Viðbrögð við gin- og klaufaveiki

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 13:41:54 (5696)

2001-03-14 13:41:54# 126. lþ. 88.91 fundur 376#B viðbrögð við gin- og klaufaveiki# (aths. um störf þingsins), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég vona að það sé ekki misnotkun þó ég nefni það að í landbn. í morgun vorum við að ræða þetta mál, dýrasjúkdóma, og þar er reyndar frv. til breytinga á lögum án þess að nokkurs staðar komi fram að að skerpa þurfi eða auka við lagaheimildir. Þær eru skýrar og klárar hvað varðar sóttvarnir og varnir gegn dýrasjúkdómum og varnir gegn innflutningi á sýktum vörum. Þessar heimildir eru allar fyrir hendi hjá hæstv. landbrh. að fengnum tillögum yfirdýralæknis þannig að þó að við kæmum með frv. til breytinganna í dag eykur það ekki neitt við reglur eða lög því að það er allt skýrt og klárt fyrir.

Við erum með skýrari og öruggari varnir gegn innflutningi á landbúnaðarvöru en nokkur önnur þjóð. Það er þannig að hjá okkur er innflutningur bannaður nema hann sé leyfður en hjá öðrum þjóðum er hann leyfður nema hann sé bannaður með sérstökum lögum. Ég vona að menn skilji muninn á þessu og efa það reyndar ekki.

Hvað varðar álftirnar blessaðar þá er meiningin að taka saursýni og vita hvort þær beri með sér í innyflum sínum einhvern óþverra fyrir Ísland. Hitt get ég upplýst að það er enginn vandi að skjóta álftir. Menn geta hitt þær ágætlega en ég hef ekki séð þær fara inn í gripahús. Hins vegar sé ég oft litla fugla fara þangað inn. Það er bæði erfiðara að skjóta þá og taka af þeim sýni en hitt er annað mál að það hefur ekki verið upplýst hvað yfirdýralæknir hyggst fyrir eða ráðuneytið ef þessar blessaðar skepnur bera með sér sýkingarhættu.