Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 11:06:06 (6850)

2001-04-26 11:06:06# 126. lþ. 113.1 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv. 22/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, með síðari breytingum, markar í sjálfu sér ákveðin tímamót í sögu félagslegrar uppbyggingar atvinnulífs og samfélags hér á landi. Kaupfélögin, samvinnufélögin og samvinnuhugsjónin sem þau byggðust á áttu stóran hlut að því að endurreisa íslenskt atvinnulíf, íslenskt menningar- og félagslíf um allt land sem hluta af sjálfstæðisbaráttunni á síðustu öld. Bara sú hugsjón ein að í þessum félagsskap fór hver með eitt atkvæði óháð gildi hans eða stöðu eða áhrifum innan þessara fyrirtækja þessa félagsskapar.

Þessi fyrirtæki og þessi félög voru hluti af því samfélagi sem þau voru sprottin upp úr. Þau voru hluti af því og litu á sig sem slík og þess vegna var stjórnskipunin með þeim hætti. Þau litu ekki á það sem forgangsverkefni sitt að ná arði út úr rekstrinum til þess jafnvel að fara með burt úr héraðinu eða af landinu eins og við upplifum nú markmið margra atvinnufyrirtækja, margra einkafyrirtækja sem eru nú að hasla sér völl og ryðja sér til rúms hér á landi. Skyldur gagnvart samfélaginu, skyldur gagnvart meðborgurunum, skyldur gagnvart nágrannasamfélaginu sínu virðast vera á undanhaldi eins og er. Atvinnureksturinn á að fá þá umgjörð að þar ráði afl hins sterkasta, hann ráði hvar áherslurnar liggja, hvert arðsemismarkiðið er og hvernig arðinum er ráðstafað, hvert hann er fluttur, hvert hann er tekinn.

Herra forseti. Ég tel að við séum hér á hættulegri braut. Vel má vera að núna gefist eitthvert takmarkað svigrúm án þess að til alvarlegra brotlendinga komi í samfélaginu að ganga þessa braut, þessa einkavæðingararðsemiskröfubraut, þessa braut þar sem eigandinn og ábyrgðaraðilar atvinnurekstrar, fyrirtækja og þjónustustofnana eru hvergi nærri, þeir geta verið í öðrum landshluta eða öðrum löndum. Vel getur verið að eitthvert takmarkað svigrúm verði fyrir þessar breytingar. En ég held, herra forseti, að þegar til langtíma er litið og þegar við lítum á heill samfélagsins, þegar við lítum á heill meðborgaranna til langs tíma, muni þetta ekki ganga upp og muni ganga til baka.

Herra forseti. Ég vil því taka undir varnaðarorð hv. þm. Ögmundar Jónassonar þar sem hann hvatti til þess að þessi mál væru skoðuð vandlega, reynt verði að finna hvort ekki séu einhverjar aðrar leiðir til að gefa kaupfélögunum, gefa samvinnufélögunum aukið svigrúm ef talin er nauðsyn til að hasla sér völl eða standast í samkeppni við þessar tímabundnu aðstæður í einkavæðingarhraðlest nútímans sem ég held að muni brotlenda fyrr eða síðar ef menn sjá að ekki er framtíðarlausn fyrir allt atvinnulíf. Hér eigi að fara sér hægt.

Við höfum dæmi um kaupfélög sem standa sig ágætlega. Ég nefni Kaupfélag Skagfirðinga og þann atvinnurekstur og félagsrekstur sem þar er staðið að, enda er þar traust og öflugt félag með víðtækri aðild íbúanna á því svæði sem er einmitt mjög virkt í starfi þess samvinnufélags. Ég hugsa til þess með hryllingi, herra forseti, ef sú staða væri komin upp að eignarhald þar og forsjá væri komin í hendur fjarstaddra aðila sem hugsuðu um það eitt að á meðan þeir ættu þarna eignaraðild eða aðkomu skyldu þeir ná út úr þessu fyrirtæki eins miklum arði og hægt væri. Það væri í rauninni markmiðið og þeir hugsuðu einungis í eigin ævitíma. Vel má vera að um einhverja skamma hríð megi tappa út úr fyrirtækjum eins og við höfum horft á í æ fleiri tilvikum víða um land, mjólka út úr þeim eignirnar, mjólka út úr þeim arð tímabundið og fara með hann burt. En þegar til lengri tíma er litið á byggðarlagið og íbúarnir og börn þeirra, sem höfðu lagt sitt til þess að byggja upp þessi fyrirtæki og þennan félagsskap, ekki annarra kosta völ en elta fjármagnið, fara á eftir því úr héraðinu ef svo hefur orðið.

Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minntist á er líka í óvissu og alls ekki útkljáð hvernig er með eignarhaldið, hver sú eignastaða er sem verið er að fjalla um, hvað verið er að setja á hálfgerðan uppboðsmarkað eða bjóða þær aðstæður að hægt sé að setja þetta á uppboðsmarkað. Tökum sem dæmi eignir Kaupfélags Skagfirðinga. Þar eru gríðarlega miklar eignir sem eru fyrst og fremst eignir fyrir það samfélag sem þar er, ef við sæjum þær fara á slíkan uppboðsmarkað. Mér fyndist þurfa að taka út, herra forseti, þær eignir og eignastöðu sem um er að ræða og hvernig þeim skal þá ráðstafað og hver á þá í raun siðferðislegan rétt til þeirra og ráðstöfun þeirra og þess hluta sem þeim var ætlað að þjóna.

Þó svo að í þessi lög sé sett það ákvæði að ekki eigi að þvinga samvinnufélög til að breyta sér í hlutafélög þá er það þó ljóst að sú umgjörð sem verið er að skapa atvinnurekstri á þessum vettvangi verður æ þrengri. Það er þrengt að þeim beint og óbeint þannig að verði ekki gripið til andstæðra aðgerða, aðgerða sem styrkja þennan félagsskap, styrkja þetta atvinnuform, þá munu þeir fyrr eða síðar neyðast til að fara þá leið sem hér er verið að ýta þeim út á beint eða óbeint, þeir munu ekki eiga annarra kosta völ ef svo fer fram sem horfir. Í rauninni er þessi valkostur settur upp meira til friðþægingar en til þess að það sé vilji af hálfu stjórnvalda til framtíðar að hann sé raunverulegur valkostur.

Herra forseti. Ég tek undir og árétta varnaðarorð hv. þm. Ögmundar Jónassonar í umræðunni. Ég tel að hérna hefði átt að fara mun hægar, hér hefði átt að skoða málin mun betur hvað verið væri að gera. Hérna hefði átt að leita líka og leggja fram leiðir hvernig mætti styrkja þetta atvinnuform frekar en að opna því leiðir til að leggjast af eins og er hin óbeina eða beina stefna sem þetta frv. leggur til.