Laxeldi í Mjóafirði

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 10:39:01 (1189)

2000-11-02 10:39:01# 126. lþ. 19.91 fundur 85#B Laxeldi í Mjóafirði# (umræður utan dagskrár), umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[10:39]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Laxeldi er ekki matsskylt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum heldur tilkynningarskylt. Fyrirhugað laxeldi í Mjóafirði var tilkynnt til Skipulagsstofnunar 30. júní 2000. Skipulagsstofnun úrskurðaði í framhaldinu þann 9. ágúst 2000 að fyrirhuguðu laxeldi í Mjóafirði væri ekki skylt að fara í mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun úrskurðaði á grundvelli ýmissa gagna frá ýmsum aðilum. Sumir mæltu með umhverfismati en aðrir ekki. Náttúruvernd ríkisins mælti t.d. með umhverfismati. Hins vegar mælti Hollustuvernd ríkisins ekki með umhverfismati en hún annast stjórnsýslu varðandi varnir gegn mengun hafsins.

Veiðimálastjóri, sem fer með framkvæmd lax- og silungsveiða, þar með talin vernd íslenska laxastofnsins, og gefur út rekstrarleyfi fyrir laxeldisstöðvar mælti ekki með umhverfismati fyrirhugaðs laxeldis í Mjóafirði. Úrskurður skipulagsstjóra var kærður til umhvrn.

Ráðuneytið staðfesti úrskurð Skipulagsstofnunar þann 20. október sl. um að fyrirhugað laxeldi í Mjóafirði skyldi ekki fara í mat á umhverfisáhrifum. Úrskurður ráðuneytisins er byggður á viðmiðunum sem koma fram í III. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum og þeim umsögnum og athugasemdum sem ráðuneytið óskaði eftir. Í niðurstöðu úrskurðarins kemur m.a. fram að líta verði á umfang fyrirhugaðs sjókvíaeldis í Mjóafirði í ljósi staðsetningar þess en staðsetning vegur þungt þegar metin eru umhverfisáhrif af framkvæmd.

Meginkæruefnið varðandi sjókvíaeldi í Mjóafirði snerist um áhrif sem það kynni að hafa á villta laxastofna hvað varðar hugsanlega erfðablöndun. Miðað við upplýsingar og umsagnir sem ráðuneytinu bárust er ekki dregið í efa að eitthvert strok væri frá kvíaeldi en ágreiningur er um áhrif þess á villta laxastofna. Rannsóknir í nágrannalöndum okkar um langt skeið hafa ekki sýnt fram á að eldislax hafi skaðleg áhrif á náttúrlega villta stofna af sama stofni.

Ég vil einnig draga skýrt fram að umsögn veiðimálastjóra til umhvrn. vó þungt í niðurstöðu ráðuneytisins á þessum þætti þar sem hann fer með vernd villta laxastofnsins á grundvelli laga um lax- og silungsveiði, getur sett reglur þar að lútandi og gefur út rekstrarleyfi fyrir laxeldi. Einnig er bent á í úrskurðinum að lög og reglugerðir sem fjalla um skilyrði og eftirlit með starfsemi laxeldis eigi að koma í veg fyrir eða takmarka hættu á hugsanlegri erfðablöndu og smitsjúkdómum vegna kvíaeldisins.

Í umræðum um laxeldi hefur komið fram þörf á heildstæðri kortlagningu á þeim svæðum sem best eru fallin til laxeldis við Ísland. Við þessum aðstæðum hefur hæstv. landbrh. brugðist og sett á fót nefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir þætti sem snerta sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru, m.a. lagalega umgerð fiskeldis og mögulega staðsetningu þess. Umhvrn. á fulltrúa í nefndinni.

Því er ljóst, herra forseti, að ekki er skylt að fara með laxeldi í Mjóafirði í umhverfismat. Hins vegar verða laxeldinu á grundvelli stafsleyfis Hollustuverndar ríkisins og rekstrarleyfis veiðimálastjóra sett nauðsynleg skilyrði til að tryggja að umhverfisáhrif starfseminnar verði ásættanleg.

Ég vil einnig taka fram að niðurstaða Skipulagsstofnunar og umhvrn. að þessu sinni hefur ekki almennt fordæmisgildi gagnvart kvíaeldinu. Skipulagsstofnun mun skoða hvert mál fyrir sig eins og henni er skylt samkvæmt lögum.

Ég vil einnig að það komi fram, virðulegi forseti, að nýlega hefur veiðimálastjóri fundað með veiðimálanefnd og veiðimálanefnd hefur mælt með því að fram fari einhvers konar heildstætt mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis hér við land þar sem verður litið til fjölmargra þátta. Ég býst við því ef af slíku mati verður þá verði unnið á vegum landbrn.