Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:29:51 (395)

2000-10-11 15:29:51# 126. lþ. 8.5 fundur 10. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. verður að fyrirgefa það að menn eru mistregir og eiga misgott með að læra og ruglast endrum og eins, ég tala nú ekki um þegar rætt er um lífrænt og vistvænt.

[15:30]

En eitt minni ég á. Staðlar eru samdir af mönnum. Staðlar eiga að vera í endurskoðun eins og stefna stjórnmálaflokka og það er leyfilegt að berjast fyrir því að inn í staðlana séu tekin ný gildi. Ísland hefur alveg sérstaka stöðu, það er viðurkennt og jafnvel hin íslenska áburðarverksmiðja, sem við erum að reka hér, hefur sérstaka stöðu og hin norðlæga slóð hefur líka sérstaka stöðu í framleiðslu sinni. Menn hafa leyft sér að breyta eftir Biblíunni og taka nýja siði upp með henni. Þess vegna hlýtur það að vera svo hvað þessa staðla um lífrænt varðar að það megi ræða þá og kanna það í viðhorfi heimsins hvort ekki megi taka ný og ný atriði. Staðreyndin er sú að íslenska matvaran fer ekki með verksmiðjubúskapnum á hina sérstöku markaði í dag. Í dag eru ákveðnir hópar fólks sem leita eftir hreinum vörum og þeir líta á íslenska vöru með sérstökum hætti. Ég minni gjarnan íslenska bændur á að þeir metti aldrei heiminn en skuli sinna þeim takmarkaða góða markaði þar sem þeir fá hátt verð fyrir.

Ég kann þokkalega muninn. Ég skil að það þarf vottun en staðlarnir eru ekki heilagir að eilífu. Við megum jafnvel bera þá rödd inn í hóp þessa fólks sem ég styð fyllilega og tel að hafi áhrif á heiminn, að þeim má einnig breyta.