Ferill 612. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 956  —  612. mál.




Yfirlitsskýrsla



utanríkisráðherra um alþjóðamál.

(Lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)




1. SÓKN OG VÖRN FYRIR ÍSLENSKA HAGSMUNI

    Utanríkismál teygja sig inn á sífellt fleiri svið í íslensku þjóðlífi. Sóknarfæri atvinnulífsins tengjast oftar en ekki aðgangi að erlendum mörkuðum. Hnattvæðingin og frelsisþróun í alþjóðaviðskiptum kalla á árvekni utanríkisþjónustunnar sem hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar.
    Þetta hlutverk verður æ fjölþættara og gerir auknar kröfur um sérþekkingu á mörgum sviðum. Það snýst líka um hugsjónir. Virðing fyrir lýðræði, frelsi og jafnrétti fólks og þjóða eru lífsgildi sem við Íslendingar viljum halda á lofti í alþjóðlegu samstarfi. Raunar má færa rök fyrir því að þessi lífsgildi séu samtvinnuð hagsmunum okkar.
    Utanríkisráðherra hefur lagt áherslu á að Alþingi og þjóðin fái sem allra bestar upplýsingar um starf stjórnvalda að utanríkismálum. Með því vill hann stuðla að þróttmikilli og upplýstri umræðu um utanríkismál. Í því skyni hefur hann látið taka saman tvær skýrslur til Alþingis; ítarlega skýrslu um Ísland og Evrópusambandið og þessa yfirlitsskýrslu um utanríkismál. Hér er því aðeins stiklað á stóru um Evrópumál.
    Í ræðu sinni um utanríkismál á Alþingi 2. nóvember sl. benti ráðherra á að umfang íslenskra utanríkismála væri orðið meira en svo að hægt væri að gera öllum þáttum þeirra nægjanleg skil innan þeirra tímamarka sem þeirri ræðu væru sett. Því hefði hann ákveðið að láta taka saman og dreifa yfirlitsskýrslu um utanríkismál með vorræðu sinni árið 2000, en ráðherra fór líkt að haustið 1997. Samanburður á þessum tveimur skýrslum, sem komið hafa fram með fárra missera millibili, leiðir vel í ljós ört vaxandi umsvif Íslendinga í alþjóðasamstarfi.


2. UTANRÍKISÞJÓNUSTAN

    Margvísleg þróun síðustu ára í heiminum, og vaxandi starf Íslendinga á alþjóðavettvangi, hefur breytt í veigamiklum atriðum hlutverki og umsvifum íslensku utanríkisþjónustunnar. Utanríkisþjónustan gegnir lykilhlutverki í að skilgreina sífellt margslungnari hagsmuni Íslands í fjölmörgum greinum alþjóðamála. Ráðuneytinu hefur verið gert kleift að fjölga nokkuð sendiskrifstofum erlendis, setja á stofn eigin viðskiptaþjónustu, sem vinnur með íslenskum fyrirtækjum að markaðsmálum erlendis, og auka lítillega við mannafla og þekkingaröflun hér heima. Engu að síður er kostnaður við utanríkisþjónustuna mjög lítill í samanburði við önnur umsvif hins opinbera. Að meðtöldum útgjöldum til þróunarmála, sem

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


aukist hafa stórlega á síðustu árum í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að auka mjög aðstoð okkar við fátækari þjóðir, og að meðtöldum framlögum til alþjóðastofnana, sem einnig hafa verið aukin, nemur heildarkostnaður við utanríkisþjónustuna innan við tveimur prósentum af útgjöldum ríkisins.     Þrátt fyrir þetta hefur reynst unnt að taka fullan og vaxandi þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi á jafnréttisgrundvelli við miklu stærri ríki. Ísland hefur þannig á síðustu misserum tekið að sér formennsku í nokkrum mikilvægum nefndum og ráðum á alþjóðavettvangi, nú síðast formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins, í ráðherraráði EFTA og í Norrænu ráðherranefndinni. Vegna smæðar Íslands, sem oft hefur komið í veg fyrir að Íslendingar axli ábyrgð af þessum tagi, hefur þessi stefna okkar á síðustu árum vakið verulega athygli á meðal samstarfsríkja. Ein stærsta viðurkenningin á burðum okkar til alþjóðlegs samstarfs felst í stuðningi norrænu ríkjanna við framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir lok þessa áratugs.
    Vegna smæðar þjóðarinnar, og þess þrönga ramma sem útgjöldum til utanríkismála er settur, verða Íslendingar hins vegar að forgangsraða verkefnum sínum með miklu skipulegri og nákvæmari hætti en stærri ríki. Á tímum stóraukinna alþjóðasamskipta og hnattvæðingar í viðskiptum og stjórnmálum, sem kallar á varðstöðu á sífellt fleiri sviðum, verður þetta æ erfiðara viðfangs. Þetta kallar á enn skipulegri vinnu við öflun þekkingar á því hvar helstu hagsmunir okkar liggja og hvernig opinberir aðilar geta best, og í sem mestri samvinnu, unnið að málefnum þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.
    Utanríkisþjónustan hefur nú starfsemi í 17 sendiskrifstofum erlendis, en þær eru staðsettar í fjórtán löndum og þremur heimsálfum. Ellefu þessara skrifstofa eru sendiráð í erlendum ríkjum, fimm eru fastanefndir hjá alþjóðlegum samtökum. Að auki er nú rekin ein aðalræðisskrifstofa í Winnipeg í Kanada. Í viðauka við skýrsluna er að finna upplýsingar um staðsetningu þessara skrifstofa, starfsmannafjölda þeirra og hvaða ríkjum þau sinna, en flestar skrifstofanna erlendis sinna allmörgum ríkjum í senn. Að auki er að finna sem viðauka sérstaka skýrslu um starf sendiskrifstofa Íslands að menningarmálum, sem er mikilvægur þáttur í vinnu okkar á alþjóðavettvangi.
    Á næsta ári er stefnt að því að tvö ný sendiráð verði opnuð, í Kanada og Japan. Enn fremur er gert ráð fyrir að skrifstofa fastanefndar Íslands í Vín, sem einkum sinnir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, verði jafnframt gerð að sendiráði í Austurríki. Það er ávallt nokkuð álitamál í lítilli utanríkisþjónustu hvar brýnast er að hafa sendiskrifstofur. Það er þó skoðun stjórnvalda að næstu skref í þessum efnum séu nokkuð augljós. Japan er ekki aðeins næststærsta efnahagskerfi heimsins, og næststærsti innflytjandi heimsins á neysluvörum á eftir Bandaríkjunum, heldur í flestu tilliti mikilvægasta miðstöð þess svæðis veraldar sem örast vex að efnahagslegu og viðskiptalegu mikilvægi. Frá Vínarborg liggja greiðar leiðir inn á markaði Mið- og Austur-Evrópu sem vonandi munu fara ört vaxandi í framtíðinni eftir þá erfiðleika sem fylgdu í kjölfar kalda stríðsins í þessum heimshluta. Tengsl Íslendinga og nágranna okkar í Kanada hafa mjög verið styrkt að undanförnu og munu enn styrkjast með opnun sendiráðs í Ottawa. Þessi tengsl eru mikilvæg af mörgum ástæðum, viðskiptalegum, pólitískum, landfræðilegum, og ekki síst af menningarlegum ástæðum, sem margar tengjast hinu stóra samfélagi Vestur-Íslendinga í Kanada. Íslensk stjórnvöld hafa mjög reynt að efla tengslin við þetta samfélag á síðustu misserum.
    Reynslan hefur sýnt að sendiráðin gegna þýðingarmiklu hlutverki í sókn íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum. Því má líta á aukin umsvif utanríkisþjónustunnar sem þátt í uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. Um leið munu ný sendiráð, sem og þau sem fyrir eru, gæta þess að hagsmunir okkar á sviði öryggismála, umhverfismála, auðlindanýtingar og menningarmála, svo nokkur atriði séu nefnd, verði ekki fyrir borð bornir.

3. EVRÓPUMÁL

    Þátttaka Íslands í evrópskri samvinnu er einn veigamesti hluti íslenskra utanríkismála. Samstarf Evrópuríkja á fjölmörgum sviðum er nú mjög í deiglunni og því er nákvæmrar greiningar sífellt þörf á hagsmunum Íslands og á stöðu okkar í þessum efnum. Utanríkisráðherra leggur fyrir Alþingi sérstaka skýrslu um þessi mál, eins og fyrr segir, og því eru þeim ekki gerð þau skil hér sem annars væri.

3. A. FRÍVERSLUNARSAMTÖK EVRÓPU (EFTA)
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA), fagna í ár þeim merka áfanga að fjörutíu ár eru liðin frá stofnun samtakanna. Íslendingar fögnuðu enn fremur þriggja áratuga aðild að EFTA þann 1. mars sl. Með aðildinni urðu þáttaskil í utanríkisviðskiptum okkar. Um leið var grunnur lagður að náinni tengingu Íslands við efnahags- og viðskiptasamstarf Evrópuríkja, sem enn efldist með samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið. Ekki þarf að fjölyrða um þátt Evrópusamstarfsins í efnahagsvexti og almennri velmegun Evrópulanda.
    Fyrir Ísland hefur þátttaka okkar í þessu samstarfi orðið einn af hornsteinum atvinnulífsins í landinu. Innan EFTA tókst Íslendingum að ná fram þeirri stefnu að sambærilegar reglur ættu að gilda um viðskipti með sjávarafurðir og giltu um iðnaðarvörur. Með þessum áfanga, sem náðist eftir langa baráttu, var lagður mikilvægur grunnur að því viðskiptaumhverfi sem íslenskur sjávarútvegur hefur fengið að blómstra í hin síðari ár.
    Þótt aðildarríkjum EFTA hafi fækkað mjög við inngöngu margra þeirra í ESB, eru samtökin Íslendingum enn afar mikilvæg. Í þeim eru nú fjögur ríki, sem öll stunda alþjóðaviðskipti í mun meira mæli en stærð þeirra gefur til kynna, enda eru þau öll á meðal auðugustu ríkja heims. Auk Íslands eru þetta Sviss, Noregur og Liechtenstein.
    Meginhlutverk EFTA er þríþætt. Í fyrsta lagi að fjalla um samskipti EFTA-landanna sjálfra á grundvelli stofnsamnings samtakanna, Stokkhólmssamningsins. Í öðru lagi að vera aðildarríkjunum vettvangur við gerð fríverslunarsamninga við lönd utan samtakanna og Evrópusambandsins og í þriðja lagi að vera samstarfsvettvangur þeirra þriggja EFTA-ríkja sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Í öllum tilvikum er hér um að ræða starf sem skiptir Ísland miklu máli.
    Á síðustu árum hefur EFTA unnið að því að koma upp neti fríverslunarsamninga við ríki Mið- og Austur-Evrópu samhliða sams konar neti ESB. Með þessu er komið í veg fyrir að íslensk fyrirtæki og fyrirtæki annarra EFTA-landa verði í verri samkeppnisaðstöðu í þessum löndum en fyrirtæki innan ESB. Auk iðnvarnings ná þessir samningar til fríverslunar með sjávarafurðir. Með samningunum leggja ríkin fjögur líka sitt af mörkum við uppbyggingu viðskiptalífs í þessum heimshluta, sem er forsenda þess að lýðræði fái að skjóta rótum og stöðugleiki að festast í sessi.
    Meginverkefni EFTA um þessar mundir er að ljúka gerð fríverslunarsamnings aðildarríkjanna við Kanada. Viðræður um þennan samning hófust á formennskutímabili Íslands í EFTA fyrri hluta árs 1998 og stefnt er að því að ljúka þeim með undirritun samnings á ráðherrafundi í júní næstkomandi. Þetta verður fyrsti fríverslunarsamningur EFTA við eitt af stærri iðnríkjum heims. Undirbúningi að fríverslunarsamstarfi við tvö af ríkjum rómönsku Ameríku, Mexíkó og Chíle, verður haldið áfram. Stefnt er að því að hefja viðræður við þau um gerð fríverslunarsamnings á formennskutímabili Íslands síðar á þessu ári. Þá verður hafinn undirbúningur að fríverslunarsamstarfi við Suður-Afríku síðar á árinu og er stefnt að því að viðræður um þetta geti hafist á formennskutíma Íslands. Einnig verða kannaðar leiðir til aukins fríverslunarsamstarfs við tvö af öflugustu ríkjum Asíu, Japan og Suður-Kóreu.
    Af öðrum verkefnum má nefna áframhald á fríverslunarviðræðum við Egyptaland, Túnis, Kýpur, Makedóníu og Jórdaníu. Undirbúningur að gerð samstarfsyfirlýsingar EFTA við Úkraínu og Alsír stendur yfir.
    Ríkin fjögur halda reglubundna samráðsfundi með þeim ríkjum sem samningar hafa verið gerðir við og þar er farið yfir framkvæmd samninganna og ákvæðum þeirra fylgt eftir.
Ákvæði Stokkhólmssamningsins hafa nú staðið óbreytt í fjörutíu ár. Á ráðherrafundi í Lillehammer í júní í fyrra buðu svissnesk stjórnvöld hinum aðildarríkjunum þremur að semja um sömu kjör og Sviss hafði samið um við Evrópusambandið í tvíhliða viðræðum. Í framhaldi af því var heildarendurskoðun Stokkhólmssamningsins ákveðin. Gert er ráð fyrir að henni ljúki fyrir 1. janúar á næsta ári þegar tvíhliða samningar Sviss við Evrópusambandið taka gildi. Ellefu vinnuhópar munu endurskoða hin ýmsu svið samningsins.
    Stokkhólmssamningurinn fullnægir ekki lengur þeim kröfum sem gera verður til nútímalegra fríverslunarsamninga þar eð hann tekur fyrst og fremst til vöruviðskipta og inniheldur engin ákvæði um þjónustuviðskipti, hugverkarétt, fjármagnsflutninga og samkeppnisreglur. Samningar Sviss við ESB eru sjö talsins og fjalla þeir um opinber innkaup, gagnkvæma viðurkenningu á stöðlum, viðskipti með landbúnaðarafurðir, samgöngur á landi, samgöngur í lofti, frjálsa för fólks á milli landa og vísindasamstarf sem gengur ekki eins langt og samstarfið sem EES samningurinn kveður á um. Samningarnir eru á takmörkuðum sviðum og ná ekki til fríverslunar með vörur, né heldur til annarra þjónustuviðskipta en samgangna á landi og í lofti. Fjármálaþjónusta er til að mynda utan við þessa samninga. Samningarnir tryggja því ekki frelsin fjögur sem EES-samningurinn byggir á nema að takmörkuðu leyti og einna helst með ákvæðum um frjálsa för fólks á milli landa. Sameiginlegar samkeppnisreglur falla líka að mestu leyti utan við gildissvið samninganna, þeir veita mjög takmörkuð réttindi varðandi fjárfestingar, fjármagnsflutninga og hugverkarétt en ganga þó lengra en flestir töldu áður mögulegt að ná fram í tvíhliða samningum við ESB.

4.     ÖNNUR SVÆÐISBUNDIN SAMVINNA

4. A.     NORRÆNT SAMSTARF
    Samstarf og samráð í utanríkismálum við önnur Norðurlönd hefur frá upphafi verið einn hornsteina íslenskrar utanríkisstefnu. Það er eðlilegt að Norðurlandaþjóðirnar með sameiginlega sögu, tungu og samfélagsgildi hafi svipaða sýn á utanríkismál. Stefna landanna í utanríkismálum er samt sem áður mótuð eftir hagsmunum hvers lands fyrir sig eins og sést t.d. þegar litið er á skipan öryggis- og varnarmála þeirra.
    Norðurlöndin hafa um áratuga skeið haft náið samstarf í fjölmörgum málaflokkum, svo sem alkunnugt er. Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 með Helsinkisáttmálanum og hófu þjóðþingin þá að flytja sameiginlegar tillögur með áskorunum til ríkisstjórna sinna um ýmis málefni á samnorrænum grundvelli. Staða landanna var þó mismunandi hvað utanríkisstefnu varðaði og voru utanríkismálin því formlega undanþegin í starfi Norðurlandaráðs. Samráð í utanríkismálum var samt sem áður töluvert milli Norðurlandanna, bæði tvíhliða og óformlega.

4. A. 1. Breytingar vegna Evrópumálefna.
    Norðurlandaráð hóf umfjöllun um utanríkismál árið 1988 þegar umræða um aðild Norðurlandanna að Evrópusambandinu var í algleymingi. Breytingar á Helsinkisáttmálanum voru gerðar á aukaþingi Norðurlandaráðs árið 1995 og sérstök áhersla lögð á utanríkismál. Samstarfinu var skipt í þrjár meginstoðir: hið hefðbundna Norðurlandasamstarf, samstarf um Evrópumál og samstarf Norðurlanda við grannsvæði.
    Margir óttuðust að samstarf innan Norðurlandaráðs, og jafnvel tvíhliða samstarf milli Norðurlandanna, minnkaði er Svíþjóð og Finnland gengu í Evrópusambandið í ársbyrjun 1995. Annað hefur komið á daginn. Hið hefðbundna samstarf hefur haldið áfram eins og áður, en samráð hefur aukist hvað varðar Evrópumál og grannsvæði Norðurlanda. Á vettvangi Norðurlandaráðs er umræðan um Evrópumál nú einna mest áberandi ásamt umræðu um öryggis- og varnarmál. Hið sama gildir í Norrænu ráðherranefndinni.
    Þrátt fyrir ólíkar leiðir í Evrópusamstarfi hefur upplýsingastreymi milli landanna um samstarfið verið mikið. Það gefur auga leið að fyrir Ísland er það ómetanlegt að hafa aðgang að upplýsingum um stefnu og ákvarðanir Evrópusambandsins í tengslum við samstarf Norðurlanda og oftar en ekki vegna persónulegra samskipta ráðherra, þingmanna og embættismanna.

4.A.2. Aukið svæðasamstarf.
    Með aukinni alþjóðavæðingu og stækkun Evrópusambandsins hefur mynstur ríkjasamstarfs smám saman tekið nokkrum breytingum. Fjölbreytilegt svæðasamstarf hefur aukist til muna á undanförnum árum. Fyrir utan Norðurlandaráð starfa Norðurlöndin saman innan annarra svæðasamtaka, m.a. á vettvangi Eystrasaltsráðsins, Norðurskautsráðsins og Barentsráðsins.
    Norðurlandasamstarfið hefur verið byggt upp og skipulagt á annan hátt en flest önnur svæðasamtök. Þátttaka og stuðningur hinna frjálsu félagasamtaka við norrænt samstarf þekkist ekki í sama mæli annars staðar en á Norðurlöndum. Norðurlandaráð hefur verið fyrirmynd samstarfs þingmanna og ríkisstjórna í Eystrasaltslöndunum þremur og líklegt má telja að fleiri svæðasamtök myndist í löndum Mið- og Austur-Evrópu með Norður landa samstarfið sem fyrirmynd.
    Með fyrirhugaðri stækkun Evrópusambandsins munu ríki, sem hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta á ýmsum sviðum, eflaust hafa með sér nánara samráð um ýmis málefni. Norðurlandaráð og annað samstarf Norðurlandanna mun því áfram skipa veigamikinn sess í samskiptum Íslands við önnur lönd. Samtímis mun eðli samstarfsins væntanlega breytast, hið formlega mun í auknum mæli víkja fyrir hinu óformlega og aukið svigrúm mun myndast fyrir sveigjanlega samvinnu milli ákveðinna ríkja og um sértæk málefni.

4.A.3.     Formennska í Norðurlandasamstarfi.
    Árið 1999 fór Ísland með formennsku í Norðurlandasamvinnunni. Utanríkismál eru undanþegin Norrænu ráðherranefndinni og fer samvinnan fram beint á milli landanna, án afskipta skrifstofu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Sérstök skýrsla um formennsku Íslands í ráðherranefnd Norðurlandaráðs hefur verið gefin út.
    Utanríkisráðherrafundir Norðurlanda eru tveir á ári og voru þeir báðir haldnir á Íslandi á árinu 1999, sá fyrri 16.–17. febrúar í Reykjavík og sá síðari 29. –30. ágúst á Egilsstöðum, en þá voru jafnframt haldnir fundir utanríkisráðherra Norðurlanda með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja og sérstakur fundur þessara aðila með utanríkisráðherra Kanada. Á fyrri fundinum var samþykkt yfirlýsing um utanríkismál en á þeim síðari var samþykkt sérstök yfirlýsing þar sem hvatt var til þess að Sameinuðu þjóðirnar sammæltust um bann við herþjónustu barna undir 18 ára aldri.
    Samnorræn sendiráðsbygging í Berlín var opnuð 20. október 1999. Allir þjóðhöfðingjar og utanríkisráðherrar Norðurlanda voru viðstaddir opnunina. Í tengslum við opnuna bauð Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, utanríkisráðherrum Norðurlandanna til fundar. Var aukin samvinna Norðurlanda og Þýskalands þar sérstaklega til umræðu.
    Norrænn þróunarmálaráðherrafundur var haldinn á Íslandi á formennskuárinu sem og fundir ráðuneytisstjóra norrænu utanríkisráðuneytanna og fundir ráðuneytisstjóra þróuna r mála. Einnig voru haldnir margir samráðsfundir norrænna embættismanna á Íslandi á árinu eins og fylgir formennsku í norrænu samstarfi.

4.A.4.     Norrænt samstarf í alþjóðastofnunum.
    Skýrsla um norrænt samstarf í utanríkismálum — Reynsla og niðurstöður frá því á vormissiri 1995 — var samþykkt á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda í Västerås í Svíþjóð árið 1998. Skýrslan er yfirlit yfir norrænt samstarf á ýmsum sviðum utanríkismála í því skyni að bregða ljósi á þá reynslu sem fengist hefur frá því að Finnar og Svíar gengu í Evrópusambandið.
    Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur náið samstarf Norðurlanda haldið áfram eftir inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í ESB. Löndin koma hins vegar sjaldnar fram sem ein heild þar sem ESB reynir eftir fremsta megni að tala fyrir munn allra aðildarríkja sinna. ESB-ríkin reyna að gefa Íslandi og Noregi færi á að móta sömu afstöðu og unnið er að meðal aðildarríkjanna. Í framboðsmálum er norrænu skiptireglunni fylgt og sameiginlegur stuðningur veittur norrænum frambjóðendum. Hvað varðar umbætur á skipulagi Sameinuðu þjóðanna hafa tillögur Norðurlanda notið mikils stuðnings. Innganga Finnlands og Svíþjóðar í ESB hefur aðeins í litlum mæli haft áhrif á norrænt samstarf á sviði þróunarmála.
    Langvarandi og sterk hefð er fyrir norrænu samstarfi í mannréttindamálum. Minna ber á formlegu samstarfi í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna en áður. Óformlega sam starfið heldur áfram óbreytt. Það hefur leitt til meiri norrænna áhrifa á ESB-samstarfið í sam ræmi við sérstöðu Norðurlanda á þessu sviði.
    EES-samningurinn felur í sér samræmingu á lögum og reglugerðum Norðurlanda á fjölda sviða og tengir þannig löndin enn nánar saman. Öll löndin hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta innan innri markaðarins. Þar með hafa opnast möguleikar á að nota reglu bundið norrænt samstarf sem vettvang til að fara saman yfir mikilvæg mál innan Evrópu stefnunnar þrátt fyrir að tengslin við ESB séu mismunandi.
    Jákvæð þróun undanfarinna ára í Evrópu hefur skapað skilyrði fyrir nánara samráð í öryggis málum milli Norðurlanda. Norðurlönd vinna áfram saman að því markmiði að geta, þegar þörf krefur, sent sameiginlegar friðarsveitir á vettvang. Löndin hafa komið á víðtæku samstarfi til að efla öryggi Eystrasaltsríkjanna. Norrænt samstarf í varnarmálum er líklega meira en nokkru sinni fyrr.
    Náið óformlegt norrænt samstarf heldur áfram innan margra alþjóðastofnana, t.d. ÖSE, Evrópuráðsins, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Alþjóðabankans og OECD.

4.A.5.     Norræn samvinna í sendiráðum.
    Í sendiráðum norrænu ríkjanna á sér stað formlegt og óformlegt samráð. Þróunin hefur verið sú að samráð milli Norðurlandanna hefur aukist að undanförnu því að færst hefur í vöxt að tvö eða fleiri Norðurlönd sameinist um sendiráðsbyggingu. Ísland hefur tekið þátt í slíku samstarfi í Berlín, svo sem fyrr segir, en allar Norðurlandaþjóðirnar byggðu þar sendiráðsbyggingar sínar með sameiginlegu þjónustuhúsnæði. Það gefur auga leið að sameiginleg norræn sendiráðsbygging örvar samstarf landanna. Í Berlín veitir húsnæðið möguleika á m.a. norrænum menningarkynningum, fundum og ráðstefnum. Fyrir lítið land eins og Ísland getur slíkt verið ómetanlegt.
    Verið er að undirbúa flutning íslenska sendiráðsins í London í skrifstofuhús danska sendiráðsins þar. Flutningurinn verður mjög til bóta því nýja húsnæðið er betur sniðið að þörfum sendiráðsins en það gamla.
    Í sendiráðum Norðurlandanna í Brussel hefur, frá árinu 1995, starfað norrænn samráðshópur um Evrópumálefni. Tilgangur hópsins er að skiptast á upplýsingum og ræða sjónarmið í Evrópumálum. Ísland fór með formennsku í hópnum á árinu 1999 og skilaði skýrslu um samstarfið.
    Í öllum borgum þar sem íslensk sendiráð og fastanefndir eru til staðar taka íslenskir sendierindrekar þátt í norrænum samráðsfundum og eru þeir hinni fámennu íslensku utanríkisþjónustu ómetanlegir.

4.B. ÖRYGGIS OG SAMVINNUSTOFNUN EVRÓPU (ÖSE)
    Við skilgreiningu á hagsmunum Íslendinga er tekið mið af mun víðtækari og almennari sjónarmiðum en þeim sérstöku viðskipta- og öryggishagsmunum Íslands sem utanríkisþjónustan einbeitir sér að í daglegu starfi sínu. Sameiginleg lífsgildi íslensku þjóðarinnar, eins og lýðræði, mannréttindi, frelsi og jafnrétti, á að flokka með grundvallarhagsmunum okkar á alþjóðavettvangi. Ástæðurnar eru ekki aðeins hugmyndalegar og siðferðilegar, heldur snertir það brýna lífshagsmuni þjóðarinnar að friður ríki í okkar alþjóðlega umhverfi. Skilningur er vaxandi á því í heiminum að lýðræði og virðing fyrir mannréttindum séu hvort tveggja í senn, hin sameiginlegu gildi allra manna, hver sem menning þeirra kann að vera, og forsenda varanlegs friðar og stöðugleika.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, sem er afsprengi Helsinkisáttmálans og tilrauna manna til að draga úr viðsjám kalda stríðsins í Evrópu, er einstæð stofnun í heiminum að því leyti að hún vinnur að öryggismálum í Evrópu í víðasta skilningi þess hugtaks. Stofnunin spannar landsvæðið frá Vancouver, á austurstönd Kyrrahafsins í Kanada, til Vladivostok, á vesturströnd Kyrrahafsins í Rússlandi. Hún byggist á viðurkenningu þeirra 55 ríkja, sem aðild eiga að henni og þeirri staðreynd að öryggi þjóða, mannréttindi og lýðréttindi séu tengd órjúfanlegum böndum. Um leið er viðurkennt að athafnir ríkja innan þeirra eigin landamæra eru ekki lengur þeirra einkamál, ef mannréttindum og lýðræði er ógnað. Með þessu hefur skapast ómetanlegur grundvöllur til þróttmikils starfs að uppbygg ingu varanlegs friðar um stóran hluta heimsins, á traustari grunni en menn hafa nokkru sinni reynt að byggja fyrr.
    Það er Íslendingum ljúft og skylt að taka þátt í þessu starfi. Íslensk stjórnvöld vilja gera það myndarlega. Í samræmi við þá stefnu stofnuðu Íslendingar fastanefnd hjá höfuð stöðvum ÖSE í Vín í fyrra.
    Öll aðildarríki ÖSE hafa jafnan rétt innan samtakanna og ákvarðanir þar eru teknar samhljóða. Pólitísk forysta ÖSE er í höndum fastaráðsins, sem Ísland á fulla aðild að, en for mennskuríkið hverju sinni hefur talsvert svigrúm til frumkvæðis. Á síðasta ári gegndi Noregur formennsku í ráðinu á sama tíma og Ísland fór með formennsku í Evrópuráðinu. Mjög gott samstarf var þar á milli, en ástand mála á Balkanskaga og í nokkrum fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna var eitt helsta áhyggjuefni beggja samtakanna.
    ÖSE, sem spratt upp úr umræðuvettvangi ríkja Austurs og Vesturs, er nú alþjóðastofnun með víðtæka starfsemi í mörgum löndum Evrópu og á jöðrum Evrópu í fyrrum lýðveldum Sovét ríkjanna. Til að ná markmiðum sínum um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn átökum og útbreiðslu átaka vinnur stofnunin meðal annars að afvopnun, aðgerðum sem aukið geta gagn kvæmt traust á milli ríkja, mannréttindamálum, uppbyggingu lýðræðis, umhverfismálum, efnahagsmálum og diplómatískum ráðstöfunum sem geta fyrirbyggt átök.
Á leiðtogafundi ÖSE í Istanbúl í vetur var grunnurinn að starfinu styrktur enn frekar með samþykkt Öryggissáttmála Evrópu og með öðrum ákvörðunum sem sérstaklega var ætlað að styrkja stofnunina í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir vopnuð átök. Þar má nefna ákvörðun um að koma upp viðbragðssveitum sérfræðinga (REACT) sem hafa það verkefni að koma í veg fyrir að deiluaðilar grípi til vopna. Þá er unnið að athugun á því hvernig ÖSE getur aðstoðað við baráttu gegn spillingu, sem oft hamlar efnahagslegri og lýðræðislegri uppbyggingu. Á vegum ÖSE starfa 19 sendinefndir og skrifstofur í aðildarríkjum sem vinna að þessum málum. ÖSE ber meðal annars ábyrgð á framkvæmd ákvæða friðar sam komulagsins um Bosníu á sviði afvopnunar og aðgerða til að skapa traust á milli deiluaðila.
    Þrjár stofnanir heyra undir ÖSE. Lýðræðis- og mannréttindastofnunin, sem fylgist með þróun mannréttinda, sinnir kosningaeftirliti og veitir lagalega aðstoð við þróun lýðræðis og mannréttinda, skrifstofa sérlegs fulltrúa ÖSE vegna þjóðernisminnihluta, sem ber ábyrgð á að gripið sé til aðgerða til að forðast átök sem eiga rætur í málefnum þjóðernis minni hluta, og skrifstofa sérlegs fulltrúa ÖSE fyrir frjálsa fjölmiðlun sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með og beita aðgerðum gegn brotum á skuldbindingum ÖSE á sviði tjáningar frelsis og frjálsrar fjölmiðlunar.

4.B.1.     Balkanskagi.
    Stærstu verkefni ÖSE eru á Balkanskaga þar sem upplausn Júgóslavíu hefur valdið langvarandi ófriði, stórfelldum mannréttindabrotum og miklum óstöðugleika. ÖSE hefur nú með höndum umfangsmikið starf í fjórum hlutum fyrrum Júgóslavíu: Kósóvó, Bosníu, Króatíu og Makedóníu og að auki í Albaníu. Endurreisn samfélagsins í Kósóvó á grundvelli ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1244, er stærsta verkefnið sem ÖSE hefur tekið að sér. Fastaráð ÖSE hefur skilgreint hlutverk samtakanna í Kósóvó með þessum hætti:
     *      Að byggja upp mannauð í Kósóvó með þjálfun á sviði opinberrar stjórnsýslu, stjórnmála, réttarfars, löggæslu og mannréttinda;
     *      að skapa almenn skilyrði fyrir þróun til lýðræðis og lýðræðislegs stjórnarfars;
     *      að skipuleggja og hafa umsjón með kosningum;
     *      að hafa eftirlit með að mannréttindi séu virt;
     *      annað starf eftir óskum aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    Uppbygging á þessu starfi ÖSE í Kósóvó hefur almennt gengið vel, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, en á vegum ÖSE starfa um 1500 manns í Kósóvó. Talsvert hefur verið þrýst á ÖSE að taka að sér enn fleiri verkefni í landinu. Það er hins vegar mikið áhyggjuefni að lítið hefur dregið úr hefndaraðgerðum manna úr albanska meirihlutanum gegn fólki af serbneska minnihlutanum og fólki af Roma-Sinti þjóðflokknum, sem Íslendingar kalla Sígauna. Vonir manna um að endurreisa megi fjölþjóðlegt samfélag í Kósóvó hafa því dvínað, sem fyrr er það þó eitt af meginmarkmiðum uppbyggingarstarfsins í héraðinu.
    Starf ÖSE í Bosníu, þar sem 250 manns eru á vegum samtakanna, hefur gengið hægt af sömu ástæðum. Eins og í Kósóvó, hefur gengið afar erfiðlega að efla traust á milli þeirra þjóðarbrota sem landið byggja, þótt friður hafi nú ríkt í nokkur ár. Stefnt er að þingkosningum í Bosníu með haustinu.
    Í Króatíu, þar sem sendinefnd ÖSE er svipuð að stærð og í Bosníu, hefur starfið fyrst og fremst beinst að lýðræðis- og mannréttindamálum og að tilraunum til sátta á milli Króata og serbneska minnihlutans í landinu. Þetta starf gekk illa framan af en horfur á árangri eru betri nú en áður, ekki síst eftir nýlegar forseta- og þingkosningar í landinu. Þessi þróun mála í Króatíu getur stuðlað að jákvæðri þróun í nágrannaríkjunum. Í Makedóníu reynir ÖSE að styðja og styrkja þróun til lýðræðis, sem í ýmsum greinum hefur þokast áfram. Ástandið í landinu er hins vegar afar viðkvæmt vegna erfiðra samskipta þjóðarbrota í landinu. Í Albaníu aðstoðar sendinefnd ÖSE stjórnvöld við eflingu lýðræðis, en ástandið í Albaníu er sömuleiðis viðkvæmt og um margt nátengt þróun mála í Kósóvó og víðar.
    Ástandið á öllum þeim svæðum sem hér hefur verið fjallað um minnir á þá staðreynd að vandamál ríkjanna á Balkanskaga eru flest nátengd. Stöðugleikasáttmálinn, sem ÖSE hefur eftirlit með, felur í sér tilraun til lausnar á vandamálum allra þjóðanna á svæðinu. Því er ekki að neita að óánægju gætir víða með að framkvæmd sáttmálans sé erfið. Vinnuhópar vinna þess vegna að því að skipuleggja aðgerðir þó að langt sé í land þar til árangur verður áþreifanlegur. Eðlilegt er hins vegar að lítil biðlund sé á meðal þeirra sem verst hafa orðið úti í hörmungum síðustu ára á Balkanskaga. Horfast verður í augu við brýn vandamál þessa fólks, ekki síst flóttamanna, og greiða með öllum mögulegum hætti fyrir því að fólk geti snúið sem fyrst til heimkynna sinna og byggt upp líf sitt á ný.

4.B.2.     Tsjetsjnía og Kákasussvæðið.
    Fyrstu viðbrögð aðildarríkja ÖSE við hernaðaraðgerðum Rússa í Tsjetsjníu voru á fremur lágum nótum og ákveðinn skilningur var á nauðsyn aðgerða gegn hryðjuverkamönnum. Fljótlega kom þó í ljós að Rússar brutu skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um hefðbundinn vígbúnað í Evrópu (CFE). Bæði í fastaráðinu og í Vettvangi um samvinnu í öryggismálum (FSC) hafa Rússar verið gagnrýndir fyrir óhóflega beitingu hervalds með tilheyrandi afleiðingum fyrir óbreytta borgara. Vísað hefur verið til ákvæða atferlisreglna ÖSE (Code of Conduct on Politico — Military Aspects of Security) á hernaðarsviðinu, sem samþykktar voru á leiðtogafundi ÖSE í Búdapest 1994.
    Þá hafa Rússar verið hvattir til að standa við skuldbindingar sínar í Vínarskjalinu frá 1994 (nú VD 2000) um að veita upplýsingar um herstyrk sinn á svæðinu. Jafnframt hefur verið óskað eftir heimild til að fara í eftirlitsferð til að sannreyna eldri upplýsingar frá Rússlandi.
    ÖSE hefur í málflutningi sínum frá upphafi boðið Rússlandi aðstoð við að finna pólitíska lausn á deilunum. Áhugi er fyrir að nýta Aðstoðarhóp ÖSE (OSCE Assistance Group to Chechnya), sem settur var á fót í apríl 1995 þegar átökin stóðu síðast 1994 — 1996. Þessi hópur hraktist frá Tsjetsjníu þegar núverandi átök mögnuðust og hefur verið í Moskvu. Þess hefur verið óskað af hálfu ÖSE að hópurinn fái að starfa í Ingútséu, en engin svör hafa fengist frá Rússum.
    Innan ÖSE er nú mjög vaxandi gagnrýni á Rússland vegna hernaðaraðgerðanna í Tsjetsjníu. Í 23. gr. yfirlýsingar leiðtogafundarins í Istanbúl var litið svo á að Rússland hefði samþykkt aðstoð ÖSE við að finna pólitíska lausn á vandanum þar.
Rússar hafa staðfastlega haldið því fram að deilan sé innanríkismál. Þeir ítreka að um sé að ræða baráttu gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Ekki sé þörf utanaðkomandi aðstoðar við að finna pólitíska lausn á átökunum. Rússar halda því fram að á hernumdu svæðunum í Tsjetsjníu hafi ríkt algert stjórnleysi frá því að fyrri átökum lauk 1996. Samfélagsstofnanir hafi verið óstarfhæfar, t.d. hafi börn ekki gengið í skóla um langt skeið og farið á mis við heilsugæslu, svo sem bólusetningar.
    Aðgerðir Rússa hafa leitt til vaxandi öryggisleysis á Kákasussvæðinu. Í Georgíu og Nagorno-Karabakh er ástandið ótryggt þó að þróunin hafi verið í rétta átt að undanförnu.
    Ástandið í Georgíu hefur batnað og auknar líkur eru á að samningar stjórnvalda við aðskilnaðarsinna í Suður-Ossetíu haldi. Deilan við aðskilnaðarsinna í Abkhasíu er hins vegar enn óleyst. Þá náðist verulegur árangur á leiðtogafundinum í Istanbúl í leit að lausn á deilu Georgíu og Rússlands vegna veru rússnesks hers í Georgíu. Auk aðstoðar við sáttaumleitanir og lýðræðisþróun hefur sendinefnd ÖSE nú tekið að sér að hafa eftirlit með landamærum Georgíu og Rússlands (Tsjetsjníu) að beiðni Georgíu til að hindra hugsanlega birgðaflutninga til uppreisnarmanna í Tsjetsjníu.
    Vonir eru bundnar við vilja stjórnvalda Armeníu og Aserbaijan til að ná sáttum um Nagorno-Karabakh. Fundir leiðtoganna hafa styrkt þær vonir þó að enn sé langt í land. ÖSE hefur sett upp skrifstofu í Yerevan, höfuðborg Armeníu, og stefnt er að því að gera slíkt hið sama í Bakú höfuðborg Aserbaijan innan tíðar.
    Sendinefnd ÖSE í Moldavíu hefur reynt að miðla málum milli stjórnvalda og aðskilnaðarsinna í Trans-Dnjestríu. Árangur hefur hingað til verið takmarkaður. Nokkur hreyfing hefur þó verið á málum eftir að Moldavía og Rússland náðu samkomulagi um brottflutning rússneskra herja frá landinu í áföngum. Framkvæmdin er þó eftir og engin lausn er í sjónmáli vegna Trans-Dnjestríu héraðsins.

4.B.3. Mið-Asía.
    Sendinefndir ÖSE starfa í höfuðborgum allra fimm ÖSE ríkjanna í Mið-Asíu, þ.e. Kasakstan, Kirgisistan, Tadjikistan, Túrkmenistan og Úsbekistan. ÖSE þarf að auka starfsemi sína í þessum ríkjum og hefur formennskuríkið, Austurríki, sett það á oddinn. Ljóst er að víða er verulegur afturkippur í lýðræðisþróun og virðingu fyrir mannréttindum, sérstaklega í Túrkmenistan og Úsbekistan. Hafa þessi ríki verið gagnrýnd í fastaráðinu að undanförnu og hvött til að virða þær skuldbindingar sem þau hafa gengist undir með aðild að ÖSE. Einnig er bágborið efnahagsástand í öllum þessum ríkjum. Tadsjikistan er í sárum eftir langvarandi borgarastyrjöld og gegnir enn stóru hlutverki í alþjóðlegri glæpastarfsemi og eiturlyfjasmygli.

4.B.4. Önnur svæði.
    Eitt erfiðasta viðfangsefni ÖSE um þessar mundir er að freista þess að snúa neikvæðri þróun í Hvíta-Rússlandi við. Þar hefur ráðgjafanefnd ÖSE náð takmörkuðum árangri en þó hefur tekist að beina athygli umheimsins að vandamálum þar. Í fastaráðinu er haldið uppi stöðugri gagnrýni á stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi fyrir að ganga gegn raunverulegu lýðræði, bæði með aðgerðum gegn stjórnarandstöðu og nýrri kosningalöggjöf. Hvíta-Rússland hefur gert sambandssamning við Rússland sem er leiðandi ríki í ÖSE. Óljóst er með öllu hvernig þau mál muni þróast í stjórnartíð nýs Rússlandsforseta. Framkvæmd fyrirhugaðra þingkosninga í Hvíta Rússlandi í haust verður undir eftirliti ÖSE.
    Í Úkraínu er hlutverk sendinefndar ÖSE takmarkað við verkefni á sviði mannréttinda og lýðræðisþróunar.
    Þróun mála í Eystrasaltsríkjunum hefur almennt verið jákvæð. ÖSE hefur sendinefndir í Lettlandi og Eistlandi. Í Lettlandi eru brýn verkefni fram undan, einkum varðandi þjóðernisminnihlutana. Eftir að tungumálalöggjöf var samþykkt í samræmi við óskir ÖSE og annarra alþjóðastofnana hefur samstarf stjórnvalda og sendinefndarinnar gengið vel. Eistar telja sig ekki lengur hafa neina þörf fyrir ÖSE í landinu og hafa jafnvel gripið til andófsaðgerða til að vekja athygli á málinu. Samstaða er þó um að nauðsynlegt sé að fylgja eftir framkvæmd nýrra laga um tungumál og framkvæmd löggjafar um aðlögun rússneska minnihlutans.

4.B.5. Vettvangur um öryggismálasamstarf (VÖS).
    Auk fastaráðs ÖSE starfar Vettvangur um öryggismálasamstarf að því að þróa traust vekjandi aðgerðir á sviði öryggismála og annarra afvopnunarmála. Tilgangur VÖS er fram kvæmd Vínarskjals frá 1999 um traustvekjandi aðgerðir á hernaðarsviðinu. Þar er einnig fjallað um öryggismál á almennum grunni.
    Í VÖS hefur verið til umfjöllunar samþykkt leiðtogafundar ÖSE um að kanna mögulegar aðgerðir af hálfu ÖSE gegn útbreiðslu léttra vopna, einkum handvopna, og þá í samhengi við aðgerðir annarra alþjóðastofnana, svo sem Sameinuðu þjóðanna, á þessu sviði.
    Áhugi er fyrir því að virkja VÖS betur til umræðu um öryggismál almennt. Eftirlitshlutverk VÖS þyrfti einnig að efla en í því felast traustvekjandi aðgerðir og reglur um fram kvæmd og hegðun varðandi hernað (Code of Conduct). Rússland hefur verið mjög gagn rýnt í VÖS undanfarið fyrir að virða hvorki þessar reglur né skuldbindingar um afhendingu upplýsinga um vígbúnað.

4.C. EVRÓPURÁÐIÐ
    Evrópuráðið fagnaði fimmtíu ára afmæli sínu á síðasta ári. Það var stofnað 5. maí árið 1949, í kjölfar hörmunga síðari heimsstyrjaldarinnar, og var frá öndverðu ætlað að tryggja frið sem byggðist á réttlæti og alþjóðasamvinnu ásamt því að stuðla að framförum á sviði efnahags- og félagsmála. Samkvæmt stofnskrá Evrópuráðsins er því ætlað að efla samvinnu meðal aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. Rík áhersla hefur verið lögð á að auka skilning og samkennd meðal íbúa álfunnar á grundvelli sameiginlegrar arfleifðar. Ísland gerðist aðili að ráðinu 7. mars 1950 og hefur frá upphafi tekið virkan þátt í starfsemi þess.
    Á grundvelli þessara markmiða sinnir Evrópuráðið fjölbreytilegum málaflokkum eins og mannréttindamálum, félagsmálum, umhverfismálum, sveitarstjórnarmálum, menntun, menningu og samvinnu á sviði löggjafar svo að nokkur dæmi séu nefnd. Á meðal grundvallarsamninga Evrópuráðsins eru mannréttindasáttmáli Evrópu og félagsmálasáttmáli Evrópu en alls hefur Evrópuráðið staðið að gerð um það bil 170 alþjóðasamninga. Þessir samningar hafa átt mikilvægan þátt í því að stuðla að frekari samvinnu meðal aðildarríkjanna, efla samkennd þeirra og styrkja hugsjónir um mannréttindi og lýðræði.
    Afmælis Evrópuráðsins var minnst með margvíslegum hætti á Íslandi á síðasta ári og má þar m.a. nefna útgáfu bókar og bæklinga um starfsemi ráðsins. Auk þess var haldið Alþingi unga fólksins sem skipulagt var af utanríkisráðuneytinu og Alþingi.

4.C.1.     Stærra hlutverk Evrópuráðsins.
    Evrópuráðið hefur, frá falli Berlínarmúrsins, gegnt mikilvægu hlutverki við að styðja þjóðir Mið- og Austur-Evrópu á leið þeirra til lýðræðislegra stjórnarhátta. Þessi ríki njóta margvíslegrar aðstoðar Evrópuráðsins við uppbyggingu lýðræðislegra stofnana og dómstóla og flest þeirra eru nú aðilar að Evrópuráðinu. Til að öðlast aðild hafa ríkin þurft að undirgangast margvíslegar skuldbindingar um lýðræði og mannréttindi og aðrar grundvallarreglur en um leið felur aðildin í sér viðurkenningu á stöðu þeirra meðal lýðræðisþjóða. Aðild ríkjanna að ráðinu hefur veitt þeim stuðning og aðhald og skapað þeim skilyrði fyrir þátttöku í evrópsku samstarfi og styrkt þau í öðru alþjóðlegu samstarfi.
    Aðildarríki ráðsins eru nú fjörutíu og eitt talsins og hefur fjölgað ört á síðastliðnum tíu árum. Aðild að Evrópuráðinu er opin öllum evrópskum lýðræðisríkjum sem viðurkenna grundvallarreglur lýðræðis, réttarríkis og mannréttinda. Sex önnur ríki hafa lagt fram umsókn um aðild að ráðinu. Þetta eru Armenía, Aserbaijan, Bosnía og Hersegóvína, Mónakó, Hvíta- Rússland (Belarus) og Sambandslýðveldið Júgóslavía (Serbía-Svartfjallaland). Umsóknir þessara ríkja eru nú til umfjöllunar hjá ráðherranefndinni og þingmannasamkomu ráðsins en náið er fylgst með lýðræðisþróun í löndunum. Umsóknir tveggja síðastnefndu landanna hafa verið lagðar til hliðar í bili en þar virða stjórnvöld augljóslega ekki þau grundvallargildi sem starfsemi Evrópuráðsins byggir á.

4.C.2.     Formennska Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins.
    Ráðherranefndin fer með ákvörðunarvald innan Evrópuráðsins, markar ráðinu stefnu og fylgist með margháttuðum störfum þess. Í henni sitja utanríkisráðherrar aðildarríkjanna sem koma saman tvisvar á ári en þess á milli sitja fulltrúar ríkisstjórnanna fundi nefndarinnar. Ísland gegndi formennsku í ráðherranefndinni frá 7. maí til 4. nóvember 1999 og kom það í hlut þess að vera m.a. í pólitísku fyrirsvari fyrir hönd Evrópuráðsins varðandi aðildarumsóknir nýrra ríkja og gagnvart öðrum alþjóðastofnunum.
    Á meðal áhersluatriða í formennsku Íslands var aukin samvinna og samráð Evrópuráðsins við Evrópusambandið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Haldnir voru sérstakir samráðsfundir ráðherra með báðum þessum stofnunum en á árinu 1999 gegndi Noregur formennsku í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Finnland leiddi starf Evrópusambandsins á síðari hluta ársins. Lögð var áhersla á að efla og samhæfa starf stofnananna, auka skilvirkni og að komið yrði í veg fyrir tvíverknað.
    Annað áhersluatriði voru auknar fjárveitingar til mannréttindadómstóls Evrópu en málafjöldi fyrir dómstólnum eykst ár frá ári bæði vegna fjölgunar aðildarríkja Evrópuráðsins og þeirrar staðreyndar að þegnar þeirra eru í auknum mæli meðvitaðir um skyldur aðildarríkjanna á sviði mannréttinda. Sum aðildarríki hafa verið treg til að auka framlög sín til Evrópuráðsins en hætta er á að slík afstaða komi niður á störfum dómstólsins. Áfangar náðust í átt til varanlegrar lausnar á fjárhagsmálum dómstólsins en miklu skiptir að fjárhagslegur stöðugleiki sé fyrir hendi á þeim sviðum sem ríkin hafa veitt forgang.
    Utanríkisráðherra tók jafnframt þátt í leiðtogafundi í Sarajevó um stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu (Stability Pact) og í formennskutíð Íslands náðist samkomulag um hlutverk Evrópuráðsins í uppbyggingarstarfinu í Kósóvó, í samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir. Framlag Evrópuráðsins mun að miklu leyti felast í aðstoð við samningu laga ásamt þjálfun embættismanna og dómara. Evrópuráðið opnaði á síðasta ári skrifstofu í Pristína í Kósóvó.
    Í októbermánuði 1999 fór utanríkisráðherra ásamt framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til Úkraínu og áttu þeir fundi með þarlendum stjórnvöldum en Úkraína hafði verið gagnrýnd fyrir að misvirða skuldbindingar sínar sem aðildarríki að Evrópuráðinu m.a. með tilliti til dauðarefsinga en afnám dauðarefsinga er skilyrði fyrir aðild að Evrópuráðinu. Stjórnvöld í Úkraínu áréttuðu vilja sinn til umbóta og ákveðnar umbætur á sviði mannréttindamála hafa nú þegar átt sér stað, en þing Úkraínu ákvað 23. febrúar sl. að afnema dauðarefsingu í landinu.
    Í júní og september ávarpaði utanríkisráðherra þingmannasamkomu Evrópuráðsins, sem kemur saman fjórum sinnum á ári í Strassborg, og flutti því skýrslur um störf og stefnu ráðherranefndarinnar. Þar áréttaði hann m.a. mikilvægi þess að aðildarríkin virtu skuld bindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu á sviði mannréttinda og lýðræðis sem þau hefðu undirgengist með aðild sinni að ráðinu. Þingmannasamkoma Evrópuráðsins hefur orðið æ meira áberandi í starfsemi ráðsins á undanförnum árum og sem dæmi má nefna frumkvæði þess og samráð við rússnesk stjórnvöld vegna átakanna í Tsjetsjníu. Hún hefur á undan förnum árum gegnt lykilhlutverki í stækkun Evrópuráðsins og hefur sett nýjum ríkjum ströng skilyrði um lýðræði, mannréttindi og reglur réttarríkisins og í framhaldinu fylgst með því að ríkin virtu þessi skilyrði. Íslenskir þingmenn taka þátt í starfi hennar og hefur Íslands deild þingmannasamkomu Evrópuráðsins verið mjög virk í starfi sínu. Stjórn mála nefnd þingmannasamkomu Evrópuráðsins hélt fund sinn á Íslandi í septembermánuði 1999 sam hliða opinberri heimsókn Walter Schwimmer framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til Íslands. Jafnframt ávarpaði utanríkisráðherra sveitarstjórnarsamkomu Evrópuráðsins (CLRAE) sem kemur saman einu sinni á ári í Strassborg. Sveitarstjórnarsamkoman er ráð herra nefndinni til ráðgjafar um sveitarstjórnarmálefni í aðildarríkjunum.
    Mikilvægur áfangi í starfi ráðsins á síðasta ári var stofnun embættis mannréttindafulltrúa við Evrópuráðið. Mannréttindafulltrúanum er ætlað að fylgjast með þróun mannréttinda og lýð ræðis í aðildarríkjunum og veita þeim aðstoð.
    Evrópuráðið nýtur virðingar fyrir störf sín að mannréttindamálum, uppbyggingu lýð ræðislegra stofnana og sem umræðu- og samstarfsvettvangur þingmanna úr allri Evrópu.

4.D. GRANNSVÆÐARÁÐ
    Grannsvæðaráðin þrjú Eystrasaltsráðið, Barentsráðið og Norðurskautsráðið voru öll stofnuð með það fyrir augum að efla samstarf aðildarríkja um málefni og málaflokka sem kalla á samvinnu, samráð og gagnkvæma miðlun upplýsinga. Þau hafa nú starfað um nokkurt skeið og með ágætum árangri. Eystrasaltsráðið var stofnað 1992, Barentsráðið 1993 og Norðurskautsráðið 1996. Samsetning, markmið og dagskrá ráðanna er mismunandi en sameiginlegt er þeim öllum að málefni á norðurslóðum og/eða í norðanverðri Evrópu eru í þungamiðju starfseminnar.
    Aðild að Eystrasaltsráðinu eiga Norðurlöndin fimm, Eystrasaltsríkin þrjú, Rússland, Pólland og Þýskaland. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á einnig sæti í ráðinu. Ráðið starfar á mjög breiðum grunni sem miðar að því að efla samvinnu og samstarf á hinum ýmsu sviðum. Starfsemi Barentsráðsins miðast fyrst og fremst við landfræðilega afmarkað svæði sem nær til Norðvesturhluta Rússlands og nyrðri hluta Finnlands, Svíþjóðar og Noregs. Samvinna héraða, bæja, félagasamtaka og fyrirtækja innan svæðisins á ýmsum sviðum einkennir starfsemina.
    Í reynd má líta á Barentsráðið sem norræna vídd samstarfsins við Rússland en einnig á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sæti í ráðinu.
    Norðurskautsráðið hefur fyrst og fremst starfað á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar. Aðild að ráðinu eiga Norðurlöndin fimm, Bandaríkin, Kanada og Rússland.
    Í fyrra markaði Evrópusambandið, undir formennsku Finnlands, stefnu sem kennd hefur verið við „norðlæga vídd“ og miðar að aukinni áherslu sambandsins í norðanverðri Evrópu og er miðað við að grannsvæðaráðin taki þátt í framkvæmd þeirrar stefnu.
    Hér er nánar gerð grein fyrir grannsvæðaráðunum þremur sem og hinni norðlægu vídd Evrópusambandsins.

4.D.1.     Eystrasaltsráðið.
    Eystrasaltsráðið hefur mjög víðtæka dagskrá og miðar að því að efla tengsl og samvinnu aðildarríkja á sviði efnahags- og viðskiptamála, mannréttinda og lýðræðisþróunar, menningar- og menntamála, samgöngumála, orkumála og umhverfismála. Utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna funda árlega en þess á milli eru alltíðir fundir embættismanna. Tveir leiðtogafundir hafa verið haldnir, í Visby í Svíþjóð 1996 og Riga í Lettlandi 1998. Sá þriðji verður haldinn í Kolding í Danmörku í apríl á þessu ári.
    Þrír vinnuhópar starfa á vegum ráðsins, einn um efnahagssamvinnu, annar um geislavarnir og sá þriðji um lýðræðisstofnanir. Þá starfar vinnuhópur um glæpastarfsemi í umboði leiðtogafundarins 1998. Skrifstofa Eystrasaltsráðsins er í Stokkhólmi. Á vegum ráðsins hefur einnig frá 1994 starfað sérstakur fulltrúi fyrir mannréttindi, minnihlutahópa og lýðræðisstofnanir og hefur hann skrifstofu í Kaupmannahöfn.
    Ýmsir hópar og félagasamtök tengjast einnig starfi Eystrasaltsráðsins með einum eða öðrum hætti. Meðal annars má nefna samtök um svæðisbundna samvinnu Eystrasaltsins (Baltic Sea States Sub-regional Co-operation), samband borga við Eystrasalt, (Union of the Baltic Cities), þingmannasamtök Eystrasaltsins (Baltic Sea Parliamentary Conference) og atvinnumálaráð Eystrasaltsins (Baltic Business Advisory Council).
    Hin fjölmörgu málefni sem eru á dagskrá Eystrasaltsráðsins hafa ekki einungis verið til umfjöllunar á árlegum utanríkisráðherrafundum, eða verið tilefni leiðtogafunda, heldur hafa ráðherrar aðildarríkja á sviði orku- iðnaðar- og viðskiptamála sem og mennta- og umhverfismála fundað nokkuð reglulega um málefni sem undir þá heyra.
    Formennska í Eystrasaltsráðinu skiptist árlega á milli aðildarríkja og hefur Noregur haft formennsku frá miðju síðasta ári en Þýskaland tekur við í júní á þessu ári. Í formennskutíð Noregs er sérstök áhersla á fjögur höfuðsvið samstarfsins; lýðræðisþróun og samvinnu er lýtur að landamærum, efnahagssamvinnu, samvinnu á sviði orkumála og almannaöryggi.
    Þegar samsetning Eystrasaltsráðsins er skoðuð kemur í ljós að fjögur ríki, Þýskaland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland eiga aðild að Evrópusambandinu og fjögur Eistland, Lettland, Litháen og Pólland hafa sótt um aðild að sambandinu. Eins og að líkum lætur eru tengslin við Evrópusambandið, í gegnum Eystrasaltsráðið, verulegur þáttur í samstarfinu hvort sem er fyrir hin fjögur ríki sem sótt hafa um aðild eða Rússland.
    Starfsemi Eystrasaltsráðsins minnir um margt á hefðbundið samstarf Norðurlandanna þótt ýmislegt sé ólíkt. Ráðið leitast við að stuðla að sem mestum og fjölbreytilegustum tengslum milli aðildarríkja og umræðu og samvinnu um ýmis málefni sem takast þarf á við hverju sinni. Það er því mikilvægur vettvangur umræðu er tekur til stjórnmála sem og annarra þátta landsmála og milliríkjasamskipta.

4.D.2.     Norðurskautsráðið.
    Norðurskautsráðið hefur nú verið starfrækt frá 1996. Aðild að því eiga átta ríki, Norðurlöndin fimm, Bandaríkin, Kanada og Rússland. Þá eiga sæti í ráðinu heimsskautaráð Inúíta, Samaráðið, Rússnesk samtök innfæddra þjóða norðursins og alþjóðasamtök Alúta. Allmörg ríki, milliríkjastofnanir, þingmannasamtök og frjáls félagasamtök eiga áheyrnaraðild að ráðinu.
    Norðurskautsráðið byggir að miklu leyti á grunni sem á rætur að rekja til samstarfs um umhverfisvernd á norðurslóðum (AEPS-Arctic Environmental Protection Strategy) sem hófst 1991 í Rovaniemi í Finnlandi. Kjarninn í starfi Norðurskautsráðsins frá upphafi hefur verið framhald og frekari þróun á því samstarfi. En auk þessa starfs var kveðið á um, í stofnyfirlýsingu ráðsins, að annar meginþáttur samstarfsins skyldi lúta að sjálfbærri þróun á norðurslóðum.
    Umhverfismálin eru verkefni fjögurra vinnuhópa ráðsins, AMAP (Arctic Monitoring and Assessment Program), CAFF (Conservation of Arctic Fauna and Flora), PAME (Protection of the Arctic Marine Environment) og EPPR (Emergency Prevention, Preparedness and Response).
          AMAP-hópurinn safnar upplýsingum og fylgist með mengun á norðurslóðum, metur áhrifin á umhverfið og gerir tillögur um hvernig bregðast beri við þeim.
          CAFF-vinnuhópurinn um líffræðilegan fjölbreytileika stuðlar að upplýsingaskiptum og samhæfingu rannsókna á búsvæðum dýra og jurta og fjallar um viðhald og verndun þeirra. Skrifstofa CAFF er staðsett á Akureyri.
          PAME-vinnuhópurinn fjallar um mengun sjávar á norðurslóðum og hefur lagt fram aðgerðaáætlun um varnir gegn mengun sjávar sem samþykkt var á fyrsta ráðherrafundi Norðurskautsráðsins haustið 1998. Skrifstofa PAME sem m.a. hefur það verkefni að fylgjast með og stuðla að framkvæmd áætlunarinnar er á Akureyri.
          EPPR-hópurinn fjallar um viðbrögð í neyðartilvikum þar sem umhverfi norðurslóða stafar hætta af mengunarslysum og gerir tillögur um aðgerðir í slíkum tilfellum.
    Enginn vafi leikur á að vinnuhópar Norðurskautsráðsins á sviði umhverfismála hafa unnið mjög gagnlegt starf og full samstaða er um að halda því starfi áfram og efla það. Ýmislegt er á döfinni í þeim efnum, m.a. er verið að vinna að heildaráætlun um aðgerðir á norðurslóðum á sviði mengunarvarna. Þá er einnig á borðinu áætlun um athugun á loftslagsbreytingum á norðurskautssvæðinu.
    Starf ráðsins á sviði sjálfbærrar þróunar er í höndum vinnuhóps um það efni. Ekki ber að skilja það svo að skörp skil séu gerð milli sjálfbærrar þróunar og umhverfisverndar enda samtengingin augljós. En staðreynd er að umhverfisþátturinn í starfsemi ráðsins hefur verið afmarkaður þannig að aðrir þættir, sem falla eðlilega undir sjálfbæra þróun, eru nýir af nálinni og er ráðið enn að gera upp við sig hvernig haldið skuli á málum. Ekki hefur náðst samstaða um að móta heildarstefnu á sviði sjálfbærrar þróunar þannig að enn sem komið er markast þetta verksvið ráðsins af einstökum verkefnum. Meðal þeirra eru verkefni er lúta að heilsu og menntun barna og ungmenna á norðurskautssvæðinu, fjarlækningar og umhverfisvæn ferðaþjónusta.
    Norðurskautsráðið er í reynd samráðsvettvangur enda hefur ekki náðst samstaða um að gera það að eiginlegri alþjóðastofnun með tilheyrandi höfuðstöðvum og föstum fjárframlögum aðildarríkja. Aðildarríki ráðsins skiptast á um formennsku í ráðinu og er hún til tveggja ára. Kanada hafði á hendi formennsku í ráðinu frá stofnun þess 1996 til haustmánaða 1998 þegar Bandaríkin tóku við. Finnar munu væntanlega taka við formennskunni á haustmánuðum 2000. Skrifstofuhald og kostnaður við það hefur fram til þessa verið á ábyrgð formennskulandsins. Skrifstofuhald og verkefni vinnuhópa eru byggð á frjálsum fjárframlögum aðildarríkja hverju sinni.
    Ísland hefur lagt allmikla áherslu á starfsemi Norðurskautsráðsins og kemur það m.a. fram í því að tveir vinnuhópar ráðsins CAFF og PAME hafa skrifstofur sínar hér á landi. Starfsemi ráðsins er enn í mótun en greinilegt er að það vinnur mjög gagnlegt starf sem ber að þróa og efla sem kostur er.

4.D.3.     Barentsráðið (BEAC).
    Sem fyrr segir starfar Barentsráðið á landfræðilega afmörkuðu svæði og beinir athygli og kröftum að verkefnum innan þess svæðis. Uppbyggingu ráðsins er þannig háttað að utanríkisráðherrar funda árlega en þess á milli embættismenn þátttökuríkja en einnig sérstakt svæðisráð með skrifstofu í Kirkenes sem í eiga sæti fulltrúar þeirra héraða sem eru á Barentssvæðinu. Þá starfa einnig vinnuhópar á vegum ráðsins sem beina athyglinni að efnahagssamvinnu, orkumálum, umhverfismálum og samgöngumálum. Nýrri af nálinni eru vinnuhópar um heilbrigðismál, menntamál og málefni ungmenna.
    Í reynd fer stór hluti af starfsemi ráðsins fram á vettvangi svæðisráðsins sem hefur frumkvæði og milligöngu að auknum tengslum innan Barentssvæðisins á þeim sviðum sem vinnuhóparnir beina augum að og er almennt litið svo á að það hafi skilað góðum árangri.
    Á utanríkisráðherrafundi Barentsráðsins í Bodö í mars 1999 var ákveðið að ýta úr vör fjölþjóðlegu verkefni um hreinsun geislavirks úrgangs í rússneskum hluta Barentssvæðis ins. Er hér um að ræða útvíkkun á verkefni sem Noregur og Bandaríkin hafa þegar hafið í samvinnu við Rússland. Viðræður hafa staðið yfir við Rússland undanfarið ár um samn ings drög, sem ætlað er að leggja grunninn að hinu fjölþjóðlega verkefni, en samkomu lag hefur ekki tekist enn sem komið er. Mikilvægt er að samningar takist enda er hér greinilega um þýðingarmikið mál að ræða, einnig fyrir Ísland, sem lýst hefur eindregnum stuðn ingi við það.

4.D.4.     Norðlæg vídd Evrópusambandsins.
    Finnar voru í forsæti Evrópusambandsins seinni hluta ársins 1999. Á þessu tímabili og mánuðina á undan höfðu þeir frumkvæði að mótun stefnu Evrópusambandsins sem miðar að aukinni áherslu á norðvestanverða Evrópu. Þessi stefna sem venjulega er kölluð norðlæg vídd Evrópusambandsins hefur verið viðtekin af sambandinu og um hana var haldinn sérstakur ráðherrafundur í Helsinki í nóvember sl. Við undirbúning og mótun hinnar norðlægu víddar höfðu Finnar náið samráð við ríki utan sambandsins þar á meðal Ísland.
    Ísland hefur verið því mjög fylgjandi að Evrópusambandið beini kröftum sínum í ríkari mæli að norðanverðri Evrópu og hefur tekið virkan þátt í samráði um stefnumótun er varðar hina norðlægu vídd. Meðal annars stóð sendiráð Íslands í Brussel fyrir málþingi um umhverfisþátt norðlægu víddarinnar sl. haust í þessu skyni. Af Íslands hálfu hefur einkum verið lögð áhersla á umhverfisvernd, sérstaklega mengun hafsins, förgun geislavirks úrgangs og rannsóknir á norðurslóðum.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur það verkefni að hanna aðgerðaáætlun sem byggt verður á við framkvæmd hinnar norðlægu víddar. Miðað er við að því verki ljúki síðar á þessu ári. Nú þegar er gengið út frá því að Eystrasaltsráðið og Barentsráðið komi að framkvæmd stefnunnar en jafnframt hafa norrænu ríkin hvatt til þess að Norðurskautsráðið tengist málinu.

5. UTANRÍKISVIÐSKIPTI

5.A.     ALÞJÓÐAVIÐSKIPTASTOFNUNIN (WTO)
    WTO er eini formlegi alþjóðavettvangurinn þar sem fjallað er reglubundið um fyrir komu lag heimsviðskipta. Ríflega 25 samningar hafa að geyma þær leikreglur sem gilda um viðskipti milli hinna 136 aðildarríkja WTO, en þau viðskipti nema ríflega 90% af heimsviðskiptum. Tilgangur þessara samninga er að tryggja frjáls og hnökralaus viðskipti með vörur og þjónustu. Samningarnir eru afrakstur Úrúgvæviðræðnanna sem stóðu yfir frá 1987–1994 og tók WTO til starfa í ársbyrjun 1995. Fram að þeim tíma lagði GATT-samn ingurinn frá 1947 grundvöllinn að reglum um vöruviðskipti milli aðildarríkja þess samn ings.
    Með stofnun WTO gengu í gildi mun umfangsmeiri og ítarlegri reglur um vöruviðskipti í heiminum en áður höfðu þekkst. Þar ber fyrst að nefna GATT-samninginn frá 1994 sem leysti eldri samninginn frá 1947 af hólmi, landbúnaðarsamninginn, samning um hollustu hætti og heilbrigði, samning um viðskipti með vefnaðarvörur, tæknilegar viðskiptahindr anir, upprunareglur, fjárfestingar, undirboð, gagnráðstafanir og svo mætti lengi telja.
    Þessu til viðbótar gengu í gildi, í fyrsta sinn, samningur um þjónustuviðskipti (GATS) og samningur um hugverkarétt í viðskiptum. Á grundvelli þjónustu-viðskiptasamningsins hefur verið lokið gerð viðauka um fjármálaþjónustu og grunnfjarskipti. WTO var einnig fengið það verkefni að fjalla um fjölmörg ný málefni svo sem um tengsl viðskipta og þróunar, viðskipta og umhverfis, um opinber innkaup, samkeppnismál o.m.fl. Loks voru settar ítarlegri og skilvirkari reglur um meðferð og lausn deilumála. Frá stofnun hefur lausn deilu mála verið eitt mikilvægasta verkefni WTO. Á síðustu 5 árum hefur verið fjallað um 150 kærumál. Flest málin snerta meint brot á grundvallarreglum WTO.
    Grundvallarreglur WTO eru þrjár og ganga þær eins og rauður þráður gegnum allt samningakerfi samtakanna. Þessar grundvallarreglur eru:

     a. Bestukjararéttindi.
    Reglan um bestukjararéttindin felur í sér að óheimilt er að mismuna þjóðum í viðskiptum með vörur og þjónustu. Til dæmis er óheimilt að leggja lægri tolla á tilteknar vörur frá Japan en sambærilegar vörur frá Bandaríkjunum. Í heimsviðskiptum eiga allir að sitja við sama borð.

    b. Jafnréttiskjör.
    Þessi regla kveður á um að innflutt vara skuli hljóta sömu meðhöndlun og innlend framleiðsla. Til dæmis er óheimilt að leggja lægri virðisaukaskatt á innlenda vöru en lagður er á sambærilega innflutta vöru.

    c. Gagnsæi.
    Þessi regla skuldbindur aðildarríki WTO til að tilkynna samtökunum um allar ráðstafanir sem gripið er til og kunna að hafa áhrif á viðskipti milli ríkjanna.

5.A.1. Gildi WTO fyrir Ísland.
    Utanríkisviðskipti eru Íslendingum lífsnauðsynleg og fá ríki í heiminum eru eins háð þeim og Ísland. Frelsi í milliríkjaviðskiptum er Íslendingum því afar mikilvægt. Í Úrúgvæviðræðunum fékkst viðurkenning á því að sjávarafurðir teldust til iðnaðarvara en einn mikilvægasti ávinningurinn með GATT samningnum frá árinu 1994 er að nú eru viðskipti með iðnaðarvörur algerlega frjáls og ekki er heimilt að hafa áhrif á innflutning eða útflutning nema með tollum og öðrum gjöldum. Utanríkisviðskipti Íslands njóta því mikilvægs frelsis í skjóli WTO-samninganna.
    Það er yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda að landbúnaður sé nauðsynlegur til að tryggja fæðuöryggi og vegna byggðasjónarmiða. Stjórnvöld hafa því skuldbundið sig til að styðja sérstaklega þessa atvinnugrein. Í landbúnaðarsamningi WTO eru þessi sjónarmið viðurkennd.
    Ákvarðanir á vettvangi WTO eru teknar samhljóða og afl atkvæða ræður því ekki úrslitum. Ísland getur því haft umtalsverð áhrif.
    Nokkur aðildarríki WTO, þ.ám. Ísland hafa lagt áherslu á að viðskipti og umhverfismál verði til umfjöllunar í WTO. Sú umræða gæti reynst mikilvæg fyrir hagsmuni Íslands.
    Á undanförnum árum hefur verið vaxandi áhugi á tengslum viðskipta og umhverfismála á vettvangi WTO. Almennt er álitið að alþjóðaviðskiptakerfið eigi að stuðla að sjálfbærri þróun og að stefnumörkun á sviði viðskipta og umhverfismála eigi að styðja og styrkja hvor aðra. Það hefur hins vegar vafist fyrir aðildarríkjum WTO hvaða hlutverki stofnunin eigi að gegna í þessu efni. Ísland hefur lagt áherslu á að WTO sé ekki umhverfisstofnun en hafi lykilhlutverki að gegna í því að ná ofangreindum markmiðum með því að laga alþjóðaviðskiptakerfið að kröfum sjálfbærrar þróunar. Þetta getur WTO gert með því að leysa einstök verkefni sem stuðla samtímis að aukinni samkeppni, vernd umhverfis og náttúruauðlinda og sjálfbærri þróun. Dæmi um slíkt er afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi sem stuðlar að ofveiði. Slíkir styrkir draga úr heilbrigðri samkeppni, þeir stuðla að rányrkju og auk þess vinna þeir gegn sjálfbærri þróun jafnt í iðnvæddum ríkjum sem í þróunarríkjunum.
    Ísland hefur sýnt frumkvæði og beitt sér fyrir því að viðræður um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi, er stuðla að ofveiði, verði eitt af verkefnum næstu samningalotu WTO. Þróunarríkin hafa mörg óttast að umræður um viðskipta- og umhverfismál gætu falið í sér leyndar viðskiptahindranir af hálfu þróaðra ríkja. Í málflutningi sínum hefur Ísland lagt áherslu á að afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi feli í sér ávinning fyrir alla, ekki síður þróunarríki sem eiga í erfiðleikum með að byggja upp hagkvæman sjávarútveg í samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg þróaðra ríkja. Tillaga Íslands hefur nú þegar fengið stuðning margra ríkja, svo sem Bandaríkjanna, Perú, Filippseyja, Argentínu, Ástralíu, Nýja Sjálands, Noregs, Kanada, Marokkó, Egyptalands, Mexíkó og Chile. Þá hefur Evrópusambandið lýst því yfir að það væri opið fyrir því að ræða áhrif ríkisstyrkja í sjávarútvegi á sjálfbæra þróun.
    Helsta andstaðan gegn tillögu Íslands hefur verið frá Japan og Kóreu.

5.A.2.     Framtíðarverkefni WTO.
    Við lok Úrúgvæviðræðnanna var tekin sú ákvörðun að hefja skyldi nýjar samningaviðræður um landbúnaðarmál og þjónustuviðskipti á þessu ári. Iðnríkin, þar á meðal Ísland og sum þróunarríki, hafa þrýst á um að samningalotan verði víðtækari og fjalli um alla helstu samninga WTO. Þá er enn fremur áhugi fyrir því að fjallað verði um fjölmörg ný mál, svo sem umhverfismál, þróunarmál, samkeppnismál, viðskiptaliprun, opinber innkaup og vinnumarkaðsmál. Þróunarríkin hafa hins vegar viljað takmarka umfjöllunina við framkvæmd núverandi samninga og að ekki yrði gengið til samningaviðræðna um annað en landbúnaðarmál og þjónustuviðskipti. Á ráðherrafundi WTO í Seattle í desember 1999 átti að jafna ágreininginn og ýta nýrri lotu viðræðna um heimsviðskiptin úr vör. Það mistókst af fjölmörgum ástæðum sem ekki verða tíundaðar hér.
    Meginverkefni WTO á næstunni verður því að freista þess að ná samstöðu um að nýrri lotu verði ýtt úr vör sem fyrst auk þess að hefja viðræður um viðskipti með landbúnaðar vörur og þjónustu. Í ljósi þess að ákvörðun um nýjar víðtækari samningaviðræður hefur ekki verið tekin má búast við því að viðræður um landbúnaðarvörur og þjónustuviðskipti fari hægt af stað á þessu ári.
    Ísland mun, ásamt þeim ríkjum sem fylkt hafa sér bak við tillögur um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi, halda áfram að vinna þessum tillögum brautargengi þrátt fyrir að ekki hafi tekist að ýta nýrri samningalotu úr vör.

5.B.     OECD
    Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) var sett á laggirnar árið 1961 til að leysa af hólmi Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (OEEC). Ísland var stofnaðili að OECD og er nú eitt af 29 aðildarríkjum stofnunarinnar. Markmið OECD er að ná sem mestum viðvarandi hagvexti í aðildarríkjunum, bæta lífskjör, tryggja atvinnu og fjárhagslegan stöðugleika innan þeirra ásamt því að stuðla að efnahagslegri þróun og aukningu heimsviðskipta á fjölþjóðlegum grundvelli.
    Í síbreytilegum heimi eru fæst málefni þess eðlis að hægt sé að fást við þau í einangrun og fyrir aðildarríkin liggur helsti styrkur OECD í þverfaglegri þekkingu sem spannar litróf opinberrar stjórnsýslu. Þannig skapar OECD vettvang fyrir aðildarríkin til skoðanaskipta um nánast öll þau mál sem þau standa frammi fyrir í daglegum ríkisrekstri, til að leita lausna á sameiginlegum vandamálum og samhæfa stefnumörkun í ljósi síaukinnar hnattvæðingar. Einnig er OECD kjörinn vettvangur til að greina framtíðarmálefni í ljósi efnahagslegrar þróunar eða vísinda- og tækniframfara og leggja drög að hugsanlegum viðbrögðum aðildarríkjanna áður en til kastanna kemur.
    Hagsmunir aðildarríkjanna í samstarfi af þessu tagi eru verulegir og má færa gild rök fyrir því að ávinningur Íslands af samstarfinu sé síst minni en hjá stærri aðildarríkjum. Öll fagráðuneyti og margar ríkisstofnanir taka beinan þátt í starfsemi stofnunarinnar. Mest áberandi er samstarf á sviði efnahags-, viðskipta- og ríkisfjármála en önnur störf stofnunarinnar, t.d. á sviði sjávarútvegs-, iðnaðar-, umhverfis- og landbúnaðarmála, eru ekki síður mikilvæg. Samstarf á vettvangi OECD hefur skilað þýðingarmikilli þekkingu og reynslu inn í íslenska stjórnkerfið og haft markverð áhrif á töku ákvarðana og stefnumótun hér innan lands.
    Af helstu verkefnum OECD á komandi misserum mætti nefna undirbúningsvinnu til styrktar fyrirhuguðum samningaviðræðum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, yfirgripsmikið verkefni á sviði sjálfbærrar þróunar, margvísleg þverfagleg verkefni er tengjast hnattvæðingu og ábyrgri stjórnsýslu, úttekt á líftækni og áhrifum hennar á matvælaöryggi, verkefni tengd upplýsingasamfélaginu og rafrænum viðskiptum og gerð leiðbeinandi reglna um fjölþjóðleg fyrirtæki. Enn fremur verður áframhaldandi áhersla lögð á samskipti við ríki utan stofnunarinnar í viðleitni til að deila þeirri þekkingu sem aðildarríkin telja sig hafa fram að færa. Næsti ráðherrafundur OECD verður haldinn undir lok júní, samhliða alþjóðlegri ráðstefnu um helstu viðfangsefni stofnunarinnar.

5.C.     VIÐSKIPTAÞJÓNUSTAN (VUR)
    Í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis árið 1995 var lögð áhersla á nauðsyn þess að efla og laga utanríkisþjónustuna að alþjóðavæðingu íslenskra fyrirtækja. Nú lesum við um fjármálafyrirtæki sem hasla sér völl í Evrópu eða Bandaríkjunum, hátæknifyrirtæki sem sækja áhættufjármagn með því að skrásetja hlutabréf á erlenda markaði eða sjávarútvegsfyrirtæki sem stækka með yfirtökum á erlendum keppinautum. Það sem af er þessu ári hafa íslensk fyrirtæki fjárfest erlendis fyrir sem nemur 8 milljörðum íslenskra króna sem er umtalsvert hærri fjárhæð en allt árið í fyrra. Þetta er bylting sem hefur orðið á tiltölulega fáum árum en er aðeins byrjunin á þróun sem mun hafa sífellt meiri áhrif á samfélag okkar.
    Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins (VUR) var stofnuð 1. september 1997. Markmiðið hennar er að nýta þá möguleika sem felast í víðtæku neti utanríkisþjónustunnar til hagsbóta fyrir íslensk fyrirtæki sem stunda alþjóðaviðskipti. Þetta hefur verið gert með aukinni sérhæfingu starfsmanna og með því að auðvelda fyrirtækjum aðgang að þekkingu utanríkisþjónustunnar á viðskiptasamningum, menningu og staðháttum erlendis.
    Það er augljóst að með því að virkja þetta víðtæka alþjóðlega net enn betur er hægt að vinna atvinnulífinu verulegt gagn. Í því skyni hafa verið ráðnir viðskiptafulltrúar í sex sendiráð sem vinna að markaðsrannsóknum, koma á fundum og aðstoða við stofnun fyrirtækja eða leit og val á erlendum viðskiptaaðilum svo dæmi séu tekin. Með þessum hætti er íslenskum fyrirtækjum auðveldaður aðgangur að nýjum mörkuðum og viðskiptasamböndum. Viðskiptaþjónustan hefur mælst mjög vel fyrir og hafa fyrirtæki stöðugt sótt meira til hennar.
    Í Norður-Ameríku hafa íslensk fyrirtæki, undir verkstjórn viðskiptafulltrúa utanríkisþjónustunnar og fulltrúa ferðamálaráðs, tekið höndum saman um að treysta ímynd Íslands. Markmiðið er að auka tekjur þjóðarbúsins af alþjóðlegum viðskiptum, þ.e. að framleiða meira eða auka eftirspurn sem leiðir til hærra verðs. Í þessu starfi í Norður-Ameríku er áhersla lögð á náttúrulegar íslenskar afurðir og þjónustu. Í ljósi reynslunnar af þessu samstarfsverkefni utanríkisþjónustunnar, samgönguráðuneytisins og íslenskra fyrirtækja kemur til álita að taka upp svipuð vinnubrögð t.d. í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi.
    Þekking, aðlögunarhæfni og árvekni eru nauðsynlegir eiginleikar í samkeppni á alþjóðamarkaði. Heimurinn er að breytast í þekkingarsamfélag og upplýsingatækni virðir ekki hefðbundin landamæri. Þessi þróun gerir nýjar kröfur til fyrirtækja og utanríkisþjónustunnar. Atvinnulífið hefur þörf fyrir hraðvirka þjónustu og skilning á þörfum neytenda á erlendum markaðstorgum. Það er ljóst að halda verður áfram að þróa viðskiptaþjónustuna og laga að síbreytilegum heimi.
    VUR tekur þátt í óformlegu samstarfi stoðstofnana fyrir íslenskt atvinnulíf sem hefur það að markmiði að skerpa verksvið einstakra stofnana og auðvelda nýtingu og aðgang að sérfræðiþekkingu sem þar er að finna. Miðað er að því að einfalda leit fyrirtækja að aðstoð, minnka líkur á tvíverknaði og lækka kostnað með samlegðaráhrifum. Því er brýnt að verksvið utanríkisþjónustunnar verði skilgreint með tilliti til starfsemi annarra stofnana.
    Gagnvirkt upplýsingastreymi þarf að vera milli fyrirtækja og utanríkisþjónustunnar. Nauðsynlegt er að efla kynningu á starfi VUR og gera starfsemina sýnilegri íslensku atvinnulífi. Starfsemi og þjónusta VUR verður markvisst kynnt og jafnframt verða tengslin við atvinnulífið efld.
    Stór þáttur í kynningarstarfi VUR undanfarið hefur verið gerð heimasíðu þar sem fyrirtækjum er gefinn kostur á að setja sig í samband við einstaka viðskiptafulltrúa hennar milliliðalaust á veraldarvefnum með fyrirspurnir og óskir um sérhæfða markaðsaðstoð.
    Viðskiptatækifæri íslenskra fyrirtækja liggja víða. Reynslan sýnir að opinberar heimsóknir nýtast vel til að byggja upp og styrkja viðskiptatengsl. Gott dæmi um það er ferð utanríkisráðherra til Rússlands 6. til 10. mars sl. Með í för voru yfir tuttugu fulltrúar sextán fyrirtækja sem kynntu starfsemi sína í Múrmansk og Kaliningrad. Viðskiptafulltrúi sendiráðsins í Moskvu skipulagði stefnumót íslenskra og rússneskra fyrirtækja á meðan á heimsókninni stóð. Þá voru formlega opnaðar kjörræðisskrifstofur í Pétursborg og Kaliningrad sem vafalítið munu greiða götu íslenskra útflytjenda á Rússlandsmarkaði.
    Þróunarhjálp iðnríkja hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár. Áhersla hefur í auknum mæli verið lögð á að tengja þróunaraðstoð einkaframtaki fyrirtækja þar sem það á við. Þessa hefur einnig gætt hér þar sem íslensk fyrirtæki leita í vaxandi mæli viðskiptatækifæra og verkefna á vegum alþjóðastofnana í þróunarríkjum. Utanríkisþjónustan getur nýst sérstaklega vel í þessum tilgangi og þarf í auknum mæli að hafa frumkvæði að því að veita faglega ráðgjöf um tækifæri og vandamál í viðskiptum í þróunarríkjum.
    Við ákvörðun ríkisstjórnar um að gera tillögu að stofnun nýrra sendiráða í Japan og Kanada vógu viðskiptarök þungt enda bæði löndin mikilvægir markaðir fyrir íslenska útflytjendur. Verði tillagan samþykkt verða þau vel búin til að sinna viðskiptahagsmunum.
    Viðskiptaþjónusta er vaxandi þáttur í starfsemi sendiráða okkar. Samsvarandi þróun má greina í samkeppnislöndunum. Stofnun VUR var svar okkar við alþjóðavæðingu atvinnulífsins og þeirri þróun sem var fyrirsjáanleg fyrir þremur árum. Utanríkisráðherra telur að framtíðarsýn okkar hafi verið rétt og mun hann og ráðuneytið leggja áherslu á að efla þjónustuna sem á að vera öldubrjótur fyrirtækja í alþjóðlegum viðskiptum og stuðla þannig að aukinni hagsæld á Íslandi í framtíðinni.

6.     ÖRYGGIS- OG VARNARMÁL

6.A.     ATLANTSHAFSBANDALAGIÐ (NATO)
    Atlantshafsbandalagið er sem fyrr burðarás öryggis og varna á hinu svokallaða Evró- Atlantshafssvæði. Bandalagið var stofnað sem samstarfsvettvangur lýðræðisríkja í Norður- Ameríku og Evrópu fyrir rúmum fimmtíu árum með það að meginmarkmiði að tryggja sameiginlegar varnir aðildarríkja þess. Það hefur, líkt og flestar aðrar alþjóða- og svæðisbundnar stofnanir, tekið miklum breytingum á undanförnum árum í takt við breyttar aðstæður í alþjóðakerfinu og nýjar áherslur í alþjóðamálum.
    Fyrrgreind þróun hefur gert kröfu um endurmat á markmiðum og innra og ytra skipulagi bandalagsins, svo það sé betur í stakk búið til að takast á við þau nýju og oft ögrandi verkefni sem fram undan eru hverju sinni. Undanfarin ár hefur eitt viðamesta verkefni bandalagsins falist í samræmdum aðgerðum aðildarríkjanna til að koma á friði á Balkanskaga í nánu samstarfi við aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir. Segja má að friðargæslusveitir bandalagsins hafi unnið brautryðjendastarf í Bosníu og Kósóvó. Auk friðaraðgerða og friðargæslu í Evrópu, hefur bandalagið síðustu ár eflt verulega samstarf í þágu friðar við önnur ríki á Evró-Atlantshafssvæðinu auk þess að leggja sérstaka rækt við samstarf við Úkraínu og einnig Rússland, en nú er litið á bætt samskipti og samstarf við Rússland sem eitt af brýnustu forgangsverkefnum bandalagsins.
    Síðast en ekki síst ber að nefna „Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum“ sem felur í sér stuðning Atlantshafsbandalagsins við það að ríki Evrópu taki á sig aukna ábyrgð á öryggis- og varnarmálum álfunnar, og er þá sérstaklega átt við hugsanlegar hættuástandsaðgerðir. Hröð þróun á þessu sviði undanfarin missiri, og þá sérstaklega á vettvangi Evrópusambandsins (ESB), gæti haft umtalsverðar afleiðingar fyrir Atlantshafsbandalagið. Mikið er í húfi að tryggja að efling Evrópusamstarfs á þessu sviði renni frekari stoðum undir Atlantshafsbandalagið en veiki það ekki. Þáttur bandalagsins í framtíðarskipan öryggis- og varnarmála í álfunni mun því verða eitt af veigamestu hagsmunamálum þess í fyrirsjáanlegri framtíð.

6.A.1.      Evrópsk öryggis- og varnarmál.
    Mikil og hröð þróun hefur átt sér stað á sviði evrópskra öryggis- og varnarmála undanfarin missiri og þá sérstaklega á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, Vestur-Evrópusambandsins (VES) og Evrópusambandsins (ESB). Líklegt er að þessi þróun muni hafa veruleg áhrif á starfsemi Atlantshafsbandalagsins til framtíðar. Fyrir Ísland, sem var stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu en stendur utan ESB, eru miklir hagsmunir í húfi því ef svo fer sem horfir að þyngdarpunktur stefnumótunar á sviði evrópskra öryggis- og varnarmála, svo og töku ákvarðana um framkvæmd aðgerða vegna hættuástands í álfunni, færast í auknum mæli frá Atlantshafsbandalaginu yfir til ESB er brýnt að tryggja að rödd Íslands heyrist áfram, enda um að ræða stefnumótun og töku ákvarðana innan ESB er varða öryggis- og varnarmál allrar Evrópu. Íslensk stjórnvöld hafa því lagt á það mikla áherslu undanfarin missiri að reyna að tryggja aðkomu og þátttöku Íslands innan fyrirhugaðs stofnanakerfis ESB á sviði öryggis- og varnarmála.
    Segja má að niðurstöður fundar forseta Frakklands og forsætisráðherra Bretlands í St. Malo í Frakklandi í árslok 1998 hafi átt sinn þátt í að hrinda af stað þessu ferli. Stjórnvöld í Frakklandi og Bretlandi höfðu um skeið mjög ólíkar áherslur varðandi sérstakt evrópskt frumkvæði í öryggis- og varnarmálum, einkum innan ESB. Í St. Malo samþykktu leiðtogar þessara ríkja hins vegar að framfylgja niðurstöðu leiðtogafundar ESB í Amsterdam um mótun sameiginlegrar evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu og ákváðu að taka tillit til stofnanaramma ESB í því tilliti. Ekki var ætlunin að ESB myndi ráðast í sjálfstæðar aðgerðir þar sem Atlantshafsbandalagið væri hernaðarlega þegar á vettvangi og engar breytingar yrðu á sameiginlegum varnarskuldbindingum bandalagsins. Einhugur franskra og breskra stjórnvalda, sem átti m.a. rætur að rekja til versnandi ástands í Kósóvó, auðveldaði næstu skref.
    Á leiðtogafundi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Washington D.C. í apríl 1999 var samþykkt að lýsa almennum stuðningi við mótun sameiginlegrar evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu innan ESB og gefið fyrirheit um aðgang ESB að búnaði og liðsafla bandalagsins, m.a. með því skilyrði að þátttaka hinna sex evrópsku bandalagsríkja sem stæðu utan ESB yrði tryggð í fyrirhuguðu stofnanakerfi ESB, og að réttur þeirra til reglulegrar stefnumótunar og umræðu innan sambandsins á sviði öryggismála, svo og til þátttöku í aðgerðum á vegum sambandsins yrði tryggð. Þar sem bandalagið og ESB höfðu engin formleg samskipti og fyrirætlanir ESB voru mjög óljósar var um mikilvægt pólitískt frumkvæði að ræða af hálfu bandalagsins. Það olli því stjórnvöldum í bandalagsríkjum utan ESB töluverðum vonbrigðum hversu skammt var komið til móts við þau á leiðtogafundi ESB í Köln rúmum mánuði síðar, en í Köln var lagður grunnur að nýju stofnanakerfi ESB á sviði öryggis- og varnarmála. Af þeim sökum gerðu nokkur þeirra, þ. á m. Ísland, átak á síðari árshelmingi 1999 í kynningu í höfuðborgum aðildarríkja ESB á áhyggjum sínum og áherslum varðandi þátttökuréttinn.
    Af niðurstöðum leiðtogafundar ESB í Helsinki í desember 1999 mátti ljóst vera að fyrrgreint kynningarátak Íslands, Noregs og hinna ríkjanna fjögurra hafði ekki skilað tilætluðum árangri. Í niðurstöðum leiðtogafundarins var einungis kveðið á um að setja ætti á stofn „viðeigandi fyrirkomulag“ innan ESB um þátttöku ríkjanna sex, svo og tólf umsóknarríkja sambandsins, í fyrirhugðum stofnunum og nefndum á sviði öryggis- og varnarmála innan ESB. Með þessu voru bandalagsríkin utan ESB enn í óvissu um framhaldið og þau spyrt saman við önnur samstarfsríki ESB. Á haustfundi utanríkisráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn var í Brussel stuttu síðar, var rætt um ferlin tvö innan beggja stofnana, eflingu Evrópusamstarfsins á sviði öryggis- og varnarmála innan Atlantshafsbandalagsins og mótun sameiginlegrar evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu innan ESB. Í umræðum fundarins um þetta mál kom fram að flest aðildarríkin voru sammála um tvær megináherslur: að komið yrði á formlegum samskiptum milli stofnananna tveggja hið fyrsta og að þátttökuréttur bandalagsríkja utan ESB yrði tryggður með ásættanlegum hætti.
    Stjórnvöldum í Portúgal, sem tóku við formennsku í ESB og VES í ársbyrjun, var falið að koma með hugmyndir að framkvæmd niðurstaðna leiðtogafundarins í Helsinki. Aðildarríki ESB ákváðu að nýjar öryggismálastofnanir skyldu hefja störf til bráðabirgða 1. mars 2000. Þetta eru sérstök stjórnmála- og öryggismálanefnd, hermálanefnd og hermálastarfslið, sem starfar undir forystu sérstaks talsmanns á sviði utanríkis- og öryggismála, en hann gegnir jafnframt starfi framkvæmdarstjóra VES. Stofnanirnar eru fyrst um sinn til bráðabirgða vegna nauðsynlegra samningsbreytinga og fullgildingar allra aðildarríkja ESB. Evrópsku bandalagsríkin sex, sem ekki eru aðilar að ESB, hafa lagt áherslu á að þau eigi aðild að stofnunum ESB frá upphafi og á það bæði við um bráðabirgðafyrirkomulagið og hinar endanlegu stofnanir ESB sem mun gera þeim fært að taka þátt í reglulegri stefnumótun er varða öryggis- og varnarmál álfunnar. Tillögur formennskuríkisins um þátttökuréttinn og samskipti ESB og bandalagsins hafa verið til umfjöllunar frá því um miðjan febrúar sl.
    Á leiðtogafundi ESB í Köln var samþykkt að taka ákvarðanir um framtíðarstöðu VES fyrir árslok 2000. Þar sem stofnsamningur VES felur í sér sameiginlegar varnarskuldbindingar er ekki gert ráð fyrir algerri innlimun samtakanna í ESB, heldur að ákveðin viðfangsefni verði yfirfærð. Af hálfu margra aðildarríkja ESB og VES hefur verið bent á kosti þess að ESB nýti þá reynslu og þekkingu sem felst í starfsliði og starfsaðferðum VES, auk þess sem hægt verði að byggja á samskiptum VES við Atlantshafsbandalagið.
    Í samræmi við niðurstöður leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Washington D.C. í apríl 1999 hefur átt sér stað töluverð umfjöllun um það innan bandalagsins með hvaða hætti beri að styðja við mótun sameiginlegrar evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu innan ESB. Á leiðtogafundinum var ákveðið að þessi vinna myndi ráðast af uppbyggingu viðeigandi stofnana innan ESB, einkum tilhögun þátttökuréttar bandalagsríkja utan ESB. Skoðanaskipti eru hafin á vettvangi bandalagsins um hugsanlegt samstarf þess við ESB og gera má ráð fyrir að þau fari vaxandi á þessu ári.

6.A.2.     Stækkun Atlantshafsbandalagsins.
    Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Washington D.C. í apríl 1999 voru þrjú ný aðildarríki, Pólland, Tékkland og Ungverjaland, formlega boðin velkomin í bandalagið. Um leið ítrekaði bandalagið stefnu sína um „hinar opnu dyr“ þ.e. að dyr bandalagsins stæðu áfram opnar nýjum aðildarríkjum. Þessu til staðfestingar var samþykkt sérstök aðgerðaáætlun fyrir umsóknarríki, sem felur í sér aukna aðstoð bandalagsins í hagnýtum undirbúningi aðildar. Aðgerðaáætlunin breytir því ekki að ákvörðun bandalagsins um frekari fjölgun aðildarríkja krefst sérstakrar (pólitískrar) ákvörðunar.
    Aðgerðaáætluninni er ætlað að auka og bæta upplýsingastreymi og samráð á milli bandalagsins og umsóknarríkjanna þar sem síðarnefndum gefst kostur á að þiggja ráðleggingar frá bandalaginu um hvað betur má fara í undirbúningsáætlun viðkomandi ríkis. Með þessu er komið til móts við umsóknarríkin, sem mörg höfðu áður kvartað yfir því að skoðanaskipti við bandalagið væru einhliða. Varleg svörun í kjölfar leiðtogafundar bandalagsins í Madríd árið 1997 endurspeglaði viðleitni þess til að gera ekki greinarmun á einstökum umsóknarríkjum, en aðgerðaáætlunin felur í sér að árangurinn dæmir þau sjálf.
    Níu ríki sem hafa formlega óskað eftir aðild að bandalaginu taka þátt í aðgerðaáætluninni, en gert er ráð fyrir að aðild að Evró-Atlantshafsráðinu og friðarsamstarfinu sé forsenda þátttöku. Á leiðtogafundinum í Washington D.C. var samþykkt að taka stækkunarferli bandalagsins til endurskoðunar á fyrirhuguðum leiðtogafundi árið 2002.

6.A.3.     Samstarf NATO og Rússlands.
    Stofnsamningur um samstarf Atlantshafsbandalagsins og Rússlands var undirritaður á leiðtogafundi bandalagsins í París 27. maí 1997. Samstarfið hafði þá aukist stöðugt frá 1991, en Rússar urðu aðilar að samstarfi í þágu friðar (PfP) í júní 1994.
    Samstarfsráð Atlantshafsbandalagsins og Rússlands, sem kemur saman reglulega á sendiherrastigi, er vettvangur samráðs og samvinnu og til ákvarðana um sameiginlegar lausnir þegar aðstæður leyfa. Það veitir Rússlandi hins vegar ekki rétt til þátttöku í ákvörðunum sem teknar eru innan NATO. Málefni sem fjallað hefur verið um í samstarfsráðinu eru m.a. útbreiðsla gereyðingarvopna, upplýsingaskipti um varnarstefnu og uppbyggingu herafla, kjarnavopn, umbreyting hergagnaiðnaðar í annan iðnað, umhverfismál á hermálasviði, almannavarnir og sameiginlegar friðargæsluaðgerðir. Rússar hafa frá upphafi tekið þátt í alþjóðlegu friðargæslusveitunum undir stjórn NATO í Bosníu og Hersegóvínu (IFOR og síðar SFOR) og síðan í Kósóvó (KFOR).
    Starfsemi samstarfsráðsins hefur enn ekki komist á samt stig og fyrir aðgerðir bandalagsins í Sambandslýðveldinu Júgóslavíu (Kósóvó), þegar Rússar hættu þátttöku þar. Frá því fundir samstarfsráðsins hófust á ný, í kjölfar þess að aðgerðum bandalagsins í Júgóslavíu lauk um mitt ár 1999, hafa Rússar ekki viljað ræða önnur mál en ástand og horfur í Bosníu og Kósóvó. Þrátt fyrir harða gagnrýni rússneskra stjórnvalda í garð bandalagsins á opinberum vettvangi hefur samvinna við sveitir þeirra í KFOR gengið vel. Vonast er til að heimsókn framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins til Moskvu um miðjan febrúar sl. liðki fyrir samskiptum milli bandalagsins og Rússlands í nánustu framtíð.

6.A.4.     Samstarf NATO og Úkraínu.
    Með stofnun samstarfsnefndar Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu (NUC) árið 1997 var með formlegum hætti fest í sessi samvinna þessara aðila er staðið hafði frá árinu 1991, þegar Úkraína hlaut sjálfstæði, og hefur hún aukist jafnt og þétt síðan. Samstarfsnefndin hittist reglulega í hópi sendiherra og hermálafulltrúa og á ráðherrastigi í tengslum við reglubundna fundi utanríkisráðherra bandalagsins. Fjöldi stjórnmálamanna, fréttamanna og fræðimanna frá Úkraínu heimsækir NATO ár hvert. Skipulagðar eru ráðstefnur og námskeið, m.a. að frumkvæði Úkraínu, auk þess sem landið tekur þátt í ýmiss konar samvinnu innan friðarsamstarfsins (PfP). Sveit Úkraínu hætti þátttöku í stöðugleika sveitun um í Bosníu og Hersegóvínu í lok síðasta árs, eins og gert hafði verið ráð fyrir, en önnur sveit frá Úkraínu hóf störf með KFOR í Kósóvó um miðjan nóvember.
    Tveir starfsmenn NATO, annar frá alþjóðastarfsliðinu og hinn frá alþjóða hermála starfsliðinu, voru skipaðir NATO-tengiliðir með aðsetur í Kænugarði á síðasta ári. Bætir það mjög alla vinnu sem tengist verkefnum innan ramma friða rsamstarfsins, endurmenntun her manna sem hættir eru herþjónustu, samstarfi á sviði almannavarna, flugumferðar, vísinda o.fl. Fastaráð bandalagsins þáði boð um að fundur sendiherra í samstarfsnefndinni yrði haldinn í Kænugarði í mars sl., en það var í fyrsta skipti sem slíkur fundur fór fram utan höfuðstöðva bandalagsins í Brussel.

6.A.5.     Þróun samstarfs innan Evró-Atlantshafsráðsins (PfP og EAPC).
6.A.5.a. Evró-Atlantshafsráðið.
    Á utanríkisráðherrafundi NATO í Portúgal vorið 1997 var ákveðið að stofna Evró- Atlantshafsráðið (EAPC) með það að meginmarkmiði að efla frið og öryggi á Evró-Atlants hafs svæðinu á grundvelli sameiginlegra hugsjóna sem m.a. eru skilgreindar í ramma sam komulagi um friðarsamstarf samstarfsþjóðanna (PfP). Evró-Atlantshafsráðið er vettvangur skoðanaskipta og samráðs milli einstakra samstarfsþjóða og NATO og er því mikilvægur hluti af hinu nýja öryggiskerfi Evrópu. Með inngöngu Írlands í ráðið í desember sl. eru aðildarríki ráðsins nú samtals orðin 45 talsins, að bandalagsríkjunum nítján meðtöldum.
    Á síðustu árum hefur Evró-Atlantshafsráðið sýnt umtalsverðan árangur í samstarfi við bandalagið og ber þar hæst þátttöku 15 samstarfsþjóða í friðarstörfum SFOR í Bosníu og Hersegóvínu og 17 samstarfsþjóða í friðarstörfum KFOR í Kósóvó. Að auki eru sam starfs þjóðir Evró-Atlantshafsráðsins virkir þátttakendur í allri viðleitni til að efla stöðugleika á Balkan skaga.
    Aðgerðaáætlun Evró-Atlantshafssamstarfsins er mikilvægur grundvöllur undir skoðanaskipti innan þess en hún byggist á eftirfarandi þáttum: 1) skammtímaáætlun fyrir Evró- Atlantshafsráðið um fundi og sameiginlega vinnuáætlun, 2) langtímaáætlun fyrir framtíðarverkefni og áherslusvið vegna samráðs og samstarfs NATO og samstarfsríkjanna, 3) almannavörnum og viðbúnaðaráætlunum en sem dæmi má nefna að stofnun nýrrar sam ræm ingar miðstöðvar á þessu sviði var mikilvægur þáttur í framlagi Atlantshafsbandalagsins og samstarfsþjóðanna á sviði mannúðarmála í Kósóvó í fyrra og 4) samstarfi innan ramma friðarsamstarfsins um öryggis- og varnarmál á breiðum grund velli.
    Fastafulltrúar hinna 45 aðildarríkja Evró-Atlantshafsráðsins hittast mánaðarlega og utanríkisráðherrarnir hittast tvisvar á ári. Ef ástæða þykir til er leiðtogum samstarfsríkjanna einnig boðin þátttaka, líkt og gert var á leiðtogafundi bandalagsins í Washington D.C. árið 1999. Rússar hafa ekki tekið þátt í störfum ráðsins frá því í mars 1999 þegar þeir hættu tíma bundið samstarfi við bandalagið í kjölfar loftárása þess á Sambandslýðveldið Júgó slavíu. Hins vegar, eins og áður hefur komið fram, á fastaráð Atlantshafsbandalagsins reglu lega fundi með Rússum og Úkraínumönnum bæði á sviði stjórnmála og hermála.

6.A.5.b. Samstarf í þágu friðar.
    Innan friðarsamstarfs Atlantshafsbandalagsins (PfP) starfa nú 26 þjóðir, að meðtöldu Írlandi sem gerðist aðili að því í lok árs 1999. Ákvörðun um samstarf í þágu friðar var tekin á leiðtogafundi bandalagsins í Brussel árið 1994. Markmið þessa samstarfs er m.a. að stuðla að því að herir samstarfsríkjanna starfi samkvæmt lýðræðislegu fyrirkomulagi og að uppbygging þeirra og starf sé í samræmi við þá staðla sem herir bandalagsins hafa tileinkað sér. Á undanförnum árum hefur þetta samstarf verið aukið jafnt og þétt þannig að þjóðir sem áhuga hafa á aðild að Atlantshafsbandalaginu í framtíðinni séu sem best undirbúnar. Eru nú allmörg verkefni í gangi milli bandalagsins og einstakra samstarfsríkja þar sem hvert samstarfsríki ákveður sjálft eigin áherslur og umfang samstarfsins.
    Sérstök samræmingarmiðstöð fyrir æfingar á vegum friðarsamstarfsins starfar hjá yfirstjórn herafla Atlantshafsbandalagsins í Evrópu (SHAPE) í Mons, Belgíu, og eiga allar aðildarþjóðir bandalagsins og samstarfsþjóðirnar fulltrúa þar að Íslandi undanskildu. Hins vegar er Ísland þátttakandi í þessum þætti friðarsamstarfsins undir merkjum Almannavarna ríkisins og er gestgjafi annað hvert ár fyrir æfingar gegn náttúruvá sem nefnast Samvörður. Næsta æfing er fyrirhuguð á Íslandi í sumar en þá verða æfð viðbrögð við stórslysum á hafi úti.
    Að auki taka foringjar úr herjum samstarfsríkjanna virkan þátt í störfum stjórnstöðva á vegum NATO og starfa nú um 38 foringjar í 8 mismunandi herstöðvum bandalagsins.

6.A.6. Vestur-Balkanskagi; friðargæsla Atlantshafsbandalagsins í Kósóvó og Bosníu.
    Þrátt fyrir að ástandið í Kósóvó hafi batnað umtalsvert frá því alþjóðlegar friðargæslusveitir Atlantshafsbandalagsins (KFOR) hófu þar störf fyrri hluta sumars 1999 má segja að enn sé miklu starfi ólokið í héraðinu svo ástandið geti talist eðlilegt og íbúarnir öruggir. Þótt morðum, ránum og gíslatökum hafi fækkað verulega sl. mánuði hefur önnur glæpastarfsemi færst í vöxt og smyglstarfsemi er viðvarandi vandamál í héraðinu. Þrátt fyrir að nú starfi um 2000 alþjóðlegir lögreglumenn á vegum UNMIK, sem er stofnun Sameinuðu þjóðanna í Kósóvó, vantar enn töluvert á að hún geti staðið undir þeim verkefnum sem henni var falið að leysa í héraðinu. Þjálfun innlendra lögreglumanna er vel á veg komin og því von til þess að dragi úr glæpum áður en langt um líður. Það helst í hendur við stofnun eða endurreisn dómskerfis sem UNMIK hefur staðið að og skipun um 300 dómara. Vel hefur gengið að útbúa húsnæði til vetrardvalar fyrir íbúa sem misstu eigið húsnæði á síðastliðnu ári. Skólar starfa víða og aðföng á matvælum eru fullnægjandi þótt ekki megi mikið út af bera til þess að skortur á viðurværi geri vart við sig. Rafframleiðsla í héraðinu er enn stopul og stafar það af úreltum tækjum sem enn eru notuð svo og skorti á eldsneyti til að starfrækja rafstöðvar. Atvinnuleysi er mikið og hefur stofnun sérstakra hjálparsveita (KPC) 3000 liðsmanna, ásamt 5000 manna varaliði, hjálpað til. Þessum hjálparsveitum, sem eru að hluta til stofnaðar á grunni skæruliðasamtakanna KLA, er ætlað að aðstoða við enduruppbyggingu Kósóvó undir stjórn KFOR og UNMIK.
    Liðsafli SFOR í Bosníu og Hersegóvínu hefur dregist saman og er stefnt að því að fækka hermönnum í 19.000 í lok mars á þessu ári úr 30.565 þegar mest var. Almennt er talið að þeim þætti enduruppbyggingar sem byggist á viðveru öflugs herliðs sé lokið, enda öryggisástand í landinu nokkuð stöðugt. Þjóðernisbrotin þrjú hafa enn fremur orðið sammála um að fækka verulega í eigin herjum og öllum þyngri vopnum hefur verið komið fyrir í sérstökum geymslum sem SFOR gætir. Hins vegar er enn langt í land áður en efnahagsleg og stjórnmálaleg uppbygging verður komin það vel á veg að viðunandi megi teljast. Spilling og glæpir eru viðvarandi vandamál sem erfiðlega gengur að uppræta. Að mati yfirmanns SFOR er mikilvægt að nýta þann tíma sem til stefnu er til hins ítrasta áður en alþjóðleg aðstoð við landið dregst saman enn frekar svo Bosnía og Hersegóvína sé sem best í stakk búin til að halda áfram á braut friðar í framtíðinni.
    Liðsafli KFOR í Kósóvó er nú rúmlega 44 þúsund hermenn frá öllum aðildarríkjum bandalagsins auk 17 samstarfsþjóða. Ísland hefur lagt til 6 starfsmenn sem tekið hafa þátt í uppbyggingarstarfinu í Kósóvó á vegum Atlantshafsbandalagsins, ÖSE og Sameinuðu þjóðanna. Þar af starfar einn verkfræðingur í höfuðstöðvum KFOR í Pristina. Þótt enn sé langt í land má fullyrða að árangur núverandi starfs í Kósóvó sé umtalsverður og áþreifanlegur. Samtals starfa nú 5 Íslendingar á vegum íslenskra stjórnvalda í Bosníu, þar af tveir hjúkrunarfræðingar með SFOR. Til viðbótar er vitað um a.m.k. 6 Íslendinga til viðbótar sem unnið hafa að uppbyggingarstarfinu í Kósóvó.

6.A.7.     Vísindastarf innan NATO.
    Vísindanefnd NATO ákvað, í kjölfar hruns Sovétríkjanna fyrir rúmum áratug, að taka upp vísindasamstarf við fyrrum Varsjárbandalagsríkin á afmörkuðum sviðum. Árið 1998 fór fram gagnger endurskoðun og endurmat á öllu starfi Vísindanefndarinnar og afráðið að gera allt vísindasamstarfið að sameiginlegum vettvangi NATO-ríkjanna og samstarfsríkjanna. Helstu rökin fyrir breytingunni voru þau að vísindasamstarfið ætti að þjóna pólitískum markmiðum bandalagsins sem væru önnur í dag en þegar stofnað var til samstarfsins á dögum kalda stríðsins.
    Farvegir vísindasamstarfsins eru að mestu hinir sömu og áður: Ráðstefnur, sumarskólar og samstarfsstyrkir auk vísindastyrkjanna sem hvert aðildarríki fyrir sig úthlutar. Sérhverju verkefni er stýrt sameiginlega af einum vísindamanni frá NATO-ríki og öðrum frá samstarfsríki. Engin fræðasvið eru útilokuð í samstarfinu en sérstök áhersla er lögð á vísindi og tækni tengd afvopnun. Jafnframt aðstoðar vísindanefndin við uppbyggingu tölvuneta og þjálfun vísindastjórnenda í samstarfsríkjunum. Einnig hefur verið tekin upp ný áætlun sem kallast „vísindi í þágu friðar“ og felst einkum í tækniaðstoð við fyrirtæki.
    Þrátt fyrir endurskipulag vísindasamstarfsins er reynt til hins ítrasta að tryggja að hin vísindalegu gæði verkefna haldist óbreytt og beitt er sömu matsaðferðum á umsóknir og áður var.

6.A.8.     Takmarkaðar eldflaugavarnir.
    Fyrirhugað er að Bandaríkjaforseti taki ákvörðun um uppsetningu takmarkaðs eldflaugavarnarkerfis í Bandaríkjunum síðar á árinu sem ætlað er til varnar gegn hugsanlegum árásum „skúrkríkja“. Það er mat bandarískra stjórnvalda að raunveruleg hætta sé á fyrirvaralausum árásum eða hótunum um árásir á landið með langdrægum eldflaugum sem búnar eru eiturefna- eða kjarnaoddum frá ríkjum á borð við Norður-Kóreu, Írak og Líbíu, innan næstu 15 ára.
    Kjarni hins takmarkaða eldflaugavarnarkerfis verður fyrst um sinn um 100 eldflaugar í Alaska. Ráðgert er að uppsetningu þeirra verði lokið fyrir árið 2005, verði ákvörðun um það tekin. Sú ákvörðun mun meðal annars ráðast af því hvort eldflaugavarnarkerfið telst tæknilega fullnægjandi til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þess. Árið 2010 yrði kannað nánar hvort ástæða væri til að koma upp öðru sambærilegu eldflaugavarnarkerfi á austurströnd Bandaríkjanna.
    Áformin hafa sætt gagnrýni ýmissa ríkja, þar á meðal Rússlands. Ljóst er að uppsetning eldflaugavarnarkerfis krefst breytinga á tvíhliða ABM-samningi Bandaríkjanna og Rússlands. Hafa Bandaríkjamenn hafið viðræður við Rússa um efnið en Rússar hafa lýst sig mótfallna öllum breytingum á samningnum (sjá nánari umfjöllun hér aftar um afvopnunarmál).
    Aðildarríki NATO hafa átt ítarlegt samráð við bandarísk stjórnvöld um málið á undanförnum mánuðum. Ekki er gert ráð fyrir að NATO sem stofnun hafi afskipti af hugsanlegri ákvörðun Bandaríkjamanna um að koma upp eldflaugavarnarkerfi innan eigin landamæra en allmörg aðildarríki hafa lagt áherslu á að verði kerfinu komið fyrir í Bandaríkjunum sé mikilvægt að það geti einnig varið önnur ríki bandalagsins, gerist þess þörf.

6.B.      VARNARSAMSTARFIÐ
    —    Meginmarkmið varnarstefnu Íslands eru eftirfarandi:
    —    Að tryggja varnir landsins og fullveldi á láði, legi og í lofti.
    —    Að tryggja greiðar flug- og siglingasamgöngur til landsins og frá landinu á ófriðar- eða hættutímum.
    Varnir Íslands hafa verið tryggðar um fimm áratuga skeið með aðild að Atlantshafsbandalaginu (1949) og tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin (1951). Þessir hornsteinar varnarstefnu Íslands eru óaðskiljanlegir. Ísland lætur bandalaginu og Bandaríkjunum í té aðstöðu hér á landi. Varnarstöðin á Miðnesheiði og ratsjárstöðvarnar fjórar eru órjúfanlegur hluti af samræmdu varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins. Hnattlega landsins snertir varnarhagsmuni margra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og eru Atlantshafstengslin milli Bandaríkjanna og Evrópu lífæð bandalagsins.
    Utanríkisráðuneytið, og innan þess varnarmálaskrifstofa, fer með mál er varða framkvæmd varnarsamningsins við Bandaríkin, þ.m.t. dagleg samskipti við yfirstjórn varnar liðsins. Samskipti íslenskra stjórnvalda við varnarliðið eru í eðli sínu milli ríkja sam skipti. Mætti jafnvel líkja þeim við samskipti sendiráða við stjórnvöld móttökuríkja á alþjóða vettvangi. Forsenda þess fyrirkomulags er sú að stjórnvöld mæli einni röddu í sam skiptum við önnur ríki. Því fer utanríkisráðuneytið með öll samskipti við varnarliðið fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Ein lög gilda hins vegar í landinu, hvort heldur er innan eða utan varnarsvæða. Utanríkisráðuneytið gegnir því hlutverki allra fagráðu neytanna á varnar svæðunum en hefur jafnframt náið samráð við þau til að tryggja að stjórn sýsla innan varnar svæða samrýmist stjórnsýslunni utan þeirra.
    Verkefni skrifstofunnar eru í meginatriðum fjórþætt: Varnarsamstarfið við Bandaríkin og samskipti við önnur ríki á sviði varnarmála, stjórnsýsla á varnarsvæðunum og eftirlit með samskiptum varnarliðsins við íslenska aðila. Einnig starfa sjö nefndir á vegum skrifstofunnar. Verkefnum skrifstofunnar hefur fjölgað á undanförnum árum, einkum vegna aukinnar áherslu íslenskra stjórnvalda á alþjóðasamstarf á sviði varnarmála og virkari þátttöku Íslendinga í vörnum landsins. Jafnframt hafa stjórnsýslulög og upplýsingalög leitt til fjölgunar verkefna.
    Stjórnsýsluhlutverk varnarmálaskrifstofu tekur m.a. til dómsmála, lögreglumála, tollamála, samgöngumála, heilbrigðismála, atvinnumála og skipulags-, umhverfis- og byggingarmála.
    Eftirlitshlutverk skrifstofunnar felur m.a. í sér málefni verktaka á varnarsvæðunum og viðskiptaaðila varnarliðsins, samskipti íslenskra aðila og stofnana við varnarliðið, málefni Ratsjárstofnunar og Umsýslustofnunar varnarmála og flest þeirra mála er rekja má til dvalar varnarliðsins hér á landi.
    Varnarmálahlutverk skrifstofunnar felur í stórum dráttum í sér varnarsamstarfið við Bandaríkin og samráð við önnur ríki en einnig upplýsingaöflun og mat á varnarþörf landsins og fyrirkomulagi varnanna, skipulag og framkvæmd varnaræfingarinnar Norður víkingur í samvinnu við varnarliðið. Einnig er skrifstofunni ætlað að stunda rannsóknir á herfræðilegum og hertæknilegum málefnum er Ísland varða. Auk þess annast skrifstofan samskipti við önnur ríki á sviði varnarmála, eftirlit með þróun alþjóðlegra varnarmála og skipulag friðarsamstarfsæfingarinnar Samvörður í samvinnu við Almannavarnir ríkisins og varnarliðið.

6.C.     TVÍHLIÐA VARNARSAMSTARF VIÐ BANDARÍKIN
    Varnarstöðin á Miðnesheiði telur nú um 1900 hermenn og um 2000 fjölskyldumeðlimi. Á ófriðar- og hættutímum mun varnarviðbúnaður hins vegar verða aukinn í samræmi við hættumat íslenskra og bandarískra stjórnvalda.
    Helstu stoðir loftvarna eru ratsjárkerfið og fjórar F-15C Eagle orrustuþotur bandaríska flughersins og ein KC-135 Stratotanker eldsneytisvél. Viðbragðssveit varnarstöðvarinnar telur um 100 manns. Þungamiðju sveitarinnar mynda landgönguliðar flotans. Fimm P-3C Orion kafbátaleitarvélar sjá um hernaðareftirlit á hafinu í kringum landið og felst veigamesti þátturinn í eftirliti með ferðum kafbáta. Landhelgisgæslan annast eðli máls samkvæmt eftirlit með efnahagslögsögunni og landhelginni. Fjórar HH-60G Pavehawk brynvarðar björgunarþyrlur og ein HC-130 Hercules fjarskipta- og eldsneytisvél eru flugflota varnarliðsins til aðstoðar vegna leitar og björgunar. Umræddur flugkostur gegnir einnig mikilvægu borgaralegu björgunarhlutverki á sjó og landi í samstarfi við Landhelgisgæsluna.

6.C.1.     Norðurvíkingur.
    Varnaræfingin Norðurvíkingur fór fram í júní 1999. Æfingin hefur verið haldin annað hvert ár frá 1983 að telja. Markmið hennar var sem áður að æfa varnir Íslands á grundvelli varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og bókunarinnar frá 1996. Grunnhugmynd æfingarinnar hefur verið breytt og er það í samræmi við þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað í öryggisumhverfi Íslands síðan kalda stríðið leið undir lok. Í Norðurvíkingi 99 voru ekki æfð viðbrögð við árás óvinaríkis, sem hyggst taka landið hervaldi, heldur varnir gegn alþjóðlegum hryðjuverkum. Þátttakendur voru heldur færri en 1997, en rúmlega 2800 manns tóku þátt í æfingunni. Sveitir andstæðinga voru hins vegar um þrisvar sinnum fjölmennari en á síðustu æfingu og gegndu þýskar og bandarískar sérsveitir því hlutverki.
    Utanríkisráðuneytið tók virkan þátt í Norðurvíkingi 99, jafnt skipulagi sem framkvæmd, og er það í samræmi við þá markvissu stefnu stjórnvalda að axla stærra hlutverk í vörnum landsins. Þátttaka Landhelgisgæslunnar var umfangsmeiri en verið hefur og víkingasveitin tók í fyrsta sinn þátt með beinum hætti. Rétt er samt að geta þess að Landhelgisgæslan og víkingasveitin voru í löggæsluhlutverki og tóku ekki þátt í hernaðaraðgerðum. Aukin þátttaka af Íslands hálfu verður höfð að leiðarljósi við framkvæmd Norðurvíkings 2001 en undirbúningur er þegar farinn af stað.

6.C.2.     Smíði nýs varðskips.
    Stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um smíði 3000 tonna varðskips. Það mun verða búið þeim tækjakosti að það geti tekið þátt í sameiginlegum æfingum með varnarliðinu á sviði björgunar og sjóferðaeftirlits.

6.C.3.     Ný bókun við varnarsamninginn.
    Verulegar breytingar hafa orðið á varnarviðbúnaði landsins í samræmi við þær róttæku breytingar sem átt hafa sér stað í alþjóðamálum. Engar breytingar eru hins vegar gerðar á varnarviðbúnaði án samráðs við íslensk stjórnvöld. Á þessum áratug hefur hermönnum verið fækkað um rúmlega þriðjung, kafbátaleitarvélum úr tólf í fimm, orrustuvélum úr átján í fjórar og allar ratsjárvélar (AWACS) hafa horfið á braut. Þessar breytingar voru staðfestar af íslenskum og bandarískum stjórnvöldum með tveimur bókunum við varnarsamninginn frá 1994 og 1996. Bókanirnar kveða einnig á um ýmis önnur atriði er varða varnarsamstarfið, svo sem kostnaðarlækkun.
    Samkvæmt bókuninni frá 1996 geta samningsaðilar óskað eftir því að hún verði endurskoðuð að fjórum árum liðnum frá undirritun (nánar tiltekið frá og með 9. apríl árið 2000). Skal þá kappkostað að hefja viðræður innan fjögurra mánaða frá því að slík beiðni er lögð fram.

6.D.     FJÖLÞJÓÐLEGT VARNARSAMSTARF
    Varnarmálaskrifstofa sækir hefðbundna fundi varnarmálaráðherra og fundi herráðsforingja aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og einnig slíka fundi með samstarfsríkjunum. Samráð við ýmsa embættismenn bandalagsins er einnig í verkahring skrifstofunnar.

6.D.1.     Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.
    Þátttaka Íslands í samráði Norðurlandanna um varnarmál hefur aukist undanfarin ár. Ráðherrar varnarmála funda tvisvar á ári. Stjórnvöld hafa einnig lagt talsvert af mörkum til samstarfsverkefnis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um skipulag og uppbyggingu flugumferðarstjórnunar (BALTNET), sem miðar að því að færa umsjón almenns flugs og herflugs í hendur eins og sama aðila. Ísland hefur einnig styrkt varnarmálaskóla Eystrasaltsríkjanna (BALTDEFCOL) fjárhagslega.

6.D.2.     Samvörður.
    Almannavarnaræfingin Samvörður var fyrst haldin hér á landi 1997. Tilurð æfigarinnar má rekja til þeirrar stefnu stjórnvalda að auka hlut Íslands í alþjóðlegu öryggis- og varnarmálasamstarfi. Samvörður fer fram undir merkjum Samstarfs í þágu friðar. Markmið friðarsamstarfsæfinga er að efla samvinnu og samhæfa aðgerðir ríkja Atlantshafsbanda lagsins og samstarfsríkja þess, svo sem á sviði friðargæslu og viðbragða við náttúruhamförum. Sam vörður 2000 mun fara fram dagana 7.–12. júní. Almannavarnir ríkisins, Landhelgis gæslan og utanríkisráðuneytið hafa umsjón með skipulagi hennar fyrir Íslands hönd. Fram kvæmda stjóri Almannavarna mun fara með æfingarstjórn.
    Atburðarásin snýst að þessu sinni um björgun í hafsnauð. Æfingin er tvískipt: fyrri hluti æfingarinnar felst í fyrirlestrum og málstofu, en seinni hlutinn er vettvangsæfing. Æfðar verða björgunaraðgerðir vegna skemmtiferðaskips í hafsnauð. Verður skólaskipið Sæbjörg í hlutverki skemmtiferðaskips og verða um 400 sjálfboðaliðar um borð. Vettvangsæfingin tekur fyrir viðbrögð við háska um borð í farþegaskipi, svo sem slökkvistörf, reykköfun, varúðarráðstafanir vegna eiturefna, aðhlynningu slasaðra, flutning slasaðra og óslasaðra frá borði í land, móttöku og umönnun slasaðra í landi og jafnframt uppsetningu fjarskipta sam bands innan æfingasvæðis og milli æfingasvæða.

6.D.3.     SACLANT-málþing.
    Málþingið verður haldið í Reykjavík 6.–7. september nk. á vegum Atlants hafsherstjórnar Atlantshafsbandalagsins og utanríkisráðuneytisins. Málþingið ber yfir skriftina „Future of North Atlantic Security: Emerging Strategic Imperatives“. Málþinginu er ætlað að skapa vettvang fyrir skoðanaskipti fræðimanna, herforingja, fulltrúa stjórnvalda og alþjóðasamtaka frá Bandaríkjunum, Evrópu og Rússlandi um Atlantshafstengslin, öryggi norðurvængs Atlantshafsbandalagsins og önnur mál er snerta öryggi Evrópu. Búist er við því að um 300 manns sæki málþingið.

6.E.     STJÓRNSÝSLA Á VARNARSVÆÐUNUM

6.E.1.     Sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli.
    Stærstu verkefni embættisins eru löggæsla og tollgæsla í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og löggæsla innan afgirtra varnarsvæða í samstarfi við bandarísk löggæsluyfirvöld þegar það á við. Jafnframt hefur embættið eftirlit með ferðum manna og muna inn og út um afgirt varnarsvæði. Embættið annast einnig innheimtu opinberra gjalda.
    Aukning flugumferðar um Keflavíkurflugvöll hefur haft í för með sér vaxandi álag á starfsemi embættisins. Schengensamstarfið mun hafa í för með sér stóraukið landamæraeftirlit í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, enda verður Leifstöð hluti af ytri landamærum Schengenríkjanna. Verður starfsfólki fjölgað því til samræmis á næstu misserum, en nú starfa við embættið tæplega 80 manns. Einnig er verið að kanna nánara samstarf við embætti sýslumannsins í Keflavík með það fyrir augum að samnýta starfskrafta embættanna, að því marki sem unnt er og efla þar með löggæslu á Suðurnesjum.
    Að lokum skal þess getið að utanríkisráðuneytið hefur varið fjármunum til aukins tækjabúnaðar og bættrar þjálfunar fíkniefnadeildar tollgæslunnar. Efling fíkniefnadeildarinnar hefur nú þegar skilað umtalsverðum árangri.

6.E.2.     Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli.
    Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli annast alla flugumferðarþjónustu á flugvellinum og stjórnar aðflugi og brottflugi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Flugmálastjórn leggur til mannaflann til flugumferðarþjónustunnar, en varnarliðið húsnæði og búnað. Í ljósi þess að Keflavíkurflugvöllur þjónar bæði hernaðarlegu og borgaralegu flugi annast varnarliðið viðhald á athafnasvæðum flugvéla, þ.e. flugbrauta, akbrauta og flugvélastæða og felst viðhaldið fyrst og fremst í viðgerðum á malbiki. Jafnframt sér varnarliðið um snjóhreinsun og hálkuvarnir og leggur til flugvallarslökkvilið, en starfsmenn þess eru íslenskir. Allir þessir verkþættir falla þó undir starfssvið flugmálastjórnarinnar.
    Flugumferð um Keflavíkurflugvöll hefur aukist um 40% á tíu ára tímabili, frá 1989 til 2000. Umferð herflugvéla hefur hins vegar dregist saman undanfarin ár. Árið 1989 var hlutfallið 38% borgaralegt flug og 62% hernaðarlegt. Árið 1999 var hlutfallið orðið 70% borgaralegt flug og 30% hernaðarlegt.

6.E.3.     Umhverfis- og skipulagsmál á varnarsvæðunum.
    Á sviði skipulags- og umhverfismála starfar sérstök nefnd, skipulags-, umhverfis- og byggingarnefnd varnarsvæða. Nefndin hefur sama hlutverk og sambærilegar nefndir sveitarfélaga en auk þess hefur hún samráð við varnarliðið og nágrannasveitarfélög. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja sér um heilbrigðiseftirlit innan varnarsvæða undir yfirstjórn utanríkisráðuneytisins. Meginreglan á því sviði er sú að þær reglur gilda sem ganga lengra, hvort heldur þær eru íslenskar eða bandarískar, nema fyrirhuguð notkun mannvirkja í þágu landvarna krefjist annars.

6.F.     EFTIRLIT

6.F.1.     Atvinna Íslendinga á varnarsvæðunum.
    Rúmlega 1500 Íslendingar vinna innan varnarsvæðanna. Þar af starfa um 850 hjá varnarliðinu. Ekki eru þá taldir þeir starfsmenn sem annast almenna flugstarfsemi. Launagreiðslur til íslenskra starfsmanna voru árið 1999 um 3 milljarðar króna.
    Kjör og réttarstaða þeirra íslensku starfsmanna sem starfa hjá öðrum en varnarliðinu fara að öllu leyti eftir almennum reglum á íslenskum vinnumarkaði. Vegna úrlendisréttar varnarliðsins gildir annað fyrirkomulag um starfsmenn þess og á sá háttur sér stoð í varnarsamningnum. Varnarliðinu ber, að því marki sem unnt er, að ráða íslenska starfsmenn til framkvæmdar varnarsamningsins og skulu slíkar ráðningar fara fram með milligöngu íslenskra stjórnvalda. Jafnframt skulu kjör íslenskra starfsmanna vera í samræmi við þau sem tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Til að fullnægja skilyrðum um milligöngu stjórnvalda við ráðningar til varnarliðsins hefur utanríkisráðuneytið um margra áratuga skeið rekið ráðningardeild varnarmálaskrifstofu á Suðurnesjum. Þess skal getið að utanríkisráðuneytið er líklega eina ráðuneytið sem rekur útibú utan Reykjavíkur.
    Til að tryggja að kaup og kjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins fari að íslenskum lögum og venjum hefur, frá árinu 1952, verið starfrækt kaupskrárnefnd varnarsvæða. Eru reglugerðir nefndarinnar endurskoðaðar reglulega af varnarmálaskrifstofu.

6.F.2.     Viðskipti við varnarliðið.
    Miklar breytingar hafa átt sér stað á fyrirkomulagi verklegra framkvæmda á varnarsvæðunum undanfarin ár. Reglur um útboð á framkvæmdum sem kostaðar eru af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins tóku gildi hér á landi 1995. Viðhaldsverkefni og nýframkvæmdir, sem kostuð eru af Bandaríkjastjórn, verða boðin út í áföngum. Var eitt verk boðið út á síðasta ári og fyrirhugað er að bjóða tvö verk út á þessu ári en verktakan verður að fullu gefin frjáls í janúar 2004. Vörukaupa- og þjónustusamningar varnarliðsins, að verðmæti 25.000 Bandaríkjadalir eða hærri, hafa verið boðnir út frá 1995 að undangengnu forvali utanríkisráðuneytisins. Forvalsnefnd utanríkisráðuneytisins annast forvalið í samræmi við íslenskar reglur. Á þremur fyrstu árum eftir að fyrirkomulagið var innleitt höfðu viðskipti, að andvirði um 2 milljarðar króna, verið boðin út.

6.F.3.     Umsýslustofnun varnarmála (Sala varnarliðseigna).
    Meginverkefni stofnunarinnar er sem fyrr að taka við varningi sem hefur verið fluttur inn gjaldfrjálst í þágu varnarliðsins. Stofnunin sér um sölu slíks varnings á markaði og rennur hagnaðurinn til ríkissjóðs sem hlutfallslegt ígildi tolla, vörugjalda og virðisaukakatts sem veitt var undanþága frá við innflutning. Umsýslustofnunin kemur einnig að forvali verktaka sem bjóða í verkefni fyrir varnarliðið.

6.F.4. Ratsjárstofnun.
    Ratsjárstofnun heyrir undir utanríkisráðuneytið og kemur fram fyrir hönd íslenskra stjórnvalda við framkvæmd þeirra milliríkjasamninga sem liggja til grundvallar starfsemi ratsjárstöðvanna á Miðnesheiði, Stokksnesi, Gunnólfsvíkurfjalli og Bolafjalli og jafnframt þeirra samninga sem snerta rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins (Iceland Air Defence System). Starfsemi Ratsjárstofnunar er fjármögnuð af bandarískum stjórnvöldum samkvæmt samningi. Fyrirtækið Kögun hf. starfar sem undirverktaki Ratsjárstofnunar við tiltekna þætti starfseminnar.
    Í starfsemi Ratsjárstofnunar felst veigamikið framlag Íslands til eigin varna. Hún felur í sér rekstur og viðhald tiltekinna grunnþátta varnarvirkja landsins. Rúmlega 70 Íslendingar starfa hjá Ratsjárstofnun og um 20 Íslendingar annast rekstur hugbúnaðarstoðkerfis íslenska loftvarnarkerfisins í varnarstöðinni á Miðnesheiði.

6.G.     AFVOPNUNARMÁL
    Afvopnunarmál hafa á undanförnum árum ekki haft viðlíka vægi í milliríkjasamskiptum og tíðkaðist á tímum kalda stríðsins enda kringumstæður gjörólíkar og hafa leitt af sér mjög mikinn niðurskurð á sviði vígbúnaðar án tilverknaðar afvopnunarsamninga. Þrátt fyrir það er afvopnun, fyrir tilstilli samninga, áfram málaflokkur sem skiptir miklu og nauðsynlegt er að fylgjast grannt með og taka afstöðu til hvort sem er í tvíhliða samskiptum eða á fjölþjóðlegum vettvangi. Mörg þeirra viðfangsefna sem eru á dagskrá í umræðu og samningaviðræðum um afvopnunarmál eru í eðli sínu hnattræn og skipta þar af leiðandi Íslendinga máli eins og aðra. Þetta á m.a. við um fækkun kjarnavopna eða viðleitni til að hefta útbreiðslu gereyðingarvopna hvort sem þar er um að ræða kjarnavopn, efnavopn eða lífræn vopn.
    Eftirfarandi er það helsta sem er á dagskrá í afvopnunarmálum um þessar mundir. Rétt er að geta þess að efnisatriði sem hér eru rakin endurspegla umræðuna í fyrstu nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sl. haust. Af þeim sökum er sú umræða ekki rakin frekar í kaflanum um Sameinuðu þjóðirnar.

6.G.1.     Fækkun kjarnavopna.
    START-samningaferlið hefur verið aðalfarvegur viðræðna Bandaríkjanna og Rússlands um fækkun langdrægra kjarnavopna um árabil. START I-samningurinn, sem gekk í gildi undir árslok 1994, kvað á um fækkun kjarnaodda í áföngum hjá hvorum aðila um sig niður í 6000. START II-samningurinn, sem undirritaður var í ársbyrjun 1993, en gengur ekki gildi fyrr en bæði ríkin hafa fullgilt hann, kveður á um fækkun kjarnavopna í áföngum og miðar að því að hvort ríki um sig hafi á að skipa 3000-3500 kjarnaoddum undir árslok 2007.
    Öldungadeild bandaríkjaþings fullgilti START II-samninginn í ársbyrjun 1996. Rússneska Dúman hefur hins vegar ekki fullgilt samninginn ennþá og hefur málinu ítrekað verið slegið á frest af ýmsum ástæðum sem rætur eiga að rekja til stjórnmálaástandsins í Rússlandi almennt og samskipta við vestræn ríki.
    Á fundi þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna og Rússlands í Helsinki í marsmánuði 1997 var ákveðið að hefja viðræður um START III sem myndu miða að enn frekari fækkun kjarnaodda eða 2000–2500 undir árslok 2007. Viðræður um START III hafa verið í gangi en Bandaríkin hafa tekið þá afstöðu að formlegar samningaviðræður geti ekki hafist fyrr en START II- samningurinn hafi verið fullgiltur af hálfu Rússlands.
    Samhliða viðræðum um START III hefur gagneldflaugasamningurinn frá 1972 – ABM samningurinn (Anti-Ballistic-Missile Treaty) - verið á dagskrá en Bandaríkjamenn hafa hug á að fá honum breytt í ljósi áætlana um að koma upp gagneldflaugakerfi í Alaska. Samningurinn kveður á um bann við uppsetningu gagneldflauga gegn langdrægum eldflaugum að öllu leyti nema því að báðir aðilar hafa rétt til að setja upp tvö slík kerfi, annað í kringum borg en hitt í kringum bækistöðvar langdrægra eldflauga.
    Bandaríkin hafa ekki tekið ákvörðun um uppsetningu gagneldflaugakerfis, svo sem fyrr segir, en hún verður væntanlega tekin á sumarmánuðum.
    Rússar hafa lýst sig mótfallna hvers konar breytingum á ABM-samningnum og vísað til þess að hann hafi verið og sé enn afar mikilvægur fyrir stöðugleika á sviði langdrægra kjarnavopna sem og forsenda fyrir frekari niðurskurði þeirra. Kína hefur tekið hliðstæða afstöðu.
    Ljóst er að miklu getur skipt fyrir viðræður um fækkun kjarnavopna hver niðurstaðan verður í þessu máli.

6.G.2.     Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn.
    Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn, sem lokið var við á haustmánuðum 1996 (CTBT), er tvímælalaust mikilvægasti samningur undanfarinna ára er snýr að kjarnavopnum. Samningurinn, sem 155 ríki hafa undirritað, kveður á um allsherjarbann við tilraunum með kjarnasprengingar. Áður höfðu samningar náðst um bann við tilraunum í andrúmslofti, í geimnum og neðansjávar (1963) sem og takmörkun sprenginga við 150 kílótonna styrkleika (1974).
    Samningurinn gerir ráð fyrir alþjóðlegu eftirlitskerfi sem samanstendur af samtals 320 stöðvum víðs vegar um heim í samtals 89 löndum. Tvær þessara stöðva verða staðsettar á Íslandi til mælinga á geislavirkni og jarðhræringum.
    Þýðing samningsins felst í því að hann setur ríkjum skorður í þróun og smíði kjarnavopna og þá einkum ríkjum sem ekki eiga þau fyrir en hafa í hyggju að koma þeim upp. Samningurinn spornar einnig við frekari þróun nýrra vopna þeirra ríkja sem þegar eiga kjarnavopn. Samningurinn hefur þannig mjög mikið gildi í viðleitni til að stemma stigu við útbreiðslu kjarnavopna og hefta frekari þróun þeirra. Hann er einnig álitinn skipta miklu í þeirri viðleitni að fækka kjarnavopnum.
    Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn hefur ekki tekið gildi ennþá og gerir það ekki fyrr en 44 ríki, sem tilgreind eru í samningnum, hafa fullgilt hann. Af þessum 44 ríkjum hafa 41 ríki undirritað samninginn en þrjú þeirra ríkja sem tilgreind eru, Pakistan, Indland og Norður-Kórea hafa ekki undirritað samninginn. Alls hafa 41 af 44 ríkjum sem þarf til að fullgilda samninginn undirritað hann og þar af höfðu 23 fullgilt við áramót. Samtals hafa rúmlega 50 ríki nú fullgilt samninginn af þeim 155 sem hafa undirritað hann.
    Kjarnorkuveldin Frakkland og Bretland hafa fullgilt samninginn en ekki Bandaríkin, Rússland og Kína. Öldungadeild Bandaríkjaþings felldi í atkvæðagreiðslu (51–48) ályktun til fullgildingar samningnum í október sl. Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að hann myndi halda áfram að berjast fyrir allsherjarbanni við tilraunum með kjarnavopn og að Bandaríkin myndu halda áfram þeirri stefnu, sem mörkuð var 1992, að gera ekki tilraunir með kjarnavopn.
    Bandaríkin voru meðal þeirra ríkja sem höfðu forystu um gerð samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn og hafa alla tíð verið í fararbroddi fyrir því að stemma stigu við útbreiðslu kjarnavopna. Óhætt er að fullyrða að afstaða öldungadeildarinnar er verulegt bakslag í seglin í þeirri viðleitni.
    Rússland og Kína hafa lýst yfir að þau muni fullgilda samninginn en ekki liggur fyrir hvenær það verður.
    Samninginn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn er eðlilegt að líta á sem einn af höfuðþáttum þeirrar viðleitni að hefta útbreiðslu kjarnavopna og fækka þeim. Það bakslag sem nú er komið í það ferli, sem er undanfari þess að samningurinn taki gildi, gefur tóninn fyrir endurskoðunarráðstefnuna um samninginn um útbreiðslu kjarnavopna (NPT- Non- Proliferation Treaty) sem haldinn verður í New York í apríl/maí á þessu ári. Það hefur einkennt umræður um NPT samninginn, allar götur frá því hann gekk í gildi 1970, að þau ríki sem hafa skuldbundið sig til að koma ekki upp kjarnavopnum hafa gert þá kröfu á móti til kjarnorkuveldanna að þau fækki kjarnavopnum og hætti tilraunum með kjarnavopn.

6.G.3.     Jarðsprengjusamningurinn.
    Mikilvægur árangur á sviði afvopnunarmála náðist með gerð samningsins um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn fólki og um eyðingu þeirra en hann var lagður fram til undirritunar í Ottawa í desember 1997. Samningurinn gekk í gildi 1. mars 1999 en þá hafði tilskilinn fjöldi ríkja fullgilt hann. Ísland fullgilti samninginn í apríl 1999.
    Bakgrunnur samningsins er hin mikla dreifing og notkun jarðsprengna gegn fólki í heiminum og þær afleiðingar sem þær geta haft í för með sér. Þrátt fyrir víðtæka hreinsun á jarðsprengjum víða um heim á undanförnum árum er talið að a.m.k. 60–70 milljónir sprengna séu enn faldar í jörðu. Að líkindum er um helmingur sprengnanna í 12 löndum.
    Gildi jarðsprengjusamningsins ber ekki síst að meta út frá mannúðarsjónarmiðum. Óhætt er að fullyrða að í ríkjum þar sem jarðsprengjum hefur verið komið fyrir í miklu magni eru áhrifin á þjóðlífið gífurleg. Vikulega deyða og limlesta jarðsprengjur yfir 500 manns um heim allan eða um 26.000 manns á ári og er stærstur hluti þeirra óbreyttir borgarar.
    Með samningnum er stigið stórt skref til að uppræta jarðsprengjur sem beint er gegn fólki. Enn er þó langt í land að bægja frá hættunni sem stafar af þeim sprengjum sem fyrir eru víðs vegar um heim og skiptir miklu hvernig staðið verður að framkvæmd samningsins. Jafnframt ber að hafa í huga að allmörg ríki hafa ekki gerst aðilar að samningnum. Þar á meðal eru Bandaríkin, Rússland, Kína, Suður-Kórea og Indland.

6.G.4.     Efnavopnasamningurinn.
    Ísland fullgilti efnavopnasamninginn í aprílmánuði 1997 og fer Hollustuvernd Ríkisins með framkvæmd hans hér á landi í samráði við utanríkisráðuneytið. Frumvarp til laga sem tryggja á framkvæmd samningsins hér á landi var lagt fram á Alþingi í febrúarmánuði sl.
    Efnavopnasamningurinn kveður á um algjört bann við efnavopnum og notkun þeirra og skuldbindur aðildarríki til að eyða þeim sem fyrir eru í eigu þeirra eða vörslu. Takmarkið er að eyðingu verði lokið á þessum áratug og er það starf þegar hafið í 3/4 þeirra ríkja sem eiga efnavopn.
    Efnavopnastofnunin tók formlega til starfa árið 1997 í Haag en henni er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins. Hagsmunir Íslendinga af þátttöku í Efnavopna stofn uninni eru að taka þátt í samvinnu um eyðingu efnavopna og koma í veg fyrir að hráefni til framleiðslu slíkra vopna séu seld eða flutt um landssvæði aðildarríkjanna til þeirra sem ekki vilja hlíta banni við efnavopnum.
    Ráðstefnur aðildarríkja Efnavopnastofnunarinnar eru haldnar einu sinni á ári. Sérstakt fram kvæmdaráð hefur það hlutverk milli ráðstefna að fylgja eftir ákvörðunum aðildar ríkjanna, tryggja samráð þeirra í millum og fylgjast með starfsemi stofnunarinnar. Í fram kvæmda ráðinu sitja fulltrúar 41 ríkis. Önnur Norðurlönd hafa skipst á setu í ráðinu. Öll aðildar ríki hafa hins vegar rétt til að sitja fundi ráðsins sem áheyrnaraðilar. Fjölmörg ríki nýta sér þann rétt en fundir eru haldnir 4–6 sinnum á ári.

6.G.5.     Aðlögun samningsins um hefðbundinn herafla í Evrópu (CFE).
    Á leiðtogafundi ÖSE í Istanbúl 18.–19. nóvember 1999 var undirritaður endurskoðaður samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu. Samningurinn á að tryggja öryggi og stöðugleika í Evrópu með allmiklu minni herstyrk en verið hefur.
    Samningurinn kveður á um fyrirkomulag þess hvaða skorður eru settar við herstyrk ríkja og svæða. Hann felur einnig í sér nákvæmar upplýsingar um takmarkanir hvað varðar einstakar vopnategundir, þ.e. skriðdreka, brynvörð ökutæki, stórskotaliðsvopn, herþotur og árásarþyrlur. Stefnt er að frekari niðurskurði á herstyrk allra aðildarríkja.
    Til að ná fram fækkun í vígbúnaði er boðið upp á sveigjanleika í framkvæmd samningsins. Í fyrsta lagi er mögulegt að endurskoða þau mörk sem sett eru á ríki og svæði innan ákveðinna marka. Í öðru lagi er heimild til að fara umfram svæðatakmarkanir við friðargæsluaðgerðir undir leiðsögn ÖSE eða Sameinuðu þjóðanna og vegna heræfinga eða annarra tímabundinna aðgerða.
    Eitt stærsta atriðið í endurbættum CFE-samningi er ákvæðið um mögulega aðild fleiri ríkja að samningnum en aðildarríki hans eru nú 30. Einungis eitt ríki hefur lýst opinberlega yfir áhuga á aðild en Slóvenía óskaði aðildar á Istanbúlfundinum. Litháen hefur einnig sýnt áhuga.
    Framkvæmd CFE-samningsins hefur almennt gengið vel og fækkað hefur verið í samræmi við ákvæði samningsins varðandi þær 5 tegundir vígbúnaðar sem hann tekur til. Í sumum tilvikum hefur niðurskurður jafnvel orðið meiri en samningurinn kveður á um. Alls hefur, frá gildistöku samningsins í júlí 1992, verið eytt 51.689 vígtólum. Með grófri skiptingu má segja að fyrrum Varsjárbandalagsríki hafi skorið niður vígbúnað sinn um 75% en Atlantshafsbandalagsríki 35%. Á sama tíma hefur hermönnum fækkað um tæplega 2 milljónir á samningssvæðinu, úr um 5,8 í 3,9 milljónir.

6.G.6.     Annað.
    Aðalvettvangur fjölþjóðlegra samningaviðræðna um afvopnun er afvopnunarráðstefnan í Genf en 66 ríki taka þátt í henni. Ráðstefnan hefur á undanförnum árum náð töluverðum árangri í afvopnunarviðræðum og endurspeglast það í samningnum um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn og efnavopnasamningnum. Ráðstefnan hefur upp á síðkastið m.a. beint athyglinni að því að ná samkomulagi um bann við framleiðslu kjarnakleyfra efna. Árangur hefur verið takmarkaður til þessa en haldið er áfram viðræðum um málið.
    Af öðrum málum á sviði afvopnunar, sem eðlilegt er að nefna, er viðleitnin til að koma á skilvirku eftirliti með því að samningur um bann við lífrænum vopnum sé haldinn. Samningurinn, sem er frá 1972, hefur þann galla að eftirlitsákvæði eru veik. Sérstök nefnd, sem stofnað var til á endurskoðunarráðstefnu samningsins 1994, hefur haft það hlutverk að semja um málið. Samningsdrög liggja fyrir en eru langt frá því að vera fullgerð.


7. MÁLEFNI MIÐ-AUSTURLANDA, ASÍU OG AFRÍKU

7. A.     MIÐ-AUSTURLÖND
    Verulegar breytingar hafa orðið á stöðu mála í Mið-Austurlöndum þótt enn sé langt í land með að friðvænlegt geti talist í þeim heimshluta. Vonir manna um árangur af friðarferlinu, sem hófst í Ósló fyrir nokkrum árum, hafa hvað eftir annað brugðist því skref eru tekin aftur á bak nánast jafnóðum og eitthvað virðist miða áfram. Um leið hafa hins vegar nokkrar glufur myndast í veggi sem áður sýndust býsna þéttir og því er enn grundvöllur fyrir nokkurri bjartsýni á að jafnvel stór skref verði tekin í átt til friðar í Mið-Austurlöndum á næstu mánuðum og misserum. Þetta á ekki síst við um friðarsamninga milli Ísraelsmanna og Sýrlendinga. Stærsta vandamálið í þessum heimshluta er hins vegar sem fyrr hversu illsættanlegir hagsmunir Palestínumanna og Ísraelsmanna eru í nokkrum greinum. Má þar t.d. nefna stöðu Jerúsalem, stöðu einstakra hluta herteknu svæðanna á Vesturbakkanum og ekki síst rétt palestínskra flóttamanna í nágrannaríkjunum til að snúa heim. Ísraelsmenn hafa þvertekið fyrir að palestínskir flóttamenn geti snúið til heimkynna sinna þótt um frið verði samið. Þótt málin séu afar flókin og hagsmunir illsættanlegir, sérstaklega hvað varðar Palestínumenn og Ísraelsmenn, hefur þunginn að baki þeim hagsmunum sem krefjast friðar í þessum heimshluta farið svo vaxandi hin síðari ár að viss bjartsýni hefur gert vart við sig. Ljóst er hins vegar að friður mun ekki verða viðvarandi í þessum heimshluta fyrr en viðunandi samningar verða gerðir við Palestínumenn. Fagna má þeim mikilvæga áfanga til friðar sem nú virðist í höfn með ákvörðun ríkistjórnar Ísraels að kveðja ísraelska herinn heim frá hernámssvæðum hans syðst í Líbanon.
    Ísland tók upp formleg samskipti við stjórnvöld Palestínumanna (Palestinian Authority) nýverið. Ákveðið hefur verið að sendinefnd palestínskra stjórnvalda í Ósló verði jafnframt sendinefnd þeirra gagnvart Íslandi. Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun fyrir tæpum þremur árum að að veita tæplega 50 milljónum króna af framlagi okkar til efnahagslegrar uppbyggingar á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna á Vesturbakkanum og Gazasvæðinu til byggingar tveggja barnaskóla. Skólarnir voru opnaðir í fyrra og var aðalræðismaður Íslands í Jórdaníu viðstaddur opnunina fyrir Íslands hönd.

7. B.     ASÍA
    Efnahagskreppunni í Austur- og Suðaustur-Asíu má heita lokið og nýtt hagvaxtarskeið er nú hafið í flestum þeirra ríkja sem illa urðu úti í kreppunni 1997–1998. Velmegun vex nú á ný örar í mörgum þessara ríkja en þekkist nánast í nokkrum öðrum ríkjum heimsins. Asíukreppan virðist því hafa verið stutt hlé á örri og heimssögulegri þróun til velmegunar í þessari langfjölmennustu álfu heimsins, en nær 60% allra manna búa í Asíu. Með þessari þróun eru stöðugt að verða til nýir og stórir markaðir fyrir ýmiss konar vöru og þjónustu sem íslenskt athafnalíf hlýtur að nýta sér í vaxandi mæli. Að því vilja íslensk stjórnvöld stuðla með margháttaðri aðstoð við sókn inn á þessa fjarlægu en oft ábatasömu markaði.
    Efnahagserfiðleikar halda þó áfram í Japan en þeir höfðu hafist löngu fyrir Asíukreppuna og eru að mestu leyti af allt öðrum og ólíkum toga en þau vandræði sem orsökuðu hina skammvinnu Asíukreppu. Þrátt fyrir erfiðleikana eru Japanir með hærri þjóðartekjur á mann en nokkurt annað stórt ríki í heiminum og hagkerfi þeirra er stærra en samanlögð hagkerfi Þýskalands og Bretlands. Ýmsar af þeim efnahagsumbótum sem Japanir reyna nú að koma til framkvæmda, þótt hægt gangi, geta stuðlað að frekari opnun á mörkuðum þar í landi. Þrátt fyrir stöðnunina í japanska hagkerfinu geta Íslendingar því horft með bjartsýni til þess að stofnun sendiráðs í Tókýó á næsta ári greiði fyrir tækifærum fyrir íslenskt atvinnulíf og verði upphafið að auknum viðskiptum við þetta mikilvæga ríki.
    Þrátt fyrir að nokkuð hafi hægt á hagvexti í Kína, og nokkra váboða megi greina í efnahagslífi landsins, er hagvöxtur og uppbygging þó meiri í Kína en víðast hvar annars staðar í heiminum. Aukið vægi Kína, og vaxandi máttur landsins í stjórnmálum og efnahagslífi heimsins, kom vel í ljós í Asíukreppunni sem Kínverjar áttu verulegan þátt í að gera skammvinnari en annars hefði getað orðið. Kína er augljóslega vaxandi stórveldi sem mikilvægt er að tengist sem traustustum og þéttustum hætti við meginstrauma alþjóðlegra samskipta. Nú hyllir undir að Kína gangi í Alþjóðaviðskiptastofnunina, eftir erfitt samningaferli við Bandaríkin og Evrópusambandið, en aðild Kína að stofnuninni mun þegar fram í sækir auðvelda verulega alþjóðleg viðskipti við Kína. Aðlögun Kína að alþjóðlegum viðskiptareglum mun hins vegar taka verulegan tíma og krefjast þolinmæði og nákvæmrar hagsmunagæslu af hálfu ríkja eins og Íslands sem vilja greiða fyrir viðskiptum eigin atvinnulífs í Kína. Tækifærin eru gríðarleg og vilji kínverskra stjórnvalda til að greiða fyrir auknum viðskiptum við lönd eins og Ísland er greinilegur.
    Kínversk stjórnvöld áforma nú að einbeita sér að uppbyggingu utan stórborga landsins og strandhéraðanna þar sem byltingarkenndar breytingar hafa orðið á síðustu árum. Um 850 milljónir manna byggja innsveitir Kína þar sem þróun er víða skammt á veg komin. Erlend fjárfesting og viðskipti við Vesturlönd munu leika þar lykilhlutverk.
    Breytingarnar í Kína eru ekki einungis fólgnar í einni mestu efnahagsbyltingu sem nokkru sinni hefur átt sér stað í heiminum heldur ná þær nú orðið til flestra sviða samfélagsins. Völd á landsvísu eru þó enn öll hjá kínverska kommúnistaflokknum. Flokkurinn ver einokun sína á völdum með því að vísa til þess að halda verði öruggum höndum um stjórnartaumana í þessu risaríki á tímum mikilla umbyltinga á öllum sviðum ef ekki á illa að fara. Ráðamenn þreifa sig nú hins vegar áfram með því að innleiða lýðræðislegar aðferðir við kjör sveitarstjórna.
    Einstaklingsfrelsi hefur einnig aukist á flestum sviðum í Kína. Kínversk stjórnvöld hafa sýnt viðkvæmni fyrir gagnrýni á ástand mannréttindamála í landinu, en um leið hafa þau sýnt vilja til þess að bæta réttarkerfi í landinu og til að auka lýðréttindi. Kínverjar hafa í því sambandi sýnt áhuga á að kynna sér ýmislegt í reynslu vestrænna ríkja og þá ekki síst Norðurlanda. Margt bendir til þess að verulegar þjóðfélagsumbætur og umtalsverð þróun í átt til lýðræðislegri stjórnarhátta sé möguleg og jafnvel líkleg í Kína. Ótti stjórnvalda við upplausn á þessum miklu byltingartímum í efnahagslífi landsins kemur í veg fyrir að slík þróun geti orðið mjög ör.
    Í Indónesíu hefur pólitísk ólga, í kjölfar hruns gamallar einræðisstjórnar, tafið fyrir því að hagvöxtur komist aftur á fullan skrið þótt nokkuð miði nú í rétta átt í efnahagsmálum. Pólitískar umbætur munu vonandi leiða til aukins stöðugleika í framtíðinni en fjöldi óuppgerðra deilumála frá langri tíð einræðisstjórnar í landinu, ekki síst á milli einstakra þjóðernis- og trúarhópa í þessu víðfeðma ríki, mun tefja sókn til velmegunar. Fagnaðarefni er hins vegar að íbúar Austur-Tímor hafa nú loks fengið sjálfstæði eftir langa baráttu. Þar hefur nú tekið við mikið uppbyggingarstarf sem alþjóðasamfélagið verður að styðja myndarlega á næstu árum.
    Um leið og því er fagnað að mörg ríki Asíu taka nú risavaxin skref fram á við í efnahags- og þjóðfélagsmálum er full ástæða til að hafa áhyggjur af vaxandi vígbúnaði á mörgum svæðum í álfunni og mikilli spennu í samskiptum nokkurra ríkja hennar. Sú óheillaþróun hefur orðið á Indlandsskaga að öflugustu ríki svæðisins, Indland og Pakistan, hafa kosið að vígbúast með kjarnorkuvopnum. Þetta gerir langvarandi deilumál ríkjanna, meðal annars vegna Kasmír, enn alvarlegri, og dregur um leið þrótt úr efnahagsuppbyggingu á Indlandsskaga. Þar búa nú fleiri í sárri fátækt en í allri Afríku. Íbúar Indlandsskaga, í Indlandi, Pakistan og Bangladesh, eru orðnir jafnmargir og íbúar Kína, um 1300 milljónir manna. Þótt stór hluti þessa mannhafs búi við mikla fátækt er verulegur vöxtur í nokkrum greinum atvinnulífsins, ekki síst á Indlandi, en þarlend stjórnvöld hafa að undanförnu lagt áherslu á aukin alþjóðleg viðskipti. Í landinu er nú að finna tækifæri í viðskiptum sem íslensk fyrirtæki hljóta að líta til í framtíðinni.
    Alvarlegustu ógnina í Asíu við stöðugleika í alþjóðamálum er líklega að finna í deilum Kínverja við stjórnvöld á Tævan. Frá hendi Kínverja hefur mátt greina aukinn þrýsting á lausn þessa máls, nú þegar Hong Kong og Maká hafa sameinast kínverska alþýðu lýðveldinu undir formerkjum stefnu Deng Xiaoping um „eitt ríki, tvö kerfi“. Á Tævan hefur hins vegar mátt greina nokkuð aukinn styrk þeirra afla sem vilja að Tævan verði með tímanum formlega sjálfstætt ríki, frekar en sjálfstjórnarsvæði innan Kína. Kínversk stjórnvöld hafa þrásinnis lýst yfir að þau muni beita hervaldi gegn framgangi þeirrar stefnu.
    Um leið og deilur Kínverja við stjórnvöld á Tævan eru hinar alvarlegustu hafa Kína og Tævan hins vegar haldið áfram að tengjast æ nánari efnahagslegum böndum. Fjárfestingar fyrirtækja frá Tævan í Kína eru gífurlegar og öll truflun á þessum samskiptum getur haft mjög alvarleg áhrif í för með sér fyrir báða aðila, og umtalsverð áhrif á heimsviðskipti, enda eru fjölþjóðleg framleiðsluferli í mörgum iðngreinum nú mjög háð snurðulausum viðskiptum innan Austur- og Suðaustur-Asíu.
    Ísland hefur um áratuga skeið fylgt sömu afstöðu og flest önnur vestræn ríki í þessu máli. Hún er sú að einungis sé til eitt kínverskt ríki. Ísland hefur því ekki formleg samskipti við Tævan. Þetta hefur hins vegar ekki staðið í vegi fyrir mjög verulegum viðskiptum við Tævan.
    Sár úr fortíðinni, sem ekki hafa náð að gróa, halda áfram að valda tortryggni og spennu á milli nokkurra ríkja í Asíu. Í Kína, Suður-Kóreu og í fleiri ríkjum gætir enn verulegrar tortryggni gagnvart Japönum, sem ekki hafa farið sömu leið og Þjóðverjar fóru í Evrópu við að horfast í augu við og gera upp sekt vegna heimstyrjaldarinnar síðari. Þessi sár hafa umtalsverð áhrif á öryggismál í Asíu og margvísleg en oft lítið sýnileg áhrif á önnur samskipti.

7. C.     AFRÍKA
    Íslensk stjórnvöld hafa fylgt þeirri stefnu að allur þorri þróunaraðstoðar íslenska ríkisins renni til verkefna í Afríku, og þá sérstaklega til nokkurra landa í sunnanverðri álfunni, en nánar er fjallað um þróunarsamstarf Íslendinga við aðrar þjóðir síðar í þessari skýrslu. Þótt íbúar í ríkjunum syðst í álfunni búi við miklar hremmingar af ýmsu tagi, eins og náttúruhamfarir, ógnir alnæmis, sem hvergi er útbreiddara, og langvarandi styrjaldir hefur þróun mála í ýmsum greinum verið heldur fram á við í þessum hluta álfunnar.
    Verkefni stjórnvalda í Suður-Afríku, stærsta ríkis svæðisins, eru risavaxin en leiðtogar landsins hafa um margt sýnt aðdáunarverða þrautseigju í að glíma við þau. Sama má segja um Mósambík, þar sem Íslendingar reyna að leggja uppbyggingarstarfi lið, en landið var orðið fátækasta ríki jarðarinnar eftir langvarandi og einstaklega grimmilegt borgarastríð. Það er hins vegar ástæða til bjartsýni með að varanlegur friður hafi náðst í Mósambík og þar ríkir nú mikill vilji til uppbyggingar á öllum sviðum. Árangurinn af uppbyggingu síðustu missera er þegar farinn að segja verulega til sín. Hagvöxtur varð meiri í Mósambík í fyrra en í nokkru öðru landi heims eða yfir tíu af hundraði. Búsifjar af völdum flóða að undanförnu munu hins vegar reynast mönnum þungar í skauti.
    Því miður er ekki þessi sami þróttur í uppbyggingarstarfi alls staðar í Afríku. Í álfunni eru nú háð allmörg mannskæð stríð sem sum hver virðast næsta gleymd vestrænum fjölmiðlum. Stríðið í Angóla hefur nú staðið í aldarfjórðung þrátt fyrir ítrekaðar og alvarlegar tilraunir studdar af alþjóðasamtökum til að miðla þar málum. Átökin í Kongó á síðustu misserum ógna ekki aðeins hinum fátæku íbúum þessa auðuga lands heldur einnig stöðugleika á stóru svæði í Afríku og er því alvarlegra en flest önnur átök í álfunni. Fjöldi ríkja hefur með ýmsum hætti dregist inn í átökin og nokkur ríki hafa orðið beinir aðilar að stríðinu og halda úti hernaði í landinu. Ómögulegt er á þessu stigi að segja til um hvernig friðarumleitunum, sem margir aðilar koma að, mun vinda fram eða hvort samningar sem gerðir hafa verið og eru í bígerð munu halda. Niðurstaðan getur haft veruleg áhrif á framvindu mála víða í Mið-Afríku.
    Litlu norðar í álfunni, í Súdan, hefur stríð geisað í 17 ár og á landamærum Eþíópíu og Erítreu hafa mjög mannskæð átök staðið að undanförnu. Nokkurrar bjartsýni gætir varðandi frið á milli Eþíópíu og Erítreu, og upp á síðkastið hafa alvarlegar tilraunir verið gerðar af báðum stríðsaðilum í Súdan til að finna friðsamlega lausn á hinum langvarandi átökum í landinu. Vestar í álfunni hafa tvö ríki, Líbería og Sierra Leóne, nánast hrunið á síðustu árum en margt bendir til að það versta sé yfirstaðið í báðum ríkjunum.
    Í Nígeríu, stærsta ríki álfunnar, hefur lýðræði verið innleitt að nýju en stöðugleika í ríkinu er ógnað af fjölþættum vandamálum. Sá þróttur sem verið hefur í lýðræðinu í Suður-Afríku, og merki um auknar kröfur almennings um lýðræðislega og opna stjórnarhætti í nokkrum öðrum ríkjum Afríku, gefur tilefni til nokkurrar bjartsýni á stjórnmálaþróun í álfunni þótt öllum sé ljóst að risavaxin vandamál bíða úrlausnar um alla Afríku á næstu árum.
    Flest þessara vandamála eiga gamlar og djúpar rætur í Afríku en eitt hið versta þeirra er þó nýtt af nálinni. Alnæmi heggur nú stór skörð í raðir ungs fólks í mörgum ríkjum álfunnar og dregur úr þrótti samfélaga til uppbyggingar. Í nokkrum ríkjum í sunnanverðri Afríku er svo komið að fjórðungur ungmenna á aldrinum 15–19 ára hefur smitast af alnæmi. Stór hluti þeirra barna sem fæðist í þessum löndum, og í mörgum löndum norðar og vestar í álfunni, fæðist með alnæmisveiruna. Ef ekki koma til stórstígar framfarir í læknavísindum og stóraukið fé til heilsugæslu blasa við hörmungar fyrir ótaldar milljónir einstaklinga og fyrir heil samfélög. Ísland er í hópi margra ríkja sem leggur áherslu á að sem mestri alþjóðlegri samstöðu verði að ná um aðstoð við Afríkumenn á þessu sviði. Alþjóðastofnanir, frjáls félagasamtök, líknarfélög, trúfélög og fyrirtæki verða að leggjast á eitt með að veita sem virkasta aðstoð sem gagnast getur samfélögum í Afríku sem heyja nú erfiða varnarbaráttu gegn þessum vágesti.


8. HNATTRÆN MÁLEFNI

8.A. SAMEINUÐU ÞJÓÐIRNAR
    Innan Sameinuðu þjóðanna koma ríki heims saman á jafnréttisgrundvelli til að taka á þeim vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir. Flest þessara vandamála verða ekki leyst nema með sameiginlegu átaki og þrátt fyrir að sum þeirra virðist fjarlæg koma þau okkur við, ekki síst í ljósi aukinnar hnattvæðingar.
    Síðan kalda stríðinu lauk hefur mikilvægi Sameinuðu þjóðanna aukist og þeim gefist ný tækifæri til að sinna hlutverki sínu í þágu alls mannkyns. Þetta hlutverk er vandmeðfarið og stofnunin verður oft fyrir gagnrýni. Á þeim stundum ber að hafa í huga að stofnunin getur hvorki orðið betri né verri en aðildarríkin sem að henni standa. Því er brýnt að hvert ríki um sig leggi sitt af mörkum til að tryggja góðan árangur. Ísland getur ekki skorast undan. Ábyrgð og skyldur fylgja viðurkenningu annarra ríkja á frelsi og fullveldi Íslands.
    Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur viðrað bæði róttækar og umdeildar hugmyndir sínar um stofnunina á nýrri öld. Hann hefur bent á nauðsyn þess að aðildarríkin nái samkomulagi um úrbætur á starfsemi stofnunarinnar við friðargæslu og aðgerðum til að koma í veg fyrir hernaðarátök. Nauðsynlegt sé að Sameinuðu þjóðirnar geti látið til sín taka í ófriði innan aðildarríkja þegar við blasi fjöldamorð eða aðrir glæpir gegn mannkyni sem hið alþjóðlega samfélag geti ekki horft aðgerðalaust upp á. Ella muni Sameinuðu þjóðirnar bregðast því meginhlutverki sínu að tryggja frið og öryggi.
    Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, hefur tekið sterklega undir sjónarmið aðalfram kvæmda stjórans en margir telja afskipti samtakanna af innanríkismálum aðildarríkja útilokuð samkvæmt stofnsáttmála S.þ. Þessir aðilar leggja áherslu á helgan fullveldisrétt ríkja. Búist er við mikilli umræðu meðal aðildarríkja stofnunarinnar á næstu árum um heimild hennar til að beita vopnaðri íhlutun af mannúðarástæðum.
    Ísland hefur ítrekað, í málflutningi sínum á allsherjarþinginu, lagt áherslu á nauðsyn þess að afnema ríkisstyrki í sjávarútvegi. Ríkisstyrkir eru að mati íslenskra stjórnvalda einn meginvaldur þess að fiskveiðiflotar eru víða allt of stórir og hætt við ofveiði af þeim sökum. Bent hefur verið á að bæta megi hina árlegu umræðu um málefni hafsins en þar þurfi að byggja á starfi þeirra stofnana sem nú fjalla um þau málefni og gæta þess að alþjóðastofnanir fari ekki inn á starfssvið svæðastofnana eða staðarsérfræðinga í málefnum sem varða stjórnun fiskveiða.
    Aldamótaleiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna verður haldinn í New York 6.–8. september á þessu ári í upphafi 55. allsherjarþingsins. Mikil vinna hefur farið í undirbúning fundarins en nokkur ágreiningur er enn milli sumra ríkjahópa um nánari útfærslu hans. Ákveðið hefur verið að hann fjalli að meginefni um hlutverk Sameinuðu þjóðanna á nýrri öld. Forsætisráðherra verður fulltrúi Íslands á fundinum.
    Ísland tekur þátt í samstarfi ýmissa ríkjahópa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Hefur samstarfið verið mjög mikilvægt fyrir störf fastanefndar Íslands hjá S.þ. Auk norræna sam starfsins tekur Ísland virkan þátt í fundum svokallaðs JUSCANZ ríkjahóps en þar eiga sæti Japan, Bandaríkin, Sviss, Kanada, Ástralía, Nýja-Sjáland, Tyrkland, Mexíkó, Noregur og Suður-Kórea auk Íslands. Rússland tekur einnig þátt í störfum þessa hóps innan annarrar nefndar allsherjarþingsins og í efnahags- og félagsmálaráðinu, ECOSOC.
    Ísland tekur einnig þátt í störfum annars samráðshóps 26 ríkja, svokallaðs Vinci hóps, í málefnum annarrar nefndar og ECOSOC og í samráðshópi vestrænna ríkja í afvopnunar málum, Mason-hópnum. Reglulegir fundir eru og sóttir í samstarfshópi vest rænna ríkja um framboðsmál, WEOG.
    Á 54. allsherjarþinginu var Ísland kjörið í annað embætta varaforseta sem féll WEOG- hópnum í skaut. Stýrði Þorsteinn Ingólfsson fastafulltrúi allmörgum fundum allsherjar þingsins á grundvelli þessa. Þá var Ísland í formennsku í hópi Norðurlandanna innan S.þ. árið 1999.

8. B.     UMBÓTASTARF INNAN SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA
    Síðustu missiri hefur mikilvæg umræða átt sér stað um umbótastarf innan Sameinuðu þjóðanna. Skipaðir voru starfshópar til að gera tillögur um breytingar á helstu þáttum í starfsemi þeirra. Mikilvægt er að umbótastarf þetta beri árangur og að rekstur stofn unar innar verði færður í nútímalegra horf.
    Þær umbætur sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lagði til á 52. allsherjar þinginu hafa flestar komið til framkvæmda og er nokkuð almenn ánægja með árangur endur bótastarfsins. Ljóst er þó að mikið starf er enn óunnið.
    Íslensk stjórnvöld hafa stutt tillögur um að fjölga föstum og kjörnum sætum í öryggisráðinu til að ráðið endurspegli betur fjölgun aðildarríkja og breyttar aðstæður í heiminum. Aftur á móti leggja þau áherslu á að ekki megi draga úr getu ráðsins til ákvarðanatöku og framkvæmda.
    Umræður um breytingar á starfsháttum og skipan öryggisráðsins hafa staðið á sjöunda ár án nokkurs árangurs. Helsta fyrirstaðan er þrákelkni þeirra ríkja sem fast sæti eiga í öryggisráðinu að fallast á nokkrar breytingar sem haft geta áhrif á stöðu þeirra innan ráðsins. Norðurlöndin, ásamt Íslandi, lögðu strax í upphafi fram sameiginlegar umbóta tillögur þar sem m.a. var lýst yfir stuðningi við fjölgun fastra sæta í ráðinu og einnig þeirra sem kosið er í. Ef aðildarríki sættast t.a.m. á breytingu á kjörnum sætum gæti það hugsanlega haft áhrif á tímasetningu framboðs Íslands til öryggisráðsins. Slík fjölgun gæti flýtt fyrir íslensku framboði sem er ráðgert árið 2008 fyrir tímabilið 2009–2010.
    Áætlaðar heildarskuldir aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna voru 2.510 milljónir Bandaríkjadala í upphafi 54. allsherjarþingsins. Stór hluti þeirra eru útistandandi skuldir Bandaríkjanna en heildarskuld þeirra er um það bil 1,6 milljarður Bandaríkjadala. Bandaríkjastjórn hefur lengi lýst yfir eindregnum vilja til að gera upp skuldir Bandaríkjanna við stofnunina. Bandaríska þingið samþykkti nýlega að greiða hluta þeirra en skilyrti greiðsluna á sama tíma. Uppgjörið er m.a. skilyrt við lækkun á framlögum Bandaríkjanna til stofnunarinnar. Íslensk stjórnvöld hafa í umræðum um þetta mál lagt á það áherslu að ekki sé viðunandi að einstök ríki greiði ekki sín framlög að fullu og án skilyrða. Gerðar eru sífellt meiri kröfur til Sameinuðu þjóðanna á alþjóðavettvangi og setur þessi slæma skuldastaða stofnunina í mikinn vanda.

8. C.     FRIÐARGÆSLA
    Aðalhlutverk Sameinuðu þjóðanna er að varðveita heimsfrið og öryggi. Friðargæsla heldur því áfram að vera grundvallarþáttur í starfi stofnunarinnar. Ný friðargæsluverkefni hófust í Kósóvó og Austur-Tímor á síðasta ári og er það einkennandi fyrir þessi verkefni hversu víðtæku hlutverki S.þ. er ætlað að gegna. Ekki er um að ræða friðargæslu sem eingöngu miðast við að koma í veg fyrir vopnuð átök milli stríðandi fylkinga eins og t.d. UNDOF á landamærum Ísraels og Sýrlands og UNFICYP á Kýpur. Fremur er um að ræða friðargæsluverkefni þar sem Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðastofnunum í samvinnu við þær er fengið það hlutverk, af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, að endurbyggja samfélög frá grunni og að stjórna þessum samfélögum þar til hægt er að koma á lýðræðislegum stjórnarháttum.
    Ísland hefur verið virkur þátttakandi í friðargæslu Atlantshafsbandalagsins í Bosníu og Hersegóvínu síðan 1994 en þá störfuðu íslenskir læknar og hjúkrunarfræðingar með norska hernum innan IFOR. Frá árinu 1997 hafa íslensk stjórnvöld verið með samning við bresk stjórnvöld um samstarf að friðargæslu í Bosníu og Hersegóvínu. Þar starfa að meðaltali tveir læknar og tveir hjúkrunarfræðingar með breska hernum. Verið er að þróa samstarfið við Breta þannig að það nái einnig til friðargæslu í Kósóvó og fleiri staða á Balkanskaga. Má þá gera ráð fyrir að sex Íslendingar starfi að jafnaði við friðargæslu á Balkanskaga í samstarfi við Breta.
    Ísland hefur haft að jafnaði þrjá lögreglumenn við löggæslustörf í Bosníu á vegum Sameinuðu þjóðanna síðan 1997. Lögreglumennirnir starfa innan danskrar lögreglusveitar og er ætlað að kenna og hafa eftirlit með bosnískum starfsbræðrum sínum. Haustið 1999 var einnig ákveðið að hafa tvo lögreglumenn í Kósóvó með alþjóðalögregluliði Sameinuðu þjóðanna þar í landi. Starf þessara lögreglumanna er ólíkt starfi lögreglumannanna í Bosníu þar sem þeim er ætlað að sjá um löggæslu á staðnum því engin staðarlögregla er enn fyrir hendi. Íslensku lögreglumennirnir hafa starfað í Mitrovica. Það er eitt erfiðasta svæðið innan Kósóvó og hefur verið mikið í fréttum vegna átaka og haturs milli Serba sem búa í norðurhlutanum og Kósóvó-Albana í suðurhlutanum.
    Auk fólks úr heilbrigðisstéttum og lögreglunni er fólk úr öðrum starfsgreinum á vegum íslenska ríkisins í Kósóvó. Þar ber að nefna verkfræðing hjá KFOR ásamt upplýsingafulltrúa og mannréttindalögfræðingi hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Einnig hefur íslenskur sérfræðingur verið ráðinn til starfa hjá UNIFEM í Pristínu.

8. D.     EFNAHAGS- OG FÉLAGSMÁLARÁÐIÐ (ECOSOC)
    Ísland lauk þriggja ára setu í ECOSOC í árslok 1999 en Ísland hafði þá átt sæti í ráðinu frá ársbyrjun 1997. Þátttaka Íslands í starfi ECOSOC veitti mikla og hagnýta innsýn í starfsemi einnar mikilvægustu stofnunar Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt hefur á fundum ráðsins gefist tækifæri af hálfu íslenskra stjórnvalda til að halda á lofti íslenskum áherslum þar sem ráðið fjallar um málefni sem eru Íslendingum mikilvæg. Frá upphafi aðildar hefur Ísland einungis einu sinni áður átt sæti í ráðinu en það var á árunum 1985–1987.
    ECOSOC vinnur í anda ákvæða sáttmála Sameinuðu þjóðanna um alþjóðasamvinnu að efnahags- og félagsmálum, einkanlega hvað snertir lagfæringu lífskjara, trygga atvinnu, félagslega þróun, heilbrigði, menningar- og menntamál og mannréttindi. Í 61.–72. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna er fjallað um störf og verksvið ráðsins. Ráðið hefur frumkvæði að rannsóknum, skýrslugerð og tillögum í efnahags-, félags-, menningar-, menntunar-, umhverfis-, þróunar-, mannréttinda- og heilbrigðismálum. Það vinnur tillögur í þeim efnum til allsherjarþingsins, sérstofnana og einstakra aðildarríkja, gerir uppkast að samningum og hvetur til alþjóðlegra ráðstefna um ýmis mál. Ráðið er einnig öryggisráðinu til aðstoðar sé þess óskað. Það fylgist einnig með framkvæmd ákvarðana alþjóðlegra stórráðstefna sem haldnar hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna á undanförum árum. Undir ráðið heyra ellefu starfsnefndir, fimm svæðanefndir um efnahagsmál og níu fastar nefndir og sérfræðinga hópar. Flestar sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna heyra stjórnskipulega undir ráðið og sérverkefni Sameinuðu þjóðanna sameiginlega undir það og allsherjarþingið.
    Á ECOSOC þinginu, sem haldið var í Genf í júlí 1999, var áhersla lögð á útrýmingu fátæktar. Sérstaklega var fjallað um mikilvægi atvinnu í því sambandi og, í ljósi þess að meirihluti fátækra í heiminum eru konur, var undirstrikað mikilvægi þess að þeim væri tryggt jafnrétti. Var samþykkt að ávallt þyrfti að taka jafnrétti kynjanna inn í stefnumörkun sem að þessu lýtur. Í ljósi þess að konur frá fátækum löndum sækja gjarnan vinnu til ríkja sem búa við meiri hagsæld til að sjá sér og sínum farborða, og að þessar konur eru oft beittar alls kyns ofbeldi og misrétti, var viðurkennd þörfin á að vernda réttindi farandverkafólks. Aðildarríkin voru hvött til að setja lög til að tryggja útrýmingu alls ofbeldis gegn konum.
    Ísland á fulltrúa í orkunefnd ECOSOC og nefndinni um hagskýrslur.

8. E.     MANNRÉTTINDAMÁL
    Efling mannréttinda og barátta gegn mannréttindabrotum eru órjúfanlegur hluti af starfi Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar og öryggis. Tengsl mannréttindamála og öryggismála verða sífellt mikilvægari. Mannréttindi eru í eðli sínu alþjóðleg og ekkert ríki getur hafnað alþjóðlegum afskiptum af mannréttindamálum sínum með vísun til þess að um innanríkismál sé að ræða. Það er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og Norðurlönd hafa verið þar í fararbroddi. Ísland mun leggja áherslu á að styðja baráttuna fyrir alþjóðlegum mannréttindum, sem er samofin baráttunni gegn fátækt, kúgun og ófriði.
    Það er ekki síst á sviði mannréttinda sem starf Sameinuðu þjóðanna hefur borið árangur. Þetta sést glöggt þegar litið er til allra þeirra alþjóðasamninga um mannréttindi sem hafa verið gerðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ísland er aðili að flestum þessara samninga. Í samræmi við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og niðurstöður mannréttindaráðstefnunnar í Vínarborg árið 1993 leggja íslensk stjórnvöld áherslu á að tryggja beri mannréttindi um allan heim óháð svæðisbundnum aðstæðum, t.d. stjórnarfari og menningu, félagslegu umhverfi eða trúarbrögðum.
    Íslensk stjórnvöld telja sérlega mikilvægt að Sameinuðu þjóðirnar haldi áfram að sinna þessum málaflokki og hafa lagt áherslu á þetta í ræðum á allsherjarþinginu. Á 54. allsherjarþinginu hélt fastafulltrúi Íslands nokkrar ræður um mannréttindi. Fjölluðu þær um réttindi barna, kvenna og flóttamanna og trúfrelsi.
    Á 54. allsherjarþinginu báru aðildarríki Evrópusambandsins fram tillögu um ályktun um gerð alþjóðasamnings um afnám dauðarefsinga. Þessa tillögu dagaði uppi vegna mjög harðrar andstöðu margra ríkja, einkum Asíu- og Afríkuríkja. Mikill hiti var í óformlegri umræðu um þetta mál. Flutningsríkin ákváðu því að lokum að fylgja því ekki eftir til að koma í veg fyrir alvarlegan klofning milli ríkjahópa sem gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Þrátt fyrir að ekki væri hægt að ná samkomulagi um málið fögnuðu íslensk stjórnvöld því að mál þetta skyldi yfirleitt vera rætt á þessum vettvangi.
    Fimmtugasta og fimmta þing mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fór fram í mars og apríl 1999. Á þinginu átti Ísland meðflutningsaðild að tuttugu og þremur ályktunartillögum. Næsta þing mannréttindaráðsins verður haldið í Genf 20. mars til 28. apríl 2000. Sem fyrr verður fylgst náið með tillöguflutningi í ráðinu og gera má ráð fyrir að Ísland gerist meðflytjandi að þeim ályktunartillögum sem styrkt geta þróun alþjóðlegra mannréttinda. Á þinginu verða væntanlega ræddar og afgreiddar tillögur um margvíslegar endurbætur á starfi mannréttindaráðsins.
    Á vegum mannréttindaráðsins starfa nú fjórtán sérstakir fulltrúar sem ætlað er að fylgjast með stöðu mannréttinda í nokkrum löndum þar sem mannréttindi eru hvað síst virt. Jafnframt er á vegum ráðsins fjallað um einstök mannréttindamál sem ýmist hafa verið falin ákveðnum einstaklingi eða vinnuhópum.
    Áfram verður fylgst með gerð bókunar við alþjóðasamninginn gegn pyntingum og annarri grimmdarlegri, ómanneskjulegri eða niðurlægjandi meðferð svo og yfirlýsingunni um réttindi frumbyggja ásamt könnun á hvaða stöðu málefni frumbyggja eigi að hafa innan kerfis Sameinuðu þjóðanna. Einnig er unnið að gerð bókunar við alþjóðasamninginn um réttindi barna, sölu á börnum, barnavændi og barnaklám.

8. E. 1. Jafnréttismál.
    Ráðherra vék í ræðu sinni á allsherjarþinginu að stöðu fátækra kvenna í þróunarlöndum og undirstrikaði mikilvægi þess að efla þátt menntunar í þróunarhjálp. Jafnframt lagði hann áherslu á baráttu gegn hvers konar misrétti gegn konum.
    Í ræðu sinni um trúfrelsi á 54. allsherjarþinginu vakti fastafulltrúi athygli á grófum mannréttindabrotum Talibana gegn konum í Afganistan með skírskotun til trúarbragða. Konur þar gætu ekki haft áhrif á eigin örlög. Mannréttindi væru altæk og því ekki hægt að réttlæta mannréttindabrot með því að skírskota til trúarbragða, venja eða hefða.
    Hinn 10. desember 1999 var lögð fram til undirritunar valkvæð bókun við alþjóðasamninginn um afnám mismununar gegn konum. Ísland var í hópi 22 ríkja sem undirrituðu bókunina við hátíðlega athöfn. Bókunin opnar kæruleið hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna fyrir konur sem verða fyrir misrétti á grundvelli kynferðis síns og ná ekki fram rétti sínum með eðlilegum hætti heima fyrir. Verið er að undirbúa fullgildingu bókunarinnar af hálfu íslenskra stjórnvalda.
    Dagana 5.–9. júní nk. verður haldinn sérstakur fundur allsherjarþingsins í New York um eftirfylgni framkvæmdaáætlunarinnar sem samþykkt var á kvennaráðstefnunni í Peking árið 1995. Fundurinn ber yfirskriftina „Konur 2000: Jafnrétti kynjanna, þróun og friður á 21. öldinni.“ Utanríkisráðuneytið hefur unnið að undirbúningi þessa fundar í samráði við félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisráð Íslands.

8. E. 2. Málefni barna.
    Allsherjarþingið minntist þess árið 1999 að liðin voru tíu ár frá samþykkt alþjóðasamningsins um réttindi barna. Alls hafa 191 ríki nú fullgilt samninginn. Á næsta ári hefst áratugur Sameinuðu þjóðanna, tileinkaður menningu, friði og baráttu gegn ófriði í þágu barna.
    Mikil áhersla hefur verið lögð á aukin réttindi barna og áréttuð hefur verið ályktun fundar utanríkisráðherra Norðurlanda, sem haldinn var á Egilsstöðum, um nauðsyn alþjóðasamþykktar um bann við því að börn innan 18 ára aldurs séu látin gegna herþjónustu.
    Til marks um hversu alvarlegum augum alþjóðasamfélagið lítur þátttöku barna í vopnuðum átökum, og að börn verði fórnarlömb styrjalda, fjallaði öryggisráðið sérstaklega um þetta mál sumarið 1999. Í framhaldi af umræðunum samþykkti ráðið ályktun. Þar skoraði það á ríki heims og alla aðila Sameinuðu þjóðanna að gera sitt ítrasta til að tryggja að hætt verði að ráða og nota börn í vopnuðum átökum í trássi við alþjóðalög. Ráðið lýsti einnig yfir stuðningi við störf vinnuhóps mannréttindaráðsins sem unnið hefur að gerð viðbótarbókunar við alþjóðasamninginn um réttindi barna og vonaði að honum yrði ágengt í starfi sínu.
    Umræddur vinnuhópur náði síðan málamiðlun í janúar árið 2000 eftir fimm ára samningaviðræður. Samkomulagið kveður á um að börnum, átján ára og yngri, verði óheimil þátttaka í vopnuðum átökum. Átján ára reglan á einnig við um herskyldu en sjálfviljug herskráning innan átján ára aldurs verður þó heimil með ákveðnum skilyrðum. Vinnuhópurinn mun leggja þetta samkomulag fyrir mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna á næsta þingi þess. Ráðið mun væntanlega afgreiða samkomulagið áfram til endanlegrar afgreiðslu allsherjarþingsins.

8. F.     VARNIR GEGN AFBROTUM
    Alþjóðleg glæpastarfsemi er þess eðlis að nauðsynlegt er að ríki heims taki höndum saman til að kveða hana niður. Hjá Sameinuðu þjóðunum í Vínarborg er verið að vinna að alþjóðasamningi gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Einnig er þar unnið að gerð valfrjálsrar bókunar við hann sem ætlað er að vinna gegn verslun með fólk. Fjöldi einstaklinga sem gengur kaupum og sölum er hóflega talinn vera 4 milljónir á ári og velta þessarar starfsemi 5–7 milljarðar Bandaríkjadala árlega. Í undirbúningi er sérstakt átak Sameinuðu þjóðanna gegn þessari starfsemi.
    Samþykkt var ályktun á yfirstandandi allsherjarþingi um alþjóðlegan samning um baráttu gegn fjármögnun hryðjuverka. Í samningnum er gerð krafa um að innlend löggjöf skilgreini sannanlega fjármögnun til hryðjuverkastarfsemi glæpsamlega og að lög verði sett sem heimili upptöku þessara fjármuna.
    Barátta gegn spillingu og eiturlyfjum fékk ítarlega umfjöllun á 54. allsherjarþinginu. Í ræðu sinni á þar hvatti utanríkisráðherra aðildarríkin til að efla baráttuna gegn eiturlyfjavandamálinu.

8. F. 1. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn.
    Hinn 17. júlí 1998 var, á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Róm, samþykktur samningur um stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls, Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn. Dómstóllinn, sem hafa mun aðsetur í Haag, hefur það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins er tvímælalaust eitt mikilvægasta framlag til mannréttindaverndar og friðar í heiminum frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Unnið hefur verið að stofnun slíks dómstóls allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.
    Rómarsamþykktin skilgreinir hópmorð, glæpi gegn mannúð og stríðsglæpi, en kveðið er á um að dómstóllinn skuli ekki beita lögsögu sinni að því er glæpi gegn friði varðar fyrr en skilgreining á þeim liggur fyrir. Dómstóllinn hefur sjálfvirka lögsögu í málum er undir hann heyra, þ.e. óháða sérstöku samþykki viðkomandi ríkja. Skilyrði er þó að annaðhvort þegnríki sakbornings eða ríkið þar sem hið meinta brot var framið sé aðili að samþykktinni. Aðildarríki er heimilt að halda sig utan við lögsögu dómstólsins að því er stríðsglæpi varðar til allt að sjö ára frá því að samþykktin öðlast gildi gagnvart því.
    Sérstakur saksóknari starfar samkvæmt samþykktinni og getur hann að eigin frumkvæði eða eftir tilvísun frá aðildarríki eða öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafist handa við að rannsaka og gefa út ákæru í málum er undir dómstólinn heyra. Samkvæmt samþykktinni er óheimilt að hefja eða halda áfram rannsókn eða saksókn í máli á eins árs tímabili eftir að öryggisráðið hefur beint ósk þar að lútandi til dómstólsins í formi ályktunar samkvæmt VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Lögsaga alþjóðlega sakamáladómstólsins er til fyllingar lögsögu einstakra ríkja til að sækja til saka og dæma í þeim málum sem hér um ræðir. Lögsaga dómstólsins verður því aðeins virk að viðkomandi ríki hafi, sökum skorts á getu eða vilja, látið undir höfuð leggjast að grípa til viðeigandi ráðstafana.
    Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn er varanlegur og hefur almenna lögsögu. Hann er því frábrugðinn alþjóðastríðsglæpadómstólunum í málefnum fyrrum Júgóslavíu og Rúanda sem hafa takmarkaða lögsögu bæði í tíma og rúmi.
    Rómarsamþykktin var undirrituð fyrir Íslands hönd 26. ágúst 1998. Alls hafa 94 ríki undirritað samþykktina en sex ríki hafa fullgilt hana. Samþykktin mun öðlast gildi tveimur mánuðum eftir að 60 ríki hafa fullgilt hana.
    Norðurlöndin hafa haft með sér samráð um undirbúning fullgildingar Rómarsamþykktarinnar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, enda er málið bæði flókið og umfangsmikið. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu samþykktarinnar hefur verið lögð fyrir Alþingi og er stefnt að afgreiðslu hennar á næstunni. Fullgilding Rómarsamþykktarinnar kallar á löggjöf um framkvæmd hennar hér á landi og er gerð frumvarps þar að lútandi í höndum dómsmálaráðuneytisins.
    Á ráðstefnunni í Róm var sett á fót nefnd til að undirbúa stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Meðal verkefna undirbúningsnefndarinnar er að semja drög að málsmeðferðarreglum dómstólsins og að lýsingu á efnisþáttum þeirra brota er falla undir Rómarsamþykktina, en gert er ráð fyrir að þessum verkefnum verði lokið fyrir lok júní árið 2000. Ísland hefur tekið þátt í starfi nefndarinnar.

8. G.     ÖRYGGISRÁÐIÐ
    Með tilliti til þeirrar stefnu að láta enn frekar að sér kveða í starfi Sameinuðu þjóðanna hefur verið ákveðið að bjóða Ísland fram til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2009–2010. Kosningarnar fara fram haustið 2008.

8. H.     AUÐLINDA- OG UMHVERFISMÁL

8. H.1. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (CSD).
    Nefnd Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun var komið á fót í framhaldi af ráðstefnu samtakanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Rió de Janeiró í júní 1992. Henni er ætlað að fylgjast með og stuðla að framkvæmd samþykkta ráðstefnunnar, einkum Dagskrár 21. Nefndin starfar undir Efnahags- og félagsmálaráði S.þ. (ECOSOC). Í nefndinni eiga sæti hverju sinni 53 ríki sem kosin eru til þriggja ára í senn. Fundir nefndarinnar eru haldnir ár hvert í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Auk þeirra ríkja sem í nefndinni eiga sæti sækja fundina flest aðildarríkin og hafa þar fullt málfrelsi og geta tekið þátt í mótun ályktana á óformlegum fundum nefndarinnar. Sérstakir ráðherrafundir eru haldnir á sama tíma og sækja að jafnaði fleiri en 50 ráðherrar þessa árlegu fundi. Rúmlega eitt þúsund félagasamtök eiga rétt til setu sem áheyrnarfulltrúar á fundum nefndarinnar.
    Árið 1997 var haldinn sérstakur fundur allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í tilefni þess að þá voru liðin fimm ár frá því að ráðstefna samtakanna um umhverfi og þróun var haldin í Ríó de Janeiró. Á fundinum var metin framkvæmd niðurstaðna ráðstefnunnar undanfarin fimm ár og samþykkt áætlun til að stuðla frekar að framkvæmd Dagskrár 21. Jafnframt var samþykkt fimm ára vinnuáætlun fyrir nefnd Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fyrir tímabilið 1998–2002.
    Nefndin hefur umtalsverða þýðingu fyrir Ísland þar sem á fundum hennar er ályktað um öll svið þjóðfélagsins í því augnamiði að stuðla að framgangi sjálfbærrar þróunar um heim allan. Ályktanirnar miða að því að samræma og styrkja stefnumörkun ríkja, svæðisbundinna samtaka og alþjóðastofnana og að því að bæta samræmingu í starfi Sameinuðu þjóðanna að umhverfis- og þróunarmálum. Þannig snerta ályktanir nefndarinnar flesta þætti daglegs lífs. Auk hefðbundinna umhverfismála, á borð við mengun og náttúruvernd, er tekið á ýmsum grundvallarþáttum í samskiptum manns og náttúru, svo sem neyslu- og framleiðsluháttum, tengslum alþjóðaviðskipta og umhverfismála, fólksfjölgun, fátækt og samvinnu iðnríkja og þróunarríkja, félags- og heilbrigðismálum, nýtingu náttúruauðlinda; fiskveiðum, orkumálum og iðnaði, svo dæmi séu tekin. Þannig hefur nefndin mótandi áhrif á alþjóðaviðhorf til mikilvægra atvinnu- og félagsmála frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar og umhverfismála. Sem dæmi má nefna að nefndin fjallaði sérstaklega um vernd og nýtingu hafsins á ársfundinum 1999.
    Ísland hefur tekið virkan þátt í starfi nefndarinnar og átti sæti í henni árin 1993–1995. Samkvæmt starfsáætlun nefndarinnar verða meginviðfangsefni hennar næstu ár eftirfarandi:
    Árið 2000:    Landbúnaður, skógrækt og landnýting.
                             Fjárhagslegur stuðningur við þróunarríkin, alþjóðaviðskipti og fjárfestingar, og hagþróun.
    Árið 2001:    Loftslagsmál, orkumál og samgöngur.
    Árið 2002:    10 ára mat á framkvæmd niðurstaðna ráðstefnu S.þ. um umhverfi og þróun.
Ísland sækist eftir því að taka aftur sæti í nefndinni árið 2001.

8. H. 2. Kyótóferlið.
    Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiró 1992. Ísland gerðist aðili að samningnum 16. júní 1993 en samningurinn öðlaðist gildi 21. mars 1994. Markmið samningsins er að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt er það markmið samningsins að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um að auðvelda félagslega og efnahagslega aðlögun að loftslagsbreytingum.
    Á þriðja aðildarríkjaþingi rammasamningsins í Kyótó í desember 1997 var samþykkt bókun við samninginn. Hún felur í sér skuldbindingu af hálfu OECD-ríkja og ríkja Austur- Evrópu (ríki sem skráð eru í viðauka B við bókunina) að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda við tiltekin losunarmörk. Bókunin gerir ráð fyrir að árleg heildarlosun þessara ríkja til samans dragist saman um liðlega 5% á tímabilinu 2008–2012 miðað við losun þeirra árið 1990. Í viðauka B við bókunina eru tilgreind losunartakmörk hvers ríkis um sig. Bókunin tekur gildi þegar 55 ríki hafa staðfest hana, enda séu þar á meðal iðnríki sem til samans bera ábyrgð á losun a.m.k. 55% af koltvísýringslosun iðnríkja árið 1990. Ekkert iðnríki hefur enn sem komið er fullgilt bókunina.
    Kyótó bókunin hefur með tvennum hætti mikla þýðingu fyrir Ísland. Í fyrsta lagi kynnu loftslagsbreytingar að hafa áhrif á hafstrauma og veðurfar á norðurslóðum og í öðru lagi er möguleiki Íslands á að takmarka losun gróðurhúsaloftegunda minni en annarra iðnríkja.
    Mikilvægasta verkefnið fram undan er að vinna að lausn á vanda innan bókunarinnar sem varðar Ísland sérstaklega. Því var lýst yfir af hálfu Íslands þegar Kyótó bókunin kom til lokaafgreiðslu aðildarríkjaþingsins í Kyótó að Ísland gæti ekki tekið á sig þær skuldbindingar sem bókunin felur í sér. Ekki var talið raunhæft að standa við þær sökum sérstöðu Íslands sem skapast fyrst og fremst af smæð hagkerfisins og hlutfallslega miklum áhrifum einstakra framkvæmda á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Sú ákvörðun var þó tekin að Ísland myndi ekki standa í vegi fyrir samþykkt bókunarinnar þar sem jafnhliða henni var gerð sérstök samþykkt þess efnis að taka skuli til skoðunar og, eftir atvikum, gera ráðstafanir vegna stöðu ríkja þar sem einstakar framkvæmdir geta haft veruleg hlutfallsleg áhrif á heildarlosun viðkomandi ríkis, hið svokallaða íslenska ákvæði.
    Í framhaldi af þessari samþykkt lagði Ísland fram tillögu til lausnar þessu vandamáli sumarið 1997. Í tillögunni felst að losun frá iðnverum, sem leiðir til meira en 5% aukningar á heildarlosun einstaks ríkis, verði haldið utan við losunarmörk Kyótó bókunarinnar, með tilteknum skilyrðum. Þessi skilyrði eru í fyrsta lagi að heildarlosun viðkomandi ríkis sé ekki meiri en 0,05% af heildarlosun iðnríkjanna miðað við losun þeirra árið 1990. Í öðru lagi að endurnýjanlegir orkugjafar séu notaðir til framleiðslu þeirrar orku sem notuð er í iðnverinu og í þriðja lagi að notast sé við bestu umhverfisvenjur við framleiðsluna.
    Tillagan hefur verið til skoðunar hjá aðildarríkjum loftslagssamningsins og er þess vænst að endanleg ákvörðun um íslenska ákvæðið svokallaða verði tekin á 6. aðildarríkjaþingi rammasamningsins sem verður í Haag 13.–24. nóvember nk. Samþykkt tillögu Íslands, eða annars fyrirkomulags sem gerir Íslandi mögulegt að halda áfram nýtingu endurnýjanlegra orkulinda, myndi gera Íslandi kleift að gerast aðili að bókuninni.
    Önnur mikilvæg verkefni á vettvangi Kyótóferlisins varða útfærslu nokkurra mikilvægra ákvæða bókunarinnar er lúta að framkvæmd hennar. Ber þar fyrst að nefna sveigjanleikaákvæðin svokölluðu sem ætlað er að skapa iðnríkjunum svigrúm til að ná markmiðum bókunarinnar á sem hagkvæmastan hátt. Þessi ákvæði eru þrjú og varða viðskipti með losunarkvóta, sameiginlegar framkvæmdir á meðal iðnríkja og sameiginlegar framkvæmdir iðnríkja með þróunarríkjum. Í annan stað ber að nefna útfærslu á reglum um bindingu gróðurshúsalofttegunda með ræktun. Loks eru það reglur um framfylgd bókunarinnar. Unnið er að útfærslu þessara atriða og er stefnt að því að samningaviðræðum ljúki með samþykkt ákvarðana sem hefðu að geyma reglur um þessi atriði á næsta aðildarríkjaþingi rammasamningsins í Haag á komandi hausti. Ljóst er að ekkert iðnríkjanna mun fullgilda bókunina nema ásættanleg niðurstaða náist um útfærslu þessara atriða.

8.H.3.     Samningur um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES).
    Samningurinn um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu var gerður í Washington 3. mars 1973, en hann öðlaðist gildi 1. júlí 1975. Aðildarríki hans eru nú um 145 talsins.
    Markmið samningsins er að vernda tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu með því að stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þær. Hann nær bæði til viðskipta með lifandi dýr og dauð og plöntur. Samningurinn er í eðli sínu alþjóðlegur viðskiptasamningur. Í honum eru reglur um innflutning, útflutning og endurútflutning dýra og plantna sem skráð eru í viðaukum við samninginn svo og um aðflutning þeirra úr sjó. Dýr og plöntur sem falla undir samninginn eru talin upp og flokkuð í þrjá viðauka eftir því hvaða reglur gilda um alþjóðaverslun með þau. Í I. viðauka eru skráðar tegundir sem eru í útrýmingarhættu og viðskipti hafa eða geta haft áhrif á. Skilyrði fyrir alþjóðaverslun með tegundir sem skráðar eru í I. viðauka eru mjög ströng og aðeins heimiluð í undantekningartilvikum. Í II. viðauka eru skráðar tegundir sem kunna að verða í útrýmingarhættu sé ekki höfð stjórn á alþjóðaverslun með þær. Í III. viðauka eru skráðar tegundir, sem verndaðar eru í einstökum aðildarríkjum.
    Ísland lagði fram aðildarskjöl vegna ofangreinds samnings hjá vörsluríki hans, Sviss, í byrjun janúar 2000 en Alþingi samþykkti aðildina með þingsályktunartillögu sem samþykkt var 14. desember 1999. Ísland fær aðild að samningnum með fullum réttindum 2. apríl 2000. Með aðild að honum tekur Ísland þátt í alþjóðlegu samstarfi um vernd dýra og plantna í útrýmingarhættu. Með aðild getur Ísland og haft áhrif á það hvaða tegundir eru skráðar í viðauka við samninginn. Er þetta mikilvægt í ljósi vaxandi umfjöllunar á vettvangi CITES- samningsins um skráningu fisktegunda í viðaukana. Nauðsynlegt er að hafa í huga að þótt einhverjar fisktegundir kunni að vera ofveiddar á einstökum hafsvæðum getur ástand þeirra verið gott annars staðar og fjarri því að vera í útrýmingarhættu. Með aðildinni getur Ísland einnig fengið önnur aðildarríki í lið með sér við að vernda einstakar íslenskar tegundir sem eru í útrýmingarhættu með því að skrá þær í III. viðauka.
    Við aðildina að CITES gerði Ísland fyrirvara um 14 hvalategundir, sem skráðar eru í I. og II. viðauka svo sem heimilt er samkvæmt reglum samningsins. Aðildarskjölum Íslands fylgdi einnig yfirlýsing þar sem segir að það sé skoðun Íslands að umræddar hvalategundir eigi ekki heima í I. og II. viðauka þar sem þær uppfylli ekki þau líffræðilegu skilyrði sem CITES gerir kröfur um varðandi þessa tvo viðauka. Þá segir enn fremur í yfirlýsingunni að aðeins séu taldar upp þær hvalategundir sem sé að finna í íslenskri efnahagslögsögu en með því sé ekki verið að samþykkja allar þær tegundir aðrar sem í viðaukunum séu upp taldar. Tekið er fram að ef ný vísindarök hníga að því að tegundir sem Ísland hefur gert fyrirvara við eigi í raun heima í I. eða II. viðauka muni Ísland endurskoða afstöðu sína og leggur jafnframt áherslu á að viðaukarnir verði endurskoðaðir þannig að þeir séu í fullu samræmi við aðra grein CITES samningsins og þá líffræðilegu mælikvarða sem notast er við á vettvangi CITES.
    Fram undan er ellefta aðildarríkjaþing CITES samningsins. Verður það haldið í Næróbí 10. – 20. apríl 2000. Þar verður meðal annars fjallað um tillögur Norðmanna og Japana um að færa hrefnu úr I. í II. viðauka en hún mætir mikilli andstöðu hvalfriðunarríkja. Annað mikilvægt mál, sem fjallað verður um á þinginu, er að breyta reglum um atkvæðagreiðslur þannig að þær verði ekki lengur leynilegar. Hafa Bandaríkin nokkra forystu um að afnema leynilegar atkvæðagreiðslur. Vaxandi þrýstingur er nú frá ýmsum þjóðum um að CITES láti fiskveiðar til sín taka í vaxandi mæli og að byrjað verði að skrá fisktegundir í viðauka samningsins. Þjóðir sem stunda sjálfbærar fiskveiðar munu berjast hart gegn þeim áformum.

8. H. 4. Nýr samráðsvettvangur Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins.
    Á 54. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna var samþykkt ályktun um nýjan samráðsvettvang um málefni hafsins. Ályktunin á rætur að rekja til samþykktar nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (CSD) á 7. fundi hennar vorið 1999. Á þessum vettvangi er ætlunin að undirbúa umfjöllun allsherjarþingsins um málefni hafsins. Árlega verður efnt til vikufundar sem haldinn verður í tengslum við fundi um hafréttarsamninginn. Þar verður fjallað um skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins í þeim tilgangi að benda á einstök atriði sem gefa þarf sérstakan gaum í ályktunum allsherjarþingsins og sem stuðlað geta að samræmingu milli ríkja og betra starfi stofnana Sameinuðu þjóðanna. Ísland tók virkan þátt í mótun þessarar ályktunar sem og ályktunar nefndar samtakanna um sjálfbæra þróun.
    Þetta hefur mikla þýðingu fyrir Ísland. Áhugi á vernd og nýtingu hafsins hefur farið vaxandi um heim allan. Einkum hefur að undanförnu verið áhugi á að auka samræmingu á málefnum hafsins innan Sameinuðu þjóðanna. Þessi áhugi mótast af áhyggjum af mengun hafsins og því að of víða er illa gengið um auðlindir þess og rányrkja stunduð á fiskistofnum.
    Aukin umræða um málefni hafsins á allsherjarþinginu er jákvæð. Hún mun vekja athygli á ógnun við lífríki hafsins og móta aðgerðir til verndar hafinu og sjálfbærrar nýtingar auðlinda þess. Hins vegar leynast ýmsar hættur í þessu ferli. Ber þar að nefna þrýsting frá einstökum ríkjum og umhverfisverndarsamtökum um að komið verði á fót einhvers konar hnattrænni stjórn á málefnum hafsins, þar með talið stjórn fiskveiða.
    Fyrsti fundur þessa nýja vettvangs verður í maí árið 2000. Þá mótast viðfangsefnin. Ísland hefur löngum haft umtalsverð áhrif á umfjöllun og niðurstöður Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins, hvort sem um hefur verið að ræða mengun hafsins eða nýtingu á lifandi auðlindum þess. Rík áhersla verður lögð á virka og öfluga þátttöku af hálfu Íslands í starfi þessu strax frá upphafi til að freista þess að hafa mótandi áhrif í þágu íslenskra hagsmuna.
Um hafréttarhliðar málsins vísast til kafla 8.A.3.

8. H. 5. Alþjóðlegar fiskveiðistofnanir og samstarf um veiðistjórn.
    Hlutverk svæðisbundinna samtaka til stjórnunar fiskveiða, er taka bæði til úthafsins og til fiskistofna sem ganga inn og út úr lögsögum einstakra ríkja, verður æ stærra. Ekki síst eftir tilkomu úthafsveiðisamningsins. Íslendingar taka virkan þátt í starfi þeirra stofnana sem taka til Norður-Atlantshafs og hafa enn fremur tekið þátt í undirbúningi stofnunar svæðissamtaka á Suður-Atlantshafi. Það er stefna Íslands að efla staðbundna og svæðisbundna stjórn fiskveiða en vinna gegn þeirri tilhneigingu sem nú gætir hjá ýmsum að draga úr mikilvægi svæðisstofnana og koma á víðtækari stjórnun fiskveiða sem jafnvel tæki til heimshafanna í heild. Það væri óæskileg þróun.

8. H. 5. a. Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC).
    Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin hefur með höndum stjórn veiða á úthafs- og djúpkarfa, makríl, kolmunna og síld úr norsk-íslenska síldarstofninum. Íslendingar hafa um nokkurt skeið barist fyrir því að fá viðurkennt að á Reykjaneshryggnum sé verið að veiða úr tveimur karfastofnum, annars vegar djúpkarfa, sem heldur sig undir 500 metra dýptarlínu, og hins vegar úthafskarfa sem er ofan 500 metra. Hafa vísindarannsóknir og gögn sem styðja þetta ítrekað verið lögð fram og kynnt á ársfundum NEAFC.
    Á ársfundi NEAFC í nóvember 1999 lá fyrir veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, fyrir karfaveiðar á Reykjaneshrygg. Í fyrsta skipti var ráðgjöfin tvískipt. Lagt var til að veiddar yrðu 60 þúsund lestir úr efri stofninum en 25 þúsund lestir úr þeim neðri. Árið áður hafði veiðiráðgjöfin hljóðað upp á 153 þúsund lesta veiði úr báðum stofnum. Þar af komu 45 þúsund lestir í hlut Íslendinga. Íslendingar hafa einbeitt sér að veiðum úr neðri stofninum sem gefur mun verðmætari afurðir. Árið 1998 voru heildarkarfaveiðar í Atlantshafi 218 þúsund lestir, þar af veiddu Íslendingar 116 þúsund lestir.
    Fyrir ársfundinn höfðu Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar haldið samráðsfund og stóðu sameiginlega að tillögu á NEAFC fundinum um að byggt yrði á vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins og tekið tillit til tvískiptingar stofnsins. Á það féllust hin aðildarríki NEAFC ekki og samþykktu heildarveiði úr báðum stofnum er nemur 120 þúsund lestum, sem er 40% umfram ráðgjöf sem Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til. Á þetta gat Ísland með engu móti fallist og greiddi atkvæði gegn tillögu þar um og lét bóka mótmæli við samþykkt hennar þar sem tillagan gerði ráð fyrir óábyrgum veiðum þvert á vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins.
    Á sama fundi NEAFC var samþykkt tillaga um stjórn veiða á makríl. Tillagan var, eins og árið áður, samþykkt gegn mótmælum Íslands og Rússlands. Mótmæli Íslands byggjast á því að önnur aðildarríki NEAFC hafa ekki viljað fallast á rétt Íslands sem strandríkis til veiða úr makrílstofninum, enda þótt makríll gangi inn í íslenska lögsögu.
    Mikilvægi kolmunnaveiða hefur vaxið undanfarin missiri í íslenskum sjávarútvegi og skipum sem veiðarnar geta stundað hefur farið fjölgandi. NEAFC ákveður leyfilegan hámarksafla úr stofninum. Aflinn er óskiptur og hefur ekki náðst samkomulag um kvóta skiptingu milli aðildarríkjanna. Haldinn var strandríkjafundur í febrúar árið 2000 til að fjalla um kolmunnakvóta. Niðurstaða fékkst ekki og verður haldið áfram að fjalla um málið.

8.H.5.b. Norsk-íslenski síldarstofninn.
    Samvinna strandríkjanna innan NEAFC um stjórn og veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum er nú komin í fastar skorður. Í október 1999 var gert samkomulag milli Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands og Evrópusambandsins um veiðar úr síldarstofninum á árinu 2000.
    Leyfilegur heildarafli samningsaðila verður 1.240 þúsund lestir, sem er um 50 þúsund lestum minna en var 1999. Af heildaraflamagninu koma tæplega 195 þúsund lestir í hlut Íslands. Í samningum fyrri ára um skiptingu heildaraflans voru Ísland og Færeyjar með sameiginlegan kvóta, sem löndin síðan skiptu með sér. Það fyrirkomulag hefur nú verið afnumið. Innan strandríkjahópsins hefur Ísland lagt áherslu á að heildaraflamagnið yrði um ein milljón lesta á ári.
    Það nýmæli fólst í samkomulaginu sem gert var í Þórshöfn í Færeyjum í október að ákveðið var að frá og með árinu 2001 skuli nota aflareglu sem miðist við fiskveiðidánar stuðulinn 0.125 í stað 0.150 sem verið hefur viðmiðunin undanfarin ár. Að mati okkar Íslendinga er þetta mikilvægt skref í þá átt að draga úr hættu á hruni stofnsins og tryggja jafnari veiði á komandi árum. Strandríkin eru sammála um að grípa til enn strangari veiðitakmarkana ef Alþjóðahafrannsóknaráðið telur ástand stofnsins gefa tilefni til. Þessi niðurstaða Þórshafnarfundarins var staðfest á ársfundi NEAFC í nóvember.

8.H.5.c. Norðvestur Atlantshafsfiskveiðistofnunin (NAFO).
    Rækjuveiðarnar á Flæmingjagrunni lúta stjórn NAFO. Kanadamenn hófu rækjuveiðar á þessum miðum árið 1993, en stuttu síðar bættust fleiri þjóðir í hópinn, þeirra á meðal Færeyingar, Íslendingar og Norðmenn. Fyrsta árið var veiði Íslendinga á svæðinu 2200 lestir en mest varð veiðin 1996, 21 þúsund lestir. Heildaraflinn á svæðinu er ákveðinn 30 þúsund lestir árið 2000. Er það óbreytt aflamagn frá árinu 1999.
    Rækjuveiðunum á Flæmingjagrunni er stjórnað með sóknardagastýringu sem felst í því að ákveðnum fjölda veiðidaga er úthlutað til hvers lands. Íslendingar hafa verið ósáttir við skipan þessara mála og mótmælt henni. Af hálfu Íslands hafa verið fluttar tillögur um að tekið verði upp aflamarkskerfi. Á það hafa önnur aðildarríki NAFO ekki viljað fallast. Gagnrýni okkar á sóknardagastýringuna byggist meðal annars á því að sóknardagakerfið sé óheppilegt til að mæta nauðsynlegum veiðitakmörkunum með hagkvæmum hætti og þar að auki hafi framkvæmd sóknardagakerfisins ekki verið sem skyldi. Hefur afli íslenskra skipa á svæðinu því byggst á einhliða ákvörðunum íslenskra stjórnvalda.
    Í upphafi ársins 2000 gaf sjávarútvegsráðuneytið út reglugerð, sem kvað á um að á árinu væri þeim skipum sem hefðu aflamark í rækju á Flæmingjagrunni heimilt að veiða þar allt að 9300 lestir sem er sama magn og 1999. Ákvörðun um heildaraflamagn verður endur skoðuð síðar á árinu 2000.
    Í lok mars 2000 átti að halda fund til að ræða frekar tillögur Íslands um aflamarkskerfi og hvernig veiðiheimildir hugsanlega myndu skiptast samkvæmt slíku kerfi.
    Nokkrir íslenskir útgerðaraðilar hafa staðið að rækjuveiðum á Flæmingjagrunni með skipum undir fána annarra þjóða, einkum Eystrasaltsríkjanna.

8.H.5.d. Suðaustur-Atlantshafsfiskveiðistofnunin (SEAFO).
    Frá árinu 1998 hefur verið unnið að undirbúningi stofnunar svæðissamtaka um stjórnun fiskveiða utan lögsögu á Suðaustur-Atlantshafi. Frumkvæði í málinu hefur komið frá strandríkjunum, Suður-Afríku, Namibíu, Angóla og Bretum fyrir hönd smáeyjanna Tristan da Cuhna, Ascensioneyjar og St. Helenu. Að auki hafa Bandaríkin, Rússland, Pólland, Úkraína, Kórea, Japan, Evrópusambandið, Noregur og Ísland tekið þátt í undirbúningi að stofnun samtakanna.
    Fulltrúar Íslands hafa setið tvo undirbúningsfundi vegna stofnunar þessara fyrirhuguðu samtaka. Íslensk skip hafa í nokkrum mæli stundað veiðar á því svæði sem hér um ræðir og íslenskir aðilar hafa ítök í útgerð í Namibíu.
    Þess er vænst að stofnsamningur samtakanna verði tilbúinn til undirritunar í Windhoek í Namibíu um miðjan maí. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í upphafi ársins 2000 má ætla að kostnaður Íslendinga vegna aðildar að SEAFO gæti numið um tveimur millj ónum króna á ári.
    Það er sameiginlegt álit utanríkisráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis að rétt sé að Íslendingar taki þátt í þessu svæðisbundna samstarfi um stjórn fiskveiða á Suðaustur- Atlantshafi.

8.H.5.e. Atlantshafstúnfiskveiðiráðið (ICCAT).
    Frá árinu 1995 hefur Ísland haft áheyrnaraðild að Atlantshafstúnfiskveiðiráðinu, ICCAT. Áheyrnaraðild fylgir málfrelsi, sem þó er háð mati fundarstjóra, á fundum ráðsins og vinnunefnda sem settar eru á laggirnar á þess vegum. Eitt íslenskt skip, Byr VE 373, hefur stundað veiðar á bláuggatúnfiski undanfarin 2 ár bæði í íslensku efnahagslögsögunni og á alþjóðlegu hafsvæði. Þá hafa japönsk skip stundað tilraunaveiðar samkvæmt sérstöku leyfi í íslenskri lögsögu.
    Á vettvangi ICCAT hefur Ísland ítrekað lýst óánægju með núverandi skiptingu veiðiheimilda og lagt áherslu á að tekið verði tillit til réttar strandríkjanna við úthlutun veiðiheimilda. Undir þetta hafa ýmsir aðrir tekið, þeirra á meðal Færeyingar og Marokkó menn. Íslendingar hafa lagt áherslu á að þeir geti ekki samþykkt stjórnunarreglur sem meini þeim að stunda veiðar úr stofni sem gengur inn í lögsögu Íslands.
    Innan ICCAT starfar nú vinnuhópur að endurskoðun reglna um úthlutun veiðiheimilda. Verða nýjar reglur ræddar á fundi vinnuhópsins í apríl á þessu ári. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort Ísland sækir um aðild að Atlantshafstúnfiskveiðiráðinu, ICCAT, en ráðið hefur óskað eftir að Ísland gerist aðili.

8.H.5.f. Alþjóðahvalveiðiráðið (IWC).
    Íslendingar gengu úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1992. Þá var þess vænst að fleiri ríki myndu fylgja í kjölfarið og ganga úr ráðinu. Sú varð ekki raunin. Síðan hafa Íslendingar sótt fundi ráðsins sem áheyrnarfulltrúar, en án málfrelsis eins og reglur ráðsins kveða á um.
    Innan alþjóðahvalveiðiráðsins er meirihluti aðildarríkjanna fylgjandi algjöru hvalveiði banni og engin samstaða er um „írsku tillöguna“, sem svo er nefnd, en hún kom frá formanni ráðsins, M. Canny frá Írlandi. Hún gerir ráð fyrir að heimila takmarkaðar veiðar innan efnahagslögsögu en leyfa ekki útflutning hvalafurða. Ekki hefur tekist að ná sam komu lagi um endurskoðaða nýtingaráætlun (Revised Management Scheme) og er samkomu lag þar um ekki í sjónmáli. Hugsanlegt er að fleiri ríki sem vilja nýta hvalastofna sem þola veiðar gangi í ráðið en ekki er fyrirsjáanlegt, þótt svo verði, að það muni valda straum hvörfum í ráðinu á næstunni.
    Í framhaldi af samþykkt Alþingis frá 10. mars 1999 þar sem segir „að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land“ kemur vel til greina að Ísland gangi í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju. Næsti fundur ráðsins verður í Ástralíu í byrjun júlí 2000.

8.H.5.g. Aðrir samningar.
    Hinn 15. maí 1999 var undirritaður í St. Pétursborg samningur milli Íslands, Noregs og Rússneska sambandsríkisins um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs og bókanir þar að lútandi. Var þar með til lykta leiddur ágreiningur ríkjanna þriggja um veiðar íslenskra skipa í Barentshafi á alþjóðahafsvæðinu, sem gegnið hefur undir nafninu „smugan“. Deilur höfðu staðið um þessar veiðar allt frá árinu 1993 er íslensk skip hófu veiðar á svæðinu.
    Í tvíhliða bókunum við samninginn kemur fram að árið 1999 fengu Íslendingar rétt til að veiða 8.900 lesta þorskkvóta í Barentshafi, sem skiptist til helminga milli lögsagna Noregs og Rússlands, en það samsvarar 1.86% af leyfilegum heildarafla þorsks í Barentshafi. Norsk skip fengu á sama ári rétt til að veiða 500 lestir af löngu, keilu og blálöngu utan 12 mílna í íslenskri lögsögu á ákveðnum svæðum á tilteknum árstíma.
    Samkvæmt bókun bjóða Rússar íslenskum útgerðum tiltekinn hluta þess afla sem veiða má í rússneskri lögsögu til kaups á markaðsverði. Í bókunum við samninginn er miðað við að fari leyfilegur heildarþorskafli í Barentshafi niður fyrir 350 þúsund lestir falli gagn kvæm veiðiréttindi niður. Samningurinn og bókanir við hann gilda út árið 2002. Með þessu samkomulagi var til lykta leidd langvinn deila sem sett hafði svip sinn á samskipti þjóðanna á sjávarútvegssviðinu um nokkurra ára skeið.
    Þríhliða rammasamningur milli Íslands, Grænlands og Færeyja um stjórnun veiða, vernd og rannsóknir sameiginlegra karfa- og grálúðustofna hefur beðið undirritunar um skeið. Þess er vænst að samninginn verði unnt að undirrita síðar á árinu 2000.

8.I.     MATVÆLA- OG LANDBÚNAÐARSTOFNUN SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA (FAO)
    Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) var stofnuð árið 1945 og var Ísland meðal 45 stofnaðila. Aðildarríki FAO eru nú 180. Hlutverk stofnunarinnar er m.a. að bæta fæðuframleiðslu og lífskjör í aðildarríkjunum með aukinni framleiðslu og betri dreifingu matvæla og landbúnaðarafurða. Stofnunin safnar, greinir, túlkar og dreifir upplýsingum sem snerta næringarfræði, fæðu og landbúnað. Fiskveiðar, sjávarafurðir, fiskeldi og skógrækt eru talin með landbúnaði samkvæmt skilgreiningu stofnunarinnar.
    Hagsmunir Íslands á þessum sviðum eru verulegir í heimi þar sem alþjóðasamstarf verður æ mikilvægara og reynt er að ná samstöðu um aukið frelsi í heimsviðskiptum. Hjá FAO er lagt á ráðin og reynt að ná samstöðu um sameiginlegar leikreglur, t.d. um nýtingu auðlinda, framleiðsluhætti og lágmarksgæði fæðu og landbúnaðarafurða. Fyrir Ísland sem fiskveiði- og landbúnaðarþjóð er þessi þátttaka nauðsynleg.
    Þátttaka Íslands í FAO hefur verið styrkt á markvissan hátt á síðustu misserum í kjölfar leiðtogafundar stofnunarinnar um fæðuöryggi í Róm árið 1996. Jacques Diouf, fram kvæmda stjóri FAO, heimsótti Ísland 1997 og ári síðar var skipaður fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá stofnuninni með aðsetur í París. Starfandi er sérstök FAO-nefnd hér á landi, skipuð af utanríkisráðherra, sem fjallar um málefni stofnunarinnar, miðlar fróðleik um starf hennar hérlendis og sinnir samráði og upplýsingaskiptum við landsnefndir annarra Norður landa.
    Norðurlöndin hafa um langt skeið haft með sér náið samstarf í málefnum FAO. Í nóvember á síðasta ári tók Ísland að sér auknar skyldur í þessu samstarfi með því að taka í fyrsta sinn sæti í FAO-ráðinu. Með setu í ráðinu hefur Ísland tekið að sér að stýra þeirri málefnavinnu og samstarfi sem er á meðal Norðurlandanna á þessum vettvangi og var af því tilefni opnuð skrifstofa með staðarfulltrúa í Róm sem heyrir undir sendiráð Íslands í París.
    Mikilvægasta og metnaðarfyllsta verkefni FAO á næstu árum á rætur að rekja til leiðtogafundarins árið 1996, en þar settu aðildarríkin sér það markmið að fækka hungruðum í heiminum um helming fyrir 2015. Af verkefnum sem tengjast Íslandi beint ber hæst undirbúning fiskveiðiráðstefnu á Íslandi haustið 2001 undir heitinu „Ábyrgar fiskveiðar í vistkerfinu“. Umsjón með ráðstefnunni hefur FAO-nefndin. Stefnt er að því að ráðstefnan verði þýðingarmikill liður í að ná alþjóðlegri samstöðu um nýtingu þessa stærsta fæðubúrs heims.

8. J. UNESCO
    Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, var stofnuð árið 1945, en Íslendingar gerðust aðilar að henni árið 1964. Samkvæmt stofnskrá er hlutverk UNESCO að stuðla að friði og öryggi með því að efla samvinnu þjóða í mennta-, vísinda- og menningarmálum og efla þannig almenna tiltrú og virðingu fyrir réttlæti, lögum og mann réttindum, án tillits til trúarbragða, kynþáttar, kynferðis eða tungumála eins og tekið er fram í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna sjálfra. UNESCO er opin öllum aðildarríkjum S.þ.
    Markmiðum sínum leitast UNESCO m. a. við að ná með því að efla almannafræðslu og stuðla að því, að allir eigi jafnan rétt til náms. Enn fremur með samvinnu þjóða um útbreiðslu þekkingar og skilnings manna á meðal og með því að aðstoða aðildarlönd við að byggja upp menntakerfi sem henta á hverjum stað. UNESCO hefur einnig forystu um verndun menningararfleifðar heimsbyggðarinnar. Á síðustu árum hafa tvær viðamiklar skýrslur á vegum stofnunarinnar sett mark sitt á starf hennar; annars vegar um menntun á 21. öld (Education for the 21st Century) undir ritstjórn Jacques Delors og hins vegar um menningu og þróun (Our Creative Diversity) undir ritstjórn Peres de Quellar. Gagn rýnis raddir í garð UNESCO eru nú að mestu hljóðnaðar og traust aðildarþjóða og virðing fyrir stofn uninni hefur verið endurreist.
    Menntamálaráðuneytið fer með faglega umfjöllun í málum er varða UNESCO. Sendiherra Íslands í Parísarborg er jafnframt fastafulltrúi hjá stofnuninni. Fastanefndin fylgist almennt með umræðum í stofnuninni og tekur þátt í starfsemi hennar, sem er sér stak lega krefjandi, þegar aðalráðstefnan stendur yfir. Þátttaka Íslands í starfsemi stofn unarinnar fer vaxandi. Á vettvangi hennar hafa Íslendingar lagt öðrum þjóðum til þekkingu, ráð gjöf og aðstoð, t.d. á sviði jarðvarma og kennslufræði. Árið 1995 bauð Ísland til Evrópu fundar UNESCO um málefni kvenna í verkefnaáætluninni, en stofnunin hefur sam þykkt sérstaka áætlun um jafna stöðu kynjanna, enda ærin verkefni í þeim efnum þar sem konur eru tveir þriðju ólæsra í heiminum.
    Ísland átti sæti í framkvæmdaráði fyrir hönd Norðurlanda 1983–1987. Nú er til athugunar hugsanlegt framboð til framkvæmdaráðsins á aðalráðstefnu UNESCO haustið 2001.
    Á Íslandi starfar landsnefnd UNESCO, skipuð af menntamálaráðherra, sem sinnir málefnum stofnunarinnar, miðlar fróðleik um starf stofnunarinnar innan lands og sinnir samráði og upplýsingaskiptum við landsnefndir annarra Norðurlanda. Á vegum nefndar innar er unnið að ýmsum verkefnum. Nefndin sinnir einnig árlegum UNESCO-styrkjum, sem stofnunin veitir til ýmissa verkefna á Íslandi, sem tengjast verkefnaáætlun hennar. Fyrsti styrkurinn, skömmu eftir að Ísland gerðist aðili að UNESCO, fór til Stofnunar Árna Magnússonar til þess að ljósmynda íslensk handrit í söfnum erlendis.
    Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hefur um hríð gegnt veigamiklu hlutverki hjá UNESCO. Hún er forseti heimsnefndar um siðgæði í tækni og vísindum, en til umfjöllunar hjá nefndinni eru mörg málefni, sem hafa ekki aðeins mikla þýðingu í þróun vísinda í framtíðinni, heldur eru einnig viðkvæm pólitísk deilumál, t. d. ferskvatnsvandi heimsins. Vigdís Finnbogadóttir er einnig sérstakur sendiherra stofnunarinnar fyrir tungu mál heimsins.
    Ljóst er að Ísland getur sótt meira til UNESCO en gert hefur verið, sérstaklega á sviði vísinda. Starfsemi stofnunarinnar á sviði jarðvísinda og haffræðirannsókna (IOC) getur komið Íslandi að gagni og Íslendingar gætu jafnframt lagt þar ýmislegt af mörkum, ekki síst hvað varðar starfsemi UNESCO á sviði skólamála, námsefnisgerðar og skipulagningar menntakerfa. Starf UNESCO á sviði verndunar menningararfleifðarinnar (World Heritage Foundation) hefur einnig þýðingu fyrir viðleitni til að varðveita bæði menningarsögulegar og náttúrulegar minjar. Ísland gerðist aðili að því starfi í desember 1995.

8.J.1.     Alþjóðahaffræðinefndin (IOC).
    Alþjóðahaffræðinefndin var stofnsett árið 1960 og starfar sem sjálfstæð stofnun innan UNESCO. Nú eru 125 ríki aðilar að henni. Hlutverk IOC er samkvæmt stofnskrá að þróa, samhæfa og efla alþjóðlegar rannsóknir á hafinu, á strandsvæðum og miðla upplýsingum til aðildarríkja. IOC á meðal annars og rekur öfluga gagnabanka með upplýsingum um hvers kyns efni sem tengjast hafinu og hefur aðstoðað aðildarþjóðir við að koma sér upp aðstöðu til haffræðirannsókna. IOC hefur í samvinnu við aðrar stofnanir S. þ., eins og t.d. FAO og UNEP, rannsakað hafið sem forðabúr og kannað umhverfisvandamál og meng unar varnir. Starf IOC á sviði sjálfbærrar þróunar og varðandi nýtingu náttúruauðlinda tengist hafréttarsamningnum.
    Bein þátttaka Íslands í störfum IOC hefur ekki verið mikil til þessa, en þó má geta þess að náið samstarf er milli IOC og Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem Íslendingar taka virkan þátt í.

9. HAFRÉTTARMÁL

9.A. HAFRÉTTARMÁL Á VEGUM SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

9.A.1. Hafréttarsamningurinn.
    Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna, sem samþykktur var 10. desember 1982, er fyrsti og eini heildstæði alþjóðasamningurinn á sviði hafréttar. Með honum voru settar eða staðfestar reglur um öll not hafsins og tekur hann til allra hafsvæða, þar á meðal loft rýmisins yfir þeim og hafsbotnsins og botnlaganna undir þeim. Samningurinn fjallar m.a. um landhelgi, efnahagslögsögu, landgrunn, úthafið og alþjóðlega hafsbotninn, réttindi strand ríkja og annarra ríkja til fiskveiða, annarrar auðlindanýtingar, siglinga og flugs, vernd un gegn mengun hafsins og lausn deilumála.
    Ísland fullgilti hafréttarsamninginn 21. júní 1985 og var fyrsta Evrópuríkið til þess. Ýmsar breytingar voru gerðar á ákvæðum samningsins um alþjóðlega hafsbotninn með samningi um framkvæmd XI. hluta hafréttarsamningsins sem samþykktur var 28. júlí 1994. Markmiðið með breytingunum var að gera iðnríkjum kleift að gerast aðilar að hafréttar samningnum. Samningurinn öðlaðist gildi 16. nóvember 1994 og eru aðildarríki hans nú 132 talsins. Samningurinn sem slíkur bindur ekki önnur ríki, en flest ákvæði hans hafa stöðu þjóðréttarvenju og eru því bindandi fyrir öll ríki heims.
    Á grundvelli hafréttarsamningsins eru haldnir reglulega fundir aðildarríkja samningsins. Er þar einkum fjallað um rekstrar-, skipulags- og fjármál.
    Eftir að grunnur að hafréttinum hefur nú verið lagður má gera ráð fyrir að helstu laga- og tæknilegum viðfangsefnum hafréttarins verði eftirleiðis vísað til þeirra stofnana sem settar hafa verið á laggirnar samkvæmt hafréttarsamningnum: Alþjóðlega hafréttardómsins, Alþjóðahafsbotnsstofnunarinnar og Landgrunnsnefndarinnar. Stofnanirnar hafa þegar sett sér starfsreglur og tekið til starfa.
    Alþjóðlegi hafréttardómurinn hefur fengið fimm mál til meðferðar og leyst úr þeim með skilvirkum hætti. Dómurinn hefur aðsetur í Hamborg og er Guðmundur Eiríksson á meðal 21 dómara sem sæti eiga í honum. Alþjóðahafsbotnsstofnunin, sem hefur aðsetur í Kingston á Jamaíka, hefur lokið fyrstu umræðu um reglur um námuvinnslu (Mining Code).
    Landgrunnsnefndin hefur samþykkt vísindalegar og tæknilegar viðmiðunarreglur og er nú reiðubúin að taka við upplýsingum frá strandríkjum um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og gera tillögur þar að lútandi. Ekkert ríki hefur enn lagt slíkar upplýsingar fyrir nefndina en alls munu um 30 ríki eiga rétt til landgrunns utan 200 sjómílna. Samkvæmt hafréttarsamningnum skal strandríki leggja upplýsingar um mörk landgrunns síns fyrir nefndina innan 10 ára frá gildistöku samningsins að því er viðkomandi ríki varðar.

9.A.2.     Úthafsveiðisamningurinn.
    Í kjölfar aukinnar ásóknar í fiskstofna utan efnahagslögsögunnar var knúið á um að gerður yrði samningur um framkvæmd ákvæða hafréttarsamningsins um deilistofna og víðförula fiskstofna og var slíkur samningur í höfn 4. ágúst 1995. Samningurinn, sem nefndur hefur verið úthafsveiðisamningurinn, skapar ramma um samstarf strandríkja og úthafsveiðiríkja á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistofnana um verndun þessara stofna og stjórnun veiða úr þeim. Sérstök réttindi strandríkja eru viðurkennd í samningnum og í honum felast takmarkanir á hefðbundnu frelsi til fiskveiða á úthafinu.
    Ísland fullgilti úthafsveiðisamninginn 14. febrúar 1997, en meðal annarra ríkja sem það hafa gert eru Noregur, Rússland, Bandaríkin og Kanada. Aðildarríki samningsins eru nú alls 25. Hann öðlast gildi þegar 30 ríki hafa fullgilt hann og er þess væntanlega ekki langt að bíða.
    Þótt samningurinn hafi enn ekki öðlast gildi hafa ákvæði hans engu að síður haft mikil áhrif á starf svæðisbundinna fiskveiðistofnana á undanförnum árum. Á þetta m.a. við um starf Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og Norðvestur-Atlants hafs fisk veiðistofnunarinnar (NAFO).

9.A.3.     Mikilvægi samninganna — umfjöllun um hafréttarmál.
    Hagsmunir Íslands sem strandríkis, sem á mikið undir nýtingu lifandi auðlinda hafsins, eru vel tryggðir í hafréttarsamningnum og úthafsveiðisamningnum. Af Íslands hálfu hefur, í samræmi við þetta, verið lögð á það áhersla að í hafréttarmálum beri að vinna á grundvelli þeirra samninga sem gerðir hafa verið og að mikilvægt sé að ákvæðum þeirra sé framfylgt.
    Jafnframt hefur af Íslands hálfu verið lögð áhersla á að ekki beri að opna að nýju mál sem þegar hafa verið afgreidd, enda þjónar það ekki okkar hagsmunum. Einstök ríki og ríkjahópar, sem telja á sig hallað í einstökum málum, hafa hins vegar haft ríka tilhneigingu í þessa átt. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að niðurstaða haf réttar ráð stefn unnar fól í sér pakkalausn þar sem einstök ríki fengu sitt fram á sumum sviðum en urðu að gefa eftir á öðrum. Í úthafsveiðisamningnum felst og hárfínt jafnvægi milli hagsmuna strand ríkja og úthafsveiðiríkja.
    Efnisleg umfjöllun um hafréttarmál fer einkum fram á allsherjarþinginu. Æ fleiri alþjóða stofnanir, þ.m.t. sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna, láta þó hafréttarmál til sín taka með einum eða öðrum hætti. Tryggja þarf að starf þessara stofnana sé samræmt og að ákvæði hafréttarsamningsins séu virt, en nokkur misbrestur hefur verið á því. Allsherjar þingið hefur hér mikilvægu hlutverki að gegna.
    Á 54. allsherjarþinginu var samþykkt ályktun um að koma á fót nýjum samráðsvettvangi sem ætlað er að undirbúa umfjöllun allsherjarþingsins um málefni hafsins. Ísland tók virkan þátt í gerð ályktunarinnar og hafði þar framangreind sjónarmið að leiðarljósi. Í ályktuninni er m.a. viðurkennt að hafréttarsamningurinn skapi hinn lagalega ramma um starf hins nýja vettvangs og áréttað mikilvægi þess að standa vörð um ákvæði hans. Nánar er fjallað um hinn nýja samráðsvettvang um málefni hafsins í 8. kafla.

9. B.     LÖGSÖGUMÁL

9. B. 1. Afmörkun efnahagslögsögunnar.
    Við útfærslu efnahagslögsögunnar í 200 sjómílur árið 1975 ákváðu Íslendingar að nota Grímsey og Kolbeinsey sem viðmiðunarpunkta við ákvörðun miðlínu milli Íslands og Græn lands og Hvalbak sem viðmiðunarpunkt við ákvörðun miðlínu milli Íslands og Færeyja. Danmörk gerði fyrirvara við þessa ákvörðun fyrir hönd Grænlands og Færeyja og ákvarðaði miðlínurnar miðað við grunnlínur landanna án tillits til áðurnefndra eyja. Þar með urðu til tvö umdeild hafsvæði, annars vegar milli Íslands og Grænlands og hins vegar milli Íslands og Færeyja.
    Ágreiningur landanna hafði legið í láginni um árabil en kom upp á ný sumarið 1996 þegar dönsk skip hófu loðnuveiðar á umdeilda svæðinu norður af Kolbeinsey. Í kjölfarið fóru fram samningaviðræður milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Færeyja hins vegar á grundvelli 1. mgr. 7. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, efna hags lögsögu og landgrunn, er gerir ráð fyrir að afmörkun efnahagslögsögu og landgrunns milli Íslands og annarra landa skuli eftir atvikum ákveðin með samningum við hlutaðeigandi lönd.
    Sumarið 1997 náðist samkomulag um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Grænlands. Í samkomulaginu, sem tók bæði til afmörkunar fiskveiðilögsögu og landgrunns, fólst viðurkenning á fullum áhrifum Grímseyjar við afmörkunina, en umdeilt hafsvæði vegna Kolbeinseyjar skiptist þannig að Ísland fékk 30% í sinn hlut og Grænland 70%. Sam komulagið var fært í formlegan búning með samningi sem undirritaður var 11. nóvember 1997 og nær hann til allrar miðlínunnar milli Íslands og Grænlands.
    Forsenda þess að unnt væri að tilgreina austasta punkt markalínunnar milli lögsögu Íslands og Grænlands var að samkomulag tækist milli Íslands, Grænlands og Noregs um skipt ingu lítils þríhyrnds hafsvæðis þar sem lögsaga Íslands, Grænlands og Jan Mayen skarst. Haustið 1997 náðist samkomulag um að skipta þessu svæði þannig að 35% kæmu í hlut Íslands, 35% í hlut Grænlands og 30% í hlut Noregs.
    Ekki hefur enn náðst samkomulag um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja, en samningaviðræðum um það mál verður haldið áfram. Aðstæður á þessu hafsvæði eru á margan hátt frábrugðnar aðstæðum á hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands og er tekið fram í samningnum milli Íslands og Grænlands að hann hafi ekki fordæmisgildi að því er varðar afmörkun fyrrnefnda hafsvæðisins.
    Þriðja umdeilda hafsvæðið var á mörkum íslensku efnahagslögsögunnar og bresku fiskveiðilögsögunnar sem miðuð var við klettinn Rockall. Sumarið 1997 gerðist Bretland aðili að hafréttarsamningnum og lýstu þarlend stjórnvöld því þá yfir að þau féllu frá tilkalli til 200 sjómílna fiskveiðilögsögu umhverfis Rockall þar sem hún samræmdist ekki ákvæð um samningsins. Í kjölfarið voru gerðar viðeigandi breytingar á bresku lögsögunni og er ágreiningur um mörk íslensku efnahagslögsögunnar í suðri þar með úr sögunni.

9.B.2. Afmörkun landgrunns utan 200 sjómílna.
    Með reglugerð nr. 196/1985 var landgrunn Íslands utan 200 sjómílna afmarkað til suðurs. Voru ákvæði 76. gr. hafréttarsamningsins um skilgreiningu á landgrunninu lögð til grundvallar. Meðal þeirra svæða er falla undir íslenska landgrunnið samkvæmt reglu gerðinni er Hatton Rockall svæðið, en auk Íslands hafa Danmörk f.h. Færeyja, Bretland og Írland gert kröfu til svæðisins.
    Eins og getið er um að framan skulu strandríki, samkvæmt hafréttarsamningnum, leggja upplýsingar um mörk landgrunns þeirra utan 200 sjómílna fyrir Landgrunnsnefndina innan 10 ára frá gildistöku samningsins að því er viðkomandi ríki varðar. Nefndin skal gera tillögur til strandríkja þar að lútandi og eru mörk landgrunnsins, sem strandríki ákveður á grundvelli þessara tillagna, endanleg og bindandi. Frestur Íslands til þess að leggja upp lýsingar fyrir nefndina er til 16. nóvember 2004.


10. ÞRÓUNARSAMVINNA

10.A. TVÍHLIÐA ÞRÓUNARAÐSTOÐ
    Hlutverk Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) er skilgreint í lögum nr. 43/1981. Samkvæmt 2. gr. laganna skal stofnunin „vinna að samstarfi Íslands við þróunarlöndin. Markmið þess samstarfs skal vera að styðja viðleitni stjórnvalda í löndum þessum til að bæta efnahag þeirra og á þann veg eiga þátt í að tryggja félagslegar framfarir og stjórn mála legt sjálfstæði þeirra á grundvelli sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur skal að því stefnt með auknum samskiptum, m.a. á sviði menningar og viðskipta, að efla gagn kvæman skilning og samstöðu Íslands og þróunarlandanna“.
    Í 3. gr. laganna er talið upp með hvaða hætti stofnunin skuli ná markmiðum sínum. Þróunar samvinnustofnun Íslands hefur leitast við að starfa samkvæmt þessum ábendingum og reynt að sinna nær öllum þeim atriðum sem þar eru talin upp. Hefur hún lagt sig fram við að uppfylla skyldur laganna og framkvæmdir á hennar vegum hafa verið í samræmi við þá takmörkuðu fjármuni sem stofnuninni hefur framundir þetta verið úthlutað.
    Stjórn ÞSSÍ setti sér fyrst heildstæð starfsmarkmið og mótaði stefnu sína í grundvallar atriðum árið 1985. Þessi stefnumið hafa tvisvar verið endurskoðuð, síðast árið 1995. Grund vallarsjónarmiðin hafa í sjálfu sér ekki mikið breyst enda felst í þeim undirstaða allrar þróunarsamvinnu, svo sem að „hjálpa fátækum þjóðum heims, sérstaklega verst settu þjóðfélagshópunum, til sjálfsbjargar með því að stuðla að varanlegum framförum í atvinnulífi, nýtingu og vernd auðlinda ásamt því að bæta lýðræði og mannréttindi“.
    Framlög iðnríkja til þróunaraðstoðar hafa dregist nokkuð saman á undanförnum árum. Veldur þetta töluverðum áhyggjum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega meðal þróunarríkjanna. Ísland er eitt fárra ríkja sem er að auka sína þróunaraðstoð en ríkisstjórnin ákvað að þrefalda framlög til tvíhliða þróunaraðstoðar á fimm ára tímabili frá 1999–2003.
    Í tvíhliða þróunaraðstoð Íslands hefur töluverð áhersla verið lögð á verkefni til þess ætluð að bæta hag kvenna og stuðla þar með að auknu jafnrétti kynjanna.
    Á síðustu misserum hafa umsvif Þróunarsamvinnustofnunar Íslands vaxið umtalsvert í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að þrefalda fjárveitingar til stofnunarinnar á árabilinu 1998 til 2003. Helstu samstarfslönd stofnunarinnar eru Namibía, Malaví og Mósambík en starfsemi á Grænhöfðaeyjum verður hætt. Í undirbúningi er að hefja samstarf við nýtt land í sunnanverðri Afríku á þessu eða næsta ári. Enn sem fyrr eru fiskimálaverkefni áberandi í starfinu en heilsugæsla og menntamál eru verkefnissvið sem aukin áhersla er lögð á, m.a. í samvinnu við Rauða kross Íslands og fleiri íslensk félagasamtök. Um 20 Íslendingar starfa nú hjá stofnuninni í Afríku, aðallega við þjálfun, kennslu og rannsóknir. Langtímaáætlun fyrir starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hefur verið borin undir utanríkisráðuneytið og samþykkt af stjórn stofnunarinnar.

10.B.     MARGHLIÐA ÞRÓUNARAÐSTOÐ

10.B.1. Alþjóðabankinn (IBRD).
    Ísland gerðist stofnaðili að Alþjóðabankanum (International Bank for Reconstruction and Development – IBRD) ásamt 28 öðrum ríkjum árið 1945. Bankinn hafði það að markmiði að stuðla að endurreisn og þróun landssvæða eftir hörmungar seinni heimstyrjaldarinnar. Þegar því uppbyggingarstarfi lauk breyttust áherslur bankans og veitir hann nú eingöngu lán til þróunarríkja.
    Systurstofnanir bankans eru fjórar:
    Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation - IFC) sem sett var á stofn árið 1955. Hlutverk hennar er að örva vöxt einkaframtaks með því að eiga hlut að framkvæmdum í þróunarlöndum þar sem ekki er tiltækt nægilegt einkafjármagn.
    Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association - IDA) sem tók til starfa árið 1960. Markmið IDA er að stuðla að efnahagslegum framförum í þróunarlöndum. Hún lánar einvörðungu fátækustu ríkjum heims, oft á sérstökum vildarkjörum. Lánin geta verið vaxtalaus til allt að 40 ára, án afborgana fyrstu 10 árin.
    Alþjóðlega stofnunin til lausnar fjárfestingardeilum (The International Center for Settlement of Investment Disputes - ICSID) sem stofnuð var 1965. Tilgangur hennar er að veita þjónustu til lausnar fjárfestingardeilum milli aðildarríkja og þegna annarra aðildarríkja. Þannig er stofnuninni ætlað að ýta undir alþjóðlegar fjárfestingar.
    Alþjóðlega fjárfestingarábyrgðastofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency - MIGA) sem sett var á fót 1988 með það fyrir augum að auðvelda þróunarríkjum að útvega fé til fjárfestinga.
    Í daglegu tali er rætt um Alþjóðabankann (World Bank) og er þá átt við IBRD og IDA. Ef talað er um Alþjóðabankahópinn (The World Bank Group) er átt við allar stofnanirnar fimm, bankann og systurstofnanirnar fjórar. Ísland gerðist aðili að MIGA árið 1998 og er þar með aðili að öllum þessum stofnunum.

10.B.2. Almennt.
    Á nokkrum undangengnum árum hafa áherslur í starfsemi Alþjóðabankans breyst verulega. Nú er lögð aukin áhersla á samfélagslega uppbyggingu, svo sem á sviði menntunar og heilbrigðisþjónustu. Bankinn hefur veitt þróunarlöndum aukna aðstoð við endurskipulagningu opinberra stofnana og bætt stjórnarfar almennt. Umhverfismálum er aukinn gaumur gefinn og um þessar mundir fer fram gagnger endurskoðun á umhverfisstefnu bankans.
    Um áramótin lauk tveggja og hálfs árs átaki til að bæta innri skipulagningu Alþjóða bankans. Þessi endurskipulagning hefur meðal annars leitt til þess að í framtíðinni verður meiri áhersla lögð á aðstoð til handa fátækustu íbúum þróunarríkja. Stjórnun hefur verið gerð skilvirkari með dreifðri ábyrgð deilda bankans og skrifstofur hans í þróunarríkjum hafa verið styrktar. Þetta á að gera bankanum betur kleift að takast á við þau ólíku verkefni sem hann fæst við á ólíkum menningarsvæðum.
    Síðustu missirin hafa stjórnendur Alþjóðabankans í auknum mæli beitt sér fyrir auknu og bættu samstarfi við aðrar þróunarstofnanir annars vegar og auknu og bættu samstarfi þróunarstofnana og þróunarríkja hins vegar. Með þetta fyrir augum var í upphafi árs 1999 hrundið af stað sérstöku átaki sem náði til 13 þróunarlanda. Markmiðið var að virkja for ystu menn þessara landa til að taka forystu og frumkvæði í eigin málum og leggja mat á hvar skórinn kreppir, meðal annars í samvinnu við frjáls félagasamtök, samtök atvinnulífsins og menntastofnanir. Að átakinu komu alþjóðlegar tvíhliða þróunarstofnanir sem veita tækni- og fjárstuðning. Í framhaldinu verður þróunarverkefnum síðan raðað í forgangsröð sem byggist á mati heimamanna.
    Forseti Alþjóðabankans, James D. Wolfensohn, sem setið hefur síðan 1995, var í haust sem leið endurskipaður til næstu fimm ára.

10.B.3. Norrænt samstarf í málefnum Alþjóðabankans.
    Undanfarin ár hefur Ísland látið æ meira að sér kveða í starfi og stefnumótun Alþjóðabankans. Árin 1997 og 1998 leiddi Ísland starfið í þróunarnefnd bankans fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í fyrsta skipti. Nú skipar Íslendingur stöðu aðstoðarmanns á skrifstofu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í bankanum í Washington, næstu tvö árin kemur staða ráðgjafa á skrifstofunni í okkar hlut og árið 2003 fellur staða aðalfulltrúa í stjórn bankans til ársins 2006 okkur í skaut.
    Samskipti utanríkisráðuneytisins við skrifstofuna í Washington eru náin, enda er það eitt af markmiðum hennar að upplýsa aðildarlöndin um gang mála hjá bankanum. Annars byggist daglegt fyrirkomulag hins norræna samstarfs á samræmingarstarfi, sem meðal annars fer fram á vikulegum símafundum þar sem farið er yfir helstu mál sem stjórn bankans fjallar um. Að auki eru haldnir þrír embættismannafundir árlega.

10.B.4. Heimsókn forseta Alþjóðabankans.
    Wolfensohn, forseti Alþjóðabankans, heimsótti Ísland í júní 1998 og var gestur á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Hann sat jafnframt fund með utanríkis ráðherra Íslands þar sem farið var yfir samstarf Íslands og Alþjóðabankans. Wolfensohn gerði grein fyrir áhuga sínum á að byggja upp þekkingu á sem allra flestum sviðum í Alþjóðabankanum og hvernig Íslendingar gætu komið að þeirri uppbyggingu.

10.B.5. Þróunarnefnd Alþjóðabankans.
    Málin sem voru efst á baugi á árunum 1997 og 1998, þegar Ísland leiddi starfið fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, voru niðurfelling skulda fátækustu ríkja heims (HIPC), sem nánar er fjallað um hér á eftir, og viðbrögð við efnahagskreppunni í Asíu og hlutverk Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í slíkri kreppu. Umræða um aukna áherslu á samvinnu við aðrar alþjóðlegar þróunarstofnanir var fyrirferðarmikil og síðast en ekki síst fór fram ákveðin stefnumótun í baráttunni gegn spillingu og um leið baráttu fyrir bættu stjórnarfari í þróunarlöndum.

10.B.6. Niðurfelling skulda fátækustu ríkja heims.
    Í haust sem leið ákvað ríkisstjórnin að taka þátt í niðurfellingu skulda fátækustu ríkja heims og mun á næstu árum greiða rúmar 200 milljónir króna í sérstakan sjóð – HIPC Trust Fund – á vegum Alþjóðabankans, sem verður notaður í þessu skyni. Þessar greiðslur bætast við aðrar greiðslur til Alþjóðabankans, til dæmis IDA framlagið, sem er um 60 milljónir króna á ári um þessar mundir. Ísland ásamt öðrum Norðurlöndum, leggur ríka áherslu á að iðnríki heims taki þátt í HIPC-átakinu og láti það ekki bitna á annarri þróunaraðstoð með tilfærslu framlaga.
    Norðurlöndin hafa í bili ákveðið að halda að sér höndum með greiðslur í HIPC-sjóðinn þar til línur skýrast varðandi framlög annarra iðnríkja. Meðal annars er beðið eftir Bandaríkjamönnum. Tillaga ríkisstjórnar þeirra um fjárveitingu, sem renna átti í sjóðinn á þessu ári, var felld í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Fyrir liggur tillaga frá stjórn Clintons um afgreiðslu málsins á fjáraukalögum þessa árs. Einnig leggur stjórnin þunga áherslu á að fjárveiting fáist á fjárlögum 2001. Útkomunnar er beðið með nokkurri eftirvæntingu.
    Vonast er til að HIPC-átakið muni gera fátækustu ríkjum heims kleift að nota þá fjármuni, sem hingað til hafa farið í afborganir skulda, til að ýta undir hagvöxt, berjast gegn fátækt og treysta innviði sína. Megnið af tekjum margra fátækustu ríkja heims hefur um árabil farið í að borga skuldir. Svigrúm til að byggja upp menntakerfi og heilsugæslu, svo dæmi séu tekin, hefur þar af leiðandi ekkert verið. Þar er þó um að ræða meginstoðir í baráttu gegn fátækt og vágestum eins og alnæmi þar sem fræðsla og forvarnir eru lykilorð.

10.B.7. Jarðhitaskóli og Sjávarútvegsskóli.
    Íslendingar hafa um árabil átt gott samstarf við Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur starfað hér á landi síðan 1979. Í ljósi góðrar reynslu af Jarðhitaskólanum var Íslendingum falið að setja á stofn Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem tók til starfa 1998.

10.B.8. Annað samstarf Norðurlanda á sviði þróunarmála.
    Samstarf Norðurlandanna á sviði marghliða þróunarmála hefur verið mikið og gott. Ráðherra- og embættismannafundir eru haldnir reglulega. Á þeim er leitast við að stilla saman strengi. Norðurlöndin tala gjarnan einum rómi í alþjóðastofnunum, svo sem Alþjóðabankanum og Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), og ná með því móti að hafa veruleg áhrif á stefnumótun þeirra. Norræni þróunarsjóðurinn (NDF) er fjármagnaður með framlögum Norðurlanda til þróunarmála. Sjóðurinn lánar fé á vildarkjörum og til langs tíma og eingöngu til verkefna sem til framfara horfa í fátækustu ríkjum heims. Óhætt er að segja að NDF hafi aflað sér virðingar á alþjóðavettvangi fyrir skilvirkni og er hann nú eftirsóttur samstarfsaðili annarra alþjóðlegra þróunarsjóða, sem starfa undir sömu eða svipuðum formerkjum.

11.     AÐSTOÐ VIÐ FLÓTTAMENN OG STRÍÐSHRJÁÐ RÍKI

    Vandi flóttamanna í heiminum verður sífellt áleitnara og erfiðara viðfangsefni. Íslendingar hafa á síðustu árum í reynd snúið við blaðinu frá því sem áður var og stóraukið þátttöku sína í alþjóðlegri viðleitni til hjálpar flóttafólki. Ísland var í hópi fyrstu ríkja í heiminum til að taka á móti flóttamönnum frá Kósóvó eftir að þeir tóku að streyma frá heimkynnum sínum. Þaðan komu hingað til lands 77 flóttamenn í fyrra. Þeim var boðin hér ótímabundin vist svo lengi sem þeir töldu sig þurfa á gistivináttu okkar að halda. Tæplega helmingur þeirra hefur nú snúið heim á leið. Opinberir aðilar, einstaklingar og samtök hafa lagst á eitt um að auðvelda þeim sem eftir eru dvölina hér og aðlögun að íslensku samfélagi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur verið kynnt sérstaklega það kerfi stuðningsfjölskyldna við nýkomna flóttamenn, sem komið hefur verið upp hér á landi, og hefur það þótt áhugavert. Gert er ráð fyrir að 20–25 flóttamönnum frá fyrrum lýðveldum Júgóslavíu verði boðið hingað síðar á árinu.
    Flóttamenn í heiminum skipta nú tugum milljóna og margir þeirra búa við afar kröpp kjör og hinar erfiðustu aðstæður. Draumar þeirra flestra snúast um lítið annað en að komast heim til sín aftur. Allur þorri flóttamanna í heiminum býr í Mið-Austurlöndum, Asíu og Afríku, en aðeins lítill minnihluti þeirra er í Evrópu. Sérstakur vandi flóttamanna í Evrópu hefur hins vegar orðið að vaxandi áhyggjuefni á síðari árum. Því er ekki að neita að hjá almenningi í mörgum löndum álfunnar gætir nú mikillar þreytu á straumi flóttamanna, sem í nokkrum ríkjum álfunnar má telja í hundruðum þúsunda. Gagnar þá stundum lítið að benda á þá staðreynd að flóttamennirnir sjálfir eru ekki vandamálið, heldur þær aðstæður sem ollu flótta þeirra. Í þessum efnum geta Íslendingar það best lagt til mála að taka á móti svo mörgum sem við treystum okkur til á hverjum tíma og umfram allt að reynast þeim vel sem hingað koma.
    Grundvallaratriði í þessum efnum er að stuðla að uppbyggingu á svæðum sem fólk hefur flúið vegna ófriðar og gera flóttamönnum með því mögulegt að snúa heim eftir að friður hefur komist á. Íslensk stjórnvöld hafa lagt fé til þriggja verkefna af þessu tagi að undanförnu og eru með það fjórða í undirbúningi. Á Austur-Tímor hafa íslensk stjórnvöld veitt styrk til uppbyggingarstarfs og friðargæslu að upphæð 1,2 milljónir króna. Tvöfalt hærri upphæð, eða 2,4 milljónir króna, var veitt til verkefna við Kvennahúsið í Sarajevó í Bosníu, en á vegum þess er rekin margvísleg starfsemi til hagsbóta fyrir konur í Bosníu. Í Bosníu hafa íslensk stjórnvöld einnig styrkt á síðustu árum stoðtækjaverkefni í samvinnu við Alþjóðabankann. Íslendingar hafa skuldbundið sig til að leggja fram allt að eitt þúsund stoðtæki og um leið höfum við boðist til að veita framhaldsaðstoð við notendur stoðtækjanna til að minnsta kosti þriggja ára. Við uppbygginguna í Kósóvó vilja íslensk stjórnvöld leggja áherslu á aðstoð við konur og börn í samvinnu við íslensk mannúðarsamtök.
    Skipuleg alþjóðleg aðstoð við fólk sem lendir í neyð vegna náttúruhamfara eða stríðsátaka hefur farið vaxandi þótt enn vanti oft mikið á að nægjanlega hratt og skipulega sé brugðist við. Vonir standa til að skipulag á þessum málum geti batnað með þeirri endurskoðun sem fram hefur farið á starfi Sameinuðu þjóðanna að þessum málum. Oft eru það þó einstök ríki og alþjóðleg mannúðarsamtök sem leggja mest af mörkum þegar neyð knýr skyndilega dyra. Íslensk stjórnvöld hafa reynt að bregðast við þeirri sameiginlegu ábyrgð sem vel stæð samfélög verða að axla í þessum efnum, og í nokkrum tilvikum hafa þau veitt fé til neyðaraðstoðar. Vegna hörmunganna í Kósóvó í fyrra voru veittar 10 milljónir króna í neyðaraðstoð, að hluta til í gegnum Rauða Kross Íslands, og sömu upphæð var varið til matvælaaðstoðar í Rússlandi í samvinnu við Rauða Kross Íslands. Hjálpargögn voru einnig send til Makedóníu.
    Á síðasta ári sendu íslensk stjórnvöld í fyrsta sinn björgunarsveit til starfa í öðru ríki þegar utanríkisráðuneytið, í samvinnu við Almannavarnir og Slysavarnarfélagið Landsbjörgu, sendi níu manna sveit til leitar að fólki í rústum húsa eftir jarðskjálftana í Tyrklandi. Í framhaldi af þessu hefur farið af stað vinna við stofnun alþjóðlegrar björgunarsveitar á Íslandi. Sveitin verður á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, en utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra hafa undirritað samning um samstarf við félagið um þátttöku sveitarinnar í alþjóðlegum björgunaraðgerðum á neyðarsvæðum.
    Ísland gerðist á síðasta ári aðili að UNDAC, sem er samræmingarmiðstöð Sameinuðu þjóðanna um neyðaraðstoð, en þetta var gert í samvinnu við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu. Tveir íslenskir sérfræðingar hafa verið útnefndir til þátttöku þegar miðstöðin kallar eftir mati á þörfum fyrir neyðaraðstoð.

12. MENNINGAR- OG UPPLÝSINGAMÁL
    Íslenska utanríkisþjónustan hefur frá upphafi starfað að kynningu á íslenskri menningu erlendis í samræmi við lög um hlutverk utanríkisþjónustunnar. Sérstakur viðauki um hluta þeirrar starfsemi fylgir.

12.A. UPPLÝSINGAMÁL
    Markviss notkun veraldarvefsins mun hafa vaxandi þýðingu fyrir starfsemi utanríkisráðuneytisins og sendiskrifstofa Íslands í nánustu framtíð. Vefurinn þróast hratt og er mikilvægt að fylgjast vel með á hvern hátt tækninýjungar á upplýsingasviði geta best þjónað hagsmunum okkar í framtíðinni.
    Um þessar mundir er stefnt að því að gera vefsetur utanríkisráðuneytisins að enn öflugra tæki í þágu íslenskra hagsmuna og upplýsingamiðlunar um íslensk utanríkismál og starfsemi utanríkisráðuneytisins. Heimasíða ráðuneytisins, www.mfa.is er í stöðugri þróun og sýna tölur um heimsóknir á vefinn að hún er á meðal mest sóttu heimasíðna stjórnarráðsins.
    Utanríkisráðuneytið vinnur að þróun samræmdrar heimasíðu fyrir allar sendiskrifstofur Íslands erlendis. Stefnt er að því að opna vefsíður fyrir öll sendiráð fyrir mitt þetta ár. Á heimasíðunum verður að finna grundvallarupplýsingar um Ísland og íslensk málefni með tengingum í aðra sértækari upplýsingavefi. Nokkur sendiráð Íslands erlendis hafa þegar komið á laggirnar eigin heimasíðum á veraldarvefnum með góðum árangri. Tilurð heimasíðna hjá einstökum sendiráðum hefur dregið úr vinnuálagi á sendiskrifstofum, sem oft eru undirmannaðar, og aukið svigrúm starfsmanna til að takast á hendur önnur verkefni.
    Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins opnaði í upphafi árs eigin heimasíðu, eins og fyrr greinir, þar sem áhersla er lögð á að veita íslenskum fyrirtækjum upplýsingar og margvíslega fyrirgreiðslu varðandi útflutning. Hefur þessi nýja þjónusta hlotið góðar undirtektir.
    Utanríkisráðuneytið tekur þátt í undirbúningsstarfi á vegum verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið vegna uppsetningar á nýjum upplýsingavef um Ísland á ensku, www.Iceland.is
    Tilgangur vefsins er að vekja athygli á Íslandi, íslensku mannlífi, atvinnuháttum og menningu á jákvæðan hátt og miðla upplýsingum um stjórnarfar. Vefurinn er einnig hugsaður sem upplýsingabanki fyrir þá sem þurfa að kynna Ísland á erlendum vettvangi. Stefnt er að því að fyrsta heildarútgáfa af vefnum verði tilbúin um mitt þetta ár.
    Þrátt fyrir ofangreindar áherslur á sviði upplýsingatækni mun utanríkisráðuneytið áfram leggja áherslu á útgáfu vandaðs upplýsingaefnis í prentuðu máli á erlendum tungumálum. Nýverið kom út vandað upplýsingarit um íslenskar hagtölur, „Iceland in figures 1999–2000“, sem ráðuneytið gaf út í samstarfi við Hagstofu Íslands. Ráðuneytið mun áfram gefa út sérhæft upplýsingaefni er varðar starfsemi utanríkisráðuneytisins og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þetta upplýsingaefni verður einnig aðgengilegt á veraldarvefnum.

12.B.     MENNINGARMÁL
    Fátt eykur skilning milli þjóða jafnmikið eða færir þær nær hver annarri en gagnkvæm kynni af menningu og háttum. Því er sérstök áhersla lögð á þessa þætti í starfi utanríkisþjónustunnar. Verulegur árangur hefur náðst og hefur utanríkisþjónustan ýmist haft forgöngu eða lagt hönd á plóginn í nánu samstarfi við menntamálaráðuneytið, opinberar stofnanir eða hagsmunaaðila í viðskiptum og ferðaþjónustu. Til dæmis er mikil gróska um þessar mundir í menningartengdri ferðaþjónustu og vinna sendiskrifstofur Íslands ötult að því að styrkja ímynd okkar sem menningarþjóðar er áhugavert væri að heimsækja.
    Í fjárhagsáætlunum fyrir sendiskrifstofur Íslands hefur ekki verið gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna menningarstarfsemi og dregur sú staðreynd, eðli máls samkvæmt, verulega úr möguleikum sendiskrifstofa á því að halda uppi blómlegri starfsemi á sviði menningarmála. Ráðuneytið hefur gert tillögur um fjárveitingar sem skapa sendiskrifstofunum meira svigrúm á þessu sviði. Með tilkomu nýs sendiráðs Íslands í Berlín og hlutdeildar Íslands í sameiginlegu húsnæði sendiráða Norðurlanda hafa skapast nýir möguleikar á því að koma íslenskri menningu á framfæri. Leggur utanríkisráðuneytið nú fram árlegt framlag til sendiráðsins í Berlín í því skyni.
    Þrátt fyrir fjárhagslega annmarka sýna margar sendiskrifstofur Íslands lofsvert frumkvæði á þessu sviði og standa reglulega að fjölbreyttri íslenskri menningardagskrá í gisti- og umdæmisríkjum sínum í samstarfi við hagsmunaaðila og velunnara Íslands. Má þar minna á menningarkynningar, kvikmyndahátíðir, bókmenntakynningar, leiklist, tónleika og listsýningar af ýmsu tagi.
    Forræði í menningarmálum heyrir undir menntamálaráðuneytið er veitir styrki til margvíslegrar menningarstarfsemi erlendis. Utanríkisþjónustan hefur átt gott samstarf við menntamálaráðuneytið á þessu sviði og veitir eftir bestu getu liðsinni sitt við undirbúning og kynningu á einstökum menningaratburðum. Utanríkisþjónustan leggur áherslu á að fá vitneskju um íslenska menningaratburði sem fyrirhugaðir eru erlendis með góðum fyrirvara svo sendiráð Íslands nýtist sem best við undirbúning og kynningu á umræddum atburði. Sendiskrifstofur hafa þekkingu og tengsl í gistiríki, til dæmis gagnvart fjölmiðlum, sem eðlilegt er að nýta sem best.

12.B.1. Þjóðrækni og landafundir.
    Í upphafi ráðherraferils síns í utanríkisráðuneytinu mótaði utanríkisráðherra skýra stefnu um að efla tengsl og samskipti við fólk af íslenskum ættum vestanhafs í Bandaríkjunum og Kanada. Ábyrgð á þessum samskiptum hafði lengi hvílt á utanríkisráðuneytinu, enda fær ráðuneytið sérstakt framlag á fjárlögum til þessa verkefnis. Mjög vaxandi og almennur áhugi er á því að efla samskiptin enn frekar, bæði hér heima og á meðal frænda okkar í Vesturheimi. Endurspeglast hann meðal annars í metnaðarfullu starfi frjálsra félagasamtaka á Íslandi og í Norður-Ameríku er helga sig þjóðræknismálum og auknum almennum samskiptum. Stórbættar samgöngur á milli Íslands og Kanada á skömmum tíma hafa einnig skapað ný sóknarfæri er meðal annars endurspeglast í aukinni ferðaþjónustu og vaxandi viðskiptum.
    Fyrir rúmu ári var stofnuð aðalræðisskrifstofa Íslands í Winnipeg. Eitt meginhlutverk skrifstofunnar er að halda utan um aukin tengsl við íbúa Kanada af íslensku bergi brotna og ættræknisfélög þeirra. Með stofnun skrifstofunnar var stigið stórt skref í þá átt að rækta betur samskiptin við fólk af íslenskum ættum í Kanada. Á skömmum starfstíma aðalræðisskrifstofunnar hefur mikill árangur náðst á þessu sviði.
    Á síðasta ári höfðu íslensk stjórnvöld frumkvæði að undirbúningi fjölbreyttrar dagskrár í Bandaríkjunum og Kanada á þessu ári í tilefni af landafundum norrænna manna í Norður- Ameríku. Í því skyni var stofnuð sérstök landafundanefnd, með aðild utanríkisráðuneytisins, er nýtur framlags úr ríkissjóði til verkefnisins. Metnaðarfull og fjölbreytt dagskrá landafundanefndar liggur nú fyrir og skipta dagskrárliðir nú hundruðum um alla álfuna. Grundvallarmarkmið með dagskrá landafundanefndar er ekki aðeins að vekja athygli íbúa Norður- Ameríku á siglingaafrekum Íslendinga heldur ekki síður á þeirri þjóð er nú byggir Ísland, menningu hennar og lýðræðishefð og á hverju hún byggir lífsafkomu sína.

12.B.2. Víkingasýningar í Norður-Ameríku.
    Þann 27. apríl verður opnuð í Washington D.C. umfangsmikil sýning helguð víkingum og menningararfleifð þeirra. Sýningin er samstarfsverkefni Norðurlanda og Smithsonian- stofnunarinnar og verður hún formlega opnuð að viðstöddum þjóðhöfðingjum Norðurlanda og fulltrúum þeirra. Fjölmargir munir frá þjóðminjasöfnum Norðurlanda verða á sýningunni er gera hana einstaka í sinni röð. Samhliða sýningunni verður margvíslegt upplýsingaefni um víkingaöldina unnið, jafnt í prentuðu máli og á veraldarvefnum.
    Frá Washington heldur sýningin til New York og til fimm annarra borga í Bandaríkjunum og Kanada á næstu þremur árum.

12.B.3. Norræn menningarmiðstöð í New York.
    Ný norræn menningarmiðstöð í New York, „Scandinavia House“, verður formlega tekin í notkun 17. október nk. Eigandi og rekstraraðili hússins er stofnunin „American Scandinavian Foundation“ í Bandaríkjunum. Áætlaður heildarkostnaður vegna framkvæmdanna er um 1,5 milljarðar íslenskra króna. Samtökin hófu fjársöfnun til verkefnisins árið 1995. Þau leituðu meðal annars fyrirgreiðslu frá ríkisstjórnum Norðurlanda. Það var ekki fyrr en tveimur árum seinna, í kjölfar frumkvæðis utanríkisráðherra og ríkisstjórnar Íslands, að ríkisstjórnir annarra Norðurlanda tóku ákvörðun um fjárframlög til verkefnisins. Íslensk stjórnvöld hafa frá upphafi sýnt verkefninu mikinn áhuga. Jafnframt hafa íslensk fyrirtæki sýnt verkefninu áhuga með verulegum fjárframlögum. Samtals nemur fjárframlag íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja til verkefnisins nú um 800 þúsund Bandaríkjadölum, andvirði um 60 milljóna íslenskra króna. Nú hefur verið ákveðið að bókasafn norrænu menningarmiðstöðvarinnar beri nafn Halldórs Kiljan Laxness.

12.C.     SAMSKIPTI VIÐ KJÖRRÆÐISMENN ÍSLANDS
    Kjörræðismenn Íslands hafa, frá upphafi sjálfstæðrar íslenskrar utanríkisþjónustu fyrir sextíu árum, gegnt veigamiklu hlutverki við hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd. Nú gegna 225 einstaklingar stöðu kjörræðismanna Íslands í 64 þjóðríkjum. Starfsemi kjörræðismanna er sérstaklega mikilvæg fyrir fámenna utanríkisþjónustu eins og þá íslensku, þar sem fjöldi sendiskrifstofa er takmarkaður.
    Í ljósi mikilvægs hlutverks kjörræðismanna Íslands leggur utanríkisráðuneytið nú áherslu á að fræða ræðismenn Íslands enn betur um helstu hagsmunamál Íslands, starfsemi ráðuneytisins og sendiskrifstofa Íslands. Vel upplýstur ræðismaður er öflugri liðsmaður og betur fallinn til að sinna starfi sínu í þágu íslenskra hagsmuna. Í þessu skyni hefur starfsemi ráðuneytisins á þessu sviði verið efld og upplýsingamiðlun til ræðismanna aukin. Enn fremur hefur utanríkisráðuneytið hafið útgáfu „Ræðismannsins — the Consul“, upplýsingarits á ensku sem helgað er starfsemi ráðuneytisins og sendiskrifstofa Íslands.
    Undirbúningur hefur jafnframt hafist að fimmtu ræðismannaráðstefnunni sem haldin verður í Reykjavík 3 .– 5. september á næsta ári. Slík ráðstefna var síðast haldin í október 1995. Tilgangur ráðstefnu af þessu tagi er að kalla saman alla kjörræðismenn Íslands til skrafs og ráðagerða og kynna þeim á markvissan hátt sem flesta þætti í íslensku þjóðfélagi með áherslu á útflutningshagsmuni Íslands.

13. Viðaukar

1.     Menningarmálakaflar frá sendiráðum Íslands.
2.     Tafla: Opinber framlög Íslands til þróunarmála 1989–1999.
3.     Starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sendiskrifstofur og umdæmi (mars 2000).
4.     Stjórnmálasamband og ræðissamband Íslands við erlend ríki (mars 2000).
5.    Fyrirsvar Íslands við ríki sem Ísland hefur stjórnmála- eða ræðissamband við og fyrirsvar þeirra gagnvart Íslandi (apríl 2000).
6.    Helstu alþjóðastofnanir og samtök sem Ísland á aðild að og framlög til þeirra (mars 2000).

VIÐAUKI I

FRÁ ÓSLÓ:
    Norðmenn hafa mikinn áhuga á Íslandi og Íslendingum og er sendiráðið að vinna að ýmsum verkefnum á sviði menningarmála með Íslendingum og Norðmönnum. Verður fjallað um nokkur þessara verkefna.
    Eitt virtasta listasafn Noregs, Sonja Heine-safnið er, í samvinnu við sendiráðið, að vinna að Íslandsdögum við safnið sumarið 2001. Um er að ræða átta vikna dagskrá þar sem boðið verður upp á að skoða íslenska myndlist, snæða íslenskan mat og hlusta á íslenska tónlist. Safnið hefur ekki haft slíka daga erlends ríkis í nokkuð mörg ár en forráðamenn þess hafa ákveðið að taka aftur upp þessa starfsemi og hefja hana á íslenskum dögum. Norska menningarmálaráðuneytið hefur þegar ákveðið að styrkja þetta verkefni árin 2000 og 2001.
    Norðmenn eru að smíða eftirlíkingu af stafkirkju sem sett verður upp í Vestmannaeyjum og verður þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga vegna þess að þúsund ár eru liðin frá því að Íslendingar urðu kristnir. Einnig hafa Norðmenn safnað og gefið verulegar fjárhæðir vegna smíði Snorrastofu í Reykholti. Vígja á Snorrastofu 29. júlí nk. og stafkirkjuna 30. júlí nk. Forseti Íslands hefur boðið norska konungnum að koma til Íslands vegna þessara atburða. Verulegar líkur eru á því að konungur muni þiggja boðið. Sendiráðið hefur komið að þessum málum með einum eða öðrum hætti. Norðmenn eru að vinna með Íslendingum að smíði Auðunnarstofu á Hólum í Hjaltadal. Stefnt er að því að ljúka verkefninu á árinu 2001, en handverksmenn frá öllum Norðurlöndunum koma að smíði hennar.
    Bergen er ein af menningarborgum Evrópu árið 2000 og unnið er að ýmsum samstarfsverkefnum milli þeirrar borgar og Reykjavíkur á þessu ári.
    Nokkrar norrænar listahátíðir eru árlega í Noregi og eru íslenskir listamenn á mörgum þeirra. Hér má nefna Norræna vetrarlistahátíð í Lillehammer, en á hátíðinni í febrúar á næsta ári verður höfuðáhersla lögð á Ísland. Einnig má nefna að íslenskir listamenn hafa oft tekið þátt í Norrænum menningardögum í Akershuskastala í Ósló.
    Íslensk fjölskylda opnaði árið 1998 gallerí sem selur íslensk málverk og listmuni, fatnað eftir íslenska hönnuði og rekur kaffihús því samhliða í Ósló. Þar eru haldnar sýningar reglulega með verkum íslenskra listmálara. Sendiráðið hefur stutt við bakið á þessu framtaki. Jafnframt er starfandi í Ósló annað íslenskt gallerí sem selur íslenska listmuni og hefur sendiráðið einnig veitt því stuðning.
    Sendiráðið hefur unnið að kynningu Íslands og stutt ýmsar uppákomur Íslendinga í samvinnu við íslendingafélög, ræðismenn í Noregi og skrifstofu Flugleiða í Ósló. Hér má m.a. nefna 17. júníhátíðir, 1. desemberhátíðir, þorrablót, Íslendingadaga, hljómleika o.s.frv.

FRÁ BERLÍN:
Almennt.
    Sendiráð Norðurlandanna í Berlín standa fimm saman, ásamt sameiginlegri byggingu, á lóð og mynda „V“ líkt og fimm svanir í oddaflugi sem er til marks um árangurinn af samvinnu Norðurlandanna. Sendiráðin voru opnuð með vígsluathöfn 20. október 1999. Meðal gesta voru þjóðhöfðingjar Norðurlandanna og utanríkisráðherrar, forseti Þýskalands og utanríkisráðherra og borgarstjóri Berlínar. Þar sem Ísland var í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 1999 flutti forseti Íslands ávarp fyrir hönd Norðurlandanna og sagði m.a. að nýju sendiráðsbyggingarnar væru tileinkaðar hugsjónum um órofinn frið, velsæld og lýðræði til handa íbúum Evrópu. Enn fremur sagði hann að Norðurlöndin gegndu mikilvægu hlutverki í hinni nýju Evrópu.

Norrænt menningar- og kynningarsamstarf í Þýskalandi.
    Í ræðu sinni sagði forseti Íslands að hið nána samstarf sem hefur slípast og agast milli Norðurlandanna við áratuga reynslu, þar sem lögð er áhersla á sérstöðu hvers einstaks lands, skapar flókið mynstur, samveru og einhug til samvinnu. Sendiráðssvæðið og hið ríka menningar- og kynningarsamstarf Norðurlandanna í Þýskalandi er liður í samvinnunni. Með tilkomu norræna sendiráðssvæðisins og sameiginlega hússins í Berlín hafa norrænu sendiráðin aukið og koma til með að auka enn meira norrænt menningar- og kynningarsamstarf í Þýskalandi þ.e. bæði í sameiginlega húsinu og annars staðar í Þýskalandi. Enn fremur eru menningartengslin milli Norðurlandanna og Þýskalands náin og gera má ráð fyrir að hið nýja sendiráðssvæði komi til með að auka tengslin verulega.
    Á þessu ári og á næstu árum verður fjölbreytt menningar- og kynningardagskrá hjá Norðurlöndunum í Þýskalandi. Haldnar verða norrænar myndlistar- og arkitektasýningar, norrænar bókmenntir verða kynntar, norrænar kvikmyndir verða sýndar, norræn tónlist verður flutt, boðið verður upp á norræna leiklist og haldnar verða ráðstefnur um norræn málefni. Þessi starfsemi er oft unnin í samvinnu við þýskar mennta-, menningar- og kynningarstofnanir og félög. Ísland tekur þátt í flestum þessum viðburðum.

Dæmi um norrænt menningar og kynningarsamstarf í Þýskalandi árið 2000 m.a. uppákomur haldnar í sameiginlega húsinu, sem Ísland tekur þátt í:
     1.      Norræn ljósmyndasýning í sameiginlega húsinu. Janúar árið 2000.
     2.      Norræn keramiksýning „Nordisk Keramik Triennal“ haldin í sameiginlega húsinu frá 5. febrúar 2000 til 13. mars 2000.
     3.      Samstarf norrænu menningarborganna, Reykjavík, Bergen og Helsinki. Uppákomur í sameiginlega húsinu sumarið 2000.
     4.      Uppákoma í sameiginlega húsinu í tengslum við árlega ferðamálaráðstefnu sem haldin er í byrjun mars árið 2000.
     5.      Norræn „Summer Jazz-session“ með evrópskum tónlistarmönnum. Haldin í júní 2000.
     6.      Norræn arkitektaráðstefna, haldin í sameiginlega húsinu haustið 2000.
     7.      Uppákoma í tilefni af norrænum kvikmyndadögum í Lübeck. Haldin í sameiginlega húsinu 7. – 9. apríl 2000.
     8.      Norrænt-þýskt fjölmiðlaverkefni. Þátttaka norrænna og þýskra blaðamanna (IJP).
     9.      Málþing um norræn og þýsk utanríkis- og öryggismál. Haldið í sameiginlega húsinu 15. maí 2000.
     10.      Norræn bókahátíð um ævintýri, goðsagnir og sögur, haldin í sameiginlega húsinu í nóvember árið 2000.

Framtíðaráherslur í norrænu menningar- og kynningarsamstarfi í Þýskalandi.
    Á þessu og á næstu árum verður unnið að því að byggja upp og skipuleggja enn öflugra norrænt menningar- og kynningarsamstarf í Þýskalandi, fjölga uppákomum og nýta sameiginlega húsið í Berlín í þeim tilgangi, sem er kjörinn vettvangur til að kynna norræna menningu fyrir Þjóðverjum. Aðsókn að sameiginlega húsinu og sendiráðssvæðinu er mjög mikil og því býður það upp á frábært tækifæri til að kynna norræna menningu á erlendri grund. Líklega hafa Íslendingar hvergi annars staðar jafngóða aðstöðu og í Berlín til að kynna menningu sína og er því þýðingarmikið að nýta þessa miklu fjárfestingu sem best. Íslenska sendiráðið í Berlín leggur ríka áherslu á þátttöku í norræna menningar- og kynningarsamstarfinu.

Íslenskt menningar- og kynningarsamstarf í Þýskalandi og framtíðaráherslur þess.
    Sendiráðið í Berlín vinnur markvisst að íslenskum menningar- og kynningarmálum í Þýskalandi. Á þessu og næstu árum verður hliðstæðri íslenskri menningar- og kynningardagskrá og stefnu framfylgt og getið er um hér að framan varðandi Norðurlöndin.

Dæmi um íslenska menningar- og kynningarstarfsemi í Þýskalandi árið 2000:
     1.      Menningaruppákomur í tengslum við heimssýninguna EXPÓ 2000: -tónleikar með Kammersveit Reykjavíkur.
     2.      Íslenskir rithöfundar lesa úr verkum sínum í Þýskalandi, m.a. í sameiginlega húsinu:
        —    Hinn 27. janúar 2000 las Ólafur Haukur Símonarson úr verkum sínum í menningarmiðstöð í Steglitz - Berlín og 16. febrúar 2000 las Einar Kárason úr verkum sínum í sameiginlega húsinu.
        —     Verkið „Englar Alheimsins“ kemur út í þýskri þýðingu í kiljuformi í apríl 2000. Útgefandi er Bertelsmann-forlagið. Samtímis verður kvikmyndin frumsýnd í Þýskalandi. Unnið að því í samráði við menntamálaráðuneytið að hafa uppákomu í tengslum við útgáfu bókarinnar og sýningu kvikmyndarinnar.
        —    Þátttaka Íslands í rithöfundaverkefninu Literatur Express Europa árið 2000.
     3.      Íslensk myndlist:
        —    Sýning Steinunnar Þórarinsdóttur í Bonn árið 2000.
        —     Fyrirhuguð samsýning 12 listamanna frá Þýskalandi og Íslandi í Berlín árið 2000. Heiti sýningar: „Leitin að Snarkinum“.
        —     Evrópuhátíðin „Open Europe“ haldin í Berlín 6. maí 2000. Egill Sæbjörnsson, ungur íslenskur myndlistarmaður, tekur þátt í hátíðinni.
     4.      Íslensk tónlist:
        —     Norræn tónleikaröð haldin í „Deutsche Oper Berlín“ árin 2000 og 2001 Á einum tónleikunum árið 2000 flytur þýsk kammersveit íslenska tónlist. Unnið í samvinnu við Rut Ingólfsdóttur.
     5.      Þátttaka, í samstarfi við arkitekt sendiráðsbyggingarinnar Pálmar Kristmundsson, í ýmsum arkitektakynningum til að kynna Ísland og íslensku sendiráðsbygginguna.
     6.      Ráðstefnur um íslensk málefni:
        —     Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, flutti, 11. og 16. febrúar 2000, erindi í sameiginlega húsinu í Berlín um „Ástand og horfur í íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi og afstöðu Íslands til ESB“.
        —     Kynning á íslenskuverkefninu BRAGI, í samstarfi við Humboldt-háskóla í Berlín.
        —     Íslenskir menningardagar í Lübeck árið 2000. Unnið í samstarfi við „Auslandsgesellschaft Lübeck“ og Goethe-stofnunina á Íslandi.

FRÁ BRUSSEL:
    Það sem helst hefur staðið menningar- og kynningarmálum í umdæmislöndum sendiráðsins í Brussel fyrir þrifum er fjárskortur. Ekki er gert ráð fyrir neinum kostnaði við menningartengda starfsemi í fjárhagsáætlun sendiráðsins. Er það afar bagalegt þar sem jafnvel tiltölulega lágar upphæðir myndu gera sendiráðinu kleift að taka þátt í og styðja ýmis menningarverkefni þegar eftir því væri leitað. Verður gerð tillaga um það í fjárhagsáætlun sendiráðsins að sendiherra fái fjárveitingu til minni háttar verkefna á sviði menningarmála.
    Af framansögðu leiðir að sendiráðið hefur orðið að beita sér á þeim sviðum þar sem fjármagns er ekki þörf. Hefur sendiráðið lagt vinnu í að kortleggja tónlistarsali í Brussel og öðrum helstu borgum landsins, bæði í Vallóníu og í Flæmingjalandi, þar sem íslenskir tónlistarmenn gætu komist að með tónleikahald. Er oft um að ræða menningarmiðstöðvar sem gætu nýst, hvort heldur sem er tónlistar- eða myndlistarmönnum, til tónleika eða sýningarhalds.
    Þá hefur sendiráðið komið að skipulagningu nokkurra myndlistarsýninga, aðstoðað skipuleggjendur þeirra og haldið móttökur. Má þar nefna sýningar Ingólfs Arnarsonar, Arngunnar Ýrar Gylfadóttur og Ásdísar Sigurðardóttur á síðasta ári og Jóns Sigurpálssonar, Helgu Kristmundsdóttur og Sigrúnar Eldjárn á þessu ári.
    Sendiráðið hefur einnig komið að undirbúningi og kynningu tveggja kvikmyndahátíða sem haldnar eru í Brussel árlega.
    Eins hefur sendiráðið aðstoðað eftir mætti samvinnu Reykjavíkur og Brussel, menningarborga árið 2000. Er unnið að því að setja upp sýningu um Reykjavík í Brussel, íslenskur myndlistarmaður, Halldór Ásgeirsson, verður meðal þátttakenda á opnunarsýningu hátíðahaldanna í Brussel, sem haldin verður í Evrópuþinginu. Að auki munu íslenskir listamenn taka þátt í tveimur öðrum listviðburðum á árinu og hafa skipuleggjendur í Brussel óskað aðstoðar sendiráðsins.
    Sendiráðið hefur stutt við skólahald fyrir íslensk börn í Brussel sem Íslendingafélagið hefur staðið fyrir. Bókasafn skólans er til húsa í sendiráðinu og verður reynt að efla það eftir mætti. Mjög gott samstarf hefur verið við Íslendingafélagið, ekki síst skólann, sem vinnur mjög mikið og þarft starf. Skólinn hefur nýverið flutt í nýtt húsnæði og hefur það eflt starf hans til muna.
    Stærstu verkefni sem fram undan eru, er annars vegar þátttaka í leikhúshátíð konunglega flæmska leikhússins í Brussel og hins vegar kynning á verkum Halldórs Kiljan Laxness.
    Ákveðið hefur verið að helga leikárið 2000 – 2001 norrænu leikhúsi. Fulltrúi sendiráðsins hefur þegar átt nokkra fundi með leikhúsmönnum. Þeir leita einkum samstarfs við minni leikhús/leikhópa, frekar enn stærri leikhús. Gert er ráð fyrir einu til tveimur leikverkum frá hverju Norðurlanda og leikið á þjóðtungum, með þýðingu á skjá. Leikhópar verða valdir þannig að forsvarsmenn konunglega leikhússins færu sjálfir, að fengnum tillögum, til að velja og bjóða til þátttöku. Allur kostnaður verður greiddur af konunglega flæmska leikhúsinu, en sendiráðið mun leggja fram aðstoð sína við undirbúning og skipulagningu.
    Sendiráðið vinnur, í samvinnu við bókmenntakynningarsjóð, að skipulagningu sýningar um líf og starf Halldórs Kiljan Laxness. Er um farandsýningu að ræða sem þegar hefur verið sett upp í Póllandi og verður næst sett upp á svæði Íslands á heimssýningunni í Þýskalandi á þessu ári. Að því loknu mun sýningin verða sett upp í Lúxemborg og Liechtenstein, í samvinnu við ræðismenn Íslands þar. Þá mun sendiráðið, ásamt sendiráðinu í París, vinna að því að fá sýninguna þýdda á frönsku til frekara sýningarhalds í hinum frönskumælandi heimi.
    Að lokum má geta Íslandskynninga í Lúxemborg og Liechtenstein, en vinna við þær er nú á frumstigi. Þrátt fyrir að slíkar kynningar verði unnar í nánu samstarfi hagsmunaaðila og velunnara Íslands er óhjákvæmilegt að slíku fylgi nokkur kostnaður. Er því enn ítrekuð sú ósk sendiráðsins að gert sé ráð fyrir menningar- og kynningarmálum þegar fjárhagsáætlun sendiráðsins er mótuð.

FRÁ HELSINKI:
    Íslensk menning var mjög í sviðsljósinu í Finnlandi á liðnu ári og lagði sendiráðið sitt af mörkum í því efni. Hæst bar íslenska menningardaga í þremur borgum dagana 22. – 31. mars. Sendiráðið stóð að undirbúningi og skipulagningu daganna í nánu samstarfi við norrænu stofnunina í Finnlandi (NIFIN), Norræna félagið og skrifstofu Flugleiða í Helsinki og naut sérstaks fjárframlags frá utanríkisráðuneytinu í því skyni. Rithöfundarnir Einar Kárason og Einar Már Guðmundsson kynntu verk sín ásamt þekktum finnskum þýðendum. Anna Einarsdóttir frá Máli og menningu aðstoðaði við íslenska bókasýningu í stærstu bókaverslun Helsinki. Hljómsveitin Unun efndi til vel sóttra tónleika í borgunum þremur. Efnt var til málþinga um íslensk málefni með þátttöku íslenskra fyrirlesara og heimamanna. Leikhópar frá Íslandi settu upp leikritið Ferðir Guðríðar eftir Brynju Benediktsdóttur undir leikstjórn höfundar og leikritið Ormstungu eftir Benedikt Erlingsson undir leikstjórn Peter Engkvist.
    Samhliða menningardögunum var efnt til íslenskrar kvikmyndahátíðar í Helsinki, Åbo og Kuopio. Sýndar voru myndirnar Agnes, Benjamín Dúfa, Count me out, Bíódagar, Djöflaeyjan, Cold Fever og Nei. Aðstandendur menningardaganna áttu gott samstarf við Kvikmyndasjóð Íslands vegna undirbúnings hátíðarinnar.
    Fjölmargar íslenskar myndlistarsýningar voru haldnar í Helsinki á liðnu ári. Þar á meðal var sýning á norrænni nútímalist, sem Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, opnaði í janúar en á sýningunni áttu verk íslensku listmálararnir Georg Guðni, Kristján Davíðsson og Birgir Andrésson. Á vormánuðum sýndu eigi færri en 10 myndlistarmenn verk sín: Hreinn Friðfinnsson, Hulda Hákon, Jón Óskar, Sigurlína Margrét Helgadóttir, Jóhanna Boga, Ragna Róbertsdóttir, Kristján Guðmundsson, Finnbogi Pétursson, Guðrún Marinósdóttir og Sif Ægisdóttir. Sendiráðið aðstoðaði við kynningu sýninganna og útvegaði veitingar við opnanir þeirra.
    Sendiráðið gaf út bókina Islantikirja í samvinnu við þjónustumiðstöð bókasafna í Finnlandi. Í bókinni er finnskum börnum greint frá staðháttum á Íslandi, uppruna og sögu íslensku þjóðarinnar, álfum, draugum og spúandi eldfjöllum.
    Heimasíða sendiráðsins hefur reynst öflugt tæki til kynningar á Íslandi. Á fyrstu 18 mánuðunum eftir að hún fór á veraldarvefinn var yfir milljón blaðsíðum flett á finnsku. Heimasíðan hefur að geyma um 100 síður á finnsku, 15 á sænsku, 15 á eistnesku og er tengd lettneskri heimasíðu aðalræðisskrifstofunnar í Riga. Heimasíðan er í stöðugri endurskoðun og er unnin í sendiráðinu. Nú er unnið að því að auka efni á sænsku og síðar á eistnesku. Almenningur og skólafólk í Finnlandi er mjög netvætt og nýtir sér slíkar heimasíður til hins ítrasta. Fer þá saman mikil útbreiðsla kynningarefnis um Ísland og mikill vinnusparnaður sendiráðsins við kynningu lands og þjóðar í síma og með útsendingu bæklinga.
    Skrifstofa Flugleiða í Helsinki hefur unnið mikið landkynningarstarf undanfarin missiri og hefur sendiráðið aðstoðað við það eftir föngum. Ísland hefur hlotið mikla jákvæða umfjöllun fjölmiðla, jafnt ritmiðla sem ljósvakamiðla. Flugleiðir hafa boðið fjölmiðlamönnum til Íslands, sem hefur skilað sér vel, og sendiherra hefur átt viðtöl við dagblöð, útvörp og sjónvörp víðs vegar um landið. Hefur sendiherra reyndar lagt mikla áherslu á að gera Ísland sýnilegra í Finnlandi. Árangur kynningarstarfsins hefur líka skilað sér með auknum fjölda finnskra ferðamanna til Íslands, en þeim fjölgaði um 56% milli áranna 1998 og 1999.
    Á árinu 2000 verður töluvert um íslenska menningaratburði í Finnlandi. Þegar er vitað að söngkonan Björk og kór ungra söngvara frá menningarborgunum 9 koma fram í lok ágúst. Ýmsir myndlistarviðburðir eru ráðgerðir, Egill Ólafsson og tríó Björns Thoroddsen mun flytja tónlist o.s.frv. Bókmenntadagar voru haldnir á Álandi í lok mars og kom Vigdís Grímsdóttir þar fram fyrir Íslands hönd. Sendiráðið hefur haft milligöngu um að útvega styrk til þátttöku hennar. Í sömu viku las Jóhann Hjálmarsson úr verkum sínum í Helsinki.
Ljóst er, að um frjóan jarðveg er að ræða í menningarmálum í Finnlandi og mun sendiráðið leitast við að rækta þann garð eftir föngum. Áhugi er einnig í umdæmislöndunum Eistlandi og Lettlandi, en í því síðarnefnda stjórnar Guðmundur Emilsson kammersveit í Riga.

KAUPMANNAHÖFN:
    Störf sendiráðsins í Kaupmannahöfn að menningar- og kynningarmálum á sl. ári miðuðust við að styðja og aðstoða á ýmsan hátt þá aðila sem stóðu að menningarviðburðum í Danmörku og óskuðu aðstoðar sendiráðsins. Jafnframt sinnti sendiráðið sem endranær daglegum störfum að kynningarmálum og svaraði fjölda fyrirspurna.
    Það er út af fyrir sig gleðiefni að fjölmargir menningarviðburðir, þar sem íslenskt listafólk kom við sögu, áttu sér stað án nokkurs atbeina sendiráðsins.
    Meðal þeirra mörgu menningarviðburða sem fram fóru má nefna uppsetningu leikhóps frá Íslandi á leikritinu Heimur Guðríðar eftir Steinunni Jóhannesdóttur sem styrkt var af menntamálaráðuneytinu. Leiksýning þessi var sett upp í tilefni af 80 ára afmæli Íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn og sýnd í Hellig kors Kirke.
    Verkið Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson var sýnt í danskri leikgerð við mjög góðar undirtektir á haustdögum í Kaupmannahöfn. Má í því sambandi geta þess að mjög mikið og vinsamlega hefur verið fjallað um bækur Einars Más í Danmörku að undanförnu. Honum voru í lok nóvember, ásamt Thor Vilhjálmssyni, veitt heiðursbókmenntaverðlaun Karen Blixen, sem hafa aðeins verið veitt þrisvar áður.
    Meðal myndlistarsýninga má nefna sýningu í Álaborg í nóvember á verkum Erró. Tryggvi Ólafsson, Ólöf Einarsdóttir, Jóhanna Óskarsdóttir og Helga Kristmundsdóttir héldu samsýningu á málverkum, grafík, vefnaði og keramik í september í Ebeltoft á Jótlandi og opnaði sendiherra þá sýningu.
    Listasýningin Elementer, sem haldin var í Sívalaturni í ágúst og september, vakti mikla athygli. Vigdís Finnbogadóttir opnaði þar sýningu á íslenskri abstraktlist eftir listamennina Bjarna Sigurbjörnsson, Guðjón Bjarnason, Guðrúnu Kristjánsdóttur og Helgu Egilsdóttur. Sýningin naut styrks Dansk-Islandsk Samfund og stóð sendiráðið að móttöku í tilefni hennar. Meðal annarra myndlistarsýninga má geta sýningar Birgis Andréssonar í Kaupmannahöfn og Sossu í Sct. Gertruds Galleri.
    Björn Steinar Sólbergsson hélt orgeltónleika í Sankti Mattheusarkirkjunni í Kaupmannahöfn í júní. Í sama mánuði hélt íslenskur Kvennakór Kaupmannahafnar tónleika undir stjórn Ingibjargar Guðjónsdóttur óperusöngkonu áður en kórinn lagði upp í söngferðalag til Íslands. Kvennakórinn og kirkjukórinn héldu fleiri tónleika í Kaupmannahöfn á árinu.
    Sendiherra hélt fyrirlestur um læsi, málrækt og menningararf Íslendinga á ráðstefnu sem samtökin Aktion Læsning héldu í Landtingssalen í danska þinghúsinu. Var þar um afar gott tækifæri að ræða til að kynna íslenska tungu og menningarrækt Íslendinga.
    Starfsemi í Jónshúsi var með miklum ágætum og fjölmargar sýningar íslenskra listamanna, upplestur rithöfunda og tónleikahald, rekstur bókasafns og skólahald fyrir íslensk börn auk félagsstarfs hafa farið fram í húsinu. Má segja að brotið hafi verið blað í rekstri hússins og starfseminni þar með ráðningu umsjónarmanns hússins í fullt starf í byrjun september á sl. ári.
    Meðal menningarviðburða sem fram fóru í Jónshúsi á sl. ári má geta eftirfarandi: Myndlistarsýningar: Stefán Berg (málverk), Árný Birna Hilmarsdóttir (gler og leirlistaverk). Upplestur: Þórarinn Eldjárn og Gyrðir Elíasson. Tónlist: Gitar Islandico, Eyrarsundskvartettinn (Snorri Heimisson, Haukur Gröndal, Björn Blöndal, Berglind Tómasdóttir), Ása Briem, Diljá Sigursveindóttir, Hljómsveit Hauks Gröndal. Handritaspjall: Stefán Karlsson sem bæði talaði á vegum Íslendingafélagsins og fyrir ræðismenn í Danmörku er þeir komu saman í Kaupmannahöfn í tilefni af 1. desember.

FRÁ LONDON:
    Eins og ráðuneytinu er kunnugt hefur — vegna hins fámenna starfliðs sem sendiráð Íslands hafa almennt á að skipa — oft reynst erfitt fyrir einstök sendiráð að sinna eins vel og skyldi öllum þeim fjölmörgu verkefnum er þeim ber með réttu að sinna, þ.m.t. menningar- og kynningarmálum. Þetta hefur m.a. leitt til þess að oft hefur ekki sem skyldi verið fylgst nógu vel með því sem er að gerast á þessu sviði og unnið nægilega úr þeim tækifærum sem gefast eða gætu haft þýðingu fyrir íslenska hagsmuni. Því ber að fagna þeirri byltingu sem orðið hefur á undanförnum árum í fjarskipta- og upplýsingatækni og nýtast mun sendiráðunum í framtíðinni verði þeim gert kleift að fylgja þeirri þróun eftir.
    Frá því að staða sérstaks menningarfulltrúa var lögð niður hefur þetta sendiráð ekki fengið, þótt eftir því hafi verið leitað nær árlega, neina fjárveitingu til að sinna þessum málaflokki eða fylgja eftir og hlúa að þeim vísi að menningarstarfsemi sem lagður var á tíma menningarfulltrúans. Því hefur, á allra síðustu árum, menningar- og kynningarstarfsemi sendiráðsins einkum falist í því að dreifa upplýsingum til aðila sem um þær hafa beðið. Svara fyrirspurnum og taka þátt í að skipuleggja menningarviðburði og aðra viðburði eftir því sem þurfa hefur þótt.
    Í þessu sambandi má til fróðleiks geta þess að sendiráðið, í samvinnu við menntamálaráðuneytið, er að skipuleggja þátttöku í dagskrá „The Dome“ (bresku aldamótahvelfingunni) í ágústlok á þessu ári, þar sem land og þjóð verður kynnt í tónum og myndum. Það á við um menningarmálin, allt eins og viðskipta- og pólitísku málin, að tekið er á móti gestum sem fræðast vilja um land og þjóð. Sendiráðið hefur boðið íslenskum listamönnum, búsettum í Bretlandi, að sýna verk sín í anddyri sendiráðsins. Hefur þessi tilhögun staðið í nær 4 ár.
    Því miður hefur fjárskortur oft hamlað þessari starfsemi sendiráðsins. Það er þó ekki nokkur vafi á að menningar- og kynningarstarfsemi er mjög þýðingarmikil og gagnleg landkynning.
    Sendiráðið fær fjöldann allan af fyrirspurnum á degi hverjum um land og þjóð. Mikið er um að blaðamenn hafi samband við sendiráðið til að fá aðstoð vegna greina sem þeir eru að skrifa, Íslandsferða sem þeir eru að fara í o.s.frv. Yfirleitt eru þessir blaðamenn frá virtum fjölmiðlum eins og t.d. The Times, International Herald Tribune, BBC (hvort tveggja útvarp og sjónvarp). Einnig hefur verið töluvert um að japanskir fjölmiðlar (aðallega sjónvarp) með fréttastofur í London hafi haft samband við sendiráðið áður en lagt er til Íslands.
    Það er heldur enginn vafi á því að söngkonan Björk hefur haft mikil áhrif á þann aukna áhuga sem virðist vera á Íslandi hér í landi. Danski menningarfulltrúinn í London telur að Ísland hafi á undanförnum árum fengið meiri fjölmiðlaumfjöllun en öll hin Norðurlöndin samanlagt.
    Allur þessi áhugi kostar tíma og fyrirhöfn sem stundum er erfitt að koma fyrir vegna annarra krefjandi verkefna sendiráðsins. Þrátt fyrir það reynir sendiráðið að svara af kostgæfni öllum þeim fjölmörgu fyrirspurnum sem til þess berast.
    Á árinu 1997 var, að frumkvæði sendiráðsins, stofnaður sjóður sem kenndur er við Egil Skallagrímsson. Auk sendiráðsins standa flest íslensku fyrirtækjanna á Bretlandseyjum að sjóðnum. Tilgangur sjóðsins er að efla ísenska menningu og listir á Bretlandseyjum og er styrkjum úthlutað tvisvar á ári. Styrkir eru veittri bæði einstaklingum og hópum til margvíslegra verkefna svo sem tónleikahalds, myndlistarsýninga, leiksýninga o.s.frv. Einnig hefur sendiherra og einstakir starfsmenn sendiráðsins styrkt menningarviðburði m.a. með teitum vegna útgáfu íslenskra nútímabókmennta, við opnanir á myndlistasýningum svo eitthvað sé nefnt.
    Íslendingasögurnar hafa flestar verið þýddar á ensku og önnur erlend tungumál, en minna hefur farið fyrir þýðingu nútímabókmennta. Það er því ánægjulegt að útgáfufyrirtækið „Mare's Nest Publishing“ í London er að gefa út íslenskar nútímabókmenntir og hefur sendiráðið verið í góðu sambandi við útgáfufyrirtækið. Gefnar hafa verið út bækur eftir Einar Má Guðmundsson, Thor Vilhjálmsson, Fríðu Á. Sigurðardóttur, Ólaf Gunnarsson, Guðberg Bergsson, Vigdísi Grímsdóttur og Þórarin Eldjárn og ljóðasafn sem ber nafnið „Brushstrokes of Blue - the Young Poets of Iceland“ og auk þess ljóðabókin „Voices from Across the Water“ eftir Matthías Johannessen og Kristján Karlsson.
    Haustið 1995 bauð University College London upp á nám í nútímaíslensku til BA-prófs. Er það í fyrsta skipti sem íslenska er kennd til prófs við háskóla utan Íslands og er það mikið og stórt skref í kynningu íslenskrar menningar. Sendiráðið sækir árlega fundi norrænu deildar skólans og hefur gott samband við íslenska lektorinn. Einnig sækir sendiráðið fundi í Nordic Academic Fund í London School of Economics sem styrkir heimsóknir norrænna háskólakennara í starfskynningu til LSE.
    Eins og kunnugt er var starfandi sérstakur menningarfulltrúi við sendiráðið í London frá miðju ári 1991 til haustsins 1994. Hafði hann sérstaka fjárveitingu til að sinna sínum verkefnum. Meginviðfangsefni hans voru að styðja og efla markaðssetningu og kynningu á íslenskri menningu erlendis. Þau störf sem hann vann, og þá sérstaklega í tengslum við afmælishátíð Lýðveldisins árið 1994, eru ráðuneytinu kunn og því óþarfi að tíunda nánar hérna.
    Það er skoðun sendiráðsins að kynning á íslenskri menningu og listum sé mjög jákvæð landkynning sem skili sínu til þjóðarbúsins m.a. í auknum áhuga á Íslandi og þar með ferðamannastraumi til landsins. Þetta er líka varanlegri landkynning en margt annað sem gert er og skilar sér ekki hvað síst til þess hóps ferðamanna sem fer vaxandi ár frá ári og kanna vill nýja og framandi áfangastaði á ferðalögum sínum um heiminn.
    Sendiráðið lítur svo á að full ástæða sé til að skipaður verði sérstakur menningarfulltrúi við sendiráðið í London til að sinna menningar- og kynningarstarfi svo hægt sé að nýta þau sóknartækifæri sem þar gefast.

FRÁ MOSKVU:
    Almennt langtímamarkmið er að stuðla að sem öflugustu menningarsamstarfi, einkum með það í huga að kynna Ísland í sem víðustu samhengi. Menningartengsl eru hér sérlega vel til þess fallin að koma á framfæri slíkri kynningu. Varla er nokkurs staðar eins mikill og almennur menningaráhugi og í Rússlandi. Þótt möguleikunum séu vissulega veruleg takmörk sett vegna smæðar sendiráðsins, og fjárskorts, er þó margt hægt að gera. Sendiráðið hefur kappkostað að ná tengslum við menningarstofnanir, og efla tengsl við sambærilegar stofnanir á Íslandi. Reynt verður að vekja öfluga starfsemi vináttufélags.
    Í þessu samhengi skal þess jafnframt getið að boð og risna gegna stærra hlutverki í Rússlandi en víðast annars staðar. Mjög sterk hefð er fyrir slíku hjá Rússum og litið á það sem ófrávíkjanlegan hluta slíks samstarfs. Sendiráðið mun koma á föstum árlegum þjóðhátíðarboðum.
    Unnið hefur verið að því að koma á tengslum milli Listasafns Íslands og Tretjakov- safnsins í Moskvu. Sendiráðið hefur náð góðu sambandi við Tretjakov-safnið og hefur komið fram mikill áhugi á tengslum við Ísland. Tretjakov-safnið er háborg rússneskrar myndlistar. Forstöðumaður Listasafns Íslands kom fyrir áeggjan sendiráðsins til Moskvu í aprílmánuði sl. og átti hér fundi. Afrakstur þeirra funda er samvinna á milli safnanna, sem gæti leitt til sýningaskipta, í Moskvu árið 2001 og Reykjavík árið 2002. Vel kæmi til greina að tengja opnun íslenskrar málverkasýningar í þessu virta safni opinberri heimsókn til Moskvu og „íslenskum dögum“.
    Sendiráðið hefur undanfarið ár stutt aukin tengsl Háskóla Íslands við Plekhanovstofnunina í Moskvu sem er virtasti háskóli í hagfræði og skyldum greinum í Rússlandi. Mikill hluti leiðtoga í rússnesku stjórnmála- og efnahagslífi hefur hlotið menntun sína þar. Verulegur áhugi er af hálfu Plekhanovstofnunarinnar. Rektor H.Í. sótti Moskvu heim í júní á síðasta ári og sendinefnd frá Plekhanov fór til Íslands mánuði síðar. Starfsmenn sendiráðisins hafa sótt stofnunina heim og átt ágætt samstarf við menn þar. Þess má geta að Plekhanov-stofnunin mun hefja kennslu í íslensku á þessu ári.
    Sendiráðið hefur einnig sett sér það mark að koma á formlegum og virkum samskiptum milli Háskóla Íslands og Moskvuháskóla sem verði víðtækara en það samstarf á hagfræði- og viðskiptasviðinu sem samvinna við Plekhanov býður upp á.
    Nú er í bígerð útgáfa á nokkrum Íslendingasögum og þáttum á rússnesku (tveggja binda verk) með fulltingi sendiráðsins. Gengið hefur verið frá samningi og verður verkið gefið út í mars eða apríl á þessu ári. Sendiráðinu tókst að tryggja fjárstuðning menntamálaráðuneytisins og íslenskra fyrirtækja í Rússlandi.
    Stefnt er að frekari slíkum verkefnum. Má þar sérstaklega nefna hugsanlega samvinnu við Sagnfræðistofnun Rússlands um útgáfu grunnskjala rússnesk(sovésk)-íslenskra samskipta. Svipaðar útgáfur hafa átt sér stað, eða eru í bígerð, í samvinnu Rússa og hinna Norðurlandanna. Þetta yrði að sjálfsögðu langtímaverkefni. Er hér með lagt til að farið verði út í þetta verkefni nú á 60 ára afmæli utanríkisþjónustu Íslands og stefnt að því að því ljúki árið 2003 þegar 60 ár verða frá upptöku stjórnmálatengsla. Annað langtímaverkefni er hugsanleg útgáfa íslensk-rússneskrar orðabókar, en orðabók Berkovs er nú illfáanleg og nokkuð komin til ára sinna. Æskilegt væri að reyna að koma á fót föstu skipulagi gagnkvæmra þýðinga/ útgáfa á sviði íslenskra og rússneskra bókmennta, sagnfræði og vísinda með stofnun sérstaks sjóðs. Sendiráðið mun vinna að því máli.
    Menningarsamskipti við önnur umdæmislönd sendiráðsins en Rússland hafa verið með allra minnsta móti. Sendiráðið telur að fyrsta skref í samskiptum við þessi ríki gæti t.d. falist í veitingu námsstyrkja til íslensku og bókmenntanáms. Menningartengsl við þessi ríki gætu verið mjög áhugaverð og gagnleg, ekki síður fyrir okkur Íslendinga en viðkomandi þjóðir sem eiga sér forna og merka menningu. Sendiráðið hefur hafið undirbúning að eflingu þessara tengsla, m.a. með því að fá nemendur til Jarðhitaskóla S.þ. og Sjávarútvegsskóla S.þ.


FRÁ NEW YORK:
    Aðalræðismaður í New York sinnir hefðbundnum ræðisstörfum auk samstarfi við Íslendingafélagið á staðnum. Aðalræðismaður gegnir jafnframt starfi varafastafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum. Á vegum aðalræðisskrifstofunnar hefur verið staðið að íslenskum menningarviðburðum, svo sem málverkasýningum og veittur stuðningur vegna bókaútgáfu um Ísland. Einnig hefur verið reynt að hvetja til þátttöku Íslendinga í norrænum sýningum.
    Náið samstarf hefur verið að undanförnu milli norrænu aðalræðisskrifstofanna í New York varðandi menningarmál. Eitt stærsta verkefni á því sviði er að búa í haginn fyrir komu Víkingasýningar Smithsoniansafnsins til New York en ráðgert er að sú sýning opni í Museum of Natural History í október næstkomandi. Í þeim mánuði verður mikið um dýrðir og margir atburðir sem tengjast Íslandi. Auk sýningarinnar verður vegleg dagskrá á vegum Landafundanefndar, norræna menningarmiðstöðin, „Scandinavian House“ verður formlega opnuð, víkingaskip munu leggjast að bryggju í borginni svo fátt eitt sé talið.
    Norrænu aðalræðisskrifstofurnar áforma að standa fyrir sameiginlegum viðburðum í tengslum við Víkingasýninguna sem minnir á víkingarfleifðina og þann menningarheim sem tengir þessi ríki saman. Segja má að norræn samvinna í tengslum við Víkingasýninguna muni gera Ísland enn sýnilegra í New York og vera til viðbótar við þá viðburði sem ráðgerðir eru á vegum Landafundanefndar. Það er mikilvægt að vel takist til með hátíðahöld vegna landafunda í New York sem flestir telja, að öðrum ólöstuðum, menningarháborg heimsins.
    Í New York eru starfandi tvö norræn vinafélög sem aðalræðisskrifstofa hefur tengst sterkum böndum.
    Annað þeirra er „American Scandinavian Society“. Á vegum félagsins hefur verið reynt að styðja við bakið á ungum listamönnum sem reynt hafa að feta sig áfram í stórborginni. Félagið hefur stutt við bakið á ungu listafólki frá Íslandi og á síðasta ári voru haldnar tvær myndlistarsýningar á vegum félagsins í samvinnu við aðalræðisskrifstofuna í New York.
Annað þessara norrænu vinafélaga, sem hefur átt náið samstarf við aðalræðisskrifstofu, er „American Scandinavian Foundation“, ASF.
    Félagið réðst í það stórvirki á síðasta ári að hefja byggingu norrænnar menningarmiðstöðvar í borginni, „Scandinavian House“. sem verður formlega opnað í október á þessu ári og mun verða menningarviðleitni Íslendinga í New York mikil lyftistöng. Aðalræðismaður Íslands tók á síðasta ári fyrstu skóflustunguna fyrir Íslands hönd að þessu húsi sem áætlað er að kosti fullbyggt um 20 milljónir Bandaríkjadala en þar að auki verður 4 milljónum dala varið til reksturs byggingarinnar. Stjórn ASF mun annast allan rekstur og sýningarstjórn en áformað er að náið samráð verði milli félagsins og norrænu aðalræðisskrifstofanna.
    Ríkistjórn Íslands reið á vaðið fyrir þremur árum, fyrst norrænna ríkisstjórna, með styrkveitingu til þessarar byggingar. Íslensk fyrirtæki hafa einnig sýnt sérstakan myndarskap og safnað miklu fé til hússins. Það er sérstakt gleðiefni að íslensk fyrirtæki lögðu snemma grunninn að því að bókasafn hússins yrði nefnt í höfðuð á Nóbelsskáldinu Halldóri Laxness.


FRÁ PARÍS:
    Meðal íslenskra menningarkynninga í París á síðastliðnu ári ber hæst Erró-sýninguna sem haldin var í ríkislistasafninu Jeu de Paume með styrk frá íslensku ríkistjórninni. Samskipti safnsins við íslensk stjórnvöld varðandi undirbúning sýningarinnar fóru um hendur sendiráðsins. Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, var við opnun sýningarinnar ásamt Catharine Trautmann, menningarmálaráðherra Frakklands. Daginn eftir áttu ráðherrarnir tvíhliða fund og ræddu menningarsamskipti landanna. Menntamálaráðherra nefndi þá hugmynd um íslenska menningarkynningu í París árin 2001 eða 2002 og vísaði til samkomulags landanna frá 1983 um menningar- og vísindasamvinnu, en í 7. gr. þess er hvatt til þess að skipulagðir séu í báðum ríkjunum listviðburðir sem miði að gagnkvæmri kynningu á menningu landanna. Franski menningarmálaráðherrann lýsti áhuga sínum á hugmyndinni en taldi ekki að af slíku verkefni gæri orðið í Frakklandi fyrr en eftir júní 2002. Mikilvægt væri að málið yrði tekið upp á næsta samráðsfundi landanna um framkvæmd menningarsamningsins sem væntanlega verður í apríl/maí nk. í Reykjavík. Menntamálaráðherra bauð menningarmálaráðherra Frakklands í opinbera heimsókn og hefur hún þegið boðið.
    Það er álit sendiráðsins að á samráðsfundinum í Reykjavík ráðist hvort af myndarlegri menningarkynningu geti orðið. Aðstoð franskra stjórnvalda er undirstaða þess að fá viðunandi húsnæði fyrir menningarkynningar í borg eins og París, þar sem framboð listviðburða er gífurlegt og barist um aðstöðuna.
    Af öðrum atburðum á sl. ári má nefna að Pétur Gunnarsson, rithöfundur, hlaut í nóvember norrænu bókmenntaverðlaunin á listahátíðinni „Borealis de Normandie“ sem haldin er árlega við háskólann í Caen og telja má helsta kynningaraðila í Frakklandi á bókmenntum Norðurlanda. Verðlaunin hlaut Pétur fyrir bókina Punktur punktur komma strik, sem kom út í franskri þýðingu Régis Boyer árið 1998, með styrk frá bókmenntakynningarsjóði. María Guðmundsdóttir hélt ljósmyndasýningu í UNESCO-byggingunni, Schola Cantorum tók þátt í kóramóti í Picardie, Eyjólfur Eyjólfsson, flautuleikari, hélt tónleika í október og Pétur Jónasson, gítarleikari, í desember. Sendiráðið aðstoðaði viðkomandi eftir því sem aðstæður leyfðu.
    Þrjár doktorsritgerðir á sviði íslenskra fræða voru varðar í desember 1999. Patrick Guelpa varði doktorsritgerð við Sorbonne um skáldskap Einars Benediktssonar „Visages de la poesie chez Einar Benediktsson (1864–1940)“. Héléne Tétrel varði einnig doktorsritgerð við Sorbonne um Karlamagnúsarsögu „L'Épisode de la guerre de Saxe dans la Chanson des Saines de Jean Bodel et dans la Karlamagnússaga. Avatars de la matiére épique“ og Christophe Pons varði doktorsritgerð við háskóla í Marseilles um samskiptakerfi Íslendinga við framliðna.
    Í kjölfar þess að í Madríd var lausráðinn sérstakur fulltrúi til þess að sinna einstökum menningarverkefnum hafa menningarsamskipti stóraukist. Á síðastliðnu ári var íslensk kvikmyndahátíð haldin í Barcelóna og Madríd og fyrsta íslenska málfræðin í forníslensku kom út á spænsku. Íslenskar bækur voru til sýnis í norræna bókabásnum á bókakaupstefnunni í Madríd, íslenskar sögur voru þýddar í norrænt safnrit og út kom spænsk þýðing á bók Guðbergs Bergssonar „Hjartað býr enn í helli sínum“. Nokkrar hugmyndir eru uppi um menningarviðburði á árinu 2000, þátttaka Íslands í bókakaupstefnunni í Madríd, hugsanleg bókmenntakynning í Barcelóna, þátttaka Íslands í málstefnu um jaðarsvæði Evrópu og sýn þeirra á Evrópusamrunann.
    Menningarsamningur við Ítalíu var undirritaður í Róm á síðasta ári en er ekki kominn til fullra framkvæmda. Ráðuneytisstjóri ítalska menningarráðuneytisins kom til Íslands í janúar í sambandi við opnunarhátíð menningarborgar Reykjavíkur.
    Sendiráðið hugleiðir með hvaða hætti sé unnt að koma á fastri farandsýningu sem auðvelt sé að senda um umdæmislöndin t.d. ljósmyndasýningu, sem byggð yrði upp á 50 – 100 römmum sem komið yrði fyrir í sérstökum kössum. Þarna gæti verið um að ræða sýningu um sögu og menningu Íslands, sem flytja mætti milli staða með hóflegum kostnaði.
Sendiráðinu berst talsvert af beiðnum frá áhugasömu fólki um fjárstyrk til þess að koma í framkvæmd ýmsum verkefnum sem tengjast kynningu á íslenskri menningu. Ekki er neinn liður á fjárlögum sendiráðsins til slíkra verkefna og eru þessar óskir því sendar í bréfi til ráðuneytisins með samriti til menntamálaráðuneytisins.
    Sendiráðið kom á sínum tíma með þá hugmynd að 1% af fjárveitingu til sendiráðsins verði sérstaklega merkt menningarmálum til þess að unnt verði að veita stuðning til áhugaverðra verkefna. Enn fremur má benda á kosti þess að stofnaður yrði íslensk-franskur menningarsjóður (og sjóðir sem tengdust öðrum umdæmislöndum sendiráðsins) sem væri undir stjórn valinna manna sem gætu á hverjum tíma metið allar þær umsóknir um styrki sem tengjast margvíslegum menningarverkefnum. Menningarsjóðir Íslands og Finnlands, Íslands og Svíþjóðar til að efla menningarsamskiptin gætu verið fyrirmynd slíkra sjóða gagnvart umdæmislöndunum hér og myndu einfalda og bæta starf sendiráðsins á þessu sviði. Íslensku fyrirtækin hér hafa lýst áhuga á íslenskri menningu sem tæki til að kynna starfsemi sína. Fyrirtækin verja háum upphæðum til kynningar og gæti vel verið að þau vildu leggja fé til menningarhátíðar.


FRÁ PEKING:
    Allt frá stofnun sendiráðsins í Peking hefur verið lögð mikil og vaxandi áhersla á að efla hvers kyns menningarsamskipti. Þar ræður sú grundvallarhugsun að fátt auki í jafnríkum mæli skilning milli fjarlægra þjóða eða færi þær nær hver annarri en gagnkvæm kynni af menningu og háttum. Meginþungi átaksins hefur beinst að Kína þar sem býr fimmtungur mannkyns. Um leið og fjarlægðin eykur þörfina fyrir kynningarstarf leggur hún stein í götu þess með því að ferðakostnaður er mun meiri en til allra annarra landa sem íslensk sendiráð starfa í. Um sum verkefnin hefur sendiráðið haft forgöngu en í öðrum tilvikum lagt hönd á plóginn með opinberum aðilum, þ. á m. utanríkisráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu, eða aðilum viðskiptalífsins sem góðu heilli veita slíku starfi vaxandi stuðning. Verulegur árangur hefur náðst.
    Meðal vel heppnaðra verkefna má sérstaklega geta yfirlitssýningar á íslenskri málaralist 20. aldar í Peking og Hong Kong á árinu 1998. Þar voru sýnd nálægt 60 verk eftir flesta helstu listmálara þessa tímabils. Vegleg sýningarskrá með litmyndum allra verka sýningarinnar og kínverskum skýringartexta, ásamt ritgerð eftir Halldór Björn Runólfsson listfræðing, hefur reynst frábær til kynningar á íslenskri myndlist meðal Kínverja síðan. Þá var öflug þátttaka í fyrstu alþjóðlegu myndlistarsýningunni í nýrri listamiðstöð í Qingdao, einni af framsæknustu borgum við sjávarsíðuna í Kína, árið 1999. Þar voru sýnd málverk og grafísk verk eftir listmálarana Ástu Ólafsdóttur og Tryggva Ólafsson svo og skúlptúrar eftir Gerði Gunnarsdóttur. Hlynnt var að framtaki Ineke og Sigurðar Guðmundssonar, en þau gengust fyrir stofnun Kínversk-evrópskrar listamiðstöðvar er tengist háskólanum í annarri ört vaxandi borg, Xiamen, sl. haust. Er þetta fyrsta stofnun sinnar tegundar í öllu Kína. Þau hjónin hafa verið búsett í landinu á 3ja ár og m.a. haldið uppi fræðslu um evrópska myndlist. Fyrsta myndlistarsýningin í listamiðstöðinni var á verkum Sigurðar. Síðan hafa fleiri evrópskir listamenn fylgt í kjölfarið. Sendiherra hefur flutt ávarp við opnun sýninga og ritað formálsorð í sýningarskrár þar sem fram á slíkt hefur verið farið og gripin hafa verið ýmis fleiri tækifæri til að halda á loft blómlegu listalífi íslensku.
    Úrval ljóða eftir 37 íslensk skáld í kínverskri þýðingu skáldsins Dong Jiping sá dagsins ljós haustið 1998. Flest ljóðin eru frá síðari hluta 20. aldar, valin af Sigurði A. Magnússyni rithöfundi. Hann kom til Kína í tilefni útgáfunnar og flutti þá fyrirlestra um íslenskar bókmenntir og landafundi við tvo helstu háskóla Pekingborgar. Um sama leyti birtist rit um norræna goðafræði, samið og saman tekið af Lin Hua er lengi starfaði á Íslandi og í Danmörku á vegum kínversku utanríkisþjónustunnar. Naut hann m.a. leiðsagnar íslenskra fræðimanna við undirbúning ritsins sem sendiráðið tók öflugan þátt í að kynna.
    Frumflutningur íslensku óperunnar Tunglskinseyjunnar eftir Atla Heimi Sveinsson fór fram í Peking vorið 1997. Tónleikar Rutar Ingólfsdóttur fiðluleikara og Gerrit Schuil píanóleikara voru haldnir í Harbin og Dalian sumarið 1998. Skömmu síðar fór Kristján Jóhannsson tenór með aðalhlutverk á sögufrægri sýningu óperunnar „Turandot“ eftir Puccini í gömlu keisarahöllunum, Forboðnu borginni í Peking. Voru listamanninum gerð góð skil í greinum víðlesinna blaða og útvarpsþáttur um hann náði eyrum hundruða milljóna. Kammersveit Reykjavíkur fór í tónleikaferð til Kína sl. haust og var einn viðburða er tengdust 25 ára afmæli hljómsveitarinnar. Hélt hún tónleika í stórborgunum Peking og Nanking. Öldutúnsskólakórinn, undir stjórn Egils Friðleifssonar, kom til Kína síðsumars 1999 til þátttöku í alþjóðlegu kóramóti í Peking. Hann heimsótti einnig borgina Baoding sem er í vinabæjatengslum við Hafnarfjörð. Allir hafa hinir íslensku listamenn notið einkar góðra undirtekta og er verulegur áhugi á framhaldi slíkra heimsókna.
    Sendiráðið hefur í starfi sínu hlúð að vinarbæjartengslum Hafnarfjarðar og Baoding sem eru einu vinabæjartengslin milli Íslands og Kína. Sendiherra hefur margsinnis heimsótt Baoding í tengslum við menningarviðburði og vörusýningar þar í borg. Afhenti hann m.a. borgaryfirvöldum listaverkið „Stjórnandinn“ eftir Gerði Gunnarsdóttur sem Hafnarfjörður gaf vinabænum í tilefni 50 ára afmælis Alþýðulýðveldisins Kína. Stefnt er að því að koma á vinarbæjartengslum við fleiri kínverskar borgir á næstunni. Enn fremur er verið að kanna möguleika þess að koma á vinaskólasambandi milli íslenskra og kínverskra skóla.
    Nú er fram undan eitt mesta og ánægjulegasta stórvirkið í menningarsamskiptum Íslands og Kína, sem ráðist hefur verið í til þessa, þ.e. fyrsta útgáfa Íslendingasagna á kínversku. Sjö valdar Íslendingasögur koma út um mitt árið, þ.e. Njála, Egils saga, Laxdæla saga, Vatnsdæla saga, Gunnlaugs saga ormstungu og Vínlandssögurnar. Með útgáfu þeirra síðastnefndu eru landafundirnir vestanhafs kynntir í tilefni 1000 ára afmælisins. Útgáfan í heild verður í tveimur veglegum bindum sem 6 íslenskir myndlistarmenn hafa myndskreytt að tilhlutan sendiráðsins, þau Ásta Ólafsdóttir, Guðjón Ketilsson, Helga Ármanns, Jón Axel Björnsson, Valgerður Bergsdóttir og Þorgerður Sigurðardóttir. Mun bókunum verða dreift til allra helstu landa þar sem kínverskumælandi fólk er fjölmennt svo sem Indónesíu, Malasíu og Singapúr. Þarna er því um að ræða eitt stærsta átak sem gert hefur verið til kynningar á íslenskum bókmenntaarfi. Vonir standa til að í kjölfarið geti komið svipuð kynning íslenskra nútímabókmennta.
    Kynning íslenskra kvikmynda hefur einnig átt sér stað þar á meðal gekkst sendiráðið fyrir því að settur var kínverskur texti við kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar „Hrafninn flýgur“. Og söng- og þjóðdansaflokkurinn „Bragarbót“ tók lagið og steig dans á ferðamálahátíð í hjarta Pekingborgar.
    Ísland er um þessar mundir rækilega kynnt í kínversku sjónvarpi eftir tvo vel heppnaða leiðangra kínverskra sjónvarpsmanna til Íslands á sl. ári fyrir forgöngu sendiráðsins í Peking í samstarfi við VUR, Útflutningsráð og fleiri aðila. Er í öðru tilvikinu um að ræða röð 10 þátta um hin ýmsu þjóðlífssvið. Í hinu var Ísland aðalefnið í einum vinsælasta spurningaþætti kínverska sjónvarpsins sem talið er að hundruð milljóna fylgist með.
    Í deiglunni eru ýmis verkefni af því tagi sem hér hafa verið talin upp í Kína, Japan, Kóreu, Tælandi - og Eyjaálfulöndunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, sum tengd listahátíðum í þessum löndum. Í flestum þessara landa er að finna kunnáttumenn um íslenskar fornbókmenntir og kennsla í þeim m.a. stunduð við háskólastofnanir í Japan.
    Í Japan verður umfangsmikil Íslandskynning á árinu 2001 í tengslum við stofnun sendiráðs í Tókýo. Kynningin verður þrískipt helguð viðskiptum, menningu og ferðaþjónustu.

FRÁ STOKKHÓLMI:
    Þar sem sendiráðin hafa ekki sérstaka fjárveitingu til menningar- og ynningarstarfsemi eru möguleikar til slíkrar starfsemi takmarkaðir. Þó er reynt að taka með einhverjum hætti þátt í þeim menningarviðburðum sem eiga sér stað í umdæmi sendiráðsins að frumkvæði annarra aðila og sendiráðið fær vitneskju um, t.d. með samvinnu á undirbúningsstigi, sem felst m.a. í að koma á tengslum við hugsanlega samstarfs- og/eða stuðningsaðila, dreifa upplýsingum um viðburði og síðast en ekki síst veita risnu í sambandi við frumsýningar eða sýningaropnanir.
    Í janúar 1999 sýndi leikhúsið „Pero“ í Stokkhólmi „Gunnlaug Ormstungu“ í leikgerð Peters Engqvist, en Bára Magnúsdóttir var í aðalhlutverki. Skömmu fyrir frumsýningu var haldin kynning á leikritinu fyrir grunnskólakennara, sem gætu síðan tengt leikhúsför með nemendum námsefni, bæði í sögu og bókmenntun. Í lok kynningar bauð sendiráðsfulltrúi upp á veitingar að „íslenskum hætti“, brennivín, flatkökur og hangikjöt, harðfisk o.fl. Eiginkona sendiherra og sendiráðsfulltrúi voru enn fremur viðstaddar frumsýningu leikritsins og veislu að henni lokinni.
    Leikrit Hlínar Agnarsdóttur, „Hótel Hekla“ var sýnt í Stokkhólmi í mars. Að frumsýningu lokinni var aðstandendum leikhúss, ásamt leikhúsgestum, boðið í síðkvöldverð á heimili sendiráðsfulltrúa.
    Anna Líndal, myndlistarmaður, hélt sýningu í virtu galleríi í miðborg Stokkhólms í maí. Sendiherrahjón voru viðstödd opnun sýningarinnar og sendiráðsfulltrúi gaf vín sem veitt var við það tækifæri.
    Í október var leikritið „Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón“, byggt á samnefndri skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur, sýnt í leikhúsinu Giljotin í Stokkhólmi. Vigdís Grímsdóttir var viðstödd frumsýningu og að henni lokinni bauð sendiráðsfulltrúi aðstandendum sýningarinnar o.fl. til síðkvöldverðar á heimili sínu.
    Vegna tilnefningar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs kom Hallgrímur Helgason til Stokkhólms og las úr verkum sínum og tók þátt í bókmenntaumræðum í Kulturhuset. Sendiherrahjón voru viðstödd þann viðburð.
    Í janúar 2000 var Ísland í brennidepli á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Gautaborg, „Göteborgs Filmfestival“. Á öðrum degi hátíðarinnar, laugardagskvöldi, héldu sendiherrahjón móttöku fyrir um 200 gesti, en meðal þeirra voru margir þekktir einstaklingar úr menningarlífi Svíþjóðar. Veitingar voru að „íslenskum hætti“, hangikjöt, harðfiskur, brennivín o.fl. Tveir félagar Kvæðamannafélagsins Iðunnar voru fengnir til að troða upp með stutta kynningu á rímnakveðskap sem vakti verðskuldaða athygli.
    Tekið skal fram að auk risnu aðstoðaði sendiráðið með einhverjum hætti við öll ofangreind tækifæri og eru ráðgjöf og kynning lykilorð í því sambandi.
    Sendiráðið leggur áherslu á að verða við beiðnum ýmissa félagasamtaka sem óska eftir fyrirlesara um Ísland. Sendiráðsfulltrúi hefur heimsótt ýmsar deildir símenntunarstofnunar verkalýðsins (Arbetarnas bildningsförbund), skóla og bókasöfn í þeim tilgangi. Hér er um ódýra og góða land- og menningarkynningu að ræða, sem áfram verður lögð áhersla á.
    Ýmsar hugmyndir eru í vinnslu varðandi menningar- og kynningarstarfsemi á árinu. Á vegum Sænsk-íslenska verslunarráðsins er verið að kanna möguleika á að halda veglega Íslandskynningu í verslunarmiðstöð í Täby í nágrenni Stokkhólms haustið 2000. Sendiráðið er í góðu og nánu sambandi við verslunarráðið. Síðasti fundur sænskra stjórnarmanna þess var haldinn í sendiráðinu og notaði sendiherra það tækifæri til þess að lýsa yfir stuðningi við slíkar fyrirætlanir. Hann lagði enn fremur áherslu á að slíkt tækifæri yrði að nýta sem best, m.a. með því að tengja menningarkynningu og almenna Íslandskynningu við slíka viðskiptakynningu.
    Samstarf sendiráðsins við „Samfundet Sverige-Island“ hefur verið í föstum skorðum undanfarin ár, en starfsemin hefur verið í lágmarki m.a. vegna þess að endurnýjun félagaskrár þess hefur gengið erfiðlega. Ákveðið hefur verið að gera í ár, á 70 ára afmæli félagsins, átak til að blása í það lífi. Af þessum sökum mun sendiráðið efla samstarfið við Samfundet Sverige-Island enn frekar.
    Hefð er komin á þátttöku sendiráðsins, með einhverjum hætti, í árlegu bókasýningunni í Gautaborg. Íslenskar bókmenntir verða í heiðurssæti haustið 2000 og væntanlega verður þátttaka sendiráðsins af þeim sökum öflugri en ella.


FRÁ WINNIPEG:
    Það sem rís hæst við upphaf landafundaársins í Kanada er vaxandi starfsemi í öllum þeim félögum og stofnunum sem tengjast Íslandi. Á árinu verða til dæmis opnuð tvö hús í Manitóba sem að hluta til eru fjármögnuð af íslenskum stjórnvöldum og Eimskipafélagi Íslands. Þar er um að ræða „New Iceland Heritage Museum í Gimli og ný uppgert húsnæði fyrir íslenska bókasafnið í Winnipeg.
    Hátíðahöldin í Kanada hefjast í Ottawa í apríl, þau ná hámarki með komu víkingaskipsins Íslendings til Nýfundnalands í júlí og Íslendingadeginum í Gimli í ágúst og svo hátíðahöldum í Manitóba í október. Hátíðahöldin standa samfellt í sjö mánuði. Um 150 atriði verða á dagskránni. Þau eru að mestu skipulögð af skrifstofu aðalræðismannsins í nánu samráði við félög og stofnanir heimamanna.
    Aðalræðisskrifstofan hefur unnið náið með öllum hópum Íslendinga á árinu og þar sem skipulagðir hópar hafa ekki verið til hafa nýir risið. Meðal nýjustu félaganna eru félögin í Montreal, í Halifax og Vinir Íslands í Ottawa. Félögin eru ómetanleg auðlind fyrir íslenska menningu, vinátta þeirra er óbrigðul og gefandi. Við opnun ræðismannsskrifstofunnar fékk ræðismaðurinn það hlutverk að undirbúa hátíðahöldin og að hafa sem best samband við fólk af íslenskum uppruna. Þessari starfsemi utanríkisþjónustunnar hefur verið einkar vel tekið.
    Hvergi í heiminum er annars eins fjöldi fólks af íslenskum ættum og í Kanada. Þar er að finna fjölmargar stofnanir, félög og samtök sem tengja sig við Ísland. Hér fer á eftir fer lauslegt yfirlit yfir félagsstarfsemina. Hún er rakin frá vestri til austurs.
    Í Bresku Kólombíu eru tvö félög. „Icelanders of Victoria“ sem stendur fyrir margskonar verkefnum. Styrkur þess fer vaxandi. Í Vancouver er starfið einna öflugast meðal fólks af íslenskum uppruna. Félagið heitir: „The Icelandic Canadian Club of Bristih Columbia“ og á Íslandshúsið. Þar er dágott bókasafn, gamalt að vísu.
    Í Alberta eru þrjú félög. Þau eru í Edmonton, Markerville og Calgary. Félagið í Calgary heitir „The Leif Eiriksson Icelandic Club“. Félagið stendur fyrir margvíslegri starfsemi og tekur myndarlega þátt í hátíðahöldunum í ár. Starfsemi félagsins í Markerville, litlum bæ, snýst að miklu leyti í kringum endurminninguna um Stephan G. Stephansson, þ.e.a.s. íbúðarhús skáldins og um rjómabúið sem starfrækt er sem safn. Stephan G. var gjaldkeri félagsins og beitti sér fyrir stofnun rjómabúsins. Rjómabúið er sýnt gestum og gangandi á sumrin.. Félagið tekur þátt í hátíðahöldunum meðal annars með því að taka á móti Brúðuleikhúsi Hallveigar Thorlacíus. Opinbert heiti félagsins er „The Stephan G. Stephansson Icelandic Society“. Í Edmonton starfar félag sem heitir „Edmonton Icelandic Society; Norðurljós.“ Félagsmenn eru hátt á þriðja hundrað. Starfsemin er öflug og stendur það fyrir sérstakri Íslandsviku í apríl.
    Í sléttufylkinu Saskatshewan er eitt félag sem sinnir íslenskum málefnum. Félagið tekur myndarlega þátt í hátíðahöldunum. Á árinu 1998 var afhjúpuð stytta af íslenskri fjölskyldu í Vatnabyggð, einkar athyglisvert minnismerki. Opinbert heiti félagsins er „Vatnabyggð; Saskatshewan Chapter of the Icelandic National League.“
    Manitóba er fjölmennasta byggðarlag Íslendinga í heiminum utan Íslands. Talið er að fólk af íslenskum uppruna telji um 100 þúsund manns í fylkinu. Starfsemin í Manitóba er með öllu ósambærileg við það sem gerist í öðrum fylkjum. Þar eru margar stofnanir og félög sem tengjast Íslandi og íslenskri menningu. Íslendingafélögin í Manitóba eru sex talsins: Frón, Árborg, Fálkinn, „Gimli Chapter INL“, „Lundar Chapter INL“ og félagið í Selkirk.
    Íslendingadagsnefndin í Gimli er ein mikilvægasta „stofnunin“ á vegum fólks sem er af íslenskum ættum í Manitóba. Íslendingadagurinn í Gimli er stórfyrirtæki. Í rauninni er um 3ja daga samfellda hátíð að ræða. Talið er líklegt að í þessu þrjú þúsund manna byggðarlagi verði um 50 þúsund manns á Íslendingadeginum í sumar.
    Íslenska bókasafnið við Háskólann í Manitóba er nú búið undir að flytja í betra húsnæði eftir myndarlega gjöf íslensku ríkisstjórnarinnar og Eimskipafélags Íslands til safnsins. Upphaf þess má rekja til bókagjafar Arnljóts Björnssonar í Gimli en hann gaf safninu allar bækur sínar alls um 1.300 bindi árið 1936. Safnið tvöfaldaðist þegar bækur frá Akademíu Jóns Bjarnasonar bættust við árið 1940. Menntamálaráðuneytið leggur reglulega fram nokkra upphæð til bókakaupa á Íslandi fyrir safnið.
    Íslenskudeildin við háskólann í Manitóba hefur starfað frá 1951. Þar eru kennarar þær Kirsten Wolf, prófessor, sem er í fastri stöðu, og Kristín Jóhannsdóttir. Markmið fjársöfnunar sem er í gangi er að tryggja báðar stöðurnar til frambúðar.
    Lögberg/Heimskringla er vikublað með um 1400 áskrifendum. Ríkisstjórnin hefur styrkt blaðið árlega með 8000 kanadískum dollurum, um 1/10 rekstrarkostnaðar.
    Safnið um Nýja Ísland í Gimli, „New Iceland Heritage Museum“ er safn minja og sögu íslenska landnámsins í Vesturheimi. Það hefur lengi verið starfrækt í gamla barnaskólanum í Gimli en fær fljótlega inni í nýrri Betelbyggingu sem er að rísa.
    Styttan af Jóni Sigurðssyni mætti teljast sjálfstæð „stofnun“ vegna þess að hún á sér merkilega sögu. Styttan er eins og styttan á Austurvelli. Þegar Íslendingar í Vesturheimi söfnuðu fjármunum til styttu Jóns Sigurðssonar, árið 1911, varð svo mikill afgangur af söfnunarfénu að unnt var að gera aðra styttu. Hún stendur fyrir framan þinghúsið í Winnipeg og snýr þannig að Jón horfir í norður, „heim“ til Íslands.
„Icelandic National League, INL“ er samband félaga sem nær yfir Norður-Ameríku. Innan vébanda félaganna eru um 2000 manns. Skrifstofa INL er í Gimli.
    Þegar undirbúningur hófst fyrir hátíðahöldin varð til nefndin „Millennium 125“. Nafnið endurspeglar 1000 ára afmæli landnáms Íslendinga í Vesturheimi og 125 ára landnámsafmæli Íslendinga við Winnipegvatn; í Gimli. Það varð úr að mynda nefnd með aðilum úr flestum fylkjum Kanada til að annast verkefnin. Nefndin er tengiliður fylkjanna í samvinnu við ræðismannskrifstofuna.
    Ræðismannskrifstofan var stofnuð í maí. Skrifstofan er að Donald Street 5 í Winnipeg. Þar er Lögberg einnig til húsa. Á skrifstofunni eru tveir ritarar, annar í hlutastarfi. Neil Bardal er nú kjörræðismaður Íslands í Gimli en hafði áður um árabil verið ræðismaður Íslands í Manitóba.
    Kanadísk íslenska stofnunin, „Canadian Icelandic Foundation“, hefur veitt fé undanfarin ár til einstakra verkefna eins og Snorra-verkefnisins. Stofnunin er landsstofnun með aðsetur í Winnipeg. Snorra-verkefnið fór af stað í fyrra, þegar 20 kanadísk ungmenni heimsóttu Ísland í sex vikur til að læra íslensku, kynnast jafnöldrum sínum og til þess að vinna. Framhald verður á Snorra-verkefninu.
    The Icelandic Canadian er tímarit sem kemur út einu sinni til tvisvar á ári.
    Í Ontaríó er eitt félag sem tengist Íslandi „The Icelandic Canadian Club of Toronto“. Félagsmenn eru um 600 talsins. Í hátíðahöldunum í ár teflir félagið fram margvíslegu efni. Þá verða hátíðahöld á tveimur öðrum stöðum í ár.
    Utanríkisráðherra afhjúpar minnismerki um landnám Íslendinga í Kinmount í júlí. Í Kinmount bjuggu Íslendingarnir við erfiðan kost um tíma. Hópur fólks, í samráði við Torontó félagið, stendur fyrir gerð styttunnar. Þá verður ljósmyndasýning íslensks-kanadísks myndlistarmanns í London í Suður-Ontaríó opnuð í október.
    Þegar undirbúningur hófst fyrir hátíðahöldin í Kanada beitti undirritaður sér fyrir því að kallað var til fólk með íslensk tengsl í Ottawa. Nokkrir í hópnum eru tengdir þinginu og ekki búsettir í höfuðstaðnum nema um þingtímann. Fyrsta félagið í Québec hefur verið stofnað og heitir það „Icelandic Canadian Club of Québec.“
    Reglubundið flug Flugleiða til Halifax hefur orðið til þess ásamt öðru að félagsleg starfsemi í kringum Ísland hefur orðið virkari en áður. Þá hefur verið stofnað í Halifax „The Icelandic Memorial Society of Nova Scotia.“ Á Nýfundnalandi er ekki félag en þar er þó mikil íslensk starfsemi. Í þessari upptalningu koma við sögu öll hin gömlu fylki, „province“, í Kanada, nema tvö, það er Prince Edward Island og New Brunswick. Þá er enn engin starfsemi tengd Íslendingum á norðursvæðunum. Þar var þó lengi einn Íslendingur áhrifameiri en aðrir; Vilhjálmur Stefánsson, landkönnuðurinn mikli.
    Sjá nánar um hátíðahöldin á vefsíðu: iceland2000.org.

VIÐAUKI 2

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


VIÐAUKI 3

Starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sendiskrifstofur og umdæmi.


(Mars 2000.)


    Samtals eru um 180 launaðir starfsmenn í utanríkisþjónustunni, þar af eru um 80 í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík og um 105 í sendiskrifstofum erlendis. Af þeim síðarnefndu eru um 70 útsendir (þar af 10 frá öðrum ráðuneytum) og 35 staðarráðnir. Ólaunaðir kjörræðismenn eru um 225, þar af 55 aðalræðismenn, 140 ræðismenn og 30 vararæðismenn. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar eru samtals um 410.
    Sendiskrifstofur erlendis (sendiráð, fastanefndir og sendiræðisskrifstofur) eru 17 í 14 löndum og 13 borgum. Umdæmislönd þeirra eru 81. Kjörræðisskrifstofur (ræðisskrifstofur skipaðar ólaunuðum ræðismönnum) eru 188 í 61 landi. Umdæmislönd sem heyra beint undir ráðuneytið eru 38. Ísland hefur stjórnmála- eða ræðissamband við samtals 119 ríki.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


VIÐAUKI 4

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


VIÐAUKI 5

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


VIÐAUKI 6

Helstu alþjóðastofnanir og -samtök sem Ísland á aðild að og framlög til þeirra.


(Mars 2000.)



    
I.     Sameinuðu þjóðirnar, sérstofnanir þeirra og skyldar stofnanir (utan alþjóðabankans) .
    II.     Alþjóðabankinn og skyldar stofnanir.
    III.     Aðrar alþjóðastofnanir og -samtök.
    IV.     Norðurlandastofnanir.
    V.     Aðrar svæðisbundnar stofnanir og samtök.

    Nokkrar aðrar alþjóðastofnanir og -samtök sem Ísland varða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.