Smásala á tóbaki

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 18:39:02 (699)

2000-10-17 18:39:02# 126. lþ. 11.12 fundur 14. mál: #A smásala á tóbaki# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Með þessari þáltill. er lagt til að í heilbrigðisreglugerð verði sett ákvæði um að sækja skuli um sérstakt leyfi til að selja tóbak. Þá er einnig lagt til að slíkt leyfi verði tímabundið og veitt til þriggja ára í senn.

Eins og hv. þm. Þuríður Backman gat um í framsögu sinni áðan byrja yfir 80% allra reykingamanna að reykja áður en þeir ná 18 ára aldri. Það eitt er vísbending um hversu illa reglum um að ekki megi selja tóbak til þeirra sem eru yngri en 18 ára er framfylgt. Því er augljóst að nauðsynlegt er að hefta aðgengi yngstu neytendanna að tóbaki. Með þáltill. sem hér er til umræðu væri kaupmönnum gert skylt að sækja um skilyrt leyfi til að selja tóbak.

Hingað til hefur ekki verið hægt um vik með að beita virku aðhaldi eða þá refsingum ef tóbak er selt of ungum neytendum. En verði þessi þáltill. samþykkt er ljóst að unnt verður að svipta þá söluleyfi sem ekki fara að lögum í þessum efnum. Jafnframt er æskilegt að eftirlit með sölustöðum verði skilvirkara en nú er.

Þá má telja líklegt að sölustöðum fækki að einhverju marki ef menn þurfa að sækja um sérstakt söluleyfi vegna sölu tóbaks. Reykingar eru lífshættuleg fíkn sem við viljum forða æskunni frá ef mögulegt er.

Herra forseti. Ég lýsi eindregnum stuðningi mínum við þessa þáltill.