Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:14:26 (7560)

2001-05-11 16:14:26# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég nenni nú ekki að standa hér í einhverjum tittlingaskít og slíkum umræðum við hv. þm. því að ég er búinn að svara þessu. Auðvitað svaraði einhver starfsmaður minn og ég er ekkert að skorast undan þeirri ábyrgð. Ég er þó að segja frá því og hef sagt frá því hér fyrr að það var vinna í gangi í ríkisstjórn til að leita leiða til þess að lækka verð á grænmeti og þeirri vinnu var ekki lokið.

Hvað síðan varðar ýmis önnur atriði t.d. verðhækkanir, þá hefur það komið fram að samþjöppunin í smásölunni og stóru keðjurnar minna mig meira og meira á bröndótta köttinn heima á Brúnastöðum þegar ég var strákur, hvernig kettir taka mýsnar í hramminn, því að lýsingar Morgunblaðsins og úttektir Agnesar Bragadóttur voru, ég vil segja, alvarleg áminning til löggjafans um í hvaða stöðu við værum komnir og hvernig litlir framleiðendur þyrðu ekki einu sinni að tjá sig af því að þeim var hent út af markaðnum ef þeir sögðu frá sinni stöðu. Það var alvarleg áminning. Ég man að kötturinn lék sér að músinni í sólskininu, sleppti henni stundum en beit svo af henni hausinn fyrir rest. Ég sé að stórar keðjur vilja fá svo og svo mikinn afslátt hjá heildsölunni á hverjum tíma kannski 20--40%. Þeir segja frá því í fjölmiðlum að þeim finnist það sjálfsagt stærðar sinnar vegna. En skila þeir því síðan til neytenda? Það er því miður að koma í ljós að það gera þeir ekki.