Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 19:39:57 (3792)

2001-01-17 19:39:57# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[19:39]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi það enn og aftur, ég vona að það verði meira en 40 millj. sem verða til skiptanna fyrir þau 8 þúsund sem núna sitja eftir. Eins og ég hef komið að áður er ríkisstjórnin búin að leggja töluvert mikla vinnu í að skoða hvar vandinn liggur. Við vitum að vandinn liggur hjá þeim sem minnst hafa. Hins vegar verður að skoða nákvæmlega hvernig hægt er að fara inn í almannatryggingakerfið og inn í skattkerfið til þess að tryggja að það sem verður til að auka tekjur lífeyrisþega verði ekki jafnharðan tekið af þeim með sköttum. Þetta verður því allt saman að skoðast mjög nákvæmlega, samspil þessara kerfa til að hægt sé að taka réttar ákvarðanir. (ÖJ: Það er búið að skoða það síðan 1995.)