Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:57:41 (638)

2000-10-17 14:57:41# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:57]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vegna ummæla sem hæstv. ráðherra hafði eftir mér úr umræðum um ný lög um stjórn Byggðastofnunar, er það alveg hárrétt að skipan þeirrar stjórnar var með þeim hætti sem hún þar tilgreindi. Síðan varðandi það að við Pétur H. Blöndal séum sammála. Við erum kannski sammála í þessu afmarkaða máli eins og það var túlkað hér. Í mínum augum er alveg skýrt að eigi að skipa stjórnir yfir stofnanir eða verkefni sé það Alþingi sem kýs þær, ekki ráðherra. Ráðherra getur staðfest stjórnir sem yrði þá kveðið á um í lögum um viðkomandi stofnun þar sem eru þá tilnefningaraðilar sem tilnefna aðila í stjórn sem ráðherra staðfestir og oft eru slíkar stjórnir þá ráðgefandi stjórnir. En eigi stjórnir að hafa vald kýs Alþingi þær stjórnir og mér finnst miður hvernig hefur verið farið að á undanförnum árum að fara þannig fram hjá löggjafanum og að ráðherra fái vald til að skipa stjórnir, annaðhvort beint eða þá í skjóli hlutafélagavæðingar fyrirtækja. Það er lýðræðislega mjög veikur gjörningur.