Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:01:20 (7543)

2001-05-11 15:01:20# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Við skulum gæta þess í þessari umræðu að fara ekki á taugum. Hæstv. landbrh. má ekki fara á taugum yfir því þó að einhverjir kunni kannski að fara að honum með kerskni og stundum flími. Sjálfur er hæstv. landbrh. snillingur og jafnvel fremstur manna í því að draga góðlátlegt dár að fólki og fara með spaugsyrðum. Hafi ég sært hæstv. landbrh. með því að segja að hann hafi komist til manns og miklist jafnvel af því án þess að borða mikið af grænmeti þá þykir mér það miður. Ef það er honum einhver hugarfró get ég upplýst hann um það að hið sama gildir um þann sem hér stendur. Ég er af þessari kynslóð líka og má heita að ég hafi hvorki séð tómata né ýmsa framandi garðávexti fyrr en ég var kominn vel til manns, og ég hóf ekki reglubundna neyslu á þeim fyrr en ég var kominn á fullorðinsár. Kannski er það skýringin á því hvernig við erum báðir.