Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:02:26 (4454)

2001-02-12 17:02:26# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér hafa spunnist upp töluverðar umræður um lítið frv. til laga um niðurfellingu á Framkvæmdasjóði Ríkisútvarpsins og er það vel. Mér fannst nú umræðan orðin ansi farsakennd þegar farið var að tala um einkavæðingar á öðrum sviðum, eins og það væri algjört glapræði þegar farið væri út í að einkavæða eða selja hlut ríkisins í Landssímanum og öðrum stofnunum sem ljóst er að er þjóðhagslega hagkvæmt og eðlilegt að gera.

Auðvitað er í sjálfu sér ekkert athugavert við að blanda Ríkisútvarpinu inn í þá umræðu og fyrst það er gert finnst mér ástæða til þess að segja skoðun mína á því. Að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag er löngu orðið tímabært og það hefur margítrekað komið fram hér í þinginu í hvílíkum fjötrum Ríkisútvarpið er í dag við núverandi fyrirkomulag þar sem yfirkommissarar úr hverjum einasta flokki vilja hafa áhrif á það hvernig þessari stofnun er stjórnað. Hér hafa komið fram fyrirspurnir í þinginu þar sem verið er að gera athugasemdir við einstakar ráðningar og breytingar á rekstri Ríkisútvarpsins og það hefur fólk á vinstri vængnum talið mjög eðlilegt og fundist eðlilegt að slíkri stofnun ætti alveg eins að geta verið stjórnað héðan úr þessum sal og af þeim sem stjórna stofnuninni sjálfir. Ég hef heyrt slíkar umræður hér frá þingmönnum vinstri grænna, ef hv. þm. muna það ekki.

Í mínum huga hefur verið klifað allt of lengi á því að öryggishlutverk Ríkisútvarpsins sé slíkt meginatriði í þessu máli að það megi alls ekki breyta fyrirkomulaginu frá því sem það er. Mér finnst þessir menn tala eins og ekkert hafi gerst í 50 ár á þessu sviði, eins og engar breytingar í fjarskiptatækni, útsendingartækni og móttökutækni, hafi orðið á 50 árum. Auðvitað er allt umhverfið orðið gjörbreytt. Og það er engin ástæða til þess að halda að þó svo að Ríkisútvarpið væri ekki skyldugt til þess samkvæmt lögum eða samkvæmt hugmyndum manna að sinna öryggishlutverki í þessum málum, að það væri þá ekki yfirfært á einhverja aðra. Dreifing útvarps í dag er slík að Stöð 2 er nánast með sömu dreifingu og Ríkisútvarpið. Við vitum að útvörpin sjálf eru mjög víða og eins símafyrirtækin, t.d. Tal, hafa verið mjög fljót að ná útbreiðslu á sínum sendingum eða á sínu sendingarsvæði þannig að vandamálin við að senda út merkin hafa ekki verið þau sem menn hafa viljað vera láta. Þó svo að ríkisreknum fyrirtækjum sé breytt í hlutafélög og jafnvel hlutaféð sem hefur verið í ríkiseigu selt þá á það ekki að breyta neinu um áræðanleika þessara stofnana fyrir landsmenn alla og á það jafnt við um Ríkisútvarpið sem önnur ríkisfyrirtæki sem rætt hefur verið um að breyta. Ég held líka varðandi öryggismál, þjóðaröryggi eins og útsendingar frá hljóðvarpi, að hægt sé að setja ákvæði um það í lög eða reglugerðir sem yrði þá fullnægt af þeim sem hefðu yfir útsendingum að ráða.

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja að hræðsla vinstri manna við einkavæðingu almennt er dálítið sérstök og reyndar órökstudd og þess vegna er engin ástæða til þess að þau sjónarmið ein komi fram við þessa umræðu að ekkert annað komi til greina.

Herra forseti. Ég held í rauninni að það væri langeðlilegast í framhaldinu að Ríkisútvarpið og sjónvarpið yrði selt og gert að hlutafélagi eins og önnur fyrirtæki sem ríkið hefur átt og er að einkavæða um þessar mundir. Ég held að það væri affærasælast fyrir Ríkisútvarpið þegar til lengri tíma er litið og ég vona svo sannarlega að við eigum eftir að sjá þann dag að Ríkisútvarpið losni úr þeim fjötrum sem það er nú í.