Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 15:52:22 (8350)

2001-05-19 15:52:22# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi orð. Hann vill hafa mikið samráð við aldraða og öryrkja og því vil ég aðeins ítreka það við hæstv. ráðherra hvað samráð er. Eins og ,,samráði`` var háttað við vinnslu þessarar skýrslu þá var það ekki mikið meira en svo að a.m.k. Öryrkjabandalagið var látið vita tvisvar hvað væri verið að gera. Samráðið var nú ekki meira en það. Aldraðir voru á sama máli, að það hefði ekki verið miklu meira samráð en að þeim hefði verið tilkynnt hvað verið væri að gera og þeir kölluðu það nú varla samráð. Ég legg því mikið upp úr því að hæstv. ráðherra hafi raunverulegt samráð við þessa hópa.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann gera varðandi þá hópa sem ég gerði hér að umtalsefni í ræðu minni áðan, sem eru á vernduðu vinnustöðunum, eru mikið fatlaðir og eru með 15--30 þús. kr. á mánuði í laun, sem ekkert skera upp við þessa breytingu, sem enga hækkun fá vegna þess að öll hækkunin kemur á bótaflokk sem er svona mikið tekjutengdur?

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra, herra forseti: Hvenær má vænta hækkunar á bótum almannatrygginga, þ.e. hækkunar umfram þá 4% hækkun sem varð núna um áramótin, í ljósi þeirra hækkana sem hafa orðið á vinnumarkaði undanfarið?