Samkeppni olíufélaganna

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:18:01 (378)

2000-10-11 14:18:01# 126. lþ. 7.2 fundur 18. mál: #A samkeppni olíufélaganna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Hækkanir olíufélaganna síðustu mánuði hafa vakið mikla athygli og á síðasta rúma árinu hefur t.d. dísileldsneyti á bíla hækkað um 56,5%, olía á flotann hefur hækkað um 72,9% og 95 oktana bensín á bíla hefur hækkað um 10%. Allar þessar hækkanir hafa enn á ný leitt hugann að því hvers vegna þessar hækkanir allar verða. Við vitum að hækkanir hafa komið að utan en við höfum líka velt því fyrir okkur hvers vegna verð á þessum olíuvörum er það sama hjá öllum olíufélögunum. Hugmyndin með því að hafa mörg fyrirtæki og frjálsa samkeppni er að það sé einhver verðmunur á þeirri þjónustu sem veitt er og þeim vörum sem seldar eru en hjá þessum þremur olíufélögum sem hafa meginbyrðina af því að dreifa þessu og selja, er engu líkara en að ákveðið sé á fundum olíufélaganna sameiginlega hvert verðið á að vera, hver hækkunin á að vera, því að verðið er upp á eyri það sama.

Olíufélögin segja samt sem áður að samráð sé ekkert. En við vitum að olíufélögin reka sameiginlega úti um land bensínstöðvar og olíustöðvar og eru með mismunandi lit á tönkunum sem eru þá litir olíufélaganna. Ég velti því fyrir mér hvaða tankur hækkar fyrst. Hvernig stendur á því að olíufélögin eru með sameiginlegan rekstur en segjast svo vera með mismunandi ákvarðanir um hækkunina á olíuverðinu?

Ég átta mig ekki á þessu. Þess vegna hlýtur að vera mjög nauðsynlegt að það komi skýrt fram hjá hæstv. iðnrh. hvernig þessi ákvörðun er tekin. Við vitum, herra forseti, að erlendis, í hinum ýmsu löndum í Evrópu er mikill verðmunur á olíuvörum og ef við tökum dæmi sem koma úr DV þriðjudaginn 3. okt. þá er þar samanburður á verði 1. sept. árið 2000 þar sem fram kemur að verð á bensíni í Finnlandi er 25,5% lægra en verðið á Íslandi. Ef við tökum Bretland sem dæmi þá er verðið hér 60% hærra en í Bretlandi. Við sjáum sem sagt að verðmunurinn milli landa er greinilegur og er ekki eingöngu í ríki sem framleiðir olíuna sjálft eins og Bretland heldur líka í Finnlandi. Þess vegna ber ég fram þær fyrirspurnir sem hér liggja fyrir, herra forseti.