Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:02:28 (5115)

2001-03-01 11:02:28# 126. lþ. 80.4 fundur 120. mál: #A stjórn fiskveiða# (tegundartilfærsla) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:02]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég skrifaði undir nál. með meiri hlutanum með fyrirvara og það gerði hv. þm. Samfylkingarinnar Svanfríður Jónasdóttir líka. Ég get tekið undir nánast allt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði áðan um þetta mál en hins vegar lít ég þannig á að það sé þó spor í rétta átt að draga úr þessu. Ég hef haft þá skoðun að það ætti að leggja af þá aðferð sem þarna hefur verið viðhöfð en það hefur ekki orðið niðurstaðan. Meiri hlutinn er ekki tilbúinn til þess að ganga það langt en er þó tilbúinn til þess að taka skref í áttina.

Ég átta mig ekki almennilega á því hvers vegna menn eru að halda í þessa heimskulegu aðferð við það að breyta einni fisktegund í aðra. Þetta hefur ekki orðið til þess að koma í veg fyrir brottkast ef það hefur verið tilgangurinn. Við sjáum það, eða ég a.m.k. lít þannig á, að þegar þessi ákvæði urðu til hafi menn fyrst og fremst verið uppteknir af því að einstaklingar í útgerð gætu nýtt sér aflaheimildirnar sem þeir ættu sjálfir til þess að leggja þær á móti einhverjum umframafla í öðrum tegundum sem þeir ættu líka sjálfir. En síðan þegar frjálsa framsalið hóf göngu sína í þessu kerfi, breyttist allt umhverfið og þá mynduðust þessir möguleikar að safna tegundum og breyta þeim í aðrar, bókstaflega í þeim tilgangi að græða á þeim fjármuni en ekki eins og upphaflegi tilgangurinn var að koma í veg fyrir brottkast og auðvelda útgerðum að lifa við kvótakerfið án þess að þurfa að standa í einhverjum vandamálum sem því fylgdu vegna skorts á kvótum. Þannig er umhverfið ekki það sama í dag og það var þegar menn tóku þessar ákvarðanir.

Það hefur komið í ljós, og var farið mjög vandlega yfir það áðan, hvernig þetta hefur virkað og jafnvel eru dæmi um það að einstakar tegundir séu ekki veiddar ár eftir ár nema að litlu leyti, kannski ekki nema tæpur helmingur veiddur af þeim kvóta sem Hafrannsóknastofnun telur æskilegt að sé nýttur úr þessum tegundum og það segir sína sögu um það hversu heimskulegt þetta fyrirkomulag er.

En eins og ég sagði er það þó til bóta sem þarna er verið að gera. Það er dregið verulega úr möguleikunum til þess að þetta hafi áhrif á einstakar tegundir með því að lækka það hámark sem hægt er að nýta sér í þessum tegundartilfærslum.

En kannski hefði verið ástæða til þess nú, vegna þess að hér hafa ekki oft verið umræður í vetur um sjávarútvegsmál og samt á eitthvað mikið að vera að gerast í þeim málum, að menn ræddu m.a. brottkastið í tengslum við þessa umræðu einfaldlega vegna þess að á sínum tíma var það ein af aðalforsendunum fyrir þessari tegundartilfærslu að koma í veg fyrir brottkast. Eins og ég sagði áðan hefur það sýnt sig að það hefur ekki skipt verulegu máli í því sambandi og annað óhagræði hefur síðan fylgt. En hæstv. ríkisstjórn með hæstv. sjútvrh. í broddi fylkingar virðist ekki hafa miklar áhyggjur af þessum málum. Við höfum einungis séð eitt mál í vetur sem er ætlað að taka á brottkasti og það mál mun ekki skipta neinum sköpum hvað varðar brottkast að mínu viti. Við höfum tekið þá umræðu áður, en það hefur komið í ljós síðan við tókum þá umræðu í hv. Alþingi það sem við sum hver sögðum þá, að það hefði lítil áhrif, og sú refsingaaðferð sem þarna væri uppi höfð mundi aldrei ganga.

Það hefur komið fram í þeirri umræðu ákveðin vísbending um að vandamálin muni halda áfram að verða fyrir hendi hvað það varðar að hægt sé að nota þessar refsileiðir. Ég ætla að vitna í fréttir úr sjónvarpinu frá 15. febrúar sl. en þar sagði, með leyfi hæstv. forseta:

,,Embætti ríkislögreglustjóra hefur hætt rannsókn á meintu brottkasti 15 útgerða sem Fiskistofa kærði síðasta sumar þar sem talið er að kærurnar eigi ekki við rök að styðjast. Fiskistofa hefur heimild til að halda áfram með málið hjá ríkissaksóknara.``

Síðan segir: ,,Það var um mitt síðasta ár sem Fiskistofa kærði 15 útgerðir á Vestfjörðum og Snæfellsnesi fyrir brottkast á grundvelli mælinga á aflasamsetningu. Sýslumennirnir á Patreksfirði og í Stykkishólmi vísuðu málinu áfram til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Mælingar fiskeftirlitsmanna á þriggja mánaða tímabili í fyrra sýndu mikinn mun á stærð afla á viðkomandi bátum eftir því hvort fiskeftirlitsmaður frá Fiskistofu væri um borð. Fiskistofa óskaði þá eftir skýringum útgerðanna á þessum stærðarmun.``

Þetta var nákvæmlega aðalatriðið á bak við tillögur hæstv. ráðherra sem voru samþykktar í haust eða í vetur, að athuganir af þessu tagi gætu gefið Fiskistofu færi á því að stöðva þetta af. Það yrði hægt að beita refsiákvæðum á grundvelli slíkra athugana.

Og áfram úr þessari frétt, með leyfi hæstv. forseta, og þá er vitnað í Þórð Ásgeirsson fiskistofustjóra: ,,Skýringarnar voru nú auðvitað eitthvað mismunandi en flestar á þann veg að það væri ekkert hægt að draga neinar ályktanir um brottkast út frá þessum gögnum því að menn gætu fengið stóran fisk í dag og lítinn fisk á morgun þó á sömu slóðinni sé. En okkur fannst nú þessar skýringar ekki mjög trúverðugar.`` --- Þetta sagði Þórður Ásgeirsson, fulltrúi Fiskistofu.

Og ef ég les áfram, með leyfi hæstv. forseta: ,,Í bréfi sem ríkislögreglustjóraembættið sendi Fiskistofu segir að ekki þyki grundvöllur fyrir frekari rannsókn vegna skorts á sönnunum. Í kæru sinni til sýslumanna óskaði Fiskistofa eftir að forsvarsmenn viðkomandi útgerða, skipstjórar og áhafnarmeðlimir úr tilteknum róðrum yrðu yfirheyrðir vegna rannsóknar málsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru aðeins skipstjórar viðkomandi báta yfirheyrðir. Ríkislögreglustjóri vísar Fiskistofu á að ríkissaksóknari geti mælt fyrir um frekari rannsóknaraðgerðir telji hann þess þörf. Hjá Fiskistofu hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort málinu verður skotið þangað.`` --- Ég veit ekki til að það hafi verið gert enn þá.

Ég er að draga þetta inn í umræðuna, hæstv. forseti, vegna þess að það bólar ekki á neinum nýjum aðferðum eða aðgerðum af hendi hæstv. sjútvrh. til að taka á þessu stóra vandamáli. Hér er komin fram mjög skýr vísbending um það að þær aðferðir sem hæstv. ráðherra ætlaði að viðhafa með þeim breytingum á lögum sem voru gerðar í vetur muni ganga erfiðlega að nota til þess að koma í veg fyrir brottkast. Það kemur mér að vísu ekki á óvart vegna þess að ég hafði aldrei trú á því að það yrði nothæfur farvegur sem þarna var ákveðið að fara. En það er ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort þær upplýsingar sem þarna liggja fyrir um þetta gagnsleysi --- og ég minni á það að ég bar fram fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. í vetur um það hve margir hefðu verið ákærðir og hve margir hefðu verið dæmdir á grundvelli gildandi laga um umgengni sjávar. Og niðurstaðan var sú að það höfðu 19 verið ákærðir áður en þetta kom til og það hafði enginn verið dæmdur. Hæstv. ráðherra ætlar samt að halda áfram refsileiðina. Það væri gaman að hafa hann til svara í dag til þess að ræða þetta mál og hvort hann hafi einhverjar nýjar lausnir í pokahorninu til að taka á þessum vandamálum.

Það er ekki þannig að þetta vandamál sé bundið við Ísland. Við höfum sífelldar fréttir frá öðrum löndum í kringum okkur þar sem það er að koma á daginn að gífurlegu magni af afla er fleygt í sjóinn vegna kvótakerfa sem eru í gangi. Þess vegna er full ástæða til að fara yfir það hvort einhver ráð önnur séu til staðar sem hægt væri að grípa til, vegna þess að það fyrirkomulag sem við erum að ræða hér að skipta á tegundum var einu sinni hugsað í þessum tilgangi, aðferðirnar sem hæstv. ráðherra er að nýta núna með auknum mannskap á vegum Fiskistofu um borð í fiskiskipin og síðan þá hvað til viðbótar gæti komið. Ég vona satt að segja að sú hugmynd sem oftast hefur verið hreyft með tillöguflutningi hér á Alþingi, eftir því sem ég best veit, að leyfa löndun á afla utan kvóta eftir tilteknum reglum, verði skoðuð til hlítar og að menn geri gangskör að því að fá á hreint hvað þetta vandamál er stórt með því að samþykkja slíka tillögu á hv. Alþingi. Það liggur fyrir þinginu tillaga af þessu tagi í tveimur eða þremur þingmálum og lá í fyrravetur fyrir þinginu í a.m.k. þremur þingmálum. Alltaf af sama tagi. Tillaga flutt af fjölmörgum þingmönnum, aftur í tímann líka, um það að skipstjórar eða útgerðarmenn geti valið þann kost að landa afla utan kvóta.

Ég segi eins og er að ég tel ástæðu til að nefna þetta hér einfaldlega vegna þess að ég tel að ástæða sé til að ætla að það sé meiri hluti fyrir því á hv. Alþingi að gera þessa tilraun, fara þessa leið, a.m.k. tímabundið til þess að sjá hver stærð vandamálsins er og geta þá á grundvelli upplýsinga sem hægt er að treysta tekið ákvörðun um það hvort slíkt fyrirkomulag yrði notað til frambúðar. Það er alla vega engu hætt í þessu sambandi. Það er engu að tapa. Það eina sem getur gerst er það að við fáum meiri afla á land sem annars væri fleygt í sjóinn og það getur ekki verið neitt stór skaði skeður þó að sá afli kæmi á land ef hann er til staðar, eins og við mörgum teljum að sé.

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja að þessu máli aftur fáum orðum. Ég vil bara að það liggi alveg skýrt fyrir að ég er ekki fylgjandi því fyrirkomulagi sem hér er til staðar. Ég tel hins vegar að það sé spor í rétta átt að draga úr þessu fyrst menn eru ekki tilbúnir að leggja það af og það muni alla vega koma í veg fyrir það að ýmsar útgerðir haldi þeim leik áfram að safna til sín tegundum í þeim eina tilgangi að græða á því og koma þannig í veg fyrir að einstakir kvótar séu nýttir og að auðlindin sé nýtt með þeim hætti sem skynsamlegast er að mati fiskifræðinga. Þetta er auðvitað fráleitt fyrirkomulag og ég vona satt að segja að þessi umræða og umfjöllun verði til þess að það renni upp fyrir fleirum að auðvitað á að leggja þetta af. En, hæstv. forseti, það er þó skárra að draga úr þessu heldur en að hafa það eins og það hefur verið.