Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:26:09 (7024)

2001-04-27 15:26:09# 126. lþ. 114.15 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., Frsm. HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Frsm. landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Ingibjörgu Ólöfu Vilhjálmsdóttur frá landbrn. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, búfræðsluráði og Veiðimálastofnun.

Með þessu frv. er lagt til að Rannsóknastofnun landbúnaðarins verði heimilt að fengnu samþykki stjórnar stofnunarinnar og landbrh. að eiga aðild að og stofna rannsókna- og þróunarfyrirtæki, er séu hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð, sem vinni að því að þróa og hagnýta niðurstöður rannsóknastofnunarinnar, þ.e. RALA.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt og allir nefndarmenn eru samþykkir því áliti; sá sem hér stendur, Sigríður Jóhannesdóttir, Drífa Hjartardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, með fyrirvara, Guðjón Guðmundsson, Þuríður Backman, einnig með fyrirvara, Einar Oddur Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson.

Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og hann er samþykkur þessu áliti en hv. þm. Jónína Bjartmarz var fjarverandi afgreiðslu þessa máls.