Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:13:24 (4536)

2001-02-13 17:13:24# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:13]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér fannst hæstv. forseti Alþingis koma hér enn á skjóttum. Hann vísaði í ræður þingmanna sem talað hafa í dag eins og hann hefði bara skellt við þeim algerlega skollaeyrum og skilið þær sínum skilningi. Ég hefði viljað að hann hlustaði kannski aðeins betur áður en hann kom hér til að gera manni upp skoðanir.

Ég fagnaði sérstaklega þessu frv. vegna þess að ég er hlynnt því að við nýtum þá möguleika sem við höfum á Íslandi. En ég vil að það séu skýr lög og reglugerðir sem setji okkur ákveðinn ramma þannig að ekki sé anað út í einhverja vitleysu áður en málin eru könnuð ítarlega. Mér finnst einmitt að þetta frv. tali máli skynseminnar. Hér er gert ráð fyrir ítarlegri könnun sem ég saknaði að fór ekki fram í ákveðnum málum fyrr í vetur. Hér er gert ráð fyrir að sú könnun fari fram og þess vegna fagnaði ég frv. sérstaklega.

Hæstv. forseti Alþingis talaði um að ég hefði haft óvirðuleg orð um kennitöluskipti. Það eina sem ég talaði um var að æskilegt væri að athugað yrði nánar í hv. landbn. hvað þetta þýddi. Ég setti það ekki inn í frv. að bannað væri að framselja, leigja eða veðsetja rekstrarleyfið. Það var ekki ég heldur er það sett fram í frv. sem hæstv. forseti Alþingis er væntanlega að leggja lið sitt og er til umræðu hér í dag.