Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 18:06:12 (5895)

2001-03-19 18:06:12# 126. lþ. 94.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[18:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur fært þau rök helst fyrir því að setja með þessum hætti lög á verkfall sjómanna að það sé mikill skaði fyrir þjóðarbúið ef verkfallið heldur áfram. Það er alveg rétt hjá hæstv. sjútvrh. Það er mikill skaði fyrir þjóðarbúið í hvert einasta skipti sem brestur á verkfall. Í hvert einasta skipti sem kemur til þess í kjaradeilu að menn grípa til þess þrautaráðs að leggja niður vinnu hefur það í för með sér tjón fyrir þá og þjóðarbúið í heild. Við getum hins vegar ekki annað en horft til þeirrar staðreyndar, herra forseti, að menn hafa litið á þetta sem ein af grundvallarréttindum mannsins, að beita vinnuafli sínu til þess að ná fram bættum rétti sínum, fyrir sína hreyfingu, fyrir fjölskyldu sína.

Þegar við lítum yfir söguna, herra forseti, og horfum í kringum okkur og sjáum þetta velferðarþjóðfélag sem við búum í þá er ekki hægt að mæla gegn því að það er ekki síst hörð og kraftmikil barátta verkalýðshreyfingarinnar sem náð hefur fram samstöðunni um þau jöfnunartæki og það öryggisnet sem gerir Ísland að þessu frábæra samfélagi sem það er í dag. Hversu oft hafa menn ekki náð fram sögulegum réttindum með því að leggja niður vinnu? Hversu oft hefur ekki þurft að grípa til verkfalls til þess að knýja í gegn það sem okkur finnst í dag sjálfsagður réttur fólks á Íslandi? Þetta er einfaldlega það sem sagan kennir okkur, herra forseti.

Verkfall framhaldsskólakennara kostaði að sjálfsögðu mikið. Þeir litu hins vegar svo á að það væri nauðsynlegt til að ná fram ákveðnum réttindum, ákveðnum kjarabótum. Alveg eins og þeir líta sjómenn svo á að þeir eigi ekki annarra kosta völ en að leggja niður vinnu til að ná fram samningum. Við vitum t.d., herra forseti, að sjómenn hafa árum saman barist harkalega gegn því að vera knúðir til þess með einum eða öðrum hætti að taka þátt í kvótakaupum. Meira að segja hér á hinu háa Alþingi hafa þingmenn með lagagerningum reynt að koma í veg fyrir að slíkt væri gert. Það hefur ekki haldið.

Eigi að síður, herra forseti, erum við aftur komin í þá stöðu að sjómenn telja að til þess að ná samningum við útgerðarmenn séu þeir nauðbeygðir til að leggja niður vinnu. Hvenær mundu menn kjósa tíma til að leggja niður vinnu? Væntanlega þegar pressa er í málinu. Hvenær er pressa í málinu, herra forseti? Væntanlega þegar vertíð stendur sem hæst. Þess vegna hafa sjómenn hafa kosið að nota þennan tíma til að leggja niður vinnu sína. Ég tel, herra forseti, það grundvallarréttindi vinnandi fólks að grípa til aðgerða af þessu tagi. Mér finnst það ákaflega viðurhlutamikið og ég get ekki tekið þátt í að samþykkja lög til þess að binda endi á verkfall einnar eða neinnar stéttar í svipaðri stöðu og sjómenn.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson rakti það ákaflega vel hér áðan í hvaða stöðu sjómenn eru. Hver er þessi staða, herra forseti? Þeir hafa á síðustu 14 árum í reynd verið með lausa samninga í sex og hálft ár. Þeir hafa nú verið samningslausir í röskt ár. Á undanförnum árum höfum við séð allar kjaradeilur þeirra enda eins. Hvernig, herra forseti? Hæstv. ríkisstjórn hefur komið og sett lög á deiluna. Hæstv. ríkisstjórn hefur í reynd gengið erinda útvegsmanna aftur og aftur. Hvernig ætlast menn til að hægt sé að setja niður deilur með frjálsum samningum ef það liggur fyrir, herra forseti, að annar deiluaðilinn getur treyst á að deilunni verði lokið með lögum? Það kann vel að vera að hæstv. sjútvrh. telji að hér sé í reynd ekki verið að setja lög til að banna verkfallið vegna þess að frv. eins og það lítur út feli einungis í sér frestun. Eigi að síður er það þannig að ef frv. verður að lögum, jafnvel þó að það verði með þeim breytingum sem hæstv. sjútvrh. boðaði hér í ræðu sinni, þá er ljóst að þrýstingurinn sem sjómenn hafa í málinu er úti, vertíðin sem ljær aðgerðum þeirra þunga er frá. Í reynd er erfitt að halda því fram að þessi lög snúist um eitthvað annað en að binda endi á verkfall sjómanna.

Herra forseti. Endalaus afskipti hins opinbera hafa firrt menn ábyrgð. Þau hafa firrt menn ábyrgð á að ljúka samningum eins og á að ljúka samningum, með samkomulagi. Menn hafa ítrekað komist í þessa stöðu. Þetta hefur auðvitað mikinn skaða í för með sér fyrir þá sem segja má að séu þolendur í málinu, þ.e. fiskverkafólk víðs vegar um landið sem horfir upp á að tapa atvinnu sinni vegna þess að málið er komið í þennan hnút. Ég lýsi ábyrgð á hendur ríkisstjórninni, herra forseti, vegna þess að hún hefur með framkomu sinni sýnt fram á að sjómenn geta ekki náð samningum. Útvegsmenn geta alltaf reitt sig á að ríkisvaldið komi með þessum hætti inn í samningana.

Herra forseti. Mér finnst það auðvitað nöturlegt að þegar verkfall hefur ekki staðið í fjóra sólarhringa, þegar við heyrðum að jafnvel væri farið að rofa til í samningum fyrr á þessum degi, þá skuli ríkisstjórnin slíta í sundur verkfallið með lögum.