Ferill 642. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1300  —  642. mál.




Skýrsla



umhverfisráðherra um möguleika á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

(Lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



    Á Alþingi 10. mars 1999 var samþykkt eftirfarandi þingsályktun: „Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, möguleika á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Umhverfisráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi árið 2000 með það í huga að unnt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð á aldamótaárinu.“
    Í nefndaráliti umhverfisnefndar með tillögunni kemur fram að í undirbúningi sé á vegum Sameinuðu þjóðanna sérstakt „Ár fjalla 2002“. Jafnframt er þess getið að fram hafi komið hugmyndir hjá þeim sem vinna að undirbúningi þess að kjörið væri að tilnefna Vatnajökulsþjóðgarð sem sérstakt framlag af Íslands hálfu í tengslum við það.
    Í kjölfar þessa skipaði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra starfshóp um Vatnajökulsþjóðgarð 24. nóvember 1999. Starfshópnum var falið það hlutverk, með vísun til framangreindrar þingsályktunar, að kanna í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa möguleika á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Starfshópurinn skyldi skila tillögum sínum til umhverfisráðherra 15. mars sl. Skýrsla starfshópsins fylgir hjálagt.
    Ljóst er af skýrslu starfshópsins að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs kallar á ýmsa undirbúningsvinnu, svo sem nánari athugun á eignarhaldi lands. Ráðuneytið mun í sumar vinna frekar að undirbúningi málsins og mun umhverfisráðherra gefa Alþingi skýrslu um stöðu þess á komandi haustþingi og leggja fram tillögur um hvernig best verði staðið að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Álit starfshóps um Vatnajökulsþjóðgarð.

1. Skipan starfshópsins.
    Starfshópinn skipuðu eftirtaldir:
    Hermann Hansson, bæjarfulltrúi sveitarfélagsins Hornafjarðar, formaður, skipaður án tilnefningar.
    Árni Bragason forstjóri, tilnefndur af Náttúruvernd ríkisins.
    Halldóra B. Jónsdóttir, bæjarfulltrúi sveitarfélagsins Hornafjarðar, tilnefnd af Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi.
    Ólafía Jakobsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, tilnefnd af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.
    Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
    Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur hjá óbyggðanefnd, tilnefnd af forsætisráðuneytinu.
    Sigurður Á. Þráinsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, skipaður án tilnefningar.
    Ritari starfshópsins var Hersir Gíslason, deildarsérfræðingur í umhverfisráðuneytinu.

2. Störf starfshópsins.

    Haldnir hafa verið fjórir fundir í starfshópnum, þrír í Reykjavík og einn á Hornafirði. Þeim atriðum sem þar hafa komið til umfjöllunar má skipta í þrennt:

A. Afmörkun.
    Fjallað hefur verið um eignarhald, þjóðlendumál, stöðu náttúruverndarmála, tengsl við önnur friðlýst svæði og svæði á náttúruminjaskrá, skipulag og afstöðu sveitarstjórna. Á fund starfshópsins kom Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins, til að skýra stöðu skipulagsmála á hálendinu.

B. Reglusetning.
    Fjallað hefur verið um reglur varðandi meðferð, rekstur og umgengni almennings, verndaráætlun og landnotkun.

C. Tekjur og útgjöld.
    Fjallað hefur verið um kostnað við stofnun og rekstur þjóðgarðs, mögulegar tekjur og efnahagslega þýðingu fyrir sveitarfélög á svæðinu.
    
    Fjallað verður nánar um hvert atriði fyrir sig þar sem við á í þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir.

3. Afmörkun Vatnajökulsþjóðgarðs.
3.1. Afstaða sveitarstjórna/landshlutasamtaka.
    Eftirtalin sveitarfélög liggja að Vatnajökli:
     a.      Ásahreppur.
     b.      Skaftárhreppur.
     c.      Sveitarfélagið Hornafjörður.
     d.      Fljótsdalshreppur.
     e.      Norður-Hérað.
     f.      Skútustaðahreppur.
     g.      Bárðdælahreppur.
    Með bréfi starfshópsins frá 7. febrúar 2000 var málið sent til umsagnar framangreindra sveitarfélaga og þriggja landshlutasamtaka, Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum (Eyþing), Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi (SSA) og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Þrjár hugmyndir að mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs voru settar fram sem umræðugrundvöllur. Fyrsta hugmyndin miðaðist við að Vatnajökulsþjóðgarður afmarkaðist af jöðrum jökulsins og Skaftafellsþjóðgarði eingöngu. Önnur hugmynd gekk nokkru lengra og náðu mörk þjóðgarðsins út fyrir jökuljaðarinn. Lengst var gengið í þriðju hugmyndinni þar sem ýmis jaðarsvæði voru tekin inn í þjóðgarðssvæðið. Farið var fram á rökstuddar athugasemdir og tillögur um stærð og önnur atriði.
    Svör bárust frá öllum sem leitað var til. Segja má að viðbrögð hafi verið ferns konar:

A. Fallist á fyrstu hugmyndina.
    Sveitarfélagið Hornafjörður, Bárðdælahreppur og Skútustaðahreppur auk landshlutasamtakanna Eyþings og SSA gátu fallist á að Vatnajökulsþjóðgarður markaðist af jöðrum Vatnajökuls og Skaftafellsþjóðgarði.

B. Afstaða Skaftárhrepps.
    Skaftárhreppur hafði nokkra sérstöðu meðal sveitarfélaganna þar sem í umsögn hans var ekki fjallað um neina hugmynd starfshópsins sérstaklega. Skaftárhreppur fagnaði þó undirbúningsvinnu að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og lýsti sig tilbúinn til viðræðna um að mörk þjóðgarðsins næðu út fyrir jaðar jökulsins í umdæmi hans, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

C. Afstaða ekki tekin.
    Norður-Hérað, Fljótsdalshreppur og SASS tóku ekki afstöðu til hugmynda starfshópsins. Mun það hafa stafað af því hversu lítill tími gafst til verksins, engin kynning hafði farið fram á málinu heima í héraði, skipulagsvinnu væri ólokið, auk þess sem ýmsum spurningum um áhrif og þýðingu væntanlegs þjóðgarðs væri ósvarað.

D. Öllum hugmyndum synjað.
    Ásahreppur lýsti sig mótfallinn öllum hugmyndum starfshópsins, ekki síst þar sem hreppurinn ynni nú að aðalskipulagi sem næði til hluta jökulsins.

    Í sumum umsagnanna kom fram það álit að ekki væri tímabært að stofna Vatnajökulsþjóðgarð.

3.2. Ábendingar og athugasemdir frá sveitarfélögum og landshlutasamtökum.
    Sökum knapprar tímaáætlunar starfshópsins var sveitarfélögum og landshlutasamtökum skammtaður mjög naumur tími til svara. Færi til að gaumgæfa hugmyndir starfshópsins, kynna málið heima í héraði og móta eigin tillögur var því í þrengsta lagi, sjá einnig kafla 6.3.
    Í umsögnum sveitarfélaga og landshlutasamtaka koma fram ýmsar ábendingar og fyrirspurnir um framhald málsins sem ástæða er til að reifa. Má þar nefna eftirfarandi atriði: Áhyggjur af fyrirkomulagi við stjórn þjóðgarðsins, þar á meðal að tryggt verði að heimamenn komi þar að, en honum verði ekki eingöngu stýrt frá höfuðborgarsvæðinu. Hver beri kostnað af stjórn og rekstri þjóðgarðsins. Hvernig verði tekið á núverandi landnotkun og landnýtingaráformum í framtíðinni, svo sem orkunýtingu, ferðaþjónustu, umferð, veiðum, eyðingu á ref og mink, beit og eyðingu gróðurs. Mikilvægi þess að samráð verði haft við landeigendur og heimamenn við stofnun þjóðgarðsins. Sveitarstjórnir eru ekki tilbúnar afsala sér forræði í skipulagsmálum. Nauðsyn þess að efla rannsóknir á náttúru og nýtingarmöguleikum áður en til stofnunar þjóðgarðs komi. Þá þarf óbyggðanefnd að úrskurða um eignarhald á landi áður en til þjóðgarðsstofnunar kemur.

3.3. Eignarhald á landi við Vatnajökul.
    Starfshópurinn óskaði eftir því að í umsögnunum kæmi fram hvaða jarðir ættu land að Vatnajökli, að því er talið væri. Tilgangurinn var að gera sér nokkra grein fyrir eignarhaldi við jökulinn. Eftirfarandi upplýsingar bárust:
     a.      Ásahreppur: Engar upplýsingar bárust.
     b.      Skaftárhreppur: Núpsstaður, Rauðaberg, Kálfafell, Núpar og Dalshöfði.
     c.      Sveitarfélagið Hornafjörður:
                  Í Öræfum: Skaftafell, Freysnes, Svínafell, Sandfell (?), Hof, Hofskot, Fagurhólsmýri, Hnappavellir og Kvísker.
                  Í Suðursveit: Fell, Reynivellir, Breiðabólsstaður, Hali, Gerði, Kálfafell, Leiti, Kálfafellsstaður, Jaðar, Brunnar, Brunnavellir, Borgarhöfn, Lækjarhús, Neðribær, Krókur, Gamli-Garður, Vagnstaðir, Skálafell 1 og Skálafell 2.
                  Á Mýrum: Flatey, Hólmur, Lambleiksstaðir, Einholt, Árbær, Brunnhóll, Holtahólar, Hólabrekka, Kiljuholt, Tjörn, Stóra-Ból, Holtasel, Haukafell, Rauðaberg 1, Rauðaberg 2, Hlíðarberg, Viðborð og Viðborðssel.
                  Á Nesi: Svínafell, Hoffell og Setberg.
                  Í Lóni: Stafafell og Brekka.
     d.      Norður-Hérað: Brú og Valþjófsstaður.
     e.      Fljótsdalshreppur: Engar upplýsingar bárust en þess ber að geta að Valþjófsstaður er í Fljótsdalshreppi.
     f.      Skútustaðahreppur: Reykjahlíð.
     g.      Bárðdælahreppur: Þar er talið að engin jörð eigi land að jökli.
    Samkvæmt þessu eiga yfir fimmtíu jarðir land að Vatnajökli og hugsanlega eru landeigendur mun fleiri. Gerður er fyrirvari um mögulegar villur upptalningunni. Ljóst er að mikil vinna getur orðið við að meta hugsanleg réttindi manna á þjóðgarðssvæðinu og ná samkomulagi við rétthafa í kjölfarið, sbr. einnig umfjöllun í kafla 3.4.

3.4. Þjóðlendumál.
    Eins og getið er um hér að framan liggur fjöldi eignarlanda að Vatnajökli og óvíst hvernig eignarhaldi er háttað á jöklinum sjálfum. Ekki hefur gefist tími til að kanna það nánar en greinir í kafla 3.3, sbr. einnig umfjöllun í kafla 6.1.
    Í 51. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, segir: „Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli ráðherra og landeigenda.“
    Vatnajökulssvæðið hefur ekki verið tekið til meðferðar hjá óbyggðanefnd en fyrirsjáanlegt er að svo muni verða þótt tímasetning liggi ekki fyrir. Verkefni óbyggðanefndar er að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, sbr. 7. gr. þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Sökum þess hve naumur tími er til stefnu eigi að takast að stofna Vatnajökulsþjóðgarð á árinu 2000 er ljóst að niðurstaða óbyggðanefndar mun ekki liggja fyrir í tæka tíð.
    Þar til niðurstöður óbyggðanefndar um mörk eignarlanda og þjóðlendna á þessu svæði liggja fyrir virðist staðan vera þessi: Samningar um kaup á jörðum eða hluta þeirra geta komist í uppnám þegar niðurstaða óbyggðanefndar liggur fyrir. Ríkið gæti hafa keypt land sem óbyggðanefnd teldi nokkrum missirum síðar utan eignarlanda og því eign ríkisins á grundvelli þjóðlendulaganna. Í þessu sambandi ber þó að athuga að fjármálaráðuneytið gæti hagað kröfugerð sinni á svæðinu í samræmi við þá samninga sem ríkið hefði gert þar. Með því móti kæmi ekki upp ágreiningur um mörkin hjá óbyggðanefnd. Í slíkum tilfellum mundi reyna á sjálfstæða rannsóknarskyldu óbyggðanefndar, sbr. 4. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Hversu langt nefndin gengur í þeim efnum liggur ekki fyrir. Ekki er þó hægt að útiloka að kveðinn verði upp úrskurður um þjóðlendu á svæði sem ríkið hefði ekki gert kröfu til sem slíkrar.
    Með vísan til framangreindra óvissuatriða verður að telja varlegast að leitað verði eftir samningum sem gera stofnun þjóðgarðs mögulega en kveða á um skýra fyrirvara, svo sem að uppgjör fari ekki fram fyrr en óbyggðanefnd hefur lokið störfum sínum á svæðinu (og málskotsfrestur liðinn), þ.e. að því marki sem viðkomandi réttindi eru háð óvissu.
    Jafnframt yrði því beint til óbyggðanefndar að umrætt svæði yrði tekið til meðferðar hið fyrsta, sbr. 9. gr. þjóðlendulaga. Þess ber þó að geta í því sambandi að nefndinni er heimilt að ákveða að slík beiðni verði ekki tekin til meðferðar fyrr en kemur að viðkomandi landsvæði samkvæmt ákvörðun nefndarinnar.

3.5. Frekari lögfræðileg álitaefni.
    Málinu tengjast fleiri álitaefni af lögfræðilegum toga. Sé afmörkun þjóðgarðsins miðuð við jökulröndina og samningum við hugsanlega rétthafa hagað eftir því geta vaknað spurningar um eignarrétt þegar land ýmist kemur undan jökli eða fer undir jökul þegar jökullinn hopar eða skríður fram.

3.6. Staða náttúruverndarmála.
    Þrjú friðlönd liggja að Vatnajökli, Lakagígar, Kringilsárrani og Lónsöræfi, og fjölmörg náttúrverndarsvæði á náttúruminjaskrá (sjá fylgiskjal III). Vatnajökull með eldvirkni sinni og jökulhlaupum og umhverfið allt hefur mikið verndargildi og mikla sérstöðu á heimsvísu. Með nýjum náttúruverndarlögum hefur gildi náttúruminjaskrár aukist og aðkoma náttúruverndarnefnda og Náttúruverndar ríkisins sem umsagnaraðila um byggingar og framkvæmdir á mestöllu svæðinu er tryggð. Unnið er að friðlýsingu Öræfajökuls ofan 1.100 m, en sú vinna er óháð hugmyndum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

3.7. Skipulag.
    Samkvæmt svæðisskipulagi miðhálendis Íslands skiptist Vatnajökull í náttúruverndarsvæði og almenn verndarsvæði. Suður- og austurhlutar jökulsins eru skilgreindir sem náttúruverndarsvæði en vestur- og norðurhlutar falla undir skilgreininguna almenn verndarsvæði. Í greinargerð um miðhálendi Íslands, svæðisskipulag 2015, segir m.a. um náttúruverndarsvæði og almenn verndarsvæði:
    „Náttúruverndarsvæðin ná yfir mikilvægustu og merkustu náttúruminjar hálendisins. Þau eru á einhvern hátt sérstæð eða einstæð vegna landslags, jarðmyndana, gróðurfars eða dýralífs. Svæðin ná yfir stórar landslagsheildir og óröskuð víðerni, svo sem stóra samfellda hluta gosbeltanna og víðfeðm votlendissvæði. Öll friðlýst svæði eru felld undir þennan flokk auk flestra svæða á náttúruminjaskrá. …
    Á náttúruverndarsvæðum er mikilvægt að settar verði ákveðnar reglur, sum verði friðlýst og í einhverjum tilvikum verði sett sérlög. Fyrir þau verði markaðar reglur varðandi hvers konar mannvirkjagerð, umferð og umgengni jafnt sumar sem vetur. …
    Almennu verndarsvæðin fela í sér alhliða verndargildi sem tekur til náttúruminja, þjóðminja, mikilvægustu lindasvæða. Enn fremur svæði með mikið útivistargildi, m.a. jaðarsvæði að byggð. Á almennum verndarsvæðum er í ríkara mæli uppbygging á ferðaþjónustu og vegagerð henni tengdri, en á náttúruverndarsvæðunum. …
    Á hluta almennu verndarsvæðanna verði mótaðar umgengnisreglur og/eða sett sérlög á sama hátt og á náttúruverndarsvæðunum.“
    Af framangreindu er ljóst að stofnun þjóðgarðs á Vatnajökli stangast ekki á við miðhálendisskipulagið heldur kæmi hún í eðlilegu framhaldi af þeirri skipulagsvinnu sem hefur verið unnin á miðhálendinu.

3.8. Niðurstaða um afmörkun.
    Niðurstaða starfshóps um Vatnajökulsþjóðgarð er að sá skammi tími sem er til stefnu, afstaða sveitarstjórna og óvissa tengd mörkum þjóðlendna og eignarlanda mæli með því að Vatnajökulsþjóðgarður miðist við jökuljaðarinn einvörðungu, auk Skaftafellsþjóðgarðs. Með því móti verði meiri sátt um málið og eignarréttarleg vandamál viðráðanlegri. Þessi afmörkun fellur auk þess vel að skipulagi miðhálendisins, sbr. kafla 3.7.
    Takist vel til með Vatnajökulsþjóðgarð á þessum grundvelli er að sjálfsögðu unnt að stækka svæðið síðar, svo sem með því að taka inn friðlönd og náttúruminjasvæði við jökulinn.

4. Reglur á þjóðgarðssvæðinu.
    Verði einungis þjóðgarðssæðið afmarkað af jökuljaðrinum og Skaftafellsþjóðgarði þarf einungis að setja einfaldar reglur um svæðaskiptingu á jöklinum. Æskilegt er að beina umferð vélknúinna ökutækja þannig að tiltekin svæði verði helguð göngufólki. Starfshópurinn bendir á eftirfarandi svæðaskiptingu:
—    Aðalakstursleiðin upp á jökulinn yrði upp Tungnárjökul, norðan Pálsfjalls og Háubungu að Grímsvötnum, leið sem hentar allt árið og er vinsælasti hluti Vatnajökuls fyrir umferð vélknúinna farartækja.
—    Breiðamerkurjökull er hentugur staður til aksturs upp á jökul yfir vetrarmánuðina og meðan aðkoman að Skálafellsjökli er hættuleg. Skálfellsjökull er hins vegar hentugur fyrir umferð vélknúinna farartækja.
—    Aðkoman að austan er fram hjá Snæfellsskála og upp á Brúarjökul og álíka góð aðkomuleið og Tungnárjökulsleiðin. Engin aðstaða er við jökuljaðarinn sem rýrir gildi svæðisins fyrir ferðaþjónustu.
—    Kverkfjöll eru vinsæll staður fyrir göngufólk. Aðkomuna þarf að bæta til að auðvelda nýtingu svæðisins. Þar er einnig nokkur umferð vélknúinna farartækja, sérstaklega á veturna.
—    Einnig er hægt að koma að jöklinum frá Kistufelli á Gæsavatnaleið inn á vestanverðan Dyngjujökul, en sú leið er lítið notuð vegna slæmrar aðkomu.
—    Svæðið frá Skaftárjökli og austur að Breiðamerkurjökli hentar illa til umferðar vélknúinna farartækja og hefur verið litið á það sem svæði göngufólks.

5. Rekstur Vatnajökulþjóðgarðs.
5.1.     Tekjur og útgjöld.
    Verði mörk Vatnajökulsþjóðgarðs látin ráðast af jökuljaðrinum og mörkum Skaftafellsþjóðgarðs er eðlilegast að allur rekstur verði svipaður og nú, þ.e. að stjórnmiðstöðin verði áfram í Skaftafelli. Ekki er talið að rekstrarkostnaður muni aukast að ráði en hann er nú um 11–15 millj. kr.
    Hagræði væri af því að tengja stjórn og rekstur aðliggjandi þriggja friðlanda við rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs. Væru þau hins vegar tekin með í væntanlegan þjóðgarð yrði að koma til meira fé til að standa straum af rekstri þessara svæða þar sem kröfur til þjóðgarða (um aðstöðu fyrir ferðamenn, landvörslu o.fl.) eru mun meiri en gerðar eru til friðlanda.

5.2 Stjórn þjóðgarðsins.
    Í umsögnum sveitarstjórnanna kemur fram það álit að með stofnun þjóðgarðs sé verið að færa stjórnsýsluna úr höndum heimamanna. Samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, er stjórn og rekstur þjóðgarða í höndum Náttúruverndar ríkisins. Ekki er heimild í lögunum til að færa stjórn þjóðgarða til heimamanna, sbr. 30. gr. laganna.
    Starfshópurinn telur mikilvægt að sveitarfélögin komi að stjórn og rekstri þjóðgarðsins og bendir í því sambandi á 51. gr. laganna þar sem umhverfisráðherra er heimilað að stofna til ráðgjafarnefndar um stjórn og rekstur þjóðgarða með aðkomu hlutaðeigandi sveitarstjórna. Breyta þyrfti skipulagi Skaftafellsnefndar og fjölga þar fulltrúum en nú á Hornafjörður eitt sveitarfélaga fulltrúa þar.

6. Atriði sem þarf að kanna nánar.
    Starfshópur um Vatnajökulsþjóðgarð var skipaður 24. nóvember 1999 og gert að skila tillögum sínum fyrir 15. mars 2000. Tíminn var því svo naumur að verkið varð ekki fullunnið. Það er álit starfshópsins að enn sé margvísleg undirbúningsvinna óunnin áður en stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs geti orðið að veruleika. Sama má marka af umsögnum sveitarfélaga og landshlutasamtaka. Nauðsynlegt er að sú vinna verði í beinu framhaldi af áliti starfshópsins, henni hraðað og til hennar vandað.
    Skulu hér talin nokkur mikilvæg atriði í þessu sambandi.

6.1. Réttindi og afstaða landeigenda.
    Lögfræðileg athugun þar að fara fram á eignarréttindum við og hugsanlega á jöklinum með tilheyrandi gagnaöflun. Huga þarf að útfærslu samninga við mögulega rétthafa.
    Starfshópurinn gerir það jafnframt að tillögu sinni að ráðherra beini því til óbyggðanefndar að hún taki Vatnajökulssvæðið til meðferðar hið fyrsta, sbr. 9. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998.

6.2. Efnahagslegur ávinningur.
    Starfshópurinn hvetur til þess að Þjóðhagsstofnun eða Byggðastofnun verði falið að meta efnahagslegan ávinning af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, m.a. með tilliti til starfsemi í ferðaþjónustu, landbúnaði og byggðaþróunar almennt.

6.3. Samráð við hagsmunaaðila.
    Starfshópurinn telur mikilvægt að við frekari undirbúning verði haft ríkulegt samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög, landeigendur, aðila í ferðaþjónustu og samstarfsnefnd um svæðisskipulag miðhálendisins.
    Í þessu sambandi ber þess að geta að ekki vannst tími til að bera hugmyndirnar sem voru reifaðar í 4. kafla varðandi umferð á jöklinum undir hagsmunaaðila.

6.4. Náttúrurannsóknir.
    Starfshópurinn hvetur til þess að fleiri náttúrurannsóknir verði gerðar á og við jökulinn. Slíkar rannsóknir eru m.a. mikilvægar til þess að í framtíðinni verði unnt að meta hugmyndir um stækkun þjóðgarðsins, þar á meðal með tilliti til möguleika á borð við orkunýtingu og friðun náttúruverðmæta.

7. Niðurstaða.
    Starfshópurinn telur mögulegt að taka ákvörðun um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á aldamótaárinu ef mörk þjóðgarðsins verða látin ráðast af jaðri jökulsins og mörkum Skaftafellsþjóðgarðs en bendir jafnframt á að mörg mál þurfi að leysa áður en til formlegrar stofnunar geti komið.


Fylgiskjal I.


Samantekt Náttúruverndar ríkisins vegna þingsályktunar


um Vatnajökulsþjóðgarð.



1. Þjóðgarðar á Íslandi.
    Í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sem tóku gildi 1. júlí 1999 kemur fram í 51. gr. að umhverfisráðherra getur að fengnum tillögum eða áliti lýst svæði þjóðgarð enda sé það sérstætt um landslag eða lífríki eða á því hvíli söguleg helgi þannig að ástæða sé til að varðveita það með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum. Meginreglan er sú að þjóðgarðar eru stofnaðir á landi í ríkiseign en sú breyting hefur orðið á löggjöfinni að nú er, þegar sérstakar ástæður mæla með því, möguleiki á að stofna þjóðgarð á landsvæði sem ekki er í ríkiseign, en um það þarf að nást samkomulag milli ráðherra og landeigenda. Það er hlutverk Náttúruverndar ríkisins, eins og fram kemur í 52. gr. laganna, að gera tillögur um verndaráætlun og landnotkun innan þjóðgarða sem ráðherra síðan staðfestir.
    Í byrjun árs aldamótaárið 2000 eru á Íslandi aðeins tveir þjóðgarðar friðlýstir samkvæmt lögum um náttúruvernd, en það eru þjóðgarðurinn í Skaftafelli sem stofnaður var árið 1967 og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum sem stofnaður var árið 1973. Í hugum flestra Íslendinga eru Þingvellir þjóðgarður en svæðið er friðlýst með sérlögum frá 1928 sem helgistaður allra Íslendinga og tók friðlýsingin gildi í ársbyrjun 1930.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið að stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi í framhaldi af niðurstöðu nefndar sem Össur Skarphéðinsson, þáverandi umhverfisráðherra, skipaði 14. september 1994, en nefndin skilaði tillögum sínum 1. júlí 1997. Mörk fyrirhugaðs þjóðgarðs liggja frá Svalþúfu á sunnanverðu nesinu en þar eru landamerki jarðanna Dagverðarár og Malarrifs, austur fyrir Háahraun og upp í jökul og fylgja jökulhettunni en síðan niður austan Sjónarhóls, til vesturs norðan Klukku í norðanverðum Hreggnasa og með Móðulæk niður undir Írskubúðir þar sem mörkin sveigjast til norðausturs, inn fyrir Gufuskála. Margir eru þeirrar skoðunar að miðað við þessi mörk sé aðeins um hálfan þjóðgarð að ræða þar sem ekki er tekið tillit til landslags og aðeins hluti eldfjallsins, Snæfellsjökuls, sem setur svo sterkan svip á landið er innan marka fyrirhugaðs þjóðgarðs.

2. Þjóðgarðar í alþjóðlegu samhengi.
    Upphaf og uppruni þjóðgarða á rætur að rekja til Bandaríkja Norður-Ameríku á 19. öld í kjölfar aukinnar nýtingar á víðernum landsins. Stofnuð voru samtök náttúruunnenda með það að markmiði að vernda svo til ósnortna náttúru Yellowstone-svæðisins, en 1872 var þar stofnaður þjóðgarður. Í nýlendum Breta í Kanada, Ástralíu og á Nýja Sjálandi voru stofnaðir nokkrir þjóðgarðar áður en 19. öldinni lauk. Það var A.E. Nordenskjold sem kynnti þjóðgarðahugmyndina í Evrópu og varð Svíþjóð fyrsta land álfunnar til að stofna þjóðgarð, en það var árið 1909. Það var fyrst með stofnun Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna, IUCN, árið 1948 að verulegur skriður komst á stofnun þjóðgarða en innan samtakanna var sett á fót sérstök þjóðgarðanefnd árið 1958.
    Friðlýsing landsvæða á alþjóðavísu hefur að meira eða minna leyti byggst á flokkunarkerfi IUCN en flokkunarkerfið hefur verið í stöðugri þróun síðustu 30 ár. Niðurstaða IUCN-ráðstefnunnar í Caracas árið 1994 var að friðlýst svæði ættu að falla innan eftirfarandi skilgreiningar: Svæði á landi og/eða sjó, sérstaklega mikilvægt til verndar og viðhalds líffræðilegs fjölbreytileika, náttúru- og menningarminja, og þar sem stjórnun og framkvæmdir innan þess eru í samræmi við lög þar að lútandi. Þá kemur einnig fram að reglur og flokkar friðlýstra svæða geta verið margvíslegar en meginmarkmið skulu taka mið af vísindarannsóknum, verndun víðernis, verndun tegunda og erfðafræðilegum sérkennum, verndun sérstakra náttúru- og menningarminja, ferðaþjónustu og útivist, umhverfisfræðslu og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, svo og að viðhalda menningarminjum og einkennandi siðvenjum.
    Í skilgreiningu IUCN er þjóðgarður svæði sem friðlýst er fyrst og fremst til að vernda vistkerfi, eitt eða fleiri, en einnig til þess að tryggja almenningi útivist í náttúrulegu umhverfi, en þar segir: Natural area of land and/or sea, designated to (a) protect the ecological integrity of one or more ecosystems for present and future generations, (b) exclude explotation or occupation inimical to the purposes of designation of the area and (c) provide a foundation for spirutual, scientific, educational, recreational and visitor opportunities, all of which must be environmentally and culturally compatible. (1997 United Nations List of protected Areas. IUCN, Gland, Sviss, og Cambridge, Englandi. 1998).



Land

IUCN-
flokkun
Vernd náttúru- minja
Vernd
landslags
Aðgengi almennings og fræðsla Félags- og efnahagsleg
þróun
Austurríki
V . . .
England og Wales
V . . . .
Frakkland
II . . .
Holland
II . . .
Írland
II . . .
Ísland
II . . .
Ítalía
II . . .
Kanada
II . . . .
Svíþjóð
II . . .
Þýskaland
II . . .

1. tafla. Samanburður á markmiðum þjóðgarðsstofnunar nokkurra landa. Ferningarnir merkja meginástæðu fyrir stofnun þjóðgarðs en hringirnir merkja viðbótarástæðu. (Heimild: K. Bishop, M. Green og A. Phillips, 1998. Upplýsingar um Ísland er viðbót við upprunalega heimild.)

    Þjóðgarðshugtakið (national park) er í dag notað fyrir friðlýst svæði sem hafa ólíka stjórnun. Aðgengi getur verið mismunandi, t.d. í Frakklandi þar sem takmarkanir eru litlar sem engar og í Sviss þar sem strangar reglur eru um aðgengi, svo sem um hvert má fara og hvenær. Annað dæmi eru þjóðgarðar sem stofnaðir eru vegna sérstakrar landslagsheildar, friðlýstir af viðkomandi ríki en að mestu í eigu fjölmargra einstaklinga. Framkvæmdir og umferðarréttur eru háð nokkuð ströngum reglum sem virkt eftirlit er með eins og dæmi eru um í Hollandi eða samkvæmt samkomulagi sem byggist á skipulagsuppdrætti eins og í Englandi og Wales. Að lokum má nefna að skipulag þjóðgarða með tilliti til útivistar er mismunandi t.d. á Ítalíu, í Englandi og Wales þar sem aðaláhersla er fyrst og fremst lögð á lengri eða skemmri gönguleiðir og náttúruskoðun eða Frakklandi þar sem einnig er að finna mikla uppbyggingu skíðamannvirkja fyrir útivist, ferðaþjónustu og íþróttir.
    Stofnun þjóðgarða fyrr á árum miðaðist ekki við uppbyggingu viðkomandi dreifbýlis eða velsæld viðkomandi samfélags. Þjóðgarðar voru yfirleitt stofnaðir að frumkvæði vísindamanna og náttúruverndarsinna og þá miðað við að landsvæðið væri merkilegt á heimsvísu eða landsvísu frekar en að það hefði staðbundið gildi. Áhersla var lögð á að svæðið væri arfur allrar þjóðarinnar. Á síðari árum hefur verið nokkur breyting á þessu og sem dæmi má nefna að við vinnu að stofnun þjóðgarða í Loch Lomond og Trossacs og hálendissvæðinu Cairngorms í Skotlandi er markmiðið að þjóðgarðarnir skuli vera til hagsbóta fyrir íbúa þessara sérstöku svæða. Markmiðið er byggt á þrenningunni: fólk – vinna – svæði.
    Aukin áhersla er á samvinnu við aðra um landnýtingu og starfsemi, svo sem innan landbúnaðar, smáiðnaðar og ferðaþjónustu, með það að markmiði að styrkja efnahag svæðisins og þar með talið þjóðgarðsins. Fyrri landnýting svæðisins getur verið meginástæða þess að svæðið er friðlýst. Í þessu sambandi má t.d. nefna svæði þar sem hefur verið stunduð hófleg beit þannig að blómgróður hefur notið sín, jafnvel mjög sjaldgæfar tegundir. Þegar beit hefur síðan verið hætt hefur einhver tegund sem beitin hélt niðri, t.d. burkni, sprottið sem aldrei fyrr og það leitt til einhæfs gróðurlendis í stað fjölbreytileika. Annað dæmi er frá Gettisburg- þjóðgarðinum í Bandaríkjunum en árið 1963 var orrustuvöllurinn, sem er meginástæða fyrir friðlýsingu svæðisins, friðaður eins og annað landsvæði innan þjóðgarðsins. Orrustan í Gettisburg fór fram á ökrum en vegna friðunarinnar náðu furutegundir að vaxa á svæðinu. Það var síðan árið 1980 að stjórn þjóðgarðsins ákvað að koma svæðinu í fyrra horf með því að fella fururnar og annan trjágróður sem náði sér á strik eftir friðunina. Í þjóðgarðinum í Skaftafelli eru uppi hugmyndir um að halda við heimatúnunum með hóflegri beit, þ.e. framan við Hæðir, Sel og Bölta.

3.  Útivist og umferð ferðafólks í Vatnajökulsþjóðgarði.
    Þjóðgarðar víðs vegar um heim laða til sín gesti og í þessu sambandi hafa þjóðgarðsyfirvöld þurft að leggja í ýmsar framkvæmdir til þess að ferðamenn fái notið sérkenna svæðisins. Mikil áhersla hefur verið á umhverfisfræðslu og stígagerð. Frá því að þjóðgarðurinn í Skaftafelli var stofnaður hefur þjónusta við ferðamenn í næsta nágrenni aukist til muna, en þrátt fyrir það getur reynst erfitt að fá gistirými í nágrenni þjóðgarðsins á sumrin.
    Brýnt er að strax við stofnun þjóðgarðs verði tekið mið af þörfum ferðaþjónustu sem þó skal vera í anda sjálfbærrar nýtingar. Skipuleggja þarf ferðaþjónustu jafnt innan þjóðgarðsins sem á jaðri hans og það þarf að gera í samstarfi við heimamenn. Í upplýsingamiðstöð Þjóðgarðsins í Skaftafelli veita landverðir upplýsingar um útsýnisferðir í nágrenninu og bóka í þær sé þess óskað. Góðar upplýsingar um hvað er í boði í sveitarfélaginu getur leitt til þess að ferðamaðurinn dvelji þar lengur en í upphafi var ætlað, en það er til hagsbóta fyrir sveitarfélagið.
    Þegar ákveðið hefur verið að stofna Vatnajökulsþjóðgarð er brýnt að fulltrúar rekstraraðila ferðaþjónustu á svæðinu, sveitarstjórn og fulltrúar Náttúruverndar ríkisins vinni sameiginlega að skipulagi þjónustukjarna fyrir þjóðgarðinn. Helstu aðkomuleiðir inn að jaðri jökulsins eða á jökulinn eru í Skaftafelli, á Hnappavöllum, við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, við Skálafellsjökul, við Stafafell í Lóni, við Snæfell, Kverkfjöll í Kringilsárrana og Tungnaárjökul að vestan. Meðal þess sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir er að skipulagi verði komið á umferð á og við Vatnajökul. Taka þarf frá svæði fyrir hefðbundna útivist þar sem ferðamenn óska eftir því að njóta öræfakyrrðarinnar en einnig verður að taka tillit til umferðar vélknúinna farartækja sem þegar er fyrir hendi í tengslum við ferðaþjónustu.
    Ef tekið er mið af skilgreiningu IUCN má ljóst vera að mörkin eru knöpp sem starfshópur umhverfisráðuneytisins um Vatnajökulsþjóðgarð hefur lagt til þar sem aðeins er gert ráð fyrir landsvæði framan við jökuljaðar innan þjóðgarðsins í Skaftafelli, en annars fylgja mörkin jökulhettunni. Aðilar í ferðaþjónustu sem rætt hefur verið við vegna tillögunnar eru almennt sammála um að mörk þjóðgarðsins ættu að liggja utar þannig að jökulhettan og landið næst jöklinum verði innan þjóðgarðsmarka. Aðstaða fyrir ferðamenn og þjónustumiðstöðvar þurfa að vera innan þjóðgarðsins en þær helstu eru í Þjóðgarðinum í Skaftafelli, við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, við Skálafellsjökul, í Lónsöræfum í Stafafellsfjöllum, við Maríutungur sunnan Snæfells, við Kverkfjöll, við Kistufell austan í Dyngjujökli og í Jökulheimum við Tungnaárjökul. (Starfshópur um Vatnajökulsþjóðgarð: Hugleiðingar um Vatnajökulsþjóðgarð og álit starfshópsins, 15. mars 2000).
    Við undirbúning að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er brýnt að könnuð verði öll landnotkun á jöklinum og við jaðar hans en á jöklinum eru m.a. stundaðar rannsóknir, ferðamennska og ferðaþjónusta. Við jaðar jökulsins er auk þess stundaður landbúnaður. Á undirbúningsstigi þarf einnig að vera mikið og gott samband við þá er eiga land að jökli, sveitarstjórnir og aðra notendur á svæðinu, ekki síst við ferðaþjónustuaðila, bæði stóra og smáa.
    Nokkuð hefur verið rætt um hugsanlega árekstra ferðaþjónustuaðila, þeirra sem eru með gönguferðir annars vegar og hins vegar þeirra sem bjóða t.d. vélsleðaferðir. Í því sambandi hefur verið bent á þá möguleika (1) að takmarka fjölda farartækja upp á jökulinn, (2) að heimila umferð ökutækja á ákveðnum svæðum eða (3) heimila umferð eftir sérstökum leiðum. Flestir eru þeirrar skoðunar að ekki þurfi að koma til árekstra mismunandi ferðahópa enda séu vélknúin farartæki fyrst og fremst á ákveðnum leiðum. Einnig hefur verið lagt til að takmörkuð verði umferð vélknúinna farartækja að Hvannadalshnúki yfir sumarmánuðina.
    Bent hefur verið á að ferðaþjónusta er mest á jaðarsvæði jökulsins. Ferðafélag Íslands og deildir þess eiga skála við jökulinn austan- og norðanverðan en þeir eru í Lónsöræfum, Geithellnadal, við Kollumúlavatn, Geldingafell, Snæfell, í Kverkfjöllum og í Nýjadal. Heldur fjær liggja skálarnir í Drekagili, Herðubreiðarlindum, við Bræðrafell og Dyngjufell.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Ferðaþjónusta sem nú þegar tengist Vatnajökli og nágrenni hans eru jeppaferðir, snjósleðaferðir, skíðaferðir, ísklifur og gönguferðir, svo eitthvað sé nefnt. Jöklaferðir hf. á Höfn sérhæfa sig í ævintýraferðum á Vatnajökul og er um styttri og lengri ferðir að ræða. Við Skálafellsjökul hefur fyrirtækið reist skálann Jöklasel í 840 m hæð og eru þar boðnar alhliða veitingar, sæti eru fyrir 80 manns og svefnpokapláss í kojum fyrir um 30 manns. Eins og nærri má geta er útsýnið þaðan stórkostlegt (www.eldhorn.is/glaciert).
    Aðrir ferðaþjónustuaðilar, t.d. Íslenskir fjallaleiðsögumenn sem hafa aðstöðu í Skaftafelli yfir sumarmánuðina og Öræfaferðir sem gera út frá Hofsnesi í Öræfum, bjóða upp á margs konar ferðir á og við jökulinn. Fulltrúar fyrirtækjanna sem rætt var við eru á einu máli um að þátttaka í ferðum þeirra hefur aukist mikið á milli ára. Leggja fulltrúar ferðaþjónustunnar áherslu á að settar verði skýrar reglur um meðferð sorps, t.d. að óheimilt verði að skilja rusl eftir á jöklinum heldur beri ferðamönnum að taka það með sér til byggða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


      Meðal þeirra sem stunda rannsóknir á jöklinum og í nágrenni hans er Raunvísindastofnun Háskólans og sem m.a. mælir þykkt jökulíssins með íssjá, en slíkar mælingar á jöklum landsins hafa verið stærsta einstaka verkefni stofnunarinnar á síðustu áratugum. Teiknuð eru nákvæm kort af jökulþykktinni og af landslagi undir jöklinum, svo og legu vatna- og ísaskila. Niðurstöður mælinganna veita margs konar fróðleik um landmótun og jarðfræði.




    Raunvísindastofnun vinnur einnig að rannsóknum á jarðhita í Grímsvötnum í Vatnajökli og á orsökum og eðli Skeiðarárhlaupa. Komið hefur verið upp sjálfvirkri rannsóknastöð á Grímsfjalli vegna þessa verkefnis. Sem dæmi má nefna að umbrotin í Vatnajökli og afleiðingar þeirra hafa verið rannsökuð ítarlega fyrir sérstakra fjárveitingu frá Alþingi.
    Einnig ber að nefna umfangsmiklar veðurathuganir sem hafa verið gerðar í sjálfvirkum veðurstöðvum á Vatnajökli undanfarin sumur, ásamt mælingum á afkomu jökulsins og hreyfingu í þeim tilgangi að lýsa breytingum á rúmmáli hans, afrennsli leysingarvatns til jökulánna, tengslum afkomu við veður, og viðbrögðum jöklanna við loftslagsbreytingum (www.hi.is).
    Til þess að tryggja megi möguleika náttúruunnenda á útivist í öræfakyrrð og möguleika vísindamanna að stunda rannsóknir á jöklinum og innan fyrirhugaðs þjóðgarðs er nauðsynlegt að fulltrúar allra hafi tækifæri til að koma með ábendingar um reglur fyrir svæðið. Ætíð ber þó að hafa í huga að friðlýsing á að tryggja verndun þess sem er sérstakt bæði hvað varðar náttúru- og menningarminjar svo að núlifandi og komandi kynslóðir fái notið svæðisins.

4. Áhrif þjóðgarðs á samfélag.
    Stofnun þjóðgarðs getur aukið verulega tekjur viðkomandi sveitarfélags. Árið 1997 var stofnaður í Austurríki þjóðgarðurinn Donau-Auen. Þá voru byggðar gestastofur og upplýsingamiðstöðvar, lagðir göngustígar og komið upp annarri aðstöðu fyrir væntanlega gesti. Áætlað hefur verið að framkvæmdirnar hafi skilað um 1,25 milljónum punda (GBP) til byggingariðnarins og skapað um 20–35 ný störf. Þá styrkir stofnun þjóðgarðsins störf (25–50) sem fyrir voru innan skógræktargeirans vegna þjónustu við ferðamenn.
    Erfitt er að meta margföldunaráhrif þjóðgarðs á tekjur og tekjumöguleika viðkomandi sveitarfélags. Það er e.t.v. best gert með því að benda á ný störf innan þjóðgarðsins og utan, en þá er átt við starfsmenn þjóðgarðsins, verktaka sem vinna fyrir hann og ýmis þjónustustörf.
    Fjöldi starfsmanna hvers þjóðgarðs ræðst af þeirri þjónustu sem í boði er og getur munurinn verið mikill milli landa og einnig milli þjóðgarða í sama landi. Í þýska þjóðgarðinum Bayerischer Wald starfa um 200 starfsmenn. Í þjóðgörðum í Austurríki starfa allt frá einum og upp í 50 starfsmenn og í sumum tilfellum er aðeins um sjálfboðaliðastarf að ræða. Árið 1994 voru 900 starfsmenn í 34 þjóðgörðum í Frakklandi. Í 11 þjóðgörðum í Englandi og Wales er fjöldi starfsmanna rétt yfir 1.100 manns. Þetta eru starfsmenn þjóðgarða en önnur störf skapast einnig í viðkomandi sveitarfélagi. Það hefur t.d. verið áætlað að fyrir áðurnefnd 900 störf innan franskra þjóðgarða skapist um 1.300–1.400 störf innan verktakageirans og um 2.800–3.200 störf innan þjónustugeirans.
    Í þjóðgarðinum í Skaftafelli starfar einn þjóðgarðsvörður allt árið en auk þess starfa þar landverðir yfir sumarmánuðina og rekstrarárið 1999 voru vinnuvikur þar alls 61. Sú breyting varð þar þá að tjaldsvæðið ásamt annarri þjónustu var leigt út en áður sáu landverðir um innheimtu, eftirlit og umhirðu. Í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum starfar einnig einn þjóðgarðsvörður allt árið og eins og í Skaftafelli starfa þar landverðir yfir sumarmánuðina. Landverðir í Jökulsárgljúfrum sjá um tjaldsvæði innan þjóðgarðsins og voru vinnuvikur landvarða í þjóðgarðinum alls 114,5 sumarið 1999. Í framtíðinni stendur til að bjóða út rekstur tjaldsvæðisins og rekstur tengdan því. Öll verktakaþjónusta í þjóðgörðunum tveimur er að sjálfsögðu í höndum heimamanna.
    Eitt af meginmarkmiðum með með því að stofna þjóðgarð er fræðsla og er það í samræmi við 1. gr. laga um náttúruvernd en þar segir: „Lögin eiga að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundveli sjálfbærrar þróunar.“ Markmið með umhverfisfræðslu á staðnum er að leiðbeina gestum svæðisins að „lesa landið þ.e. að átta sig á því sérstæða sem þar er að finna, hvort heldur stórt eða smátt. Á undanförnum árum hefur verið lögð aukin áhersla á óformlega umhverfisfræðslu og er hún gjarnan nefnd umhverfistúlkun. Í þjóðgörðunum og á friðlýstum svæðum þar sem landverðir starfa er í boði umhverfistúlkun sem fer þannig fram að landvörður fer í stutta gönguferð með gestum og skýrir það sem fyrir augu ber, hvernig viðkomandi fyrirbæri hefur myndast, mikilvægi þess, búsvæði ákveðinna tegunda og ef menningarminjar, t.d. rústir, eru á staðnum eru gestir fræddir um þær, hvaða hlutverki þær gengdu og hvenær, svo eitthvað sé nefnt. Umhverfistúlkun fer einnig fram í gestastofum. Í þjóðgarðinum í Skaftafelli var opnuð slík stofa, „Skaftafellsstofa“, í júlí 1999 og eru gestir ánægðir með þá fræðslu sem þar er að finna. Ótalin eru fræðsluskilti sem skýra það sem fyrir augu ber á viðkomandi stað. Til fræðsluskilta teljast einnig leiðbeiningarskilti ýmiss konar og er þar m.a. að finna ábendingar um hvar megi fara um og reglur um umgengni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


















    Hafa ber í huga að fræðsla tryggir að náttúru- og menningarminjum er ekki spillt eða þeim tortímt sakir gáleysis eða þekkingarskorts þeirrar kynslóðar sem tímabundið hefur þær að láni frá komandi kynslóðum. Til þess að ná sem bestum árangri er æskilegt að strax við stofnun þjóðgarðs verði unnin sérstök áætlun um fræðslu um svæðið, innan þess og utan.
    Mörk þjóðgarða hafa oftast verið miðuð við að ekki sé byggð innan þeirra, hvorki einstakir bóndabæir né þorp. Hér hefur einnig orðið breyting á. Það er helst í Bandaríkjunum og Kanada að takmörkuð byggð er innan þjóðgarðsmarka. Í seinni tíð hafa t.d. Kanadamenn flokkað þjóðgarða sína í svæði en innan svæðanna er heimiluð mismikil umferð og/eða mannvirkjagerð. Á einu svæðinu er t.d. að finna þorp, þar er aðalskrifstofa þjóðgarðsins og margvísleg þjónusta, svo eitthvað sé nefnt.


Land/þjóðgarður

Landsvæði, km2

Íbúafjöldi innan þjóðgarðsmarka Árlegur rekstrarkostnaður, GBP
Austurríki/Hohe Trauen NP
1.787 82.747 3.100.000
England/Peak National Park
1.437 37.400 7.700.000
Frakkland/Morvan PNR
2.258 34.405 250.000
Sviss/Unterengedin National Park
169 3.460 750.000
Þýskaland/Bayerischer Wald NP
2.068 u.þ.b. 20.000 6.500.000

2. tafla. Heildarrekstrarkostnaður á ári í nokkrum þjóðgörðum í Evrópu. Ekki eru sýnileg tengsl á milli stærðar svæðis, íbúafjölda eða fjölda gesta þegar rekstrarkostnaður svæðanna er borinn saman. (Heimild: M. Dower, H. Buller og M. Asamer-Handler, 1998.)

    Hér á landi eru reglur innan friðlýstra svæða mjög ólíkar og nægir e.t.v. að benda á að í friðlandinu í Surtsey er umferð almennings bönnuð, enda er eyjan í raun rannsóknarstofa þar sem fylgst er með landnámi plantna og dýra. Í öðrum friðlöndum er umferðarréttur almennings tryggður og leitast er við að veita gestum sem besta þjónustu, t.d. hvað varðar umhverfisfræðslu og með lagningu göngustíga.
    Í Frakklandi kemur fjármagn til reksturs þjóðgarða að mestu frá ríki og héraðsstjórn en í auknum mæli frá sjóðum Evrópubandalagsins. Áætlaður meðalkostnaður hvers þjóðgarðs (34 talsins) er um 10 milljónir franka, FRF, eða um 1 milljón GBP. Taflan hér á eftir sýnir fjárframlög til þjóðgarðanna, skipt niður eftir rekstrarkostnaði og stofnkostnaði, ásamt hlutfalli hvers og eins af heildarkostnaði.



Uppruni fjármagns


Rekstrarkostnaður í FRF


Stofnkostnaður
í FRF

Heildarkostnaður
í FRF
% af heildar- kostnaði
Umhverfisráðuneyti
25.891.800 22.267.810 48.159.610 13,3
Önnur ráðuneyti
8.120.900 11.252.384 19.373.284 5,4
Héraðsstjórn
39.924.133 47.719.814 140.643.947 39,0
Sveitarstjórn
65.059.421 28.335.140 93.394.561 25,9
Evrópubandalagið
7.326.932 22.400.315 29.727.247 8,2
Þjóðgarðurinn
af tekjum

27.786.094

1.921.202

29.707.296

8,2
Samtals
233.109.280 127.796.665 360.905.945 100,0

3. tafla. Fjárhagsáætlun 1995 fyrir 34 þjóðgarða í Frakklandi. Áætlunin sýnir m.a. að 1/3hluti fjármagnsins kemur frá viðkomandi sveitarstjórn.(Heimild: M. Dower, H. Buller og M. Asamer-Handler, 1998.)

    Í hvað fara svo allir þessir fjármunir? Í franska þjóðgarðinum Vercors hljóðaði fjárhagsáætlun ársins 1995 upp á 13 milljónir FRF. Taflan hér á eftir sýnir skiptingu eftir viðföngum.

Viðfang Í milljónum FRF
Umhverfisfræðsla, skilti og umhverfistúlkun
3,8
Byggingarframkvæmdir
3,7
Verndun menningarminja
1,5
Verndun náttúruminja
1,5
Verndun friðlands innan þjóðgarðsins
1,3
Skipulagsvinna, skipting í svæði og undirbúningur framkvæmda
1,2

4. tafla. Stofnkostnaður 1995 í Vercorsþjóðgarðinum flokkað eftir viðfangi.

    Til samanburðar er dæmi frá nokkrum þjóðgörðum í Bretlandi um skiptingu útlagðs kostnaðar eftir viðfangi.

Snowdonia
1990/91
Peak
1990/91
Northumberland 1990/91
Útlagður kostnaður GBP
1.952.000 3.822.900 3.822.900
Viðfang:
Verndun náttúru- og menningarminja
21,1% 31,79% 26,0%
Útivist
27,5% 24,12% 18,0%
Fræðsla og upplýsingar
18,7% 15,62% 29,0%
Yfirstjórn
25,0% 14,60% 22,0%
Skipulagsvinna
6,1% 11,45% 5,0%
Styrkir til sveitarfélags
1,6% 2,42%

5. tafla. Hlutfallsleg skipting útlagðs kostnaðar fjárhagsárið 1990/91 í þremur þjóðgörðum í Bretlandi skipt eftir viðföngum.

6. Næstu skref.

    Eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að stofna þjóðgarð er brýnt að starfsnefnd verði skipuð og þá með fulltrúum þeirra aðila sem skipa eiga í þjóðgarðsnefnd, þ.e. ráðgjafarnefnd skv. 51. gr. laga um náttúruvernd. Hlutverk ráðgjafanefndar er í fyrstu að beita sér fyrir deiliskipulagsgerð þeirra þjónustukjarna sem ákveðnir verða, gerð verndaráætlunar, skipulag og áætlun útivistar og ferðamöguleika og áætlun um umhverfisfræðslu, innan svæðisins fyrst og fremst en einnig í samstarfi við grunnskóla á svæðinu og æðri menntastofnanir í landinu.

Helstu heimildir:
    Stefna í náttúruvernd, skýrsla Náttúruverndarráðs, fjölrit nr. 28, Reykjavík 1996.
    1997 United Nations List of protected Areas. IUCN, Gland, Sviss og Cambridge, Englandi, 1998.
    Nationalparksplan för Sverige, Naturvårdsverket, Stokkhólmur, 1989.
    M. Dower, H. Buller & M. Asamer-Handler, 1998. The socio-economic benefits of National Parks: a review prepared for Scottish Natural Heritage, SNH Review No. 104.
    K. Bishop, M. Green & A. Phillips, 1998. Models of National Parks, SNH Review No. 105.
    Tillaga til þingsályktunar um þjóðgarða á miðhálendinu, flm. Hjörleifur Guttormsson, 16. mál 123. löggjafarþings 1998–99, þskj. 16, 16. mál.
    Lög um náttúruvernd, nr. 44/1999.


Heimasíður:
www.eldhorn.is/coast-mountains
www.eldhorn.is/glaciert
www.hi.is



Viðauki 1.

Lög um friðun Þingvalla, 1928 nr. 59 7. maí.


1. gr.

    Frá ársbyrjun 1930 skulu Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.

2. gr.

    Mörk hins friðhelga lands skulu vera sem hér segir:
     h.      Að sunnan: Frá hæstu brún Arnarfells í beina stefnu á Kárastaði, yfir Þingvallavatn og upp á vestara bakka Almannagjár.
     i.      Að vestan: Hærri barmur Almannagjár að Ármannsfelli.
     j.      Að norðan: Frá Ármannsfelli þvert austur yfir hraunið að Hlíðargjá.
     k.      Að austan: Eystri bakki Hlíðargjár og Hrafnagjár ræður takmörkunum suður á hæstu brún Arnarfells.

    Landið innan ofannefndra marka skal, eftir því er Þingvallanefnd kveður á og fært kann að reynast, varið fyrir ágangi af sauðfé og geitum. En skógurinn og villidýralíf, sem þar kynni að geta þrifist, skal vera algerlega friðað. Þó skal nefndin gera ráðstafanir til eyðingar þeim dýrum og fuglum, sem gera usla á hinu friðlýsta svæði eða vinna búfénaði héraðsmanna tjón.
    Þingvallanefnd ræður veiði í Þingvallavatni norðan línu þeirrar, er um getur í a-lið.
    Ekkert jarðrask, húsabyggingar, vegi, rafleiðslur eða önnur mannvirki má gera á hinu friðlýsta svæði, eða í landi jarðanna Kárastaða, Brúsastaða, Svartagils og Gjábakka, nema með leyfi Þingvallanefndar.

3. gr.

    Nú takast eigi samningar milli Þingvallanefndar og ábúenda jarða þeirra, er að nokkru eða öllu falla undir hið friðlýsta land, og skal þá Þingvallanefnd taka afnotarétt jarðanna eða jarðarhlutanna eignarnámi samkvæmt lögum og ábúendum greitt fyrir afnotaréttinn samkvæmt óvilhallra dómkvaddra manna mati. Svo skulu og metnar bætur til Þingvallahrepps fyrir íþynging fjallskila og rýrnun útsvara, enda náist ekki samningar.
    Heimilt skal Þingvallanefnd að kaupa jörðina Gjábakka, eða ef ekki nást viðunandi samningar um verð, að taka jörðina eignarnámi samkvæmt lögum.

4. gr.

    Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.

5. gr.

    Þingvallanefnd, skipuð þrem alþingismönnum, hefur fyrir hönd Alþingis yfirstjórn hins friðlýsta lands og annarra jarða í ríkiseign, sem til eru greindar í 2. gr. Þingvallanefnd skal kosin með hlutfallskosningum í sameinuðu þingi í lok hvers þings eftir nýafstaðnar kosningar, í fyrsta skipti á þingi 1928.

6. gr.

    Þingvallanefnd semur reglugerð um hið friðlýsta land og meðferð þess, en stjórnarráð staðfestir. Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld á Þingvöllum og verja því fé upp í kostnað við friðunina.
    [Þingvallanefnd ræður framkvæmdastjóra. Hann ræður annað starfslið.] 1)
1) L. 150/1996, 1. gr.

7. gr.

    Öll óhjákvæmileg útgjöld við verndun Þingvalla samkvæmt lögum þessum greiðast úr ríkissjóði.

8. gr.

    [Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim varða sektum [eða fangelsi allt að 2 árum]. 1) Mál út af brotum á lögum þessum sæta meðferð opinberra mála.] 2)
1) L. 82/1998, 146. gr . 2) L. 75/1982, 6. gr.



Viðauki 2.

Reglugerð um þjóðgarð í Skaftafelli, Stjórnartíðindi B, nr. 319/1984.


I. KAFLI
Inngangur.
1. gr.

    Þessi reglugerð er um þjóðgarðinn í Skaftafelli, Hofshreppi, Austur-Skaftafellssýslu, sem var stofnaður 15. september 1967.
    Um þjóðgarðinn gilda ákvæði 25. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971, ákvæði reglugerðar þessarar svo og ákvæði reglugerðar nr. 205/1973 um náttúruvernd, eftir því sem þau geta átt við.

II. KAFLI
Stjórn þjóðgarðsins.
2. gr.

    [Náttúruvernd ríkisins] fer með stjórn þjóðgarðsins. Það getur falið sérstakri nefnd, er það kýs sér til ráðgjafar, að fara með málefni sem varða rekstur og mannvirkjagerð, en ákvarðanir hennar eru háðar samþykki [stofnunarinnar].

3. gr.

    [Náttúruvernd ríkisins] ræður þjóðgarðsvörð til að fara með daglega stjórn í þjóðgarðinum, bæði gagnvart starfsmönnum hans, gestum og aðilum, sem annast þar rekstur.
    [Náttúruvernd ríkisins] setur þjóðgarðsverði erindisbréf. Þjóðgarðsvörður skal vera búsettur í Skaftafelli.

III. KAFLI
Mörk þjóðgarðsins.
4. gr.

    Mörk þjóðgarðsins eru þessi:
    Að vestan ráða landamörk Núpsstaðar og Skaftafells, sem jafnframt eru sýslumörk V.- og A. Skaftafellssýslu, frá Súlutindum og suður að „sýslusteini“. Frá „sýslusteini“ liggja mörkin í beina línu í merki við Gömlutún, en þaðan til austurs í fremstu nöf Hafrafells og áfram í beina línu í landamörk Svínafells og Skaftafells á Svínafellsjökli. Mörkin fylgja síðan síðastnefndum landamörkum til norðurs. Á jökli að austan og norðan ráða vatnaskil. Mörkin eru sýnd á meðfylgjandi uppdrætti.

IV. KAFLI

Réttindi og skyldur gesta.

5. gr.

    Þjóðgarðurinn er opinn gestum allt árið. Þjónusta á tjaldsvæðum er veitt 1. júní til 15. september ár hvert.
    Gestum sem óska að dveljast í þjóðgarðinum utan þess tíma, sem hér segir í 1.mgr., ber að gera þjóðgarðsverði aðvart þegar þeir koma og hlíta fyrirmælum hans í hvívetna um allt, sem lýtur að dvöl þeirra.
    Heimilt er þjóðgarðsverði að loka þjóðgarðinum fyrirvaralaust og gera mönnum að hverfa burt, ef að steðjar vá svo sem vegna sinu- eða skógarbruna, vegna hlaups í Skeiðará eða af öðrum slíkum orsökum. Sama gildir, ef þjóðgarðsvörður telur að dvöl manna geti spillt gróðri eða jarðmyndunum.

6. gr.

    Gangandi fólki er heimil för um þjóðgarðinn. Ætlast er til að fylgt sé merktum gönguleiðum eftir því sem merkingum miðar áfram, en annars hefðbundnum gönguleiðum sem við verður komið eða þá fyrirmælum starfsmanna þjóðgarðsins.

7. gr.

    Öllum er skylt að ganga vel og snyrtilega um þjóðgarðinn. Ekki má spilla þar gróðri, trufla dýralíf né hrófla við jarðmyndunum.
    Úrgangi skal komið fyrir í sérstökum sorpílátum, enda er óheimilt að fleyja úrgangi eða grafa hann.
    Notkun skotvopna er bönnuð í þjóðgarðinum og óheimilt er að kveikja eld á víðavangi.

8. gr.

    Gestir, sem koma í þjóðgarðinn og hafa með sér hunda eða önnur gæludýr, skulu koma þeim í geymslu á þeim stað eða stöðum, sem til slíks eru ætlaðir. För um þjóðgarðinn með þau er því aðeins heimil að sérstakt leyfi komi til.

9. gr.

    Ferðamenn, sem óska að tjalda skulu gera það á merktum tjaldsvæðum. Á sama hátt skulu ferðamenn hafa tjaldvagna og hjólhýsi á þar til ætluðum svæðum.

10. gr.

    För á hestum eða með hesta um þjóðgarðinn verður heimil, þegar merktar hafa verið sérstakar reiðslóðir og áningarstaðir. Utan þeirra er för á hestum óheimil.

11. gr.

    Umferð á vélknúnum ökutækjum í þjóðgarðinum er ferðamönnum aðeins heimil á vegum og bílastæðum neðan við Skaftafellsbrekkur.

12. gr.

    Skylt er gestum í þjóðgarðinum að hlíta fyrirmælum þjóðgarðsvarðar, annarra starfsmanna svo og löggæslumanna, hvað snertir umgengni og háttsemi í þjóðgarðinum.
    Nú brýtur maður ákvæði þessarar reglugerðar, og er þessum aðilum þá heimilt að vísa honum úr þjóðgarðinum.

V. KAFLI
Starfsemi í þjóðgarðinum.
13. gr.

    Hvers konar atvinnustarfsemi og samkomuhald er óheimilt í þjóðgarðinum, nema til komi sérstakt leyfi [Náttúruverndar ríkisins]. Sama gildir um kvikmyndagerð.
    Þeir aðilar, sem fengið hafa eða fá leyfi til veitingareksturs eða verslunar í þjóðgarðinum, skulu haga svo starfsemi sinni, að dvalargestum sé tryggð fullnægjandi þjónusta á þeim tíma, sem um ræðir í 1. mgr. 5. gr. Vínveitingar eru óheimilar, nema með leyfi lögreglustjóra og þjóðgarðsvarðar.
    Nú kemur í ljós, að ekki er að dómi þjóðgarðsvarðar fullnægt ákvæðum 1. ml. 2. mgr. þessarar gr. og getur [Náttúruvernd ríkisins] þá sett reglur um hvernig umræddri þjónustustarfsemi skuli hagað.

14. gr.

    Mannvirkjagerð, efnistaka og hvers konar annað jarðrask er óheimilt nema til komi sérstakt leyfi [Náttúruverndar ríkisins].

15. gr.

    Búskapur í þjóðgarðinum er háður samþykki [Náttúruverndar ríkisins], sem ákveður hvernig honum skuli hagað.

16. gr.

    Náttúrufræðilegar rannsóknir í þjóðgarðinum eru háðar leyfi [Náttúruverndar ríkisins].

VI. KAFLI
Lokaákvæði.
17. gr.

    [Náttúruvernd ríkisins] ræður starfsmenn að fengnum tillögum þjóðgarðsvarðar og setur þeim starfsreglur. Þeim skulu fengin sérstök auðkenni og skilríki, er sanni heimildir þeirra til framkvæmdar á reglugerð þessari og fyrirmælum þjóðgarðsvarðar.

18. gr.

    Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða varðhaldi.

19. gr.

    Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 47/1971 um náttúruvernd öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 229/1968.

Menntamálaráðuneytið, 27. júní 1984.



Ragnhildur Helgadóttir.

______________
Knútur Hallsson.


Viðauki 3.

Reglugerð um þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum nr. 359/1993.


Gildissvið.
1. gr.

    Reglugerð þessi gildir um þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum í Keldu[nes]hreppi sem stofnaður var með ákvörðun [Náttúruverndar ríkisins] þann 2. júní 1973, sbr. reglugerð nr. 216/ 1973, og stækkaður með ákvörðunum [Náttúruverndar ríkisins] þann 6. nóvember 1973 og 8. júní 1978.
    Um þjóðgarðinn gilda jafnframt ákvæði laga um náttúruvernd nr. 47/1971, ásamt síðari breytingum, og reglugerðar nr. 205/1973, ásamt síðari breytingum, eins og við geta átt.

Stjórn þjóðgarðsins.


2. gr.

    [Náttúruvernd ríkisins] fer með stjórn þjóðgarðsins. [Náttúruvernd ríkisins] getur stofnað sérstaka ráðgjafarnefnd til þess að fjalla um málefni sem varða rekstur og mannvirkjagerð innan þjóðgarðsins.

3. gr.

    [Náttúruvernd ríkisins] ræður þjóðgarðsvörð til að fara með daglega stjórn í þjóðgarðinum eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.
    [Náttúruvernd ríkisins] setur þjóðgarðsverði erindisbréf og skal hann búsettur í þjóðgarðinum nema önnur skipan verði talin heppilegri.

Mörk þjóðgarðsins.


4. gr.

    Mörk þjóðgarðsins eru: Frá Dettifossi að sunnan og austan, beina stefnu vestur í hátind Eilífs. Frá Eilífi til norðurs í Lönguhlíð og ræður hlíðin merkjum út á móts við syðsta og vestasta horn Langavatnshöfða. Þaðan beina línu í Botnslæk við suðurbotn Ásbyrgis, þá með efri brún bjarga Ásbyrgis að vestan að skógræktargirðingu, með henni að austurbrún Eyjunnar og björgum út að þjóðvegi. Í austurátt með þjóðvegi að girðingu austan Ásbyrgisvegar og með henni að skógræktargiðingu og austur á björg Ásbyrgis. Þaðan með björgum svo sem þau taka, norður að þjóðvegi og með honum að Jökulsá. Austurmörk þjóðgarðsins fylgja miðlínu Jökulsár á Fjöllum.

Umgengni í þjóðgarðinum.
5. gr.

    Skylt er að ganga vel og snyrtilega um þjóðgarðinn. Gestir garðsins skulu sýna hver öðrum tillitsemi. Öll óþarfa háreysti er bönnuð í þjóðgarðinum.
    Bannað er að fleygja sorpi á víðavangi eða grafa það niður. Allt sorp skal flytja í sorpgeymslur.
    Óheimilt er að vinna náttúruspjöll, t.d. spjöll á gróðri, trufla dýralíf að óþörfu, hrófla við jarðmyndunum, kveikja opinn eld í eða utan hlóða, eða aðhafast nokkuð það sem valdið getur spöllum í þjóðgarðinum. Sérstök aðgát skal viðhöfð þegar eldunartæki eru notuð.
    Notkun skotvopna er óheimil í þjóðgarðinum.

6. gr.

    Gangandi fólki er heimil för um þjóðgarðinn enda sé merktum gönguleiðum eða hefðbundnum leiðum fylgt. Umferð reiðhjóla er óheimil utan akvega og reiðhjólaleiða.

7. gr.

    Bannað er að beita hestum innan þjóðgarðsins.
    Öll umferð hesta um þjóðgarðinn er óheimil nema á merktum reiðslóðum og afmörkuðum áningarstöðum enda liggi leyfi þjóðgarðsvarðar (landvarðar) fyrir.

8. gr.

    Umferð vélknúinna farartækja er einungis heimil á akvegum og í samræmi við merkingar enda séu vegir ekki ófærir vegna aurbleytu eða snjóa.
    Allur óþarfa akstur vélsleða og fjórhjóla er bannaður í þjóðgarðinum.

9. gr.

    Óheimilt er að tjalda, leggja tjaldvögnum eða gista í bifreiðum nema á merktum tjaldsvæðum. Þó getur þjoðgarðsvörður (landvörður) heimilað aðra tilhögun ef sérstaklega stendur á.

10. gr.

    Ef óskað er eftir að dveljast í þjóðgarðinum utan hefðbundins ferðamannatíma skal gera þjóðgarðsverði (landverði) sérstaklega aðvart og hlíta fyrirmælum hans um allt sem lítur að dvöl í garðinum.

11. gr.

    Ef sérstaklega stendur á er [Náttúruvernd ríkisins] heimilt að loka þjóðgarðinum eða einstökum akvegum í honum að öllu leyti eða hluta fyrir umferð almennings.

12. gr.

    Óheimilt er að flytja plöntur, fræ og dýr í þjóðgarðinn.
    Gestum þjóðgarðsins er óheimil dvöl í garðinum með hunda og önnur gæludýr án samráðs við starfsmenn þjóðgarðsins. Óheimilt er að láta dýrin ganga laus í þjóðgarðinum.

13. gr.

    Gestum þjóðgarðsins er skylt að hlíta fyrirmælum þjóðgarðsvarðar, annarra starfsmanna þjóðgarðsins og lögreglu um umgengni og háttsemi í þjóðgarðinum.
    Nú er brotið á veigamiklum atriðum gegn reglugerð þessari og er þá heimilt að vísa viðkomandi úr þjóðgaðinum.

Starfsemi í þjóðgarðinum o.fl.


14. gr.

    Öll atvinnustarfsemi, samkomuhald, kvikmyndagerð og rannsóknir í þjóðgarðinum er háð leyfi [Náttúruverndar ríkisins]. Mannvirkjagerð, efnistaka og annað jarðrask er óheimilt í þjóðgarðinum án leyfis [Náttúruverndar ríkisins].
    Búskapur og húsdýrahald í þjóðgarðinum er háð samþykki [Náttúruverndar ríkisins].

Gildistaka o.fl.
15. gr.

    Brot gegn reglugerð þessari varðar sektum eða varðhaldi.

16. gr.

    Reglugerð þessi sem er samin og samþykkt af [Náttúruvernd ríkisins] og sett samkvæmt lögum nr. 47/1971, ásamt síðari breytingum, staðfestist hér með og öðlast gidli þegar í stað. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 216/1973.

Umhverfisráðuneytið, 27. ágúst 1993.


Össur Skarphéðinsson.

__________________
Magnús Jóhannesson.



Fylgiskjal II.


Friðlýst svæði og náttúruminjar í nágrenni Vatnajökuls.
Samantekt Náttúrurverndar ríkisins fyrir starfshóp
umhverfisráðuneytisins um Vatnajökulsþjóðgarð.


Inngangur.
    Staðfesting svæðisskipulags 2015 fyrir miðhálendi Íslands skilgreinir Vatnajökul og skriðjökla hans sem náttúruverndarsvæði skv. 6. tölul. 3. gr. laga um náttúruvernd. Að ganga skrefinu lengra og kalla Vatnajökul þjóðgarð strandar, að vilja manna óspurðum, formlega á því að eignarhald á hjarnjöklinum er ekki að fullu skýrt og ákveða þyrfti skipulag á vörslu svæðisins.
    Nú háttar þannig til að miklu fleiri og stærri svæði eru á náttúruminjaskrá eða undir einhvers konar náttúruvernd á eystri hluta landsins en þeim vestari og sýnu stærstur er hlutur Suðausturlands (sjá lýsingu). Umhverfis Vatnajökul eru fimmtán svæði á náttúruminjaskrá áföst jöklinum. Esjufjallafriðland er reyndar inni á jöklinum, en af þessum fimmtán svæðum eru tvö friðlönd, einn þjóðgarður, eitt náttúruvætti og Mývatns- og Laxársvæðið sem friðað er samkvæmt sérstökum lögum. Undirbúningi að stofnun friðlands á Öræfajökli er svo til lokið. Innan tuttugu og fimm kílómetra fjarlægðar frá jökulröndinni umhverfis Vatnajökul eru nítján svæði til viðbótar á náttúruminjaskrá þar af eru þrjú friðlönd og þrjú náttúruvætti. Um helmingur þess lands sem er innan tuttugu og fimm kílómetra fjarlægðar frá jaðri Vatnajökuls er á náttúruminjaskrá og/eða friðaður samkvæmt lögum um náttúruvernd. Þetta svæði mun stækka enn ef hverfisverndaráform Austur-Skaftfellinga verða að veruleika. Að öllu þessu upptöldu má segja að stærstur hluti þess svæðis sem afmarkast af 18° vestlægrar lengdar og 65° norðlægrar breiddar sé á náttúruminjaskrá og stærstur hluti þess er eða mun verða verndaður af lögum um náttúruvernd, sérlögum eða skipulagsákvörðunum.
    Friðun lands umhverfis Vatnajökul snertir aðallega hagsmuni búfjárræktar, raforkuframleiðslu (miðlunarlón) og ferðamennsku. Markmið friðunar er að skila landi í jafngóðu eða betra ásigkomulagi til afkomenda okkar að teknu tilliti til náttúrulegra breytinga. Afturkræfar framkvæmdir stangast ekki á við þessi markmið. Burtséð frá miðlunarlónum sem falla undir óafturkræfar framkvæmdir er það nú einungis skipulagsatriði að samræma hagsmuni friðunar og búfjárræktar eða ferðamennsku.
    Með hliðsjón af því að íslensk stjórnvöld hafa í samræmi við alþjóðlegar, evrópskar og norrænar skuldbindingar sínar bundið sjálfbæra þróun í lög og með hliðsjón af 30. gr. laga um náttúruvernd frá 1999 er ekkert formlega því til fyrirstöðu að ná samkomulagi við landeigendur hvar sem er á landinu um stofnun friðlanda. Samningur þarf að tryggja að landnotkun stuðli að sjálfbærri þróun og landeigendur fái umbun fyrir þá hagsmuni sem þeir afsala sér. Tryggja þarf að hvers konar starfsemi sem skaðað gæti náttúruna eða markmið sjálfbærrar þróunar valdi ekki skaða út fyrir lóðamörk starfsemi sinnar. Ef stofnaður væri Vatnajökulsþjóðgarður innan marka svæðisskipulags miðhálendisins 2015 væri mögulegt á fyrrnefndum forsendum að ganga til samninga við íbúa og stjórnvöld í sveitarfélögum sem liggja að Vatnajökli um stofnun friðlanda umhverfis jökulinn og kanna síðan frekar með hugsanleg kaup ríkisins á löndum, t.d. á Tungnafells- og Kverkfjallasvæðinu eða Breiðamerkur- og Skeiðarársandi. Við skoðun þessara möguleika er áberandi að lítið þarf til að Sveitarfélagið Hornafjörður verði allt að náttúruverndarsvæði.
    Hagrænn ávinningur friðunar er ótvíræður fyrir landeigendur (arður) og stjórnvöld (sjálfbær þróun).
    Þjóðgarðar og friðlönd hafa „landhelgi“, þ.e. grenndarréttur þjóðgarða og friðlýstra svæða er mikill. Afleiðing þess er að landnotkun á eignarlöndum nágranna er takmörkuð án þess að bætur komi fyrir. Eina leiðin til að ná ábata af þessum „landhelgisáhrifum“ er að selja landið, en vegna þeirra takmarkana sem í „áhrifunum“ felast er enginn kaupandi reiðubúinn til að greiða hærra verð en ríkið.
    Önnur leið er sú að semja sig undir náttúruvernd, þ.e. afsala sér nýtingarrétti á mestum hluta eignarlands síns gegn því að mega standa að framkvæmdum og rekstri á hluta landsins að uppfylltum skilyrðum sjálfbærrar þróunar. Þannig geta menn haldið búsetu sinni og notið arðs af þeirri atvinnustarfsemi sem náttúruvernd skapar, stjórnvöld geta náð markmiðum sjálfbærrar þróunar og arði af þeirri verðmætasköpun sem takmörkun auðlindanýtingar laðar fram og nærsamfélagið jafnt sem alþjóðasamfélagið getur notið árangursins. Reynsla Evrópuþjóða sýnir að ferðaþjónusta á náttúruverndarsvæðum, oft kölluð „græn ferðaþjónusta“, er áhrifamikill þáttur í sjálfbærri þróun. Hún hefur áhrif á starfsemi á öðrum sviðum efnahagslífs eins og lífræna matvælaframleiðslu og framleiðslu og sölu vistvænnar vöru og þjónustu. Eins virðist ferðamennska á náttúruverndarsvæðum vera heppilegur vettvangur til að ná árangri í samstarfi ólíkra atvinnugreina. Aðalástæðan fyrir hvetjandi áhrifum „grænnar ferðaþjónustu“ er sú að forsenda hennar er að til staðar séu framúrskarandi náttúrugæði jafnframt miklum lífsgæðum. Lífsgæðin sem hér um ræðir byggjast á því að vara og þjónusta sem í boði er innan og/eða í næsta nágrenni náttúruverndarsvæða sé af þeim gæðum sem eru náttúrugæðunum til sóma.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Friðlönd og náttúruminjar í nágrenni við Vatnajökul.



Herðubreiðarfriðland. Gróðurvin á hálendinu. Hvannarbreiður og eyrarrós setja svip á gróðurlandið. Fjalla-Eyvindur og Halla bjuggu sér þar griðastað um tíma. Friðlýst 1974.

613. Kverkfjöll og Krepputunga. Svæðið milli Jökulsár á Fjöllum og Kreppu, allt suður í Vatnajökul. Stórbrotið landslag með virkum eldstöðvum og fjölbreytilegum jarðmyndunum, jarðhiti í Hveradal og Hveragili. Íshellir í sporði Kverkjökuls. Kjörið land til útivistar og náttúruskoðunar. Á náttúruminjaskrá.

Hvannalindir í Krepputungu. Gróðurvin á hálendinu. Lindir spretta undan hraunrönd. Með fram lindunum og í nágrenni þeirra er allvíðáttumikið gróðursvæði. Hvannstóð er einkennandi fyrir gróðurfar en einnig má sjá víðirunna og mýrlendi. Mikill munur er á gróðurfari eftir árferði. Það er víðsýnt og fallegt í Hvannalindum en dálítið kuldalegt sem vænta má. 1880 fundu leitarmenn vel varðveitta útilegumannakofa. Óljóst er hverjir hafi þar búið en líklegt er talið að Fjalla-Eyvindur og Halla hafi hafst þar við um hríð. Friðlýstar 1973.

614. Fagridalur og Grágæsadalur á Brúaröræfum. Svæðið afmarkast af Kreppu að vestan, Grágæsahnjúk og hæstu hnjúkum rétt suðaustan Fagradals. Frá þeim bein lína í nafnlaust vatn nokkru norðan dalsins. Þaðan beint vestur í Kreppu. Gróskumiklar vinjar í u.þ.b. 60 m h.y.s. Auðugt smádýralíf og fagurt landslag. Á náttúruminjaskrá.

Kringilsárrani. Mikilvægt beitiland hreindýra. Sérstæð og gróin landspilda sem mörkuð er af hopi Brúarjökuls. Jökulminjar eru hér greinilegar og liggja svokallaðir hraukar yfir ranann þverann. Gróðursamfélagið er sérstætt, til að mynda eru þar sérkennilegar þyrpingar af hattsveppum. Friðlýstur 1975.

615. Snæfell, Vesturöræfi og Hafrahvammagljúfur. Frá Eyjabakkajökli fylgja mörkin 700 m hæðarlínu að Laugará, þaðan í Fremra-Kálfafell, um Tungusporð í Búrfellstopp og þaðan beina línu í ós Dysjarár og þvert yfir Jökulsá. Að vestan fylgja mörkin vestari barmi Jökulsár á Dal inn að Kringilsá og sameinast þar eystri mörkum Kringilsárranafriðlands. Vesturöræfi eru víðáttumikið og vel gróið hálendissvæði ásamt því að vera sumarland hreindýra. Mikilvægt beitiland heiðagæsa. Hafrahvammagljúfur er eitt hrikalegasta gljúfur landsins og eru gróðursælir hvammar með fram því. Á náttúruminjaskrá.

616. Eyjabakkar í Fljótsdalshreppi. Svæðið afmarkast að vestan af 700 m hæðarlínu í Snæfellshálsi, frá Eyjabakkajökli að Eyjabakkafossi og þaðan í suðvesturenda Folavatns. Frá Folavatni beina línu um Háöldur að mörkum friðlands í Lónsöræfum suður í jökul. Óvenjugrösugt votlendi í um 650 m h.y.s. með fjölda tjarna. Svipmikið landslag við rætur Snæfells, jökulgarðar með hraukum við Eyjafell. Beitiland hreindýra, heiðagæsa og álfta. Á náttúruminjaskrá.

Lónsöræfi í Stafafellsfjöllum. Upp frá Lóni, austan Vatnajökuls gengur fjallahringur, dalir og öræfi er nefnast Stafafellsfjöll. Þau skarta mikilli fjölbreytni í formum og litum sundurskorin af gljúfrum og giljum. Náttúran einstaklega litrík og mikið er um líparít, holufyllingar og fagra steina. Víða eru grónir balar og ekki ólíklegt að menn rekist á hreindýr á ferð sinni um öræfin. Stafafellslandið er stórkostlegt gönguland fyrir þá sem unna fögrum jarðmyndunum. Friðlýst 1977.

625. Hofsdalur, Tunga, Hofsá, Geithellnadalur og Þrándarjökull, Djúpavogshreppi. Hofsdalur innan Eyðikinnargils, Flugustaðadalur norðan Hofsár syðri (Sauðár) og Geithellnadalur innan Árness. Að vestan og norðan ráða vatnaskil. Til austurs ræður Hákonará, Nóngil og Eyðikinnargil. Hofsá ásamt 100 m breiðu belti beggja vegna árinnar allt fram í sjó. Gróðursælir dalir með vöxtulegu kjarri og skógarteigum kringdir litríkum og háum fjöllum. Margir fallegir fossar, einkum í Hofsá. Tilvalið svæði til útivistar í tengslum við Lónsöræfin. Á náttúruminjaskrá.

627. Þórisdalur, Bæjarhreppi. Land jarðarinnar Þórisdals í Lóni vestan þjóðvegar. Að sunnan fylgja mörk Laxá, síðan hreppamörkum að Lambatungujökli, en að norðan fylgja mörk Skyndidalsá og Jökulsá. Fjölbreytt og litríkt landslag. Dalsskógur í norðanverðum Laxárdal. Fjölsótt útivistarsvæði. Á náttúruminjaskrá.

Díma. Klapparhæð, á aurum Jökulsár í Lóni, með fjölbreyttum gróðri. Friðlýst 1975.

652. Álftafjörður í Djúpavogshreppi. Grunnsævi, fjörur, eyjar og rif á milli suðausturhorns Melrakkaness í norðri og Biskupshöfða í suðri. Í Álftafirði eru víðáttumiklar ísaltar leirur með einstæðum gróðri. Mikið fuglalíf. Á náttúruminjaskrá.

626. Lónsfjörður og Hvalnes í Bæjarhreppi. Fjörur og grunnsævi í Lónsfirði öllum ásamt votlendi utan ræktaðs lands, milli fjarðar og Jökulsár auk jarðarinnar Hvalness í Lóni. Grunnur fjörður með þroskamiklum og sérstæðum botngróðri, sjávarfitjar og mýrlendi með tjörnum. Þýðingarmikill viðkomustaður farfugla. Sérkennilegt og fagurt landslag með hömrum úr djúpbergi við Hvalnes. Á náttúruminjaskrá.

628. Laxárdalur, Hornafjarðarbæ. Laxárdalur að meðtöldum malarkambi í dalsmynninu, að öðru leyti ráða vatnaskil til Laxár. Dalur með fjölbreyttum og litríkum jarðmyndunum, mýrlendi og vötn. Talsvert fuglalíf. Á náttúruminjaskrá.

653. Fjalllendið utan Skarðsdals, Hornafjarðarbæ, Bæjarhreppi. Fjalllendið utan við Skarðsdal. Fagurt fjallendi með margvíslegum bergtegundum. Í Vesturhorni finnst bæði granófýr og gabbró. Á náttúruminjaskrá.

629. Skarðsfjörður, Hornafjarðarbæ. Fjörur, grunnsævi, eyjar og sker í Skarðsfirði öllum, ásamt Álaugarey. Lífauðugar leirur og grunnsævi með miklu fuglalífi. Álaugarey er jarðfræðilega sérstæð. Á náttúruminjaskrá.

Ósland. Eyja með landbrú við Höfn í Hornafirði. Leirur með miklu fuglalífi. Á Óslandi má sjá basaltafsteypur af trjám sem þar hafa lent í hrauni. Friðlýst 1982.

630. Baulutjörn, Hornafjarðarbæ. Baulutjörn á Mýrum. Óvenjulífrík tjörn, mikið fuglalíf. Á náttúruminjaskrá.

631. Umhverfi Hoffellsjökuls, Hornafjarðarbæ. Viðborðsdalur norðaustan undir Viðborðsfjalli og Sandmerkurheiði austur að línu úr Selhvammi um Svínafellsfjall í Miðfell. Til norðurs ráða vatnaskil inn að Goðaborg. Stórbrotið landslag umhverfis skriðjökul. Kjarrlendi, jarðhitavottur er í Vandræðatungum. Jaðarlón framan við Svínafellsjökul, minjar um hopun jökuls. Djúpberg í Svínafellsfjalli og Geitafelli. Á náttúruminjaskrá.

654. Heinabergsfjöll, Hornafjarðarbæ. Svæðið á milli Heinabergsjökuls og Fláajökuls. Til austurs ræður lína frá enda Hafrafellsáss norðaustur um Heiðna að hæsta punkti Jökulfells. Stórbrotið landslag með sérkennilegum móbergstindum í Heinabergsfjöllum, jökullón og jarðhiti í Vatnsdal og birkikjarr í Heinabergsdal. Á náttúruminjaskrá.

632. Skálafellsjökull og fjalllendi í Suðursveit, Borgarhafnarhreppi. Mörk svæðisins eru frá Litlafelli í Hafrafell (í 1.008 m hæðarpunkti), þaðan í Kistugil, um Bæjarhlíðar og eftir Smyrlabjargará yfir Borgarhafnarheiði í Svínadal. Eftir Staðardal suður fyrir Hrafnagil og Kálfafellstind um Kálfafellsdal í Brókarjökul. Stórbrotið landslag, jarðmyndanir, svo sem jökulminjar og gabbróhnullungar. Í tindum og jökulskerjum vaxa fjallaplöntur í 1.100–1.300 m hæð. Á náttúruminjaskrá.

633. Steinadalur og Staðarfjall, Borgarhafnarhreppi. Steinadalur, Hvannadalur og Kálfafellsdalur vestan Steinavatna með aðliggjandi fjalllendi. Að suðaustan fylgja mörk þjóðvegi, frá Steinavötnum að Steinafjalli, en að öðru leyti ráða vatnaskil. Stórbrotið landslag með háum fjöllum, Þverártindsegg, hrikalegu gljúfri, þ.e. Klukkugili, og kjarri á Steinadal og í Staðarfjalli. Á náttúruminjaskrá.

Esjufjöll. Fjórir fjallsranar við norðanverðan Breiðamerkurjökul. Hæstur er Esja, 1.660 m y.s. Það er sérstætt hversu mikill gróður hefur fest þar rætur. Lágvaxinn víðir, lyng og grastegundir auk mosa. Þetta gróðursamfélag er upprunalegt og hefur fengið að þróast algerlega í friði fyrir ágangi manna og húsdýra. Friðlýst 1978.

635. Breiðamerkursandur, Jökulsárlón, jökulöldur við Kvíárjökul og Eystrihvammur, Borgarhafnarhreppi, Hofshreppi, Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, sandurinn milli Vestari- Kvíár og Fellsár, frá Breiðamerkurjökli til fjöru. Kvíármýrarkambur, Kambsmýrarkambur og aðrar jökulöldur við Kvíárjökul, þá Eystrihvammur allur ásamt stöðuvatni í botni hans. Jökulsárlón er þekktasta jaðarlón á landinu. Kvíármýrarkambur, Kambsmýrarkambur og aðrar jökulöldur við Kvíárjökul eru einhverjar stærstu og sérstæðustu jökulöldur á landinu. Eystrihvammur er kjarri vaxinn með tæru stöðuvatni. Mikill og sérstæður gróður, auðugt fuglalíf og selir. Á náttúruminjaskrá.

634. Hrollaugseyjar, Borgarhafnarhreppi. Þrjár smáeyjar. Eyjar í hlýjasta hluta sjávar við landið, en nálægt skörpum hitaskilum. Klettafjörur, nánast þær einu á mjög stóru svæði. Á náttúruminjaskrá.

Salthöfði og Salthöfðamýrar. Höfðinn er berggangur eða gígtappi sem til forna hefur verið sjávarhamrar. Friðlýst 1977.

Ingólfshöfði. Höfðinn stendur í sjó fram og er hömrum girtur. Höfðinn er þéttsetinn fugli. Stormsvala og sjósvala verpir í höfðanum. Hægt er að komast á höfðann eftir sandöldu í honum norðvestanmegin. Fyrrum var mikil fugla- og eggjataka og útræði frá höfðanum, verbúðarústir og örnefni minna á þá tíma. Róðrar lögðust niður eftir mannskaðaslys 1746. Höfðinn ber nafn sitt af landnámsmanninum Ingólfi Arnarsyni. Hann kom hér að og eyddi sínum fyrsta vetri á nýja landinu. Friðlýstur 1974.

636. Hamrar milli Gljúfursár og Salthöfða, Hofshreppi. Hamrabelti ofan flugvallar við Fagurhólsmýri, frá Gljúfursá að Salthöfðafriðlandi. Sérkennilegir blágrýtishamrar, sérstætt náttúrufar. Á náttúruminjaskrá.

Háalda. Jökulalda mikil milli Sandfells og Hofs. Hlaupset sem varð til í jökulhlaupi við gos 1727 í Öræfajökli. Þetta fyrirbæri er dæmigert dauðíslandslag. Jökulkerið í öldunni er far eftir ísjaka. Friðlýst 1975.

637. Svínafellslögin, Hofshreppi. Sandsteinslög neðarlega í vestanverðu Svínafellsfjalli. Vatnasetlög með blaðförum frá hlýskeiði ísaldar. Á náttúruminjaskrá.

638. Stóralda, Hofshreppi. Forn, algróin jökulalda framan við Svínafellsjökul. Á náttúruminjaskrá.

Þjóðgarðurinn í Skaftafelli. Skaftafell er óvenjugróskumikil gróðurvin umlukin mikilúðlegum jöklum og söndum.Veðursæld er mikil í Skaftafelli í skjóli hæsta fjalllendis Íslands, frá Færnesi í vestri til Öræfajökuls í austri. Logndagar eru yfir hundrað á ári. Veðráttan hefur sín áhrif á lífríki svæðisins, gróðursæld er mikil og hafa meira en tvö hundruð tegundir háplantna verið greindar. Skeiðarárhlaup hafa mótað búsetu í Skaftafelli og Öræfum. Skeiðarárhlaup eru reglubundin hamfaraflóð sem spretta fram undan Skeiðarárjökli. Þau eiga upptök sín í Grímsvötnum, mjög virkri eldstöð í Vatnajökli.
    Þjónustumiðstöð var byggð í þjóðgarðinum 1974 þegar Skeiðará var brúuð. Þar er stórt tjaldsvæði, verslun,veitingahús og gestastofa. Gestastofan hlaut nafnið Skaftafellsstofa þegar hún var opnuð 1999. Skaftafellsstofa er bækistöð landvarða og fræðslumiðstöð fyrir gesti. Þar geta gestir nálgast upplýsingar um allt sem hægt er að skoða í Skaftafelli. Ráðlegt er að hefja dvöl sína með því að skoða sýningu í Skaftafellsstofu þar sem fræðast má um eðli jökla og eldfjalla, sögu Grímsvatnagosa og Skeiðarárhlaupa og áhrif þeirra á landmótun og ábúð í Skaftafelli. Einnig eru þar sýnd myndbönd um Skeiðarárhlaupið 1996 og gróður og dýralíf í þjóðgarðinum.
    Frá þjónustumiðstöðinni liggja göngustígar um þjóðgarðinn. Búið er að merkja um 45 km af gönguleiðum á svæðinu. Gönguferðir í Skaftafelli eru frekar auðveldar og þarfnast ekki neins sérútbúnaðar. Landverðir bjóða upp á umhverfistúlkun, gönguferðir, barnastundir og fræðslustundir samkvæmt dagskrá sem auglýst er á staðnum.
     Þjóðgarðurinn Skaftafell var stofnaður 1967. Þjóðgarðsvörður er Ragnar Frank Kristjánsson. Þjóðgarðurinn lýtur stjórn Náttúruverndar ríkisins.

701. Núpsstaður, Núpsstaðarskógar og Grænalón, Skaftárhreppi. Allt land Núpsstaðar frá stórstraumsfjörumörkum upp í jökul. Sérstætt svæði vegna náttúrufars og fegurðar. Söguminjar, gamlar byggingar. Á náttúruminjaskrá.

Dverghamrar. Sérkennilegir og fagurformaðir stuðlabergshamrar. Ofan á stuðlunum er víða svokallað kubbaberg. Þegar sjávarborð lá hærra við ísaldarlok hefur hafaldan sett mark sitt á lögun hamranna. Friðlýstir 1987.

Kirkjugólf. Lág stuðlabergsklöpp. Endi stuðlabergsdranganna sem snúa upp úr jörðu. Friðlýst 1987.

704. Grenlækur, Skaftárhreppi. Grenlækur ásamt Tröllshyl, Arnardrangshólma og Stararflóði milli Grenlækjaróss og Þykkvabæjar. Víðáttumikil flæðiengi, tjarnir, lindir og lækir. Auðugt og óvenjulegt lífríki, mikið fuglalíf. Á náttúruminjaskrá.

705. Steinsmýrarflóð, Skaftárhreppi. Votlendið frá jaðri Eldhrauns norður og austur að söndum og suður að Eldvatni. Gulstararflóð og grunnt stöðuvatn. Mikið fuglalíf. Á náttúruminjaskrá.

Gervigígar í Álftaveri. Víðáttumiklar strýtu- og hólaþyrpingar. Tilgáta segir að sjóðheit gufa hafi mótað drýlin þegar hún leitaði upp úr skorpunni. Friðlýstir 1975.

703. Fjaðrárgljúfur, Skaftárhreppi. Tilkomumikið gljúfur í móbergi. Á náttúruminjaskrá.

759. Skálarheiði, Rauðhóll, Bunuhólar og Hálsagígir, Skaftárhreppi. Til austurs ræður lína sem hugsast dregin um Innra-Hrútafjall, Fremra-Hrútafjall og Holtsborg. Að öðru leyti afmarkast svæðið af línu úr 374 m hæðarpunkti í Hellnamýri í topp Kanafjalla og síðan eftir Lambshagaá til ármóta við Skaftá. Frá ármótum liggja mörkin í beina línu sem hugsast dregin um Árhól suður að þjóðvegi nr. 1 og fylgja síðan þjóðveginum til austurs að Dyngjum. Fjölbreytt og fagurt landslag, ríkulegur gróður, skóglendi. Gjallgígaraðir frá nútíma. Rauðhóll er afar sérstakur rauður gjallgígur sem stendur um 80 m yfir umhverfið. Hálsagígir eru gjall- og klepragígar á um 3 km langri gígaröð frá nútíma. Á náttúruminjaskrá.

Lakagígar. Gígaröð á 25 km langri gossprungu vestan Vatnajökuls. Dregur nafn sitt af Laka, móbergsfjalli í miðri gígaröðinni. Lakagígar gusu 1783 í Skaftáreldum, einhverjum mestu hamförum sem sögur fara af. Eldhraun (Skaftáreldahraun) er stærsta hraun sem runnið hefur á sögulegum tíma. Í kjölfar gossins fylgdu hin ægilegu móðuharðindi. Gígarnir eru hin mesta furðusmíð og fagrir á að líta úr rauðu og svörtu gjalli og í seinni tíð að miklu leyti þaktir grámosaþembu. Friðlýstir 1971.

516/702. Tungnafellsjökull og Nýidalur (Jökuldalur). Jökullinn ásamt undirhlíðum, Tómasarhaga, Nýjadal og jarðhitasvæði í Vonarskarði. Fjölbreytilegt landslag með fögrum og sérstæðum gróðurvinjum. Á náttúruminjaskrá.

517. Gæsavötn við Gæsahnjúk. Vötn við suðurjaðar Ódáðahrauns vestur undir Gæsahnjúk og umhverfi þeirra. Lindavötn og hálendisvin, um 920 m h.y.s. Á náttúruminjaskrá.

518. Laufrönd og Neðribotnar. Gróðurlendi í vesturjaðri Ódáðahrauns milli Laufrandar og Hraunár sunnan frá Steinfelli norður fyrir Neðribotna. Gróðursælt umhverfi tjarna og lindavatna, 700–800 m h.y.s. Sérstætt fuglalíf. Á náttúruminjaskrá.

Askja. Sigdæld og eldstöðvar í Dyngjufjöllum. Botn Öskju er þakinn úfnum apalhraunum. Í suðausturhorninu er Öskjuvatn sem varð til við jarðfall í eldsumbrotum 1875. Öskjuvatn er dýpsta stöðuvatn landsins, rúmlega 200 m djúpt. Miklar eldstöðvar eru í Öskju og þeirra á meðal er gígurinn Víti. Vatnið í Víti er heitt og þar er vinsælt að fara í bað. Eldsumbrot í Öskju hafa verið nokkur á sögulegum tíma og áttu þau m.a. sinn þátt í að hrekja fólk frá Austurlandi á síðustu öld. Síðast gaus Askja 1961 þegar Vikrahraun rann. Bandarískir geimfarar voru þjálfaðir þá þessu svæði vegna þess að landslagi þótti svipa til landslags á tunglinu. Stórbrotin og mikilfengleg náttúra Öskju verður ógleymanleg öllum þeim sem hana sækja heim og óhætt er að segja að hér sé einstakur staður á jörð. Friðlýst 1978.

Mývatn og Laxá. Mývatn er grunnt og vogskorið með gróskumiklum hólmum og eyjum. Lífríkasta vatn landsins og einstæð náttúruperla. Vatnið nýtur jafnframt sérstöðu á heimsmælikvarða. Vatnið dregur nafn sitt af mývargi sem gerir sumum lífið leitt en gegnir lykilhlutverki fyrir viðgang gróðurs og dýra. Hvergi í heiminum er að finna á einum stað slíkan fjölda andartegunda. Auk þess verpa nær allar fuglategundir landsins á þessum slóðum. Þörungagróður er líka um margt einstakur í vatninu og er hann undirstaða dýralífsins. Kísilþörungar eru t.d. óvenjufjölbreytilegir og hafa myndað 5–10 m þykkt lag af kísilþörungaeðju á botni vatnsins. Kúluskítur eru hnefastórir hnoðrar grænþörunga sem liggja á botninum og eru eitt af sérkennum vatnsins. Umhverfið skartar sköpunarverkum jarðelda og umbrota sem verða vegna landreks á þessum slóðum. Náttúrufegurð Mývatns dregur þangað fleiri ferðamenn yfir sumartímann en flestir aðrir staðir landsins. Við Mývatn er gestastofa þar sem ferðamenn geta sótt sér fróðleik um náttúrufar svæðisins. Svæðið er verndað með sérlögum nr. 36/1974. Hluti svæðisins, þ.e. Mývatnssveit og öll Laxá, hefur verið verndaður samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf.



Fylgiskjal III.


Greinamunur á þjóðlendum og þjóðgörðum.

Minnisblað Sifjar Guðjónsdóttur lögfræðings óbyggðanefndar
um greinarmun á þjóðlendum og þjóðgörðum.


1. Þjóðlendur.
    Um þjóðlendur er fjallað í lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Í 1. gr. þeirra laga er hugtakið þjóðlenda skilgreint svo: „Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.“ Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram sú hugsun að hugtakið taki til þeirra landsvæða sem nú eru ýmist nefnd afréttur, almenningur, óbyggðir eða hálendi utan eignarlanda. Hugtakið eignarland er í sömu grein skilgreint sem „landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma“. Sömu skilgreiningar er að finna í 2. og 8. tölul. 3. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Greinarmunur þessara tveggja hugtaka endurspeglast í annars vegar eignarlöndum í eigu ríkisins (ríkisjörðum) og hins vegar þjóðlendum sem einnig eru ríkiseign en hafa mikla sérstöðu á grundvelli þjóðlendulaganna.

    Meginefni þjóðlendulaganna er þríþætt:
     a.      Því er lýst yfir að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru þegar háð einkaeignarrétti t.d. á grundvelli laga eða venjuréttar. Til þjóðlendna stofnaðist við gildistöku þjóðlendulaganna 1. júlí 1998 en þar sem óbyggðanefnd hefur ekki lokið vinnu sinni, og raunar ekki kveðið upp neinn úrskurð enn, liggur ekki fyrir hvar þær liggja.
     b.      Komið er á fót sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, sem skal hafa frumkvæði að því að skera skipulega úr um mörk eignarlanda og þjóðlendna, mörk afrétta innan þjóðlendna og önnur eignarréttindi innan þjóðlendna. Í lögunum er ekki að finna sérstakar sönnunarreglur eða lagaskilyrði fyrir því að land skuli teljast eignarland heldur ræðst það af almennum sönnunarreglum og réttarheimildum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.
     c.      Settar eru sérstakar reglur um stjórn og meðferð þjóðlendna, en ekki verði raskað við réttindum þeirra sem hafa nýtt land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja.
    Í þjóðlendulögunum eru engin sérákvæði um jökla og í greinargerð með frumvarpi til laganna segir svo í inngangskafla: „Jöklar, sem ekki teljast innan eignarlanda, falli undir flokk þjóðlendna.“ Um jökla gilda því sömu reglur og um önnur svæði.
    Forsætisráðherra fer með þau málefni þjóðlendna sem ekki eru lögð til annarra ráðuneyta með lögum, sbr. 2. mgr. 2. gr. þjóðlendulaga. Í þessu felst annars vegar skylda til að fara með þau verkefni sem annars kæmu í hlut landeiganda að fjalla um og hins vegar ákveðnar stjórnsýsluskyldur. Í þessu sambandi er um að ræða eftirfarandi verkaskiptingu milli forsætisráðherra og viðkomandi sveitarstjórna:

Nýting Leyfisveitandi
Vatns- og jarðhitaréttindi.
Námur og önnur jarðefni.
Nauðsynleg afnot af landi í þessu sambandi.
Forsætisráðherra, nema mælt sé fyrir um annað í lögum (samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna til aðstoðar).
Önnur nýting lands og landsréttinda til skemmri
tíma en eins árs.
Hlutaðeigandi sveitarstjórn.
Önnur nýting lands og landsréttinda til lengri
tíma en eins árs.
Hlutaðeigandi sveitarstjórn og forsætisráðherra (samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna til aðstoðar).

    Auk hinna sérstöku leyfa þarf að sjálfsögðu einnig að afla annarra lögmæltra leyfa til framkvæmda innan þjóðlendna, svo sem byggingarleyfa.

2. Þjóðgarðar.
    Um þjóðgarða er fjallað í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999. Þjóðgarðar eru einn flokkur friðlýstra náttúruminja, sbr. a-lið 50. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
    Þjóðgarðar eru stofnaðir með þeim hætti að umhverfisráðherra lýsir tiltekið svæði þjóðgarð, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, enda uppfylli svæðið tiltekin skilyrði varðandi landslag, lífríki eða sögulega helgi, sbr. 1. mgr. 51. gr. þeirra laga.
    Í lögum um náttúruvernd er mælt fyrir um þá meginreglu að landsvæði þjóðgarða skuli vera í ríkiseign. Unnt er að gera undantekningu ef sérstakar ástæður mæla með öðru og um það næst samkomulag milli ráðherra og landeigenda, sbr. 2. mgr. 51. gr. laganna. Ákvörðun umhverfisráðherra um að lýsa tiltekið svæði þjóðgarð felur ekki í sér að ríkið kasti eign sinni á svæðið. Áðurnefnd meginregla um að landsvæði þjóðgarða skuli vera í ríkiseign leiðir hins vegar til þess að stofnun þjóðgarðs getur hæglega leitt til kaupa eða eignarnáms á löndum, mannvirkjum eða réttindum, að sjálfsögðu með tilheyrandi bótum, sbr. 64. og 77. gr. laga um náttúruvernd.
    Land undir þjóðgarð getur þannig verið:
     a.      Eignarland, ríkis eða annarra, að öllu leyti.
     b.      Þjóðlenda að öllu leyti.
     c.      Eignarland að hluta og þjóðlenda að hluta.
    Landsvæði sem gert er að þjóðgarði verður því ekki þjóðlenda fyrir vikið.
    Stjórnsýsla í þjóðgörðum er undir yfirstjórn umhverfisráðherra (Náttúruvernd ríkisins). Sérreglur laga um náttúruvernd um stjórnsýslu þjóðgarða gilda framar reglum þjóðlendulaga um stjórnsýslu í þjóðlendum, sbr. 2. mgr. 2. gr. þjóðlendulaga og athugasemdir í greinargerð með því ákvæði. Þannig ber að greina skýrt á milli stjórnsýslu á svæðinu og eignarhalds á landinu.

3. Fyrirhugaður Vatnajökulsþjóðgarður.
    Vatnajökulssvæðið hefur ekki verið tekið til meðferðar óbyggðanefndar en fyrirsjáanlegt er að svo mun verða. Nefndin hefur fjallað á óformlegan hátt um möguleika á því að taka Vatnajökul fyrir sem næsta svæði. Fram kom að slíkt væri ekki í samræmi við áætlanir nefndarinnar á þessu stigi. Hins vegar kynni þess að vera ekki mjög langt að bíða. Í þessu sambandi ber þess að geta að landið er tekið fyrir í hlutum, þar á meðal í stærri og minni landsvæðum umhverfis jökla.
    Málsmeðferð óbyggðanefndar mun væntanlega verða svo sem hér segir: 1 Óbyggðanefnd beinir því til fjármálaráðuneytis að það leggi fram kröfur um hvort og þá hvar á tilteknu svæði séu þjóðlendur, að mati ráðuneytisins. Ráðuneytinu er veittur 3–6 mánaða frestur í þessu skyni. Þegar kröfur ráðuneytisins liggja fyrir eru þær auglýstar (ásamt korti) og þeim landeigendum og öðrum sem telja kröfugerð ríkisins ganga gegn rétti sínum gefinn 3–6 mánaða frestur til að koma sínum kröfum á framfæri. Að loknum þeim fresti fer fram málflutningur fyrir óbyggðanefnd og nefndin kveður upp úrskurð sinn í kjölfar hans.
    Þar til niðurstöður óbyggðanefndar liggja fyrir virðist staðan vera þessi: Samningar um kaup á jörðum geta komist í uppnám þegar niðurstaða óbyggðanefndar liggur fyrir. Ríkið gæti hafa keypt land sem óbyggðanefnd, nokkrum missirum síðar, teldi utan eignarlanda og því eign ríkisins á grundvelli þjóðlendulaganna. Hið sama gildir um samninga um óbein eignarréttindi, svo sem leigu, svo og um eignarnám. Í þessu sambandi ber þó að athuga að fjármálaráðuneytið gæti hagað kröfugerð sinni í samræmi við þá samninga sem ríkið hefði gert á svæðinu. Með því móti yrði ekki uppi neinn ágreiningur aðila fyrir óbyggðanefnd um þessi mörk. Í slíkum tilfellum mundi reyna á sjálfstæða rannsóknarskyldu óbyggðanefndar, sbr. 4. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga. Hversu langt nefndin mun ganga í þeim efnum liggur ekki fyrir. Ekki er þó hægt að útiloka að farið verði út fyrir kröfur aðila að einhverju leyti. Þannig er t.d. hugsanlegt að kveðinn verði upp úrskurður um þjóðlendu á svæði sem ríkið gerði ekki kröfu til sem þjóðlendu.
    Með hliðsjón af þeim óvissuatriðum sem hér hefur verið lýst, gæti verið varlegt að leita eftir samningum sem gera stofnun þjóðgarðs mögulega en kveða á um að uppgjör fari ekki fram fyrr en óbyggðanefnd hefur lokið umfjöllun sinni (og málskotsfrestur er liðinn), þ.e. að því marki sem viðkomandi réttindi eru óvissu háð. Hér er að sjálfsögðu byggt á þeirri forsendu að ekki sé unnt að bíða eftir niðurstöðu óbyggðanefndar í málinu.
Neðanmálsgrein: 1
1 Miðað er við fyrirhugðar breytingar á þjóðlendulögum.