a) föstum framlögum aðildarríkjanna;
    b) fé úr sjóðum Sameinuðu þjóðanna, með fyrirvara um samþykki allsherjarþingsins, einkum á þetta við um útgjöld sem leiðir af vísunum aðstæðna frá öryggisisráðinu til saksóknara.

116. gr.
Frjáls framlög.

    Með fyrirvara um 115. gr. getur dómstóllinn tekið við og notað sem viðbótarsjóði frjáls framlög frá ríkisstjórnum, alþjóðastofnunum, einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum aðilum, í samræmi við viðeigandi viðmið sem þing aðildarríkjanna hefur samþykkt.

117. gr.
Framlög ákveðin.

    Framlög aðildarríkjanna skulu ákveðin í samræmi við samþykktar reglur um kostnaðarskiptingu sem eru byggðar á þeim kvarða sem Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt fyrir fasta fjárhagsáætlun sína og skal þeim jafnað niður í samræmi við meginreglurnar sem kvarðinn er byggður á.

118. gr.
Árleg endurskoðun.

    Óháður endurskoðandi skal árlega endurskoða skjöl, bækur og reikninga dómstólsins, þar með talið ársreikninga hans.

13. kafli: Lokaákvæði.
119. gr.
Lausn deilumála.

    1. Allar deilur um dómstörf dómstólsins skulu leystar með ákvörðun dómstólsins.

    2. Öllum öðrum deilum á milli tveggja eða fleiri aðildarríkja um túlkun eða beitingu samþykktar þessarar, sem eru ekki leystar með samningum innan þriggja mánaða frá því að þær komu upp, skal vísað til þings aðildarríkjanna. Þingið getur sjálft reynt að leysa deilu eða lagt fram tillögur um aðrar leiðir til þess að leysa hana, meðal annars vísað henni til Alþjóðadómstólsins í samræmi við samþykkt þess dómstóls.


120. gr.
Fyrirvarar.

    Ekki er heimilt að gera fyrirvara við samþykkt þessa.

121. gr.
Breytingar.

    1. Öllum aðildarríkjunum er heimilt að leggja til breytingar á samþykkt þessari þegar sjö ár eru liðin frá gildistöku hennar. Texti breytinga, sem gerð er tillaga um, skal lagður fyrir aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal þegar í stað senda hann öllum aðildarríkjunum.
    2. Eigi fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá dagsetningu tilkynningarinnar skal þing aðildarríkjanna, með meiri hluta atkvæða þeirra sem viðstaddir eru og greiða atkvæði, ákveða á næsta fundi, hvort tillagan skuli tekin til umfjöllunar. Þingið getur sjálft fjallað um tillöguna eða boðað til endurskoðunarfundar ef málið er þannig vaxið að þurfa þyki.
    3. Tvo þriðju hluta atkvæða aðildarríkjanna þarf til að samþykkja breytingu sem ekki næst samstaða um á fundi þings aðildarríkjanna eða á endurskoðunarfundi.
    4. Að frátöldum ákvæðum 5. mgr. öðlast breyting gildi gagnvart öllum aðildarríkjunum einu ári eftir að sjö áttundu hlutar ríkjanna hafa afhent fullgildingar- eða staðfestingarskjöl sín til vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    5. Breytingar á 5., 6., 7. og 8. gr. samþykktar þessarar skulu öðlast gildi gagnvart þeim aðildarríkjum, sem hafa samþykkt breytinguna, einu ári eftir að þau afhentu fullgildingar- eða staðfestingarskjöl sín til vörslu. Dómstóllinn skal ekki beita lögsögu sinni ef glæpur, sem breytingin tekur til, hefur verið framinn af ríkisborgara ríkis, sem hefur ekki samþykkt breytinguna, eða á yfirráðasvæði þess.

    6. Hafi breyting verið samþykkt af sjö áttundu hlutum aðildarríkjanna í samræmi við 4. mgr. getur aðildarríki, sem ekki hefur samþykkt breytinguna, sagt upp samþykkt þessari og öðlast uppsögnin gildi þegar í stað, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 127. gr. en sbr. þó 2. mgr. 127. gr., með því að tilkynna uppsögn eigi síðar en einu ári eftir að slík breyting hefur öðlast gildi.

    7. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda öllum aðildarríkjunum allar breytingar sem samþykktar eru á fundum þings aðildarríkjanna eða á endurskoðunarfundi.

122. gr.
Breytingar á ákvæðum er varða stofnanaþáttinn.


    1. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 121. gr. getur sérhvert aðildarríki hvenær sem er gert tillögur um breytingar á þeim ákvæðum samþykktarinnar sem varða eingöngu stofnanaþátt hennar, þ.e. 35. gr., 8. og 9. mgr. 36. gr., 37. gr., 38. gr., 1. mgr. (fyrstu tveir málsliðirnir), 2. og 4. mgr. 39. gr., 4. til 9. mgr. 42. gr., 2. og 3. mgr. 43. gr. og 44., 46., 47. og 49. gr. Texti breytingartillagna skal lagður fyrir aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna eða annan aðila sem þing aðildarríkjanna tilnefnir og skal hann þegar í stað senda hann öllum aðildarríkjunum og öðrum þátttakendum þingsins.

    2. Breytingar samkvæmt þessari grein, sem ekki næst samstaða um, skulu samþykktar á þingi aðildarríkjanna eða á endurskoðunarfundi með atkvæðum tveimur þriðju hluta aðildarríkjanna. Breytingarnar skulu öðlast gildi í öllum aðildarríkjunum sex mánuðum eftir að þingið eða endurskoðunarfundurinn, eftir því sem við á, samþykkir þær.

123. gr.
Endurskoðun samþykktarinnar.

    1. Sjö árum eftir að samþykkt þessi öðlast gildi skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna boða til endurskoðunarfundar til þess að fjalla um breytingar á samþykkt þessari. Slík endurskoðun getur varðað, en skal þó ekki takmarkast við, skrána yfir glæpi í 5. gr. Endurskoðunarfundurinn skal vera opinn öllum þátttakendum á þingi aðildarríkjanna og með sömu skilyrðum.
    2. Hvenær sem er eftir það skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna boða til endurskoðunarfundar, að beiðni aðildarríkis og í þeim tilgangi sem fram kemur í 1. mgr., með samþykki meiri hluta aðildarríkjanna.
    3. Ákvæði 3. til 7. mgr. 121. gr. skulu gilda um samþykkt og gildistöku allra breytinga á samþykktinni sem eru til umfjöllunar á endurskoðunarfundi.




124. gr.
Bráðabirgðaákvæði.

    Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. 12. gr. getur ríki lýst því yfir, um leið og það gerist aðili að samþykkt þessari, að fyrstu sjö árin eftir að samþykkt þessi öðlast gildi gagnvart því gangist það ekki undir lögsögu dómstólsins að því er varðar þá flokka glæpa sem um getur í 8. gr. þegar glæpur er talinn hafa verið framinn af ríkisborgara þess ríkis eða á yfirráðasvæði þess. Ríkið getur hvenær sem er dregið til baka yfirlýsingu samkvæmt þessari grein. Ákvæði þessarar greinar skulu endurskoðuð á endurskoðunarfundinum sem boðað er til í samræmi við 1. mgr. 123. gr.


125. gr.
Undirritun, fullgilding, staðfesting,
samþykki eða aðild.

    1. Samþykkt þessi skal liggja frammi til undirritunar fyrir öll ríki í höfuðstöðvum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm 17. júlí 1998. Síðan skal hún liggja frammi til undirritunar í utanríkisráðuneyti Ítalíu í Róm til 17. október 1998. Eftir það liggur samþykktin frammi til undirritunar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York til 31. desember árið 2000.

    2. Samþykkt þessi er háð fullgildingu, staðfestingu eða samþykki ríkjanna sem undirrita hana. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
    3. Öllum ríkjum er frjálst að gerast aðilar að samþykkt þessari. Aðildarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.

126. gr.
Gildistaka.

    1. Samþykkt þessi öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru 60 dagar frá því að skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki var afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
    2. Fyrir hvert ríki sem fullgildir þessa samþykkt, staðfestir hana eða samþykkir eða fær aðild að henni eftir að 60. skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild hefur verið afhent til vörslu, öðlast samþykktin gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru 60 dagar frá því að ríkið afhenti til vörslu skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild.

127. gr.
Uppsögn.

    1. Aðildarríki er heimilt að segja upp samþykkt þessari með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Uppsögnin öðlast gildi einu ári eftir móttöku tilkynningarinnar, nema kveðið sé á um síðari dagsetningu í tilkynningunni.
    2. Uppsögn ríkis leysir það ekki undan skuldbindingum sem samþykkt þessi lagði því á herðar á meðan það var aðili að henni, þar á meðal hugsanlegum fjárhagsskuldbindingum. Uppsögn ríkis skal hvorki hafa áhrif á samvinnu þess við dómstólinn í tengslum við rannsókn og saksókn vegna glæpa sem ríkinu, sem sagði samþykktinni upp, bar skylda til að vinna að og var hafin fyrir þann dag sem uppsögnin öðlaðist gildi, né skal hún á nokkurn hátt hafa áhrif á áframhaldandi meðferð máls sem þegar var til meðferðar hjá dómstólnum fyrir þann dag sem uppsögnin öðlaðist gildi.


128. gr.
Jafngildir textar.

    Frumritið af samþykkt þessari, en textar hennar á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku eru allir jafngildir, skal afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu og skal hann senda staðfest afrit af þeim til allra ríkjanna.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samþykkt þessa.

GJÖRT í Róm 17. júlí árið 1998.

ROME STATUTE OF THE INTERNATIONAL CRIMINAL COURT


PREAMBLE

The States Parties to this Statute,

Conscious that all peoples are united by common bonds, their cultures pieced together in a shared heritage, and concerned that this delicate mosaic may be shattered at any time,

Mindful that during this century millions of children, women and men have been victims of unimaginable atrocities that deeply shock the conscience of humanity,

Recognizing that such grave crimes threaten the peace, security and well-being of the world,

Affirming that the most serious crimes of concern to the international community as a whole must not go unpunished and that their effective prosecution must be ensured by taking measures at the national level and by enhancing international cooperation,


Determined to put an end to impunity for the perpetrators of these crimes and thus to contribute to the prevention of such crimes,

Recalling that it is the duty of every State to exercise its criminal jurisdiction over those responsible for international crimes,

Reaffirming the Purposes and Principles of the Charter of the United Nations, and in particular that all States shall refrain from the threat or use of force against the territorial integrity or political independence of any State, or in any other manner inconsistent with the Purposes of the United Nations,

Emphasizing in this connection that nothing in this Statute shall be taken as authorizing any State Party to intervene in an armed conflict or in the internal affairs of any State,

Determined to these ends and for the sake of present and future generations, to establish an independent permanent International Criminal Court in relationship with the United Nations system, with jurisdiction over the most serious crimes of concern to the international community as a whole,

Emphasizing that the International Criminal Court established under this Statute shall be complementary to national criminal jurisdictions,

Resolved to guarantee lasting respect for and the enforcement of international justice,

Have agreed as follows

PART 1. ESTABLISHMENT OF THE COURT


Article 1


The Court


    An International Criminal Court (“the Court”) is hereby established. It shall be a permanent institution and shall have the power to exercise its jurisdiction over persons for the most serious crimes of international concern, as referred to in this Statute, and shall be complementary to national criminal jurisdictions. The jurisdiction and functioning of the Court shall be governed by the provisions of this Statute.


Article 2


Relationship of the Court with the United Nations


    The Court shall be brought into relationship with the United Nations through an agreement to be approved by the Assembly of States Parties to this Statute and thereafter concluded by the President of the Court on its behalf.

Article 3


Seat of the Court


    1. The seat of the Court shall be established at The Hague in the Netherlands (“the host State”).
    2. The Court shall enter into a headquarters agreement with the host State, to be approved by the Assembly of States Parties and thereafter concluded by the President of the Court on its behalf.
    3. The Court may sit elsewhere, whenever it considers it desirable, as provided in this Statute.


Article 4


Legal status and powers of the Court


    1. The Court shall have international legal personality. It shall also have such legal capacity as may be necessary for the exercise of its functions and the fulfilment of its purposes.
    2. The Court may exercise its functions and powers, as provided in this Statute, on the territory of any State Party and, by special agreement, on the territory of any other State.


PART 2. JURISDICTION, ADMISSIBILITY


AND APPLICABLE LAW

Article 5


Crimes within the jurisdiction of the Court


    1. The jurisdiction of the Court shall be limited to the most serious crimes of concern to the international community as a whole. The Court has jurisdiction in accordance with this Statute with respect to the following crimes:
    (a) The crime of genocide;
    (b) Crimes against humanity;
    (c) War crimes;
    (d) The crime of aggression.
    2. The Court shall exercise jurisdiction over the crime of aggression once a provision is adopted in accordance with articles 121 and 123 defining the crime and setting out the conditions under which the Court shall exercise jurisdiction with respect to this crime. Such a provision shall be consistent with the relevant provisions of the Charter of the United Nations.

Article 6


Genocide


    For the purpose of this Statute, “genocide” means any of the following acts committed with intent to destroy, in whole or in part, a national, ethnical, racial or religious group, as such:
    (a) Killing members of the group;
    (b) Causing serious bodily or mental harm to members of the group;
    (c) Deliberately inflicting on the group conditions of life calculated to bring about its physical destruction in whole or in part;
    (d) Imposing measures intended to prevent births within the group;
    (e) Forcibly transferring children of the group to another group.

Article 7


Crimes against humanity


    1. For the purpose of this Statute, “crime against humanity” means any of the following acts when committed as part of a widespread or systematic attack directed against any civilian population, with knowledge of the attack:
    (a) Murder;
    (b) Extermination;
    (c) Enslavement;
    (d) Deportation or forcible transfer of population;
    (e) Imprisonment or other severe deprivation of physical liberty in violation of fundamental rules of international law;
    (f) Torture;
    (g) Rape, sexual slavery, enforced prostitution, forced pregnancy, enforced sterilization, or any other form of sexual violence of comparable gravity;
    (h) Persecution against any identifiable group or collectivity on political, racial, national, ethnic, cultural, religious, gender as defined in paragraph 3, or other grounds that are universally recognized as impermissible under international law, in connection with any act referred to in this paragraph or any crime within the jurisdiction of the Court;

    (i) Enforced disappearance of persons;
    (j) The crime of apartheid;
    (k) Other inhumane acts of a similar character intentionally causing great suffering, or serious injury to body or to mental or physical health.

    2. For the purpose of paragraph 1:
    (a) “Attack directed against any civilian population” means a course of conduct involving the multiple commission of acts referred to in paragraph 1 against any civilian population, pursuant to or in furtherance of a State or organizational policy to commit such attack;
    (b) “Extermination” includes the intentional infliction of conditions of life, inter alia the deprivation of access to food and medicine, calculated to bring about the destruction of part of a population;
    (c) “Enslavement” means the exercise of any or all of the powers attaching to the right of ownership over a person and includes the exercise of such power in the course of trafficking in persons, in particular women and children;
    (d) “Deportation or forcible transfer of population” means forced displacement of the persons concerned by expulsion or other coercive acts from the area in which they are lawfully present, without grounds permitted under international law;
    (e) “Torture” means the intentional infliction of severe pain or suffering, whether physical or mental, upon a person in the custody or under the control of the accused; except that torture shall not include pain or suffering arising only from, inherent in or incidental to, lawful sanctions;
    (f) “Forced pregnancy” means the unlawful confinement of a woman forcibly made pregnant, with the intent of affecting the ethnic composition of any population or carrying out other grave violations of international law. This definition shall not in any way be interpreted as affecting national laws relating to pregnancy;
    (g) “Persecution” means the intentional and severe deprivation of fundamental rights contrary to international law by reason of the identity of the group or collectivity;
    (h) “The crime of apartheid” means inhumane acts of a character similar to those referred to in paragraph 1, committed in the context of an institutionalized regime of systematic oppression and domination by one racial group over any other racial group or groups and committed with the intention of maintaining that regime;
    (i) “Enforced disappearance of persons” means the arrest, detention or abduction of persons by, or with the authorization, support or acquiescence of, a State or a political organization, followed by a refusal to acknowledge that deprivation of freedom or to give information on the fate or whereabouts of those persons, with the intention of removing them from the protection of the law for a prolonged period of time.
    3. For the purpose of this Statute, it is understood that the term “gender” refers to the two sexes, male and female, within the context of society. The term “gender” does not indicate any meaning different from the above.

Article 8


War crimes


    1. The Court shall have jurisdiction in respect of war crimes in particular when committed as part of a plan or policy or as part of a large-scale commission of such crimes.
    2. For the purpose of this Statute, “war crimes” means:
    (a) Grave breaches of the Geneva Conventions of 12 August 1949, namely, any of the following acts against persons or property protected under the provisions of the relevant Geneva Convention:

    (i) Wilful killing;
    (ii) Torture or inhuman treatment, including biological experiments;
    (iii) Wilfully causing great suffering, or serious injury to body or health;
    (iv) Extensive destruction and appropriation of property, not justified by military necessity and carried out unlawfully and wantonly;

    (v) Compelling a prisoner of war or other protected person to serve in the forces of a hostile Power;
    (vi) Wilfully depriving a prisoner of war or other protected person of the rights of fair and regular trial;
    (vii) Unlawful deportation or transfer or unlawful confinement;
    (viii) Taking of hostages.
    (b) Other serious violations of the laws and customs applicable in international armed conflict, within the established framework of international law, namely, any of the following acts:
    (i) Intentionally directing attacks against the civilian population as such or against individual civilians not taking direct part in hostilities;
    (ii) Intentionally directing attacks against civilian objects, that is, objects which are not military objectives;
    (iii) Intentionally directing attacks against personnel, installations, material, units or vehicles involved in a humanitarian assistance or peacekeeping mission in accordance with the Charter of the United Nations, as long as they are entitled to the protection given to civilians or civilian objects under the international law of armed conflict;
    (iv) Intentionally launching an attack in the knowledge that such attack will cause incidental loss of life or injury to civilians or damage to civilian objects or widespread, long-term and severe damage to the natural environment which would be clearly excessive in relation to the concrete and direct overall military advantage anticipated;
    (v) Attacking or bombarding, by whatever means, towns, villages, dwellings or buildings which are undefended and which are not military objectives;
    (vi) Killing or wounding a combatant who, having laid down his arms or having no longer means of defence, has surrendered at discretion;
    (vii) Making improper use of a flag of truce, of the flag or of the military insignia and uniform of the enemy or of the United Nations, as well as of the distinctive emblems of the Geneva Conventions, resulting in death or serious personal injury;
    (viii) The transfer, directly or indirectly, by the Occupying Power of parts of its own civilian population into the territory it occupies, or the deportation or transfer of all or parts of the population of the occupied territory within or outside this territory;
    (ix) Intentionally directing attacks against buildings dedicated to religion, education, art, science or charitable purposes, historic monuments, hospitals and places where the sick and wounded are collected, provided they are not military objectives;

    (x) Subjecting persons who are in the power of an adverse party to physical mutilation or to medical or scientific experiments of any kind which are neither justified by the medical, dental or hospital treatment of the person concerned nor carried out in his or her interest, and which cause death to or seriously endanger the health of such person or persons;
    (xi) Killing or wounding treacherously individuals belonging to the hostile nation or army;
    (xii) Declaring that no quarter will be given;
    (xiii) Destroying or seizing the enemy's property unless such destruction or seizure be imperatively demanded by the necessities of war;
    (xiv) Declaring abolished, suspended or inadmissible in a court of law the rights and actions of the nationals of the hostile party;
    (xv) Compelling the nationals of the hostile party to take part in the operations of war directed against their own country, even if they were in the belligerent's service before the commencement of the war;


    (xvi) Pillaging a town or place, even when taken by assault;

    (xvii) Employing poison or poisoned weapons;
    (xviii) Employing asphyxiating, poisonous or other gases, and all analogous liquids, materials or devices;
    (xix) Employing bullets which expand or flatten easily in the human body, such as bullets with a hard envelope which does not entirely cover the core or is pierced with incisions;
    (xx) Employing weapons, projectiles and material and methods of warfare which are of a nature to cause superfluous injury or unnecessary suffering or which are inherently indiscriminate in violation of the international law of armed conflict, provided that such weapons, projectiles and material and methods of warfare are the subject of a comprehensive prohibition and are included in an annex to this Statute, by an amendment in accordance with the relevant provisions set forth in articles 121 and 123;
    (xxi) Committing outrages upon personal dignity, in particular humiliating and degrading treatment;
    (xxii) Committing rape, sexual slavery, enforced prostitution, forced pregnancy, as defined in article 7, paragraph 2 (f), enforced sterilization, or any other form of sexual violence also constituting a grave breach of the Geneva Conventions;

    (xxiii) Utilizing the presence of a civilian or other protected person to render certain points, areas or military forces immune from military operations;

    (xxiv) Intentionally directing attacks against buildings, material, medical units and transport, and personnel using the distinctive emblems of the Geneva Conventions in conformity with international law;
    (xxv) Intentionally using starvation of civilians as a method of warfare by depriving them of objects indispensable to their survival, including wilfully impeding relief supplies as provided for under the Geneva Conventions;

    (xxvi) Conscripting or enlisting children under the age of fifteen years into the national armed forces or using them to participate actively in hostilities.
    (c) In the case of an armed conflict not of an international character, serious violations of article 3 common to the four Geneva Conventions of 12 August 1949, namely, any of the following acts committed against persons taking no active part in the hostilities, including members of armed forces who have laid down their arms and those placed hors de combat by sickness, wounds, detention or any other cause:
    (i) Violence to life and person, in particular murder of all kinds, mutilation, cruel treatment and torture;
    (ii) Committing outrages upon personal dignity, in particular humiliating and degrading treatment;
    (iii) Taking of hostages;
    (iv) The passing of sentences and the carrying out of executions without previous judgement pronounced by a regularly constituted court, affording all judicial guarantees which are generally recognized as indispensable.
    (d) Paragraph 2 (c) applies to armed conflicts not of an international character and thus does not apply to situations of internal disturbances and tensions, such as riots, isolated and sporadic acts of violence or other acts of a similar nature.
    (e) Other serious violations of the laws and customs applicable in armed conflicts not of an international character, within the established framework of international law, namely, any of the following acts:
    (i) Intentionally directing attacks against the civilian population as such or against individual civilians not taking direct part in hostilities;
    (ii) Intentionally directing attacks against buildings, material, medical units and transport, and personnel using the distinctive emblems of the Geneva Conventions in conformity with international law;
    (iii) Intentionally directing attacks against personnel, installations, material, units or vehicles involved in a humanitarian assistance or peacekeeping mission in accordance with the Charter of the United Nations, as long as they are entitled to the protection given to civilians or civilian objects under the international law of armed conflict;
    (iv) Intentionally directing attacks against buildings dedicated to religion, education, art, science or charitable purposes, historic monuments, hospitals and places where the sick and wounded are collected, provided they are not military objectives;

    (v) Pillaging a town or place, even when taken by assault;
    (vi) Committing rape, sexual slavery, enforced prostitution, forced pregnancy, as defined in article 7, paragraph 2 (f), enforced sterilization, and any other form of sexual violence also constituting a serious violation of article 3 common to the four Geneva Conventions;

    (vii) Conscripting or enlisting children under the age of fifteen years into armed forces or groups or using them to participate actively in hostilities;
    (viii) Ordering the displacement of the civilian population for reasons related to the conflict, unless the security of the civilians involved or imperative military reasons so demand;
    (ix) Killing or wounding treacherously a combatant adversary;
    (x) Declaring that no quarter will be given;
    (xi) Subjecting persons who are in the power of another party to the conflict to physical mutilation or to medical or scientific experiments of any kind which are neither justified by the medical, dental or hospital treatment of the person concerned nor carried out in his or her interest, and which cause death to or seriously endanger the health of such person or persons;
    (xii) Destroying or seizing the property of an adversary unless such destruction or seizure be imperatively demanded by the necessities of the conflict;
    (f) Paragraph 2 (e) applies to armed conflicts not of an international character and thus does not apply to situations of internal disturbances and tensions, such as riots, isolated and sporadic acts of violence or other acts of a similar nature. It applies to armed conflicts that take place in the territory of a State when there is protracted armed conflict between governmental authorities and organized armed groups or between such groups.
    3. Nothing in paragraph 2 (c) and (e) shall affect the responsibility of a Government to maintain or re- establish law and order in the State or to defend the unity and territorial integrity of the State, by all legitimate means.

Article 9


Elements of Crimes


    1. Elements of Crimes shall assist the Court in the interpretation and application of articles 6, 7 and 8. They shall be adopted by a two-thirds majority of the members of the Assembly of States Parties.
    2. Amendments to the Elements of Crimes may be proposed by:
    (a) Any State Party;
    (b) The judges acting by an absolute majority;
    (c) The Prosecutor.

    Such amendments shall be adopted by a two-thirds majority of the members of the Assembly of States Parties.
    3. The Elements of Crimes and amendments thereto shall be consistent with this Statute.

Article 10


    Nothing in this Part shall be interpreted as limiting or prejudicing in any way existing or developing rules of international law for purposes other than this Statute.

Article 11


Jurisdiction ratione temporis


    1. The Court has jurisdiction only with respect to crimes committed after the entry into force of this Statute.
    2. If a State becomes a Party to this Statute after its entry into force, the Court may exercise its jurisdiction only with respect to crimes committed after the entry into force of this Statute for that State, unless that State has made a declaration under article 12, paragraph 3.

Article 12


Preconditions to the exercise of jurisdiction


    1. A State which becomes a Party to this Statute thereby accepts the jurisdiction of the Court with respect to the crimes referred to in article 5.
    2. In the case of article 13, paragraph (a) or (c), the Court may exercise its jurisdiction if one or more of the following States are Parties to this Statute or have accepted the jurisdiction of the Court in accordance with paragraph 3:
    (a) The State on the territory of which the conduct in question occurred or, if the crime was committed on board a vessel or aircraft, the State of registration of that vessel or aircraft;
    (b) The State of which the person accused of the crime is a national.
    3. If the acceptance of a State which is not a Party to this Statute is required under paragraph 2, that State may, by declaration lodged with the Registrar, accept the exercise of jurisdiction by the Court with respect to the crime in question. The accepting State shall cooperate with the Court without any delay or exception in accordance with Part 9.


Article 13


Exercise of jurisdiction


    The Court may exercise its jurisdiction with respect to a crime referred to in article 5 in accordance with the provisions of this Statute if:
    (a) A situation in which one or more of such crimes appears to have been committed is referred to the Prosecutor by a State Party in accordance with article 14;
    (b) A situation in which one or more of such crimes appears to have been committed is referred to the Prosecutor by the Security Council acting under Chapter VII of the Charter of the United Nations; or
    (c) The Prosecutor has initiated an investigation in respect of such a crime in accordance with article 15.

Article 14


Referral of a situation by a State Party


    1. A State Party may refer to the Prosecutor a situation in which one or more crimes within the jurisdiction of the Court appear to have been committed requesting the Prosecutor to investigate the situation for the purpose of determining whether one or more specific persons should be charged with the commission of such crimes.
    2. As far as possible, a referral shall specify the relevant circumstances and be accompanied by such supporting documentation as is available to the State referring the situation.

Article 15


Prosecutor


    1. The Prosecutor may initiate investigations proprio motu on the basis of information on crimes within the jurisdiction of the Court.
    2. The Prosecutor shall analyse the seriousness of the information received. For this purpose, he or she may seek additional information from States, organs of the United Nations, intergovernmental or non- governmental organizations, or other reliable sources that he or she deems appropriate, and may receive written or oral testimony at the seat of the Court.

    3. If the Prosecutor concludes that there is a reasonable basis to proceed with an investigation, he or she shall submit to the Pre-Trial Chamber a request for authorization of an investigation, together with any supporting material collected. Victims may make representations to the Pre-Trial Chamber, in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.
    4. If the Pre-Trial Chamber, upon examination of the request and the supporting material, considers that there is a reasonable basis to proceed with an investigation, and that the case appears to fall within the jurisdiction of the Court, it shall authorize the commencement of the investigation, without prejudice to subsequent determinations by the Court with regard to the jurisdiction and admissibility of a case.
    5. The refusal of the Pre-Trial Chamber to authorize the investigation shall not preclude the presentation of a subsequent request by the Prosecutor based on new facts or evidence regarding the same situation.
    6. If, after the preliminary examination referred to in paragraphs 1 and 2, the Prosecutor concludes that the information provided does not constitute a reasonable basis for an investigation, he or she shall inform those who provided the information. This shall not preclude the Prosecutor from considering further information submitted to him or her regarding the same situation in the light of new facts or evidence.

Article 16
Deferral of investigation or prosecution

    No investigation or prosecution may be commenced or proceeded with under this Statute for a period of 12 months after the Security Council, in a resolution adopted under Chapter VII of the Charter of the United Nations, has requested the Court to that effect; that request may be renewed by the Council under the same conditions.

Article 17
Issues of admissibility

    1. Having regard to paragraph 10 of the Preamble and article 1, the Court shall determine that a case is inadmissible where:
    (a) The case is being investigated or prosecuted by a State which has jurisdiction over it, unless the State is unwilling or unable genuinely to carry out the investigation or prosecution;
    (b) The case has been investigated by a State which has jurisdiction over it and the State has decided not to prosecute the person concerned, unless the decision resulted from the unwillingness or inability of the State genuinely to prosecute;
    (c) The person concerned has already been tried for conduct which is the subject of the complaint, and a trial by the Court is not permitted under article 20, paragraph 3;

    (d) The case is not of sufficient gravity to justify further action by the Court.
    2. In order to determine unwillingness in a particular case, the Court shall consider, having regard to the principles of due process recognized by international law, whether one or more of the following exist, as applicable:

    (a) The proceedings were or are being undertaken or the national decision was made for the purpose of shielding the person concerned from criminal responsibility for crimes within the jurisdiction of the Court referred to in article 5;
    (b) There has been an unjustified delay in the proceedings which in the circumstances is inconsistent with an intent to bring the person concerned to justice;
    (c) The proceedings were not or are not being conducted independently or impartially, and they were or are being conducted in a manner which, in the circumstances, is inconsistent with an intent to bring the person concerned to justice.
    3. In order to determine inability in a particular case, the Court shall consider whether, due to a total or substantial collapse or unavailability of its national judicial system, the State is unable to obtain the accused or the necessary evidence and testimony or otherwise unable to carry out its proceedings.


Article 18
Preliminary rulings regarding admissibility

    1. When a situation has been referred to the Court pursuant to article 13 (a) and the Prosecutor has determined that there would be a reasonable basis to commence an investigation, or the Prosecutor initiates an investigation pursuant to articles 13 (c) and 15, the Prosecutor shall notify all States Parties and those States which, taking into account the information available, would normally exercise jurisdiction over the crimes concerned. The Prosecutor may notify such States on a confidential basis and, where the Prosecutor believes it necessary to protect persons, prevent destruction of evidence or prevent the absconding of persons, may limit the scope of the information provided to States.
    2. Within one month of receipt of that notification, a State may inform the Court that it is investigating or has investigated its nationals or others within its jurisdiction with respect to criminal acts which may constitute crimes referred to in article 5 and which relate to the information provided in the notification to States. At the request of that State, the Prosecutor shall defer to the State's investigation of those persons unless the Pre-Trial Chamber, on the application of the Prosecutor, decides to authorize the investigation.
    3. The Prosecutor's deferral to a State's investigation shall be open to review by the Prosecutor six months after the date of deferral or at any time when there has been a significant change of circumstances based on the State's unwillingness or inability genuinely to carry out the investigation.
    4. The State concerned or the Prosecutor may appeal to the Appeals Chamber against a ruling of the Pre-Trial Chamber, in accordance with article 82. The appeal may be heard on an expedited basis.
    5. When the Prosecutor has deferred an investigation in accordance with paragraph 2, the Prosecutor may request that the State concerned periodically inform the Prosecutor of the progress of its investigations and any subsequent prosecutions. States Parties shall respond to such requests without undue delay.
    6. Pending a ruling by the Pre-Trial Chamber, or at any time when the Prosecutor has deferred an investigation under this article, the Prosecutor may, on an exceptional basis, seek authority from the Pre- Trial Chamber to pursue necessary investigative steps for the purpose of preserving evidence where there is a unique opportunity to obtain important evidence or there is a significant risk that such evidence may not be subsequently available.
    7. A State which has challenged a ruling of the Pre-Trial Chamber under this article may challenge the admissibility of a case under article 19 on the grounds of additional significant facts or significant change of circumstances.

Article 19
Challenges to the jurisdiction of the Court
or the admissibility of a case

    1. The Court shall satisfy itself that it has jurisdiction in any case brought before it. The Court may, on its own motion, determine the admissibility of a case in accordance with article 17.
    2. Challenges to the admissibility of a case on the grounds referred to in article 17 or challenges to the jurisdiction of the Court may be made by:
    (a) An accused or a person for whom a warrant of arrest or a summons to appear has been issued under article 58;

    (b) A State which has jurisdiction over a case, on the ground that it is investigating or prosecuting the case or has investigated or prosecuted; or
    (c) A State from which acceptance of jurisdiction is required under article 12.
    3. The Prosecutor may seek a ruling from the Court regarding a question of jurisdiction or admissibility. In proceedings with respect to jurisdiction or admissibility, those who have referred the situation under article 13, as well as victims, may also submit observations to the Court.

    4. The admissibility of a case or the jurisdiction of the Court may be challenged only once by any person or State referred to in paragraph 2. The challenge shall take place prior to or at the commencement of the trial. In exceptional circumstances, the Court may grant leave for a challenge to be brought more than once or at a time later than the commencement of the trial. Challenges to the admissibility of a case, at the commencement of a trial, or subsequently with the leave of the Court, may be based only on article 17, paragraph 1 (c).
    5. A State referred to in paragraph 2 (b) and (c) shall make a challenge at the earliest opportunity.
    6. Prior to the confirmation of the charges, challenges to the admissibility of a case or challenges to the jurisdiction of the Court shall be referred to the Pre-Trial Chamber. After confirmation of the charges, they shall be referred to the Trial Chamber. Decisions with respect to jurisdiction or admissibility may be appealed to the Appeals Chamber in accordance with article 82.
    7. If a challenge is made by a State referred to in paragraph 2 (b) or (c), the Prosecutor shall suspend the investigation until such time as the Court makes a determination in accordance with article 17.
    8. Pending a ruling by the Court, the Prosecutor may seek authority from the Court:

    (a) To pursue necessary investigative steps of the kind referred to in article 18, paragraph 6;
    (b) To take a statement or testimony from a witness or complete the collection and examination of evidence which had begun prior to the making of the challenge; and
    (c) In cooperation with the relevant States, to prevent the absconding of persons in respect of whom the Prosecutor has already requested a warrant of arrest under article 58.

    9. The making of a challenge shall not affect the validity of any act performed by the Prosecutor or any order or warrant issued by the Court prior to the making of the challenge.
    10. If the Court has decided that a case is inadmissible under article 17, the Prosecutor may submit a request for a review of the decision when he or she is fully satisfied that new facts have arisen which negate the basis on which the case had previously been found inadmissible under article 17.
    11. If the Prosecutor, having regard to the matters referred to in article 17, defers an investigation, the Prosecutor may request that the relevant State make available to the Prosecutor information on the proceedings. That information shall, at the request of the State concerned, be confidential. If the Prosecutor thereafter decides to proceed with an investigation, he or she shall notify the State to which deferral of the proceedings has taken place.

Article 20
Ne bis in idem

    1. Except as provided in this Statute, no person shall be tried before the Court with respect to conduct which formed the basis of crimes for which the person has been convicted or acquitted by the Court.
    2. No person shall be tried by another court for a crime referred to in article 5 for which that person has already been convicted or acquitted by the Court.
    3. No person who has been tried by another court for conduct also proscribed under article 6, 7 or 8 shall be tried by the Court with respect to the same conduct unless the proceedings in the other court:

    (a) Were for the purpose of shielding the person concerned from criminal responsibility for crimes within the jurisdiction of the Court; or
    (b) Otherwise were not conducted independently or impartially in accordance with the norms of due process recognized by international law and were conducted in a manner which, in the circumstances, was inconsistent with an intent to bring the person concerned to justice.


Article 21
Applicable law

    1. The Court shall apply:
    (a) In the first place, this Statute, Elements of Crimes and its Rules of Procedure and Evidence;
    (b) In the second place, where appropriate, applicable treaties and the principles and rules of international law, including the established principles of the international law of armed conflict;
    (c) Failing that, general principles of law derived by the Court from national laws of legal systems of the world including, as appropriate, the national laws of States that would normally exercise jurisdiction over the crime, provided that those principles are not inconsistent with this Statute and with international law and internationally recognized norms and standards.
    2. The Court may apply principles and rules of law as interpreted in its previous decisions.

    3. The application and interpretation of law pursuant to this article must be consistent with internationally recognized human rights, and be without any adverse distinction founded on grounds such as gender as defined in article 7, paragraph 3, age, race, colour, language, religion or belief, political or other opinion, national, ethnic or social origin, wealth, birth or other status.

PART 3. GENERAL PRINCIPLES
OF CRIMINAL LAW
Article 22
Nullum crimen sine lege

    1. A person shall not be criminally responsible under this Statute unless the conduct in question constitutes, at the time it takes place, a crime within the jurisdiction of the Court.
    2. The definition of a crime shall be strictly construed and shall not be extended by analogy. In case of ambiguity, the definition shall be interpreted in favour of the person being investigated, prosecuted or convicted.
    3. This article shall not affect the characterization of any conduct as criminal under international law independently of this Statute.

Article 23
Nulla poena sine lege

    A person convicted by the Court may be punished only in accordance with this Statute.

Article 24
Non-retroactivity ratione personae

    1. No person shall be criminally responsible under this Statute for conduct prior to the entry into force of the Statute.
    2. In the event of a change in the law applicable to a given case prior to a final judgement, the law more favourable to the person being investigated, prosecuted or convicted shall apply.

Article 25
Individual criminal responsibility

    1. The Court shall have jurisdiction over natural persons pursuant to this Statute.
    2. A person who commits a crime within the jurisdiction of the Court shall be individually responsible and liable for punishment in accordance with this Statute.
    3. In accordance with this Statute, a person shall be criminally responsible and liable for punishment for a crime within the jurisdiction of the Court if that person:
    (a) Commits such a crime, whether as an individual, jointly with another or through another person, regardless of whether that other person is criminally responsible;
    (b) Orders, solicits or induces the commission of such a crime which in fact occurs or is attempted;

    (c) For the purpose of facilitating the commission of such a crime, aids, abets or otherwise assists in its commission or its attempted commission, including providing the means for its commission;

    (d) In any other way contributes to the commission or attempted commission of such a crime by a group of persons acting with a common purpose. Such contribution shall be intentional and shall either:

    (i) Be made with the aim of furthering the criminal activity or criminal purpose of the group, where such activity or purpose involves the commission of a crime within the jurisdiction of the Court; or
    (ii) Be made in the knowledge of the intention of the group to commit the crime;
    (e) In respect of the crime of genocide, directly and publicly incites others to commit genocide;
    (f) Attempts to commit such a crime by taking action that commences its execution by means of a substantial step, but the crime does not occur because of circumstances independent of the person's intentions. However, a person who abandons the effort to commit the crime or otherwise prevents the completion of the crime shall not be liable for punishment under this Statute for the attempt to commit that crime if that person completely and voluntarily gave up the criminal purpose.
    4. No provision in this Statute relating to individual criminal responsibility shall affect the responsibility of States under international law.

Article 26
Exclusion of jurisdiction over
persons under eighteen

    The Court shall have no jurisdiction over any person who was under the age of 18 at the time of the alleged commission of a crime.

Article 27
Irrelevance of official capacity

    1. This Statute shall apply equally to all persons without any distinction based on official capacity. In particular, official capacity as a Head of State or Government, a member of a Government or parliament, an elected representative or a government official shall in no case exempt a person from criminal responsibility under this Statute, nor shall it, in and of itself, constitute a ground for reduction of sentence.
    2. Immunities or special procedural rules which may attach to the official capacity of a person, whether under national or international law, shall not bar the Court from exercising its jurisdiction over such a person.

Article 28
Responsibility of commanders and other superiors

    In addition to other grounds of criminal responsibility under this Statute for crimes within the jurisdiction of the Court:
    (a) A military commander or person effectively acting as a military commander shall be criminally responsible for crimes within the jurisdiction of the Court committed by forces under his or her effective command and control, or effective authority and control as the case may be, as a result of his or her failure to exercise control properly over such forces, where:
    (i) That military commander or person either knew or, owing to the circumstances at the time, should have known that the forces were committing or about to commit such crimes; and
    (ii) That military commander or person failed to take all necessary and reasonable measures within his or her power to prevent or repress their commission or to submit the matter to the competent authorities for investigation and prosecution.

    (b) With respect to superior and subordinate relationships not described in paragraph (a), a superior shall be criminally responsible for crimes within the jurisdiction of the Court committed by subordinates under his or her effective authority and control, as a result of his or her failure to exercise control properly over such subordinates, where:
    (i) The superior either knew, or consciously disregarded information which clearly indicated, that the subordinates were committing or about to commit such crimes;
    (ii) The crimes concerned activities that were within the effective responsibility and control of the superior; and
    (iii) The superior failed to take all necessary and reasonable measures within his or her power to prevent or repress their commission or to submit the matter to the competent authorities for investigation and prosecution.

Article 29
Non-applicability of statute of limitations

    The crimes within the jurisdiction of the Court shall not be subject to any statute of limitations.

Article 30
Mental element

    1. Unless otherwise provided, a person shall be criminally responsible and liable for punishment for a crime within the jurisdiction of the Court only if the material elements are committed with intent and knowledge.
    2. For the purposes of this article, a person has intent where:
    (a) In relation to conduct, that person means to engage in the conduct;
    (b) In relation to a consequence, that person means to cause that consequence or is aware that it will occur in the ordinary course of events.
    3. For the purposes of this article, “knowledge” means awareness that a circumstance exists or a consequence will occur in the ordinary course of events. “Know” and “knowingly” shall be construed accordingly.

Article 31
Grounds for excluding criminal responsibility

    1. In addition to other grounds for excluding criminal responsibility provided for in this Statute, a person shall not be criminally responsible if, at the time of that person's conduct:
    (a) The person suffers from a mental disease or defect that destroys that person's capacity to appreciate the unlawfulness or nature of his or her conduct, or capacity to control his or her conduct to conform to the requirements of law;
    (b) The person is in a state of intoxication that destroys that person's capacity to appreciate the unlawfulness or nature of his or her conduct, or capacity to control his or her conduct to conform to the requirements of law, unless the person has become voluntarily intoxicated under such circumstances that the person knew, or disregarded the risk, that, as a result of the intoxication, he or she was likely to engage in conduct constituting a crime within the jurisdiction of the Court;
    (c) The person acts reasonably to defend himself or herself or another person or, in the case of war crimes, property which is essential for the survival of the person or another person or property which is essential for accomplishing a military mission, against an imminent and unlawful use of force in a manner proportionate to the degree of danger to the person or the other person or property protected. The fact that the person was involved in a defensive operation conducted by forces shall not in itself constitute a ground for excluding criminal responsibility under this subparagraph;
    (d) The conduct which is alleged to constitute a crime within the jurisdiction of the Court has been caused by duress resulting from a threat of imminent death or of continuing or imminent serious bodily harm against that person or another person, and the person acts necessarily and reasonably to avoid this threat, provided that the person does not intend to cause a greater harm than the one sought to be avoided. Such a threat may either be:

    (i) Made by other persons; or
    (ii) Constituted by other circumstances beyond that person's control.
    2. The Court shall determine the applicability of the grounds for excluding criminal responsibility provided for in this Statute to the case before it.
    3. At trial, the Court may consider a ground for excluding criminal responsibility other than those referred to in paragraph 1 where such a ground is derived from applicable law as set forth in article 21. The procedures relating to the consideration of such a ground shall be provided for in the Rules of Procedure and Evidence.

Article 32
Mistake of fact or mistake of law

    1. A mistake of fact shall be a ground for excluding criminal responsibility only if it negates the mental element required by the crime.
    2. A mistake of law as to whether a particular type of conduct is a crime within the jurisdiction of the Court shall not be a ground for excluding criminal responsibility. A mistake of law may, however, be a ground for excluding criminal responsibility if it negates the mental element required by such a crime, or as provided for in article 33.

Article 33
Superior orders and prescription of law

    1. The fact that a crime within the jurisdiction of the Court has been committed by a person pursuant to an order of a Government or of a superior, whether military or civilian, shall not relieve that person of criminal responsibility unless:
    (a) The person was under a legal obligation to obey orders of the Government or the superior in question;
    (b) The person did not know that the order was unlawful; and
    (c) The order was not manifestly unlawful.

    2. For the purposes of this article, orders to commit genocide or crimes against humanity are manifestly unlawful.

PART 4. COMPOSITION AND ADMINISTRATION OF THE COURT
Article 34
Organs of the Court

    The Court shall be composed of the following organs:
    (a) The Presidency;
    (b) An Appeals Division, a Trial Division and a Pre-Trial Division;
    (c) The Office of the Prosecutor;
    (d) The Registry.

Article 35
Service of judges

    1. All judges shall be elected as full-time members of the Court and shall be available to serve on that basis from the commencement of their terms of office.
    2. The judges composing the Presidency shall serve on a full-time basis as soon as they are elected.
    3. The Presidency may, on the basis of the workload of the Court and in consultation with its members, decide from time to time to what extent the remaining judges shall be required to serve on a full- time basis. Any such arrangement shall be without prejudice to the provisions of article 40.
    4. The financial arrangements for judges not required to serve on a full-time basis shall be made in accordance with article 49.

Article 36
Qualifications, nomination and election of judges

    1. Subject to the provisions of paragraph 2, there shall be 18 judges of the Court.
    2. (a) The Presidency, acting on behalf of the Court, may propose an increase in the number of judges specified in paragraph 1, indicating the reasons why this is considered necessary and appropriate. The Registrar shall promptly circulate any such proposal to all States Parties.
    (b) Any such proposal shall then be considered at a meeting of the Assembly of States Parties to be convened in accordance with article 112. The proposal shall be considered adopted if approved at the meeting by a vote of two thirds of the members of the Assembly of States Parties and shall enter into force at such time as decided by the Assembly of States Parties.
    (c) (i) Once a proposal for an increase in the number of judges has been adopted under subparagraph (b), the election of the additional judges shall take place at the next session of the Assembly of States Parties in accordance with paragraphs 3 to 8, and article 37, paragraph 2;
    (ii) Once a proposal for an increase in the number of judges has been adopted and brought into effect under subparagraphs (b) and (c) (i), it shall be open to the Presidency at any time thereafter, if the workload of the Court justifies it, to propose a reduction in the number of judges, provided that the number of judges shall not be reduced below that specified in paragraph 1. The proposal shall be dealt with in accordance with the procedure laid down in subparagraphs (a) and (b). In the event that the proposal is adopted, the number of judges shall be progressively decreased as the terms of office of serving judges expire, until the necessary number has been reached.
    3. (a) The judges shall be chosen from among persons of high moral character, impartiality and integrity who possess the qualifications required in their respective States for appointment to the highest judicial offices.
    (b) Every candidate for election to the Court shall:

    (i) Have established competence in criminal law and procedure, and the necessary relevant experience, whether as judge, prosecutor, advocate or in other similar capacity, in criminal proceedings; or

    (ii) Have established competence in relevant areas of international law such as international humanitarian law and the law of human rights, and extensive experience in a professional legal capacity which is of relevance to the judicial work of the Court;
    (c) Every candidate for election to the Court shall have an excellent knowledge of and be fluent in at least one of the working languages of the Court.
    4. (a) Nominations of candidates for election to the Court may be made by any State Party to this Statute, and shall be made either:
    (i) By the procedure for the nomination of candidates for appointment to the highest judicial offices in the State in question; or
    (ii) By the procedure provided for the nomination of candidates for the International Court of Justice in the Statute of that Court.
    Nominations shall be accompanied by a statement in the necessary detail specifying how the candidate fulfils the requirements of paragraph 3.

    (b) Each State Party may put forward one candidate for any given election who need not necessarily be a national of that State Party but shall in any case be a national of a State Party.
    (c) The Assembly of States Parties may decide to establish, if appropriate, an Advisory Committee on nominations. In that event, the Committee's composition and mandate shall be established by the Assembly of States Parties.
    5. For the purposes of the election, there shall be two lists of candidates:
    List A containing the names of candidates with the qualifications specified in paragraph 3 (b) (i); and

    List B containing the names of candidates with the qualifications specified in paragraph 3 (b) (ii).


    A candidate with sufficient qualifications for both lists may choose on which list to appear. At the first election to the Court, at least nine judges shall be elected from list A and at least five judges from list B. Subsequent elections shall be so organized as to maintain the equivalent proportion on the Court of judges qualified on the two lists.
    6. (a) The judges shall be elected by secret ballot at a meeting of the Assembly of States Parties convened for that purpose under article 112. Subject to paragraph 7, the persons elected to the Court shall be the 18 candidates who obtain the highest number of votes and a two-thirds majority of the States Parties present and voting.
    (b) In the event that a sufficient number of judges is not elected on the first ballot, successive ballots shall be held in accordance with the procedures laid down in subparagraph (a) until the remaining places have been filled.
    7. No two judges may be nationals of the same State. A person who, for the purposes of membership of the Court, could be regarded as a national of more than one State shall be deemed to be a national of the State in which that person ordinarily exercises civil and political rights.
    8. (a) The States Parties shall, in the selection of judges, take into account the need, within the membership of the Court, for:
    (i) The representation of the principal legal systems of the world;
    (ii) Equitable geographical representation; and

    (iii) A fair representation of female and male judges.
    (b) States Parties shall also take into account the need to include judges with legal expertise on specific issues, including, but not limited to, violence against women or children.

    9. (a) Subject to subparagraph (b), judges shall hold office for a term of nine years and, subject to subparagraph (c) and to article 37, paragraph 2, shall not be eligible for re-election.
    (b) At the first election, one third of the judges elected shall be selected by lot to serve for a term of three years; one third of the judges elected shall be selected by lot to serve for a term of six years; and the remainder shall serve for a term of nine years.
    (c) A judge who is selected to serve for a term of three years under subparagraph (b) shall be eligible for re-election for a full term.
    10. Notwithstanding paragraph 9, a judge assigned to a Trial or Appeals Chamber in accordance with article 39 shall continue in office to complete any trial or appeal the hearing of which has already commenced before that Chamber.

Article 37
Judicial vacancies

    1. In the event of a vacancy, an election shall be held in accordance with article 36 to fill the vacancy.
    2. A judge elected to fill a vacancy shall serve for the remainder of the predecessor's term and, if that period is three years or less, shall be eligible for re- election for a full term under article 36.


Article 38
The Presidency

    1. The President and the First and Second Vice- Presidents shall be elected by an absolute majority of the judges. They shall each serve for a term of three years or until the end of their respective terms of office as judges, whichever expires earlier. They shall be eligible for re-election once.
    2. The First Vice-President shall act in place of the President in the event that the President is unavailable or disqualified. The Second Vice-President shall act in place of the President in the event that both the President and the First Vice-President are unavailable or disqualified.
    3. The President, together with the First and Second Vice-Presidents, shall constitute the Presidency, which shall be responsible for:
    (a) The proper administration of the Court, with the exception of the Office of the Prosecutor; and
    (b) The other functions conferred upon it in accordance with this Statute.
    4. In discharging its responsibility under paragraph 3 (a), the Presidency shall coordinate with and seek the concurrence of the Prosecutor on all matters of mutual concern.

Article 39
Chambers

    1. As soon as possible after the election of the judges, the Court shall organize itself into the divisions specified in article 34, paragraph (b). The Appeals Division shall be composed of the President and four other judges, the Trial Division of not less than six judges and the Pre-Trial Division of not less than six judges. The assignment of judges to divisions shall be based on the nature of the functions to be performed by each division and the qualifications and experience of the judges elected to the Court, in such a way that each division shall contain an appropriate combination of expertise in criminal law and procedure and in international law. The Trial and Pre-Trial Divisions shall be composed predominantly of judges with criminal trial experience.
    2. (a) The judicial functions of the Court shall be carried out in each division by Chambers.
    (b) (i) The Appeals Chamber shall be composed of all the judges of the Appeals Division;
    (ii) The functions of the Trial Chamber shall be carried out by three judges of the Trial Division;
    (iii) The functions of the Pre-Trial Chamber shall be carried out either by three judges of the Pre-Trial Division or by a single judge of that division in accordance with this Statute and the Rules of Procedure and Evidence;
    (c) Nothing in this paragraph shall preclude the simultaneous constitution of more than one Trial Chamber or Pre-Trial Chamber when the efficient management of the Court's workload so requires.
    3. (a) Judges assigned to the Trial and Pre-Trial Divisions shall serve in those divisions for a period of three years, and thereafter until the completion of any case the hearing of which has already commenced in the division concerned.
    (b) Judges assigned to the Appeals Division shall serve in that division for their entire term of office.
    4. Judges assigned to the Appeals Division shall serve only in that division. Nothing in this article shall, however, preclude the temporary attachment of judges from the Trial Division to the Pre-Trial Division or vice versa, if the Presidency considers that the efficient management of the Court's workload so requires, provided that under no circumstances shall a judge who has participated in the pre-trial phase of a case be eligible to sit on the Trial Chamber hearing that case.

Article 40
Independence of the judges

    1. The judges shall be independent in the performance of their functions.
    2. Judges shall not engage in any activity which is likely to interfere with their judicial functions or to affect confidence in their independence.
    3. Judges required to serve on a full-time basis at the seat of the Court shall not engage in any other occupation of a professional nature.
    4. Any question regarding the application of paragraphs 2 and 3 shall be decided by an absolute majority of the judges. Where any such question concerns an individual judge, that judge shall not take part in the decision.

Article 41
Excusing and disqualification of judges

    1. The Presidency may, at the request of a judge, excuse that judge from the exercise of a function under this Statute, in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.
    2. (a) A judge shall not participate in any case in which his or her impartiality might reasonably be doubted on any ground. A judge shall be disqualified from a case in accordance with this paragraph if, inter alia, that judge has previously been involved in any capacity in that case before the Court or in a related criminal case at the national level involving the person being investigated or prosecuted. A judge shall also be disqualified on such other grounds as may be provided for in the Rules of Procedure and Evidence.
    (b) The Prosecutor or the person being investigated or prosecuted may request the disqualification of a judge under this paragraph.
    (c) Any question as to the disqualification of a judge shall be decided by an absolute majority of the judges. The challenged judge shall be entitled to present his or her comments on the matter, but shall not take part in the decision.

Article 42
The Office of the Prosecutor

    1. The Office of the Prosecutor shall act independently as a separate organ of the Court. It shall be responsible for receiving referrals and any substantiated information on crimes within the jurisdiction of the Court, for examining them and for conducting investigations and prosecutions before the Court. A member of the Office shall not seek or act on instructions from any external source.
    2. The Office shall be headed by the Prosecutor. The Prosecutor shall have full authority over the management and administration of the Office, including the staff, facilities and other resources thereof. The Prosecutor shall be assisted by one or more Deputy Prosecutors, who shall be entitled to carry out any of the acts required of the Prosecutor under this Statute. The Prosecutor and the Deputy Prosecutors shall be of different nationalities. They shall serve on a full-time basis.
    3. The Prosecutor and the Deputy Prosecutors shall be persons of high moral character, be highly competent in and have extensive practical experience in the prosecution or trial of criminal cases. They shall have an excellent knowledge of and be fluent in at least one of the working languages of the Court.
    4. The Prosecutor shall be elected by secret ballot by an absolute majority of the members of the Assembly of States Parties. The Deputy Prosecutors shall be elected in the same way from a list of candidates provided by the Prosecutor. The Prosecutor shall nominate three candidates for each position of Deputy Prosecutor to be filled. Unless a shorter term is decided upon at the time of their election, the Prosecutor and the Deputy Prosecutors shall hold office for a term of nine years and shall not be eligible for re-election.
    5. Neither the Prosecutor nor a Deputy Prosecutor shall engage in any activity which is likely to interfere with his or her prosecutorial functions or to affect confidence in his or her independence. They shall not engage in any other occupation of a professional nature.
    6. The Presidency may excuse the Prosecutor or a Deputy Prosecutor, at his or her request, from acting in a particular case.
    7. Neither the Prosecutor nor a Deputy Prosecutor shall participate in any matter in which their impartiality might reasonably be doubted on any ground. They shall be disqualified from a case in accordance with this paragraph if, inter alia, they have previously been involved in any capacity in that case before the Court or in a related criminal case at the national level involving the person being investigated or prosecuted.
    8. Any question as to the disqualification of the Prosecutor or a Deputy Prosecutor shall be decided by the Appeals Chamber.
    (a) The person being investigated or prosecuted may at any time request the disqualification of the Prosecutor or a Deputy Prosecutor on the grounds set out in this article.
    (b) The Prosecutor or the Deputy Prosecutor, as appropriate, shall be entitled to present his or her comments on the matter.
    9. The Prosecutor shall appoint advisers with legal expertise on specific issues, including, but not limited to, sexual and gender violence and violence against children.

Article 43
The Registry

    1. The Registry shall be responsible for the non-judicial aspects of the administration and servicing of the Court, without prejudice to the functions and powers of the Prosecutor in accordance with article 42.
    2. The Registry shall be headed by the Registrar, who shall be the principal administrative officer of the Court. The Registrar shall exercise his or her functions under the authority of the President of the Court.
    3. The Registrar and the Deputy Registrar shall be persons of high moral character, be highly competent and have an excellent knowledge of and be fluent in at least one of the working languages of the Court.
    4. The judges shall elect the Registrar by an absolute majority by secret ballot, taking into account any recommendation by the Assembly of States Parties. If the need arises and upon the recommendation of the Registrar, the judges shall elect, in the same manner, a Deputy Registrar.
    5. The Registrar shall hold office for a term of five years, shall be eligible for re-election once and shall serve on a full-time basis. The Deputy Registrar shall hold office for a term of five years or such shorter term as may be decided upon by an absolute majority of the judges, and may be elected on the basis that the Deputy Registrar shall be called upon to serve as required.
    6. The Registrar shall set up a Victims and Witnesses Unit within the Registry. This Unit shall provide, in consultation with the Office of the Prosecutor, protective measures and security arrangements, counselling and other appropriate assistance for witnesses, victims who appear before the Court, and others who are at risk on account of testimony given by such witnesses. The Unit shall include staff with expertise in trauma, including trauma related to crimes of sexual violence.

Article 44
Staff

    1. The Prosecutor and the Registrar shall appoint such qualified staff as may be required to their respective offices. In the case of the Prosecutor, this shall include the appointment of investigators.

    2. In the employment of staff, the Prosecutor and the Registrar shall ensure the highest standards of efficiency, competency and integrity, and shall have regard, mutatis mutandis, to the criteria set forth in article 36, paragraph 8.
    3. The Registrar, with the agreement of the Presidency and the Prosecutor, shall propose Staff Regulations which include the terms and conditions upon which the staff of the Court shall be appointed, remunerated and dismissed. The Staff Regulations shall be approved by the Assembly of States Parties.
    4. The Court may, in exceptional circumstances, employ the expertise of gratis personnel offered by States Parties, intergovernmental organizations or non-governmental organizations to assist with the work of any of the organs of the Court. The Prosecutor may accept any such offer on behalf of the Office of the Prosecutor. Such gratis personnel shall be employed in accordance with guidelines to be established by the Assembly of States Parties.

Article 45
Solemn undertaking

    Before taking up their respective duties under this Statute, the judges, the Prosecutor, the Deputy Prosecutors, the Registrar and the Deputy Registrar shall each make a solemn undertaking in open court to exercise his or her respective functions impartially and conscientiously.

Article 46
Removal from office

    1. A judge, the Prosecutor, a Deputy Prosecutor, the Registrar or the Deputy Registrar shall be removed from office if a decision to this effect is made in accordance with paragraph 2, in cases where that person:
    (a) Is found to have committed serious misconduct or a serious breach of his or her duties under this Statute, as provided for in the Rules of Procedure and Evidence; or
    (b) Is unable to exercise the functions required by this Statute.
    2. A decision as to the removal from office of a judge, the Prosecutor or a Deputy Prosecutor under paragraph 1 shall be made by the Assembly of States Parties, by secret ballot:
    (a) In the case of a judge, by a two-thirds majority of the States Parties upon a recommendation adopted by a two-thirds majority of the other judges;

    (b) In the case of the Prosecutor, by an absolute majority of the States Parties;
    (c) In the case of a Deputy Prosecutor, by an absolute majority of the States Parties upon the recommendation of the Prosecutor.
    3. A decision as to the removal from office of the Registrar or Deputy Registrar shall be made by an absolute majority of the judges.
    4. A judge, Prosecutor, Deputy Prosecutor, Registrar or Deputy Registrar whose conduct or ability to exercise the functions of the office as required by this Statute is challenged under this article shall have full opportunity to present and receive evidence and to make submissions in accordance with the Rules of Procedure and Evidence. The person in question shall not otherwise participate in the consideration of the matter.

Article 47
Disciplinary measures

    A judge, Prosecutor, Deputy Prosecutor, Registrar or Deputy Registrar who has committed misconduct of a less serious nature than that set out in article 46, paragraph 1, shall be subject to disciplinary measures, in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.

Article 48
Privileges and immunities

    1. The Court shall enjoy in the territory of each State Party such privileges and immunities as are necessary for the fulfilment of its purposes.

    2. The judges, the Prosecutor, the Deputy Prosecutors and the Registrar shall, when engaged on or with respect to the business of the Court, enjoy the same privileges and immunities as are accorded to heads of diplomatic missions and shall, after the expiry of their terms of office, continue to be accorded immunity from legal process of every kind in respect of words spoken or written and acts performed by them in their official capacity.
    3. The Deputy Registrar, the staff of the Office of the Prosecutor and the staff of the Registry shall enjoy the privileges and immunities and facilities necessary for the performance of their functions, in accordance with the agreement on the privileges and immunities of the Court.
    4. Counsel, experts, witnesses or any other person required to be present at the seat of the Court shall be accorded such treatment as is necessary for the proper functioning of the Court, in accordance with the agreement on the privileges and immunities of the Court.
    5. The privileges and immunities of:
    (a) A judge or the Prosecutor may be waived by an absolute majority of the judges;
    (b) The Registrar may be waived by the Presidency;
    (c) The Deputy Prosecutors and staff of the Office of the Prosecutor may be waived by the Prosecutor;
    (d) The Deputy Registrar and staff of the Registry may be waived by the Registrar.

Article 49
Salaries, allowances and expenses

    The judges, the Prosecutor, the Deputy Prosecutors, the Registrar and the Deputy Registrar shall receive such salaries, allowances and expenses as may be decided upon by the Assembly of States Parties. These salaries and allowances shall not be reduced during their terms of office.

Article 50
Official and working languages

    1. The official languages of the Court shall be Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish. The judgements of the Court, as well as other decisions resolving fundamental issues before the Court, shall be published in the official languages. The Presidency shall, in accordance with the criteria established by the Rules of Procedure and Evidence, determine which decisions may be considered as resolving fundamental issues for the purposes of this paragraph.
    2. The working languages of the Court shall be English and French. The Rules of Procedure and Evidence shall determine the cases in which other official languages may be used as working languages.
    3. At the request of any party to a proceeding or a State allowed to intervene in a proceeding, the Court shall authorize a language other than English or French to be used by such a party or State, provided that the Court considers such authorization to be adequately justified.

Article 51
Rules of Procedure and Evidence

    1. The Rules of Procedure and Evidence shall enter into force upon adoption by a two-thirds majority of the members of the Assembly of States Parties.
    2. Amendments to the Rules of Procedure and Evidence may be proposed by:
    (a) Any State Party;
    (b) The judges acting by an absolute majority; or
    (c) The Prosecutor.
    Such amendments shall enter into force upon adoption by a two-thirds majority of the members of the Assembly of States Parties.
    3. After the adoption of the Rules of Procedure and Evidence, in urgent cases where the Rules do not provide for a specific situation before the Court, the judges may, by a two-thirds majority, draw up provisional Rules to be applied until adopted, amended or rejected at the next ordinary or special session of the Assembly of States Parties.
    4. The Rules of Procedure and Evidence, amendments thereto and any provisional Rule shall be consistent with this Statute. Amendments to the Rules of Procedure and Evidence as well as provisional Rules shall not be applied retroactively to the detriment of the person who is being investigated or prosecuted or who has been convicted.
    5. In the event of conflict between the Statute and the Rules of Procedure and Evidence, the Statute shall prevail.

Article 52
Regulations of the Court

    1. The judges shall, in accordance with this Statute and the Rules of Procedure and Evidence, adopt, by an absolute majority, the Regulations of the Court necessary for its routine functioning.
    2. The Prosecutor and the Registrar shall be consulted in the elaboration of the Regulations and any amendments thereto.
    3. The Regulations and any amendments thereto shall take effect upon adoption unless otherwise decided by the judges. Immediately upon adoption, they shall be circulated to States Parties for comments. If within six months there are no objections from a majority of States Parties, they shall remain in force.

PART 5. INVESTIGATION AND PROSECUTION
Article 53
Initiation of an investigation

    1. The Prosecutor shall, having evaluated the information made available to him or her, initiate an investigation unless he or she determines that there is no reasonable basis to proceed under this Statute. In deciding whether to initiate an investigation, the Prosecutor shall consider whether:
    (a) The information available to the Prosecutor provides a reasonable basis to believe that a crime within the jurisdiction of the Court has been or is being committed;
    (b) The case is or would be admissible under article 17; and
    (c) Taking into account the gravity of the crime and the interests of victims, there are nonetheless substantial reasons to believe that an investigation would not serve the interests of justice.
    If the Prosecutor determines that there is no reasonable basis to proceed and his or her determination is based solely on subparagraph (c) above, he or she shall inform the Pre-Trial Chamber.
    2. If, upon investigation, the Prosecutor concludes that there is not a sufficient basis for a prosecution because:
    (a) There is not a sufficient legal or factual basis to seek a warrant or summons under article 58;

    (b) The case is inadmissible under article 17; or

    (c) A prosecution is not in the interests of justice, taking into account all the circumstances, including the gravity of the crime, the interests of victims and the age or infirmity of the alleged perpetrator, and his or her role in the alleged crime; the Prosecutor shall inform the Pre-Trial Chamber and the State making a referral under article 14 or the Security Council in a case under article 13, paragraph (b), of his or her conclusion and the reasons for the conclusion.
    3. (a) At the request of the State making a referral under article 14 or the Security Council under article 13, paragraph (b), the Pre-Trial Chamber may review a decision of the Prosecutor under paragraph 1 or 2 not to proceed and may request the Prosecutor to reconsider that decision.
    (b) In addition, the Pre-Trial Chamber may, on its own initiative, review a decision of the Prosecutor not to proceed if it is based solely on paragraph 1 (c) or 2 (c). In such a case, the decision of the Prosecutor shall be effective only if confirmed by the Pre-Trial Chamber.
    4. The Prosecutor may, at any time, reconsider a decision whether to initiate an investigation or prosecution based on new facts or information.


Article 54
Duties and powers of the Prosecutor
with respect to investigations

    1. The Prosecutor shall:
    (a) In order to establish the truth, extend the investigation to cover all facts and evidence relevant to an assessment of whether there is criminal responsibility under this Statute, and, in doing so, investigate incriminating and exonerating circumstances equally;

    (b) Take appropriate measures to ensure the effective investigation and prosecution of crimes within the jurisdiction of the Court, and in doing so, respect the interests and personal circumstances of victims and witnesses, including age, gender as defined in article 7, paragraph 3, and health, and take into account the nature of the crime, in particular where it involves sexual violence, gender violence or violence against children; and
    (c) Fully respect the rights of persons arising under this Statute.
    2. The Prosecutor may conduct investigations on the territory of a State:
    (a) In accordance with the provisions of Part 9; or
    (b) As authorized by the Pre-Trial Chamber under article 57, paragraph 3 (d).
    3. The Prosecutor may:
    (a) Collect and examine evidence;
    (b) Request the presence of and question persons being investigated, victims and witnesses;
    (c) Seek the cooperation of any State or intergovernmental organization or arrangement in accordance with its respective competence and/or mandate;
    (d) Enter into such arrangements or agreements, not inconsistent with this Statute, as may be necessary to facilitate the cooperation of a State, intergovernmental organization or person;
    (e) Agree not to disclose, at any stage of the proceedings, documents or information that the Prosecutor obtains on the condition of confidentiality and solely for the purpose of generating new evidence, unless the provider of the information consents; and

    (f) Take necessary measures, or request that necessary measures be taken, to ensure the confidentiality of information, the protection of any person or the preservation of evidence.


Article 55
Rights of persons during an investigation

    1. In respect of an investigation under this Statute, a person:
    (a) Shall not be compelled to incriminate himself or herself or to confess guilt;
    (b) Shall not be subjected to any form of coercion, duress or threat, to torture or to any other form of cruel, inhuman or degrading treatment or punishment;
    (c) Shall, if questioned in a language other than a language the person fully understands and speaks, have, free of any cost, the assistance of a competent interpreter and such translations as are necessary to meet the requirements of fairness; and
    (d) Shall not be subjected to arbitrary arrest or detention, and shall not be deprived of his or her liberty except on such grounds and in accordance with such procedures as are established in this Statute.
    2. Where there are grounds to believe that a person has committed a crime within the jurisdiction of the Court and that person is about to be questioned either by the Prosecutor, or by national authorities pursuant to a request made under Part 9, that person shall also have the following rights of which he or she shall be informed prior to being questioned:
    (a) To be informed, prior to being questioned, that there are grounds to believe that he or she has committed a crime within the jurisdiction of the Court;
    (b) To remain silent, without such silence being a consideration in the determination of guilt or innocence;
    (c) To have legal assistance of the person's choosing, or, if the person does not have legal assistance, to have legal assistance assigned to him or her, in any case where the interests of justice so require, and without payment by the person in any such case if the person does not have sufficient means to pay for it; and
    (d) To be questioned in the presence of counsel unless the person has voluntarily waived his or her right to counsel.

Article 56
Role of the Pre-Trial Chamber in relation
to a unique investigative opportunity

    1. (a) Where the Prosecutor considers an investigation to present a unique opportunity to take testimony or a statement from a witness or to examine, collect or test evidence, which may not be available subsequently for the purposes of a trial, the Prosecutor shall so inform the Pre-Trial Chamber.

    (b) In that case, the Pre-Trial Chamber may, upon request of the Prosecutor, take such measures as may be necessary to ensure the efficiency and integrity of the proceedings and, in particular, to protect the rights of the defence.
    (c) Unless the Pre-Trial Chamber orders otherwise, the Prosecutor shall provide the relevant information to the person who has been arrested or appeared in response to a summons in connection with the investigation referred to in subparagraph (a), in order that he or she may be heard on the matter.
    2. The measures referred to in paragraph 1 (b) may include:
    (a) Making recommendations or orders regarding procedures to be followed;
    (b) Directing that a record be made of the proceedings;
    (c) Appointing an expert to assist;
    (d) Authorizing counsel for a person who has been arrested, or appeared before the Court in response to a summons, to participate, or where there has not yet been such an arrest or appearance or counsel has not been designated, appointing another counsel to attend and represent the interests of the defence;

    (e) Naming one of its members or, if necessary, another available judge of the Pre-Trial or Trial Division to observe and make recommendations or orders regarding the collection and preservation of evidence and the questioning of persons;
    (f) Taking such other action as may be necessary to collect or preserve evidence.

    3. (a) Where the Prosecutor has not sought measures pursuant to this article but the Pre-Trial Chamber considers that such measures are required to preserve evidence that it deems would be essential for the defence at trial, it shall consult with the Prosecutor as to whether there is good reason for the Prosecutor's failure to request the measures. If upon consultation, the Pre-Trial Chamber concludes that the Prosecutor's failure to request such measures is unjustified, the Pre-Trial Chamber may take such measures on its own initiative.

    (b) A decision of the Pre-Trial Chamber to act on its own initiative under this paragraph may be appealed by the Prosecutor. The appeal shall be heard on an expedited basis.
    4. The admissibility of evidence preserved or collected for trial pursuant to this article, or the record thereof, shall be governed at trial by article 69, and given such weight as determined by the Trial Chamber.


Article 57
Functions and powers of the Pre-Trial Chamber

    1. Unless otherwise provided in this Statute, the Pre-Trial Chamber shall exercise its functions in accordance with the provisions of this article.
    2. (a) Orders or rulings of the Pre-Trial Chamber issued under articles 15, 18, 19, 54, paragraph 2, 61, paragraph 7, and 72 must be concurred in by a majority of its judges.
    (b) In all other cases, a single judge of the Pre- Trial Chamber may exercise the functions provided for in this Statute, unless otherwise provided for in the Rules of Procedure and Evidence or by a majority of the Pre-Trial Chamber.
    3. In addition to its other functions under this Statute, the Pre-Trial Chamber may:
    (a) At the request of the Prosecutor, issue such orders and warrants as may be required for the purposes of an investigation;
    (b) Upon the request of a person who has been arrested or has appeared pursuant to a summons under article 58, issue such orders, including measures such as those described in article 56, or seek such cooperation pursuant to Part 9 as may be necessary to assist the person in the preparation of his or her defence;
    (c) Where necessary, provide for the protection and privacy of victims and witnesses, the preservation of evidence, the protection of persons who have been arrested or appeared in response to a summons, and the protection of national security information;
    (d) Authorize the Prosecutor to take specific investigative steps within the territory of a State Party without having secured the cooperation of that State under Part 9 if, whenever possible having regard to the views of the State concerned, the Pre-Trial Chamber has determined in that case that the State is clearly unable to execute a request for cooperation due to the unavailability of any authority or any component of its judicial system competent to execute the request for cooperation under Part 9.
    (e) Where a warrant of arrest or a summons has been issued under article 58, and having due regard to the strength of the evidence and the rights of the parties concerned, as provided for in this Statute and the Rules of Procedure and Evidence, seek the cooperation of States pursuant to article 93, paragraph 1 (k), to take protective measures for the purpose of forfeiture, in particular for the ultimate benefit of victims.

Article 58
Issuance by the Pre-Trial Chamber of a warrant
of arrest or a summons to appear

    1. At any time after the initiation of an investigation, the Pre-Trial Chamber shall, on the application of the Prosecutor, issue a warrant of arrest of a person if, having examined the application and the evidence or other information submitted by the Prosecutor, it is satisfied that:
    (a) There are reasonable grounds to believe that the person has committed a crime within the jurisdiction of the Court; and
    (b) The arrest of the person appears necessary:
    (i) To ensure the person's appearance at trial;

    (ii) To ensure that the person does not obstruct or endanger the investigation or the court proceedings; or
    (iii) Where applicable, to prevent the person from continuing with the commission of that crime or a related crime which is within the jurisdiction of the Court and which arises out of the same circumstances.
    2. The application of the Prosecutor shall contain:
    (a) The name of the person and any other relevant identifying information;
    (b) A specific reference to the crimes within the jurisdiction of the Court which the person is alleged to have committed;
    (c) A concise statement of the facts which are alleged to constitute those crimes;
    (d) A summary of the evidence and any other information which establish reasonable grounds to believe that the person committed those crimes; and
    (e) The reason why the Prosecutor believes that the arrest of the person is necessary.
    3. The warrant of arrest shall contain:

    (a) The name of the person and any other relevant identifying information;
    (b) A specific reference to the crimes within the jurisdiction of the Court for which the person's arrest is sought; and
    (c) A concise statement of the facts which are alleged to constitute those crimes.
    4. The warrant of arrest shall remain in effect until otherwise ordered by the Court.
    5. On the basis of the warrant of arrest, the Court may request the provisional arrest or the arrest and surrender of the person under Part 9.
    6. The Prosecutor may request the Pre-Trial Chamber to amend the warrant of arrest by modifying or adding to the crimes specified therein. The Pre-Trial Chamber shall so amend the warrant if it is satisfied that there are reasonable grounds to believe that the person committed the modified or additional crimes.

    7. As an alternative to seeking a warrant of arrest, the Prosecutor may submit an application requesting that the Pre-Trial Chamber issue a summons for the person to appear. If the Pre-Trial Chamber is satisfied that there are reasonable grounds to believe that the person committed the crime alleged and that a summons is sufficient to ensure the person's appearance, it shall issue the summons, with or without conditions restricting liberty (other than detention) if provided for by national law, for the person to appear. The summons shall contain:
    (a) The name of the person and any other relevant identifying information;
    (b) The specified date on which the person is to appear;
    (c) A specific reference to the crimes within the jurisdiction of the Court which the person is alleged to have committed; and
    (d) A concise statement of the facts which are alleged to constitute the crime.
    The summons shall be served on the person.

Article 59
Arrest proceedings in the custodial State

    1. A State Party which has received a request for provisional arrest or for arrest and surrender shall immediately take steps to arrest the person in question in accordance with its laws and the provisions of Part 9.
    2. A person arrested shall be brought promptly before the competent judicial authority in the custodial State which shall determine, in accordance with the law of that State, that:
    (a) The warrant applies to that person;
    (b) The person has been arrested in accordance with the proper process; and
    (c) The person's rights have been respected.
    3. The person arrested shall have the right to apply to the competent authority in the custodial State for interim release pending surrender.

    4. In reaching a decision on any such application, the competent authority in the custodial State shall consider whether, given the gravity of the alleged crimes, there are urgent and exceptional circumstances to justify interim release and whether necessary safeguards exist to ensure that the custodial State can fulfil its duty to surrender the person to the Court. It shall not be open to the competent authority of the custodial State to consider whether the warrant of arrest was properly issued in accordance with article 58, paragraph 1 (a) and (b).
    5. The Pre-Trial Chamber shall be notified of any request for interim release and shall make recommendations to the competent authority in the custodial State. The competent authority in the custodial State shall give full consideration to such recommendations, including any recommendations on measures to prevent the escape of the person, before rendering its decision.
    6. If the person is granted interim release, the Pre- Trial Chamber may request periodic reports on the status of the interim release.
    7. Once ordered to be surrendered by the custodial State, the person shall be delivered to the Court as soon as possible.

Article 60
Initial proceedings before the Court

    1. Upon the surrender of the person to the Court, or the person's appearance before the Court voluntarily or pursuant to a summons, the Pre-Trial Chamber shall satisfy itself that the person has been informed of the crimes which he or she is alleged to have committed, and of his or her rights under this Statute, including the right to apply for interim release pending trial.
    2. A person subject to a warrant of arrest may apply for interim release pending trial. If the Pre-Trial Chamber is satisfied that the conditions set forth in article 58, paragraph 1, are met, the person shall continue to be detained. If it is not so satisfied, the Pre-Trial Chamber shall release the person, with or without conditions.
    3. The Pre-Trial Chamber shall periodically review its ruling on the release or detention of the person, and may do so at any time on the request of the Prosecutor or the person. Upon such review, it may modify its ruling as to detention, release or conditions of release, if it is satisfied that changed circumstances so require.

    4. The Pre-Trial Chamber shall ensure that a person is not detained for an unreasonable period prior to trial due to inexcusable delay by the Prosecutor. If such delay occurs, the Court shall consider releasing the person, with or without conditions.

    5. If necessary, the Pre-Trial Chamber may issue a warrant of arrest to secure the presence of a person who has been released.

Article 61
Confirmation of the charges before trial

    1. Subject to the provisions of paragraph 2, within a reasonable time after the person's surrender or voluntary appearance before the Court, the Pre-Trial Chamber shall hold a hearing to confirm the charges on which the Prosecutor intends to seek trial. The hearing shall be held in the presence of the Prosecutor and the person charged, as well as his or her counsel.
    2. The Pre-Trial Chamber may, upon request of the Prosecutor or on its own motion, hold a hearing in the absence of the person charged to confirm the charges on which the Prosecutor intends to seek trial when the person has:
    (a) Waived his or her right to be present; or

    (b) Fled or cannot be found and all reasonable steps have been taken to secure his or her appearance before the Court and to inform the person of the charges and that a hearing to confirm those charges will be held.
    In that case, the person shall be represented by counsel where the Pre-Trial Chamber determines that it is in the interests of justice.
    3. Within a reasonable time before the hearing, the person shall:
    (a) Be provided with a copy of the document containing the charges on which the Prosecutor intends to bring the person to trial; and
    (b) Be informed of the evidence on which the Prosecutor intends to rely at the hearing.
    The Pre-Trial Chamber may issue orders regarding the disclosure of information for the purposes of the hearing.
    4. Before the hearing, the Prosecutor may continue the investigation and may amend or withdraw any charges. The person shall be given reasonable notice before the hearing of any amendment to or withdrawal of charges. In case of a withdrawal of charges, the Prosecutor shall notify the Pre-Trial Chamber of the reasons for the withdrawal.
    5. At the hearing, the Prosecutor shall support each charge with sufficient evidence to establish substantial grounds to believe that the person committed the crime charged. The Prosecutor may rely on documentary or summary evidence and need not call the witnesses expected to testify at the trial.


    6. At the hearing, the person may:
    (a) Object to the charges;
    (b) Challenge the evidence presented by the Prosecutor; and
    (c) Present evidence.
    7. The Pre-Trial Chamber shall, on the basis of the hearing, determine whether there is sufficient evidence to establish substantial grounds to believe that the person committed each of the crimes charged. Based on its determination, the Pre-Trial Chamber shall:
    (a) Confirm those charges in relation to which it has determined that there is sufficient evidence, and commit the person to a Trial Chamber for trial on the charges as confirmed;
    (b) Decline to confirm those charges in relation to which it has determined that there is insufficient evidence;
    (c) Adjourn the hearing and request the Prosecutor to consider:
    (i) Providing further evidence or conducting further investigation with respect to a particular charge; or

    (ii) Amending a charge because the evidence submitted appears to establish a different crime within the jurisdiction of the Court.
    8. Where the Pre-Trial Chamber declines to confirm a charge, the Prosecutor shall not be precluded from subsequently requesting its confirmation if the request is supported by additional evidence.
    9. After the charges are confirmed and before the trial has begun, the Prosecutor may, with the permission of the Pre-Trial Chamber and after notice to the accused, amend the charges. If the Prosecutor seeks to add additional charges or to substitute more serious charges, a hearing under this article to confirm those charges must be held. After commencement of the trial, the Prosecutor may, with the permission of the Trial Chamber, withdraw the charges.
    10. Any warrant previously issued shall cease to have effect with respect to any charges which have not been confirmed by the Pre-Trial Chamber or which have been withdrawn by the Prosecutor.
    11. Once the charges have been confirmed in accordance with this article, the Presidency shall constitute a Trial Chamber which, subject to paragraph 9 and to article 64, paragraph 4, shall be responsible for the conduct of subsequent proceedings and may exercise any function of the Pre-Trial Chamber that is relevant and capable of application in those proceedings.

PART 6. THE TRIAL
Article 62
Place of trial

    Unless otherwise decided, the place of the trial shall be the seat of the Court.

Article 63
Trial in the presence of the accused

    1. The accused shall be present during the trial.
    2. If the accused, being present before the Court, continues to disrupt the trial, the Trial Chamber may remove the accused and shall make provision for him or her to observe the trial and instruct counsel from outside the courtroom, through the use of communications technology, if required. Such measures shall be taken only in exceptional circumstances after other reasonable alternatives have proved inadequate, and only for such duration as is strictly required.

Article 64
Functions and powers of the Trial Chamber

    1. The functions and powers of the Trial Chamber set out in this article shall be exercised in accordance with this Statute and the Rules of Procedure and Evidence.

    2. The Trial Chamber shall ensure that a trial is fair and expeditious and is conducted with full respect for the rights of the accused and due regard for the protection of victims and witnesses.
    3. Upon assignment of a case for trial in accordance with this Statute, the Trial Chamber assigned to deal with the case shall:
    (a) Confer with the parties and adopt such procedures as are necessary to facilitate the fair and expeditious conduct of the proceedings;
    (b) Determine the language or languages to be used at trial; and
    (c) Subject to any other relevant provisions of this Statute, provide for disclosure of documents or information not previously disclosed, sufficiently in advance of the commencement of the trial to enable adequate preparation for trial.

    4. The Trial Chamber may, if necessary for its effective and fair functioning, refer preliminary issues to the Pre-Trial Chamber or, if necessary, to another available judge of the Pre-Trial Division.

    5. Upon notice to the parties, the Trial Chamber may, as appropriate, direct that there be joinder or severance in respect of charges against more than one accused.
    6. In performing its functions prior to trial or during the course of a trial, the Trial Chamber may, as necessary:
    (a) Exercise any functions of the Pre-Trial Chamber referred to in article 61, paragraph 11;
    (b) Require the attendance and testimony of witnesses and production of documents and other evidence by obtaining, if necessary, the assistance of States as provided in this Statute;
    (c) Provide for the protection of confidential information;
    (d) Order the production of evidence in addition to that already collected prior to the trial or presented during the trial by the parties;

    (e) Provide for the protection of the accused, witnesses and victims; and
    (f) Rule on any other relevant matters.

    7. The trial shall be held in public. The Trial Chamber may, however, determine that special circumstances require that certain proceedings be in closed session for the purposes set forth in article 68, or to protect confidential or sensitive information to be given in evidence.

    8. (a) At the commencement of the trial, the Trial Chamber shall have read to the accused the charges previously confirmed by the Pre-Trial Chamber. The Trial Chamber shall satisfy itself that the accused understands the nature of the charges. It shall afford him or her the opportunity to make an admission of guilt in accordance with article 65 or to plead not guilty.
    (b) At the trial, the presiding judge may give directions for the conduct of proceedings, including to ensure that they are conducted in a fair and impartial manner. Subject to any directions of the presiding judge, the parties may submit evidence in accordance with the provisions of this Statute.
    9. The Trial Chamber shall have, inter alia, the power on application of a party or on its own motion to:
    (a) Rule on the admissibility or relevance of evidence; and
    (b) Take all necessary steps to maintain order in the course of a hearing.
    10. The Trial Chamber shall ensure that a complete record of the trial, which accurately reflects the proceedings, is made and that it is maintained and preserved by the Registrar.

Article 65
Proceedings on an admission of guilt

    1. Where the accused makes an admission of guilt pursuant to article 64, paragraph 8 (a), the Trial Chamber shall determine whether:
    (a) The accused understands the nature and consequences of the admission of guilt;
    (b) The admission is voluntarily made by the accused after sufficient consultation with defence counsel; and
    (c) The admission of guilt is supported by the facts of the case that are contained in:
    (i) The charges brought by the Prosecutor and admitted by the accused;
    (ii) Any materials presented by the Prosecutor which supplement the charges and which the accused accepts; and
    (iii) Any other evidence, such as the testimony of witnesses, presented by the Prosecutor or the accused.
    2. Where the Trial Chamber is satisfied that the matters referred to in paragraph 1 are established, it shall consider the admission of guilt, together with any additional evidence presented, as establishing all the essential facts that are required to prove the crime to which the admission of guilt relates, and may convict the accused of that crime.
    3. Where the Trial Chamber is not satisfied that the matters referred to in paragraph 1 are established, it shall consider the admission of guilt as not having been made, in which case it shall order that the trial be continued under the ordinary trial procedures provided by this Statute and may remit the case to another Trial Chamber.
    4. Where the Trial Chamber is of the opinion that a more complete presentation of the facts of the case is required in the interests of justice, in particular the interests of the victims, the Trial Chamber may:
    (a) Request the Prosecutor to present additional evidence, including the testimony of witnesses; or
    (b) Order that the trial be continued under the ordinary trial procedures provided by this Statute, in which case it shall consider the admission of guilt as not having been made and may remit the case to another Trial Chamber.
    5. Any discussions between the Prosecutor and the defence regarding modification of the charges, the admission of guilt or the penalty to be imposed shall not be binding on the Court.

Article 66
Presumption of innocence

    1. Everyone shall be presumed innocent until proved guilty before the Court in accordance with the applicable law.
    2. The onus is on the Prosecutor to prove the guilt of the accused.
    3. In order to convict the accused, the Court must be convinced of the guilt of the accused beyond reasonable doubt.

Article 67
Rights of the accused

    1. In the determination of any charge, the accused shall be entitled to a public hearing, having regard to the provisions of this Statute, to a fair hearing conducted impartially, and to the following minimum guarantees, in full equality:

    (a) To be informed promptly and in detail of the nature, cause and content of the charge, in a language which the accused fully understands and speaks;
    (b) To have adequate time and facilities for the preparation of the defence and to communicate freely with counsel of the accused's choosing in confidence;
    (c) To be tried without undue delay;

    (d) Subject to article 63, paragraph 2, to be present at the trial, to conduct the defence in person or through legal assistance of the accused's choosing, to be informed, if the accused does not have legal assistance, of this right and to have legal assistance assigned by the Court in any case where the interests of justice so require, and without payment if the accused lacks sufficient means to pay for it;
    (e) To examine, or have examined, the witnesses against him or her and to obtain the attendance and examination of witnesses on his or her behalf under the same conditions as witnesses against him or her. The accused shall also be entitled to raise defences and to present other evidence admissible under this Statute;
    (f) To have, free of any cost, the assistance of a competent interpreter and such translations as are necessary to meet the requirements of fairness, if any of the proceedings of or documents presented to the Court are not in a language which the accused fully understands and speaks;
    (g) Not to be compelled to testify or to confess guilt and to remain silent, without such silence being a consideration in the determination of guilt or innocence;
    (h) To make an unsworn oral or written statement in his or her defence; and
    (i) Not to have imposed on him or her any reversal of the burden of proof or any onus of rebuttal.
    2. In addition to any other disclosure provided for in this Statute, the Prosecutor shall, as soon as practicable, disclose to the defence evidence in the Prosecutor's possession or control which he or she believes shows or tends to show the innocence of the accused, or to mitigate the guilt of the accused, or which may affect the credibility of prosecution evidence. In case of doubt as to the application of this paragraph, the Court shall decide.

Article 68
Protection of the victims and witnesses and
their participation in the proceedings

    1. The Court shall take appropriate measures to protect the safety, physical and psychological well- being, dignity and privacy of victims and witnesses. In so doing, the Court shall have regard to all relevant factors, including age, gender as defined in article 7, paragraph 3, and health, and the nature of the crime, in particular, but not limited to, where the crime involves sexual or gender violence or violence against children. The Prosecutor shall take such measures particularly during the investigation and prosecution of such crimes. These measures shall not be prejudicial to or inconsistent with the rights of the accused and a fair and impartial trial.
    2. As an exception to the principle of public hearings provided for in article 67, the Chambers of the Court may, to protect victims and witnesses or an accused, conduct any part of the proceedings in camera or allow the presentation of evidence by electronic or other special means. In particular, such measures shall be implemented in the case of a victim of sexual violence or a child who is a victim or a witness, unless otherwise ordered by the Court, having regard to all the circumstances, particularly the views of the victim or witness.

    3. Where the personal interests of the victims are affected, the Court shall permit their views and concerns to be presented and considered at stages of the proceedings determined to be appropriate by the Court and in a manner which is not prejudicial to or inconsistent with the rights of the accused and a fair and impartial trial. Such views and concerns may be presented by the legal representatives of the victims where the Court considers it appropriate, in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.
    4. The Victims and Witnesses Unit may advise the Prosecutor and the Court on appropriate protective measures, security arrangements, counselling and assistance as referred to in article 43, paragraph 6.
    5. Where the disclosure of evidence or information pursuant to this Statute may lead to the grave endangerment of the security of a witness or his or her family, the Prosecutor may, for the purposes of any proceedings conducted prior to the commencement of the trial, withhold such evidence or information and instead submit a summary thereof. Such measures shall be exercised in a manner which is not prejudicial to or inconsistent with the rights of the accused and a fair and impartial trial.
    6. A State may make an application for necessary measures to be taken in respect of the protection of its servants or agents and the protection of confidential or sensitive information.


Article 69
Evidence

    1. Before testifying, each witness shall, in accordance with the Rules of Procedure and Evidence, give an undertaking as to the truthfulness of the evidence to be given by that witness.
    2. The testimony of a witness at trial shall be given in person, except to the extent provided by the measures set forth in article 68 or in the Rules of Procedure and Evidence. The Court may also permit the giving of viva voce (oral) or recorded testimony of a witness by means of video or audio technology, as well as the introduction of documents or written transcripts, subject to this Statute and in accordance with the Rules of Procedure and Evidence. These measures shall not be prejudicial to or inconsistent with the rights of the accused.
    3. The parties may submit evidence relevant to the case, in accordance with article 64. The Court shall have the authority to request the submission of all evidence that it considers necessary for the determination of the truth.

    4. The Court may rule on the relevance or admissibility of any evidence, taking into account, inter alia, the probative value of the evidence and any prejudice that such evidence may cause to a fair trial or to a fair evaluation of the testimony of a witness, in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.
    5. The Court shall respect and observe privileges on confidentiality as provided for in the Rules of Procedure and Evidence.
    6. The Court shall not require proof of facts of common knowledge but may take judicial notice of them.
    7. Evidence obtained by means of a violation of this Statute or internationally recognized human rights shall not be admissible if:
    (a) The violation casts substantial doubt on the reliability of the evidence; or
    (b) The admission of the evidence would be antithetical to and would seriously damage the integrity of the proceedings.
    8. When deciding on the relevance or admissibility of evidence collected by a State, the Court shall not rule on the application of the State's national law.


Article 70
Offences against the administration of justice

    1. The Court shall have jurisdiction over the following offences against its administration of justice when committed intentionally:
    (a) Giving false testimony when under an obligation pursuant to article 69, paragraph 1, to tell the truth;
    (b) Presenting evidence that the party knows is false or forged;
    (c) Corruptly influencing a witness, obstructing or interfering with the attendance or testimony of a witness, retaliating against a witness for giving testimony or destroying, tampering with or interfering with the collection of evidence;
    (d) Impeding, intimidating or corruptly influencing an official of the Court for the purpose of forcing or persuading the official not to perform, or to perform improperly, his or her duties;
    (e) Retaliating against an official of the Court on account of duties performed by that or another official;
    (f) Soliciting or accepting a bribe as an official of the Court in connection with his or her official duties.
    2. The principles and procedures governing the Court's exercise of jurisdiction over offences under this article shall be those provided for in the Rules of Procedure and Evidence. The conditions for providing international cooperation to the Court with respect to its proceedings under this article shall be governed by the domestic laws of the requested State.
    3. In the event of conviction, the Court may impose a term of imprisonment not exceeding five years, or a fine in accordance with the Rules of Procedure and Evidence, or both.
    4. (a) Each State Party shall extend its criminal laws penalizing offences against the integrity of its own investigative or judicial process to offences against the administration of justice referred to in this article, committed on its territory, or by one of its nationals;
    (b) Upon request by the Court, whenever it deems it proper, the State Party shall submit the case to its competent authorities for the purpose of prosecution. Those authorities shall treat such cases with diligence and devote sufficient resources to enable them to be conducted effectively.

Article 71
Sanctions for misconduct before the Court

    1. The Court may sanction persons present before it who commit misconduct, including disruption of its proceedings or deliberate refusal to comply with its directions, by administrative measures other than imprisonment, such as temporary or permanent removal from the courtroom, a fine or other similar measures provided for in the Rules of Procedure and Evidence.
    2. The procedures governing the imposition of the measures set forth in paragraph 1 shall be those provided for in the Rules of Procedure and Evidence.

Article 72
Protection of national security information

    1. This article applies in any case where the disclosure of the information or documents of a State would, in the opinion of that State, prejudice its national security interests. Such cases include those falling within the scope of article 56, paragraphs 2 and 3, article 61, paragraph 3, article 64, paragraph 3, article 67, paragraph 2, article 68, paragraph 6, article 87, paragraph 6 and article 93, as well as cases arising at any other stage of the proceedings where such disclosure may be at issue.
    2. This article shall also apply when a person who has been requested to give information or evidence has refused to do so or has referred the matter to the State on the ground that disclosure would prejudice the national security interests of a State and the State concerned confirms that it is of the opinion that disclosure would prejudice its national security interests.
    3. Nothing in this article shall prejudice the requirements of confidentiality applicable under article 54, paragraph 3 (e) and (f), or the application of article 73.
    4. If a State learns that information or documents of the State are being, or are likely to be, disclosed at any stage of the proceedings, and it is of the opinion that disclosure would prejudice its national security interests, that State shall have the right to intervene in order to obtain resolution of the issue in accordance with this article.
    5. If, in the opinion of a State, disclosure of information would prejudice its national security interests, all reasonable steps will be taken by the State, acting in conjunction with the Prosecutor, the defence or the Pre-Trial Chamber or Trial Chamber, as the case may be, to seek to resolve the matter by cooperative means. Such steps may include:
    (a) Modification or clarification of the request;
    (b) A determination by the Court regarding the relevance of the information or evidence sought, or a determination as to whether the evidence, though relevant, could be or has been obtained from a source other than the requested State;
    (c) Obtaining the information or evidence from a different source or in a different form; or
    (d) Agreement on conditions under which the assistance could be provided including, among other things, providing summaries or redactions, limitations on disclosure, use of in camera or ex parte proceedings, or other protective measures permissible under the Statute and the Rules of Procedure and Evidence.

    6. Once all reasonable steps have been taken to resolve the matter through cooperative means, and if the State considers that there are no means or conditions under which the information or documents could be provided or disclosed without prejudice to its national security interests, it shall so notify the Prosecutor or the Court of the specific reasons for its decision, unless a specific description of the reasons would itself necessarily result in such prejudice to the State's national security interests.
    7. Thereafter, if the Court determines that the evidence is relevant and necessary for the establishment of the guilt or innocence of the accused, the Court may undertake the following actions:
    (a) Where disclosure of the information or document is sought pursuant to a request for cooperation under Part 9 or the circumstances described in paragraph 2, and the State has invoked the ground for refusal referred to in article 93, paragraph 4:
    (i) The Court may, before making any conclusion referred to in subparagraph 7 (a) (ii), request further consultations for the purpose of considering the State's representations, which may include, as appropriate, hearings in camera and ex parte;

    (ii) If the Court concludes that, by invoking the ground for refusal under article 93, paragraph 4, in the circumstances of the case, the requested State is not acting in accordance with its obligations under this Statute, the Court may refer the matter in accordance with article 87, paragraph 7, specifying the reasons for its conclusion; and
    (iii) The Court may make such inference in the trial of the accused as to the existence or non- existence of a fact, as may be appropriate in the circumstances; or
    (b) In all other circumstances:
    (i) Order disclosure; or
    (ii) To the extent it does not order disclosure, make such inference in the trial of the accused as to the existence or non-existence of a fact, as may be appropriate in the circumstances.

Article 73
Third-party information or documents

    If a State Party is requested by the Court to provide a document or information in its custody, possession or control, which was disclosed to it in confidence by a State, intergovernmental organization or international organization, it shall seek the consent of the originator to disclose that document or information. If the originator is a State Party, it shall either consent to disclosure of the information or document or undertake to resolve the issue of disclosure with the Court, subject to the provisions of article 72. If the originator is not a State Party and refuses to consent to disclosure, the requested State shall inform the Court that it is unable to provide the document or information because of a pre-existing obligation of confidentiality to the originator.


Article 74
Requirements for the decision

    1. All the judges of the Trial Chamber shall be present at each stage of the trial and throughout their deliberations. The Presidency may, on a case-by- case basis, designate, as available, one or more alternate judges to be present at each stage of the trial and to replace a member of the Trial Chamber if that member is unable to continue attending.

    2. The Trial Chamber's decision shall be based on its evaluation of the evidence and the entire proceedings. The decision shall not exceed the facts and circumstances described in the charges and any amendments to the charges. The Court may base its decision only on evidence submitted and discussed before it at the trial.
    3. The judges shall attempt to achieve unanimity in their decision, failing which the decision shall be taken by a majority of the judges.

    4. The deliberations of the Trial Chamber shall remain secret.
    5. The decision shall be in writing and shall contain a full and reasoned statement of the Trial Chamber's findings on the evidence and conclusions. The Trial Chamber shall issue one decision. When there is no unanimity, the Trial Chamber's decision shall contain the views of the majority and the minority. The decision or a summary thereof shall be delivered in open court.

Article 75
Reparations to victims

    1. The Court shall establish principles relating to reparations to, or in respect of, victims, including restitution, compensation and rehabilitation. On this basis, in its decision the Court may, either upon request or on its own motion in exceptional circumstances, determine the scope and extent of any damage, loss and injury to, or in respect of, victims and will state the principles on which it is acting.
    2. The Court may make an order directly against a convicted person specifying appropriate reparations to, or in respect of, victims, including restitution, compensation and rehabilitation.

    Where appropriate, the Court may order that the award for reparations be made through the Trust Fund provided for in article 79.
    3. Before making an order under this article, the Court may invite and shall take account of representations from or on behalf of the convicted person, victims, other interested persons or interested States.

    4. In exercising its power under this article, the Court may, after a person is convicted of a crime within the jurisdiction of the Court, determine whether, in order to give effect to an order which it may make under this article, it is necessary to seek measures under article 93, paragraph 1.

    5. A State Party shall give effect to a decision under this article as if the provisions of article 109 were applicable to this article.
    6. Nothing in this article shall be interpreted as prejudicing the rights of victims under national or international law.

Article 76
Sentencing

    1. In the event of a conviction, the Trial Chamber shall consider the appropriate sentence to be imposed and shall take into account the evidence presented and submissions made during the trial that are relevant to the sentence.
    2. Except where article 65 applies and before the completion of the trial, the Trial Chamber may on its own motion and shall, at the request of the Prosecutor or the accused, hold a further hearing to hear any additional evidence or submissions relevant to the sentence, in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.
    3. Where paragraph 2 applies, any representations under article 75 shall be heard during the further hearing referred to in paragraph 2 and, if necessary, during any additional hearing.
    4. The sentence shall be pronounced in public and, wherever possible, in the presence of the accused.

PART 7. PENALTIES
Article 77
Applicable penalties

    1. Subject to article 110, the Court may impose one of the following penalties on a person convicted of a crime referred to in article 5 of this Statute:

    (a) Imprisonment for a specified number of years, which may not exceed a maximum of 30 years; or
    (b) A term of life imprisonment when justified by the extreme gravity of the crime and the individual circumstances of the convicted person.
    2. In addition to imprisonment, the Court may order:
    (a) A fine under the criteria provided for in the Rules of Procedure and Evidence;
    (b) A forfeiture of proceeds, property and assets derived directly or indirectly from that crime, without prejudice to the rights of bona fide third parties.

Article 78
Determination of the sentence

    1. In determining the sentence, the Court shall, in accordance with the Rules of Procedure and Evidence, take into account such factors as the gravity of the crime and the individual circumstances of the convicted person.
    2. In imposing a sentence of imprisonment, the Court shall deduct the time, if any, previously spent in detention in accordance with an order of the Court. The Court may deduct any time otherwise spent in detention in connection with conduct underlying the crime.
    3. When a person has been convicted of more than one crime, the Court shall pronounce a sentence for each crime and a joint sentence specifying the total period of imprisonment. This period shall be no less than the highest individual sentence pronounced and shall not exceed 30 years imprisonment or a sentence of life imprisonment in conformity with article 77, paragraph 1 (b).

Article 79
Trust Fund

    1. A Trust Fund shall be established by decision of the Assembly of States Parties for the benefit of victims of crimes within the jurisdiction of the Court, and of the families of such victims.
    2. The Court may order money and other property collected through fines or forfeiture to be transferred, by order of the Court, to the Trust Fund.
    3. The Trust Fund shall be managed according to criteria to be determined by the Assembly of States Parties.

Article 80
Non-prejudice to national application
of penalties and national laws

    Nothing in this Part affects the application by States of penalties prescribed by their national law, nor the law of States which do not provide for penalties prescribed in this Part.


PART 8. APPEAL AND REVISION
Article 81
Appeal against decision of acquittal
or conviction or against sentence

    1. A decision under article 74 may be appealed in accordance with the Rules of Procedure and Evidence as follows:
    (a) The Prosecutor may make an appeal on any of the following grounds:
    (i) Procedural error,
    (ii) Error of fact, or
    (iii) Error of law;
    (b) The convicted person, or the Prosecutor on that person's behalf, may make an appeal on any of the following grounds:
    (i) Procedural error,
    (ii) Error of fact,
    (iii) Error of law, or
    (iv) Any other ground that affects the fairness or reliability of the proceedings or decision.

    2. (a) A sentence may be appealed, in accordance with the Rules of Procedure and Evidence, by the Prosecutor or the convicted person on the ground of disproportion between the crime and the sentence;
    (b) If on an appeal against sentence the Court considers that there are grounds on which the conviction might be set aside, wholly or in part, it may invite the Prosecutor and the convicted person to submit grounds under article 81, paragraph 1 (a) or (b), and may render a decision on conviction in accordance with article 83;
    (c) The same procedure applies when the Court, on an appeal against conviction only, considers that there are grounds to reduce the sentence under paragraph 2 (a).
    3. (a) Unless the Trial Chamber orders otherwise, a convicted person shall remain in custody pending an appeal;
    (b) When a convicted person's time in custody exceeds the sentence of imprisonment imposed, that person shall be released, except that if the Prosecutor is also appealing, the release may be subject to the conditions under subparagraph (c) below;
    (c) In case of an acquittal, the accused shall be released immediately, subject to the following:
    (i) Under exceptional circumstances, and having regard, inter alia, to the concrete risk of flight, the seriousness of the offence charged and the probability of success on appeal, the Trial Chamber, at the request of the Prosecutor, may maintain the detention of the person pending appeal;
    (ii) A decision by the Trial Chamber under subparagraph (c) (i) may be appealed in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.
    4. Subject to the provisions of paragraph 3 (a) and (b), execution of the decision or sentence shall be suspended during the period allowed for appeal and for the duration of the appeal proceedings.

Article 82
Appeal against other decisions

    1. Either party may appeal any of the following decisions in accordance with the Rules of Procedure and Evidence:
    (a) A decision with respect to jurisdiction or admissibility;
    (b) A decision granting or denying release of the person being investigated or prosecuted;

    (c) A decision of the Pre-Trial Chamber to act on its own initiative under article 56, paragraph 3;
    (d) A decision that involves an issue that would significantly affect the fair and expeditious conduct of the proceedings or the outcome of the trial, and for which, in the opinion of the Pre-Trial or Trial Chamber, an immediate resolution by the Appeals Chamber may materially advance the proceedings.
    2. A decision of the Pre-Trial Chamber under article 57, paragraph 3 (d), may be appealed against by the State concerned or by the Prosecutor, with the leave of the Pre-Trial Chamber. The appeal shall be heard on an expedited basis.
    3. An appeal shall not of itself have suspensive effect unless the Appeals Chamber so orders, upon request, in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.
    4. A legal representative of the victims, the convicted person or a bona fide owner of property adversely affected by an order under article 75 may appeal against the order for reparations, as provided in the Rules of Procedure and Evidence.

Article 83
Proceedings on appeal

    1. For the purposes of proceedings under article 81 and this article, the Appeals Chamber shall have all the powers of the Trial Chamber.
    2. If the Appeals Chamber finds that the proceedings appealed from were unfair in a way that affected the reliability of the decision or sentence, or that the decision or sentence appealed from was materially affected by error of fact or law or procedural error, it may:

    (a) Reverse or amend the decision or sentence; or

    (b) Order a new trial before a different Trial Chamber.
    For these purposes, the Appeals Chamber may remand a factual issue to the original Trial Chamber for it to determine the issue and to report back accordingly, or may itself call evidence to determine the issue. When the decision or sentence has been appealed only by the person convicted, or the Prosecutor on that person's behalf, it cannot be amended to his or her detriment.

    3. If in an appeal against sentence the Appeals Chamber finds that the sentence is disproportionate to the crime, it may vary the sentence in accordance with Part 7.
    4. The judgement of the Appeals Chamber shall be taken by a majority of the judges and shall be delivered in open court. The judgement shall state the reasons on which it is based. When there is no unanimity, the judgement of the Appeals Chamber shall contain the views of the majority and the minority, but a judge may deliver a separate or dissenting opinion on a question of law.
    5. The Appeals Chamber may deliver its judgement in the absence of the person acquitted or convicted.

Article 84
Revision of conviction or sentence

    1. The convicted person or, after death, spouses, children, parents or one person alive at the time of the accused's death who has been given express written instructions from the accused to bring such a claim, or the Prosecutor on the person's behalf, may apply to the Appeals Chamber to revise the final judgement of conviction or sentence on the grounds that:
    (a) New evidence has been discovered that:
    (i) Was not available at the time of trial, and such unavailability was not wholly or partially attributable to the party making application; and
    (ii) Is sufficiently important that had it been proved at trial it would have been likely to have resulted in a different verdict;
    (b) It has been newly discovered that decisive evidence, taken into account at trial and upon which the conviction depends, was false, forged or falsified;
    (c) One or more of the judges who participated in conviction or confirmation of the charges has committed, in that case, an act of serious misconduct or serious breach of duty of sufficient gravity to justify the removal of that judge or those judges from office under article 46.
    2. The Appeals Chamber shall reject the application if it considers it to be unfounded. If it determines that the application is meritorious, it may, as appropriate:
    (a) Reconvene the original Trial Chamber;
    (b) Constitute a new Trial Chamber; or
    (c) Retain jurisdiction over the matter,
with a view to, after hearing the parties in the manner set forth in the Rules of Procedure and Evidence, arriving at a determination on whether the judgement should be revised.

Article 85
Compensation to an arrested or convicted person


    1. Anyone who has been the victim of unlawful arrest or detention shall have an enforceable right to compensation.
    2. When a person has by a final decision been convicted of a criminal offence, and when subsequently his or her conviction has been reversed on the ground that a new or newly discovered fact shows conclusively that there has been a miscarriage of justice, the person who has suffered punishment as a result of such conviction shall be compensated according to law, unless it is proved that the non- disclosure of the unknown fact in time is wholly or partly attributable to him or her.
    3. In exceptional circumstances, where the Court finds conclusive facts showing that there has been a grave and manifest miscarriage of justice, it may in its discretion award compensation, according to the criteria provided in the Rules of Procedure and Evidence, to a person who has been released from detention following a final decision of acquittal or a termination of the proceedings for that reason.

PART 9. INTERNATIONAL COOPERATION AND JUDICIAL ASSISTANCE
Article 86
General obligation to cooperate

    States Parties shall, in accordance with the provisions of this Statute, cooperate fully with the Court in its investigation and prosecution of crimes within the jurisdiction of the Court.

Article 87
Requests for cooperation: general provisions

    1. (a) The Court shall have the authority to make requests to States Parties for cooperation. The requests shall be transmitted through the diplomatic channel or any other appropriate channel as may be designated by each State Party upon ratification, acceptance, approval or accession.
    Subsequent changes to the designation shall be made by each State Party in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.
    (b) When appropriate, without prejudice to the provisions of subparagraph (a), requests may also be transmitted through the International Criminal Police Organization or any appropriate regional organization.
    2. Requests for cooperation and any documents supporting the request shall either be in or be accompanied by a translation into an official language of the requested State or one of the working languages of the Court, in accordance with the choice made by that State upon ratification, acceptance, approval or accession.
    Subsequent changes to this choice shall be made in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.
    3. The requested State shall keep confidential a request for cooperation and any documents supporting the request, except to the extent that the disclosure is necessary for execution of the request.

    4. In relation to any request for assistance presented under this Part, the Court may take such measures, including measures related to the protection of information, as may be necessary to ensure the safety or physical or psychological well-being of any victims, potential witnesses and their families. The Court may request that any information that is made available under this Part shall be provided and handled in a manner that protects the safety and physical or psychological well-being of any victims, potential witnesses and their families.

    5. (a) The Court may invite any State not party to this Statute to provide assistance under this Part on the basis of an ad hoc arrangement, an agreement with such State or any other appropriate basis.

    (b) Where a State not party to this Statute, which has entered into an ad hoc arrangement or an agreement with the Court, fails to cooperate with requests pursuant to any such arrangement or agreement, the Court may so inform the Assembly of States Parties or, where the Security Council referred the matter to the Court, the Security Council.
    6. The Court may ask any intergovernmental organization to provide information or documents. The Court may also ask for other forms of cooperation and assistance which may be agreed upon with such an organization and which are in accordance with its competence or mandate.
    7. Where a State Party fails to comply with a request to cooperate by the Court contrary to the provisions of this Statute, thereby preventing the Court from exercising its functions and powers under this Statute, the Court may make a finding to that effect and refer the matter to the Assembly of States Parties or, where the Security Council referred the matter to the Court, to the Security Council.

Article 88
Availability of procedures under national law


    States Parties shall ensure that there are procedures available under their national law for all of the forms of cooperation which are specified under this Part.

Article 89
Surrender of persons to the Court

    1. The Court may transmit a request for the arrest and surrender of a person, together with the material supporting the request outlined in article 91, to any State on the territory of which that person may be found and shall request the cooperation of that State in the arrest and surrender of such a person. States Parties shall, in accordance with the provisions of this Part and the procedure under their national law, comply with requests for arrest and surrender.
    2. Where the person sought for surrender brings a challenge before a national court on the basis of the principle of ne bis in idem as provided in article 20, the requested State shall immediately consult with the Court to determine if there has been a relevant ruling on admissibility. If the case is admissible, the requested State shall proceed with the execution of the request. If an admissibility ruling is pending, the requested State may postpone the execution of the request for surrender of the person until the Court makes a determination on admissibility.


    3. (a) A State Party shall authorize, in accordance with its national procedural law, transportation through its territory of a person being surrendered to the Court by another State, except where transit through that State would impede or delay the surrender.
    (b) A request by the Court for transit shall be transmitted in accordance with article 87. The request for transit shall contain:
    (i) A description of the person being transported;
    (ii) A brief statement of the facts of the case and their legal characterization; and
    (iii) The warrant for arrest and surrender;
    (c) A person being transported shall be detained in custody during the period of transit;
    (d) No authorization is required if the person is transported by air and no landing is scheduled on the territory of the transit State;

    (e) If an unscheduled landing occurs on the territory of the transit State, that State may require a request for transit from the Court as provided for in subparagraph (b). The transit State shall detain the person being transported until the request for transit is received and the transit is effected, provided that detention for purposes of this subparagraph may not be extended beyond 96 hours from the unscheduled landing unless the request is received within that time.

    4. If the person sought is being proceeded against or is serving a sentence in the requested State for a crime different from that for which surrender to the Court is sought, the requested State, after making its decision to grant the request, shall consult with the Court.


Article 90
Competing requests

    1. A State Party which receives a request from the Court for the surrender of a person under article 89 shall, if it also receives a request from any other State for the extradition of the same person for the same conduct which forms the basis of the crime for which the Court seeks the person's surrender, notify the Court and the requesting State of that fact.
    2. Where the requesting State is a State Party, the requested State shall give priority to the request from the Court if:
    (a) The Court has, pursuant to article 18 or 19, made a determination that the case in respect of which surrender is sought is admissible and that determination takes into account the investigation or prosecution conducted by the requesting State in respect of its request for extradition; or
    (b) The Court makes the determination described in subparagraph (a) pursuant to the requested State's notification under paragraph 1.
    3. Where a determination under paragraph 2 (a) has not been made, the requested State may, at its discretion, pending the determination of the Court under paragraph 2 (b), proceed to deal with the request for extradition from the requesting State but shall not extradite the person until the Court has determined that the case is inadmissible. The Court's determination shall be made on an expedited basis.
    4. If the requesting State is a State not Party to this Statute the requested State, if it is not under an international obligation to extradite the person to the requesting State, shall give priority to the request for surrender from the Court, if the Court has determined that the case is admissible.

    5. Where a case under paragraph 4 has not been determined to be admissible by the Court, the requested State may, at its discretion, proceed to deal with the request for extradition from the requesting State.
    6. In cases where paragraph 4 applies except that the requested State is under an existing international obligation to extradite the person to the requesting State not Party to this Statute, the requested State shall determine whether to surrender the person to the Court or extradite the person to the requesting State. In making its decision, the requested State shall consider all the relevant factors, including but not limited to:

    (a) The respective dates of the requests;
    (b) The interests of the requesting State including, where relevant, whether the crime was committed in its territory and the nationality of the victims and of the person sought; and
    (c) The possibility of subsequent surrender between the Court and the requesting State.
    7. Where a State Party which receives a request from the Court for the surrender of a person also receives a request from any State for the extradition of the same person for conduct other than that which constitutes the crime for which the Court seeks the person's surrender:
    (a) The requested State shall, if it is not under an existing international obligation to extradite the person to the requesting State, give priority to the request from the Court;
    (b) The requested State shall, if it is under an existing international obligation to extradite the person to the requesting State, determine whether to surrender the person to the Court or to extradite the person to the requesting State. In making its decision, the requested State shall consider all the relevant factors, including but not limited to those set out in paragraph 6, but shall give special consideration to the relative nature and gravity of the conduct in question.
    8. Where pursuant to a notification under this article, the Court has determined a case to be inadmissible, and subsequently extradition to the requesting State is refused, the requested State shall notify the Court of this decision.

Article 91
Contents of request for arrest and surrender

    1. A request for arrest and surrender shall be made in writing. In urgent cases, a request may be made by any medium capable of delivering a written record, provided that the request shall be confirmed through the channel provided for in article 87, paragraph 1 (a).
    2. In the case of a request for the arrest and surrender of a person for whom a warrant of arrest has been issued by the Pre-Trial Chamber under article 58, the request shall contain or be supported by:
    (a) Information describing the person sought, sufficient to identify the person, and information as to that person's probable location;
    (b) A copy of the warrant of arrest; and
    (c) Such documents, statements or information as may be necessary to meet the requirements for the surrender process in the requested State, except that those requirements should not be more burdensome than those applicable to requests for extradition pursuant to treaties or arrangements between the requested State and other States and should, if possible, be less burdensome, taking into account the distinct nature of the Court.
    3. In the case of a request for the arrest and surrender of a person already convicted, the request shall contain or be supported by:

    (a) A copy of any warrant of arrest for that person;

    (b) A copy of the judgement of conviction;
    (c) Information to demonstrate that the person sought is the one referred to in the judgement of conviction; and
    (d) If the person sought has been sentenced, a copy of the sentence imposed and, in the case of a sentence for imprisonment, a statement of any time already served and the time remaining to be served.

    4. Upon the request of the Court, a State Party shall consult with the Court, either generally or with respect to a specific matter, regarding any requirements under its national law that may apply under paragraph 2 (c). During the consultations, the State Party shall advise the Court of the specific requirements of its national law.

Article 92
Provisional arrest

    1. In urgent cases, the Court may request the provisional arrest of the person sought, pending presentation of the request for surrender and the documents supporting the request as specified in article 91.
    2. The request for provisional arrest shall be made by any medium capable of delivering a written record and shall contain:
    (a) Information describing the person sought, sufficient to identify the person, and information as to that person's probable location;
    (b) A concise statement of the crimes for which the person's arrest is sought and of the facts which are alleged to constitute those crimes, including, where possible, the date and location of the crime;
    (c) A statement of the existence of a warrant of arrest or a judgement of conviction against the person sought; and
    (d) A statement that a request for surrender of the person sought will follow.
    3. A person who is provisionally arrested may be released from custody if the requested State has not received the request for surrender and the documents supporting the request as specified in article 91 within the time limits specified in the Rules of Procedure and Evidence. However, the person may consent to surrender before the expiration of this period if permitted by the law of the requested State. In such a case, the requested State shall proceed to surrender the person to the Court as soon as possible.
    4. The fact that the person sought has been released from custody pursuant to paragraph 3 shall not prejudice the subsequent arrest and surrender of that person if the request for surrender and the documents supporting the request are delivered at a later date.

Article 93
Other forms of cooperation

    1. States Parties shall, in accordance with the provisions of this Part and under procedures of national law, comply with requests by the Court to provide the following assistance in relation to investigations or prosecutions:
    (a) The identification and whereabouts of persons or the location of items;

    (b) The taking of evidence, including testimony under oath, and the production of evidence, including expert opinions and reports necessary to the Court;
    (c) The questioning of any person being investigated or prosecuted;
    (d) The service of documents, including judicial documents;
    (e) Facilitating the voluntary appearance of persons as witnesses or experts before the Court;

    (f) The temporary transfer of persons as provided in paragraph 7;
    (g) The examination of places or sites, including the exhumation and examination of grave sites;
    (h) The execution of searches and seizures;
    (i) The provision of records and documents, including official records and documents;
    (j) The protection of victims and witnesses and the preservation of evidence;
    (k) The identification, tracing and freezing or seizure of proceeds, property and assets and instrumentalities of crimes for the purpose of eventual forfeiture, without prejudice to the rights of bona fide third parties; and

    (l) Any other type of assistance which is not prohibited by the law of the requested State, with a view to facilitating the investigation and prosecution of crimes within the jurisdiction of the Court.

    2. The Court shall have the authority to provide an assurance to a witness or an expert appearing before the Court that he or she will not be prosecuted, detained or subjected to any restriction of personal freedom by the Court in respect of any act or omission that preceded the departure of that person from the requested State.
    3. Where execution of a particular measure of assistance detailed in a request presented under paragraph 1, is prohibited in the requested State on the basis of an existing fundamental legal principle of general application, the requested State shall promptly consult with the Court to try to resolve the matter. In the consultations, consideration should be given to whether the assistance can be rendered in another manner or subject to conditions. If after consultations the matter cannot be resolved, the Court shall modify the request as necessary.
    4. In accordance with article 72, a State Party may deny a request for assistance, in whole or in part, only if the request concerns the production of any documents or disclosure of evidence which relates to its national security.
    5. Before denying a request for assistance under paragraph 1 (l), the requested State shall consider whether the assistance can be provided subject to specified conditions, or whether the assistance can be provided at a later date or in an alternative manner, provided that if the Court or the Prosecutor accepts the assistance subject to conditions, the Court or the Prosecutor shall abide by them.
    6. If a request for assistance is denied, the requested State Party shall promptly inform the Court or the Prosecutor of the reasons for such denial.
    7. (a) The Court may request the temporary transfer of a person in custody for purposes of identification or for obtaining testimony or other assistance. The person may be transferred if the following conditions are fulfilled:
    (i) The person freely gives his or her informed consent to the transfer; and
    (ii) The requested State agrees to the transfer, subject to such conditions as that State and the Court may agree.
    (b) The person being transferred shall remain in custody. When the purposes of the transfer have been fulfilled, the Court shall return the person without delay to the requested State.
    8. (a) The Court shall ensure the confidentiality of documents and information, except as required for the investigation and proceedings described in the request.
    (b) The requested State may, when necessary, transmit documents or information to the Prosecutor on a confidential basis. The Prosecutor may then use them solely for the purpose of generating new evidence.
    (c) The requested State may, on its own motion or at the request of the Prosecutor, subsequently consent to the disclosure of such documents or information. They may then be used as evidence pursuant to the provisions of Parts 5 and 6 and in accordance with the Rules of Procedure and Evidence.
    9. (a) (i) In the event that a State Party receives competing requests, other than for surrender or extradition, from the Court and from another State pursuant to an international obligation, the State Party shall endeavour, in consultation with the Court and the other State, to meet both requests, if necessary by postponing or attaching conditions to one or the other request.
    (ii) Failing that, competing requests shall be resolved in accordance with the principles established in article 90.
    (b) Where, however, the request from the Court concerns information, property or persons which are subject to the control of a third State or an international organization by virtue of an international agreement, the requested States shall so inform the Court and the Court shall direct its request to the third State or international organization.
    10. (a) The Court may, upon request, cooperate with and provide assistance to a State Party conducting an investigation into or trial in respect of conduct which constitutes a crime within the jurisdiction of the Court or which constitutes a serious crime under the national law of the requesting State.
    (b) (i) The assistance provided under subparagraph (a) shall include, inter alia:
    a. The transmission of statements, documents or other types of evidence obtained in the course of an investigation or a trial conducted by the Court; and
    b. The questioning of any person detained by order of the Court;
    (ii) In the case of assistance under subparagraph (b) (i) a:
    a. If the documents or other types of evidence have been obtained with the assistance of a State, such transmission shall require the consent of that State;
    b. If the statements, documents or other types of evidence have been provided by a witness or expert, such transmission shall be subject to the provisions of article 68.
    (c) The Court may, under the conditions set out in this paragraph, grant a request for assistance under this paragraph from a State which is not a Party to this Statute.

Article 94
Postponement of execution of a request in respect of ongoing investigation or prosecution

    1. If the immediate execution of a request would interfere with an ongoing investigation or prosecution of a case different from that to which the request relates, the requested State may postpone the execution of the request for a period of time agreed upon with the Court. However, the postponement shall be no longer than is necessary to complete the relevant investigation or prosecution in the requested State. Before making a decision to postpone, the requested State should consider whether the assistance may be immediately provided subject to certain conditions.
    2. If a decision to postpone is taken pursuant to paragraph 1, the Prosecutor may, however, seek measures to preserve evidence, pursuant to article 93, paragraph 1 (j).

Article 95
Postponement of execution of a request in
respect of an admissibility challenge

    Where there is an admissibility challenge under consideration by the Court pursuant to article 18 or 19, the requested State may postpone the execution of a request under this Part pending a determination by the Court, unless the Court has specifically ordered that the Prosecutor may pursue the collection of such evidence pursuant to article 18 or 19.

Article 96
Contents of request for other forms
of assistance under article 93

    1. A request for other forms of assistance referred to in article 93 shall be made in writing. In urgent cases, a request may be made by any medium capable of delivering a written record, provided that the request shall be confirmed through the channel provided for in article 87, paragraph 1 (a).
    2. The request shall, as applicable, contain or be supported by the following:
    (a) A concise statement of the purpose of the request and the assistance sought, including the legal basis and the grounds for the request;
    (b) As much detailed information as possible about the location or identification of any person or place that must be found or identified in order for the assistance sought to be provided;
    (c) A concise statement of the essential facts underlying the request;
    (d) The reasons for and details of any procedure or requirement to be followed;
    (e) Such information as may be required under the law of the requested State in order to execute the request; and
    (f) Any other information relevant in order for the assistance sought to be provided.
    3. Upon the request of the Court, a State Party shall consult with the Court, either generally or with respect to a specific matter, regarding any requirements under its national law that may apply under paragraph 2 (e). During the consultations, the State Party shall advise the Court of the specific requirements of its national law.
    4. The provisions of this article shall, where applicable, also apply in respect of a request for assistance made to the Court.

Article 97
Consultations

    Where a State Party receives a request under this Part in relation to which it identifies problems which may impede or prevent the execution of the request, that State shall consult with the Court without delay in order to resolve the matter. Such problems may include, inter alia:
    (a) Insufficient information to execute the request;

    (b) In the case of a request for surrender, the fact that despite best efforts, the person sought cannot be located or that the investigation conducted has determined that the person in the requested State is clearly not the person named in the warrant; or

    (c) The fact that execution of the request in its current form would require the requested State to breach a pre-existing treaty obligation undertaken with respect to another State.

Article 98
Cooperation with respect to waiver of
immunity and consent to surrender

    1. The Court may not proceed with a request for surrender or assistance which would require the requested State to act inconsistently with its obligations under international law with respect to the State or diplomatic immunity of a person or property of a third State, unless the Court can first obtain the cooperation of that third State for the waiver of the immunity.
    2. The Court may not proceed with a request for surrender which would require the requested State to act inconsistently with its obligations under international agreements pursuant to which the consent of a sending State is required to surrender a person of that State to the Court, unless the Court can first obtain the cooperation of the sending State for the giving of consent for the surrender.

Article 99
Execution of requests under articles 93 and 96

    1. Requests for assistance shall be executed in accordance with the relevant procedure under the law of the requested State and, unless prohibited by such law, in the manner specified in the request, including following any procedure outlined therein or permitting persons specified in the request to be present at and assist in the execution process.

    2. In the case of an urgent request, the documents or evidence produced in response shall, at the request of the Court, be sent urgently.
    3. Replies from the requested State shall be transmitted in their original language and form.
    4. Without prejudice to other articles in this Part, where it is necessary for the successful execution of a request which can be executed without any compulsory measures, including specifically the interview of or taking evidence from a person on a voluntary basis, including doing so without the presence of the authorities of the requested State Party if it is essential for the request to be executed, and the examination without modification of a public site or other public place, the Prosecutor may execute such request directly on the territory of a State as follows:


    (a) When the State Party requested is a State on the territory of which the crime is alleged to have been committed, and there has been a determination of admissibility pursuant to article 18 or 19, the Prosecutor may directly execute such request following all possible consultations with the requested State Party;
    (b) In other cases, the Prosecutor may execute such request following consultations with the requested State Party and subject to any reasonable conditions or concerns raised by that State Party. Where the requested State Party identifies problems with the execution of a request pursuant to this subparagraph it shall, without delay, consult with the Court to resolve the matter.
    5. Provisions allowing a person heard or examined by the Court under article 72 to invoke restrictions designed to prevent disclosure of confidential information connected with national security shall also apply to the execution of requests for assistance under this article.


Article 100
Costs

    1. The ordinary costs for execution of requests in the territory of the requested State shall be borne by that State, except for the following, which shall be borne by the Court:

    (a) Costs associated with the travel and security of witnesses and experts or the transfer under article 93 of persons in custody;
    (b) Costs of translation, interpretation and transcription;
    (c) Travel and subsistence costs of the judges, the Prosecutor, the Deputy Prosecutors, the Registrar, the Deputy Registrar and staff of any organ of the Court;
    (d) Costs of any expert opinion or report requested by the Court;
    (e) Costs associated with the transport of a person being surrendered to the Court by a custodial State; and
    (f) Following consultations, any extraordinary costs that may result from the execution of a request.
    2. The provisions of paragraph 1 shall, as appropriate, apply to requests from States Parties to the Court. In that case, the Court shall bear the ordinary costs of execution.

Article 101
Rule of speciality

    1. A person surrendered to the Court under this Statute shall not be proceeded against, punished or detained for any conduct committed prior to surrender, other than the conduct or course of conduct which forms the basis of the crimes for which that person has been surrendered.
    2. The Court may request a waiver of the requirements of paragraph 1 from the State which surrendered the person to the Court and, if necessary, the Court shall provide additional information in accordance with article 91. States Parties shall have the authority to provide a waiver to the Court and should endeavour to do so.

Article 102
Use of terms

    For the purposes of this Statute:

    (a) “surrender” means the delivering up of a person by a State to the Court, pursuant to this Statute;
    (b) “extradition” means the delivering up of a person by one State to another as provided by treaty, convention or national legislation.

PART 10. ENFORCEMENT
Article 103
Role of States in enforcement of
sentences of imprisonment

    1. (a) A sentence of imprisonment shall be served in a State designated by the Court from a list of States which have indicated to the Court their willingness to accept sentenced persons.
    (b) At the time of declaring its willingness to accept sentenced persons, a State may attach conditions to its acceptance as agreed by the Court and in accordance with this Part.
    (c) A State designated in a particular case shall promptly inform the Court whether it accepts the Court's designation.
    2. (a) The State of enforcement shall notify the Court of any circumstances, including the exercise of any conditions agreed under paragraph 1, which could materially affect the terms or extent of the imprisonment. The Court shall be given at least 45 days' notice of any such known or foreseeable circumstances. During this period, the State of enforcement shall take no action that might prejudice its obligations under article 110.
    (b) Where the Court cannot agree to the circumstances referred to in subparagraph (a), it shall notify the State of enforcement and proceed in accordance with article 104, paragraph 1.
    3. In exercising its discretion to make a designation under paragraph 1, the Court shall take into account the following:
    (a) The principle that States Parties should share the responsibility for enforcing sentences of imprisonment, in accordance with principles of equitable distribution, as provided in the Rules of Procedure and Evidence;
    (b) The application of widely accepted international treaty standards governing the treatment of prisoners;
    (c) The views of the sentenced person;
    (d) The nationality of the sentenced person;
    (e) Such other factors regarding the circumstances of the crime or the person sentenced, or the effective enforcement of the sentence, as may be appropriate in designating the State of enforcement.
    4. If no State is designated under paragraph 1, the sentence of imprisonment shall be served in a prison facility made available by the host State, in accordance with the conditions set out in the headquarters agreement referred to in article 3, paragraph 2. In such a case, the costs arising out of the enforcement of a sentence of imprisonment shall be borne by the Court.

Article 104
Change in designation of State of enforcement

    1. The Court may, at any time, decide to transfer a sentenced person to a prison of another State.
    2. A sentenced person may, at any time, apply to the Court to be transferred from the State of enforcement.

Article 105
Enforcement of the sentence

    1. Subject to conditions which a State may have specified in accordance with article 103, paragraph 1 (b), the sentence of imprisonment shall be binding on the States Parties, which shall in no case modify it.
    2. The Court alone shall have the right to decide any application for appeal and revision. The State of enforcement shall not impede the making of any such application by a sentenced person.

Article 106
Supervision of enforcement of sentences and conditions of imprisonment

    1. The enforcement of a sentence of imprisonment shall be subject to the supervision of the Court and shall be consistent with widely accepted international treaty standards governing treatment of prisoners.
    2. The conditions of imprisonment shall be governed by the law of the State of enforcement and shall be consistent with widely accepted international treaty standards governing treatment of prisoners; in no case shall such conditions be more or less favourable than those available to prisoners convicted of similar offences in the State of enforcement.
    3. Communications between a sentenced person and the Court shall be unimpeded and confidential.

Article 107
Transfer of the person upon
completion of sentence

    1. Following completion of the sentence, a person who is not a national of the State of enforcement may, in accordance with the law of the State of enforcement, be transferred to a State which is obliged to receive him or her, or to another State which agrees to receive him or her, taking into account any wishes of the person to be transferred to that State, unless the State of enforcement authorizes the person to remain in its territory.
    2. If no State bears the costs arising out of transferring the person to another State pursuant to paragraph 1, such costs shall be borne by the Court.
    3. Subject to the provisions of article 108, the State of enforcement may also, in accordance with its national law, extradite or otherwise surrender the person to a State which has requested the extradition or surrender of the person for purposes of trial or enforcement of a sentence.

Article 108
Limitation on the prosecution or
punishment of other offences

    1. A sentenced person in the custody of the State of enforcement shall not be subject to prosecution or punishment or to extradition to a third State for any conduct engaged in prior to that person's delivery to the State of enforcement, unless such prosecution, punishment or extradition has been approved by the Court at the request of the State of enforcement.
    2. The Court shall decide the matter after having heard the views of the sentenced person.
    3. Paragraph 1 shall cease to apply if the sentenced person remains voluntarily for more than 30 days in the territory of the State of enforcement after having served the full sentence imposed by the Court, or returns to the territory of that State after having left it.


Article 109
Enforcement of fines and forfeiture measures

    1. States Parties shall give effect to fines or forfeitures ordered by the Court under Part 7, without prejudice to the rights of bona fide third parties, and in accordance with the procedure of their national law.
    2. If a State Party is unable to give effect to an order for forfeiture, it shall take measures to recover the value of the proceeds, property or assets ordered by the Court to be forfeited, without prejudice to the rights of bona fide third parties.
    3. Property, or the proceeds of the sale of real property or, where appropriate, the sale of other property, which is obtained by a State Party as a result of its enforcement of a judgement of the Court shall be transferred to the Court.

Article 110
Review by the Court concerning
reduction of sentence

    1. The State of enforcement shall not release the person before expiry of the sentence pronounced by the Court.
    2. The Court alone shall have the right to decide any reduction of sentence, and shall rule on the matter after having heard the person.
    3. When the person has served two thirds of the sentence, or 25 years in the case of life imprisonment, the Court shall review the sentence to determine whether it should be reduced. Such a review shall not be conducted before that time.
    4. In its review under paragraph 3, the Court may reduce the sentence if it finds that one or more of the following factors are present:
    (a) The early and continuing willingness of the person to cooperate with the Court in its investigations and prosecutions;
    (b) The voluntary assistance of the person in enabling the enforcement of the judgements and orders of the Court in other cases, and in particular providing assistance in locating assets subject to orders of fine, forfeiture or reparation which may be used for the benefit of victims; or
    (c) Other factors establishing a clear and significant change of circumstances sufficient to justify the reduction of sentence, as provided in the Rules of Procedure and Evidence.
    5. If the Court determines in its initial review under paragraph 3 that it is not appropriate to reduce the sentence, it shall thereafter review the question of reduction of sentence at such intervals and applying such criteria as provided for in the Rules of Procedure and Evidence.

Article 111
Escape

    If a convicted person escapes from custody and flees the State of enforcement, that State may, after consultation with the Court, request the person's surrender from the State in which the person is located pursuant to existing bilateral or multilateral arrangements, or may request that the Court seek the person's surrender, in accordance with Part 9. It may direct that the person be delivered to the State in which he or she was serving the sentence or to another State designated by the Court.


PART 11. ASSEMBLY OF STATES PARTIES
Article 112
Assembly of States Parties

    1. An Assembly of States Parties to this Statute is hereby established. Each State Party shall have one representative in the Assembly who may be accompanied by alternates and advisers. Other States which have signed this Statute or the Final Act may be observers in the Assembly.
    2. The Assembly shall:
    (a) Consider and adopt, as appropriate, recommendations of the Preparatory Commission;
    (b) Provide management oversight to the Presidency, the Prosecutor and the Registrar regarding the administration of the Court;
    (c) Consider the reports and activities of the Bureau established under paragraph 3 and take appropriate action in regard thereto;
    (d) Consider and decide the budget for the Court;

    (e) Decide whether to alter, in accordance with article 36, the number of judges;
    (f) Consider pursuant to article 87, paragraphs 5 and 7, any question relating to non-cooperation;
    (g) Perform any other function consistent with this Statute or the Rules of Procedure and Evidence.

    3. (a) The Assembly shall have a Bureau consisting of a President, two Vice-Presidents and 18 members elected by the Assembly for three-year terms.
    (b) The Bureau shall have a representative character, taking into account, in particular, equitable geographical distribution and the adequate representation of the principal legal systems of the world.
    (c) The Bureau shall meet as often as necessary, but at least once a year. It shall assist the Assembly in the discharge of its responsibilities.
    4. The Assembly may establish such subsidiary bodies as may be necessary, including an independent oversight mechanism for inspection, evaluation and investigation of the Court, in order to enhance its efficiency and economy.
    5. The President of the Court, the Prosecutor and the Registrar or their representatives may participate, as appropriate, in meetings of the Assembly and of the Bureau.
    6. The Assembly shall meet at the seat of the Court or at the Headquarters of the United Nations once a year and, when circumstances so require, hold special sessions. Except as otherwise specified in this Statute, special sessions shall be convened by the Bureau on its own initiative or at the request of one third of the States Parties.
    7. Each State Party shall have one vote. Every effort shall be made to reach decisions by consensus in the Assembly and in the Bureau. If consensus cannot be reached, except as otherwise provided in the Statute:
    (a) Decisions on matters of substance must be approved by a two-thirds majority of those present and voting provided that an absolute majority of States Parties constitutes the quorum for voting;

    (b) Decisions on matters of procedure shall be taken by a simple majority of States Parties present and voting.
    8. A State Party which is in arrears in the payment of its financial contributions towards the costs of the Court shall have no vote in the Assembly and in the Bureau if the amount of its arrears equals or exceeds the amount of the contributions due from it for the preceding two full years. The Assembly may, nevertheless, permit such a State Party to vote in the Assembly and in the Bureau if it is satisfied that the failure to pay is due to conditions beyond the control of the State Party.
    9. The Assembly shall adopt its own rules of procedure.
    10. The official and working languages of the Assembly shall be those of the General Assembly of the United Nations.

PART 12. FINANCING
Article 113
Financial Regulations

    Except as otherwise specifically provided, all financial matters related to the Court and the meetings of the Assembly of States Parties, including its Bureau and subsidiary bodies, shall be governed by this Statute and the Financial Regulations and Rules adopted by the Assembly of States Parties.

Article 114
Payment of expenses

    Expenses of the Court and the Assembly of States Parties, including its Bureau and subsidiary bodies, shall be paid from the funds of the Court.




Article 115
Funds of the Court and of the
Assembly of States Parties

    The expenses of the Court and the Assembly of States Parties, including its Bureau and subsidiary bodies, as provided for in the budget decided by the Assembly of States Parties, shall be provided by the following sources:
    (a) Assessed contributions made by States Parties;
    (b) Funds provided by the United Nations, subject to the approval of the General Assembly, in particular in relation to the expenses incurred due to referrals by the Security Council.

Article 116
Voluntary contributions

    Without prejudice to article 115, the Court may receive and utilize, as additional funds, voluntary contributions from Governments, international organizations, individuals, corporations and other entities, in accordance with relevant criteria adopted by the Assembly of States Parties.

Article 117
Assessment of contributions

    The contributions of States Parties shall be assessed in accordance with an agreed scale of assessment, based on the scale adopted by the United Nations for its regular budget and adjusted in accordance with the principles on which that scale is based.


Article 118
Annual audit

    The records, books and accounts of the Court, including its annual financial statements, shall be audited annually by an independent auditor.

PART 13. FINAL CLAUSES
Article 119
Settlement of disputes

    1. Any dispute concerning the judicial functions of the Court shall be settled by the decision of the Court.
    2. Any other dispute between two or more States Parties relating to the interpretation or application of this Statute which is not settled through negotiations within three months of their commencement shall be referred to the Assembly of States Parties. The Assembly may itself seek to settle the dispute or may make recommendations on further means of settlement of the dispute, including referral to the International Court of Justice in conformity with the Statute of that Court.

Article 120
Reservations

    No reservations may be made to this Statute.


Article 121
Amendments

    1. After the expiry of seven years from the entry into force of this Statute, any State Party may propose amendments thereto. The text of any proposed amendment shall be submitted to the Secretary- General of the United Nations, who shall promptly circulate it to all States Parties.
    2. No sooner than three months from the date of notification, the Assembly of States Parties, at its next meeting, shall, by a majority of those present and voting, decide whether to take up the proposal. The Assembly may deal with the proposal directly or convene a Review Conference if the issue involved so warrants.
    3. The adoption of an amendment at a meeting of the Assembly of States Parties or at a Review Conference on which consensus cannot be reached shall require a two-thirds majority of States Parties.
    4. Except as provided in paragraph 5, an amendment shall enter into force for all States Parties one year after instruments of ratification or acceptance have been deposited with the Secretary-General of the United Nations by seven-eighths of them.
    5. Any amendment to articles 5, 6, 7 and 8 of this Statute shall enter into force for those States Parties which have accepted the amendment one year after the deposit of their instruments of ratification or acceptance. In respect of a State Party which has not accepted the amendment, the Court shall not exercise its jurisdiction regarding a crime covered by the amendment when committed by that State Party's nationals or on its territory.
    6. If an amendment has been accepted by seven- eighths of States Parties in accordance with paragraph 4, any State Party which has not accepted the amendment may withdraw from this Statute with immediate effect, notwithstanding article 127, paragraph 1, but subject to article 127, paragraph 2, by giving notice no later than one year after the entry into force of such amendment.

    7. The Secretary-General of the United Nations shall circulate to all States Parties any amendment adopted at a meeting of the Assembly of States Parties or at a Review Conference.

Article 122
Amendments to provisions of
an institutional nature

    1. Amendments to provisions of this Statute which are of an exclusively institutional nature, namely, article 35, article 36, paragraphs 8 and 9, article 37, article 38, article 39, paragraphs 1 (first two sentences), 2 and 4, article 42, paragraphs 4 to 9, article 43, paragraphs 2 and 3, and articles 44, 46, 47 and 49, may be proposed at any time, notwithstanding article 121, paragraph 1, by any State Party. The text of any proposed amendment shall be submitted to the Secretary-General of the United Nations or such other person designated by the Assembly of States Parties who shall promptly circulate it to all States Parties and to others participating in the Assembly.
    2. Amendments under this article on which consensus cannot be reached shall be adopted by the Assembly of States Parties or by a Review Conference, by a two-thirds majority of States Parties. Such amendments shall enter into force for all States Parties six months after their adoption by the Assembly or, as the case may be, by the Conference.

Article 123
Review of the Statute

    1. Seven years after the entry into force of this Statute the Secretary-General of the United Nations shall convene a Review Conference to consider any amendments to this Statute. Such review may include, but is not limited to, the list of crimes contained in article 5. The Conference shall be open to those participating in the Assembly of States Parties and on the same conditions.
    2. At any time thereafter, at the request of a State Party and for the purposes set out in paragraph 1, the Secretary-General of the United Nations shall, upon approval by a majority of States Parties, convene a Review Conference.
    3. The provisions of article 121, paragraphs 3 to 7, shall apply to the adoption and entry into force of any amendment to the Statute considered at a Review Conference.



Article 124
Transitional Provision

    Notwithstanding article 12, paragraphs 1 and 2, a State, on becoming a party to this Statute, may declare that, for a period of seven years after the entry into force of this Statute for the State concerned, it does not accept the jurisdiction of the Court with respect to the category of crimes referred to in article 8 when a crime is alleged to have been committed by its nationals or on its territory. A declaration under this article may be withdrawn at any time. The provisions of this article shall be reviewed at the Review Conference convened in accordance with article 123, paragraph 1.

Article 125
Signature, ratification, acceptance,
approval or accession

    1. This Statute shall be open for signature by all States in Rome, at the headquarters of the Food and Agriculture Organization of the United Nations, on 17 July 1998. Thereafter, it shall remain open for signature in Rome at the Ministry of Foreign Affairs of Italy until 17 October 1998. After that date, the Statute shall remain open for signature in New York, at United Nations Headquarters, until 31 December 2000.
    2. This Statute is subject to ratification, acceptance or approval by signatory States. Instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

    3. This Statute shall be open to accession by all States. Instruments of accession shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

Article 126
Entry into force

    1. This Statute shall enter into force on the first day of the month after the 60th day following the date of the deposit of the 60th instrument of ratification, acceptance, approval or accession with the Secretary-General of the United Nations.
    2. For each State ratifying, accepting, approving or acceding to this Statute after the deposit of the 60th instrument of ratification, acceptance, approval or accession, the Statute shall enter into force on the first day of the month after the 60th day following the deposit by such State of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession.

Article 127
Withdrawal

    1. A State Party may, by written notification addressed to the Secretary-General of the United Nations, withdraw from this Statute. The withdrawal shall take effect one year after the date of receipt of the notification, unless the notification specifies a later date.
    2. A State shall not be discharged, by reason of its withdrawal, from the obligations arising from this Statute while it was a Party to the Statute, including any financial obligations which may have accrued. Its withdrawal shall not affect any cooperation with the Court in connection with criminal investigations and proceedings in relation to which the withdrawing State had a duty to cooperate and which were commenced prior to the date on which the withdrawal became effective, nor shall it prejudice in any way the continued consideration of any matter which was already under consideration by the Court prior to the date on which the withdrawal became effective.

Article 128
Authentic texts

    The original of this Statute, of which the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts are equally authentic, shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations, who shall send certified copies thereof to all States.

IN WITNESS WHEREOF, the undersigned, being duly authorized thereto by their respective Governments, have signed this Statute.

DONE at Rome, this 17th day of July 1998.