Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:43:29 (5458)

2001-03-08 16:43:29# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú lendir hæstv. ráðherra í því sem hún sakaði mig um, að þegar hún getur ekki svarað, fer hún bara um víðan völl. Það var alveg ljóst af þessu svari. (Gripið fram í.) Já, og fór út í hálskirtla, þóttist sjá þá hér langar leiðir. (Gripið fram í.)

En þetta mál snýst ekki um það hvort sú sem hér stendur treystir ráðherranum eða ekki. Það snýst um það hvort lífeyrisþegarnir eigi að treysta ráðherranum, vegna þess að hún hefur ekki staðið við það sem hún hefur lofað þeim margoft og þar nefni ég m.a. afnám tekjutengingarinnar við tekjur maka. Auðvitað er ráðherrann í vondum málum þar. Hún veit það vel sjálf. Hún gat heldur ekki svarað þeim atriðum sem ég nefndi vegna þess að þau eru öll rétt. (Gripið fram í.) Um hvernig kjör lífeyrisþega hafa verið leikin í tíð þessa ráðherra.

Aftur á móti er það rétt að bensínstyrkurinn var hækkaður nýlega, en hann var búinn að standa í stað árum saman meðan þessi hæstv. ráðherra var við völd. Svona getum við auðvitað farið yfir sviðið. En hæstv. ráðherra kýs að vera með dylgjur hér í ræðustól Alþingis og það finnst mér afleitt, herra forseti, og henni ekki til sóma.