Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 16:40:04 (3589)

2001-01-15 16:40:04# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Tilefni þess að ég kem hér upp er aðallega 11. og 12. gr. þessa frv. og svo náttúrlega efni þess almennt.

Í fyrsta lagi vil ég taka fram að ég er mjög hlynntur því að reyna að draga úr reykingum landsmanna eins og frekast er kostur. Ég vil hins vegar að réttur þeirra sem reykja sé virtur.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að það er lítill bragur að því finnst mér og ekki til fyrirmyndar að sjá fólk reykjandi í stórhópum fyrir utan vinnstaði sína vegna þess að því sé ekki boðin nein aðstaða til þess að reykja á vinnustaðnum. Ég held að það sé ekki til þess fallið að draga úr reykingum að fullorðið fólk standi á strætum úti eða utan við viðkomandi vinnustaði til þess að sinna þessari fíkn sinni, því vissulega er þetta fíkn sem menn eiga miserfitt með að losa sig við.

Í 11. gr. segir að hver maður skuli eiga rétt á reyklausu andrúmslofti innan dyra á vinnustað sínum og vinnuveitenda beri að tryggja starfsmanni þann rétt. Í athugasemdum við 12. gr. er einnig vikið að þessum ákvæðum og m.a. vitnað til þess að ekki virðist þörf á sérreglum á vinnustöðum, t.d. ekki um borð í skipum. Ég verð að segja að ég er algjörlega ósammála þessari framsetningu vegna þess að það er talsverður munur að mínu viti á vinnustaðnum flugvél og vinnustaðnum skipi. Sem betur fer dvelja a.m.k. ekki farþegar langdvölum um borð í flugvélum þó áhafnir hafi þar reyndar mjög stranga vinnuskyldu og frítímaákvæði. Vissulega er í því visst öryggisatriði líka að banna reykingar algjörlega um borð í flugvélum.

En þegar kemur að vinnustaðnum skipi gegnir að mörgu leyti öðru máli. Þess vegna vil ég eiginlega vekja athygli á því að ég tel að sérreglur þurfi um borð í skipum að einhverju leyti. Menn verði að skoða það mál. Ég tel varhugavert að halda að það sé hægt að setja þetta þannig upp að uppfylla þessi ákvæði um vinnustaði um borð í skipum.

Þetta getur m.a. orðið til þess að menn fara að freistast til að reykja í klefunum sínum þó að á flestum stærri fiskiskipum sem ég þekki til sé almennt farið fram á það við menn að þeir reyki ekki í klefunum. Svo er líka farið að finna að því ef þeir reykja í borðsalnum og ekki mega þeir reykja í vinnslurýminu og ekki í netalestinni og helst ekki í vélarrúminu. Skipstjórinn vill ekki að þeir reyki uppi í brú. Þá er nú ekki margt eftir nema sameiginleg rými eins og gangar og aðrar leiðir sem menn nota til að fara um skipið. Ég held því að mjög mikil þörf sé á því að menn fari yfir þetta. Ég veit til þess að einmitt svona ákvæði um að menn megi ekki reykja um borð í skipum, ekki hér og ekki þar, hafa orðið til þess að það fyrsta sem menn gera þegar þeir koma í klefann sinn er að taka upp plastpoka og líma fyrir reykskynjarann, hylja reykskynjarann og ,,teipa`` með, þannig að það sé nú hægt að reykja í klefanum án þess að skynjarinn fari af stað.

[16:45]

Þetta er náttúrlega ekki til bóta og getur hæglega komið niður á öryggi um borð í skipunum. Hins vegar verður að sjá til þess að menn hafi einhvers staðar leyfi til að reykja um borð í skipinu.

Menn dvelja oft langdvölum um borð í skipum sem eru jafnframt vinnustaður þeirra. Þess vegna held ég að það sé vanhugsað í þessu frv. að menn þurfi engar sérreglur um borð í skipum. Ég held að menn þurfi einmitt að tryggja, bæði út frá heilbrigðissjónarmiði og ekki síður út frá öryggissjónarmiði, rétt þeirra sem reykja og að fyrir slíkri aðstöðu sé séð.

Oft mega menn reykja í hluta borðsalar. Félagarnir koma þá gjarnan og setjast við hliðina á þeim til að rabba því yfirleitt er ekki um marga aðra staði að ræða. Í nýrri og stærri fiskiskipum er farið að gera ráð fyrir því að menn hafi eitthvert sérstakt reykingaafdrep en það á alls ekki almennt við í skipum íslenska flotans. Ég tel að það sem hér er sett í texta fái einfaldlega ekki staðist, að hægt sé að setja þessi lög án þess að hafa sérreglur fyrir skip.

Ég vil ljúka máli mínu á því að ítreka að reykingamenn eiga sinn rétt til að reykja þó allir viðurkenni að það sé heilbrigðisvandamál og engum til góðs. Margt sem við aðhöfumst veldur hins vegar ákveðinni mengun og sjálfsagt er að reyna að stemma stigu við því. Við verðum þó að virða rétt þeirra sem hafa þennan vana og eiga erfitt með að losa sig við hann. Mér finnst enginn bragur á að sjá fólk í hópum, reykjandi á götum fyrir utan vinnustaði sína vegna þess að það vantar afdrep þar sem fólk getur reykt í friði. Þetta held ég að menn ættu nú að athuga mjög gaumgæfilega varðandi vinnustaðina. Þó að réttur einstaklinga til að fá að vera reyklausir á vinnustöðum sé viðurkenndur þá þarf líka að setja upp aðstöðu fyrir þá sem reykja þannig að réttar hvors hóps um sig sé gætt.