Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:35:24 (6981)

2001-04-27 11:35:24# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:35]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég skil orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar svo að hann sé ekki efnislega ósammála frv. En það sem hann gerir athugasemdir við í ræðu sinni og var tilefni til umræðu í þinginu hér fyrir tveimur dögum síðan, varðar afgreiðslu málsins og vinnslu málsins. Ég held að það hafi nú verið upplýst nokkuð vel af hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni allshn., hvernig að því var staðið. Ég vil aðeins rekja það í nokkrum orðum.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kallaði í ræðu sinni við 1. umr. málsins eftir upplýsingum úr ákveðinni skýrslu. Það var gott og blessað. Síðan fór málið til nefndar. Þessi skýrsla var ekki nefnd á nafn þar af fulltrúa Samfylkingarinnar. (Gripið fram í: En ykkar?) Það var ekki heldur. Það er alveg rétt. Hins vegar upplýstist málið síðan á fundi í hv. allshn. nú í vikunni, á miðvikudagskvöldið. Þar var greint frá því í nokkrum orðum hver niðurstaðan var og engar athugasemdir voru gerðar við það hvorki frá fulltrúum Vinstri grænna né Samfylkingarinnar. Og niðurstaðan er sem sagt sú að þessi skýrsla liggur ekki fyrir. Það er nýfarið að vinna hana. Hún mun liggja fyrir í haust. En það liggja engar upplýsingar fyrir sem breyta neinu varðandi þetta mál núna. Hins vegar er þróun refsidóma varðandi fíkniefnamál rakin mjög ítarlega í greinargerð með frv. og það gaf okkur hv. þm. í allshn. nokkuð gott yfirlit yfir málið. Við töldum okkur því geta tekið ákvörðun í þessu máli samkvæmt bestu upplýsingum sem við höfðum í höndunum.

Þessi skýrsla liggur ekki fyrir. Efni hennar liggur ekki fyrir. Því er ekki hægt að draga neinar ályktarnir af henni. Ég geri engar athugasemdir við vinnslu málsins og ég vona að það sem hefur verið sagt hér upplýsi hv. þingmenn sem ekki eru í allshn. um hvernig málið hefur verið unnið.