Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:02:09 (4714)

2001-02-15 15:02:09# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt að ná niðurstöðu í þessu máli. Við erum nú sjálfsagt báðar, ég og hv. þm. Katrín Fjeldsted, að lesa mjög svipuð tímarit í þessum efnum.

Mig langaði að vísa til umsagnar landlæknis til menntmn. og þingsins í fyrra. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Rannsóknir greinir hins vegar nokkuð á um alvöru og tíðni heilaáverka. Nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum leiddi til dæmis í ljós að einn af hverjum 60 þús. áhugahnefaleikamönnum fékk alvarlega heilaáverka. Sömuleiðis hafa ástralskar rannsóknir leitt í ljós litla áverkatíðni en þó sýnir önnur marktækan mun á fínum taugalífeðlisfræðilegum prófum hjá hnefaleikamönnum.``

Ég hef lesið þessa rannsókn og hún er innan eðlilegra marka, innan skekkjumarka.

,,Aðrar taugalífeðlisfræðilegar rannsóknir, t.d. frá Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð hafa leitt svipaðar breytingar í ljós, m.a. með heilaritsrannsóknum. Tvær rannsóknir á áhrifum hnefaleika á taugakerfið frá Bretlandi leiddu hins vegar hvorug í ljós nein vandamál hjá leikmönnum.``

Hér hefur landlæknir greint frá sjö rannsóknum sem staðfesta það sem við höfum haldið fram.