Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:53:30 (4763)

2001-02-19 15:53:30# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég er einn af meðflm. þessarar þáltill. og ég kem hér upp til að árétta mikilvægi þess að menn skoði það í alvöru að koma á betra skipulagi en nú er hvað þessi mál varðar. Auðvitað er aðalatriði málsins það að niðurstaðan verði sú sem allra fyrst að allur fiskur fari um markaði og að verðlagning á afla verði skilvirk og opin þar sem kaupendur hafi í raun og veru tækifæri til að bjóða í fiskinn á markaði. Sú smuga sé ekki opin áfram sem hefur verið og hefur verið notuð gífurlega mikið fram að þessu að menn selji milli vasa í eigin fyrirtæki. Þetta er ónothæft fyrirkomulag, enda segir það sig sjálft og þarf ekki annað en benda á þær tölur sem hafa verið algengar í viðskiptum með fisk á undanförnum árum þar sem verðmunurinn á sömu fisktegundinni getur verið rúmlega tvöfaldur eftir því hvort viðkomandi útgerð er að selja fiskvinnslufyrirtækinu sem hún rekur sjálf eða þeirri deild fyrirtækisins sem sér um fiskvinnsluna eða hvort sama útgerð er að selja fisk á markaði. Þetta segir auðvitað sína sögu um það hvernig þessum málum er háttað.

Ég tel að þetta sé eitt af stærstu málunum hér hvað varðar atvinnuþróun í sjávarútvegi. Það að þeir sem vilja verka fisk á Íslandi hafi jafnræði til að nálgast fiskinn á markaði skiptir öllu máli.

Ég bendi á að við tilkomu fiskmarkaðanna spruttu upp fyrirtæki sem leituðu nýrra markaða og fóru að þjónusta markaði erlendis. Þetta voru kannski aðallega þau fyrirtæki sem fóru að flytja út ferskan fisk með flugi. Slíkir markaðir hafa verið mjög mikilvægir fyrir okkur. Þarna hefur hæsta verðið fengist fyrir fisk af Íslandsmiðum. Þessi fiskur er fullunninn að því leyti til að hann er tilbúinn til matreiðslu og ég held að því meira sem við seljum af fiski með þessu móti, því meira getum við haft út úr þessari auðlind okkar vegna þess að verðið hefur einfaldlega verið mjög hátt. Þarna hafa menn verið að bjóða besta fiskinn. En hvað er að gerast núna? Nú eru stóru fyrirtækin sem eiga veiðiheimildirnar í landinu að hvolfa sér inn á þennan markað. Í fyrra t.d. buðu þau verulega niður verðið sem hafði áður verið á þeim markaði. Þessi fyrirtæki selja sjálfum sér veiðiheimildirnar á helmingi lægra verði heldur en fyrirtækin sem brutu þennan ís og öfluðu þessara markaða. Þessi stóru fyrirtæki eru að koma inn á þennan markað núna, sennilega allt of hratt líka miðað við þá vaxtarmöguleika sem eru á honum og það hefur sjálfsagt að hluta til verið ástæða þess að verð féll á markaðnum í fyrra. En það er ekki aðalatriðið í máli mínu heldur hitt að benda á það mjög svo óeðlilega fyrirkomulag sem þarna er og stafar af eignarhaldinu á veiðiheimildunum. En líka því að hér eru ekki eðlilegar reglur í gildi hvað varðar aðskilnað veiða og vinnslu.

Auðvitað liggur það í augum uppi að rekstur af þessu tagi á ekki að fara saman, hann á að vera aðskilinn. Þetta hafa menn viðurkennt á öðrum sviðum alveg skýrt og greinilega og ég vil benda á að ekki er svo langt síðan að skorið var úr um að það mætti ekki reka saman annars vegar símaþjónustu Landssímans eins og hún þá var og hins vegar farsímaþjónustu Landssímans. Þar þurfti að skera algerlega í sundur. Af hverju? Jú, það var niðurstaða Samkeppnisstofnunar að ef það væri ekki gert, þá væri verið að mismuna þeim sem veittu samkeppni á þessum markaði, verið væri að mismuna þeim ef þetta væri ekki gjörsamlega skilið í sundur. Ég get alveg skrifað upp á það en ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það ekki vera mikil mismunun miðað við þá mismunun sem er í gildi hjá okkar mikilvægasta atvinnuvegi þar sem hluti fiskvinnslufyrirtækjanna þarf að sæta því að kaupa fisk á fiskmörkuðum á mjög háu verði og greiða greinilega með því verðlagi aðganginn að auðlindinni, en hinn hluti fyrirtækjanna sem er í vinnslunni, þau fyrirtæki sem eiga sjálf aðgang að auðlindinni fyrir ekki neitt frá hendi ríkisins geta selt sjálfum sér hráefnið á meira en helmingi lægra verði. Þetta er gjörsamlega óviðunandi og ég vona satt að segja að við skoðun á þeim atriðum sem farið er fram á að verði skoðuð með þessari þáltill. verði það enn ljósara en það er nú. Mér þykir það að vísu augljóst hverjum þeim sem hefur viljað ræða þetta í fullri hreinskilni og alvöru að þetta fyrirkomulag á ekki að ganga áfram. En þessi skoðun á málinu í heild gæti kannski komið fleirum til skilnings um það að þetta er ekki viðunandi og alls ekki í takt við þær kröfur sem við gerum almennt til samkeppnisumhverfis í atvinnulífi, alls ekki. Mér finnst það vera lágmarkskrafa til okkar hér á Íslandi, sem erum þessi mikla fiskveiðiþjóð og verðum vonandi áfram fiskvinnsluþjóð, að við búum þannig um hnútana að í þeim atvinnuvegi séu samkeppnisaðstæður eðlilegar. Það er affarasælast til að þróunin gefi okkur sem allra best og mest út úr því að nýta þessa auðlind.