Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 16:14:00 (4841)

2001-02-20 16:14:00# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur það gerst ítrekað á undanförnum árum að samþykkt hafa verið lög á Alþingi sem stríða gegn stjórnarskrá Íslands, nú síðast í svokölluðu öryrkjamáli. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort honum finnist ekki mikilvægt að finna farveg til að greiða úr ágreiningsmálum og álitamálum annan en þann sem ríkisstjórn hans kaus í fyrrnefndu máli, að skipa nefnd til að greina dóm Hæstaréttar og semja lagafrumvarp á grundvelli þeirrar greiningar og hugsanlega minnisblaðs sem enginn hefur fengið að sjá. Alla vega hefur ekki verið upplýst um það hér á Alþingi. Þessi nefnd starfaði undir forsæti manns sem hafði áður lýst því yfir að hann væri gagnrýninn á dóm Hæstaréttar. Í ljósi þeirra deilna sem risu í kjölfar þessa máls vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort honum finnist ekki eðlilegt að reynt sé að finna farveg, farveg sem sátt getur verið um, til að vísa ágreiningsmálum af þessu tagi til, hvort sem það heitir lagaráð eða stjórnlagadómstóll.

Í öðru lagi finnst mér ástæða til að beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort honum finnist bakgrunnur og framvinda þessa umdeilda máls hafa verið upplýst sem skyldi?

Ég nefndi minnisblað sem kallað hefur verið eftir án árangurs. Ég get nefnt aðra þætti líka sem lúta að aðskilnaði valdþáttanna þriggja, dómsvalds, löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ég kem að því nánar í síðara andsvari mínu.