Sjálfstætt starfandi heimilislæknar

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:28:04 (5745)

2001-03-14 15:28:04# 126. lþ. 89.8 fundur 515. mál: #A sjálfstætt starfandi heimilislæknar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Stöðu frumheilsugæslu í borginni má lýsa í nokkrum setningum. Skortur er á heimilislæknum í Reykjavík, það hefur verið metið að á milli 20 og 30 lækna þurfi til viðbótar þeim 90 sem nú eru starfandi á Reykjavíkursvæðinu til þess að anna eftirspurn. Nokkur dæmi eru þess að menntaðir heimilislæknar hverfi frá starfi og afli sér réttinda til starfa innan annarrar sérgreinar lækninga. Nýliðun meðal heimilislækna er hæg, uppbyggingu heilsugæslunnar í Reykjavík miðar hægt og hefur ekki náð að halda í við þróun borgarinnar. Um 20 þúsund Reykvíkingar eru ekki með skráðan heimilislækni. Biðtími eftir viðtali hjá heimilislæknum hefur lengst verulega að undanförnu og er svo komið að fólk hefur þurft að bíða allt upp undir eina viku til að fá tíma hjá lækni sínum. Eftirspurn eftir þjónustu heilsugæslunnar hefur aukist, m.a. vegna þess að fólk virðist leita eftir heilbrigðisþjónustu af minna tilefni en áður. Vegna erfiðleika við að ná sambandi og viðtali við heimilislækni, hefur aðsókn fólks til annarra læknisfræðilegra sérfræðinga og á vaktþjónustu aukist verulega.

Frumheilsugæslu er ætlað að vera fyrsti viðkomustaður fólks sem á í heilbrigðisvanda og gengur hugmyndafræðin út á að heilsugæslan eigi að leiðbeina fólki að fá lausn á vanda sínum innan kerfisins og því er ég sammála. Almennt er talið að góð og virk frumheilsugæsla geti leitt til verulegs sparnaðar í heilbrigðisþjónustu.

Tvö kerfi heimilislækninga eru í Reykjavík. Annars vegar kerfi heimilislækna sem eru starfandi á heilsugæslustöðvum og hins vegar kerfi sjálfstætt starfandi heimilislækna. Heimilislæknar á heilsugæslustöðvum eru á fastlaunakerfi og fá greidd laun samkvæmt ákvörðun kjaranefndar en sjálfstætt starfandi heimilislæknar fá greitt fyrir hvert læknisverk samkvæmt samningi læknafélaganna við Tryggingastofnun ríkisins.

Á síðustu árum hafa heilbrigðisyfirvöld haldið fram kerfi heilsugæslustöðva. Þessi stefna hefur leitt af sér að sjálfstætt starfandi heimilislæknum, sem starfa utan heilsugæslustöðva, hefur farið fækkandi og þar af leiðandi hefur engin endurnýjun orðið innan þeirra raða. Ástæðan er að umsóknum heimilislækna um að starfa sjálfstætt hefur verið hafnað.

[15:30]

Áhugi er fyrir hendi hjá ýmsum heimilislæknum að starfa utan heilsugæslustöðva. Á það m.a. við um heimilislækna sem nú eru starfandi erlendis og vilja koma heim. Með slíkri fjölgun heimilislækna væri hægt að bæta að einhverju það ástand sem er í heilsugæslumálunum í borginni. Einnig hlýt ég að nefna hve varhugavert það er að setja atvinnuþvinganir á tiltekna stétt manna, að þeim sé ekki heimilt að starfa innan síns fags, nema undir merki ríkisrekstrar. Hið sama á einnig við um val þeirra sem þjónustunnar leita, þeir eiga að hafa möguleika á fleiri kostum.

Af þessum ástæðum spyr ég, ásamt hv. þm. Katrínu Fjeldsted, hæstv. heilbrrh.: Hvaða ástæður eru fyrir því að heimilislæknar hafa ekki fengið leyfi hjá Tryggingastofnun ríkisins til að starfa sjálfstætt við sérgrein sína á eigin stofum á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár?