Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 16:42:01 (553)

2000-10-16 16:42:01# 126. lþ. 10.6 fundur 22. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Dagakerfið er sóknarhvetjandi. Það er engin spurning um það. Ef menn ætla að viðhalda því kerfi þá þurfa þeir að hugsa það mjög vandlega hvernig best sé að koma við stjórn sem tryggir öryggi og gefur jafnframt möguleika á því að þeir geti gert eðlilega út. Ég held að einhvers konar tímamæling á því hvað menn mega vera lengi á sjó þar sem þeir hafa þó frelsi til að velja hvenær þeir gera það væri kannski skynsamlegust.

Þó er hægt að benda á að þegar farið var af stað með þetta kerfi á sínum tíma þá held ég að menn hafi lagt af stað of snemma í ferðina. Það er enginn vandi að sanna það vegna þess að eftir að takmörkunum var komið á jókst sóknin mjög hratt. Eftir að farið var að úthluta mönnum tilteknum dagafjölda þá virtist vera eins og þeir teldu það skyldu sína að nýta þá daga og menn fóru að róa miklu meira en þeir höfðu gert áður. Ég er sannfærður um að það jók mjög sóknina þegar þetta kerfi var sett á á sínum tíma. Það er kannski umhugsunarefni sem ætti þá að taka inn í umræðuna hvort það mundi auka nokkuð sóknina þó þessir litlu bátar sem eru á dagaveiðum hefðu frelsi til þess að veiða á þessi tilteknu veiðarfæri, króka sem þeir eru með. Ég er sannarlega á því að það mætti hreinlega athuga það. Ekki væri miklu hætt þó prófað yrði hvort það drægi ekki úr sókninni ef menn létu þessa kalla bara í friði.